top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Runnkennt elri til landgræðslu - Seinni hluti: Tegundir

Í norðurhluta Evrópu, Ameríku, Asíu og í fjöllum sunnar í sömu álfum vex elri sem oftast myndar kjarr frekar en skóg. Nú er mest af því flokkað sem ein safntegund. Þetta runnkennda elri vex gjarnan við skógarmörk og getur lifað og vaxið við skilyrði sem reynast öðrum tegundum trjáa og runna strembin. Um þetta fjölluðum við í fyrri hluta þessa pistils sem lesa má hér. Í þeim pistli lofuðum við að fjalla nánar um mismunandi hópa þessa elris. Hér kemur sú umfjöllun.

Myndarlegt en engu að síður runnkennt sitkaelri sem ættað er frá Kamtsjatkaskaganum austast í Rússlandi og myndar þar kjarr. Hér er það í Lystigarðinum á Akureyri.  Mynd: Sig.A.
Myndarlegt en engu að síður runnkennt sitkaelri sem ættað er frá Kamtsjatkaskaganum austast í Rússlandi og myndar þar kjarr. Hér er það í Lystigarðinum á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Áður fyrr var runnkennt elri flokkað í nokkrar skyldar tegundir sem nú hafa flestar verið felldar undir eina safntegund. Hún kallast Alnus alnobetula og á sér samheitið Alnus viridis. Áður en grasafræðingar féllust á þetta höfðu margar tegundanna verið reyndar á Íslandi og hlotið íslensk heiti. Við reynum að halda okkur við þau eins og hægt er en því miður gætir nokkurs ruglings með nöfnin. Í þessum pistli segjum við fyrst frá breytingum á skilgreiningu tegundanna og svo segjum við nánar frá hverri tegund eða undirtegund fyrir sig.

Hvanngrænt sitkaelri í svörtum, sunnlenskum sandi og miklum vindi. Eins og flestir vita er víða vindasamt um sunnanvert landið nema helst í Hafnarfirði. Mynd: Sig.A.
Hvanngrænt sitkaelri í svörtum, sunnlenskum sandi og miklum vindi. Eins og flestir vita er víða vindasamt um sunnanvert landið nema helst í Hafnarfirði. Mynd: Sig.A.

Helstu tegundir og ruglið með nöfnin

Þegar sá sem þetta ritar fór fyrst að reyna fyrir sér með ræktun elrirunna voru eftirfarandi tegundir til á Íslandi:

1. Alnus sinuata frá Alaska sem kallað var sitkaelri.

2. A. crispa frá norðanverðri Norður-Ameríku sem kallað var grænelri

3. A. viridis frá fjöllum í Mið-Evrópu sem kallað var kjarrelri en var stundum nefnt grænelri eða alpaelri.

4. A. fruticosa frá Norðaustur-Asíu sem kallað var hríselri.

5. A. maximowiczii frá Japan sem kallað var fjallaelri.

Við þetta má bæta sjöttu tegundinni, A. suaveolens, sem er einlend á Korsíku. Engar líkur eru á að hún þrífist hér. Nú heitir hún Alnus alnobetula ssp. suaveolens og verður ekki meira um hana fjallað nema hvað hún fær að vera með sem lítill, rauður kross á landakorti hér neðar.

Þessi gamla flokkun hefur gengið í gegnum miklar nafnabreytingar hjá fræðimönnum. Allir þessir erfðahópar, nema einn, teljast nú vera ein tegund eða safntegund sem flokkuð er í fimm undirtegundir. Þessi eina, sem ekki er höfð með í partýinu, er fjallaelrið sem vex í Japan. Samkvæmt Hultén (1927) er það samt greinilega skylt safntegundinni og á tímabili var talið að hún tilheyrði henni. Safntegundin vex á belti sem nær yfir næstum allan norðanverðan hnöttinn nálægt nyrstu skógarmörkum. Á öllu þessu svæði tekur hver undirtegundin við af annarri nema hvað einn erfðahópurinn er vel afmarkaður í fjalllendi Evrópu.

Nú má segja að runnkennt elri sé talið mynda sérstakan hóp eða undirættkvísl (subgenus eins og það er kallað á fræðimálinu) innan elriættkvíslarinnar, Alnus. Undirættkvíslin heitir Alnobetula. Innan hennar er aðeins ein tegund sem heitir Alnus alnobetula og á sér samheitið A. viridis. Tegundin myndar oftast runna sem eru um einn til fjórir metrar á hæð en geta orðið hærri við sérstakar aðstæður. Einhverra hluta vegna er fjallaelri, A. maximowiczii, talið tilheyra annarri undirættkvísl en við látum það fylgja með í þessari umfjöllun. Nánar má fræðast um undirættkvíslir elris í þessum pistli.

Elrikjarr, myndað af Alnus alnobetula í Skotlandi. Tegundin er innflutt á þessum slóðum. Mynd: Ron Greer.
Elrikjarr, myndað af Alnus alnobetula í Skotlandi. Tegundin er innflutt á þessum slóðum. Mynd: Ron Greer.

Eldri hugmyndir um safntegund

Mjög merkilegt er að lesa það sem Hultén (1927) sagði um svona elrikjarr fyrir hartnær öld. Þá skrifaði hann að runnkennt elri sem líkist A. viridis (evrópska tegundin sem flestir grasafræðingar þekktu fyrir 100 árum) yxi nánast allt í kringum norðanverðan hnöttinn og að því hefði verið skipt í nokkrar mjög skyldar tegundir sem vel mætti skilgreina sem eina tegund. Samt sem áður, sagði Hultén, mætti finna erfðahópa sem hefðu ólíka blaðlögun og eðlilegt að nota hana til að skipta þessu skylda elri í mismunandi tegundir. Reyndar væri blaðlögunin það fjölbreytt að erfitt væri að slá nokkru föstu um hvar mörk hópanna lægju (Hultén 1927). Evrópska tegundin hefur smærra lauf sem er ekki eins ytt í endann og lauf annarra hópa. Asíska tegundin er með yddari blöð og blöðin á elri á Kamtsjatka eru sjaldan með djúpar bylgjur á jöðrunum eins og sést hjá sitkaelri og stundum alveg laus við þær. Blöð kjarrelrisins eru almennt mjórri blöð en á sitkaelri (Hultén 1927). Þessar lýsingar Svíans passa við þekkingu okkar nema hvað það virðist vera heldur algengara en Hultén taldi að elrið á Kamtsjatka hafi djúpar bylgjur á blaðjöðrum.


Þrjár myndir af sitkaelri á Hólasandi. Elrið þrífst vel í sandinum þrátt fyrir þurrk en virðist mynda nær jarðlæga runna eins og sitkaelri gerir ofan skógarmarka í Alaska. Á einni myndinni sést í opna frærekla en engar ungplöntur fundust þegar myndirnar voru teknar í ágúst 2020. Myndir: Sig.A.


Hvað á barnið að heita?

Þegar grasafræðingar féllust á að rétt væri að flokka þetta sem eina tegund var ákveðið að evrópska tegundin væri sú sem miða ætti við. Hún var þá nefnd Alnus viridis ssp. viridis en hin gömlu tegundaheitin voru notuð sem viðurnefni á undirtegundirnar. Einhverra hluta vegna þótti ekki nægilega gott að nota Alnus viridis sem tegundarheiti fyrir allar þessar undirtegundir. Nú eru þær kallaðar Alnus alnobetula. Svo eru undirtegundirnar aðgreindar hver með sínu gamla heiti, nema hvað heitið viridis er dottið út. Í staðinn kom undirtegundarheitið Alnus alnobetula ssp. alnobetula.

Algengast er að það heiti sem fyrst var notað teljist hið rétta. Það á ekki við hér. Samkvæmt síðunni World Flora Online var heitið Alnus viridis fyrst notað árið 1848 en heitið Alnus alnobetula árið 1872. Eitthvað hefur valdið því að yngra nafnið varð fyrir valinu. Vel má vera að heitið alnobetula eigi að vísa til þess að þessi hópur elris sé talinn skyldari birkiættkvíslinni, Betula, en annað elri. Viðurnafnið getur bæði vísað til elris og birkis.

Í lok 20. aldar var gerð gangskör að því að fækka fræðiheitum sem þóttu á einhvern hátt móðgandi eða óviðeigandi. Þá var nöfnum gjarnan breytt sem vísað höfðu í yfirburðahyggju Evrópubúa og til nýlendutímans þegar Evrópubúar byggðu upp efnahagsveldi sitt með arðráni á öðrum þjóðum heimsins. Við höfum til dæmis sagt frá þessu í pistli okkar um kaniltré. Aðaltegundin í þeirri ættkvísl var lengi kennd við það land sem heimamenn kalla Sri Lanka en nýlenduherrarnir kölluðu Seilon. Tegundin hét því Cinnamomum zeylanicum. Það þótti minna óþarflega mikið á nýlendutímann og nú heitir tegundin C. verum.

Ef til vill var eitthvað svipað uppi á teningnum þegar fallið var frá því að kalla allar tegundirnar Alnus viridis þótt við komum ekki auga á hvaða áþján gæti hafa fylgt heitinu viridis sem merkir einfaldlega grænt. Þetta er tegundin sem vex í Evrópu en er hvorki merkilegri né útbreiddari en aðrar undirtegundir. Því má alveg halda því fram að það hafi verið valið vegna þess að Evrópubúar vildu miða allt við sig sjálfa og því valið heimategundina sem lykiltegund. Rétt er að taka fram að við vitum ekki hver ástæða nafnabreytingarinnar er en þessi tilgáta er ekki verri en hver önnur. Evrópska elrikjarrið er nú kallað Alnus alnobetula ssp. alnobetula. Það er því enn lykiltegundin sem miðað er við. Hefðin mælir fyrir um að sú tegund, sem almennt er miðað við sem lykiltegund, skuli hafa svona tvítekin nöfn þegar undirtegundir eru skilgreindar.


Lengi hefur verið ljóst að það er ýmsum vandkvæðum bundið að greina þessa runna í sundur því blöðin geta verið æði fjölbreytt. Því er vandasamt að greina tegundirnar að með hliðsjón af blöðunum. Þetta benti Eric Hultén á í sinni bók svo snemma sem árið 1927. Hultén sagði að blöð á sömu tegund gætu haft mismunandi útlit og því væri varlegt að treysta á blaðlögun til að ákvarða tegundir þótt munur væri á milli svæða. Hann taldi að elrikjarr á Kamtsjatka væri af einni tegund en sú tegund gæti myndað mismunandi form. Myndin er úr bók hans og sýnir lauf á tegund sem þá kallaðist Alnus fruticosa og vex á Kamtsjatka. Sennilega eru þarna líka lauf af sitkaelri (að minnsta kosti b og c) sem á þessum tíma var ekki talið vaxa á skaganum.  Ljósmynd úr bók: Sig.A.
Lengi hefur verið ljóst að það er ýmsum vandkvæðum bundið að greina þessa runna í sundur því blöðin geta verið æði fjölbreytt. Því er vandasamt að greina tegundirnar að með hliðsjón af blöðunum. Þetta benti Eric Hultén á í sinni bók svo snemma sem árið 1927. Hultén sagði að blöð á sömu tegund gætu haft mismunandi útlit og því væri varlegt að treysta á blaðlögun til að ákvarða tegundir þótt munur væri á milli svæða. Hann taldi að elrikjarr á Kamtsjatka væri af einni tegund en sú tegund gæti myndað mismunandi form. Myndin er úr bók hans og sýnir lauf á tegund sem þá kallaðist Alnus fruticosa og vex á Kamtsjatka. Sennilega eru þarna líka lauf af sitkaelri (að minnsta kosti b og c) sem á þessum tíma var ekki talið vaxa á skaganum. Ljósmynd úr bók: Sig.A.

Íslensk heiti

Þrátt fyrir ýmsar sviptingar í fræðaheiminum hafa þessar runnkenndu tegundir haldið íslensku heitunum, svona nokkurn veginn. Í umfjölluninni um tegundir hér á eftir eru gömlu, íslensku heitin notuð.

Ef ástæða þykir til að gefa þessum runnum eitthvert eitt, íslenskt samheiti koma nokkur til greina. Heitin kjarrelri eða grænelri gætu vel orðið ofan á þar sem þau hafa bæði verið notuð á viðmiðunartegundina, Alnus alnobetula ssp. alnobetula. Heitið grænelri hefur einnig verið notað á næstum allar amerísku tegundirnar.

Á Íslandi er sitkaelri algengast þessara undirtegunda og þar með er það algengasta heitið. Ef þetta er allt saman ein tegund gæti það valdið minnstum ruglingi að nota einfaldlega það heiti. Svo má vel vera að eðlilegt sé að nota nýtt heiti sem safnheiti. Þá kemur heitið runnaelri eða runnelri til greina. Reynslan mun skera úr um hvað verður ofan á.

Allar eru þessar tegundir nokkuð líkar og ekki auðvelt að greina þær í sundur. Strangt tiltekið á að kalla þetta allt saman undirtegundir en ekki tegundir en þar sem þær eiga allar íslensk tegundarheiti tölum við oft um þær sem mismunandi tegundir. Ef lesandinn er ósáttur við þá ónákvæmni getur hann bætt við orðhlutanum undir í hvert skipti sem talað er um tegund.

Útbreiðslukort runnkenndra elritegunda sem mynda kjarr, Alnus alnobetula, sem áður var nefnt A. viridis, samkvæmt vef Wikipediu.      Alnus alnobetula ssp. alnobetula,      Alnus alnobetula ssp. crispa,      Alnus alnobetula ssp. fruticosa,      Alnus alnobetula ssp. sinuata,      Alnus alnobetula ssp. suaveolens.
Útbreiðslukort runnkenndra elritegunda sem mynda kjarr, Alnus alnobetula, sem áður var nefnt A. viridis, samkvæmt vef Wikipediu.      Alnus alnobetula ssp. alnobetula,      Alnus alnobetula ssp. crispa,      Alnus alnobetula ssp. fruticosa,      Alnus alnobetula ssp. sinuata,      Alnus alnobetula ssp. suaveolens.

Hvanngrænt elri ofan skógarmarka í Alaska þegar annar gróður er kominn í haustliti. Þegar fræ af svona elri barst til landsins var það kallað grænelri en samkvæmt útbreiðslukortinu hér að ofan og flestum heimildum heitir það núna hríselri. Mynd: Tumi Traustason.
Hvanngrænt elri ofan skógarmarka í Alaska þegar annar gróður er kominn í haustliti. Þegar fræ af svona elri barst til landsins var það kallað grænelri en samkvæmt útbreiðslukortinu hér að ofan og flestum heimildum heitir það núna hríselri. Mynd: Tumi Traustason.

Sitkaelri, Alnus alnobetula ssp. sinuata

Sitkaelri er langmest ræktaða tegundin af runnkenndu elri á Íslandi. Það kemur hingað frá Alaska. Þar vex það um suðurhluta ríkisins og norður í miðhlutann og oft nærri sjó. Því er það seltuþolnara en annað elri úr þessum hópi sem er í ræktun á landinu. Þessi tegund verður hávaxnari en aðrar undirtegundir og virðist prýðilega aðlöguð íslensku veðurfari. Ólíkt flestu öðru runnkenndu elri á sitkaelrið það til að mynda lágvaxin, margstofna tré frekar en runna. Viereck & Little Jr. (1972) segja að í Alaska verði þessi tegund að jafnaði einn og hálfur til fjórir og hálfur metri á hæð en dæmi séu um að stöku plöntur nái allt að níu metra hæð þar sem best lætur. Sumar heimildir geta þess að ofan skógarmarka geti sitkaelri myndað nær alveg jarðlæga runna. Þannig virðist það haga sér á Hólasandi. Hér á landi getur sitkaelri myndað fræ á ungaaldri. Oft má sjá það á þriggja til fimm ára plöntum en í öðrum tilfellum á um sex til tíu ára plöntum. Virðast bæði erfðir og umhverfi hafa þarna áhrif.

Dæmigert sitkaelri í líparítmöl. Algengt er að það myndi nokkra sprota sem vaxa svona upp úr þykkninu. Mynd: Sig.A.
Dæmigert sitkaelri í líparítmöl. Algengt er að það myndi nokkra sprota sem vaxa svona upp úr þykkninu. Mynd: Sig.A.

Oft verður mikill breytileiki meðal sáðplantna sitkaelris. Það getur sem best flýtt fyrir bættri aðlögun á Íslandi enda eru kynslóðaskipti nokkuð ör. Því getur verið heppilegt fyrir tegundina í heild að gera ýmsar tilraunir með uppstokkun erfðaefnis en þá er óhjákvæmlegt að stöku plöntur reynist illa á meðan aðrar aðlagast betur þeim skilyrðum sem hér er að finna.


Breytileiki í þrifum sitkaelris á Hafnarsandi vestan Þorlákshafnar. Einn runninn hefur gefist upp undan ásókn birkiþélu og ókunnrar fiðrildalirfu. Mynd og upplýsingar: Aðalsteinn Sigurgeirsson árið 2018.
Breytileiki í þrifum sitkaelris á Hafnarsandi vestan Þorlákshafnar. Einn runninn hefur gefist upp undan ásókn birkiþélu og ókunnrar fiðrildalirfu. Mynd og upplýsingar: Aðalsteinn Sigurgeirsson árið 2018.

Stóri gallinn við tegundina er að ungar plöntur eru viðkvæmar fyrir snemmbúnum haustfrostum og síðbúnum vorfrostum. Forðast ætti að nota sitkaelri í frostpollum á flatlendi eða dalbotnum. Tegundina má nota í landgræðslu og í skjólbelti og hún getur með tímanum orðið mjög glæsileg í skógarjöðrum.

Í Alaska þrífst tegundin í margs konar umhverfi. Elrið er frumherjategund sem nemur land þegar jöklar hopa, skógareldar verða, ár flæða yfir bakka sína eða skógar hverfa af einhverjum öðrum orsökum. Einnig finnst hún á stöðum þar sem tré fá ekki þrifist, svo sem ofan skógarmarka. Best þrífst tegundin í steinefnaríkum jarðvegi þar sem nægan og ferskan jarðraka er að fá en hún þrífst einnig ágætlega í þurrum jarðvegi þótt hún vaxi þá minna. Oft nemur sitkagreni land í Alaska um leið og sitkaelrið og virkar elrið þá sem fóstra fyrir grenið (Viereck & Little, Jr. 1972). Þessa vitneskju má vel nota í íslenskri skógrækt. Tegundin barst hingað til lands frá Alaska en hún vex einnig í vesturhluta Kanada, í fjöllum í Washington og Oregon og alla leið suður í norðurhluta Kaliforníuríkis (Árni 2017). Samkvæmt vef World Flora Online er útbreiðslan mun víðfeðmari en sýnt er á korti frá Wikipediu hér að ofan en það breytir litlu fyrir okkur, því hér eru fyrst og fremst ræktaðir runnar frá Alaska.

Ekki er alltaf auðvelt að greina þessa tegund frá öðru runnkenndu elri frá sömu slóðum enda geta tegundirnar, eða undirtegundirnar, blandast saman. Í umfjöllun um hina runnkenndu tegundina frá Alaska bendum við á nokkur atriði sem geta hjálpað til við greininguna. Sum þeirra atriða sjást vel á meðfylgjandi mynd.

Þriggja eða fjögra ára gamalt sitkaelri er hér að mynda sína fyrstu frærekla austur í Skriðdal. Á myndinni sést að plantan er með bylgjaða blaðjaðra, rauðbrún brumhlífapör og hæringu á árssprotum. Allt er þetta talið til einkenna sitkaelris. Mynd: Sig.A.
Þriggja eða fjögra ára gamalt sitkaelri er hér að mynda sína fyrstu frærekla austur í Skriðdal. Á myndinni sést að plantan er með bylgjaða blaðjaðra, rauðbrún brumhlífapör og hæringu á árssprotum. Allt er þetta talið til einkenna sitkaelris. Mynd: Sig.A.

Grænelri, Alnus alnobetula ssp. crispa

Áður fyrr var grænelri talið ná þvert yfir allan norðurhluta Norður-Ameríku, allt frá Alaska til Nýfundnalands, Labradors og Grænlands. Nú hefur elrið sem vex vestast í álfunni verið skilgreint sem hríselri. Þetta setur okkur í töluverðan vanda. Meginhluti þess grænelris sem ræktað er á Íslandi kemur frá Alaska og nú reynast þær plöntur vera eitthvað allt annað. Þess vegna höfum við sérstakan kafla um það elri hér á eftir. Þessi kafli fjallar um elrið sem er þar fyrir austan en misjafnt er eftir heimildum hvar mörk tegundanna liggja og hversu mikið útbreiðslan skarast. Þannig segir Árni Þórólfsson (2017) að hið eiginlega grænelri sé aðeins að finna austan Hudsonflóa en það passar hvorki við kortið frá Wikipediu hér að ofan né upplýsingar á vef World Flora Online (2026). Það eina sem við getum fullyrt er að ljóst þykir að skilin milli erfðahópanna eru ekki glögg. Sáralítið hefur borist hingað af elrifræi frá austurhluta Norður-Ameríku en þó finnast þess dæmi. Má nefna að í Lystigarðinum á Akureyri er í ræktun grænelri frá Grænlandi. Það vex ljómandi vel en hefur lent í dálitlum skugga og er því nokkuð teygt. Því er það heldur hærra en almennt gerist með grænelri og minnir þar með nokkuð á sitkaelri í vextinum.

Ef einhvern tíma verður farið í kvæmarannsóknir á runnkenndu elri má í leiðinni prufa grænelri frá fleiri stöðum Norður-Ameríku, því útbreiðslan er víðfeðm.

Þetta grænelri frá Grænlandi stendur við stíg nyrst í Lystigarðinum á Akureyri. Það hefur lent í skugga og þarf að teygja sig í birtuna. Því er vaxtarlagið ekki dæmigert. Mynd: Sig.A.
Þetta grænelri frá Grænlandi stendur við stíg nyrst í Lystigarðinum á Akureyri. Það hefur lent í skugga og þarf að teygja sig í birtuna. Því er vaxtarlagið ekki dæmigert. Mynd: Sig.A.

Amerískt hríselri eða meint grænelri

Þegar komið er norður og austur fyrir útbreiðslu sitkaelris fjær ströndum Alaska tekur annað elri við. Lengst af var það talið sama tegund og sagt var frá í kaflanum hér að ofan og því gengur þessi tegund víðast hvar á Íslandi undir nafninu grænelri. Í kjölfar erfðarannsókna og uppstokkunar tegunda er nú talið að grænelri vaxi ekki í Alaska. Ekki er auðvelt að kenna gömlum hundi að sitja og þar sem runnkennt elri frá Alaska hefur verið kallað grænelri lendum við í nokkrum vanda. Nú er þetta elri talið hríselri. Það er sama tegund og vex austast í Asíu. Mikill munur er þó á lifun og vexti á þessum tveimur erfðahópum sem hingað hafa borist frá annars vegar Alaska og hins vegar Kamtsjatka og Magadan. Ameríska elrið vex miklu betur. Það sem í íslenskum heimildum er sagt vera grænelri á núna frekar við um amerískt hríselri. Þess vegna höfum við sérstakan kafla um þennan erfðahóp. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar. Má nefna þessa fræðigrein sem dæmi. Greinin er frá 2018 og fjallar um mikilvægi niturnáms þessa elris. Þarna gengur það enn undir nafninu Alnus crispa. Greinin er samt skrifuð eftir að til dæmis Árni Þórólfsson (2017) lýsti þessari nýju flokkun sem nú er almennt stuðst við.

Tegundin er lágvaxnari en sitkaelri en annars er lítill munur á útliti, svona fljótt á litið. Þó er hann til staðar ef vel er að gáð. Viereck & Little Jr. (1972) lýsa muninum í bók sinni um tré og runna í Alaska. Hið fyrsta er að lauf hins meinta grænelris eru ekki bylgjuð á jöðrunum. Lauf sitkaelris eru það. Bylgjurnar á sitkaelrinu eru á milli æðastrengjanna sem ná að jaðri blaðanna. Grænelrið sem hefur borist hingað frá Grænlandi virðist standa þarna mitt á milli og sumt af grænelrinu frá Alaska er það líka. Má vera að það sé vegna erfðablöndunar.

Elri frá Alaska sem gróðursett var í Skriðdal  sem grænelri. Vaxtarlagið bendir þó til að þetta gæti allt eins verið sitkaelri. Framan við það er lágvaxin jurt sem einnig bindur köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Það er gullkollur, Anthyllis vulneraria, sem er af belgjurtaætt.
Elri frá Alaska sem gróðursett var í Skriðdal sem grænelri. Vaxtarlagið bendir þó til að þetta gæti allt eins verið sitkaelri. Framan við það er lágvaxin jurt sem einnig bindur köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Það er gullkollur, Anthyllis vulneraria, sem er af belgjurtaætt.

Annað atriði er að frjóreklarnir eru heldur lengri á sitkaelri en þar munar ekki miklu. Að auki er sagt að örlítill munur sé á hæringu tegundanna. Greinar grænelris eru alveg hárlausar en stundum sjást lítil hár á sitkaelrinu. Þau sjást meðal annars á mynd af ungu sitkaelri ofar í þessari grein. Samkvæmt Viereck & Little Jr. (1972) er grænelri í Alaska að jafnaði einn til fjórir metrar á hæð.

Til vinstri er lauf af sitkaelri. Jaðrar laufsins eru nánast alltaf bylgjaðir. Til hægri er grænelri (eða hríselri) sem ekki hefur bylgjur á jöðrunum. Laufið af sitkaelrinu er yngra og því ljósara á litinn. Það hefur ekkert með mun erfðahópanna að gera. Mynd: Sig.A.
Til vinstri er lauf af sitkaelri. Jaðrar laufsins eru nánast alltaf bylgjaðir. Til hægri er grænelri (eða hríselri) sem ekki hefur bylgjur á jöðrunum. Laufið af sitkaelrinu er yngra og því ljósara á litinn. Það hefur ekkert með mun erfðahópanna að gera. Mynd: Sig.A.

Fleiri atriði má nefna. Steinar Björgvinsson (2025) hefur eftir Óla Val Hanssyni, sem á sínum tíma safnaði fræi í Alaska, að brumin eða brumhlífarnar á þessu elri séu allt að því svört en ekki rauðbrún eins og brum sitkaelrisins. Þegar trén eldast verður vöxturinn ekki alltaf eins hjá þessum erfðahópum. Sitkaelri vex meira og óreglulegar. Grænelrið vex að jafnaði heldur minna og getur myndað nokkuð reglulegar og jafnar, þéttar kúlur. Hjá því sjást varla stöku greinar sem vaxa upp úr þykkninu eins og hjá sitkaelrinu.

Vaxtartíminn virðist vera örlítið styttri hjá þessu meinta grænelri en hjá sitkaelrinu sem gerir þessa tegund ögn þolnari fyrir snemmbúnum haustfrostum. Því er mögulegt að nota þessa tegund á flatlendi eða í dalbotnum þar sem ekki er mælt með sitkaelri vegna frosthættu. Að auki má nota þetta meinta grænelri þar sem æskilegt er að hafa lægri runna en sitkaelrið myndar. Þannig verður það ekki eins plássfrekt í görðum, svo dæmi sé tekið.

Til vinstri er sitkaelri (ljósara að lit) en til hægri er meint grænelri. Það er mun lægra, þéttara og nánast kúlulaga en að baki því er fura svo erfiðara er að greina muninn. Plönturnar eru jafngamlar. Nærmynd af laufum þessara runna má sjá hér ofar. Sitkaelrið er ljósara yfirlitum því það var enn að mynda ný lauf þegar myndin var tekin. Á öðrum árstímum er liturinn sá sami. Mynd: Sig.A.
Til vinstri er sitkaelri (ljósara að lit) en til hægri er meint grænelri. Það er mun lægra, þéttara og nánast kúlulaga en að baki því er fura svo erfiðara er að greina muninn. Plönturnar eru jafngamlar. Nærmynd af laufum þessara runna má sjá hér ofar. Sitkaelrið er ljósara yfirlitum því það var enn að mynda ný lauf þegar myndin var tekin. Á öðrum árstímum er liturinn sá sami. Mynd: Sig.A.

Hríselri, Alnus alnobetula ssp. fruticosa

Þessi tegund hefur fyrst og fremst borist hingað frá Magadan og Kamtsjatka í Austur-Asíu og var dreift nokkuð um landið en reyndist alls staðar fremur illa. Eins og sagt verður frá hér neðar er ekki lengur öruggt að um hríselri sé að ræða á þeim slóðum. Sá sem þetta pikkar setti út kvæmatilraun með þessum efnivið frá Kamtsjatka og er skemmst frá því að segja að allar plönturnar drápust. Þar rétt hjá vex sitkaelri með miklum ágætum. Nokkrar afgangsplöntur voru settar niður á skjólbetri stað og voru þær á lífi síðast þegar það var kannað, en uxu lítið. Síðan eru liðin mörg ár. Útbreiðsla hríselris nær yfir alla norðanverða Síberíu allt frá Arkhangelsk héraði í Rússlandi yfir til Kamtsjatka samkvæmt flestum heimildum. Hún er nú einnig talin vaxa um allt norðanvert Alaska og stóran hluta Kanada (Árni 2017) en hvar mörkin milli hríselris og grænelris liggja í Ameríku er ekki alveg ljóst og nokkuð mismunandi eftir heimildum. Um hríselri í Ameríku var fjallað hér að ofan.

Nýjustu vendingar í þessum málum eru þær að samkvæmt vefnum World Flora Online vex hríselri hvorki í Magadan né á Kamtsjatka en runnkennt elri sem flutt var frá bá'um þessum stöðum til Íslands, seint á síðustu öld, hefur hingað til verið talið til þessarar tegundar. Við erum ekki alveg tilbúin til að fallast á þessa nýju greiningu fyrr en við sjáum betri rök fyrir henni.

Hultén (1927) lýsti þeirri vist sem elrið, sem oftast er talið til þessarar tegundar, myndar á Kamtsjatka. Þar myndar það víða samfellt kjarr ofan við 1.000-1.200 m hæð yfir sjávarmáli og við ströndina á skaganum norðvestanverðum. Ofan við skógarmörkin getur það myndað mjög þétt og mikið þykkni sem erfitt er að komast í gegnum. Heimamenn eiga sérstakt nafn yfir það og kalla það Alchóvnik. Við verstu skilyrði er tegundin vel innan við metra á hæð en getur náð þriggja til fjögra metra hæð þar sem best lætur. Runnarnir greina sig þá við rótarhálsinn og oft vaxa greinar út til hliðanna áður en þær vaxa upp.

Þessi planta hefur nú verið greind sem sitkaelri, Alnus alnobetula ssb. sinuata, en þegar hún kom sem fræ í Lystigarðinn á Akureyri árið 1983 var hún talin vera hríselri. Ef til vill er allt runnkennt elri frá Kamtsjatka sitkaelri samkvæmt nýjustu rannsóknum. Vöxturinn á þessum runna er líkur því sem Hultén lýsti árið 1927. Mynd: Sig.A.
Þessi planta hefur nú verið greind sem sitkaelri, Alnus alnobetula ssb. sinuata, en þegar hún kom sem fræ í Lystigarðinn á Akureyri árið 1983 var hún talin vera hríselri. Ef til vill er allt runnkennt elri frá Kamtsjatka sitkaelri samkvæmt nýjustu rannsóknum. Vöxturinn á þessum runna er líkur því sem Hultén lýsti árið 1927. Mynd: Sig.A.

Hultén (1927) segir frá stofni eða grein sem var 63 cm í þvermál og reyndist vera 86 ára gömul.

Tegundin virðist ekki bjóða upp á neitt sem ekki fæst með runnkenndu elri frá Alaska.

Kjarrelri að Hálsi í Eyjafjarðarsveit úr Kamtsjatkasöfnun þeirra Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar. Líklega er þetta eina lifandi plantan af einhverjum tugum sem settar voru niður en þetta tré er hvorki dæmigert fyrir kjarrelri né sitkaelri. Aftur á móti er þarna töluvert af hæruelri, Alnus hirsuta eða A. incana ssp. hirsuta, úr sömu söfnun. Það reyndist betur. Mynd og upplýsingar: Helgi Þórsson.
Kjarrelri að Hálsi í Eyjafjarðarsveit úr Kamtsjatkasöfnun þeirra Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar. Líklega er þetta eina lifandi plantan af einhverjum tugum sem settar voru niður en þetta tré er hvorki dæmigert fyrir kjarrelri né sitkaelri. Aftur á móti er þarna töluvert af hæruelri, Alnus hirsuta eða A. incana ssp. hirsuta, úr sömu söfnun. Það reyndist betur. Mynd og upplýsingar: Helgi Þórsson.

Sá sem þetta skrifar minnist þess að Óli Valur Hansson (1922-2015), sem safnaði plöntum bæði í Alaska og á Kamtsjatka, sagði honum að á Kamtsjatka væru plöntur sem sagðar væru af þessari tegund en væru í engu frábrugðnar sitkaelri og aðrar sem líktust grænelrinu grunsamlega mikið. Á útbreiðslukorti, sem sjá má á vef Wikipediu, virðast vísindamenn hafa komist að sömu niðurstöðu og Óli Valur. Þeir telja nú að sitkaelri vaxi einnig á Kamtsjatka. Einkenni sitkaelris sjást á svarthvítri mynd af laufum úr bók Hulténs (1927) sem er hér ofar. Svo er eðlilegt að þessi tegund líkist grænelri í Alaska enda hefur það nú verið flokkað sem hríselri. Óli Valur átti fáa sér líka þegar kom að greiningu plantna. Hann gekk þó ekki eins langt og fræðingarnir sem halda úti vefnum World Flora Online og sagt er frá hér ofar.

Nærmynd af hríselri frá Kamtsjatka. Laufin á þessari plöntu eru nokkuð lík laufum grænelris frá Alaska enda eru þær nú taldar sama tegund, en þetta elri þrífst ekki eins vel hér á landi. Þessi einstaklingur er með sljóydd blöð eins og kjarrelrið í Evópu en það er nær alveg laust við bylgjur á blaðjöðrum. Mynd: Helgi Þórsson.


Kjarrelri (grænelri, alpaelri, fjallaelri), Alnus alnobetula ssp. alnobetula 

Rétt er að rifja upp að þetta er tegundin sem áður hét Alnus viridis og síðan A. viridis ssp. viridis. Ekkert annað runnkennt elri á sér jafnmörg heiti og þessi tegund en hún er lykiltegund hópsins. Á íslensku hafa sést óvenjumörg heiti á þessu elri. Rétt er að kalla þessa tegund kjarrelri en hún hefur stundum verið nefnd grænelri, með vísan í eldra fræðiheiti (viridis merkir grænt), eða evrópskt grænelri. Við skulum forðast það enda eykur það hættu á ruglingi. Heitin alpaelri og fjallaelri hafa líka sést. Seinna heitið er nú notað á aðra tegund, A. maximowiczii, en alpaelri er ekki galið heiti þótt tegundin vaxi einnig á láglendi austan Alpanna og í öðru evrópsku fjalllendi.


Þessar myndir af hríselri voru teknar í allt að 1.900 metra hæð í haustgöngu í Glarus í Sviss í október árið 2025. Eins og sjá má hefur frost skemmt laufið en runnkennt elri á það sameiginlegt með öðru elri að mynda ekki eiginlega haustliti heldur haldast grænt þar til frost skemmir laufið. Myndir: Sindri Smárason.


Þetta er evrópska tegundin í fjölskyldunni. Hún vex í fjalllendi Mið-Evrópu en í sumum heimildum, til dæmis hjá World Flora Online, virðist tegundin einnig vera um miðhluta og í norðanverðri Austur-Evrópu. Árni Þórólfsson (2017) segir að það sé algengast í Alpafjöllum en finnist einnig í Pýreneafjöllum, Karpatafjöllum og í fjöllum Balkanskaga.

Það vekur athygli að tegundir innan safntegundarinnar A. alnobetula vaxa gjarnan á svipuðum slóðum og þó heldur norðar eða hærra til fjalla en safntegundin gráelri, A. incana. Það á ekki við um kjarrelrið nema að hluta. Gráelrið vex í Ölpunum og víðar í fjöllum Evrópu og þar mætast þessar tegundir þótt kjarrelrið vaxi þar hærra yfir sjávarmáli. Samkvæmt þessu ætti kjarrelrið eiginlega að vera á Norðurlöndum eins og gráelrið en er þar ekki. Þar er gat í útbreiðslu runnkennda elrisins sem vex annars við svipuð skilyrði allt í kringum heimskautssvæðið. Vekur það nokkra furðu. Það hefði átt að fylgja ísröndinni þegar jöklar ísaldar hurfu en virðist ekki hafa gert það af ókunnum ástæðum.

Víða í Austurríki má sjá hvar skógur hefur verið rjóðurfelldur eins og hér sést. Sjá má stofna gömlu trjánna og ungar greni- og furuplöntur sem sáð hafa sér í rjóðrið. Á milli þeirra eru elrirunnar og -kjarr sem eykur frjósemi svæðisins. Yfir öllu flýgur glæsilegur örn. Mynd: Sig.A.
Víða í Austurríki má sjá hvar skógur hefur verið rjóðurfelldur eins og hér sést. Sjá má stofna gömlu trjánna og ungar greni- og furuplöntur sem sáð hafa sér í rjóðrið. Á milli þeirra eru elrirunnar og -kjarr sem eykur frjósemi svæðisins. Yfir öllu flýgur glæsilegur örn. Mynd: Sig.A.

Þetta elri hefur verið reynt á Íslandi en aldrei í miklu magni. Því miður hefur sá sem þetta ritar enga reynslu af þessari tegund og því treystir hann á þá sem vita betur. Árni Þórólfsson (2017) segir að þetta elri standi sig ágætlega og að stundum sé það ekkert síðra en hið meinta grænelri og sitkaelri frá Alaska. Bróðir þess er þetta ritar, Jón Kristófer Arnarson (2025), hefur reynt þessa tegund og samkvæmt reynslu hans er það lakara en tegundirnar frá Alaska. Plönturnar vaxa hægar og minna en elrið frá Alaska, jafnvel svo mjög að munurinn á þeim sést strax í uppeldi. Þá þegar vex kjarrelrið minna en hinar tegundirnar.

Þrátt fyrir að sá sem þetta ritar hafi ekki reynslu af ræktun tegundarinnar á Íslandi hefur hann skoðað hana í Ölpunum. Það er næsta víst að margir Íslendingar hafa séð þessa tegund þar, því hún er víða nokkuð áberandi á slóðum ferðamanna í þeim fögru fjöllum. Þar gefst ágætt tækifæri til að sjá við hvers konar aðstæður elrið þrífst. Það sáir sér til dæmis í skíðabrautir sem ruddar hafa verið í gegnum skóga. Annars er það mest í jöðrum, við skógarmörk til fjalla og þar sem önnur tré eiga í vandræðum. Ef skógarnir eru ekki of þéttir má stundum sjá tegundina sem undirgróður.

Eric Hultén (1927) segir að þessi erfðahópur beri almennt smærri lauf en annað runnkennt elri og að laufin séu minna ydd í endann.


Þrjár myndir af kjarrelri í skíðabrekkum ofan við bæinn Filzmoos í Austurríki. Hestum var beitt á brekkurnar en þeir voru ekki hrifnir af trjáplöntunum. Sjá má á fyrstu myndinni að laufið er nokkuð sljóyddað í endann og blaðjaðrarnir eru aðeins lítillega bylgjaðir. Telst þetta með greiningareinkennum tegundarinnar og passar vel við lýsingar í fræðiritum. Síðasta myndin sýnir bæinn og þar er grænelri í forgrunni. Myndir: Sig.A.


Nú höfum við lokið við umfjöllun okkar um Alnus alnobetula en eigum eina runnkennda tegund eftir.


Fjallaelri, Alnus maximowiczii

Við höfum að sjálfsögðu fjallaelrið með, enda er það að jafnaði runnkennt elri og myndar kjarr. Með klippingu má þó mynda lágvaxin tré. Árið 1927 gaf Eric Hultén út bók um flóru Kamtsjatka og nálægra eyja sem áður er vitnað í. Þá var vaninn að flokka allt runnkennda elrið sem margar tegundir en hann taldi að það væri ef til vill óþarfi eins og að framan greinir. Í þeirri bók nefnir hann að fjallaelri hljóti að vera mjög skylt elrinu sem vex á Kamtsjatka og telur óvíst að hægt sé að flokka það sem sérstaka tegund. Samkvæmt nýjustu upplýsingum er fjallaelrið talið mynda sérstaka tegund en um tíma var það flokkað á sama hátt og annað elrikjarr og kallað Alnus alnobetula ssp. maximowiczii. Því vekur það nokkra furðu að það er ekki talið tilheyra sömu undirætt og A. alnobetula. Vel má vera að það sé einfaldlega rangt.

Fjallaelri úr ræktun Ólafs Njálssonar í Nátthaga myndar auðveldlega fræ og hefur reynst vel á allan hátt. Laufið á seinni myndinni líkist nokkuð laufinu á hríselrinu á mynd hér ofar. Mynd: Ólafur Sturla Njálsson.


Fjallaelri er ættað úr fjöllum Japans en samkvæmt kortinu hér að ofan vex hríselri á sömu slóðum. Ef til vill var það hríselri sem Eric Hultén (1927) hafði í huga á sínum tíma. Ólafur Sturla Njálsson fór til Hokkaido haustið 1996 og náði þar í fræ við skógarmörk. Þeir runnar eru um þrír til fjórir metrar á hæð og breidd þegar þetta er skrifað og mynda gríðarlegt magn af fræi. Fjallaelri laufgast heldur seinna en sitkaelri og er því öruggara fyrir síðbúnum vorfrostum. Laufin eru meira hjartalaga en hjá sitkaelri. Í ræktun Ólafs hefur aldrei orðið vart við haustkal hjá þessari tegund (Ólafur Sturla 2025). Ef til vill er hér komin tegund sem við ættum að skoða betur.


Þrjár myndir af fallegu fjallaelri. Sjá má að blaðbotn laufanna er hjartalaga en nokkur munur er á yddingu blaðenda milli einstaklinga. Myndir: Ólafur Sturla Njálsson.


Samantekt

Í fyrri hluta þessa pistils, sem sjá má hér, fórum við yfir hvar heppilegt er að rækta runnkennt elri á Íslandi og við hvers konar aðstæður það þrífst í útlöndum.

Hér hefur verið sagt frá helstu tegundum af runnkenndu elri sem ræktaðar eru á Íslandi. Miðað við bestu manna yfirsýn eru þetta í raun aðeins tvær tegundir. Annars vegar er fjallaelri frá Japan, Alnus maximowiczii, og hins vegar safntegund sem á fræðimálinu kallast Alnus alnobetula. Henni er síðan skipt niður í nokkrar undirtegundir en mörk þeirra eru stundum óljós. Í upphaflegum heimkynnum sínum vaxa þær norðarlega eða hátt til fjalla í Ameríku, Asíu og Evrópu. Mikil uppstokkun hefur átt sér stað á tegundum innan elriættkvíslarinnar að undanförnu og ef til vill sér ekki fyrir endann á henni. Hér er flokkun runnkennds elris lýst eins og hún er þegar greinin er skrifuð og vísað í eldri flokkanir. Vel má vera að frekari breytingar verði gerðar á næstu árum sem gera þessa grein úrelta. Þá getum við litið á hana sem sögulega heimild.

Með ræktun þessara tegunda má græða upp land, binda kolefni og auka bæði grósku og líffjölbreytni á Íslandi. Því teljum við mjög líklegt að í framtíðinni muni ræktun þessara kjarrtegunda aukast á Íslandi. Það sama er að segja um trén sem tilheyra elriættkvíslinni. Í næstu pistlum okkar um elri snúum við okkur að þeim. Að lokum viljum við færa öllum þeim sem veittu okkur upplýsingar og lánuðu okkur myndir. Það er alltaf jafnánægjulegt að finna fyrir hlýhug þeirra. Án þeirra hjálpar væri lítið varið í þessi skrif. Einnig er vert að þakka Pétri Halldórssyni fyrir vandaðan yfirlestur prófarkar. Allar vitleysur sem kunna að finnast í textanum eru þó alfarið á ábyrgð höfundar.

Sitkaelri er skylt birkinu okkar en hefur Frankia-gerla á rótum sem vinna nitur úr andrúmsloftinu. Því vex það til að byrja með mun betur en birkið. Munurinn er enn meiri við erfið skilyrði. Hér er elri í ógróinni möl í Skriðdal. Myndina sem er frá árinu 2006 tók Sig.A.



Heimildir og frekari lestur


Árni Þórólfsson (2017): Elri-Ölur. Skógræktarritið 2017 2. tbl. bls. 10-25. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.


Halldór Sverrisson (2013): Elri á Íslandi – reynsla og möguleikar. Rit Mógilsár Nr. 27, bls .32-37. Sjá: Rit Mógilsár - Nr. 27 (2013) - Tímarit.is


Eric Hultén (1927): Flora of Kamtchatka and the adjacent islands. Kungl. svenska vetenskapsakademiens. Stockholm.


Jón Kristófer Arnarson (2025): Munnleg heimild 7. júlí 2025.


Ólafur Sturla Njálsson (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla 13. apríl 2025.


Steinar Björgvinsson (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla.


Leslie A. Viereck & Elbert L. Little, Jr. (1972): Alaska Trees and Shrubs. Agriculture Handbook No. 410. Forest Service. United States Department of Agriculture. Washingron D.C. World Flora Online (2026) Alnus alnobetula. Sótt 3. janúar 2026. Sjá: Alnus alnobetula (Ehrh.) K.Koch.


Þorsteinn Tómasson (1999): Elri til landgræðslu – Reynslusaga. Skógræktarritið 1999 2. tbl. bls. 37-47. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.





 












Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page