Skógarpöddur
- Sigurður Arnarson
- 1 day ago
- 7 min read
Skógarvistkerfi eru ofiin úr mörgum þáttum. Á þessum vettvangi höfum við mest talað um tré, enda eru þau mest áberandi í skógum. Að auki höfum við fjallað um vatnið í skóginum, jarðveginn, runna og aðrar plöntur, sveppi, bakteríur, skógarfugla og önnur dýr svo fátt eitt sé nefnt. Nú ætlum við sérstaklega að skoða pöddur í skóginum. Þetta umræðuefni hefur áður borið á góma. Við viljum benda áhugasömum á þennan pistil um lífið í skógarmoldinni, tvo pistla um skaðvalda á birki sem sjá má hér og hér og pistil um sitkalýs. Í þessum stutta pistli er meiningin að skoða skordýralífið og annað pöddulíf almennt án þess að kafa djúpt í þessi fræði. Okkar helsta heimild er kafli sem heitir Skógarvistkerfið sem Edda Sigurdís Oddsdóttir (2014) skrifaði í bókina Heilbrigði trjágróðurs. Að sjálfsögðu notum við einnig afganginn af bókinni og við getum vel mælt með henni fyrir áhugafólk um skógarvistkerfi og pöddur.

Skógarvistkerfi
Vistkerfi er hugtak sem nær yfir lífverur hvers svæðis (stundum kallað líffélag) og lífvana umhverfi þeirra. Auk trjáa er skógurinn heimkynni fjölda annarra lífvera og þar má finna skjól, raka og næringu. Lífrænu efnin, sem trén og annar gróður mynda fyrir tilstilli ljóstillífunar, eru ekki bara í lífverum, jarðvegi og stofnum, greinum og rótum trjáa, heldur mynda þau rotnandi lag ofan á jörðinni. Allt þetta myndar undirstöður fyrir flókna fæðuvefi í skóglendinu. Þar gegna allskonar pöddur lykilhlutverki.

Fyrsta stigs neytendur (stundum kallaðir grasætur), bæði úr hópi hryggdýra og hryggleysingja éta börk trjáa, fræ, ber, lauf og annan gróður í skóginum. Þessar lífverur geta svo verið fæða fyrir annars stigs neytendur (stundum kallaðir afræningjar eða kjötætur) í vistkerfum. Annars stigs neytendur eru fæða fyrir þriðja stigs neytendur sem aftur mynda fæðu fyrir þau dýr sem eru ofar í fæðukeðjunni. Þannig verða til fjórða- og jafnvel fimmta stigs neytendur og svo koll af kolli. Ef við fetum okkur frá frumframleiðendum til fyrsta stigs neytenda, þaðan til annars stigs neytenda og svo áfram er talað um fæðukeðju. Hægt er að sýna fleiri leiðir orku og næringar í gegnum líffélagið og er þá talað um fæðuvef. Svo verður það hlutskipti allra þessara lífvera að hrörna og drepast, að hluta eða í heild. Þá kemur að sundrendum sem koma næringarefnunum aftur í hringrásina.

Alls konar pöddur, svo sem skordýr og áttfætlur, eiga sína fulltrúa í flestum þessum þáttum fæðuvefjarins þótt þeim fækki eftir því sem ofar dregur í keðjunum. Rannsóknir í skógarvistkerfum á Íslandi hafa sýnt að jarðvegsdýr og sveppir njóta góðs af aukinni framleiðni í skógum auk þess sem kolefnisbinding verður meiri. Svo má ekki gleyma að fjölbreytt fána smárra og stórra dýra eykur almenna líffjölbreytni vistkerfisins.
Meðal þeirra smádýra sem lifa í og á moldinni eru mordýr. Fyrri myndin sýnir stökkmor en sú seinni sýnir kúlumor. Hér á landi hafa verið greindar 151 tegund mordýra samkvæmt vef Náttúrufræðistofnunar. Þau skipta miklu máli við niðurbrot lífrænna efna í vistkerfinu. Myndirnar tók Arne Fjellberg á Íslandi.
Liðdýr
Þegar við fjöllum um pöddur í vistkerfinu eigum við fyrst og fremst við allskonar liðdýr eða Arthropoda eins og þau heita á alþjóðlega fræðimálinu. Þau eru stærsta fylking dýra í heiminum. Til liðdýra teljast meðal annars krabbadýr, áttfætlur, fjölfætlur, skordýr og fleiri hópar lífvera. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera með liðskiptan líkama og ytri stoðgrind sem er að mestu úr kítíni.
Ýmsir aðrir hópar lífvera sem teljist ekki til liðdýra lifa einnig í skóginum . Má nefna lindýr eins og snigla og margt fleira skemmtilegt sem dæmi. Sá sem þetta ritar hefur ákveðið að ef hann fær sér snigil sem gæludýr á hann að heita Lind Ýr.

Skordýr í skógum
Stærsti hópur liðdýra í heimi eru skordýrin. Til eru yfir 1.000.000 tegunda þekktra skordýra í heiminum. Það eru fleiri tegundir en til eru samanlagt af öllum öðrum hópum dýra í heiminum. Hér á landi eru þekktar um 2000 tegundir skordýra og alltaf bætast nýjar við. Eins og vænta má gegna skordýr lykilhlutverkum í skógum rétt eins og í öllum öðrum þurrlendisvistkerfum. Þau skipta miklu máli fyrir framvindu í vistkerfunum. Þau eru mikilvægur hluti næringarhringrásarinnar - þau éta og verða étin - og stuðla að hringrásum lífrænna leifa í skógarbotninum. Þróun skordýra hefur leitt til ótrúlega fjölbreyttra lífsforma, en það eru tiltölulega fáir hópar skordýra sem hafa þróast í þá átt að verða plöntuætur.

Plöntuætur úr hópi skordýra
Edda Sigurdís (2014) segir að einkum megi skýra hversu fáir hópar skordýra lifa af því að éta plöntur með að samsetning næringarefna í plöntum henti skordýrum almennt frekar illa. Í plöntum er að jafnaði lágur styrkur prótína og amínósýra sem eru skordýrum mikilvæg.

Þrátt fyrir þessa staðreynd geta stofnar skordýra sem lifa á trjágróðri verið mjög stórir. Þótt minnihluti tegundanna séu plöntuætur getur heildarlífmassi og heildarfjöldi einstaklinga verið meiri en samanlagður fjöldi og massi allra annarra skordýra í trjánum. Þessum plöntuétandi skordýrum má skipta í tvo meginhópa. Annars vegar eru það skordýr sem naga og bíta laufblöð eða aðra plöntuhluta og hins vegar eru til dýr sem sjúga næringu sína úr frumum eða sáldæðum trjáa eða annars gróðurs. Fulltrúar beggja hópa finnast á Íslandi.


Rándýr og sníkjudýr
Í skógarvistkerfum má að jafnaði finna ýmsa hópa skordýra og allskonar pöddur sem teljast ekki hefðbundnar plöntuætur. Þrátt fyrir að lífmassinn sé meiri meðal plöntuætanna er flestar tegundirnar að finna í hópi rándýra og sníkjudýra. Báðir þessir hópar lifa fyrst og fremst á skordýrum sem lifa á trjágróðri en einnig á dýrum sem lifa á rotnandi leifum í og á jarðvegi.
Oftast nær eru sníkjudýrin fremur fá og lífmassi þeirra er lítill. Öðru máli gegnir um rándýrin. Lífmassi þeirra getur verið verulegur hluti heildarlífmassa skordýra í skógi þótt lífmassi plöntuæta sé að jafnaði meiri. Að auki eru ýmsar áttfætlur að finna í skógum sem teljast einnig til rándýra og éta meðal annars skordýr. Þeira frægastar eru ýmsar köngulær.

Rétt er líka að nefna að ýmsir fuglar stunda afrán á skordýrum og öðrum pöddum. Það er samt tæpast hefð fyrir því að kalla litla, sæta spörfugla rándýr þótt vissulega éti þeir önnur dýr. Til að sneiða hjá þessu orði er gjarnan talað um afrán, afræningja eða náttúrulega óvini skordýra. Með sömu rökum má kalla okkur mannfólkið náttúrulega óvini fiska í sjónum, svo dæmi sé tekið, enda stundum við afrán á þeim.


Fjölfætlur
Fjöldinn allur af lífverum í skógarvistkerfinu heldur fyrst og fremst til á eða í jörðinni. Við nefnum hér fjölfætlur sem dæmi. Þeim má skipta í tvo meginhópa. Annars vegar eru það margfætlur sem þekkjast á því að á hverjum lið hafa þær eitt fótapar. Innan við tugur tegunda er til af þeim á Íslandi. Hins vegar eru það þúsundfætlur sem þekkjast á því að á hverjum lið eu tvö pör ganglima. Þess vegna eru þær stundum nefndar tvífætlur. Tegundir þeirra á Íslandi fylla tuginn. Það er töluverður munur á þessum hópum fjölfætla. Má sem dæmi nefna að margfætlurnar eru allar kjötætur á meðan þúsundfætlurnar eru plöntuætur. Þessi vitneskja skiptir okkur ef til vill ekki miklu máli, nema ef við værum ánamaðkar eða einhverjar pöddur í skógarbotninum. Þá væri gott að vita að þúsundfætlurnar eru með öllu hættulausar en margfætlurnar gætu étið okkur. Þess má geta að ritari Skógræktarfélagsins, sveppafræðingurinn Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, fann eitt sinn nýja tegund þúsundfætlu fyrir landið á sveppi í Hólavallagarði. Hún var svo föl (það er þúsundfætlan, ekki Guðríður Gyða, að hún fékk nafnið náfætla.
Tvær myndir af fjölfætlum. Sú fyrri sýnir pottatvífætlu sem er 18 mm löng þúsundfætla. Sú seinni sýnir bakkafætlu sem er 10 mm löng margfætla. Myndirnar fengum við af heimasíðu Náttúrufræðistofnunar en þær tók Erling Ólafsson.
Samantekt
Þegar fólk fer út í garðinn sinn eða í næsta skóg leiðir það sjaldan hugann að þeirri hörðu lífsbaráttu sem þar á sér stað. Í þessum pistli höfum við sagt stuttlega frá nokkrum hópum af þeim pöddum sem finna má í skógarvistkerfum. Allar gegna þær sínu hlutverki og auka á líffjölbreytni skóganna. Því miður gerist það stundum að plöntuétandi skordýrum fjölgar úr öllu hófi og valda skaða á skóginum. Sem betur fer á það aðeins við um hluta þeirra smádýra sem finnast í skógarvistinni. Allt eru þetta heillandi dýr sem skipta miklu máli í skóginum. Næst þegar þú heimsækir skóglendi eða ferð út í garðinn þinn máttu gefa þér dálítinn tíma til að halda í barnið í sálinni og skoða pöddurnar í skóginum og hugleiða stöðu þeirra í vistkerfinu. Brynja Hrafnkelsdóttir fær okkar bestu þakkir fyrir ýmsar upplýsingar og lán á frábærum ljósmyndum.
Að lokum viljum við þakka Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir þarfan og vandaðan yfirlestur.

Heimildir
Brynja Hrafnkelsdóttir (2025). Ýmsar upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í október 2025.
Edda Sigurdís Oddsdóttir (2014): Skógarvistkerfið. Bls. 8-25 í: Heilbrigði trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim eftir Guðmund Halldórsson og Halldór Sverrisson. Iðunn, Reykjavík.
Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (2014): Heilbrigði trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim. Iðunn, Reykjavík.
(2025) Pöddur á vef Náttúrufræðistofnunar. Sjá: Pöddur | Náttúrufræðistofnun. Sótt 24. 10. 2025.













Comments