top of page
kort-hals-saurbaer.jpg

Háls og Saurbær

Eyjafjarðarsveit - 1994

Árið 1992 lagðist af hefðbundin búskapur á ríkisjörðinni Hálsi í Eyjafjarðarsveit. Jörðin liggur norðan í hálsinum sem aðskilur Eyjafjarðardal og Djúpadal og þótti ekki sérlega vel fallin til búskapar. Þáverandi stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga hafði um þetta leyti verið að leita að heppilegu svæði til að bjóða félagsmönnum að leigja sér land til skógræktar. Stjórnin hafði því samband við Landbúnaðarráðuneytið og fékk jörðin leigða til 75 ára gegn árlegri leigu. Samningur þess efnis var undirritaður árið 1993 og kemur þar fram að jörðin sé leigð til skógræktar og að leigutíma loknum hafi félagið forleigurétt til sömu nota. Fyrstu framkvæmdir fólust í að endurgirða allt landið og hefjast handa við skógræktarskipulag og skiptingu svæðisins í ræktunarspildur. Hugmyndin var sú að leigjendur ættu að hafa frelsi til ræktunar á sínum reit en gætu leitað eftir leiðbeiningum til félagsins ef þeir vildu. Lagðir voru vegaslóðar um landið og því skipt upp í 37 reiti sem hvor um sig var 1-2 ha að flatarmáli. Fyrstu plönturnar voru gróðursettar árið 1994. Fljótlega var ljóst að eftirspurn eftir reitum var meiri en framboð og því var, árið 1997, bætt við 10 spildum sem voru 3-10 ha hver og voru þær einkum ætlaðar fyrirtækjum og stofnunum. Ræktun á Hálsi hefur gengið vel og þar hefur nú vaxið myndarlegur og fjölbreytilegur skógur. Þurrkur hefur reynst helsti óvinur ræktenda en vatnslagnir og natni ræktenda hefur víða bjargað miklu. Við friðun á landinu árið 1993 fannst ekki ein einasta trjáplanta á svæðinu en nú má áætla að yfir 100 þúsund plöntur hafi verið gróðursettar þar.


Enn var ráðist í stækkun á skógrræktarsvæðinu árið 2000 (ár 70 ára afmæli félagsins) og gerður Landgræðslusamningur við Skógræktarfélag Íslands um uppgræðslu á 53 ha lands á Hálsi. Það ár voru 30.000 lerkiplöntur gróðursettur í landgræðslureitinn sem var illa gróinn, örfoka melur.


Fjölgun á leigureitum á Hálsi dugði ekki lengi vegna mikillar eftirspurnar félagsmanna. Því var aftur leitað til Landbúnaðarráðuneytisins eftir meira á landi til skógræktar á nágrannaríkisjörðinni og kirkjujörðinni Saurbæ. Árið 2005 var samningur um leigu til 50 ára á um 150 ha spildu úr landi Saurbæjar undirritaður. Það sama ár voru strax nokkrir af þeim 27 skipulögðu landspildum teknir í leigu og ræktun af félagsmönnum.


Í dag, 28 árum eftir að fyrstu plönturnar voru gróðursettar á Hálsi er þar að finna ungskóg. Mikið var gróðursett á fyrstu árunum en enn er fólk að vinna í reitum sínum. Sumir hafa flutt og sagt upp reitum sínum, aðrir láta það ekki stoppa sig og koma langar leiðir til að heimsækja unaðsreitinn sinn. Flestir reitir í landi Háls eru í leigu en nokkrir eru þar í bið eftir nýjum grænum fingrum, sumir full plantaðir, aðrir minna ræktaðir. Á Saurbæ eru enn til ónsortnir reitir til leigu, óskrifuð blöð. Hægt er að hafa samband í gegnum stjorn@kjarnaskogur.is til að fá nánari upplýsingar en skilyrði er að leigutaki sé skráður í Skógræktarfélag Eyfirðinga. Hægt er að skrá sig í félagið á vefsíðunni.

DJI_0474.JPG

Flatarmál:

Upphaf:

Hæsta tré:

Mælt árið:

Landeigandi:

295 ha

1994

XX m

20XX

Ríkissjóður

bottom of page