top of page
Midhalsstadir.jpg

Miðhálsstaðaskógur

Hörgársveit - 1951

Saga skógarins á Miðhálsstöðum í Öxnadal er all sérstæð. Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk umráðarétt yfir eyðibýlinu Miðhálsstöðum árið 1942 en gekk ekki í digra sjóði það árið og treysti sér ekki til að girða landið. Skógrækt ríkisins var þá fengin að borðinu og hafði með Miðhálsstaði að gera til 1950. Þá var gert samkomulag um að Skógræktarfélag Eyfirðinga tæki við landinu að nýju og það var loks girt á árunum 1950 - 1951, alls um 50 ha lands. 1972 var síðan girðingin stækkuð og er nú 70 ha.

Frá upphafi var vitað um birkileifar í smáum stíl á Miðhálsstöðum og gerðu menn sér vonir um sjálfgræðslu birkiskógar eftir friðun. Fljótlega kom þó í ljós að þær vonir gengu ekki eftir, enda landið þurrt og hrjóstrugt að mestu leyti. 

 

Gróðursett var af kappi í landið frá 1952 -1965 og voru sjálfboðaliðar atkvæðamiklir þar eins og í mörgum öðrum reitum félagsins. Eftir stækkun girðingarinnar 1972 kom aftur nokkur kippur í gróðursetningar og svo enn á árunum milli 1988 og 1998. Alls hafa verið gróðursettar rúmlega 350.000 plöntur á Miðhálsstöðum. Margar algengustu trjátegundir í íslenskri skógrækt má finna á Miðhálsstöðum. Mest áberandi tegundir skógarins eru birki, rússalerki og stafafura. Auk þess sem talsvert er um blágreni, broddgreni og mýrarlerki en ef tilnefna ætti merkilegustu tré skógarins er helst að nefna evrópulerki frá Graubunden sem var gróðursett 1963. Gróðursettar voru 7.000 plöntur sem mynda dálítin reit í norðvestur horni skógarins og er hann áberandi í október lok þegar hann stendur fagurgrænn en öll önnur lerki hafa haustað sig og fellt barrið. Önnur merkileg gróðursetning á Miðhálsstöðum er sunnarlega í skóginum og er það Kúrileyjalerki, gróðursetning frá 1954 af fræi sem kom frá Mustila í Finnlandi. Þessi tré eru all sérstæð í vaxtarlagi og sjaldgæf á Íslandi. Móðurtrén í Mustila eru af dáríulerki frá kúrileyjum en um faðernið er ekkert hægt að fullyrða þar sem í Mustila ægir saman lerki frá öllum heimsálfum og óvíst um hvaða leið frjókornin berast með vindi milli trjáa. 


Skógrækt á Miðhálsstöðum hefur heilt yfir gengið vel og þar er nú upp sprottinn hin fegursti skógur með stórum og digrum trjám. Í skjóli trjánna er gott að vera enda alltaf gott veður og fuglasöngur. Ef fólk er á ferðinni seinnipart sumars og fram á haust þá er talsvert af hrútaberjum í skóginum og eftir hæfilegar rigningar er hægt að finna þar mikið af bæði lerkisvepp og furusvepp. 


Í gegnum skóginn liggur vegslóði sem er sæmilega fær fyrir 4x4 bíla og gangandi. Ekki er um aðra gönguslóða að ræða í skóginum en fólk er þó hvatt til að njóta skógarins utan sem innan slóða allan ársins hring.

20180612_195601.jpg

Flatarmál:

Upphaf:

Hæsta tré:

Mælt árið:

Landeigandi:

70 ha

1951

Blágreni 7-8 m

2000

Ríkissjóður

bottom of page