top of page

Lög Skógræktarfélags Eyfirðinga

1. grein
Félagið heitir Skógræktarfélag Eyfirðinga. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri.


2. grein
Hlutverk félagsins er að vinna að framgangi skógræktar í Eyjafirði.
Þessu verði m.a. náð með því að:

  • Stuðla að verndun og viðhaldi skóga í Eyjafirði og vistkerfis þeirra.

  • Vekja og viðhalda áhuga Eyfirðinga á skógrækt og veita leiðbeiningar og fræðslu.

  • Vera samstarfsvettvangur þeirra einstaklinga, félaga og fyrirtækja sem vilja vinna að framgangi skógræktar í Eyjafirði.

  • Vera í forystu og hvetja til hvers konar framfara í skógrækt og nýtingu skóga í Eyjafirði.

Félagið aflar tekna með félagsgjöldum og styrkframlögum. Félaginu er einnig heimilt að afla annarra tekna sem samþykktar eru af stjórn.
Tekjum félagsins er varið í samræmi við hlutverk þess.

image.jpg

3. grein
Félagið setur sér markmið í samræmi við hlutverk sitt, skilgreinir þau og markar stefnu um viðfangsefni og framkvæmdir á hverjum tíma. Markmiðin skulu endurskoðuð reglulega af stjórn.


4. grein
Félagið er opið öllum einstaklingum sem áhuga hafa á skógrækt og vilja vinna að framgangi hennar. Félög, fyrirtæki og stofnanir geta orðið styrktaraðilar án atkvæðisréttar. Allir félagar greiða árgjald og er það ákveðið á aðalfundi.

Hafi félagsmaður ekki greitt árgjald til félagsins í tvö ár samfleytt án gildra ástæðna, sem hann gerir félaginu grein fyrir, telst hann ekki lengur félagsmaður, enda hafi hann áður verið krafinn um greiðslu.


5. grein
Stjórn félagsins skipa sjö menn sem kosnir eru á aðalfundi þess. Stjórnarmenn eru kosnir til þriggja ára. Stjórnin skiptir með sér störfum og kýs sér formann, varaformann, ritara og féhirði úr hópi stjórnarmanna. Aðrir stjórnarmenn eru meðstjórnendur. Einnig skulu kosnir þrír varamenn til árs í senn. Stjórnarkosningu skal svo háttað að kosnir eru tveir, tveir og þrír til skiptis. Aðalfundur kýs enn fremur tvo skoðunarmenn ársreikninga og varamenn þeirra, einn í senn til tveggja ára. Einnig skulu kosnir fulltrúar á aðalfund Skógræktarfélags Íslands samkvæmt gildandi lögum þess. Stjórnin annast rekstur félagsins og tekur ákvarðanir fyrir þess hönd milli aðalfunda.

Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.


6. grein
Aðalfundur félagsins skal haldinn árlega fyrir lok júnímánaðar. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Stjórnin boðar til fundar með auglýsingu í blöðum og/eða útvarpi með a.m.k. viku fyrirvara. Á dagskrá aðalfundar skal vera:
a)  Skýrsla um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.
b)  Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins til afgreiðslu.
c)  Markmið félagsins og áætlun nýs starfsárs.
d)  Ákvörðun árgjalds.
e)  Umræða og afgreiðsla mála og tillagna.
f)  Kosningar samkvæmt lögum félagsins.
g)  Önnur mál.


7. grein
Aðalfundur félagsins telst lögmætur, ef til hans er boðað með nægum fyrirvara, sbr. 6. gr. og ef hann sitja minnst 15 félagsmenn. Verði aðalfundur ekki lögmætur skal boða til hans aftur innan tveggja vikna og telst hann þá lögmætur, þótt færri mæti en 15 félagsmenn. Á fundum félagsins hafa allir félagar atkvæðisrétt. Afl atkvæða ræður úrslitum mála.


8. grein
Stjórn félagsins hefur yfirumsjón með öllum framkvæmdum þess, starfsemi og fjárráðum. Hún boðar til funda og undirbýr málefni félagsins fyrir fundi. Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og setur honum erindisbréf. Stjórnin getur boðað til aukafunda til að ræða einstök mál. Skylt er stjórninni að boða til félagsfundar ef 15 félagsmenn eða fleiri óska þess.


9. grein
Félagið skal rofið og hætta störfum, ef meirihluti greiddra atkvæða verður fyrir því á tveimur aðalfundum í röð með að lágmarki 2/3 greiddra atkvæða á hvorum fundinum. Eignir félagsins skulu renna í sjóð sem afhendist Skógræktarfélagi Íslands. Honum skal ráðstafað til skógræktar, sbr. 2. grein.

* Lög félagsins síðast yfirfarin, uppfærð og samþykkt á aðalfundi SE 26. mars 2024 - þar áður þann 8. maí 2023

bottom of page