top of page
Leyningsholar.jpg

Leyningshólar

Eyjafjarðarsveit - 1937

Innarlega í Eyjafjarðardal í landi jarðanna Villingadals og Leynings er “frum”-skógurinn í Leyningshólum, frumskógur í þeirri merkingu að þar eru einu “upprunalegu” skógarleifarnar í Eyjafirði sem mynda samfelldan skóg. Á upphafsárum Skógræktarfélags Eyfirðinga áttu þessar skógarleifar undir högg að sækja sökum ágangs búfjár og uppblásturs. Skógræktarfélagið réðst því í það stórvirki að girða Leyningshóla á árunum 1936-1937 eftir að hafa gert samning við landeigendur og náði þannig að bjarga mestum hluta skógarleifanna frá gjöreyðingu.

Trjágróðri innan girðingar fór mikið fram í kjölfarið miðað við trjágróður utan girðingar og má enn í dag sjá þennan mun. Á 6. og 7. áratug síðustu aldar var talsvert gróðursett af barrtrjám í Leyningshólum þannig má finna nokkuð stálpað rauðgreni, sitkagreni, broddgreni og starafuru þar í dag en árangur var kannski ekki eins og vonir stóðu til með þessar tegundir. Öðru máli gegnir hvað varðar lerki sem gróðursett var á tímabilinu 1956-1961 í norðanverðum skóginum. Þremur mimsunandi kvæmum var plantað og hafa þau þrifist mjög vel, óvíða má finna jafn beinvaxið og þróttmikið lerki og Raivolalerkið í Leyningshólum.

Síðustu þrjátíu árin hefur áhersla SE miðað við að viðhalda Leyningshólum og birkiskóginum sem náttúruminjum og því innfluttar trjátegundir ekki verið gróðursettar síðan á 9. áratugnum. Því mun meira hefur verið lagt í að leggja og viðhalda vegarslóðum og göngustígum um skóginn enda býður svæðið upp á skemmtilegar og fjölbreyttar gönguleiðir þó snarbrattar brekkur geri sumsstaðar erfitt um vik.

Af mörgum perlum eyfirskra skóga eru Leyningshólar ein sú dýrmætasta og ómetanlegt það framtak frumherja Skógræktarfélagsins og landeigenda að bjarga skóginum frá eyðingu.

ketilkaffi.jpg

Flatarmál:

Upphaf:

Hæsta tré:

Mælt árið:

Landeigandi:

100 ha

1937

Rússalerki 11 m

2000

Tilheyrir Leyningi og Villingadal 

bottom of page