top of page

Saga Kjarnaskógar

Þótt ekki hafi örlað á trjáplöntum í Kjarna þegar Skógræktarfélagið fékk landið árið 1947 hefur það ekki alltaf verið svo. Engum blöðum er um það að fletta að þarna óx birkiskógur við landnám. Að líkum hefur honum verið eytt nokkuð fljótt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1712 er skógurinn löngu horfinn. Þá er jörðin, ásamt hjáleigunum Litla Kjarna og Steinagerði, metin á 37 hundruð. Kjarni var lengi talin mikil merkisjörð. Á 18. og 19. öld bjuggu merkismenn á jörðinni. Árið 1814 lýsti Ebeneser Henderson heimilisgarði í Kjarna og hvernig bæjarlæknum var veitt í garðinn til að vökva hann.

Árið 1910 keypti Akureyrarbær Kjarna ásamt hjáleigum. Lítur út fyrir að tilgangurinn hafi fyrst og fremst verið að eignast grasnytjar fyrir þá bæjarbúa sem stunduðu búskap. Búið var í Kjarna fram undir 1950 en þá voru íbúðarhúsin rifin.

Árið 1947 hóf hið unga Skógræktarfélag ræktun í landi hjáleigunnar Steinagerðis og keypti sama ár erfðafestuland í landi Kjarna. Hafði félagið þá til ráðstöfunar 18 ha lands.

Árið 1952 fékk Skógræktarfélag Akureyrar meira land til ráðstöfunar sunnan Brunnár. Flatarmál svæðisins var 86 ha. Árið 1977 tók Skógræktarfélag Eyfirðinga við landinu og hafði þá rúmlega 100 ha til afnota. Á þessum tíma var Tryggvi Þorsteinsson formaður félagsins og lagði á það áherslu að skógurinn yrði útivistarskógur. Gekkst hann fyrir sjálfboðaliðastarfi ýmissa félagasamtaka í hinum uppvaxandi skógi. Er óhætt að fullyrða þá Tryggva og Árman Dalmannsson frumkvöðla í Kjarnaskógi.

Síðan þetta var hefur skógræktarlandið verið stækkað í nokkrum áföngum. Er nú svo komið að félagið hefur umsjón með um 800 ha í landi Akureyrar sunnan Glerár. Megnið af því landi er nú skógi vaxið.

bottom of page