top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Af hverju hanga greinar hengibjarka?

Í góðri bók stendur: „Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá“. Það verður þó að segjast eins og er að það á ekkert endilega vel við um margar þeirra trjátegunda sem vaxa á Íslandi. Í sumum tilfellum væri hægt að segja: „Af greinunum skulið þér þekkja þau“.

Í þessum stutta pistli veltum við fyrir okkur hvað kunni að hafa ýtt undir þá þróun að greinar á mörgum hengibjörkum hanga niður og gefa þeim þetta sérstæða útlit sem einkennir þær. Fyrst skoðum við ættkvíslina aðeins og veltum fyrir okkur hvort og hvernig eiginleikar, eins og hangandi greinar, geta færst á milli skyldra tegunda.

Hengibjörkin frú Margrét er eitt glæsilegasta tréð í Kjarnaskógi og er í kortasjá Skógræktarfélags Eyfirðinga. Skógræktarfélag Íslands valdi það sem tré ársins árið 2009. Myndir: Sig.A.

Birkiættkvíslin

Hengibjarkir, Betula pendula, tilheyra birkiættkvíslinni, Betula. Á Íslandi tilheyra tvær villtar tegundir ættkvíslinni. Það eru ilmbjörkin, B. pubescens, sem oftast er bara nefnt birki og fjalldrapi, B. nana. Nokkrar aðrar tegundir hafa verið reyndar í garð- og skógrækt á Íslandi og er hengibjörkin þeirra algengust. Hún hefur tvö fræðiheiti. Annað þeirra er algengara og talið hið rétta. Það er B. pendula. Hitt fræðiheitið er svokallað samheiti og er B. verrucosa. Fyrra heitið vísar augljóslega í þann eiginleika að greinarnar hanga niður eins og pendúll. Seinna fræðiheitið vísar í það að á greinunum vaxa ekki hár eins og á ilmbjörkinni (pubescens vísar í það) heldur eru á þeim litlar vörtur. Vörtubirki er ekki mjög söluvænlegt heiti og að auki eru nokkrar aðrar tegundir birkis með svipaðar vörtur á árssprotum. Því er fyrra heitið af mörgum talið miklu betra en það seinna. Ekki er þó endilega víst að svo sé því til eru hengibjarkir sem hafa ekki þetta drjúpandi vaxtarlag. Sérstaklega á það við eftir því sem austar er komið á útbreiðslusvæðinu.

Tvær myndir af hengibjörkum í vel hirtum garði á Jótlandi. Myndir: Sig.A.


Litningar og erfðaflæði

Komið hefur í ljós að litningafjöldi hengibjarka og fjalldrapa er sá sami. Báðar tegundirnar eru ferlitna en ilmbjörkin er tvílitna. Samt er það svo að fjalldrapi og ilmbjarkir mynda auðveldlega blendinga á Íslandi. Erfðaflæði á milli þessara tegunda er algengt eins og sjá má á íslensku birki. Reynslan sýnir að erfðaflæði getur einnig orðið milli ilmbjarka og hengibjarka en í sumum tilfellum verða þá til ófrjóir einstaklingar eins og algengt er þegar til verða blendingar milli tegunda. Í öðrum tilfellum geta blendingarnir orðið frjóir (Ashburner & McAllister 2013). Hér er grein um tré sem virðist vera ófrjór blendingur ilmbirkis og hengibirkis.

Ilmbjörkk með slútandi greinar í Síðuhverfi á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Ilmbjörkk með slútandi greinar í Síðuhverfi á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Hengibjörk í janúarsól í Skotlandi. Greinarnar hanga niður, rétt eins og á íslenska birkinu í Síðuhverfi hér að ofan. Hvernig stendur á því? Mynd: Sig.A.
Hengibjörk í janúarsól í Skotlandi. Greinarnar hanga niður, rétt eins og á íslenska birkinu í Síðuhverfi hér að ofan. Hvernig stendur á því? Mynd: Sig.A.

Svo er að sjá sem ákveðnir eiginleikar hafa erfst á milli tegunda og borist í íslenska birkið. Hugsanlegt er að í einhverjum tilfella geti fjalldrapinn virkað sem eins konar erfðabrú og flutt erfðaefni frá hengibirki yfir í ilmbirki, því litningafjöldi fjalldrapa og hengibjarka er sá sami. Þannig geta frjó borist frá Norðurlöndum til Íslands og lent á fjalldrapa og hugsanlega laumað erfðaefni inn í erfðamengi birkis á Íslandi.

Birkið á Eiðsvelli er ilmbjörk sem hefur hangandi greinar. Getur það verið merki um erfðaflæði frá hengibirki? Mynd: Sig.A.
Birkið á Eiðsvelli er ilmbjörk sem hefur hangandi greinar. Getur það verið merki um erfðaflæði frá hengibirki? Mynd: Sig.A.

Allar tegundir birkiættkvíslarinnar teljast til frumbýlinga eða síðfrumbýlinga. Tegundirnar geta vaxið í fremur ófrjóu landi og numið land þar sem engin önnur tré er að finna. Eins og títt er um frumbýlinga geta trén vaxið nokkuð hratt en stofnarnir verða ekki mjög langlífir. Á stærstum hluta útbreiðslusvæðis tegundanna eru svo önnur tré sem setjast að í birkiskógunum og leggja þá smám saman undir sig.

Hengibjörk í ljósaskiptunum við Hjälmaren i Svíþjóð. Mynd: Benedikt Axelsson. Færum við honum hér með okkar bestu þakkir fyrir myndina.
Hengibjörk í ljósaskiptunum við Hjälmaren i Svíþjóð. Mynd: Benedikt Axelsson. Færum við honum hér með okkar bestu þakkir fyrir myndina.

Fleiri einkenni frumbýlinga eiga vel við alla ættkvíslina. Eitt er að tegundirnar eru mjög ljóselskar og vaxa lítið eða ekki í miklum skugga. Annað einkenni er að tegundirnar geta verið ungar þegar fræframleiðsla hefst og fræin eru létt og geta borist langt. Þeim er ekki ætlað að spíra í þéttum skógarbotni. Hengibjörk eru þó varla eins eindreiginn frumbýlingur og íslenska birkið. Má segja að hún sé síðfrumbýlingur. Hengibjarkir eru ekki endilega með allra fyrstu tegundum til að nema land en koma fljótlega inn í framvinduna. Samt er það svo að ef eitthvert jarðrask verður í frjóu landi, svo sem skógareldar, getur þessi tegund verið með allra fyrstu trjám að nema land og hún getur þrifist vel þótt landið sé ekki mjög frjósamt.

Glæsileg hengibjörk í litlum almenningsgarði í bænum Glenfarg í Skotlandi. Þarna stendur hún nokkuð hátt í landinu á fremur þurrum stað en vex svona ljómandi vel. Mynd: Sig.A.
Glæsileg hengibjörk í litlum almenningsgarði í bænum Glenfarg í Skotlandi. Þarna stendur hún nokkuð hátt í landinu á fremur þurrum stað en vex svona ljómandi vel. Mynd: Sig.A.

Munur tegunda

Nokkuð auðvelt er að þekkja þessar þrjár tegundir í sundur á dæmigerðum eintökum en vegna erfðaflæðist á milli tegunda geta einstaka tré eða runnar verið snúnir í greiningu.

Fjalldrapinn er lágvaxinn runni með mun minni laufblöð en hinar tegundirnar og þau eru næstum hringlaga. Fjalldrapi fær rauða haustliti.

Ilmbjörkin lyktar vel, er með dúnhærða árssprota og stærri lauf en fjalldrapinn. Annars eru laufin nokkuð lík þótt birkilauf séu ekki hringlaga. Arfhreint birki fær gula haustliti. Á sumum einstaklingum hanga greinarnar dálítið niður en það er sjaldgæft.

Íslenskt birki í Dimmuborgum ber merki erfðaflæðis frá fjalldrapa þrátt fyrir gula haustliti. Mynd: Sig.A.
Íslenskt birki í Dimmuborgum ber merki erfðaflæðis frá fjalldrapa þrátt fyrir gula haustliti. Mynd: Sig.A.

Hengibjörkin er með hárlausa árssprota en hefur litlar vörtur þeirra í stað. Laufin enda í eins konar totu og eru auðþekkt frá venjulegu birkilaufi. Neðsti hluti stofnsins er öðruvísi en á birki og haustlitir eru alltaf gulir. Þegar tréð eldist fara greinarnar oft að hanga niður en það á ekki við um alla einstaklinga.

Hengibjörk að fara í gulan haustlitaskrúða. Mynd: Sig.A.
Hengibjörk að fara í gulan haustlitaskrúða. Mynd: Sig.A.

Blendingar á milli tegundanna geta haft einkenni sem eru þarna á milli. Þannig þekkjum við á Íslandi lágvaxið margstofna birki með rauða haustliti. Þar eru greinilega komnar erfðir frá fjalldrapa.

Við höfum líka ilmbjarkir sem hafa slútandi greinar. Er ekki annað að sjá en þar sé komið erfðaefni frá hengibirkinu. Því er varlegt að treysta þessu einkenni. Þetta má meðal annars sjá í Vaglaskógi. Það bendir til þess að  þetta stafi ekki af blendingum ilmbjarka við innflutt hengibirki. Þetta hefur verið lengur í landinu en svo. Annaðhvort hefur krosssaumur þróunarinnar skilað sams konar stökkbreytingu í ilmbirkið eða að frjó hefur borist til landsins sem hefur þennan eiginleika í erfðaefninu. Hugsanlega hefur það frjó lent á fjalldrapa og þannig hefur erfðaefnið komist inn í genamengið, enda er mikið erfðaflæði á milli birkis og fjalldrapa á Íslandi.

Þrjár glæsilegar hengibjarkir í Skotlandi. Sú fyrsta er í borginni Pearth, miðmyndin er tekin í skóglendi í Kinnoull hill ofan bið borgina en lokamyndin er sýnir tré í litlum bæ þar skammt frá sem heitir Glenfarg. Myndir: Sig.A.

Hengibirki

Samkvæmt okkar bestu þekkingu vex hengibirki villt á belti sem liggur um Norður-Evrópu og yfir norðurhluta Asíu, allt frá Atlantshafi og austur til Kyrrahafs (Ashburner & McAllister 2013). Á svona víðfeðmu útbreiðslusvæði er þess að vænta að mikill munur sé á milli kvæma, enda er það þannig. Þannig er sú tilhneiging að láta greinarnar hanga miklu algengari eftir því sem vestar dregur á útbreiðslusvæðinu.

Ljómandi fallegt tré með hvítan, beinan stofn en hefur ekki hangandi vaxtarlag. Austast á útbreiðslusvæðinu eru hengibjarkir sem ekki hafa þann eiginleika sem þær eru frægastar fyrir. Áður voru þær flokkaðar sem sérstök tegund og hét þá Betula mandshurica. Nú er mansjúríjubirkið flokkað sem undirtegund hengibjarka og kallast B. pendula ssp. mandshurica.


Þetta er svo áberandi að áður fyrr töldu menn að birkið sem vex austast á útbreiðslusvæðinu og hefur ekki þennan eiginleika væri önnur birkitegund. En samkvæmt Ashburner & McAllister (2013) er það ekki þannig. Þetta veldur því að sumir vilja frekar nota fræðiheitið Betula verrucosa en B. pendula, því það heiti á við um allar plönturnar sem tilheyra tegundinni en ekki bara sumar.

Hengibjörk nálægt skoska bænum St. Andrews. Hann er frægari fyrir golf en tré. Mynd: Sig.A.
Hengibjörk nálægt skoska bænum St. Andrews. Hann er frægari fyrir golf en tré. Mynd: Sig.A.

Rétt er að taka það fram að þetta einkennandi vaxtarlag kemur oftast ekki fram fyrr en trén fara að fullorðnast. Ung tré hafa það ekki en misjafnt er milli einstaklinga hvenær það kemur fram. Það er ef til vill svipað og með gráu hárin hjá okkur mannfólkinu. Þegar viskualdri er náð gránar hárið ef það er enn til staðar. Hvenær það gerist er misjafnt milli einstaklinga enda fullorðnast sumir á undan öðrum. Svo eru sum tré sem fá ekki hangandi greinar, rétt eins og sumt fólk fær ekki grátt hár.

Á Íslandi er víða að finna tiltölulega ungar hengibjarkir sem enn eru ekki komnar með þetta vaxtarlag. Má nefna sem dæmi að við Hlíðarbraut á Akureyri eru nokkur tré af þessari tegund sem ekki eru enn farin að mynda hangandi greinar. Þau eru af norðlægu kvæmi og þekkjast auðveldlega á því hversu snemma þau fara í haustliti. Hér er ein mynd af slíku tré. Í fyllingu tímans mun hangandi greinum fjölga á hengibjörkum Íslands en sum trén munu aldrei fá þetta vaxtarlag.

Ungar hengibjarkir hafa ekki hið dæmigerða vaxtarlag. Mynd: Sig.A.
Ungar hengibjarkir hafa ekki hið dæmigerða vaxtarlag. Mynd: Sig.A.

Þá höfum við slegið alla þá varnagla sem okkur dettur í hug og nú erum við loksins komin að efni þessa pistils. Hvaða þróunarfræðilegi ávinningur kann að hafa ýtt undir að þetta vaxtarlag hefur haldið velli?

Hér á eftir setjum við fram fáeinar tilgátur. Ef til vill eru fleiri en einn þáttur sem beina þróuninni í þessa átt. Tvær fyrstu tilgáturnar eru svo skyldar að við höfum þær í einum kafla og lítum á þær sem grein af sama meiði.

Ef til vill sést okkur yfir eitthvað en þetta eru þær tilgátur sem við teljum líklegastar.

Hengibjörk í morgunþoku. Mynd: Sig.A.
Hengibjörk í morgunþoku. Mynd: Sig.A.

Vörn gegn ásætum, sníkjujurtum og fræætum

Almennt er litið svo á að munurinn á ásætum og sníkjuplöntum sé sá að ásæturnar valdi ekki beinum skaða á trjánum á meðan sníkjujurtir stela næringu frá trjám sem þær setjast á og þurfa því ekki að ljóstillífa. Hálfsníkjujurtir eru jurtir sem stela næringu frá öðrum trjám en ljóstillífa líka. Það er miklu algengara form. Hreinar sníkjujurtir eru hættar að standa í svoleiðis veseni og hafa því ekki grænukorn. Um ásætur skrifuðum við tvo pistla árið 2022. Sá fyrri var um ásætur á trjám á Íslandi en sá seinni um ásætur í útlöndum.

Hvar er Valli og hvar er hengibjörkin? Myndin sýnir fjölbreyttar trjátegundir við bæinn Dollar í Skotlandi. Þarna eru margar glæsilegar tegundir en hengibjörkin er auðþekkt. Ætli það séu færri ásætur á henni en öðrum trjám? Mynd: Sig.A.
Hvar er Valli og hvar er hengibjörkin? Myndin sýnir fjölbreyttar trjátegundir við bæinn Dollar í Skotlandi. Þarna eru margar glæsilegar tegundir en hengibjörkin er auðþekkt. Ætli það séu færri ásætur á henni en öðrum trjám? Mynd: Sig.A.

Þótt ásætur valdi trjám ekki beinu tjóni með því að stela af þeim næringu geta þær engu að síður valdið tjóni. Þær geta skyggt á lauf trjánna og dregið úr ljóstillífun og þær geta orðið það þungar að greinar brotni. Þess vegna getur verið kostur að losna við ásætur. Þetta sést hjá mörgum tegundum trjáa. Má nefna sem dæmi að næfrar hjá birkiættkvíslinni geta gegnt þessu hlutverki að einhverju leyti. Þær flagna af stofninum og geta tekið með sér þær ásætur sem þar er að finna. Aftur á móti geta ásætur og sníkjujurtir sest að á greinum þeirra enda eru þar engar næfurþunnar næfrar. Í sumum tilfellum geta ásætur orðið þeim til tjóns. Ef greinarnar hanga og sveiflast í blænum getur það dregið verulega úr líkum þess að ásætur setjist þar að. Fræið eða gróin falla þá af greinunum í stað þess að spíra á þeim.


Fjórar myndir af glæsilegum hengibjörkum. Þrjár þær fyrstu eru teknar í Skotlandi en sú síðasta á Íslandi. Myndir: Sig.A.


Þegar tréð er ungt og í miklum vexti kann að vera ólíklegra að ásætur setjist að í trjánum. Það kann að vera ástæða þess að greinar fara ekki að hanga fyrr en tréð fer að fullorðnast. Gallinn við þessa kenningu er sá að þar sem ásætur eru algengastar í trjám, svo sem í regnskógum Suður- og Mið-Ameríku, er þetta vaxtarlag nær óþekkt hjá trjám. Ef til vill er það bara tilviljun eða þá að þar sem ásætur eru algengar dugar þetta vaxtarlag einfaldlega ekki. Að minnsta kosti virðist þróun trjáa ekki hafa dottið niður á þessa lausn þar sem þörfin er mest.

Danskar hengibjarkir í vindi. Eins og sjá má sveiflast greinarnar töluvert. Það kann að vera kostur fyrir trén. Mynd: Sig.A.
Danskar hengibjarkir í vindi. Eins og sjá má sveiflast greinarnar töluvert. Það kann að vera kostur fyrir trén. Mynd: Sig.A.

Annar ávinningur, skyldur þessum, kann að fylgja þessu vaxtarlagi. Ef til vill er erfiðara fyrir fugla að setjast á greinar sem sveiflast. Þannig kann þetta að verða til þess að færri fræ lendi í maga svangra fugla ef það vex á svona greinum.

Það er ekki auðvelt fyrir fugla að setjast á ystu greinarnar og éta af þeim fræið. Aftur á móti geta þeir vel sest á sverari greinar en þar er lítið fræ að hafa. Mynd: Sig.A.
Það er ekki auðvelt fyrir fugla að setjast á ystu greinarnar og éta af þeim fræið. Aftur á móti geta þeir vel sest á sverari greinar en þar er lítið fræ að hafa. Mynd: Sig.A.

Þol gegn snjóþyngslum

Íslenska ilmbjörkin er einstaklega illa hönnuð“ til að þola snjóþyngsli. Í hana getur safnast bleytusnjór í krónu og á greinar sem geta mölbrotnað undan þunganum. Almennt má þó segja að lauftré safna í sig minni snjó en barrtré en birkið er þarna undantekning. Hávaxnar, beinvaxnar bjarkir í útlöndum eru sennilega ekki eins útsettar fyrir þessum vandræðum en ef til vill fellur bleytusnjór auðveldar af greinum sem hanga og er því ólíklegri til að valda tjóni.

Glæsilegir haustlitir á hengibjörk í skoska smábænum Glenfarg. Mynd: Sig.A.
Glæsilegir haustlitir á hengibjörk í skoska smábænum Glenfarg. Mynd: Sig.A.

Hver veit nema þessi þróun hafi fyrst orðið hjá ilmbjörkum því ef til vill hafa þær meiri þörf fyrir þetta vaxtarlag en hengibjarkirnar. Það er þó fremur ólíkleg tilgáta en erfðaefnið, sem ber þennan eiginleika, kann að hafa borist frá ilmbjörkum til hengibjarka en ekki öfugt. Hjá hengibjörkum er þetta þó miklu algengara vaxtarlag en það er alltaf dálítið erfitt að spá í hvernig eiginleikar hafa borist milli tegunda. Svona vaxtarleg er til dæmis nokkuð algengt í hinum snjóþunga Vaglaskógi á venjulegu, íslensku birki sem ekki myndar kjarr. Hitt er þó miklu algengara í þeim fagra skógi að birkið hafi ekki þetta vaxtarlag. Í Minjasafnsgarðinum er ein ilmbjörk með þetta vaxtarlag sem við höfum sagt frá. Sniðgötubirkið á Akureyri hefur einnig þetta vaxtarlag þótt það teljist til ilmbjarka en ekki hengibjarka. Svona birki eru stundum kölluð slútbirki en ekki hengibjarkir. Fyrr í þessum pistli eru myndir af fleiri ilmbjörkum með þetta vaxtarlag.

Tvær slútbjarkir á Akureyri að vetri til. Ekki er mikill snjór á hangandi greinum. Fyrri myndin er tekin í Minjasafnsgarðinum en hin er af Sniðgötubirkinu sem reyndar stendur í garði við Munkaþverárstræti 26. Auðveldara er þó skoða tréð frá Sniðgötu. Myndir: Sig.A.


Í Eyjafirði eru til mjög norðlæg kvæmi hengibjarka sem vaxa vel en hafa ekki hangandi vaxtarlag. Að minnsta kosti ekki enn. Vel má vera að bleytusnjór sé minna vandamál eftir því sem norðar dregur því hann verður ekki til í miklu frosti. Því kann að vera minni þörf fyrir svona vaxtarlag í norðrinu. Hengibjarkir eru algengari en ilmbjarkir eftir því sem sunnar dregur.

Frosinn Kjarnaskógur með frú Margréti fyrir stafni. Geta hangandi greinar komið sér vel í snjóþyngslum? Því miður fundum við enga mynd í fórum okkar sem við höfum tekið af hengibjörkum í snjóþyngslum. Mynd: Sig.A.
Frosinn Kjarnaskógur með frú Margréti fyrir stafni. Geta hangandi greinar komið sér vel í snjóþyngslum? Því miður fundum við enga mynd í fórum okkar sem við höfum tekið af hengibjörkum í snjóþyngslum. Mynd: Sig.A.

Auðveldari ljóstillífun

Laufblöð eru græn á meðan á ljóstillífun fer fram. Grænukornin í þeim sjá um ljóstillífun. Lauf flestra trjáa eru græn á báðum hliðum. Samt er það svo að aðeins önnur hliðin snýr að sólu í einu og ljóstillífar.

Hengibjörk í haustlitum við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Hengibjörk í haustlitum við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Því hefur verið haldið fram að hugsanlegt sé að blæaspir, Populus tremula, hafi svona tindrandi lauf til að sólin geti skinið á báðar hliðar þess þegar blöðin vagga í blænum. Þess vegna heita þær blæaspir. Þá er mögulegt að þær geti ljóstillífað meira en ef blöðin væru kyrr (Wohlleben 2016). Hugsanlega á þetta einnig við um hengibjarkir. Þegar blærinn vaggar greinunum má vera að stærri hluti yfirborðs laufanna nái að ljóstillífa. Það kann að gagnast trjánum til meiri vaxtar.

Hengibjörk í glóandi síðsumarssólskini. Mynd: Sig.A.
Hengibjörk í glóandi síðsumarssólskini. Mynd: Sig.A.

Vopn í samkeppni við önnur tré

Eins og fram kemur hér framar eru allar tegundir birkiættkvíslarinnar frumbýlingar eða síðfrumbýlingar. Seinna hugtakið vísar til þess að trén eru ekki endilega fyrstu plönturnar sem nema land á röskuðum svæðum heldur koma strax í kjölfarið. Oft eru þetta fyrstu trén eða með þeim fyrstu til að nema land á nýjum svæðum en þá eru aðrar jurtir komnar áður. Smám saman koma fleiri trjátegundir inn í vistina ef þær eru til staðar í nágrenninu. Margar þeirra vaxa hægt en örugglega og að lokum vaxa sumar trjátegundir upp fyrir frumbýlingana, varpa á þær skugga og taka yfir vistina.

Þessar skosku hengibjarkir eiga það sameiginlegt að vera með nokkuð breiða krónu, enda þrengja engin tré að þeim. Myndir: Sig.A.


Þegar síðframvindutré nema land í skjóli hengibjarka munu þau tré vaxa birkinu yfir höfuð í fyllingu tímans. Þar til það gerist er mikilvægt fyrir bjarkirnar að nýta tímann vel til að mynda mikið fræ og koma því sem víðast. Í þeirri baráttu getur hvert ár skipt máli.

Ef til vill hefur þróunin leitt til þessara hangandi greina til að draga úr samkeppni við önnur tré sem vaxa upp í skjóli bjarkanna (Wohlleben 2016). Þegar önnur tré vaxa upp í skjólinu þá getur smávægilegur gustur vaggað greinum bjarkanna þannig að þær sláist utan í nýjar og viðkvæmar greinar samkeppnistrjáa og skaðað þær. Það getur seinkað því heilmikið að önnur tré vaxi birkinu yfir höfuð og varpi svo miklum skugga á það að birkið gefist upp og drepist.

Aftur er rétt að minna á að ung tré hafa ekki þetta vaxtarlag. Ef til vill er óþarfi að berja af sér samkeppnina fyrstu árin. Þá skiptir meira máli að vaxa sem hæst til að verða ekki undir í samkeppni við aðra frumbýlinga. Þegar samkeppni við síðframvindutré hefst kann að vera gott að búa yfir þessu vopni.

Þessi hengibjörk vex með skógarfurum, Pinus sylvestris, sem þrengja að henni. Getur verið að hinar hangandi greinar gefi henni vopn í samkeppni við ung tré?  Að baki sér í skóg þar sem skógarbeyki, Fagus sylvatica, er áberandi. Mynd: Sig.A.
Þessi hengibjörk vex með skógarfurum, Pinus sylvestris, sem þrengja að henni. Getur verið að hinar hangandi greinar gefi henni vopn í samkeppni við ung tré? Að baki sér í skóg þar sem skógarbeyki, Fagus sylvatica, er áberandi. Mynd: Sig.A.

Stundum kemur svona vaxtarlag fram í öðrum tegundum án þess að verða algengt. Má nefna beyki sem dæmi. Einhverra hluta vegna virðist það ekki hafa annan ávinning í för með sér en þann að verða vinsælt í garðrækt. Það kann að stafa af því að síðframvindutré, eins og beyki, hafa ekki sömu þörf til að slá frá sér samkeppnisaðila. Þeim liggur ekkert á.

Tvær myndir af fremur ungu skógarbeyki, Fagus sylvatica, með hangandi greinar sem slúta yfir fagurrauðan japanshlyn, Acer palmatum. Myndir: Sig.A.
Tvær myndir af fremur ungu skógarbeyki, Fagus sylvatica, með hangandi greinar sem slúta yfir fagurrauðan japanshlyn, Acer palmatum. Myndir: Sig.A.

Aftur á móti eru til víðitegundir í heiminum sem hafa hangandi greinar. Víðiættkvíslin, Salix, myndar frumherjatré eins og birkiættkvíslin. Því má ætla að svona vaxtarlag gagnist frumbýlingum en þó enn frekar síðfrumbýlingum betur en síðframvindutrjám.

Grátvíðir, Salix babylonica, hefur hangandi greinar. Það virðist vera algengara hjá frumbýlingum en síðframvindutrjám en þetta þekkist einnig hjá þeim. Mynd: Sig.A.
Grátvíðir, Salix babylonica, hefur hangandi greinar. Það virðist vera algengara hjá frumbýlingum en síðframvindutrjám en þetta þekkist einnig hjá þeim. Mynd: Sig.A.

Samantekt

Við byrjuðum þennan pistil að velta fyrir okkur erfðaflæði milli tegunda birkiættkvíslarinnar og hvort það geti ráðið einhverju um hangandi greinar hjá íslenska birkinu. Svo var gerð tilraun til að segja frá fáeinum tilgátum sem skýrt geta þetta einkennandi vaxtarlag sem sóst er eftir af trjáræktendum. Við settum fram eftirfarandi tilgátur. Í fyrsta lagi getur þetta vaxtarlag verið vörn gegn ásætum, sníkjujurtum og fræætum. Hugsanlega er þetta vörn í snjóþyngslum eða leið til að auðvelda ljóstillífun eða vopn í samkeppni við önnur tré.

Myndirnar sýna dæmigerðar greinar á hengibirki í Kjarnaskógi. Af hverju hanga greinarnar svona? Myndir: Sig.A.


Hver þessara þátta skiptir mestu máli vitum við ekki. Við vitum ekki einu sinni hvort nokkur þeirra skiptir máli. En við vitum að þetta vaxtarlag er til og innan birkiættkvíslarinnar, Betula, er það fyrst og fremst að finna hjá þessari tegund. Samt er það ekki hjá öllum trjám tegundarinnar. Þetta er því varla eitthvað sem varð til í árdaga tegundarinnar og einkennir hana alla, heldur eitthvað sem komið hefur inn seinna og breiðst út. Því má ætla að þessu fylgi einhverjir kostir sem ýta undir að eiginleikinn breiðist út.

Hvernig sem á þessu stendur getum við fullyrt að þetta gefur trjánum sérstakan og einkennandi svip.

Auðvelt er að þekkja hengibjarkir af löngu færi. Hér vaxa þær í garði við jaðar skoska hálendisins við bæinn Dunkeld. Mynd: Sig.A.
Auðvelt er að þekkja hengibjarkir af löngu færi. Hér vaxa þær í garði við jaðar skoska hálendisins við bæinn Dunkeld. Mynd: Sig.A.

 

Heimildir:


Kenneth Ashburner & Hugh A. McAllister (2013): The Genus Betula. A Taxonomic Revision of Birches. Kew Publishing. Royal Botanic Gardens, Kew.


Peter Wohlleben (2016): The Hidden Life of Trees. What They Feel, How they Communicate. 28. kafli. David Suzuku Institute. Greystone Books. Vancouver, BC, Canada.

Haustmyndir af sama trénu sem stendur við bílageymslu í bænum Glenfarg. Myndir Sig.A. frá september til nóvember 2025.

Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page