top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Gamla-Gróðrarstöðin og garðyrkjuskólinn sem aldrei varð

Um aldamótin 1900 var mikil vakning í ræktunarmálum á Íslandi. Þá var reynt að virkja almenning til fjölbreyttrar ræktunar og á þremur stöðum í Eyjafirði eru merkilegir trjáreitir eða -garðar frá þessum tíma. Fyrst ber að nefna Grundarreit sem hefur áður borið á góma og er ótvírætt systurreitur Furulundarins á Þingvöllum, enda stóðu sömu menn fyrir ræktun beggja þessara reita og í sama tilgangi. Hér og hér má sjá pistla þar sem Grundarreit er gert hátt undir höfði. Svo má nefna Minjasafnsgarðinn. Til hans var stofnað skömmu fyrir aldamótin 1900 og fóru þar fram tilraunir með tré og annan gróður. Um þann garð höfum við skrifað sérstakan pistil sem sjá má hér og að auki höfum við skrifað um einstök tré í garðinum. Fljótt kom í ljós að hann var of lítill fyrir yfirgripsmiklar tilraunir með trjárækt og þá kom þriðji reiturinn til sögunnar. Hann er efni þessa pistils. Fyrsta kastið gekk garðurinn undir nafninu Gróðrarstöðin meðal almennings. Stöðinni var komið á fót við Naustagil árið 1904 og þar má enn finna fögur og tignarleg tré sem plantað var í tilraunaskyni snemma á öldinni sem leið.

Mynd úr grein Bjarna E. Guðleifssonar og Hallgríms Indriðasonar frá árinu 2012 sem væntanlega er tekin árið 1904 þegar framkvæmdir eru að hefjast á vegum Ræktunarfélags Norðurlands. Skúrinn á myndinni er um það bil þar sem Iðnaðarsafnið er í dag. Höfundur myndar er ókunnur.
Mynd úr grein Bjarna E. Guðleifssonar og Hallgríms Indriðasonar frá árinu 2012 sem væntanlega er tekin árið 1904 þegar framkvæmdir eru að hefjast á vegum Ræktunarfélags Norðurlands. Skúrinn á myndinni er um það bil þar sem Iðnaðarsafnið er í dag. Höfundur myndar er ókunnur.

Útdráttur

Í þessum pistli er sagt frá Gömlu-Gróðrarstöðinni á Krókeyri. Garðurinn við húsið er einn af þremur trjáreitum í Eyjafirði frá fyrstu árum síðustu aldar, Stöðin var formlega stofnuð árið 1904 af Ræktunarfélagi Norðurlands sem tók til starfa ári áður. Í greininni er stiklað á stóru í sögu garðsins og sýndar gamlar og nýjar myndir úr honum.  Einnig segjum við frá hugmyndum sem uppi voru um að stofna garðyrkjuskóla á staðnum og hvernig það mál var svæft í nefnd á sínum tíma. Að lokum segjum við frá hugmyndum um að svæðið verði trjásafn sem gæti orðið hluti af safnasvæðinu á Krókeyri.

Nú er þarna að finna fjölbreyttan og fagran gróður. Hengibjörkin á myndinni er um 12,5 metrar á hæð. Hver hefði trúað því árið 1904? Mynd: Sig.A.
Nú er þarna að finna fjölbreyttan og fagran gróður. Hengibjörkin á myndinni er um 12,5 metrar á hæð. Hver hefði trúað því árið 1904? Mynd: Sig.A.

Stofnun

Árið 1903 var hið merkilega félag Ræktunarfélag Norðurlands stofnað. Fyrsti formaður þess var Páll Briem (1856-1904) amtmaður sem einnig hafði komið við sögu þegar Trjáræktarstöðin var stofnuð þar sem nú er Minjasafnsgarðurinn. Að félaginu stóð áhugafólk um ræktun en markmið þess var að virkja vísindin í þágu atvinnulífsins og hafa forgöngu um jarðræktartilraunir og kennslu í jarðrækt. (Ásta og Björgvin 2012, bls. 10 og 11).

Í garðinum má sjá styttur af frumkvöðlunum Sigurði Sigurðarsyni og Páli Briem.
Í garðinum má sjá styttur af frumkvöðlunum Sigurði Sigurðarsyni og Páli Briem.

Hugmyndin að stofnun félagsins mun upphaflega hafa komið frá Sigurði Sigurðarsyni (1871-1940) sem seinna varð búnaðarmálastjóri (Ásta og Björgvin 2012, bls. 10) og fyrsti formaður Skógræktarfélags Íslands sem stofnað var á Þingvöllum í júní árið 1930. Enn er ónefndur þriðji mikilsvirti ræktunarhugsjónamaðurinn sem í upphafi lagði einnig sín lóð á þessa vogarskál ræktunarmála. Það var Stefán Stefánsson frá Möðruvöllum.

Árið 1906 var reist íbúðarhús fyrir tilraunastjóra Ræktunarfélagsins. Þetta hús stendur enn og nú hýsir það starfsmenn Lands og skógar. Myndin var sennilega tekin árið 1910 og við fengum hana úr grein Bjarna og Hallgríms frá árinu 2012. Mynd: Hallgrímur Einarsson/Minjasafnið á Akureyri.
Árið 1906 var reist íbúðarhús fyrir tilraunastjóra Ræktunarfélagsins. Þetta hús stendur enn og nú hýsir það starfsmenn Lands og skógar. Myndin var sennilega tekin árið 1910 og við fengum hana úr grein Bjarna og Hallgríms frá árinu 2012. Mynd: Hallgrímur Einarsson/Minjasafnið á Akureyri.
Benjamín Davíðsson stendur við gamalt lerki sem farið er að halla meira en ráðlegt er. Fyrr eða síðar mun það falla. Þessi gróður er á gamla tilraunasvæðinu við Gömlu-Gróðrarstöðina. Mynd: Sig.A.
Benjamín Davíðsson stendur við gamalt lerki sem farið er að halla meira en ráðlegt er. Fyrr eða síðar mun það falla. Þessi gróður er á gamla tilraunasvæðinu við Gömlu-Gróðrarstöðina. Mynd: Sig.A.

Nafnið

Þegar þessi gróðrarstöð Ræktunarfélags Norðurlands var stofnuð fékk hún fyrst hið virðulega nafn Aðaltilraunastöð Ræktunarfélags Norðurlands en síðar gekk hún undir nafninu Gróðrarstöðin. Á sama tíma var eldri garðurinn, sem nú heitir Minjasafnsgarður, kallaður Trjáræktarstöðin. Árið 1947 var stofnuð gróðrarstöð á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarna. Þessar gróðurstöðvar þurfti að greina að og þá var farið að tala um Gömlu-Gróðrarstöðina. Heitið Gróðrarstöðin hafði með tímanum fest í sessi þótt það hefði ekki verið hugsað þannig í byrjun. Sama ár og Skógræktarfélagið stofnaði gróðrarstöð, eða 1947, tók ríkið við rekstri stöðvar Ræktunarfélagsins. Hið opinbera heiti var þá Tilraunastöðin á Akureyri. Árið 1974 var stöðin flutt að Möðruvöllum í Hörgárdal (Bjarni og Hallgrímur 2012).

Í garðinum eru falleg og fjölbreytt tré. Lengst til vinstri er glæsilegur garðahlynur sem talið er að hafi verið gróðursettur um 1930. Hæsta tréð á myndinni er bergfura 13,6 m há, sem gróðursett var tíu árum áður. Lengst til hægri sér í reynivið sem vex upp af rótum eldra trés sem kann að hafa verið gróðursett snemma á öldinni sem leið. Mynd: Sig.A.
Í garðinum eru falleg og fjölbreytt tré. Lengst til vinstri er glæsilegur garðahlynur sem talið er að hafi verið gróðursettur um 1930. Hæsta tréð á myndinni er bergfura 13,6 m há, sem gróðursett var tíu árum áður. Lengst til hægri sér í reynivið sem vex upp af rótum eldra trés sem kann að hafa verið gróðursett snemma á öldinni sem leið. Mynd: Sig.A.

Ræktunarfélag Norðurlands fékk til afnota um þriggja hektara land í kringum Naustagil og rúma fimm hektara uppi á brekkunni, sunnan við Naustatúnið sem þar var. Þetta voru því samtals rúmir átta hektarar sem Akureyrarbær afhenti félaginu til afnota árið 1903. Þar hófust tilraunir með ræktun ýmissa jurta og trjáa ári síðar og er miðað við það ár sem stofnár Gömlu-Gróðrarstöðvarinnar. Sama ár hófust einnig tilraunir með notkun áburðar og voru í því sambandi gerðar uppskerumælingar við mismunandi aðstæður. Það sem nú er mest áberandi á þessum átta hekturum eru trén sem plantað var í tilraunaskyni (Bjarni og Hallgrímur 2012).


Horft yfir Gróðrarstöðina um árið 1930. Krókeyrin til vinstri á myndinni. Aðalræktunarsvæði trjáa er á milli íbúðarhússins og verkfærahússins sem er um það bil þar sem Iðnaðarsafnið stendur í dag. Einnig sést að trjágróður teygir sig upp eftir Naustagilinu til hægri á myndinni. Myndina fengum við úr grein Bjarna og Hallgríms frá árinu 2012 en hana tók Vigfús Sigurgeirsson.
Horft yfir Gróðrarstöðina um árið 1930. Krókeyrin til vinstri á myndinni. Aðalræktunarsvæði trjáa er á milli íbúðarhússins og verkfærahússins sem er um það bil þar sem Iðnaðarsafnið stendur í dag. Einnig sést að trjágróður teygir sig upp eftir Naustagilinu til hægri á myndinni. Myndina fengum við úr grein Bjarna og Hallgríms frá árinu 2012 en hana tók Vigfús Sigurgeirsson.
Nú er hinn fegursti garður upp með Naustagilinu sem sést á myndinni hér að ofan. Þetta er óþarflega vel varðveitt leyndarmál á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Nú er hinn fegursti garður upp með Naustagilinu sem sést á myndinni hér að ofan. Þetta er óþarflega vel varðveitt leyndarmál á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Upphaf trjáræktartilrauna

Strax í annarri ársskýrslu Ræktunarfélagsins frá árinu 1904 er sagt frá miklu magni trjá- og runnategunda sem plantað var við Gróðrarstöðina. Mest af þeim kom þangað frá Trjáræktarstöðinni eins og vænta mátti. Rauðgreni, skógarfura, fjallafura, reynir, baunatré (garðakergi), evrópulerki og gulvíðir frá Sörlastöðum eru nefnd í skýrslunni og að auki ýmsar innfluttar runnategundir. Í skýrslunni er einnig nefnt að fræjum sumra tegunda hafi verið sáð. Þeir Bjarni E. Guðleifsson og Hallgrímur Indriðason nefna í grein frá árinu 2012 að þetta hafi verið tegundir eins og lindifura, gráelri og birki. Af síðastnefndu tegundinni var bæði sáð norsku og íslensku fræi. Því liggur uppruni þeirra gömlu birkitrjáa sem finna má í garðinum ekki fyrir. Aftur á móti eru þau æði fjölbreytt að útliti og vexti. Elstu birki- og reynitrén eru farin að týna tölunni og hafa verið felld eitt af öðru vegna elli.

Tvær myndir af Gömlu Gróðrarstöðinni teknar með um aldarfjórðungs millibili. Þá fyrri tók Aðalsteinn Svanur Sigfússon nálægt aldamótunum 2000 en þá seinni tók Sig.A. vorið 2025. Á henni sést blóðheggur sem orðinn er 11,5 m á hæð. Einnig sést að birkið, til hægri á myndunum, hefur vaxið töluvert á þessum tíma. Það er nú á fallandi fæti vegna aldurs.


Þremur árum síðar, eða árið 1907, hefur eitthvað grisjast úr þessum fjölda sem ræktaður var fyrir almenning. Þá eru nokkrar runnategundir á boðstólum fyrir bændur en af trjánum er aðeins getið um reyni, birki og gráelri (Bjarni og Hallgrímur 2012). Í grein frá árinu 1909, eða aðeins fimm árum eftir að tilraunirnar hófust við Naustagil, skrifaði Sigurður Sigurðarson grein og lýsti þar hvaða trjá- og runnategundir hann teldi að ættu sér von á Íslandi miðað við þessa stuttu reynslu. Trjátegundirnar voru: Skógarfura, fjallafura, lindifura (tvísýnt), rauðgreni, balsamþinur, síberíulerki (best barrtrjáa), björk, reynir, silfurreynir (sem sennilega var gráreynir), gráelri, heggur (tvísýnt), gulvíðir og gullregn (Bjarni og Hallgrímur 2012).

Önnur mynd af Gömlu-Gróðrarstöðinni tekin snemma árs 2025. Sjá má upplýsingaskilti um garðinn á myndinni og vegleg, gömul tré. Þau voru áður hluti af trjágöngum sem náðu frá húsinu að verkfæraskúrnum sem sést á myndum hér ofar. Garðurinn er opinn öllum almenningi. Mynd: Sig.A.
Önnur mynd af Gömlu-Gróðrarstöðinni tekin snemma árs 2025. Sjá má upplýsingaskilti um garðinn á myndinni og vegleg, gömul tré. Þau voru áður hluti af trjágöngum sem náðu frá húsinu að verkfæraskúrnum sem sést á myndum hér ofar. Garðurinn er opinn öllum almenningi. Mynd: Sig.A.

Markmið

Ræktunarfélag Norðurlands hafði að markmiði sínu að koma fræðslu til bænda og ræktenda. Félagið lagði einnig mikinn metnað í að koma trjáplöntum til bænda og annarra ræktenda sem víðast. Má nefna sem dæmi að á árunum 1911-1912 voru sendar út um 2.000 plöntur til bænda.

Í bókinni Aldnir hafa orðið frá árinu 1972 er viðtal við Jón Rögnvaldsson, sem kom að stofnun Skógræktarfélags Eyfirðinga og var fyrsti formaður þess. Hann fór sem unglingur á námskeið hjá Ræktunarfélagi Norðlendinga í Gróðrarstöðinni, sem þá var kölluð, og lýsti þeim áhrifum sem Sigurður Sigurðarson hafði á bændur á þessum tíma með eldmóði sínum. Jón segir í þeirri bók að stöðugur straumur fólks hafi legið til Sigurðar á sumrin og að eldhuginn hafi kveikt neista sem örvaði bændur í ræktunarmálum (Erlingur 1972). Þarna voru ræktunarnámskeið haldin fyrir almenning á hverju vori í mörg ár.

Eins og sjá má á þessari mynd voru ekki bara gerðar tilraunir með trjágróður við Gróðrarstöðina, heldur einnig túnrækt og fleira. Myndina fengum við úr grein Bjarna og Hallgríms (2012). Hún er talin tekin um 1930 en höfundur er ókunnur.
Eins og sjá má á þessari mynd voru ekki bara gerðar tilraunir með trjágróður við Gróðrarstöðina, heldur einnig túnrækt og fleira. Myndina fengum við úr grein Bjarna og Hallgríms (2012). Hún er talin tekin um 1930 en höfundur er ókunnur.
Um svipað leyti og næsta mynd að ofan var tekin var þessum glæsilega garðahlyn plantað í garðinn. Þar sem við teljum hann vera glæsilegasta tréð í garðinum þótti okkur við hæfi að fá glæsilegasta starfsmann Lands og skógar, sjálfan Benjamín Davíðsson, til að standa undir trénu sem nú er 11,1 m á hæð. Benjamín er dálítið lægri. Mynd: Sig.A.
Um svipað leyti og næsta mynd að ofan var tekin var þessum glæsilega garðahlyn plantað í garðinn. Þar sem við teljum hann vera glæsilegasta tréð í garðinum þótti okkur við hæfi að fá glæsilegasta starfsmann Lands og skógar, sjálfan Benjamín Davíðsson, til að standa undir trénu sem nú er 11,1 m á hæð. Benjamín er dálítið lægri. Mynd: Sig.A.

Ræktunarfélagið var stofnað í því skyni að rannsaka og efla hefðbundinn landbúnað en áhugi á skógrækt kom ljóslega fram í stefnumálum félagsins. Hlutverk þess var meðal annars að rækta tré, útvega mönnum trjáplöntur og kenna gróðursetningu og umhirðu plantna. Þetta sést einnig í Ársritum Ræktunarfélagsins sem komu út nær árlega frá 1903 til 1989. Má nefna greinar eftir Sigurð Sigurðarson sem vísað er í hér ofar. Annar framkvæmdastjóri félagsins, Jakob H. Líndal, skrifaði mjög ítarlega grein um trjárækt í ritið árið 1916 sem telja verður merka heimild og svona mætti áfram telja.

Athygli vekur að á þessum árum er aldrei talað um skógrækt, heldur trjárækt. Þetta var væntanlega fyrst og fremst hugsað sem fáein tré til prýði við bæina í sveitum landsins (Bjarni og Hallgrímur 2012). Löngu seinna var farið að planta skjólbeltum og samfelldum skógum, landi og þjóð til heilla.

Sum af elstu trjánum  eru á fallandi fæti. Þörf er á að endurnýja þau. Neðst fyrir miðri mynd má sjá skilti með upplýsingum fyrir almenning um garðinn. Upplýsingaskiltið mætti líka endurnýja ásamt skiltum við merk tré í garðinum. Mynd: Sig.A.
Sum af elstu trjánum eru á fallandi fæti. Þörf er á að endurnýja þau. Neðst fyrir miðri mynd má sjá skilti með upplýsingum fyrir almenning um garðinn. Upplýsingaskiltið mætti líka endurnýja ásamt skiltum við merk tré í garðinum. Mynd: Sig.A.

Árangur fyrstu árin

Árið 1916 skrifaði Jakob H. Líndal merka grein í Ársrit Ræktunarfélagsins. Greinin er í raun ítarleg skýrsla um árangur trjáplantnanna í Trjáræktarstöðinni og Gróðrarstöðinni. Hann lýsir vexti og þroska trjágróðurs á báðum stöðum. Gætir þar mikillar aðdáunar á þeim gróðri sem þar er að finna og höfundur gefur góð ráð um ræktun, meðal annars um mikilvægi þess að velja trjám stað þar sem jarðvegur hentar. Í þessari grein má finna fallega lýsingu á trjáplöntunum.

„Í góðum jarðvegi má heita að þær þjóti upp, þrýstnar og þroskamiklar eins og gras í góðviðri. Oss finnst þær iða af æskufjöri, þar sem þær vagga sjer í vindblænum, kinnka glettnislega til vor kolli eins og til að segja: „Lítið á okkur! Við vorum eitt sinn litlar, en þið stór: bráðum eruð þið lítil en við stórar.“

Hér má sjá þessa merku grein. Samtals nefnir Jakob þar 33 tegundir trjáa og runna. Sennilega er þetta fyrsta uppgjör á trjáræktartilraunum á Íslandi og verðskuldar það sérstaka umfjöllun. Því segjum við ekki meira frá því í bili, nema hvað hann nefnir sérstaklega trjágöng norður frá íbúðarhúsinu. Göngin mynduðu birkitré sem plantað var 1905 og voru 2,5-3,75 m há þegar þarna var komið við sögu og reynir sem plantað var 1910 og var tæpir tveir metrar á hæð.

Eftir að Jakob lét af störfum héldu aðrir starfsmenn stöðvarinnar áfram trjámælingum og birtu niðurstöðurnar í Ársriti Ræktunarfélagsins á hverju ári um margra ára skeið.

Í tilefni tíu ára afmælis félagsins árið 1913 flutti þáverandi formaður þess erindi, hinn kunni grasafræðingur Stefán Stefánsson. Hann fjallar meðal annars um trjáræktartilraunirnar og telur að innlendu tegundirnar beri af. Þeir Bjarni E. Guðleifsson og Hallgrímur Indriðason (2012) birtu eftirfarandi klausu úr erindinu: „Eftir nokkra áratugi ættu laufgaðar limkrónur að bærast yfir hverjum bæ, hverju koti, og ilmandi birkilundar að vaxa þar sem nú má sjá ógeðslega sorphauga og fúlar forarvilpur. Skortur á fegurðartilfinningu og ræktarsemi við landið okkar geta hamlað því að svo verði, ekkert annað.“


Fyrsta myndin sýnir skilti sem sett var upp við eitt af þessum fyrstu reynitrjám. Aftan við skiltið sést stofn þess. Miðmyndin sýnir skiltið en síðasta myndin sýnir nýsagaðan stofn. Sjá má að fúa gætir í kjarnviðnum, enda var tréð að drepast, var farið að hallast mjög og því þótti öruggast að fella það. Myndir: Sig.A.


Stofnun garðyrkjuskóla

Einn af ármönnum skógræktar og garðyrkju á Norðurlandi, Jón Rögnvaldsson, sótti á unga aldri námskeið í Gömlu-Gróðrarstöðinni eins og áður er nefnt. Að auki vann hann þar nokkur sumur. Löngu seinna sótti hann fast að stofnaður yrði garðyrkjuskóli á Akureyri. Taldi hann einsýnt að skólinn ætti að vera staðsettur í Gömlu-Gróðrarstöðinni.

Málið var komið á góðan rekspöl og tekið fyrir á hinu háa Alþingi. Varðveitt eru bréf úr bréfasafni Jóns er tengjast garðyrkjuskólamálinu og má nota þau að nokkru til að rekja sögu málsins. Er í sumum þeirra talað um að endurreisa garðyrkjuskóla í Gróðrarstöðinni. Athygli vekur að Jón hafði fjölmargar konur og heilu kvenfélögin í liði með sér til að stofna þennan skóla. Einnig komu að málinu menn eins og Óli Valur Hansson, sem allt eldra skógræktarfólk man vel eftir, sem og fleiri mætir menn úr græna geiranum. Bréfin, sem varðveitt eru, eru skrifuð árið 1964 til 1968.

Þannig er til dæmis bréf frá Sambandi sunnlenzkra kvenna, ritað 12. janúar 1966, þar sem Jón er hvattur til dáða í málinu. Undir bréfið skrifar Ragna. Það að ekki skuli vera ritað fullt nafn undir bréfið bendir til að þetta hafi ekki verið fyrsta bréfið sem þeim fór á milli. Ekki létu norðlenskar konur sitt eftir liggja. Má nefna bréf Halldóru Gunnlaugsdóttur frá Ærlæk í Öxarfirði sem ritað var 5. maí 1966 og nokkur bréf sem Halldóra Brjánsdóttir á Blönduósi undirritaði. Hún sendi Jóni einnig afrit af bréfum sem hún skrifaði til þingmanna og ráðherra um málið. Hinn 9. apríl 1965 skoruðu félagasamtök í Eyjafirði á Alþingi að samþykkja þingsályktunartillögu sem þingmenn kjördæmisins lögðu fram. Félögin voru Kvenfélagasamband Akureyrarbæjar, Kvenfélagasamband Inn-Eyjafjarðar, Kvenfélagasamband Út-Eyjafjarðar og Fegrunarfélag Akureyrar.

Ekki er hér pláss til að rekja efni allra þeirra bréfa sem Jóni bárust um málið en við getum ekki stillt okkur um að nefna sum þeirra.

Í grein okkar um Jón Rögnvaldsson kemur víða fram hve stórhuga hann var. Það á þó ekki við um endurreisn garðyrkjuskóla á svæðinu. Til er bréf, undirritað af honum og Ármanni Dalmannssyni, sem var um tíma formaður Skógræktarfélagsins, þar sem þeir lýsa hugmyndum sínum. Bréfið er dagsett 15. febrúar 1967. Samkvæmt hugmyndunum sem uppi voru átti garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi að vera höfuð garðyrkjunáms í landinu en í Gróðrarstöðinni átti aðeins að vera lítill skóli eða eins konar útibú. Skólinn átti að vera staðsettur þar sem Gamla-Gróðrarstöðin er nú og taka til starfa 1. mars 1968. Við skólann vildu þeir að yrði ráðinn einn fastur kennari eða skólastjóri og tímakennarar ef á þyrfti að halda. Skólann átti fyrst um sinn að starfrækja í átta mánuði á ári og taka allt að tíu nemendur. Leggja átti áherslu á verklega kennslu en einnig nokkurt bóklegt nám“. Leggja átti áherslu á almenna útigarðrækt og plöntuuppeldi svo sem á fjölærum skrúðgarðaplöntum, skraut- og berjarunnum að ógleymdri grænmetisrækt. Til fjármögnunar gerðu þeir ráð fyrir að skólinn hefði garðplöntur til sölu og skólastjórinn gæti veitt ráðgjöf og leiðbeiningar til almennings fjóra mánuði á ári. Ekki þótti öllum sem þetta væru miklar kröfur. Hafliði Jónsson, garðyrkjustjóri í Reykjavík hafði fengið bréf frá Jóni ári áður og svaraði því 12. febrúar 1966. Þar segir hann að réttara væri að auka kröfurnar sem gerðar séu til garðyrkjunáms. Bréfið er hið skemmtilegasta og hann undirritar það sem einlægur bróðir í þrautum garðyrkjuvandamálanna“. Annað bréf skrifaði Hafliði til Jóns um skólamál á Akureyri 3. febrúar 1966. Það er fæðingardagur þess er tók þennan pistil saman. Í báðum bréfunum kemur fram að Hafliði hafði litla trú á að garðyrkjuskóli gæti orðið að veruleika á Akureyri, en ljóst er á bréfunum að þeir Hafliði og Jón hafa verið miklir mátar.

Álmur sunnan við Gömlu-Gróðrarstöðina sem var gróðursettur um 1980. Jón Rögnvaldsson, stofnandi og fyrsti formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, vildi að þarna yrði starfræktur garðyrkjuskóli. Mynd: Sig.A.
Álmur sunnan við Gömlu-Gróðrarstöðina sem var gróðursettur um 1980. Jón Rögnvaldsson, stofnandi og fyrsti formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, vildi að þarna yrði starfræktur garðyrkjuskóli. Mynd: Sig.A.

Svo fór að málið var sett í nefnd og henni stýrði Pétur Gunnarsson, forstjóri Búnaðardeildar Háskólans við Hringbraut. Varðveitt eru nokkur bréf sem Óli Valur Hansson skrifaði, með sinni fögru rithendi, til vinar síns Jóns Rögnvaldssonar. Eitt þeirra bréfa er dagsett 1. september 1966. Þar segir Óli Valur að fyrst Pétur Gunnarsson sé formaður nefndarinnar telji hann víst að málið sé dauðadæmt. Hann segir engar líkur á því að Pétur muni samþykkja nýjan skóla á Norðurlandi.

Jóhann Pálsson og Óli Valur Hansson á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Klaustri árið 1994. Myndirnar eru skannaðar litskyggnur og mættu vera í betri upplausn. Báðir voru þeir miklir atorkumenn sem létu verkin tala. Báðir komu þeir við sögu garðsins við Gömlu-Gróðrarstöðina, hvor með sínum hætti. Mynd: Sig.A.
Jóhann Pálsson og Óli Valur Hansson á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Klaustri árið 1994. Myndirnar eru skannaðar litskyggnur og mættu vera í betri upplausn. Báðir voru þeir miklir atorkumenn sem létu verkin tala. Báðir komu þeir við sögu garðsins við Gömlu-Gróðrarstöðina, hvor með sínum hætti. Mynd: Sig.A.

Jón vildi þó láta á þetta reyna. Hann hafði skrifað Pétri bréf 29. ágúst 1966. Jón lét sér ekki duga að senda honum einum bréf, heldur sendi hann einnig bréf á aðra nefndarmenn. Má nefna sem dæmi að varðveitt er bréf sem Jón skrifaði Halldóri Pálssyni sem þá var búnaðarmálastjóri. Hann var þá í nefnd þeirri er ráðherra hafði skipað. Bréfið er dagsett 22. mars 1967 og þar hvetur Jón Halldór til góðra verka og segir að garðyrkjuskóli á Norðurlandi gæti hjálpað til við að ná jafnvægi í byggðum landsins. Annað bréf skrifaði Jón til Pálma Einarssonar, sem einnig var í nefndinni. Það bréf er skráð 7. apríl 1967. Samkvæmt því hafði nefndin þá haft málið til umsagnar í rúmt ár. Jón skrifar: Hafa þingmenn allra flokka hjer í kjördæminu lofað að fylgja málinu fram til sigurs“.

Jón reyndi einnig að þoka málinu með bréfi til Ingólfs Jónssonar, landbúnaðarráðherra, 14. apríl 1967, en það skilaði litlu. Ingólfur var landbúnaðarráðherra frá 20. nóvember 1959 til 14. júlí 1971, eða allan þann tíma sem málið var til umræðu. Í bréfasafni Jóns Rögnvaldssonar eru engin svarbréf frá nefndarmönnum. Ef þau hafa borist hefur Jón ekki varðveitt þau. Þegar þessar dagsetningar eru skoðaðar sést að sennilega hafði Óli Valur rétt fyrir sér. Málið var svæft í nefnd eins og til stóð og enginn skóli var stofnaður.

Síðasta bréfið frá Jóni er málið varðar og við höfum undir höndum er skrifað 9. janúar 1968 þar sem hann hvetur þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra að taka málið upp að nýju. Ekkert varð úr því.

Til vinstri er glæsileg bergfura og til hægri er ilmreynir. Bæði eru trén frá árdögum skógræktar. Reynirinn hafði fúnað og var felldur en hann endurnýjar sig með teinungi frá rótarhálsi. Stofnar þess eru því miklu yngri en rótin. Mynd: Sig.A.
Til vinstri er glæsileg bergfura og til hægri er ilmreynir. Bæði eru trén frá árdögum skógræktar. Reynirinn hafði fúnað og var felldur en hann endurnýjar sig með teinungi frá rótarhálsi. Stofnar þess eru því miklu yngri en rótin. Mynd: Sig.A.

Seinni tímar

Smám saman færðust áherslur Ræktunarfélagsins meira yfir á hefðbundinn landbúnað en aðrir aðilar tóku við trjáræktartilraunum á landinu. Tilraunir við Gömlu-Gróðrarstöðina voru formlega lagðar af árið 1974 þegar jarðræktartilraunir voru fluttar að Möðruvöllum í Hörgárdal en þá var löngu hætt að sinna trjágróðri í garðinum. Á þeim tímamótum eignaðist Akureyrarbær landið aftur og byggingarnar fylgdu með (Bjarni og Hallgrímur 2012).

Síberíuþyrnir frá árdögum stöðvarinnar er fallinn en neitar að gefast upp. Eins og sjá má á laufunum stendur hann nærri hlyntré en þyrnirinn sjálfur var lauflaus þegar myndin var tekinn 14. október 2025. Mynd: Sigríður Hrefna Pálsdóttir.
Síberíuþyrnir frá árdögum stöðvarinnar er fallinn en neitar að gefast upp. Eins og sjá má á laufunum stendur hann nærri hlyntré en þyrnirinn sjálfur var lauflaus þegar myndin var tekinn 14. október 2025. Mynd: Sigríður Hrefna Pálsdóttir.

Garðurinn var kominn í mikla niðurníðslu upp úr miðri öldinni sem leið (Bjarni og Hallgrímur 2012), enda var þá hætt að stunda ræktunartilraunir með tré og runna. Eftir stóðu margar af þeim trjáplöntum sem reyndar höfðu verið. Því var það að Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk að vera með plöntuuppeldi í græðireitum Ræktunarfélagsins á árunum 1955-1963.

Árið 2005 fengu Skógrækt ríkisins og Norðurlandsskógar afnot af Gömlu- Gróðrarstöðinni. Seinna voru stofnanir ríkisins sem unnu að skógræktarmálum sameinaðar undir nafninu Skógræktin. Nýlega voru Skógræktin og Landgræðslan sameinaðar undir nafninu Land og skógur. Því eru það starfsmenn Lands og skógar sem nú hafa starfsaðstöðu í húsinu. Umsjón garðsins er á höndum bæjarins þótt starfsfólk Lands og skógar leggi þar nokkurt lið, einkum við umhirðu framan við húsið en einnig við snyrtingu og fellingu trjáa og stöku gróðursetningu.

Þarna er núna glæsilegur unaðsreitur sem vert er að heimsækja. Mynd: Sig.A.
Þarna er núna glæsilegur unaðsreitur sem vert er að heimsækja. Mynd: Sig.A.

Staðan

Enn eru allnokkur tré uppistandandi í garðinum frá allrafyrstu árum stöðvarinnar en þau eru mjög farin að týna tölunni. Sumar tegundir, eins og birki, reyniviður og gráelri, eru þarna enn frá fyrstu áratugunum en hefur fækkað mjög. Samt sem áður setja meira en aldargömul tré enn mikinn svip á þessa leyndu perlu í bænum. Þarna eru til dæmis gömul og virðuleg rauðgreni- og lerkitré sem að líkindum eru frá þessum árum.

Mörg trjánna hafa verið merkt þannig að áhugafólk getur gengið um garðinn og skoðað þessa öldunga og fræðst um nöfn þeirra. Auðvitað mætti gera miklu betur, endurnýja og fjölga upplýsingaskiltum og merkja gönguleiðir. Þannig mætti halda áfram að stuðla að því markmiði hins gamla Ræktunarfélags Norðurlands að útbreiða þekkingu og áhuga á trjárækt.

Sum trén eru orðin æði stofnfúin og er full þörf á að endurnýja þau. Önnur geta lifað lengi enn. Auðvitað er full ástæða til að endurnýja þær tegundir sem farnar eru að láta á sjá og bæta við tegundum. Reyndar hefur nokkuð bæst við af tegundum á síðari árum svo sem eik, nokkrar þintegundir, eplatré og fleira.


Tafla sem sýnir hæð nokkurra trjátegunda í garðinum vorið 2025. Mælingarnar gerði Benjamín Davíðsson. Allar eru tegundirnar í garðinum norðan og vestan við húsið nema þær tvær síðasttöldu sem eru neðan við línuna í töflunni. Þær eru yngri og standa báðar framan við húsið.
Tafla sem sýnir hæð nokkurra trjátegunda í garðinum vorið 2025. Mælingarnar gerði Benjamín Davíðsson. Allar eru tegundirnar í garðinum norðan og vestan við húsið nema þær tvær síðasttöldu sem eru neðan við línuna í töflunni. Þær eru yngri og standa báðar framan við húsið.

Í gildandi deiliskipulag á svæðinu, sem kallast „Gróðrarstöð og safnasvæði við Krókeyri“, er gert ráð fyrir að þarna sé safnasvæði.

Í nágrenninu eru Mótorhjólasafn Íslands og Iðnaðarsafnið á Akureyri. Stutt er frá svæðinu að Minjasafninu, Nonnasafni og fleiri söfnun í norðurátt og Flugsafnið er nokkru sunnan við svæðið. Vel má hugsa sér að þarna megi stofnsetja einhvers konar safn um sögu og upphaf trjáræktar á Akureyri. Ef til vill getur þetta orðið hluti af trjásafni eða arboretum í framtíðinni. Til dæmis hugsa sér fræðslustíg á öllu svæðinu frá Lystigarðinum, gegnum Fjöruna og alla leið upp í Kjarnaskóg, ef vilji er fyrir hendi. Það væri mjög í anda Jóns Rögnvaldssonar sem hafði uppi hugmyndir um að þarna yrði trjásafn.

Á aðalfundi Skógræktarfélags Eyfirðinga árið 1980 var reyndar hreyft við þessu máli. Hugmyndin var þá að trjásafnið yrði samvinnuverkefni Lystigarðsins, Skógræktarfélagsins og Akureyrarbæjar. Fyrr í þessum pistli er mynd af Jóhanni Pálssyni. Hann var forstöðumaður Lystigarðsins á þessum tíma og annar þeirra sem lögðu fram þessa tillögu. Hinn var hinn vel kunni náttúrufræðingur Helgi Hallgrímsson. Er skemmst frá því að segja að tillagan var samþykkt. Nokkuð mun Jóhann og ef til vill fleiri hafa gróðursett af trjám sem ætlað var að tilheyra þessu safni og forvitnilegt væri að vita hvort þau eru til skráð. Formlega var Arboretum Akureyri stofnað við Gömlu-Gróðrarstöðina 18. júní 1983 en smám saman hefur það lognast út af. Ef til vill er kominn tími til að endurreisa þetta safn.

ree

18. júní 1983, á afmælisdegi Jóns Rögnvaldssonar, var formlega stofnað trjásafn við Gömlu-Gróðrarstöðina. Bróðir Jóns, Kristján Rögnvalds­son, gróðursetti þá fyrsta tréð í safnið. Var það selja, Salix caprea sem stendur við vesturhlið Gömlu-Gróðrarstöðvarinnar. Við teljum að það hljóti að vera annað þessara tveggja trjáa. Myndirnar voru teknar 14. október 2025 frá mismunandi sjónarhornum. Þá var önnur seljan alveg lauflaus en hin í haustlitum. Myndir: Sigríður Hrefna Pálsdóttir.


Þakkir

Svona yfirlit verður ekki til nema með aðstoð góðra manna og kvenna. Ragnhildur Freysteinsdóttir lét okkur í té myndir úr fyrra hefti Skógræktarritsins frá árinu 2012 sem sjá má í greininni. Benjamín Davíðsson mældi hæð trjáa og veitti ýmsa aðstoð. Sigríður Hrefna Pálsdóttir tók myndir af seljum í garðinum og Rögnvaldur Jónsson veitti okkur aðgang að bréfasafni föður síns, Jóns Rögnvaldssonar. Pétur Halldórsson las yfir próförk, færði margt til betri vegar og kom með ýmsar gagnlegar ábendingar og viðbætur. Allt þetta fólk fær hér með okkar bestu þakkir.


Heimildaskrá

Ásta Camilla Gylfadóttir og Björgvin Steindórsson(2012): Konur gerðu garðinn. Saga Lystigarðs Akureyrar 1912-2012. Völuspá útgáfa. Akureyri.


Bjarni E. Guðleifsson og Hallgrímur Indriðason (2012): Gamla Gróðrarstöðin á Akureyri. Skógræktarritið 2012 1. tbl. Bls. 33-40. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.


Erlingur Davíðsson (1972) Aldnir hafa orðið. Frásagnir og fróðleikur. Kafli um Jón Rögnvaldsson bls. 95-121. Bókaútgáfan Skjaldborg, Akureyri.


Jakob H. Líndal (1916): Um trjárækt. Í Ársriti Ræktunarfélags Norðurlands 1916 bls. 28-77. Sjá: Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - Megintexti (01.01.1916) - Tímarit.is.













Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page