top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Jón Rögnvaldsson. Mikilhæfur leiðtogi á sviði skrúðgarðyrkju og landgræðslu

Updated: Jun 20

„Við eigum að rækta skóg til að bæta landið og fegra það, og til að bæta okkur sjálfa og ræktunarmenningu okkar. Landgræðslan og skógræktin eru skyldar greinar og stefna verulega að sama marki. En landið okkar myndi stórbatna til búsetu og tryggja betri afkomu með stóraukinni skjólbeltarækt. Jafnvel í uppblásnu landi getur birkiskógurinn þrifizt og snúið landeyðingu í gróðursókn. Við megum ekki einblína á skóga með peningasjónarmiðum einum saman að leiðarljósi, heldur sem landbætandi og mannbætandi ræktun, fyrst og fremst, og svo til fegurðarauka. En nytjar skóganna sjálfra koma svo í fyllingu tímans. Maður hefur verið neyddur til að hlusta á þau slagorð, jafnvel í munni mætustu manna, að Ísland sé á takmörkum hins byggilega heims. Slíkt fávitahjal er marklaust og alveg óþolandi fjarstæða.“ Svo mælti Jón Rögnvaldsson (1895-1972) síðasta árið sem hann lifði í viðtalsbókinni Aldnir hafa orðið (Erlingur 1972, bls. 114-115). Svona mæla ekki nema hugsjónamenn sem hafa öðlast reynslu og þekkingu eftir áratuga starf í græna geiranum. Sem skógræktar- og garðyrkjumaður í hálfa öld fór Jón í margar vinnuferðir um landið og sá hvaða áhrif friðun lands og skóg­græðsla hafði á gróður landsins. Á þeim ferðum sannfærðist hann um það sem hann hafði lært í æsku: „Landið okkar er gott og gjöfult, og það bíður hugvits og handa.“ (Erlingur 1972, bls. 115).

Jón Rögnvaldsson á góðum degi. Hann lét ekki vinnu við gróður og garða aftra sér frá því að vera fínt klæddur við flest tækifæri. Mynd úr eigu erfingja Jóns en ljósmyndari er óþekktur.
Jón Rögnvaldsson á góðum degi. Hann lét ekki vinnu við gróður og garða aftra sér frá því að vera fínt klæddur við flest tækifæri. Mynd úr eigu erfingja Jóns en ljósmyndari er óþekktur.

Jón Rögnvaldsson hafði mikil áhrif á ræktunarmenningu á Íslandi. Hann lærði garð- og skógrækt í Kanada, stofnaði Skógræktarfélag Eyfirðinga og var fyrsti formaður þess. Hann stýrði Lystigarðinum á Akureyri í langan tíma, stækkaði hann og gerði að grasagarði. Hann skrifaði bók um garðyrkju sem nýtt var sem kennslubók í mörg ár, hélt fyrirlestra og fræddi fólk vítt og breitt um landið. Hann var brautryðjandi í ræktun skjólbelta, gerði sér grein fyrir gildi friðunar lands fyrir búfjárbeit og sýndi fram á hvernig land getur klæðst skógi á Íslandi ef það fær frið til þess. Um þessar mundir eru 130 ár liðin frá fæðingu Jóns Rögnvaldssonar og því höfum við dregið saman ýmsan fróðleik um þennan merka mann sem markað hefur djúp spor í ræktunarsögu Íslendinga. Stærst eru þessi spor hér í Eyja­firði. Í Lystigarðinum á Akureyri er brjóstmynd af Jóni. Við teljum það vel til fundið að þar fær hann þessa einkunn sem rituð er á stólpann undir styttunni: Mikilhæfur leiðtogi á sviði skrúðgarðyrkju og landgræðslu.

Haustmynd úr Lystigarði Akureyrar. Mynd: Sig.A.
Haustmynd úr Lystigarði Akureyrar. Mynd: Sig.A.

Yfirlit

Jón Rögnvaldsson fæddist í Grjótárgerði í Fnjóskadal 18. júní 1895 eða fyrir réttum 130 árum. Hann fluttist að Fífilgerði í Öngulsstaðahreppi átta ára gamall og var lengst af kenndur við bæinn. Hann flutti þaðan til Akureyrar árið 1957 þar sem hann lést árið 1972. Jón sótti garðyrkjunámskeið í Gróðrarstöðina á Akureyri árið 1910 og kynnt­ist þar Sigurði Sigurðarsyni. Í Gagnfræðaskólanum var Stefán Stefánsson grasafræðingur lærimeistari hans. Báðir þessir menn höfðu áhrif á hinn unga mann sem átti eftir að helga líf sitt gróðri og ræktun. Hann flutti til Kanada árið 1920, dvaldist þar við nám og störf á fimmta ár og lauk prófi frá landbúnaðarskólanum í Winnipeg. Heimkominn, árið 1925, sneri Jón sér að garðyrkju. Hann rak fyrstu árin garðyrkjustöð að Fífilgerði í Eyjafirði en síðan garðyrkjustöðina Flóru við Brekkugötu sjö ásamt bróður sínum Kristjáni. Jón var frumherji á Íslandi í skógrækt, skjólbeltarækt, garðyrkju, grasa­söfnun og landslagsarkitektúr. Hann stofnaði Skógræktarfélag Eyfirðinga árið 1930 og var formaður þess um níu ára skeið. Lystigarðinum á Akur­eyri stjórnaði hann í 16 ár. Í pistli vikunnar er við hæfi að minnast þessa merka frumkvöðuls og laugar­daginn 21. júní stöndum við, í samstarfi við Lystigarðinn, fyrir göngu í Lysti­garðinum frá kl. 10-12 þar sem við heiðrum minningu Jóns Rögnvaldssonar.

Mynd úr Lystigarðinum á Akureyri sem Jón Rögnvaldsson stýrði í 16 ár. Mynd: Sig.A.
Mynd úr Lystigarðinum á Akureyri sem Jón Rögnvaldsson stýrði í 16 ár. Mynd: Sig.A.

Fyrstu árin

Jón fæddist í Grjótárgerði í Fnjóskadal 18. júní 1895. Í viðtali við Erling Davíðsson árið 1972 sagði hann frá því að þaðan væru sínar fyrstu minn­ingar. Hann nefnir meðal annars að Þórðarstaðaskógur blasti við í hlíðinni gegnt Grjótárgerði. Í skóginum var stórt rjóður sem var Jóni minnisstætt. „Þar var Stórahrísla, talin stærsta tré skógarins og jafnvel á öllu Íslandi. Hún stóð ein sér og var ákaflega mikið og fagurt tré.“ Sést á þessu að snemma beygðist krókurinn. Við tré þetta voru haldnar samkomur á sumrin og börnin í Grjótárgerði fóru þangað stundum með foreldrum sínum (Erlingur 1972). Þrátt fyrir að seinna á ævinni yrði Jón kenndur við Fífilgerði í Eyjafirði, bæði á Íslandi og í Ameríku, þá virðist taugin vera nægilega römm til að hann hafi alla tíð kallað sig Fnjóskdæling. Að minnsta kosti gerði hann það sem gamall maður í bókinni Aldnir hafa orðið frá árinu 1972.


Fífilgerði

Árið 1903 flutti fjölskylda Jóns að Fífilgerði í Öngulsstaðahreppi sem nú tilheyrir Eyjafjarðarsveit. Þar bjuggu foreldrar Jóns, þau Lovísa Sigurbjörg Guðmundsdóttir og Rögnvaldur Sigurðsson, til dauðadags. Börn þeirra hjóna ólust þar upp og tóku við búi eftir foreldra sína. Alls voru börnin sex sem upp komust. Nokkur þeirra systkina áttu lengi heima í Fífilgerði þótt þau stunduðu vinnu annars staðar.

Fífilgerði var kotbýli þegar þau Lovísa og Rögnvaldur komu þangað og voru húsin að falli komin. Þau bættu jörðina og stækkuðu tún og tók Jón Rögnvaldsson fullan þátt í því ásamt systkinum sínum eins og hvert og eitt hafði þroska til.

Smátt og smátt fluttu krakkarnir að heiman. Lengst voru þeir bræður, Jón og Kristján, í Fífilgerði. Þeir bjuggu á jörðinni ásamt systrum sínum uns þær giftust og fluttu á brott. Þegar þeir seldu jörðina og fluttu til Akureyrar árið 1957 höfðu öll hús verið endurbyggð, þótt þau væru ekki öll samkvæmt nýjustu tísku. Á tímabilinu höfðu túnin stækkað fimmfalt. Þau gáfu af sér tvö kýrfóður árið 1903 en tíu kýrfóður 54 árum síðar. Það vekur athygli þess er þetta ritar að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns hafði lítið breyst í Fífilgerði frá því að upplýsingar voru teknar saman þann 1. Octobris 1712“ og þar til Rögnvaldur settist þar að með fjölskyldu sína. Þá var Fífilgerði sagt vera kot og sem fóðrað gæti tvær kýr. Að auki var útigangur fyrir skepnur lítil vegna landþrengsla. Á þeim tíma tíðkaðist ekki að beita fé á land í eigu annarra (Árni og Páll 1712).

Þegar þeir bræður fluttu frá Fífilgerði fengu þeir að halda eftir einum hektara lands, girtu hann af og byggðu þar sumarhús. Við friðunina fylltist landið fljótt og vel af birki og kunni Jón vel að meta það. Af þessu dró hann töluverðan lærdóm um áhrif búfjárbeitar á ásýnd landsins.

Þótt fjölskyldan hafi bætt húsakost og stækkað tún í Fífilgerði voru það hvorki húsakynnin né umsvif búskapar sem gerðu Fífilgerði kunnugt um allar sveitir. Það var garðyrkjan (Erlingur 1972). Garðinum hefur ekki verið viðhaldið sem skrúðgarði og því sjást hans lítil merki á okkar dögum. Garðurinn setur samt töluverðan svip á umhverfið. Í næsta kafla skoðum við þennan garð aðeins betur.

Horft heim að Fífilgerði 16. júní 2025. Sjá má hinn fræga skrúðgarð að baki hússins og við hann má sjá grunn gróðurhússins sem þar stóð. Mynd: Sig.A.
Horft heim að Fífilgerði 16. júní 2025. Sjá má hinn fræga skrúðgarð að baki hússins og við hann má sjá grunn gróðurhússins sem þar stóð. Mynd: Sig.A.

Skrúðgarðurinn að Fífilgerði

Bræðurnir Jón og Kristján hófu gerð skrúðgarðs árið 1926 ásamt systrunum Sólveigu og Sigrúnu og auk þess söfnuðu þau íslenskum plöntum og komu upp vísi að grasagarði. Þetta ár hafði Jón komið heim frá námi í Kanada eins og síðar verður sagt frá. Í garðinum að Fífilgerði var um skeið að finna um helming allra tegunda sem þekktar voru á Íslandi á þeim tíma. Árni Jóhannsson sagði árið 1940 að hvergi hefði verið svo mikill fjöldi íslenskra blómplantna á einum stað á Íslandi sem í þessum garði. Systkinin voru þar einnig með verulega matjurtarækt og að sjálfsögðu trjárækt. Þetta gerðu þau í hjáverkum því vinnu sína sóttu þau til Akureyrar. Öll höfðu þau yndi af þessum starfa og það varð þeim mikil uppörvun hve margir komu til að sjá þessa ræktun systkinanna og láta í ljós álit sitt á henni (Erlingur 1972).

Jón kom upp veglegu gróðurhúsi í Fífilgerði. Eins og sjá má var það traust bygging en hún má muna sinn fífil fegurri þarna í Fífilgerði. Heimildir geta þess ekki hvenær gróðurhúsið var reist. Þarna voru á sínum tíma jafnvel ræktuð vínber, sem þótti mikil nýlunda. Sjálfsagt var það sama yrkið og Jón ræktaði síðar í gróðurhúsi í Lystigarðinum. Enn er það yrki til í ræktun á Akureyri. Mynd: Rögnvaldur Jónsson.
Jón kom upp veglegu gróðurhúsi í Fífilgerði. Eins og sjá má var það traust bygging en hún má muna sinn fífil fegurri þarna í Fífilgerði. Heimildir geta þess ekki hvenær gróðurhúsið var reist. Þarna voru á sínum tíma jafnvel ræktuð vínber, sem þótti mikil nýlunda. Sjálfsagt var það sama yrkið og Jón ræktaði síðar í gróðurhúsi í Lystigarðinum. Enn er það yrki til í ræktun á Akureyri. Mynd: Rögnvaldur Jónsson.
Jóhann Thorarensen garðyrkjumaður með afleggjara af vínvið sem hann fékk úr gamla gróðurhúsinu í Lystigarðinum þegar það var fjarlægt. Inni í því óx móðurplantan. Í Fífilgerði óx einnig vínviður í gróðurhúsi og ekki er ólíklegt að það sé sama plantan. Ef til vill fylgdi hún Jóni heim frá Kanada. Mynd: Sig.A.
Jóhann Thorarensen garðyrkjumaður með afleggjara af vínvið sem hann fékk úr gamla gróðurhúsinu í Lystigarðinum þegar það var fjarlægt. Inni í því óx móðurplantan. Í Fífilgerði óx einnig vínviður í gróðurhúsi og ekki er ólíklegt að það sé sama plantan. Ef til vill fylgdi hún Jóni heim frá Kanada. Mynd: Sig.A.

Í bókinni Garðagróðri eftir Ingólf Davíðsson og Ingimar Óskarsson er lýsing á garðinum í Fífilgerði. Bókin er gefin út árið 1950 þegar garðurinn hafði verið í ræktun í um aldarfjórðung. Þar segir: „... [M]un hann vera alfjölskrúðugasti skrúðgarðurinn á landinu. Og auk þess vaxa þar erlendar jurtir, sem hvergi eru hér annars staðar í ræktun. Frá þessum stað hafa verið fluttar margar fágætar jurtir á s.l. áratug, bæði til Akureyrar, Reykjavíkur, Hafnarfjarðar o.fl. staða. Í garðinum í Fífilgerði munu nú vaxa sem næst 250 fjölærra, erlendra plöntutegunda, þar af 40 tegundir trjáa og runna. Auk þess eru þar í ræktun innlendar jurtir í tugatali víðs vegar að af landinu.“ (Ingólfur og Ingimar 1950, bls. 19). Garðurinn er enn í Fífilgerði en langt er síðan hætt var að hirða hann sem skrúðgarð. Því hefur plöntum fækkað til mikilla muna en enn eru þar merk og fögur tré.

Garðurinn við Fífilgerði stendur enn sunnan við bæinn en ekki er lengur hlúð að honum sem skrúðgarði. Þar má þó enn sjá fjölmörg glæsileg tré. Má nefna sem dæmi þessa fögru blæösp sem er framan við hestinn. Mynd: Sig.A.
Garðurinn við Fífilgerði stendur enn sunnan við bæinn en ekki er lengur hlúð að honum sem skrúðgarði. Þar má þó enn sjá fjölmörg glæsileg tré. Má nefna sem dæmi þessa fögru blæösp sem er framan við hestinn. Mynd: Sig.A.

Safnið í Fífilgerði átti enn eftir að stækka frá því um það var fjallað í Garðagróðri. Þegar það var flutt í Lystigarðinn á Akureyri árið 1957 voru í því 638 tegundir (Ásta og Björgvin 2012). Höfðu því bæst við 388 plöntutegundir á sjö árum. Sýnir þetta vel metnað þeirra systkina á þessu sviði.

Ásta Camilla (2012) segir frá því að af þessum 638 tegundum voru 463 tegundir fjölæringa og 173 tegundir trjáplantna og runna. Plöntur þessar voru ættaðar víða að, til dæmis frá Argentínu, Tíbet, Kína, Grænlandi og Síberíu. Flestar voru þó plönturnar evrópskar (Ásta og Björgvin 2012) og íslensku plönturnar skipuðu veglegan sess.


Jón hélt nákvæma skráningu yfir plöntusafn sitt í Fífilgerði. Til eru handskrifuð frumdrög (fyrsta mynd) og vélritað yfirlit (miðmynd). Einnig er til sérstök skrá yfir þær erlendu plöntur sem Jón reyndi í Fífilgerði. Myndir: Rögnvaldur Jónsson.

Fyrstu kynni af garðyrkju

Í bókinni Aldnir hafa orðið (1972) segir Jón frá því að hann fór nýfermdur í sína fyrstu „langferð“ að heiman frá Fífilgerði árið 1910. Þá var ferðinni heitið til Akureyrar þar sem hann sótti námskeið Ræktunarfélags Norður­lands, sem haldið var þar sem nú kallast Gamla-Gróðrarstöðin. Þess má geta að með honum á þessum námskeiðum var Sólveig systir hans sem síðar varð bóndi á Leifsstöðum (Rögnvaldur 2025). Við Gróðrarstöðina hafði verið byrjað að gróðursetja tré og runna árið 1904. Sigurður Sigurðarson, síðar búnaðarmálastjóri og fyrsti formaður Skógræktarfélags Íslands, stjórnaði námskeiðinu. Þessi námskeið voru góður skóli að sögn Jóns og var þeim haldið uppi í rúma fjóra áratugi. Þangað lá stöðugur straumur af fólki sem átti erindi við Sigurð. Urðu flestir fyrir áhrifum frá honum og „eflaust kveikti eldhuginn oft þann neista með mönnum í samræðum, er örvað hefur fram­kvæmdir þeirra í ræktunarmálum“ (Erlingur 1972). Þarna vann Jón hjá Sigurði í nokkur vor eftir þetta og beindi það huga hans í ákveðna átt.

Mynd úr grein Bjarna E. Guðleifssonar og Hallgríms Indriðasonar (2012) um Gömlu-Gróðrarstöðina. Myndin líklega tekin um árið 1910 sem er sama árið og Jón Rögnvaldsson tók þar þátt í sínu fyrsta námskeiði um gróður og ræktun.
Mynd úr grein Bjarna E. Guðleifssonar og Hallgríms Indriðasonar (2012) um Gömlu-Gróðrarstöðina. Myndin líklega tekin um árið 1910 sem er sama árið og Jón Rögnvaldsson tók þar þátt í sínu fyrsta námskeiði um gróður og ræktun.

Jóni þótti vænt um það starf sem þarna fór fram og í bréfasafni Jóns, sem synir hans varðveita, kemur fram að seinna var í athugun að stofna þarna sérstakan garðyrkjuskóla en ekkert varð úr því. Í væntanlegum pistli okkar um Gömlu-Gróðrarstöðina segjum við nánar frá því.

Þegar Jón var á námskeiðinu hjá Sigurði Sigurðssyni árið 1910 var hann sendur í sína fyrstu ferð til að gróðursetja tré úti í bæ. Þessi gróðursetning varð Jóni minnisstæðari en flest önnur skógræktarstörf á Akureyri sem hann vann þar næstu hálfa öldina. Jón sagði frá því síðar að hann hefði verið kvíðafullur þegar hann, nýfermdur pilturinn, fór til Steingríms Matthíassonar læknis að morgni dags til að gróðursetja reyniviðarplöntur með fram Eyrarlandsstígnum. Þar vildi læknirinn fá tré til að skýla sér fyrir regni og vindum er hann var þar á ferðinni. Fann hinn ungi piltur að læknirinn var ekkert sérstaklega sáttur við að Sigurður skyldi senda sér svona lítinn snáða í verkið. Varð Jón því hálfsmeykur við lækninn en öll trén lifðu og lifðu enn er Jón sagði Erlingi Davíðssyni frá þessu árið 1972. Það fylgdi sögunni að seinna hefu þeir Jón og Steingrímur kynnst betur og Jón þá komist að raun um að hann væri hinn mesti ágætismaður.

Ekki er auðvelt að átta sig á hvar nákvæmlega fyrstu reynitrén voru sem Jón gróðursetti á Akureyri árið 1910. Sennilega hafa þau alveg steingleymt að lifa svona lengi. Við vitum þó að þau voru á þessum slóðum. Ef til vill má sjá þarna afkomendur þeirra. Mynd: Sig.A.
Ekki er auðvelt að átta sig á hvar nákvæmlega fyrstu reynitrén voru sem Jón gróðursetti á Akureyri árið 1910. Sennilega hafa þau alveg steingleymt að lifa svona lengi. Við vitum þó að þau voru á þessum slóðum. Ef til vill má sjá þarna afkomendur þeirra. Mynd: Sig.A.

Í bókinni sagði Jón einnig frá því að á þessum tíma var hann sendur við annan mann að Grund til að gróðursetja birki við kirkjuna þar. Það birki er nú fallið.

Rétt er að geta þess að Jón hefur sagt frá því að á þessum tíma voru nokkur reynitré í bænum. Þau báru fullþroskuð fræ sem safnað var á haustin og sáð vorið eftir. Plönturnar voru svo aldar upp við Gróðrarstöðina þar til þær höfðu náð útplöntunarstærð.

Við Grundarkirkju standa nú nokkur reynitré en birkið sem Jón gróðursetti sem unglingur árið 1910 er horfið. Hvorki birki né reyniviður verða tiltakanlega gömul tré. Mynd: Ingólfur Jóhannsson 16. júní 2025.
Við Grundarkirkju standa nú nokkur reynitré en birkið sem Jón gróðursetti sem unglingur árið 1910 er horfið. Hvorki birki né reyniviður verða tiltakanlega gömul tré. Mynd: Ingólfur Jóhannsson 16. júní 2025.

Annað nám

Jón lærði að lesa og skrifa í heimahúsum eins og alsiða var á þessum árum. Eftir fermingu gekk hann í tveggja mánaða unglingaskóla sem starfræktur var á Jódísarstöðum. Síðan stundaði hann nám í Gagnfræðaskólanum á Akur­eyri frá árinu 1914 og var þar í þrjá vetur. Stefán Stefánsson, grasafræð­ingur var þá stjórnandi skólans. Árið áður hafði Stefán gefið út sitt fyrsta kennslukver í grasafræði (Bjarni 2011) og má gera ráð fyrir að þetta hafi haft áhrif á hinn unga ræktunarmann Jón. Árni Jóhannsson (1940) segir frá því að mestan áhuga hafi Jón haft á grasafræði í skólanum og náð að afla sér svo haldgóðrar þekkingar undir handleiðslu Stefáns að hann hafi hlotið sérstaka viðurkenningu í þessari námsgrein að námi loknu. Getur Árni þess jafnframt að það hafi verið fágætt á þessum árum að veita slíkar viður­kenningar. Merkilegt má heita að Jón Rögnvaldsson skyldi verða þess aðnjótandi að vera nemandi beggja þessara frumkvöðla sem þá voru í Eyjafirði, Sigurðar Sigurðarsonar og Stefáns Stefánssonar. Því þarf ekki að koma á óvart að á þessum árum hafði hann mest gaman af náttúrufræði og um þau efni snerust hugsanir hans og framtíðardraumar að sögn Erlings Davíðssonar (1972). Eitt viðburðaríkasta ár Íslandssögunnar er án efa árið 1918. Það ár hófst frostaveturinn mikli, spænska veikin geisaði og Katla gaus. Á þessum erfiðu tímum urðu Íslendingar frjáls og fullvalda þjóð. Þetta sama ár hóf Jón nám við Menntaskólann í Reykjavík. Þar fékk hann spænsku veikina og eins og fleiri varð hann mikið veikur. Hann lét það ekki stoppa sig og mætti á fullveldishátíðina 1. desember sama ár. Við það elnaði honum sóttin og fór svo að veikindin héldu honum frá frekara námi á Íslandi.


Dvölin í Vesturheimi

Þegar Jón hafði náð sér af spænsku veikinni vann hann nokkur störf hér á landi en fann að hann ætti að stunda eitthvað sem sneri að gróðri og náttúru. Þess vegna hafnaði hann boði um að hefja nám í verslunarskóla í Danmörku þegar það bauðst (Erlingur 1972). Þá gerðist það að frændi Jóns sendi honum bréf frá Kanada og bauð honum að koma þangað. Jón lagði því land undir fót og sigldi vestur um haf árið 1920 og notaði þar nafnið J. R. Fífils. Þessi ferð var um margt söguleg fyrir fátækan Íslending en það fellur utan við efni þessa pistils. Þegar vestur var komið vann Jón fyrsta kastið hjá frænda sínum á búgarði vestan við Winnipeg en þar kom að hann frétti af skógræktar- og garðyrkju­stöð kanadíska ríkisins á stað sem kallast Indian Head. Gaman er að segja frá því að stöð þessi var stofnuð árið 1904 en það var sama ár og ræktun hófst við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri, þar sem Jón kynntist skógrækt í fyrsta skipti. Svo fór að Jón fékk þar vinnu og lærði margt nýstárlegt, enda sendi stöðin árlega frá sér um þrjár milljónir trjáplantna til gróðursetningar á sléttum Kanada, bæði til að rækta nýja skóga og skjólbelti. Var J. R. Fífils viðloðandi þessa garðyrkjustöð í þrjú ár.

Þessi mynd er frá Indian Head í Kanada. Þaðan voru árlega sendar milljónir plantna til bænda í Kanada allt til ársins 2012. Myndina fengum við héðan. Rétthafi: Raquel Fletcher / Global News.
Þessi mynd er frá Indian Head í Kanada. Þaðan voru árlega sendar milljónir plantna til bænda í Kanada allt til ársins 2012. Myndina fengum við héðan. Rétthafi: Raquel Fletcher / Global News.

Einn veturinn þar vestra stundaði Jón nám í landbúnaðarháskólanum í Winnipeg, Manitoba Agricultural College, með áherslu á garðyrkju. Þar mun hann einnig hafa lært töluvert um skjólbelti (Rögnvaldur 2025). Í flestum okkar heimildum, þar sem þessi ár ber á góma, er þess gjarnan getið að Jón hafi útskrifast sem garðyrkju­fræðingur og kynnt sér skógrækt. Meðal annars segir Árni Jóhannsson (1940) frá því að Jón hafi „lært að fullu að meta gildi skógana og skilja hina miklu nauðsyn okkar Íslendinga að hefja þegar öfluga skógræktarstarfsemi, með því markmiði að klæða landið skógi, svo fljótt og svo miklum, sem geta frekast leyfði.“ Athygli okkar vekur að hvergi er í þessum heimildum nefnt að hann hafi hlotið nokkra tilsögn í landslagsarkitektúr. Þegar teikningar hans eru skoðaðar vekur þetta furðu. Þessar teikningar eru það vandaðar að varla er hægt að hugsa sér annað en að hluti þeirrar garðyrkjumenntunar sem hann hlaut hafi tengst þeim fræðum.

Í þessu húsi, 662 Ross Ave í Winnipeg, bjó Jón Rögnvaldsson um tíma. Myndin er fengin með aðstoð Google Maps og Rögnvaldur Jónsson lét okkur hana í té.
Í þessu húsi, 662 Ross Ave í Winnipeg, bjó Jón Rögnvaldsson um tíma. Myndin er fengin með aðstoð Google Maps og Rögnvaldur Jónsson lét okkur hana í té.

Þegar Jón var í Kanada skrifaði hann dálítið í íslensk-kanadísku blöðin Lögberg og Heimskringlu. Undir þessar greinar skrifaði hann J.R. Fifils. Þegar hann flutti til baka til Íslands birtist lítil klausa í Lögbergi þar sem segir að Jón sé fluttur heim. Þar er hann kallaður „sonur Rögnvalds bónda í Fífilgerði“ (Jón Kristján 2025). Svo er að sjá sem þessi litla klausa sé endursögn úr íslensku blaði. Í Heimskringlu var greint frá því þegar Jón var að flytja heim í nóvember 1924. Er hann þar nefndur Mr. Rögnvaldsson og titlaður trjáræktarfræðingur. Þar segir: „Hefur hann í hyggju að starfa að tilraunum að trjá- og matjurtarrækt heima á ættjörðinni.“ Er óhætt að segja að það hafi gengið eftir.

Um áramótin 1924-1925 sneri Jón heim til Íslands. Því hefur tíminn í Vesturheimi verið vel á fimmta ár. Heim kominn hætti hann að kalla sig J. R. Fífils (Erlingur 1972).

Ein af fjölmörgum teikningum Jóns úr bók hans um skrúðgarða. Þarna má sjá nokkur af helstu einkennum hans svo sem stiklur og tjörn. Við myndina stendur í bókinni: „Uppdr. nr. 5: 20 x 20 m. Skrúðgarður með leikvelli. Lóðin lárétt. Runnar og tré utan með. Hellulögð gangstétt heim að húsinu. Utan með henni blómbeð. Stiklur vestur með húsinu að norðan og aftur fyrir það að austan - suður grasflötinn að tjörn sunnan til á lóðinni. Við tjörnina tvö beð með fjölærum blómum. Berjarunnar suður frá suðvesturhorni hússins. Rósabeð sunnan við húsið. Harðgerðar fjölærar jurtir upp við húsið að norðan. Rimla- eða vírnetsgirðingar.“
Ein af fjölmörgum teikningum Jóns úr bók hans um skrúðgarða. Þarna má sjá nokkur af helstu einkennum hans svo sem stiklur og tjörn. Við myndina stendur í bókinni: „Uppdr. nr. 5: 20 x 20 m. Skrúðgarður með leikvelli. Lóðin lárétt. Runnar og tré utan með. Hellulögð gangstétt heim að húsinu. Utan með henni blómbeð. Stiklur vestur með húsinu að norðan og aftur fyrir það að austan - suður grasflötinn að tjörn sunnan til á lóðinni. Við tjörnina tvö beð með fjölærum blómum. Berjarunnar suður frá suðvesturhorni hússins. Rósabeð sunnan við húsið. Harðgerðar fjölærar jurtir upp við húsið að norðan. Rimla- eða vírnetsgirðingar.“

Kristnes

Við heimkomu sína frá Kanada settist Jón að í Fífilgerði en hafði hugann við garðyrkjustörf. Hann ákvað að stofna garðyrkjustöð í Kristnesi í Eyjafirði enda var þar að finna heitt vatn sem nýta mætti til að kynda gróðurhús og stunda það sem nú er kallað ylrækt. Undirbúningur var vel á veg kominn þegar ákveðið var að reisa Kristneshælið sem enn stendur, þótt hlutverk þess hafi breyst. Þar með varð garðyrkjustöð á þeim stað úr sögunni.

Síðar átti Jón þátt í því að rækta skóg vestan við Kristneshæli og að auki skipulagði hann umhverfi hælisins með tilheyrandi gróðri (Erlingur 1972).

Til er teikning af garðinum við Kristneshæli, árituð af Jóni Rögnvaldssyni í október 1926. Því miður er hún farin að dofna nokkuð, en sjá má að farið hefur verið eftir þessari teikningu í hvívetna en auðvitað hafa orðið breytingar síðan garðurinn var gerður fyrir hartnær heilli öld. Mynd: Helgi Þórsson.
Til er teikning af garðinum við Kristneshæli, árituð af Jóni Rögnvaldssyni í október 1926. Því miður er hún farin að dofna nokkuð, en sjá má að farið hefur verið eftir þessari teikningu í hvívetna en auðvitað hafa orðið breytingar síðan garðurinn var gerður fyrir hartnær heilli öld. Mynd: Helgi Þórsson.
Á bakvið Kristneshæli eru þessi veglegu lerkitré sem er plantað nákvæmlega eftir teikningum Jóns Rögnvaldssonar. Framan við hælið er hringtorg sem hann teiknaði og gerði hann ráð fyrir að þar væri plantað sumarblómum. Það er enn gert. Mynd: Sig.A.
Á bakvið Kristneshæli eru þessi veglegu lerkitré sem er plantað nákvæmlega eftir teikningum Jóns Rögnvaldssonar. Framan við hælið er hringtorg sem hann teiknaði og gerði hann ráð fyrir að þar væri plantað sumarblómum. Það er enn gert. Mynd: Sig.A.

Athygli nútímamannsins vekur að þegar Kristneshæli var byggt þótti ein­boðið að hafa fallegan garð í kringum hælið. Ekki er annað að sjá en litið hafi verið á garðinn sem hluta af bataferlinu. Löngu seinna varð hugtakið umhverfis­sálfræði til. Að hluta til fjallar hún um lýðheilsuáhrif skrúðgarða og fallegrar náttúru við heilsustofnanir. Við höfum einmitt fjallað um hlutverk Lystigarðsins á Akureyri í þessum efnum. Lesa má þann pistil hér. Eiríkur G. Brynjólfsson var ráðsmaður í Kristnesi í marga áratugi. Einar E. Sæmundsen (2018, bls. 199-200) hefur eftir honum: [H]efur mér verið ljóst, hversu mikið atriði það er fyrir líðan vistmanna á svona stöðum að eitthvað sé gert til að prýða bæði utan húss og innan.“ Í þessum anda voru færustu hönnuðir fengnir til að undirbúa starfið í Kristnesi. Guðjón Samúelsson teiknaði húsið og Jón Rögnvaldsson gerði uppdrætti að mótun lóðarinnar. Ekki var það einfalt verk því lóðin er í miklum halla og rúmur hektari að stærð. Til að allt gengi vel fyrir sig hafði Jón yfirumsjón með starfinu og þegar hælið var opnað árið 1927 var lóðin að mestu frágengin sunnan byggingarinnar (Einar E. Sæmundsen 2018).

Mynd af Kristneshælinu sem tekin var áður en skógrækt hófst vestan við það. Ráðsmaðurinn Eiríkur Brynjólfsson átti mestan þátt í gróðursetningunni en Jón Rögnvaldsson kom að undirbúningi. Að auki skipulagði hann umhverfið á byggingarlóðinni og stjórnaði þar framkvæmdum. Enn má sjá þess merki. Myndina fengum við lánaða af Sarpinum þar sem myndir úr eigu Þjóðminjasafnsins eru aðgengilegar.
Mynd af Kristneshælinu sem tekin var áður en skógrækt hófst vestan við það. Ráðsmaðurinn Eiríkur Brynjólfsson átti mestan þátt í gróðursetningunni en Jón Rögnvaldsson kom að undirbúningi. Að auki skipulagði hann umhverfið á byggingarlóðinni og stjórnaði þar framkvæmdum. Enn má sjá þess merki. Myndina fengum við lánaða af Sarpinum þar sem myndir úr eigu Þjóðminjasafnsins eru aðgengilegar.
Á myndinni hér að ofan sést trjábelti ofan við Kristneshælið. Þann 16. júní 2025 leit það svona út. Ofan við það er Kristnesskógur. Mynd: Sig.A.
Á myndinni hér að ofan sést trjábelti ofan við Kristneshælið. Þann 16. júní 2025 leit það svona út. Ofan við það er Kristnesskógur. Mynd: Sig.A.

Framtíðarsýn hins unga ræktunarmanns

Veturinn 1925, þegar Jón Rögnvaldsson kom heim frá dvöl sinni í Kanada, fór hann strax að huga að því að stofna skógræktarfélag er næði til landsins alls. Félagið átti að hafa það meginmarkmið að vernda íslensku birkiskógana og auka skógrækt meðal almennings. Lengra komst málið ekki þann veturinn (Erlingur 1972).

Eitt af því sem Jón sá fyrir sér að gengi vel á Íslandi var að planta birki í skjólbelti. Hann sá fyrir sér að birkið gæti síðan sjálft sáð sér út frá beltunum. Hér er það að raungerast í Hjarðarhaga í Eyjafjarðarsveit. Beltið teiknaði Jón á sínum tíma og systir hans, Sólveig á Leifsstöðum sem eru þarna skammt frá, aðstoðaði við útplöntunina. Mynd: Sig.A.
Eitt af því sem Jón sá fyrir sér að gengi vel á Íslandi var að planta birki í skjólbelti. Hann sá fyrir sér að birkið gæti síðan sjálft sáð sér út frá beltunum. Hér er það að raungerast í Hjarðarhaga í Eyjafjarðarsveit. Beltið teiknaði Jón á sínum tíma og systir hans, Sólveig á Leifsstöðum sem eru þarna skammt frá, aðstoðaði við útplöntunina. Mynd: Sig.A.

Merkilegt er til þess að hugsa að í upphafi aldarinnar sem leið vildi Ræktunar­félag Norðurlands stuðla að aukinni trjárækt við bæi til að fegra sveitirnar. Í skýrslum félagsins er hvergi talað um skógrækt. Þó voru á þeim tíma komnir litlir skógarreitir á Þingvöllum og að Grund í Eyjafirði. Samt er eins og hugmyndin um að rækta skóga á Íslandi hafi ekki komið fram fyrr en fjórðungur var liðinn af öldinni. Á þessum tíma kom Jón heim úr námi frá Kanada. Ekki er hægt að eigna Jóni hugmyndina, enda koma góðar hug­myndir oft upp hjá mörgum á svipuðum tíma auk þess sem skógarreitirnir blöstu við. Þó er víst að Jón var einn af þeim fyrstu til að viðra þá hugmynd að hér væri hægt að rækta samfellda skóga og að rétt væri að reyna að afla þeirri hugmynd fylgis. Þar gæti stofnun skógræktarfélags fyrir landið allt skipt sköpum.

Við verðum líka að nefna í þessum kafla að Jón sá fyrir sér að jarðhiti yrði nýttur til að rækta suðræn aldin í vermireitum á Íslandi. Við segjum aðeins meira frá þeirri framtíðarsýn í kaflanum um garðyrkjustörf.

Jón Rögnvaldsson sá fyrir sér að hægt væri að rækta stóra, samfellda og fjölbreytta skóga á Íslandi. Myndin er tekin í Kjarnaskógi í desember 2018. Mynd: Sig.A.
Jón Rögnvaldsson sá fyrir sér að hægt væri að rækta stóra, samfellda og fjölbreytta skóga á Íslandi. Myndin er tekin í Kjarnaskógi í desember 2018. Mynd: Sig.A.

Birkiskógar og friðun lands

Partur af þessari skógarhugsjón Jóns, allt frá fyrstu tíð, var að friðuð yrðu þau skógarsvæði sem enn voru til og birkinu lofað að vaxa upp. Þessu lýsir hann í bókinni Aldnir hafa orðið. Í raun þurfi ekki annað en að ala upp nokkrar fræmæður og friða landið umhverfis þær til að fá upp birkiskóg. Svipaðar hugmyndir hafa verið viðraðar alla tíð síðan. Ekki þarf nema fáar birkiplöntur og frið fyrir sauðfjárbeit til að búa til birkiskóga. Ef viljinn er að fá skjótari árangur mælir Jón með því í bókinni að planta reglulega í raðir eða belti í væntanleg skógarsvæði. Þá geti birkið sáð sér út og skýlt ungviðinu, en á milli raðanna mætti planta öðrum trjátegundum „eins og hverjum og einum sýnist hagkvæmt“. Í framhaldi af þessu bætir hann við: „Við getum fagnað nýjum trjátegundum og boðið þær velkomnar, en við skulum jafnframt meta gamla og góða, íslenzka birkið að verðleikum.“ (Erlingur 1972). Má segja að þessi sýn Jóns sé enn í fullu gildi, enda lætur nærri að tvö af hverjum fimm trjám, sem plantað er í íslenska skóga, sé birki.

Jón lagði á það áherslu að vernda íslenska birkiskóga samhliða því að auðga íslenska náttúru með því að rækta erlendar trjátegundir. Myndin er tekin í Borgarfirði 9. október 2022 og sýnir birkikjarr í forgrunni en ræktaðan skóg í fjarska. Mynd: Sig.A.
Jón lagði á það áherslu að vernda íslenska birkiskóga samhliða því að auðga íslenska náttúru með því að rækta erlendar trjátegundir. Myndin er tekin í Borgarfirði 9. október 2022 og sýnir birkikjarr í forgrunni en ræktaðan skóg í fjarska. Mynd: Sig.A.

Jón lét ekki sitja við orðin tóm hvað þetta varðar. Meðal allrafyrstu verka hans í formannsstóli Skógræktarfélags Eyfirðinga var að girða af land ofan við Garðsá svo birkið fengi að sá sér þar út, friða land á Þelamörk í sama tilgangi og friða birkileifarnar í Leyningshólum. Á þessum stöðum hefur ís­lenska birkið verið metið að verðleikum þótt Jón hafi að auki boðið aðrar trjátegundir velkomnar.

Þótt enn sé til fólk sem á erfitt með að sjá samhengið milli beitar og skógleysis þreyttist Jón ekki á að benda á það. Þegar hann flutti frá Fífilgerði héldu þeir bræður eftir einum hektara lands. Þeir friðuðu þann hektara með því að girða hann af. Þá fylltist hann fljótt og vel af birki „og þannig er þetta hvarvetna þar, sem kominn er einhver birkiskógur og nýgræðingurinn fær frið til að vaxa“. (Erlingur 1972).

Mynd úr Leyningshólum. Sjá má að þarna hefur verið plantað nokkrum tegundum trjáa en birkið ræður ríkjum. Árið 1950 skrifaði Steindór Steindórsson: „Ekki er þar þó um samfellt skóglendi að ræða, heldur er skógurinn í torfum og autt land á milli. Sunnan að skógartorfunum liggja örfoka melar, og er sýnilegt, að þar hefir uppblástur fylgt fast eftir, þegar skógurinn hefir eyðst. Var honum mikil hætta búin af uppblæstri, enda höfðu torfurnar gengið saman í tíð núlifandi manna.“ Ljóst má vera af lýsingum Steindórs að hætt var við að skógurinn eyddist ef hann hefði ekki verið friðaður. Mynd: Sig.A.
Mynd úr Leyningshólum. Sjá má að þarna hefur verið plantað nokkrum tegundum trjáa en birkið ræður ríkjum. Árið 1950 skrifaði Steindór Steindórsson: Ekki er þar þó um samfellt skóglendi að ræða, heldur er skógurinn í torfum og autt land á milli. Sunnan að skógartorfunum liggja örfoka melar, og er sýnilegt, að þar hefir uppblástur fylgt fast eftir, þegar skógurinn hefir eyðst. Var honum mikil hætta búin af uppblæstri, enda höfðu torfurnar gengið saman í tíð núlifandi manna. Ljóst má vera af lýsingum Steindórs að hætt var við að skógurinn eyddist ef hann hefði ekki verið friðaður. Mynd: Sig.A.

Stofnun fjölskyldu

Jón kvæntist Körlu Þorsteinsdóttur þegar hann var kominn fast að fertugu. Hann sagði sjálfur að hann hefði bara ekki mátt vara að því fyrr. Karla átti íslenskan föður en norska móður og fæddist í Noregi. Um tíu ára fluttist hún með föður sínum til Íslands og örlögin höguðu því þannig að hún ólst að mestu upp á Leifstöðum eftir það. Aðeins er steinsnar milli Fífilgerðis og Leifs­staða, þannig að þau Jón hafa þekkst í æsku. Þau eignuðust saman fjögur börn og bjuggu síðustu árin á Barðstúni 3 í húsi sem þeir bræður, Jón og Kristján, reistu (Erlingur 1972). Börn þeirra hjóna voru:

  • Anna Lovísa, fædd árið 1943, lést 2021.

  • Ragna Ingibjörg, fædd 1946 en lést úr hvítblæði aðeins sex ára gömul árið 1952.

  • Rögnvaldur Ragnar, fæddur 1951.

  • Kristján Steingrímur, fæddur 1957.

Þeir Rögnvaldur og Kristján eru enn á lífi og veittu okkur mikilvægar upplýsingar við gerð þessa pistils. Kristján, bróðir Jóns, var múrari að mennt og var sem hægri hönd Jóns í mjög mörgu sem hann tók sér fyrir hendur eins og víða sést í þessum pistli. Þeir bjuggu nær alla tíð undir sama þaki en hvor í sinni íbúðinni. Þegar þeir bjuggu saman í Barðstúni gátu þeir ekki stillt sig um að koma sér upp ofurlítilli garðyrkjustöð og ræktuðu þar runna og fjölær blóm meðan þeir höfðu þrek til. Enn standa fögur tré í garðinum við Barðstún frá tímum þeirra bræðra.

Síðustu æviárin bjó Jón að Barðstúni 3 á Akureyri. Öldungarnir í garðinum eru frá þeim tíma sem hann bjó þar. Mynd: Sig.A.
Síðustu æviárin bjó Jón að Barðstúni 3 á Akureyri. Öldungarnir í garðinum eru frá þeim tíma sem hann bjó þar. Mynd: Sig.A.

Garðyrkjustörf

Vorið 1925 var Jón kominn heim frá Ameríku og hafði hugann við ræktun. Þá setti hann auglýsingu í blað á Akureyri og óskaði eftir vinnu við að skipu­leggja og fegra skrúðgarða á Akureyri. Í sama blaði var talað fallega um Jón og hefur það sjálfsagt hjálpað til. Síðan þurfti Jón ekki að auglýsa framar eftir vinnu. (Erlingur 1972). Að vísu sýnir leit á timarit.is að Jón auglýsti í blaðinu Íslendingi í september sama ár að hann tæki að sér enskukennslu. Hann tók oft fólk í enskukennslu heim til sín á komandi árum en auglýsti ekki nema einu sinni að hann tæki að sér garðyrkjustörf fyrir almenning.

Einn af fjölmörgum görðum sem Jón kom að var garðurinn í Hjarðarhaga í Eyjafjarðarsveit. Jón teiknaði garðinn að sjálfsögðu sunnan við húsið og er garðurinn bjartur og skjólsæll. Mynd: Sig.A.
Einn af fjölmörgum görðum sem Jón kom að var garðurinn í Hjarðarhaga í Eyjafjarðarsveit. Jón teiknaði garðinn að sjálfsögðu sunnan við húsið og er garðurinn bjartur og skjólsæll. Mynd: Sig.A.

Ritstjóri Íslendings, Gunnlaugur Tryggvi Jónsson, skrifaði um Jón í sama blaði og auglýsti að Jón tæki að sér garðyrkjustörf. Umfjöllunin var í 21. tölublaði Íslendings í dálki sem ber nafnið Úr heimahögum. Þar stendur: „Jón Rögnvaldsson trjáræktarfræðingur auglýsir hér í blaðinu að hann taki að sér að gera við listigarða og leiðbeina mönnum með plöntuval og annað, er að blóma- og trjárækt lýtur.“ Síðan er farið yfir að Jón hafi dvalið í Kanada og lært þar handbrögðin. Þá kemur þessi fallega framtíðarsýn: „Annars mun aðallega vaka fyrir Jóni í framtíðinni, að koma upp vermireitum, þar sem rækta má suðræn aldini og hverskonar blóm. Slíkum vermireitum mun auðveldast að koma upp þar, sem laugar eru í nágrenninu, og spáir Ísl. því, að verði Jóni að óskum sínum hvað undirtektir manna snertir, þá verði innan fárra ára kominn hitabeltisgróður kringum mikið af laugum þeim, er í mannabygðum liggja - fjölskrúðugir aldingarðar hér norður undir Íshafi.“ (Gunnlaugur 1925).

Fyrsta og eina auglýsingin sem Jón Rögnvaldsson birti um garðyrkjustörf sín fyrir almenning birtist í blaðinu Íslendingi 15. maí 1925. Blaðið má sjá á tímarit.is.
Fyrsta og eina auglýsingin sem Jón Rögnvaldsson birti um garðyrkjustörf sín fyrir almenning birtist í blaðinu Íslendingi 15. maí 1925. Blaðið má sjá á tímarit.is.

Eftir þetta hafði Jón næga vinnu við garðyrkjustörf. Fyrst fékk hann aðeins vinnu hjá danskættuðu fólki í bænum og venslafólki þess en smám saman bættust aðrir bæjarbúar í hópinn. Þetta gekk svo vel að fljótt þurfti hann á aðstoðarfólki að halda. Tók Jón 15 krónur á dag og aðstoðarmenn fengu 8-9 kr. í daglaun (Erlingur 1972).

Gosbrunnur á Illugastöðum í Eyjafirði en Jón hannaði garðinn. Mynd úr eigu erfingja Jóns en ljósmyndari er óþekktur.
Gosbrunnur á Illugastöðum í Eyjafirði en Jón hannaði garðinn. Mynd úr eigu erfingja Jóns en ljósmyndari er óþekktur.

Garðyrkjustörf utan Eyjafjarðar

Sem menntaður skógræktar- og garðyrkjumaður fór Jón víða um land í hartnær hálfa öld á alls konar fundi, í vinnuferðir og til að halda námskeið og veita ráð. Hann veitti ráð og skipulagði garða allt vestan frá Breiðafirði til Austurlands (Erlingur 1972 bls. 119). Í bók sinni um íslenska garðasögu nefnir Einar E. Sæmundsen (2018) Jón á nafn á einum fimm stöðum í bókinni og birtir myndir af nokkrum teikningum hans. Þar má meðal annars sjá uppdrátt að Jónsgarði á Ísafirði. Til þess garðs var stofnað árið 1922 en hann var stækkaður um helming árið 1938 eftir uppdrætti Jóns.

Inngangurinn í Jónsgarð á Ísafirði er sérstæður eins og sjá má. Myndina fengum við frá Markaðsstofu Vestfjarða en ekki kemur fram hver tók myndina.
Inngangurinn í Jónsgarð á Ísafirði er sérstæður eins og sjá má. Myndina fengum við frá Markaðsstofu Vestfjarða en ekki kemur fram hver tók myndina.

Þegar tekið er tillit til samgangna eins og þær voru lengst af síðustu aldar. Þarf samt ekki að koma á óvart að mest af vinnu Jóns fór þó fram á svæðinu frá Blönduósi og austur til Húsavíkur.

Í bókinni Skrúðgarðar, sem Jón skrifaði árið 1937 (sjá síðar) má sjá um tvo tugi uppdrátta af lóðum og umhverfi húsa í þéttbýli og til sveita. Gefa þær örlitla innsýn í starf Jóns á þessu sviði.


Einn af uppdráttum Jóns sem hann birti í bókinni Skrúðgarðar. Um fyrirkomulag og byggingu skrúðgarða árið (1937). Undir myndinni stendur: „Uppdr. nr. 20: 22 x 30 m. Sveitabær. Garðurinn lækkar um 60 sm. skammt sunnan við húsið. Þar hlaðinn steinkantur þvert yfir garðinn. Sunnan við steinkantinn hringmyndaður grasflötur með trjám og runnum umhverfis. Í miðjum grasfletinum tjörn með gosbrunni. Vegur heim að norðurstafni hússins. Stiklur austur og suður með húsinu að litlum blómgarði og listihúsi í króknum sunnan við húsið. Steingirðing norðan við garðinn. Annars vírnet.“
Einn af uppdráttum Jóns sem hann birti í bókinni Skrúðgarðar. Um fyrirkomulag og byggingu skrúðgarða árið (1937). Undir myndinni stendur: „Uppdr. nr. 20: 22 x 30 m. Sveitabær. Garðurinn lækkar um 60 sm. skammt sunnan við húsið. Þar hlaðinn steinkantur þvert yfir garðinn. Sunnan við steinkantinn hringmyndaður grasflötur með trjám og runnum umhverfis. Í miðjum grasfletinum tjörn með gosbrunni. Vegur heim að norðurstafni hússins. Stiklur austur og suður með húsinu að litlum blómgarði og listihúsi í króknum sunnan við húsið. Steingirðing norðan við garðinn. Annars vírnet.“

Skjólbelti

Hér að ofan er því lýst að Jón Rögnvaldsson taldi heppilegt að rækta birki í skjólbeltum á skógræktarsvæðum. Það gæti síðan sáð sér út og einnig mætti planta öðrum plöntum í skjólið. Í viðtalsbók Erlings Davíðssonar segir Jón frá því á bls. 114 að tilraunir hafi sýnt fram á að í skjóli skjólbelta og skóga séu vaxtarmöguleikar alls konar gróðurs margfaldir á við það sem gerist á ber­angri. Þetta er sannleikur sem enn er í fullu gildi. Í viðtalsbókinni er einnig bent á að jafnvel langt suður í álfunni séu skjólbelti ræktuð til þess að auka uppskeru þótt ætla mætti að þar vantaði ekki hlýindin (Erlingur 1972).

Árið 1959 gerði Jón uppdrátt af skjólbeltaneti í Kaupangssveit. Sennilega er þetta fyrsta skjólbeltaáætlun sem gerð var á Íslandi. Er það enn eitt dæmið um frumkvöðlastarf Jóns og stórhug í ræktunarmálum. Tveimur árum síðar hófust framkvæmdir (Bjarni 2000). Ekki var að fullu farið eftir þessum hugmyndum Jóns en enn eru til skjólbelti frá þessum tíma. Í undirbúningi er sérstakur pistill um þessa skjólbeltarækt og verður því ekki meira fjallað um hana í bili. Þó skal þess getið að systir Jóns, Sólveig á Leifsstöðum, átti drjúgan þátt í framkvæmdinni.

Eitt af skjólbeltunum sem var hluti af skjólbeltaskipulagi Jóns Rögnvaldssonar í Kaupangssveit í Öngulsstaðahreppi frá árinu 1959. Þetta belti tilheyrir landi Garðsár. Beltin eru birkiskjólbelti og Jón ráðlagði að greni yrði plantað í birkiskjólið eftir eitt til þrjú ár. Það var ekki gert nema á nokkrum stöðum. Mynd: Sig.A.

Þetta skjólbeltaátak Jóns og félaga skilaði sér í aðrar sveitir. Hér er skjólbelti við Freyvang sem tilheyrði Öngulsstaðahreppi hinum forna en er ekki í Kaupangssveit. Það belti var gróðursett eftir hugmyndum Jóns. Árið 1991 voru Öngulsstaðahreppur, Saurbæjarhreppur og Hrafnagilshreppur sameinaðir í Eyjafjarðarsveit. Í henni eru mörg skjólbelti en það var Jón Rögnvaldsson sem fyrstur manna hóf þá rækt í Eyjafirði. Mynd: Sig.A.
Þetta skjólbeltaátak Jóns og félaga skilaði sér í aðrar sveitir. Hér er skjólbelti við Freyvang sem tilheyrði Öngulsstaðahreppi hinum forna en er ekki í Kaupangssveit. Það belti var gróðursett eftir hugmyndum Jóns. Árið 1991 voru Öngulsstaðahreppur, Saurbæjarhreppur og Hrafnagilshreppur sameinaðir í Eyjafjarðarsveit. Í henni eru mörg skjólbelti en það var Jón Rögnvaldsson sem fyrstur manna hóf þá rækt í Eyjafirði. Mynd: Sig.A.

Garðyrkjustöð

Árið 1938 keyptu þeir bræður, Jón og Kristján, gróðrarstöðina Flóru við Brekkugötu 7 á Akureyri og höfðu að auki afnot af baklóð Brekkugötu 5 þar sem þeir höfðu vermireiti (Rögnvaldur 2025). Bræðurnir stofnuðu því ekki þessa stöð heldur keyptu hana af Soffíu Sófoníasdóttur sem hafði sett stöðina á fót laust eftir 1930. Þeir bræður ráku stöðina í um fimmtán ára skeið og framleiddu mikið af alls konar plöntum (Ásta og Björgvin 2012). Í görðum í nágrenninu má enn sjá alls konar tré sem mörg hver eru vísast komin úr þessari ræktun. Við viljum benda á kortasjá Skógræktarfélags Eyfirðinga þar sem mörg merk tré eru kynnt til sögunnar. Þar má sjá hversu þétt fögur og merk tré eru í nágrenni hinnar gömlu garðyrkjustöðvar þeirra bræðra. Auðvitað kann líka að vera að eitthvað af þessum gömlu trjám sé frá þeim tíma sem Soffía rak stöðina en líklegra er að hún hafi fyrst og fremst ræktað fjölærar blómplöntur.

Stórar baklóðir eru við sum húsanna við Brekkugötu. Við hús númer 7 var Flóra og þar er nú aðeins eitt tré. Fengu þeir bræður einnig afnot af lóðinni við Brekkugötu 5. Til að fólk átti sig betur á staðsetningunni má nefna að Litla saumastofan er í húsinu númer 9 við sömu götu og sést það hús einnig á myndinni. Myndin er úr eigu fasteignasölunnar Hvamms og við fengum hana af fasteignavefnum Fastinn.is.
Stórar baklóðir eru við sum húsanna við Brekkugötu. Við hús númer 7 var Flóra og þar er nú aðeins eitt tré. Fengu þeir bræður einnig afnot af lóðinni við Brekkugötu 5. Til að fólk átti sig betur á staðsetningunni má nefna að Litla saumastofan er í húsinu númer 9 við sömu götu og sést það hús einnig á myndinni. Myndin er úr eigu fasteignasölunnar Hvamms og við fengum hana af fasteignavefnum Fastinn.is.

Eftir að þeir bræður, Jón og Kristján, keyptu Flóru ræktuðu þeir ekki aðeins plöntur sem hentuðu í garða eins og ýmsa runna, tré, fjölæringa og sumarblóm. Í Flóru var einnig ræktaður gróður sem nú telst til ylræktar. Þannig segir Jón Hjaltason (2004) að Jón hafi bryddað upp á þeirri nýjung að selja pottaplöntur, matjurtir og blómvendi á götum úti.

Talið er að Jón Rögnvaldsson hafi gróðursett dularfullu öspina við Bjarmastíg sem við sögðum nánar frá í pistli í september 2022. Hákon Bjarnason, skógræktarstjóri, taldi að Jón hefði tekið þessa plöntu með sér frá Kanada. Mynd: Sig.A.
Talið er að Jón Rögnvaldsson hafi gróðursett dularfullu öspina við Bjarmastíg sem við sögðum nánar frá í pistli í september 2022. Hákon Bjarnason, skógræktarstjóri, taldi að Jón hefði tekið þessa plöntu með sér frá Kanada. Mynd: Sig.A.

Stofnun skógræktarfélags

Eins og mörgum er kunnugt er Skógræktarfélag Eyfirðinga elsta skógræktar­félag landsins sem starfað hefur óslitið frá stofnun. Auðvitað var Jón aðal­hvatamaðurinn að stofnun þess og fyrsti formaðurinn. Eins og stundum áður og oft síðan var Jón stórhuga. Því vildi hann stofna félag sem næði yfir allt landið. Þess vegna þykir okkur rétt að skipta frekari umfjöllun í tvo kafla. Jón byrjaði nefnilega á að stofna skógræktarfélag sem hafði ekki bara Eyjafjörðinn undir, heldur allt landið.

Vaðlaskógur er einn af ellefu reitum Skógræktarfélagsins. Þar er margt að skoða.  Hér má sjá alaskasýprus í forgrunni en síberíuþin þar á bak við. Lerkið er allt um kring. Myndin tók Sig.A. 24. maí 2023.
Vaðlaskógur er einn af ellefu reitum Skógræktarfélagsins. Þar er margt að skoða. Hér má sjá alaskasýprus í forgrunni en síberíuþin þar á bak við. Lerkið er allt um kring. Myndin tók Sig.A. 24. maí 2023.

Skógræktarfélag Íslands

Eins og að framan greinir fór Jón að huga að stofnun félags áhugamanna um skógræktarmál alkominn heim frá Kanada. Var máli hans yfirleitt tekið sæmi­lega, en þó af fjöldanum með tómlætiskrifaði Árni Jóhannsson í afmælis­rit Skógræktarfélagsins árið 1940. Jón Rögnvaldsson sagði sjálfur að þeir sem helst unnu að þessu með honum hefðu allir verið sammála um að hefja þyrfti sérstakt átak sem gæti orðið til þess að upp risi sérstök áhuga­alda (Erlingur 1972).

Jón nefndi félagið Skógræktarfélag Íslands og sýnir það vel stórhuginn sem hann bjó yfir. Ellefta maí 1930 var haldinn stofnfundur Skógræktarfélags á Hótel Gullfossi á Akureyri og hlaut það nafnið Skógræktarfélag Íslands. Stofn­félagar vissu ekki að þá var búið að ákveða að stofna annað skóg­ræktar­félag með þessu nafni. Átti að gera það á Þingvöllum á Alþingis­hátíðinni síðar þetta sama sumar. Svo fór að það félag var stofnað 27. júní sama ár í sjálfri Almannagjá að viðstöddum um 60 manns er þúsund ára hátíð Alþingis stóð sem hæst. Fyrsti formaður þess félags varð áðurnefndur Sigurður Sigurðarson búnaðarmálastjóri, sá hinn sami og stjórnaði fyrsta námskeiðinu sem Jón sótti, eins og sagt er frá hér ofar, og fyllti Jón og marga bændur af eldmóði skógræktar.

Áður en Jón stofnaði Skógræktarfélag Íslands stóð hann í bréfaskiptum við mæta menn um stofnun félagsins. Einn af þeim sem hann ræddi við um þetta var téður Sigurður Sigurðarson. Í þeim bréfaskiptum virðist Sigurður ekki hafa sagt Jóni frá fyrirhugaðri stofnun félagsins á Þingvöllum. Jón segir ekkert um þetta í prentuðum, aðgengilegum heimildum, nema að hann nefnir í bókinni Aldnir hafa orðið að þeir Sigurður hafi verið í bréfasamskiptum um stofnun félagsins fyrir norðan. Synir Jóns eiga enn dálítið af þeim bréfum sem faðir þeirra lét eftir sig. Í einu þeirra, sem Sigurður búnaðarmálastjóri skrifaði 26. mars 1930, ber þessi mál á góma og er það svar við bréfi Jóns frá 29. janúar sama ár. Er ekki að sjá annað en vel hafi farið á með þeim Jóni og Sigurði, enda hefst bréfið á ávarpsorðunum: Góði vin“ og lýkur með kveðjunni: „Bestu óskir, þinn einl[ægur].“. Aðalefni bréfsins er að taka undir með Jóni um mikilvægi þess að stofna skógræktarfélag og hvetja hann til dáða. Í bréfinu stendur meðal annars: Í sumar er tækifæri til að vekja áhuga og ef til vill safna fé í þessum tilgangi. Þetta tækifæri megum vér eigi láta ganga oss úr greipum, og því mun ég verða við tilmælum þínum og leitast fyrir um hvort komið verði á félagsstofnun. Ég hefi talað við nokkra menn þessu viðvíkjandi, sem hafa lofað mér stuðningi og skrifað hefi ég eftir upplýsingum um slíkan félagsskap í Noregi.“ Svo minnist Sigurður á skipulag félagsins og tekur undir tillögur Jóns þar að lútandi og lofar frekari bréfa­skriftum. Í þessu bréfi er hvergi minnst á að til standi að stofna annað félag með sömu markmið eftir rúma þrjá mánuði. Vel er skiljanlegt, eftir þessi vinsamlegu skrif, að Jón hafi orðið dálítið hissa þegar hann frétti af stofnun annars Skógræktarfélags Íslands og að Sigurður yrði þar formaður.

Sonur Jóns, Rögnvaldur Jónsson (2025), sagði okkur að Jón hefði efast um vilja og getu þeirra sem stofnuðu félagið á Alþingi til að standa vel að málum og drífa starfið af stað. Að sögn Rögnvaldar taldi Jón að þessar áhyggjur hefðu ræst og fyrstu árin hefði starfið fyrir norðan orðið bæði meira og kröftugra en syðra. Ekki er annað að sjá en eitthvað sé til í þessu. Árið 1950 skrifaði Hákon Bjarnason grein í Ársrit Skógræktarfélags Íslands í tilefni 20 ára afmælis félagsins. Þar stendur: „Eftir stofnunina lá við borð að félagið hlyti sömu örlög og margur nýgræðingurinn í köldum vorum. Þegar hátíðar­skapið var runnið af mönnum gleymdist þessi reifastrangi, og fóru engar sögur af honum í hálft annað ár.“ Þetta var með öðrum brag í Eyjafirði þar sem vorið 1931 var strax byrjað að girða af land við Garðsárgil. Var það fyrsta verkefni félagsins eins og greint verður frá hér á eftir.

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Skógræktarfélagið, sem síðar varð Skógræktarfélag Eyfirðinga, var stofnað 11. maí 1930 á Hótel Gullfossi. Fyrsta grein var svohljóðandi, samkvæmt Árna Jóhannssyni (1940): Félagið heitir Skógræktarfélag Íslands. Heimili þess er fyrst um sinn á Akureyri.

Samkvæmt lögum félagsins var tilgangur þess að vinna að aukinni skóg- og trjárækt í landinu. Átti að gera það bæði með því að stuðla að verndun skógarleifa og með ræktun nýrra skóga eftir því sem efni og aðstæður leyfðu (Árni 1940). Á stofnfundinn mættu eftirtaldir:

Jónas Þór verksmiðjustjóri, Akureyri Steingrímur Jónsson bæjarfógeti, Akureyri

Margrethe Schiöth frú, Akureyri Axel Schiöth bakarameistari, Akureyri Vilhjálmur Þór kaupfélagsstjóri, Akureyri Guðrún Björnsdóttir frú, Knarrarbergi Svanbjörn Frímannsson bankaritari, Akureyri Kristján Sigurðsson kaupmaður, Akureyri Jón Steingrímsson bæjarfógetafulltrúi, Akureyri

Bergsteinn Kolbeinsson bóndi, Kaupangi Kristján Rögnvaldsson múrari, Fífilgerði Jón Rögnvaldsson garðyrkjumaður, Fífilgerði.


Eins og sjá má á upptalningunni voru stofnmeðlimirnir tólf að tölu, þar af tvær konur. Báðar skildu þær eftir sig djúp spor í garða- og ræktunarsögu Eyjafjarðar en önnur þeirra, Margethe Schiöth, kemur töluvert við sögu Jóns. Hún stýrði Lystigarðinum á undan Jóni og stakk upp á honum sem arftaka sínum.

Á stofnfundinum var Jón Rögnvaldsson kosinn fyrsti formaður félagsins og gegndi hann því starfi óslitið næstu níu árin. Þá baðst hann undan for­mennsku vegna anna, en lengi síðan var tíðum leitað til hans um ýmis ráð, sem hann veitti fúslega, enda var hann sá eini sem hafði gagnlega þekkingu á þessu sviði eins og sporgöngumaður hans í formannsstóli orðaði það. Aðrir sem voru í þessari fyrstu stjórn voru Jónas Þór, ritari félagsins, og Berg­steinn Kolbeinsson féhirðir (Árni 1940). Við formennsku af Jóni tók Árni Jóhannsson en grein hans á tíu ára afmæli félagsins er helsta heimild þessa kafla.

Þegar hið yngra Skógræktarfélag Íslands hafði verið stofnað á Þingvöllum varð úr að Jón féllst á að gefa eftir nafnið á félaginu sem hann lagði svo mikið á sig til að stofna. Ekki er að sjá að neinn kali hafi verið milli þessara félaga. Á aðalfundi árið 1932 var heiti eldra félagsins breytt í Skógræktar­félag Eyfirðinga og lögum þess breytt í samræmi við það (Árni 1940). Síðan hefur elsta starfandi skógræktarfélag landsins borið það nafn. Þetta er ástæða þess að miðað er við 11. maí 1930 sem stofndag Skógræktarfélags Eyfirðinga, þótt það hafi borið annað heiti fyrst um sinn.

Núverandi formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga er Sigurður Hólm Sæmundsson. Mynd úr eigu S.E.
Núverandi formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga er Sigurður Hólm Sæmundsson. Mynd úr eigu S.E.

Í títtnefndri grein eftir Árna Jóhannsson (1940), sem birtist í tíu ára afmælisriti Skógræktarfélags Eyfirðinga, kemur fram að líklegast er félagið fyrstu héraðsbundnu félagssamtökin hér á landi sem aðeins vinna að skóg­ræktar­málefnum. Svo segir Árni: Hér er því um stórmerka brautryðjenda­starfsemi að ræða, sem mikils má af vænta í framtíðinni, og nú þegar hafa að dæmi Eyfirðinga og Akureyringa verið stofnuð nokkur slík félög í landinu, og verða vonandi fleiri innan skamms tíma. Nú eru 65 skógræktarfélög innan vébanda Skógræktarfélags Íslands með yfir sjö þúsund félagsmenn.

Í lok greinar sinnar nefnir Árni (1940) hvað helst stendur Skógræktarfélagi Eyfirðinga fyrir þrifum. Þar er fyrst og fremst um að ræða skort á trjáplöntum. Félagsmenn höfðu farið yfir í Vaglaskóg til að ná í trjáfræ og til að stinga upp bæði birki og víði, sem síðan var plantað í reiti félagsins, einkum í það sem þá var kallað Vaðlareitur, en er nú orðið Vaðlaskógur. Eitt af því sem tafði framkvæmdir á þessum upphafsárum var hversu seint snjóa leysti í Vaðlaheiði. Við það tapast oft mikill hluti af bezta gróðursetninga­tímanum.“ Þrátt fyrir allt var Árni sáttur við fyrsta áratug félagsins undir stjórn Jóns Rögnvaldssonar. „Vona ég, ef fullrar sanngirni er gætt, þá megi sæmilega við una það sem áunnist hefir og 10 ár eru stuttur tími í ræktunar- og þroskasögu skóganna.“ (Árni 1940).

Vegna skorts á skógarplöntum fóru félagsmenn Skógræktarfélags Eyfirðinga yfir Vaðlaheiði til að ná í fræ og plöntur í Vaglaskóg á fyrstu árum félagsins. Myndin er tekin í Vaglaskógi 14. september 2022. Mynd: Sig.A.
Vegna skorts á skógarplöntum fóru félagsmenn Skógræktarfélags Eyfirðinga yfir Vaðlaheiði til að ná í fræ og plöntur í Vaglaskóg á fyrstu árum félagsins. Myndin er tekin í Vaglaskógi 14. september 2022. Mynd: Sig.A.

Fyrstu verk félagsins

Meginatriði í fyrstu félagslögum Skógræktarfélagsins hafa verið í gildi alla tíð og miðaði starfinu strax í rétta átt, þótt félagsmönnum hafi oft og tíðum þótt ganga dálítið hægt.

Árni Jóhannsson (1940) segir að á fyrsta áratugnum í starfsemi félagsins hafi aðalviðfangsefni þess verið af þrennum toga. Hið fyrsta var að stækka félagið. Annað var fjársöfnun til framkvæmda og sjóðmyndunar og hið þriðja voru verklegar framkvæmdir. Á fyrsta áratug félagsins fjölgaði félagsmönnum tífalt. Félagarnir voru 120 árið 1940. Þótti Árna það reyndar sorglega lítil þátttaka en þetta hefur verið dugmikið fólk. Að auki fékk félagið fjárhagslegan styrk víða að. Enn er það svo að Skógræktarfélag Eyfirðinga fær stuðning víða að en Akureyrarbær er þar drýgstur.

Friðun skógarleifa í Garðsárgili hefur borið ótrúlegan árangur. Mynd: Sig.A.
Friðun skógarleifa í Garðsárgili hefur borið ótrúlegan árangur. Mynd: Sig.A.

Í verklegum framkvæmdum beindi félagið fyrst um sinn kastljósinu að skógarleifum í sýslunni. Fyrsta verkefnið var að girða af blett við Garðsárgil og var stofnað til Garðsárreits vorið 1931. Um hann má fræðast hér. Þar voru birkihríslur fyrir í gilinu og urmull af smáplöntum á gilbarminum að sögn Jóns (Erlingur 1972). Meðan landið var beitt komst það birki ekki á legg. Við höfum áður fjallað um þennan skógarreit, birkið í honum og einstök tré. Má finna pistlana á vef félagsins, kjarnaskogur.is, undir flipanum Fróðleiks­molar. Þarna þurfti ekki annað en að girða til að bjarga plöntunum frá beitaránauð svo að birkið færi að vaxa og sá sér meira út. Seinna var talsvert gróðursett af barrtrjám á svæðinu og einnig ösp og reyni. Um reitinn sagði Jón árið 1972: „Þessi reitur er einstaklega þroskamikill og fallegur, og sýnir, eins og víðar, hve gróðurmáttur moldarinnar er mikill, og víða þarf ekki annað en að hjálpa náttúrunni lítils háttar, til að ná hinum ágætasta árangri(Erlingur 1972). Við getum ekki annað en tekið undir þessi orð Jóns og gert þau að okkar, enda eiga þau enn við.

Mörg fögur tré eru í Garðsárreit. Þar á meðal er þessi glæsilega skógarfura. Mynd: Sig.A.
Mörg fögur tré eru í Garðsárreit. Þar á meðal er þessi glæsilega skógarfura. Mynd: Sig.A.

Næsta verkefni félagsins var að setja upp girðingu í kringum skógarleifarnar á Vöglum á Þelamörk árið 1934. „Síðan hefur vaxið þar upp birkigróður, sem vekur orðið athygli þeirra, sem um þjóðveginn fara“ (Ármann 1950). Þessi pistill fjallar um þær breytingar sem orðið hafa á Þelamörk í kjölfar friðunar.

Meðal annarra verka Jóns á þessum tíma var að girða af skógarleifarnar í Leyningshólum sem hann taldi með réttu að væri ákaflega sérstakt og merkilegt land. Þar er mjög þurrt og grýtt. Þegar þarna var komið sögu var þetta í raun og veru eini staðurinn í sýslunni þar sem enn var ofurlítill skógur eða skógarleifar sem heitið gátu en engu að síður var landið uppblásið á köflum (Erlingur 1972). Svo er að sjá sem litlu hafi munað að þessi skógur eyddist með öllu.

Skógarjaðar á Vöglum á Þelamörk. Nú er þessi skógarreitur þjóðskógur í umsjón Lands og skógar. Mynd: 27. júní 2023. Sig.A.
Skógarjaðar á Vöglum á Þelamörk. Nú er þessi skógarreitur þjóðskógur í umsjón Lands og skógar. Mynd: 27. júní 2023. Sig.A.

Þegar Skógræktarfélagið var 20 ára skrifaði Steindór Steindórsson frá Hlöðum (1950) merkilega grein í Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Þar segir: Skógræktarfélag Eyfirðinga lét girða mestan hluta þessa skóglendis á árunum 1937-1938. Flatarmál hins girta svæðis er um 50 ha, en af því eru um 35 ha alvaxnir skógi. (Til samanburðar má geta þess, að Vaglaskógur í Fnjóskadal er 250 ha). Skógarleifarnar í Leyningshólum voru þegar fyrir friðunina einstaklega vöxtulegar. Mátti ljóslega á þeim sjá, að þar var eðlisgóður birkistofn. Trén eru furðu beinvaxin og mörg einstofna, sem fátítt er í ófriðuðu beitarkjarri. Síðan girt var, hefur skógurinn tekið verulegum framförum, og nýgræðingur breiðst út um holt og mela, og það sem mest er um vert, að uppblásturinn er stöðvaður, viðnám og nýgróður er hafinn í stað eyðingar.

Mynd úr Leyningshólum á rigningardegi 26. september 2021. Eins og sjá má hafa rofabörðin, sem Steindór lýsti árið 1950, gróið upp. Í hólunum má sjá gróðursett barrtré en langt er síðan Skógræktarfélagið hætti slíkri gróðursetningu þarna og barrtré er aðeins að finna á tiltölulega litlum bletti. Fyrst og fremst fær birkið að njóta sín en barrtrén fegra reitinn. Mynd: Sig.A.
Mynd úr Leyningshólum á rigningardegi 26. september 2021. Eins og sjá má hafa rofabörðin, sem Steindór lýsti árið 1950, gróið upp. Í hólunum má sjá gróðursett barrtré en langt er síðan Skógræktarfélagið hætti slíkri gróðursetningu þarna og barrtré er aðeins að finna á tiltölulega litlum bletti. Fyrst og fremst fær birkið að njóta sín en barrtrén fegra reitinn. Mynd: Sig.A.

Merkilegt er að bera saman lýsingar úr Jarðabókinni frá fyrri hluta átjándu aldar á þessum tveimur síðasttöldu stöðum (Árni og Páll 1712). Þar kemur fram að ástand skóglendis var verra í Leyningi en á Vöglum. Um skóga á Vöglum segir: „Skógur [...] til kolgjörðar og eldiviðar nægur, og brúkast til þeirra búsnauðsynja“ (bls. 171). Um Leyning stendur: „Skógur til kolgjörðar er að kalla eyddur, en til tróðs og eldiviðar enn bjarglegur“ (bls. 202). Samt varð það svo að allur skógur hvarf á Vöglum á Þelamörk en tórði í Leyningshólum.

Jón talar um ofantalda þrjá staði í viðtalsbókinni Aldnir hafa orðið (Erlingur 1972) og segir enn fremur frá því að í formannstíð hans hafi land verið girt austan við fjörðinn. Það svæði kallast nú Vaðlaskógur og er mikil prýði að honum. Þar voru engar skógarleifar, heldur var skóginum plantað. Jón nefnir í bókinni að upphaflega hafi það verið fyrir gjöf frá Ólafi Thorarensen bankastjóra sem ráðist var í þessar framkvæmdir en margir sjálfboðaliðar unnu við gróðursetningu og „studdu málin drengilega“ (Erlingur 1972). Þetta var mjög höfðingleg gjöf og Árni Jóhannsson (1940) segir líka frá henni. Ef til vill væri enginn skógur á þessu svæði ef ekki hefði verið fyrir Ólaf Thorarensen.

Við höfum ritað nokkuð marga pistla um Vaðlaskóg í pistlaröð okkar og má finna þá á vef félagsins.

Samningur um umráða- og afnotarétt á landspildunni, sem nú kallast Vaðla­skógur, var undirritaður árið 1936. Landið var girt árið eftir og þá var farið að gróðursetja í þetta skóglausa land svo Akureyringar þyrftu ekki að fara yfir Vaðlaheiði til að komast í skóglendi (Árni 1940).

Mynd úr eigu Skógræktarfélagsins sem tekin var árið 1956 og sýnir Jón Dalmann Ármannsson og Hólmfríði Ólafsdóttur skoða furuskóg. Bergfurur eru meslot áberandi en í bakgrunni má sjá birki og elstu skógarfurugróðursetninguna.
Mynd úr eigu Skógræktarfélagsins sem tekin var árið 1956 og sýnir Jón Dalmann Ármannsson og Hólmfríði Ólafsdóttur skoða furuskóg. Bergfurur eru meslot áberandi en í bakgrunni má sjá birki og elstu skógarfurugróðursetninguna.

Aðrir skógarreitir

Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar (2000) sem er endalaus uppspretta fróðleiks er lítil innskotsgrein um Jón Rögnvaldsson á bls. 47. Þar kemur fram að hann lét ekki duga að koma að skógarreitum Skógræktarfélags Eyfirðinga. Áður er nefnt að hann kom að skipulagi skógarreitsins við Kristnes. Að auki kom hann að skipulagi reita við Freyjulund og Húsmæðraskólann á Laugalandi (Bjarni 2000). Þá er ónefnt að í ferðum sínum um landið veitti hann oft alls konar ráðgjöf er varðaði bæði garðyrkju og skógrækt.

Hliðið að skógarreitnum við Húsmæðraskólann á Laugalandi. Þetta er einn af þeim skógarreitum sem Jón tók þátt í að skipuleggja. Mynd: Sig.A.
Hliðið að skógarreitnum við Húsmæðraskólann á Laugalandi. Þetta er einn af þeim skógarreitum sem Jón tók þátt í að skipuleggja. Mynd: Sig.A.

Lystigarðurinn

Árið 1954 átti Jón átti enn heima í Fífilgerði. Þá gerðust þau tíðindi að frú Margrethe Schiöth lét af störfum við Lystigarð Akureyrar. Hún var ein af þeim allra fyrstu sem réðu Jón til garðyrkjustarfa þegar hann kom frá Kanada og einn tólf stofnenda Skógræktarfélags Eyfirðinga. Samkvæmt bókinni Konur gerðu garðinn (2012) var frú Schiöth skráð sem forstöðukona garðsins frá 1933-1953 en hafði verið í stjórn Lystigarðs­félagsins frá árinu 1920 og formaður þess frá 1925. Hafði Jón unnið í garð­inum sumrin 1926 og 1927 undir stjórn Margrethe (Ásta og Björgvin 2012). Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar (2000) er kafli um Lystigarðinn sem þáverandi forstöðumaður hans, Björgvin Steindórsson, skrifaði. Hann tiltekur tvær ástæður þess að Jón var fenginn til að leysa frú Schiöth af hólmi. Jón var einfaldlega fremstur kunnáttumanna í bænum á þessu sviði og hafði að auki oft hjálpað frú Schiöth í garðinum. Það var því samdóma álit allra er gerst þekktu að hann væri líklegastur til að halda starfinu áfram í sama anda og frú Schiöth hafði gert og geta aukið og eflt garðinn. Gek það eftir.

Austurhlið Lystigarðsins með sínu vel þekkta og fallega grindverki. Mynd: Sig.A.
Austurhlið Lystigarðsins með sínu vel þekkta og fallega grindverki. Mynd: Sig.A.

Nú kann einhver að velta því fyrir sér hvernig á því stóð að Jón tók við garðinum árið 1954 en frú Schiöth lét af störfum 1953. Því er til að svara að þriggja manna nefnd, sem Jón átti sæti í, auglýsti eftir garðyrkjumanni sem gæti tekið að sér vinnu við garðinn. Þetta var ákveðið samkvæmt tillögu Jóns 19. mars 1954. Bendir það til þess að hann hafi ekki ætlað að taka þetta starf að sér, enda rak hann þá, ásamt bróður sínum, garðyrkjustöðina Flóru og höfðu þar ærinn starfa. Enginn sóttist eftir starfinu við garðinn og því gekkst Jón undir vandræðin og tók þetta að sér (Ásta og Björgvin 2012). Í bókinni Aldnir hafa orðið (1972) er haft eftir Jóni að það hafi verið að ráði frú Schiöth að hann tæki við Lystigarðinum. Þannig atvikaðist að þeir bræður báðir réðust til starfa við garðinn (Erlingur 1972).

Enn er til fjöldinn allur af trjám frá tímum Jóns Rögnvaldssonar í Lystigarðinum. Þar á meðal er þessi glæsilegi gráölur, Alnus incana ssp. incana, sem sáð var til árið 1957. Mynd: Sig.A.
Enn er til fjöldinn allur af trjám frá tímum Jóns Rögnvaldssonar í Lystigarðinum. Þar á meðal er þessi glæsilegi gráölur, Alnus incana ssp. incana, sem sáð var til árið 1957. Mynd: Sig.A.

Á þessum tíma breytist margt í rekstri garðsins. Áður en Jón tók við stjórn garðsins var hann rekinn af sérstöku félagi, Lystigarðsfélaginu, en 13. októ­ber 1953 tók Akureyrarbær við rekstrinum. Skipuð var þriggja manna nefnd til að stjórna garðinum og sátu í henni þau Anna Kvaran (dóttir Margrethe Schiöth), Jón Rögnvaldsson og Steindór Steindórsson yfirkennari, sem varð formaður nefndarinnar (Ásta og Björgvin 2012). Þarna lágu leiðir þeirra Steindórs og Jóns enn saman, en sá fyrrnefndi hafði án efa mikil áhrif til þess að Jón fetaði þá braut sem hann fór á lífsleiðinni. Eftir að Jón Rögnvaldsson tók við Lystigarðinum tók garðurinn fljótt nokkrum breytingum. Undir handarjaðri Jóns var hann á næstu árum stækkaður í tvígang, fyrst til suðurs og síðar til vesturs (Bjarni (ritstj.) 2000). Á suðurhlutanum var komið fyrir íslenska grasafræðihlutanum og er hann þar enn. Nánar verður sagt frá því safni aðeins neðar.

Jón nýtti menntun sína og reynslu í starfi sínu við garðinn. Hann lagði áherslu á að hæfilegt hlutfall yrði milli grasflata, blómabeða, trjáa og runna. Trén máttu ekki verða það þétt að þau spilltu heildarsvipnum. Þau áttu samt að verða til þess að skapa fjölbreytt rými í garðinum. Þannig er þetta enn og laðar að fjölda gesta. Jón safnaði plöntum frá ýmsum heimshornum. Hann hafði samskipti við um fjóra tugi grasagarða í Evrópu, Norður-Ameríku og allt austur til Síberíu.

Jón Rögnvaldsson í söfnunarferð fyrir íslenska hluta plöntusafnsins í Lystigarðinum í júlí 1966. Er hann þarna klæddur samkvæmt venju. Mynd úr eigu erfingja Jóns Rögnvaldssonar en ljósmyndari er óþekktur. Líkur eru á að grasafræðingurinn Hörður Kristinsson hafi tekið myndina, en þeir fóru stundum saman í söfnunar- og könnunarferðir. Hörður ólst upp í Kaupangssveit og er haft fyrir satt að garðurinn í Fífilgerði hafi haft mikil áhrif á hann og átt sinn þátt í því að hann varð grasafræðingur.
Jón Rögnvaldsson í söfnunarferð fyrir íslenska hluta plöntusafnsins í Lystigarðinum í júlí 1966. Er hann þarna klæddur samkvæmt venju. Mynd úr eigu erfingja Jóns Rögnvaldssonar en ljósmyndari er óþekktur. Líkur eru á að grasafræðingurinn Hörður Kristinsson hafi tekið myndina, en þeir fóru stundum saman í söfnunar- og könnunarferðir. Hörður ólst upp í Kaupangssveit og er haft fyrir satt að garðurinn í Fífilgerði hafi haft mikil áhrif á hann og átt sinn þátt í því að hann varð grasafræðingur.

Við verðum að geta þess að þótt Jón hafi verið mikill brautryðjandi í sínum störfum er ekki annað að sjá en Kristján bróðir hans hafi verið helsta stoð hans og stytta. Kristján var múraramenntaður og án efa var það hann sem stjórnaði gerð grindverksins sem enn afmarkar Lystigarðinn að austan. Grindverk þetta er mikil prýði og hefur hingað til staðið allt af sér en fékk þó góða yfirhalningu í tengslum við aldarafmæli garðsins. Ber mannvirki þetta handbragði meistara síns gott vitni (Rögnvaldur 2025). Samstarf þeirra bræðra var lengi annálað. Þau Ásta og Björgvin (2012) segja að það hafi verið haft fyrir satt að Jón fengi hugmyndirnar og Kristján útfærði þær (bls. 62).

Lystigarðurinn á Akureyri er fagur á hvaða tíma árs sem er. Á þessari mynd má sjá tré frá tíma þeirra bræðra Jóns og Kristjáns. Kristján var múrari að mennt og á heiðurinn að girðingunni sem sést á myndinni. Hlaut hún verðskuldað viðhald árið 2012. Mynd: Sig.A.
Lystigarðurinn á Akureyri er fagur á hvaða tíma árs sem er. Á þessari mynd má sjá tré frá tíma þeirra bræðra Jóns og Kristjáns. Kristján var múrari að mennt og á heiðurinn að girðingunni sem sést á myndinni. Hlaut hún verðskuldað viðhald árið 2012. Mynd: Sig.A.

Auðvitað stóð Jón fyrir ýmsum framkvæmdum og nýjungum þau sextán ár sem hann stýrði garðinum. Kominn var tími á grisjunarvinnu enda fjórir áratugir frá fyrstu gróðursetningum. Á hverju ári voru ný beð útbúin og nýir göngustígar lagðir (Ásta og Björgvin 2012).

Í spjaldskrá Lystigarðsins eru skráðar 365 tegundir sem Jón reyndi í Lystigarðinum. Af þeim lifa 182 enn. Sumar hinna hafa verið endurnýjaðar en aðrar hentuðu einfaldlega ekki og eru horfnar (Travis 2025).

Meðal þeirra tegunda sem Jón sáði fyrir í Lystigarðinum er blásól. Þær vekja mikla athygli í garðinum. Mynd: Sig.A.
Meðal þeirra tegunda sem Jón sáði fyrir í Lystigarðinum er blásól. Þær vekja mikla athygli í garðinum. Mynd: Sig.A.

Við endum þennan kafla á tilvitnun í Ásýnd Eyjafjarðar (2000). Þar er haft eftir ónafngreindum manni sem heimsótti Lystigarðinn árið 1969: „Margir erlendir ferðamenn hafa haft á orði við mig, að því að sjá svona mikla grósku þetta norðarlega hefðu þeir aldrei trúað, það gengi töfrum næst. Ekki varð hrifningin minni er vér hittum sjálfan töframanninn, forstjórann Jón Rögn­valds­son.“


Grasagarður

Stærsta breytingin á tíma Jóns í Lystigarðinum var án efa stofnun grasa­garðs og lagði Jón grunninn að því að Lystigarðurinn varð vísindalegur grasagarður eins og við sögðum frá í pistli okkar í síðustu viku. Hann lagði áherslu á að fá hánorrænan gróður og gróður úr háfjöllum. Þannig fékk hann plöntur frá Grænlandi, Alpafjöllum, Norður-Kanada, Skandinavíu og víðar að. Þeir bræður fóru ótal söfnunarferðir bæði innan lands og utan til að safna plöntum í garðinn (Erlingur 1972).

Í viðali við Erling Davíðsson (1972) bendir Jón á að garðurinn sé nyrsti grasagarður Evrópu og þekktur í útlöndum fyrir einmitt það. Það má vel vera að svo hafi verið þegar viðtalið var tekið, en nú er grasagarðurinn Tromsø botaniske Hage í Noregi talinn vera sá nyrsti. Það dregur samt ekki úr mikilvægi Lystigarðsins á Akureyri sem hánorræns grasagarðs. Er það einlæg ósk okkar að garðurinn fái áfram að vera grasagarður. Slíkir garðar geta verið viðkvæmir fyrir traðki og því verður öll starfsemi í garðinum að taka mið af þessu mikilvæga hlutverki.

Bræðurnir Jón og Kristján Rögvaldssynir í Lystigarðinum. Eins og sjá má eru allar plöntur að baki þeim merktar eins og vera ber í grasagarði. Myndina fengum við af vefLystigarðsins en höfundur hennar er ókunnur.
Bræðurnir Jón og Kristján Rögvaldssynir í Lystigarðinum. Eins og sjá má eru allar plöntur að baki þeim merktar eins og vera ber í grasagarði. Myndina fengum við af vefLystigarðsins en höfundur hennar er ókunnur.

Mikilvægur hluti grasagarðsins í Lystigarðinum er íslenska deildin. Eftir að Jón tók við Lystigarðinum keypti bærinn lifandi plöntusöfn þeirra systkina sem varðveitt voru í Fífilgerði og sagt var frá hér ofar. Voru bæði erlendar og íslenskar tegundir fluttar í nýstækkaðan Lystigarðinn á árunum 1957 og 1958. Íslenska safninu var þá komið fyrir þar sem það er enn að finna. Starfsmenn garðsins héldu áfram að auka við safnkostinn og enn í dag er þar fróðlegt safn fjölmargra plantna sem finna má í íslenskri náttúru (Erlingur 1972).

Fyrir Lystigarðinn fóru þeir bræður meðal annars í söfnunarferðir til útlanda en þó enn fleiri innanlands. Ekki dugðu Jóni þó eigin söfnunarferðir til að afla þeirra plantna sem hann hafði metnað og áhuga á að fá fyrir garðinn. Því skrifaðist hann á við fjölmarga grasagarða í útlöndum og bæði íslenska og erlenda grasafræðinga. Sum bréfanna sem hann fékk eru enn til og í vörslu sona hans. Þar kemur fram að hann hafði allar klær úti við að safna plöntum. Þannig hefur til dæmis varðveist bréf sem grasafræðingurinn Eyþór Einars­son (1929-2021) skrifaði Jóni 24. janúar 1966. Efni bréfsins er greinilega svarbréf við bréfi Jóns í tilefni Grænlandsferðar Eyþórs. Þar hafði Eyþór ætlað að reyna að safna tilteknum plöntum sem Jón hafði beðið um en árangurinn orðið rýr. Í lok bréfsins getur Eyþór þess að næsta sumar standi til að hann verði í 3-4 vikur á Vestfjörðum og Ströndum og annað eins austur á Fjörðum. Sjálfsagt hefur hann þar náð í eitthvað sem Jón vanhagaði um.

Þeir Eyþór og Jón virðast hafa skrifast töluvert á. Annað merkilegt bréf er til í bréfasafninu frá Eyþóri sem skrifað er á bréfsefni Náttúrufræðistofnunar 2. desember 1971 en þá hafði Jón látið af störfum í Lystigarðinum sökum aldurs. Þó ber ekki á öðru en hann beri enn hag garðsins og íslenska beðsins fyrir brjósti. Í bréfinu, sem greinilega er svarbréf, stendur meðal annars: Mér þykir slæmt að heyra, að grasagarðinum, sem þið bræður og þá aðallega þú varst búinn að byggja upp, skuli ekki vera nægilegur sómi sýndur. Auðvitað er ekkert vit í öðru en sérstakur garðyrkjumaður verði ráðinn til að sjá um hann. Ég skal gera það sem ég get til að ýta undir að eitthvað verði gert til liðsinnis garðinum.“ Svo er í bréfinu fjallað um fleiri grasafræðileg málefni, eins og vænta mátti í samskiptum þeirra.

Þegar Jón lét af störfum við garðinn árið 1970 fyrir aldurs sakir voru um 2.511 tegundir og afbrigði í garðinum. Þar af voru 442 íslenskar tegundir og slæðingar. Þá var Jón orðinn 75 ára gamall. Tveimur árum síðar var hann allur. (Erlingur 1972).

Garðurinn hefur stækkað og vaxið síðan, en það var Jón Rögnvaldsson sem lagði grunninn að grasafræðihlutverki hans.

Hluti af íslenska safninu í Lystigarðinum. Fjær sér í styttu af Jóni sem reist var minningu hans til heiðurs þegar 100 ár voru frá fæðingu hans. Mynd: Sig.A.
Hluti af íslenska safninu í Lystigarðinum. Fjær sér í styttu af Jóni sem reist var minningu hans til heiðurs þegar 100 ár voru frá fæðingu hans. Mynd: Sig.A.

Grasagarður Reykjavíkur

Jón Rögnvaldsson var virkur meðlimur í Garðyrkjufélagi Íslands þótt hann hafi ekki endilega getað mætt á alla fundi félagsins. Jóni þótti mikilvægt að komið yrði upp grasagarði í Reykjavík, rétt eins og á Akureyri. Hann skrifaði bréf þess efnis 15. apríl 1953 sem stílað var á stjórn Garðyrkjufélags Íslands. Þar stakk hann upp á að stofnaður yrði grasagarður. Má ætla að þetta hafi eitthvað verið rætt áður milli Jóns og félaga hans, því erindið átti að taka fyrir á fundi 15 dögum eftir að bréfið var ritað og í bréfinu stendur: Vilji stjórn fjelagsins gera umrædda tillögu að sinni, og flytja hana í eigin nafni er það auðvitað mikið betra.“ Í bréfinu kemur fram að Garðyrkjufélagið hafi alla tíð leitast við að auka og efla þekkingu almennings á garðrækt. Grasagarður getur gegnt þar lykilhlutverki. Garðurinn átti að verða íslensk menningarstofnun og alþjóðlegur á vissan hátt. Nefndi Jón fimm hugsanlega staði fyrir garðinn. Hann taldi að hann gæti risið á Miklatúni, í Fossvogsbotni, við Laugarás eða Suðurlandsbraut, í Öskjuhlíð og loks nefndi hann Árbæ.

Samkvæmt tillögunni, sem samþykkt var á fundi félagsins 30. apríl 1953, átti að skipa fimm manna nefnd til að athuga möguleika á því að koma upp og reka grasagarð. Ekkert varð þó úr framkvæmdum að þessu sinni en árið 1961 voru 200 íslenskar jurtir gefnar Reykjavíkurborg til varðveislu. Þessi gjöf varð grunnurinn að Grasagarðinum í Laugardal.

Jón vann að því með Garðyrkjufélaginu að reyna að stofna grasagarð í Reykjavík. Það tókst ekki en ef til vill var þá þeim fræjum sáð í huga manna sem urðu til þess að garðurinn var síðar stofnaður í Laugardal. Mynd: Sig.A.
Jón vann að því með Garðyrkjufélaginu að reyna að stofna grasagarð í Reykjavík. Það tókst ekki en ef til vill var þá þeim fræjum sáð í huga manna sem urðu til þess að garðurinn var síðar stofnaður í Laugardal. Mynd: Sig.A.

Garðyrkjuráðunautur Akureyrarkaupstaðar

Samhliða starfi sínu í Lystigarðinum tók Jón við stöðu garðyrkjuráðunauts Akureyrar árið 1957. Gegndi hann því starfi til ársins 1965. Þegar hann tók að sér þetta starf hætti hann setu í Lystigarðsnefndinni sem nefnd var hér að framan. Á þessum árum var bærinn auðvitað töluvert fámennari en nú er og allir þekktu alla. Því var það þannig að margir höfðu samband við Jón þar sem hann gegndi störfum sínum í Lystigarðinum og báðu um ráð og leiðbeiningar. Jón tók öllum slíkum beiðnum ljúfmannlega og oft var það að hann ákvað að koma við í eins og einum garði á leiðinni heim til að veita ráðleggingar um hvaðeina er viðkom garðyrkju og gróðri. Ók hann þá gjarnan að viðkomandi garði á jeppa sínum sem flestir bæjar­búar þekktu. Vegna þess að allir vissu hver þar var á ferð gat tognað nokkuð úr þessum heimsóknum. Þegar garðeigendur sáu að bíll Jóns Rögnvalds­sonar var í götunni gengu þeir gjarnan út og spurðu hvort hann væri ekki til í að líta rétt sem snöggvast við hjá þeim áður en hann færi heim. Jón tók iðulega vel í það og fyrr en varði var hann búinn að koma við í flestum görðum götunnar, hver sem hún var í það og það skiptið. Því gátu vinnu­dagarnir orðið nokkuð langir (Rögnvaldur 2025). Af þessu má geta sér þess til að þegar Jón tók að sér starf sem garðyrkjuráðunautur hafi það í raun verið viðurkenning á því að hann gegndi þegar því hlutverki samhliða verk­stjórn í Lystigarðinum.


Tvær myndir úr Skátagilinu á Akureyri. Jón stjórnaði gróðursetningu trjánna í gilinu á fjórða áratug síðustu aldar. Sum þeirra hafa látið á sjá vegna aldurs. Á seinni myndinni má sjá hvernig skátar hafa grafið hvamm í gilið og gert hann sléttan. Myndir: Sig.A.

Sem garðyrkjuráðunautur bæjarins tók Jón að sér fjölbreytt verk. Jón Hjalta­son (2004) segir frá því að löngu áður en nafni hans tók við þessu starfi hafi Akureyrarbær verið farinn að leita til hans til um ýmis verkefni. Hann nefnir tvö dæmi í IV. bindi af Sögu Akureyrar og eru þau bæði frá seinni hluta fjórða áratugar síðustu aldar. Hið fyrra tengist Útvegsbanka Íslands. Þegar stórhýsi bankans var reist í miðbænum þurfti að fjarlægja hús sem þar stóð. Við húsið var trjágarður og í honum voru hin stæðilegustu tré. Akureyrarbæ voru boðin þessi tré gegn því að þeim yrði plantað á Ráðhústorgi. Bæjaryfirvöld þáðu það og auðvitað var Jón Rögnvaldsson fenginn til að stjórna verkinu (Jón 2004 bls. 142).

Ráðhústorgið á Akureyri hefur tekið mörgum og margvíslegum breytingum í stóru og smáu og ýmist í þökk eða óþökk bæjaryfirvalda síðan Jón var fenginn til að stjórna þar gróðursetningu trjáa. Ekkert bólar á þeim á þessari mynd sem tekin var þann 17. júní 2025. Aftur á móti sér í tvílyft timburhús á háum steyptum grunni handan við bílinn á myndinni. Á húsinu má sjá málað stórt og myndarlegt 7. Þetta er húsið að Brekkugötu 7 þar sem þeir bræður Jón og Kristján ráku gróðrarstöðina Flóru á sínum tíma. Mynd: Sig.A.
Ráðhústorgið á Akureyri hefur tekið mörgum og margvíslegum breytingum í stóru og smáu og ýmist í þökk eða óþökk bæjaryfirvalda síðan Jón var fenginn til að stjórna þar gróðursetningu trjáa. Ekkert bólar á þeim á þessari mynd sem tekin var þann 17. júní 2025. Aftur á móti sér í tvílyft timburhús á háum steyptum grunni handan við bílinn á myndinni. Á húsinu má sjá málað stórt og myndarlegt 7. Þetta er húsið að Brekkugötu 7 þar sem þeir bræður Jón og Kristján ráku gróðrarstöðina Flóru á sínum tíma. Mynd: Sig.A.

Jón Hjaltason (2004) segir einnig frá því að um svipað leyti hafi skátar í skátafélaginu Fálkanum lokið við að grafa hvamm inn í efsta hluta gilsins upp af Hofsbótinni. Síðan hefur gil þetta gengið undir nafninu Skátagil. Að sjálfsögðu var Jón Rögnvaldsson fenginn til að stjórna gróðursetningu trjánna sem enn prýða efri hluta gilsins. Jón Rögnvaldsson tók að sér miklu fleiri verkefni fyrir bæinn. Eitt af þeim var Andapollurinn neðan við Sundlaug Akureyrar. Þar kemur fram eitt af ein­kennum Jóns sem sjá má á teikningum sem eftir hann liggja. Hann var mjög hrifinn af hvers kyns tjörnum. Að vísu hefur umhverfi Andapollsins gjör­breyst frá dögum Jóns. Til dæmis hefur trjám stórfækkað frá því sem áður var þótt enn séu þarna stór og stæðileg tré sem plantað var eftir teikningum og hugmyndum Jóns.

Andapollurinn neðan við Sundlaug Akureyrar á þjóðhátíðardaginn 2025. Mynd: Sig.A.
Andapollurinn neðan við Sundlaug Akureyrar á þjóðhátíðardaginn 2025. Mynd: Sig.A.

Útgáfa

Eins og sjá má hér að framan var Jón Rögnvaldsson eldheitur hugsjóna­maður. Hann var óþreytandi framkvæmdarmaður og boðberi skógræktar og hvers kyns ræktunar í hálfa öld. Til að koma hugsjónum sínum enn betur í framkvæmd gaf hann út bókina Skrúðgarða árið 1937. Hún reyndist hið mesta þarfaþing og var endur­prentuð árið 1955 með lítils háttar breytingum. Bók þessi var eina handbókin á íslensku um þessi efni svo árum skipti en er nú löngu ófáanleg. Þótt Jón hafi sjálfsagt hugsað þessa bók fyrir allan almenning nýttist hún einnig fagfólki. Einar E. Sæmundsen (2018) segir frá því að á fyrstu árum Garðyrkjuskólans í Ölfusi hafi bókin verið aðalkennslubókin í skrúðgarðyrkju við skólann.

Bókin er tæplega 100 blaðsíður og í inngangi fyrri útgáfu stendur: „Í eftir­farandi köflum er í stuttu máli leitazt við að lýsa, með aðstoð skýringar­mynda og teikninga, byggingu og fyrirkomulagi skrúðgarða.“ Þetta gerir Jón með mikilli prýði og í þessari fágætu bók eru um 60 ljósmyndir og teikn­ingar. Meðal annars eru þarna ágæt dæmi um garðauppdrætti Jóns.

Bókunum er skipt í nokkra kafla og er þar meðal annars fjallað um skipulag og uppdrætti, girðingar, grasflatir, vatn til gagns og prýði, grjóthleðslur, vermireiti, blómjurtir, tré og runna.

Flest af því sem í bókunum stendur á enn vel við. Til dæmis segir Jón um grasflatir: „Ein aðalkrafan til skrúðgarða nútímans er, að þeir hafi til að bera fagra og vel hirta grasfleti.“ Um blómjurtir segir hann: Hver sá, sem vill eignast fagran og fullkominn skrúðgarð, verður að rækta í honum eitthvað af blómjurtum ...Ef marka má Jón skipta samt tré og runnar mestu máli. „Enda þótt götur, gangstígar og landslag garðsins hafi óneitanlega mikil áhrif á útlit hans, þá nær hann þó aðeins með listrænni gróðursetningu trjáa og runna hinni eiginlegu fegurð og tign vel heppnaðs skrúðgarðs.“

Hér má sjá báðar útgáfur bókarinnar sem Jón skrifaði og var lengi notuð sem kennslubók í Garðyrkjuskólanum. Á neðri bókinni, sem er eldri, má sjá áritun. Jón hefur áritað bókina handa konu sinni, Körlu Þorsteinsdóttur, frá höfundi. Mynd: Sig.A.
Hér má sjá báðar útgáfur bókarinnar sem Jón skrifaði og var lengi notuð sem kennslubók í Garðyrkjuskólanum. Á neðri bókinni, sem er eldri, má sjá áritun. Jón hefur áritað bókina handa konu sinni, Körlu Þorsteinsdóttur, frá höfundi. Mynd: Sig.A.

Arboretum

Trjásöfn, þar sem komið er fyrir mörgum, mismunandi tegundum á afmörk­uðu svæði og þær merktar eftir grasafræðilegu kerfi, kallast Arboretum á alþjóðamálum. Eftir að Jón tók við rekstri Lystigarðsins kom hann auga á að þrátt fyrir fjölda trjáa og runna í garðinum tæki hann ekki endalaust við. Því vildi Jón nýta lóðina við Gömlu-Gróðrarstöðina undir trjá- og runnasafn. Þar spilaði líka inn í að óvíða þrífast tré betur en einmitt þar. Ekkert varð úr þessum hugmyndum meðan Jón var á lífi. Árið 1980 var hreyft við málinu á nýjan leik. Á aðalfundi Skógræktarfélags Eyfirðinga, sem þá var hálfrar aldar gamalt, var borin upp ályktun þar sem minnt var á þessa hugmynd Jóns. Hugmyndin var þá að trjásafnið yrði samvinnuverkefni garðsins, Skógræktarfélagsins og Akureyrarbæjar. Flutningsmenn tillög­unnar voru þeir Helgi Hallgrímsson, forstöðumaður Náttúrugripa­safnsins, og Jóhann Pálsson, forstöðumaður Lystigarðsins. Er skemmst frá því að segja að tillagan var samþykkt. Í fyrstu hugmyndunum var gert ráð fyrir að safnið næði frá Akureyrarkirkju og að Gömlu-Gróðrarstöðinni. Seinna kom í ljós að það svæði reyndist ekki hentugt. Formlega var Arboretum Akureyri stofnað við Gömlu-Gróðrarstöðina 18. júní 1983 á afmælisdegi Jóns Rögnvaldssonar. Bróðir Jóns, Kristján Rögnvalds­son, gróðursetti þá fyrsta tréð í safnið. Var það selja, Salix caprea, sem stendur við vesturhlið Gömlu-Gróðrarstöðvarinnar. Skógræktarfélag Eyfirð­inga, Garðyrkjudeild Akureyrar og stjórnendur Lystigarðsins stóðu að þessu framtaki. Á næstu árum var plantað töluvert í þetta framtíðarsafn en þegar ljóst varð að svæðið, sem valið hafði verið, hentaði illa undir safnið, fjaraði smám saman undan þessu merka framtaki. Frá þessu segir í innskotsgrein á bls. 49 í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar (2000). Í lok þeirrar stuttu greinar segir: „Vonandi fær þessi hugmynd Jóns Rögnvaldssonar um veglegt trjáa- og runnasafn á Akureyri byr undir báða vængi á nýjum stað, á nýrri öld.“ Ef til vill er kominn tími til að endurvekja þessa hugmynd um trjásafn, enda stutt í að Skógræktarfélagið, sem Jón Rögnvaldsson átti mestan heiður að, fagni 100 ára afmæli sínu.

Í garðinum við Gömlu-Gróðrarstöðina eru mörg grlæsileg tré. Hér stendur Benjamín Davíðsson undir glæsilegum garðahlyn. Mynd: Sig.A.
Í garðinum við Gömlu-Gróðrarstöðina eru mörg grlæsileg tré. Hér stendur Benjamín Davíðsson undir glæsilegum garðahlyn. Mynd: Sig.A.

Viðurkenningar

Að vonum voru Jóni veittar margvíslegar viðurkenningar fyrir frumkvöðla­störf sín að ræktunarmálum. Árið 1966 var hann gerður að heiðursfélaga Garð­yrkju­félags Íslands. Árið 1955 varð hann heiðursfélagi í Skógræktar­félagi Eyfirðinga og árið 1970 í Skógræktarfélagi Íslands. Fálkaorðu, fyrir störf sín að ræktunarmálum, hlaut hann árið 1963. Þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu Jóns var reist af honum brjóstmynd í Lystigarðinum. Brjóstmyndina gerði Helgi Gíslason. Henni var fundinn staður í garðinum þar sem hann horfir yfir íslenska beðið í garðinum í átt að Fífilgerði. Vart er hægt að hugsa sér betri stað fyrir listaverkið.

Árið 1995 var afhjúpuð brjóstmynd af Jóni í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu hans. Brjóstmyndina gerði Helgi Gíslason og var henni komið fyrir í Lystigarðinum og stillt þannig upp að hún horfir yfir íslensku beðin í garðinum og í átt að æskustöðvunum í Fífilgerði. Mynd: Sig.A.
Árið 1995 var afhjúpuð brjóstmynd af Jóni í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu hans. Brjóstmyndina gerði Helgi Gíslason og var henni komið fyrir í Lystigarðinum og stillt þannig upp að hún horfir yfir íslensku beðin í garðinum og í átt að æskustöðvunum í Fífilgerði. Mynd: Sig.A.

Þegar fjallað er um margvíslegar viðurkenningar sem Jóni voru veittar má vísa til afmælisgreinar sem Magnús Jónsson skrifaði í tilefni sextugsafmælis vinar síns. Þar segir hann um hugsjónamanninn: „Ef Jón hefði tamið sér þau vinnubrögð að hreyfa hvorki hönd né fót nema að fá fyllsta taxtakaup fyrir hvert handtak, hefði hann ekki áorkað miklu, enda verður enginn maður brautryðjandi sem þannig hugsar. Jón hefir hins vegar hlotið þau laun, sem hugsjónamönnum eru dýrmætust: Hann hefir séð starf sitt bera ríkulegan ávöxt til heilla fyrir land og lýð. Gróðursetning og ræktun til fegurðarauka er hið göfugasta starf, sem hefir launin fólgin í sjálfu sér.“


Eftir langa starfsævi var Jón þess fullviss að framtíðin væri björt. Á bls. 115 í bókinni Aldnir hafa orðið segir Jón: „Við eigum svo sannarlega gott land, og Íslendingum er nauðsyn að vita það og skilja. Framtíðin mun leiða það í ljós, betur en orðið er, að við eigum ótrúlegustu ræktunarmöguleika, sem skógræktin getur margfaldað. Með skógunum, og þá bæði getum við og eigum að rækta, færumst við í raun og veru mörg hundruð kílómetra sunnar á hnettinum, með tilliti til annarrar ræktunar, og þetta skulum við hafa í huga þegar við ræðum um skógræktina.“ (Erlingur 1972).

Jón Rögnvaldsson með fálkaorðu sem hann hlaut árið 1963 fyrir störf sín að ræktunarmálum. Mynd úr eigu erfingja Jóns Rögnvaldssonar en ljósmyndari er óþekktur.
Jón Rögnvaldsson með fálkaorðu sem hann hlaut árið 1963 fyrir störf sín að ræktunarmálum. Mynd úr eigu erfingja Jóns Rögnvaldssonar en ljósmyndari er óþekktur.

Þakkir

Okkar bestu þakkir fær Pétur Halldórsson fyrir vandaðan prófarkalestur og þarfar ábendingar og leiðréttingar. Einnig fá allir þeir sem veittu okkur aðstoð og stungu að okkur ýmsum fróðleiksmolum okkar bestu þakkir. Þakkir fær Ingólfur Jóhannsson fyrir að skanna myndir úr bók Jóns og koma þeim á tölvutækt form. Ingólfur veitti einnig ýmsar aðrar upplýsingar sem vert er að þakka. Kom þar sér vel hversu vel hann er kunnugur staðháttum í Eyjafirði. Mestar þakkir fá þó synir Jóns, Rögnvaldur og Kristján, fyrir að benda okkur á og lána ýmsar heimildir, hvetja okkur áfram og veita okkur endalausa aðstoð. Án stuðnings þeirra hefði þessi pistill aldrei orðið að veruleika.

Heimildir og frekari lestur


Ármann Dalmannsson (1950): Skógræktarfélag Eyfirðinga 20 ára. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1950, bls. 39-48. Reykjavík 1951.


Árni Jóhannsson (1940): Skógræktarfélag Eyfirðinga 10 ár. Í: 1930-1940 Skógræktarfélag Eyfirðinga 10 ára bls. 5-21. Skógræktarfélag Eyfirðinga.


Árni Magnússon og Páll Vídalin (1712): Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalins. 10. bindi, Eyjafjarðarsýsla bls. 163-175. Gefin út af Hinu íslenska fræðafjelagi í Kaupmannahöfn með styrk úr ríkissjóði Íslands árið 1943. Kaupmannahöfn.


Ásta Camilla Gylfadóttir og Björgvin Steindórsson (2012): Konur gerðu garðinn. Saga Lystigarðs Akureyrar 1912-2012. Völuspá útgáfa. Akureyri.


Bjarni E. Guðleifsson (2011): Hver var Stefán Stefánsson og hvert var hans helsta framlag til íslenskrar grasafræði? Vistað á Vísindavefnum 23. maí 2011. Sjá: Vísindavefurinn: Hver var Stefán Stefánsson og hvert var hans helsta framlag til íslenskrar grasafræði?


Bjarni E. Guðleifsson, ritstj. (2000): Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju Skógræktarfélag Eyfirðinga. Akureyri.


Bjarni E. Guðleifsson og Hallgrímur Indriðason (2012): Gamla Gróðrarstöðin á Akureyri. Í Skógræktarritið 2012 1. tbl., bls. 33-40. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.


Einar E. Sæmundsen (2018): Að búa til ofurlítinn skemmtigarð. Íslensk garðasaga – landslagsarkitektúr til gagns og prýði. Hið íslenska bókmenntafélag.


Erlingur Davíðsson (1972) Aldnir hafa orðið. Frásagnir og fróðleikur, bls. 95-121. Bókaútgáfan Skjaldborg, Akureyri.


Eyþór Einarsson (1966): Bréf stílað á Jón Rögnvaldsson 22. janúar 1966. Bréfið er í vörslu sona Jóns.


Eyþór Einarsson (1966): Bréf stílað á Jón Rögnvaldsson 2. desember 1971. Bréfið er í vörslu sona Jóns.


Gunnlaugur Tryggvi Jónsson (1925): Úr heimahögum. Birt í Akureyrar­blaðinu Íslendingi 21. tbl. 15.05.1925. Sjá: Íslendingur - 21. tölublað (15.05.1925) - Tímarit.is


Hákon Bjarnason (1950): Skógræktarfélag Íslands 20 ára. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1950 bls. 24-38. Reykjavík 1951.

Ingólfur Davíðsson & Ingimar Óskarsson (1950): Garðagróður. Ísafoldarprentsmiðja.


Jón Hjaltason (2004): Saga Akureyrar IV. bindi 1919-1940, bls. 142-144. Akureyrarbær.


Jón Kristján Rögnvaldsson (2025): Upplýsingar í gegnum tölvupóst 7. maí 2025. (Jón er sonarsonur nafna síns frá Fífilgerði).


Jón Rögnvaldsson (1937): Skrúðgarðar. Um fyrirkomulag og byggingu skrúðgarða. Ísafoldarprentsmiðjan HF. Reykjavík.

 

Jón Rögnvaldsson (1953): Skrúðgarðar. Um fyrirkomulag og byggingu skrúðgarða. Ísafoldarprentsmiðjan. 2. útgáfa, endurskoðuð. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri.


Magnús Jónsson (1955): Sextíu ára: Jón Rögnvaldsson í Fífilgerði. Í Morgunblaðinu, 135 tbl. 19. júní 1955, bls. 10.


Rögnvaldur Jónsson (2025): Munnlegar upplýsingar frá febrúar til júní 2025.


Sigurður Sigurðarson (1930): Bréf stílað á Jón Rögnvaldsson 26. mars 1930. Bréfið er í vörslu sona Jóns.


Steindór Steindórsson frá Hlöðum (1950): Skógar í Eyjafirði. Drög til sögu þeirra. Í: Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1950, bls. 49-81. Reykjavík 1951.


Travis Anthony Þrymur Heafield (2025): Upplýsingar um Lystigarðinn.











Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page