top of page
Writer's pictureHelgi Þórsson

Dularfulla öspin við Bjarmastíg

Updated: Oct 6, 2023

Við Bjarmastíg á Akureyri stendur gömul ösp. Þetta er engin venjuleg ösp því þetta er sögufrægt tré. Hennar hefur víða verið getið í skræðum í gegnum tíðina en alltaf hefur fylgt henni einhver dulúð. Öspin er ein af þeim trjáplöntum sem eru í litla bæklingnum um merk tré á Akureyri sem gefinn var út í tilefni af 75 ára afmæli Skógræktarfélags Eyfirðinga árið 2005.


Bjarmastígsöspin sumarið 2022. Mynd: Sig.A.


Elstu heimildir

Asparinnar er getið í bókinni Garðagróður frá 1965 og síðari útgáfum. Þar kemur hún fyrir í trjámælingarlista og var hún þá 9,20 metrar og þar með eitt af hæstu trjám Akureyrar. Mælinguna gerðu Jón Rögnvaldsson garðyrkjumaður og Ármann Dalmannsson. Báðir miklir framámenn í skóg- og trjárækt og vel kunnir þeim sem gruflað hafa í sögu trjáa norðan heiða. Jón er einmitt maðurinn sem gróðursetti þetta tré. Mun það hafa verið 8. maí 1946 (Hákon Bjarnason). Á þessum tíma er var strax nokkur dulúð yfir trénu. Á listanum í Garðagróðri stendur: Rússnesk ösp (Populus certinensis)? Þarna er undarlegt nafn og spurningarmerki sett á eftir sem vitnisburður þess að eitthvað kunni að vera málum blandið enda fylgdi enginn miði með nafni asparinnar þegar Jón Rögnvaldsson flutti hana inn og gróðursetti.

Í bæklingi Skógræktarfélagsins frá árinu 2005 er tekið fram að óljóst sé hvaða tegund þetta er en stungið er upp á P. x. berolinensis og P. suaveolens.


Svona ráðgátu gat Helgi Þórsson, aðalhöfundur þessa greinarkorns, ekki látið óleysta. Hann hóf því að grúska í þessum upplýsingum fyrir nokkrum áratugum. Þá endaði leitin í handskrifuðum miða sem hann fékk frá Noregi og á honum stóð „Populus certinensis er kventré af Populus x berolinensis“. Síðara latínuheitið segir að um blending sé að ræða. Það má ráða af þessu x-i í orðinu. Kallast þessi blendingur berlínarösp. Þangað komst Helgi, en ekki mikið lengra.


Vetrarmynd af öspinni. Stofninn beinn en krónan ákaflega frjálsleg.

Mynd: Helgi Þórsson.


Rússnesk ösp og rússaösp

Þessi fræga merking á listanum í Garðagróðri gerði það að verkum að lengi vel töldu ýmsir að þetta væri sennilega Populus suaveolens. Það nafn rataði meðal annars í áðurnefndan bækling Skógræktarfélagsins eins og að framan greinir. Ástæðan fyrir þessum ruglingi er sennilega sú að hún hefur verið kölluð rússaösp á íslensku. Það hljómar vissulega líkt og „rússnesk ösp“ eins og í Garðagróðri forðum. Sérstaklega þegar fræðiheitið er óljóst.

Rússaaspir vaxa á stóru svæði í Síberíu og austur til Japans. Haustið 1993 sótti Óli Valur Hansson fjöldann allan af klónum rússaaspar til Kamsjatka og nágrennis. Hann kallaði reyndar tegundina asíuösp. Að sögn Aðalsteins Sigurgeirssonar lifnuðu flestir vel í gróðurhúsi á Íslandi en strax á fyrsta hausti komu í ljós ágallar hjá flestum ef ekki öllum klónunum. Í hlýindum í nóvember 1994 tóku þeir allir að lifna utandyra. Vorið eftir voru þeir flestir dauðir (munnleg heimild).

Móðir asparinnar við Bjarmastíg er úr sömu deild og rússaöspin þannig að líkindin eru nokkur. En nú þykir flestum ólíklegt að þetta sé rússaösp þótt hún sé rússnesk ösp.


Stofn asparinnar. Mynd: Helgi Þórsson.


Aðrar tölulegar upplýsingar

Tréð var aftur mælt 1977 af starfsmönnum Skógræktarfélagsins og var þá 13,6 m. Árið 1979 gaf Hákon Bjarnason út bók (sjá heimildaskrá) og segir þar frá þessari ösp. Hann segir: „Við Bjarmastíg 1 á Akureyri stendur 14 metra há ösp með löngum gildum stofni, 37 cm í þvermál í 1,3 m hæð. . .“ (bls. 83). Öspin hefur þá hækkað um 40 cm frá árinu 1977 til 1979. Árið 1990 var tréð komið í 17 metra hæð og var þá hæsta tré Akureyrar. Svo gerðist það snemma á tíunda áratug síðustu aldar að toppurinn brotnaði af trénu. Upp frá því hafa alaskaaspir og sitkagreni vaxið henni yfir limar. Árið 2005 var öspin mæld og var þá 14,5 metrar. Hafði hún þá lækkað um 2,5 metra frá árinu 1990. Það er gaman að segja frá því að þá mælingu gerðu bræður höfunda þessa greinakorns.

Ekki er auðvelt að mæla hæð trésins með þríhyrningamælingum því tréð er nokkuð frjálslega vaxið. Nýjustu mælingar sýna að tréð er núna tæpir 16 metrar á hæð. Það hefur því ekki náð sömu hæð og það hafði árið 1990.


Bjarmastígur 1. Öspin fræga og reynitré. Mynd: Sig.A.


Húsið við Bjarmastíg 1 var byggt árið 1930 eða 1931 en öspin var gróðursett árið 1946. Hún er því á svipuðum aldri og elstu alaskaaspir landsins. Þær eru sagðar hafa komið til landsins árið 1943 eða 1944. Henni er auðfjölgað með vetrargræðlingum eins og alaskaösp. Þær frænkur eru líkar en þeir sem eru vanir að glápa og góna á alaskaaspir sjá snarlega að þetta er ekki hún. Laufin eru ekki eins og hún er ekki eins beinvaxin. Hún er ekki heldur eins fljótvaxin. En hún er nokkuð harðgerð. Hún hefur verið í nokkrum görðum á Akureyri og hún er til í Kjarnaskógi. Í Kristnesi eru til eintök, eins og vænta má. Þar hefur eitt eintak vaxið upp á hálfgerðu berangri án vandkvæða.


Helgi Þórsson skoðar afkomenda asparinnar í Kristnesi. Merkilegt má telja hvað laufin eru mismunandi eftir því hvar á trénu þau vaxa. Mynd: Sig.A.


Frekari leit

Síðan þetta var hefur mikið vatn runnið til sjávar og veraldarvefurinn hefur spunnist vítt og breitt um bókasöfn og gamlar skruddur og nýir pennar hafa sprottið fram. Þannig að þegar Helga varð hugsað til þessarar gömlu aspar fyrir nokkru var borðleggjandi að hefja gúggl. Sums staðar er litið svo á að Populus certinensis sé samnefni Populus x berolinensis. Annars staðar er sagt að Poulus certinensis sé blendingur undan sömu eða nánast sömu trjám og Populus x berolinensis. Svo eru þeir til sem segja að fyrst þetta sé að öllum líkindum blendingstré ætti að skrifa nafnið Populus x certinensis. Grasafræðingarnir hjá Kew Gardens eru þeirrar skoðunar en segja um nafnið að það sé ekki búið að ganga úr skugga um að það sé rétt.

Það er þó huggun harmi gegn að jafn virtir grasafræðingar og þeir sem þar vinna gangi ekkert betur en áhugamönnum við ysta haf.


Laufblöð aspar í Kristnesi bera við bláan himinn. Laufin minna dálítið á lauf svartaspar og eru minni en á alaskaöspum sem vaxa þarna nálægt. Laufin sem eru neðar á trénu eru líkari laufum alaskaaspa. Mynd: Sig.A.


Rússnesk ösp

Eins og áður segir er öspin kölluð „rússnesk ösp árið 1965. Hvaðan kemur það nafn?


Netið kann svör við því.


Háskólinn í Minnesota gaf út ritið „Russian willows and poplar“ í nóvember 1989. Þar eru eftirfarandi upplýsingar. Russian poplar (Populus certinensis). Hún þolir vel þurrk og kulda og viðurinn er hreint afbragð. Hann rýrnar ekki og vindur sig hvorki né springur. Það er gaman að segja frá því að þessi heimild getur þess að prófessor Budd hafi komið með þetta tré, en hann fékk það frá prófessor Sargent. Sargent þessi var mikill grúskari og yfirmaður trjásafns Arnolds í Harvard. Rétt er að mæla með heimsókn í fyrrgreint trjásafn sem er í Botnstúnum í Ameríkuhreppi. Ekkert er sagt meira um þennan Budd en ekki er ósennilegt að hann hafi fundið upp Buddvæserinn. Ef það er rétt gekk honum miklu betur með aspirnar en bjórinn.


Í áðurnefndri heimild er getið um berlínarösp og hún er sögð líkjast Populus certinensis.


Einhvers staðar í þessum garði á að vera til sama tegund af ösp og vex við Bjarmastíg. Myndin tekin 2. okt. 2014. Mynd: Sig.A.


Víðar á netinu er að finna upplýsingar um þessa P. certinensis og henni virðist hafa verið plantað all víða um sléttur Norður-Ameríku um og eftir aldamótin 1900. Það er nefnilega þannig að þó víða séu skógar í Ameríku þá vantaði tré og skjólbelti á slétturnar og þar lögðu menn mikið á sig við að finna góð tré til ræktunar við þær erfiðu aðstæður sem þar eru. Á síðu sem ber heitið Trees and shrubs online stendur skrifað að Rússar hafi gert blendinga svipaða berlínarösp um 1880 og þar gæti verið komin skýring á því að þessi bastarður sem berst til Ameríku fékk nafnið Russian poplar eða rússnesk ösp.


Neðra borð laufa af öspinni. Eins og sjá má er hún ekki laus við ryðsvepp. Gróhirslur sveppsins sjást vel. Mynd: Sig.A.


Ættfræði

Samkvæmt Kole 2007 (sjá heimildaskrá) eru um 70 tegundir af öspum til í heiminum eða rúmlega það. Til að flækja málið enn frekar mynda margar þeirra allskonar blendinga í náttúrunni. Svo eru hin og þessi yrki og kvæmi í ræktun sem hafa sérstök nöfn (Kole 2007). Því getur það verið eins og að æra óstöðugan þegar reynt er að finna út hvers konar tré ein planta við ysta haf kann að vera.

Horft upp í krónu á einni af öspinni í Kristnesi sem er ræktuð af græðlingum af öspinni við Bjarmastíg. Mynd: Sig.A.


Hvort sem við gerum ráð fyrir að nafnið P. certinensis eigi sér tilverurétt eða ekki, þá er þessi ösp náskyld berlínaröspinni. Jafnvel sama tegund. Saga þeirrar aspar er vel skráð og hana skulum við skoða. Berlínaröspin varð til í grasagarðinum í Berlín fyrir 1865. Hún er blendingur Populus laurifolia og langbarðaaspar (Lombardypoplar). Sjá meðal annars hér. Til að fá botn í málið er rétt að skoða báða foreldrana aðeins nánar. Nánast allar aspir eru tvílitna (diploid) sem kallað er og grunnlitningafjöldinn er alltaf sá sami eða 19. Þegar kynæxlun á sér stað fær hver fruma þá samtals 2X19 =38 litninga. Það gerir það að verkum að nánast allar aspir, sem blómgast á sama tíma, geta myndað blendinga. Það gerist aftur og aftur í náttúrunni en einnig hafa margir ræktunarmenn í heiminum nýtt sér þennan eiginleika og búið til allskonar blendinga. Síðan má fjölga þessum blendingum út í hið óendanlega með græðlingum.


Populus laurifolia. Myndin fengin af síðunni plantarium.rum Eftirfarandi upplýsingar um myndina má finna á síðunni: Молодое дерево. Кемеровская обл., р. Кия, остров. 03.08.2019. Myndina tók Ада Баранова

Flokkun aspa

Á áttunda áratug síðustu aldar komust menn að því að réttast væri að skipta öspum í fimm flokka eða deildir. Einn af þeim heitir Turanga og inniheldur aspir í Norður-Afríku og Mið-Asíu. Við höfum ekki áhuga á þeim. Tveir af hinum flokkunum tengjast okkar sögu og hinir öðrum öspum á Íslandi. Því þykir okkur rétt í þessum ættfræðikafla að segja örlítið frá þeim.


Leucea deildin inniheldur tegundir sem hafa gráloðin blöð. Má nefna P. alba, P. x canescens og P. tomentosa sem dæmi. Í sama hóp eru aspir með glansandi blöð sem skrjáfar í, jafnvel í minnstu golu. Þar eru aspir eins og P. tremula og P. tremuloides. Þetta er sá hópur aspa sem verst gengur að fjölga með hefðbundnum græðlingum en flestar setja þær mikil rótarskot. Á Íslandi má finna nokkrar tegundir sem tilheyrir þessum hópi. Næsti hópur kallast Leucoides deild og inniheldur amerískar tegundir eins og P. heterophylla og asískar tegundir eins og P. lasiocarpa og P. wilsonii. Aðal einkenni hópsins eru hin stóru, leðurkenndu laufblöð. Þessi hópur er lítt reyndur á Íslandi.


Tacamahaca deildin inniheldur aspir sem gefa frá sér ákveðna balsamlykt í gegnum laufin en þó enn frekar brumin. Er við hæfi að kalla hann balsamættarhópinn. Innan hópsins eru tegundir eins og P. balsamifera, P. maximowiczii og P. trichocarpa. Þessum tegundum er auðfjölgað með græðlingum og setja að auki rótarskot. Móðir okkar trés er úr þessum hópi.


Svo er það Aigeiros deildin sem stundum kallast svartaspir. Sá hópur er með lauf sem eru græn á báðum hliðum og langan blaðstilk sem eru nánast alltaf á hreyfingu. Þær finnast í Evrópu, Asíu og Ameríku. P. nigra er erkitegund í þessum hópi. Faðir asparinnar við Bjarmastíg er úr þessum hópi.


Þar sem genafjöldi allra tegundanna er sá sami geta blendingar myndast þvert á hópa. Þannig er það einmitt með okkar tegund.

Smágreinar asparinnar eru gular á litinn. Greinar alaskaaspa eru rauðari eða brúnni á litinn. Þessi litur er líkari greinum sumra víðitegunda. Mynd: Sig.A.

Faðirinn

Langbarðaland er hérað nyrst á Ítalíu en þar bjuggu síðskeggjaðir norrænir menn í denn svo kallaðir Langbarðar. Konungur þeirra hét Álfvinur, en það er útúrdúr. Langbarðaöspin Populus nigra´Italica er mjög útbreidd í Evrópu. Hún er klárlega mest ræktaði asparklónn í heimi og líklega einn útbreiddast trjáklónn veraldar. Þetta yrki var valið í Langbarðalandi á sautjándu öld. Það myndar háa og súlulaga ösp. Ein heimild segir að langbarðaöspin hagi sér eins og rokkstjarna að því leyti að hún lifir hratt og stutt. Það verður að segjast eins og er að öspin við Bjarmastíg hefur vöxtinn ekki frá föður sínum.

Populus nigra´Italica‘ í Kaupmannahöfn. Mynd: Sig.A.


Reynsla af langbarðaösp

Margir kollegar með trjásöfnunarheilkenni hafa stolið svona græðlingum í útlöndum og reynt þá hér á landi. Þeir hafa sannarlega lifað stutt, í mesta lagi tórað einn vetur. Þykir það nú fullreynt. Aftur á móti er til á Íslandi blæasparklónn sem hefur svipað vaxtarlag. Kallast hann súlublæösp og nýtur hann vaxandi vinsælda á Akureyri og er meðal annars að finna á umferðareyjum við Glerárgötu.


Blæaspir við Glerárgötu. Þessi pistill er ekki um þær enda koma þær málinu ekki við. Aftur á móti eru þær ræktaðar hér í stað svartaspar. Mynd: Sig.A.


Móðirin

Populus laurifolia tilheyrir balsamættar hópnum og er frá Mið Asíu. (Altaí, Mongólíu, Kína og austur Síberíu). Hún er líklega sjaldgæf í ræktun almennt séð en leynist hjá söfnurum og í trjásöfnum heimsins. Leit á netinu sýnir einnig tegundina í Austur-Evrópu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum kallar þessa ösp gljáösp og er engin ástæða til að hafna því enda eru blöð asparinnar áberandi gljáandi.

Laufblöð gljáaspar af sömu síðu og myndin af sömu tegund hér ofar. Blöðin með áberandi rauða stilka (sem ekki sjást á afkomandanum) en greinarnar gulbrúnar. Laufin lík þeim laufum sem eru neðarlega á afkomendum aspanna við Bjarmastíg.

Eldri blöð og þau sem vaxa neðar á trénu eru lík laufblöðum aspa úr balsamhópnum. Þau eru lík og á móðurplöntunni. Mynd: Sig.A.


Aftur heim - með viðkomu í Kanada

Í svona grúski gerist það stundum að þræðir fara að tvinnast saman og í þessari sögu gerist það í Kanada. Jón Rögnvaldsson, garðyrkjumaður,sem lengi var forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri dvaldi í Kanada á árunum 1920 - 1925. Hann nam garðyrkju við landbúnaðarskólann í Winnipeg og vann meðal annars við skógræktarstöðina Indian Head í Manitoba. Eftir að heim kom rak hann garðyrkjustöðina Flóru heima í Fífilgerði í Eyjafjarðarsveit og síðar í Brekkugötu 7 á Akureyri. Það er lenska hérna norðan heiða að kenna Jóni um öll gömul, skrítin tré sem við rekumst á. Hákon Bjarnason hélt því fram, sennilega með réttu, að Jón hafi einmitt komið með umræddu ösp til landsins frá Kanada. Þeir þekktust ágætlega og hefur Jón vafalítið frætt Hákon um uppruna asparinnar. Það liggur því fyrir að Jón Rögnvaldsson kom með ösp frá Kanada sem á ítalskan föður og asíska móður og er sögð rússnesk og hugsanlega kennd við Berlín.



Forsíða bókar sem ber heitið Berlínaraspirnar og er eftir norsku skáldkonuna Anne B. Ragde. Aspir geta verið prýðilegur innblástur. Myndin fengin af heimasíðu útgefanda.


Eftirmáli

Grúsk þetta byggist meira og minna á ágiskunum eftir lestur fyrirliggjandi upplýsinga og heimilda. Asparblendingar í ræktun eru fjölmargir í heiminum og ef til vill er þetta einhver allt önnur ösp. Höfundar þessa pistils hafa ekki tækifæri til að gera mikinn grasafræðilegan samanburð og geta því ekki fullyrt eitt eða neitt.

Ekki hefur verið skoðað sérstaklega hvernig bjarmastígsösin bregst við bjöllum og ryði. Ryð fer þó á þennan klón og asparglittan (eða -glyttan) fólsar ekki við henni. Hún fer samt ekki hátt upp í tréð, enda lofthrædd. Hún veldur því ekki miklu tjóni á stórum trjám. Það gæti verið áhugavert að hafa hana með í aspatilraunum til samanburðar.


Skemmdir á laufum eftir asparglittu eða -glyttu. Þessi lauf eru lík móðurplöntunni enda eru þau neðarlega á plöntunni. Laufin sem eru ofar á trénu eru óskemmd. Mynd: Sig.A.


Helstu heimildir

Chittaranjan Kole (ritsjt. 2007): Forest Trees (Genome Mapping and Molecular Breeding in Plants. Volume 7). The Pennsylvannian State University, USA. Springer Verlag Berlin Heidelberg.


Hákon Bjarnason (1979): Ræktaðu garðinn þinn. 3. útgáfa aukin og endurbætt árið 1987. Iðunn Reykjavík.


Ingólfur Davíðsson og Ingimar Óskarsson (1965): Garðagróður.f

Þriðja útgáfa 1981. Ísafoldarprentsmiðjan, Reykjavík.


Ágúst H. Bjarnason. Munnleg heimild 02.02. 2021.

Aðalsteinn Sigurgeirsson. Munnleg heimild 02.02. 2021.


Höfundar: Helgi Þórsson og Sigurður Arnarson.

Frumdrög pistilsins má sjá á þessum Facebookþræði í hópi sem kallast Trjáræktarklúbburinn.


787 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page