Ástand lands og landlæsi. Seinni hluti: Afneitun
- Sigurður Arnarson
- 4 days ago
- 20 min read
Fyrir viku birtum við fyrri hluta pistils um landlæsi og ástand lands. Í honum sögðum við frá því að rannsóknir hafa verið gerðar sem staðfesta að þótt finna megi fín dæmi um gott ástand vistkerfa sem í sumum tilfellum eru jafnvel í framför er ástand íslenskra vistkerfa almennt ekki þannig að ástæða sé til að hrópa ferfalt húrra fyrir því. Við sögðum líka frá samdaunasýkinni sem verður til þess að fólk, jafnvel í ábyrgðarstöðum, afneitar slæmu ástandi. Forsenda þess að norrænir bændur gátu sest að á Íslandi á landnámsöld var sú að hér var öflugur gróður og frjósamur jarðvegur. Í þessum hluta förum við yfir algengustu rök þeirra sem ekki vilja horfast í augu við að ástand íslenskra vistkerfa sé slæmt vegna athafna mannsins og húsdýra hans.
Veðurfar, eldgos og kolagerð
Stafar slæmt ástand landsins fyrst og fremst af þeim þáttum sem sjá má í fyrirsögninni? Tveir þeir fyrrnefndu falla í flokkinn óblíð náttúra, en sá síðasti í flokkinn áhrif mannsins og húsdýra hans. Þessa flokkun nefndum við í lok fyrri hluta pistilsins sem birtur var fyrir viku.
Fyrir það fyrsta er rétt að hafa í huga að bæði fyrir og eftir landnám og allt til vorra daga hafa eldgos og vond veður verið eðlilegir þættir í náttúru Íslands. Samt var landið betur gróið fyrir landnám. Því hefur það ekki dugað öllum að kenna veðurfari og eldgosum um slæmt ástand íslenskra vistkerfa. Þar kemur kenningin um kolagerð inn í söguna.
Áður en við skoðum hvern þessara þriggja þátta skulum við hafa eftirfarandi þætti í huga.
Landnýting ræður miklu um viðnám jarðvegs gegn áhrifum náttúruafla. Eyðing skóga veikir varnir jarðvegs og annars gróðurs. Beit, einkum mikil beit í vistkerfum sem þróast hafa án stórra beitardýra, veikir viðnám gróðurs gegn áföllum eins og kólnandi veðurfari og gjóskufalli. Að auki getur beitin komið í veg fyrir endurnýjun gróðurs og hefur mikil áhrif á tegundasamsetningu vistkerfisins. Þess vegna er lítið um náttúrulega skóga á Íslandi.
Við skulum nú skoða þessa þrjá þætti aðeins nánar.

Veðurfar
Stundum hefur því verið haldið fram, bæði í ræðu og riti, að slæmt ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi stafi af vondum veðrum. Samt er það þannig að það gátu alveg komið vond veður fyrir landnám. Aftur á móti hefur veðrið ekki alltaf verið eins. Veður við landnám er talið hafa verið milt en tímabilið frá um 1350 til um 1850 var óhagstætt gróðri. Kallast sá tími litla ísöld. Sumar heimildir telja þetta tímabil lengra en aðrar styttra enda eru ártölin ekki meitluð í stein. Þegar veðurfari er kennt um ástand og hrun íslenskra vistkerfa er oftast vísað til litlu ísaldar. Fáir halda því fram nú orðið að almennt sé veðurfar á landinu þannig að gróður, einkum trjágróður, fái hér ekki þrifist. Þó má nefna að þessi fullyrðing, sem mætti kalla bullyrðingu, heyrðist mjög oft þar til andstæðingar skógræktar fóru að halda því fram að skógar væru orðnir of miklir á Íslandi. Þá gekk fyrri fullyrðingin ekki lengur upp. Því verjum við ekki plássi í hana.
Allt bendir til að aðrir þættir en litla ísöld hafi skipt meira máli þegar stór hluti íslenskra vistkerfa hrundi. Það sést meðal annars á því að landi fór hratt aftur áður en litla ísöld gekk í garð. Í sagnagarði Landgræðslunnar, sem nú er hluti af Landi og skógi, segir að á Suðurlandi hafi skógar eyðst að mestu í byggð á aðeins 80-130 árum. Héruð eins og Húnaþing og Skagafjörður urðu einnig snemma skóglaus samkvæmt því sem þar má lesa. Litlu ísöld verður ekki kennt um þetta. Þessum svæðum fór svona mikið aftur áður en hún gekk í garð og á meðan veðurfar var gróðri sérlega hagstætt. Auðvitað má segja að þótt skógum hafi verið eytt þurfi það ekki endilega að merkja að landrof hafi átt sér stað. Ef til vill var skóglendinu bara breytt í annars konar gróðurlendi. Það má vel vera rétt. Þá er gott að hafa í huga að skógar veita landinu meiri vörn en annar gróður, eins og áður er nefnt. Þetta er ef til vill ekki ósvipað og þegar maður er sviptur vetrarúlpunni sinni og þarf að fara út í kuldann í bolnum. Hann er auðvitað ekki nakinn, en verndin hefur minnkað. Þetta getur skipt miklu máli þegar tíðin er slæm.
Víða um land má sjá glögg merki um áhrif beitar þótt landið sé tiltölulega létt beitt. Nema ef girðingarnar á þessum myndum séu allar reistar á sérstaklega skörpum veðurskilum. Á þessum fjórum myndum sést alls staðar trjákenndur gróður að spretta upp í kjölfar beitarfriðunar. Ein er tekin á Suðurlandi, tvær á Norðurlandi og ein á Austurlandi. Myndir: Sig.A.
Merkilegt má heita að sum svæði á láglendi fóru illa á þessu kalda skeiði þótt þau hafi tilheyrt þeim svæðum landsins þar sem veðurfarið var (og er) hvað mildast. Má nefna Krýsuvík sem dæmi. Á sama tíma hélt byggð velli á harðbýlum svæðum, svo sem sums staðar við hálendisbrúnina og á svölum svæðum eins og Hornströndum. Það gerðist án þess að gróðri færi þar tiltakanlega mikið aftur miðað við önnur svæði. Nefna má sem dæmi að talið er að Hólsfjöll hafi verið að mestu algróin fram á 16. öld en að lokum gaf gróðurþekjan sig þar eins og sjá má ef farið er um svæðið.
Á láglendi fór gróðri meira aftur þar sem þéttbýli var mikið en þar sem dreifbýlið var meira, burt séð frá veðurfari. Samt er óhætt að fullyrða að landnámið var ekki þéttast á köldustu svæðum landsins. Bendir það til að aðrir þættir en veðurfar hafi skipt meira máli og valdið hnignun landgæða. Á það jafnt við um litlu ísöld sem aðrar aldir sögunnar.


Í þessu sambandi má minna á að hiti lækkar með vaxandi hæð. Lætur nærri að þetta séu um 0,6-0,9°C á hverja 100 metra eftir rakamagni. Einnig er gott að hafa í huga að hámarkshiti á skýldu svæði er um 1-2°C hærri en á óskýldu svæði. Örnefni og skógarleifar benda til fornra skóga í meira en 500 m hæð yfir sjávarmáli. Á þeim slóðum hefur hitastig ekki verið hærra fyrir landnám en á láglendi á litlu ísöld.
Að framansögðu má ljóst vera að litla ísöld var ekki frumorsök landeyðingar. Aðrir þættir skiptu meira máli þótt slæmt veður geti lagst á sveif með öðrum landeyðingaröflum. Þar kemur til sögunnar að beitin veikir viðnám gróðurs gegn áföllum eins og kólnandi veðurfari. Álagið af beitinni hefur verið gríðarlegt í köldum árum. Má segja að í hallærum bresti stoðir rányrkjunnar.

Vandræðahugtakið beitarþol
Áður en við snúum okkur að eldgosum og kolagerð skulum við velta fyrir okkur veðrinu og stöðunni eins og hún er á okkar tímum. Almennt er veðurfar hagstætt gróðri um þessar mundir en vitanlega koma slæm sumur inn á milli. Má nefna að sumarið 2024 var óhagstætt gróðri á Norðurlandi eins og til dæmis kartöflu- og grænmetisbændur tóku vel eftir.

Vandinn er meðal annars sá að fyrir fram höfum við ekki hugmynd um hvernig veðrið verður á komandi misserum. Í þessari skýrslu sem ber nafnið Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa og er eftir Ólaf Arnalds (2020), er komið inn á hugtakið beitarþol. Þetta er hugtak sem flestir sem gerst þekkja eru sammála um að er löngu úrelt, samanber þessa grein frá árinu 2016 eftir þáverandi landgræðslustjóra; Svein Runólfsson. Í sem skemmstu máli má segja að þeir Ólafur og Sveinn séu sammála um að hugtakið henti illa.
Útreikningar á búfjárfjölda sem landið gæti borið er afskaplega vandmeðfarið efni. Fyrst má nefna að erfitt er að taka tillit til þess að mjög fjölbreyttar vistgerðir kunna að koma fyrir í beitilandinu. Þannig er það oftast í íslenskum úthaga nema þar sem vistkerfið er hrunið og auðnin ein er eftir. Slíkt land þolir enga beit. Ekki liggur fyrir hvernig hægt er að taka tillit til vistfræðilegra þátta á borð við samsetningu gróðurs eða breytinga á gróðurfari og uppskeru í tíma, innan hvers árs og á milli ára.

Í skýrslunni segir að hugtakið beitarþol hafi haft neikvæðar afleiðingar fyrir íslensk vistkerfi eins og víða annars staðar á viðkvæmum jaðarsvæðum. Mikil tilhneiging er að setja of mikið af búfénaði inn á viðkvæm, fjölbreytt svæði. Leiðbeiningar um beitarálag á Íslandi í tengslum við gæðastýringu í sauðfjárrækt eru gott dæmi um það (Ólafur 2020). Ólík svæði innan landslagsheildarinnar bregðast mismunandi við eftir þanþoli og seiglu þeirra. Við slík skilyrði getur gróðurfar tekið stórfelldum breytingum og tegundir sem lítið eru bitnar verða ofan á í samkeppni við eftirsóttar beitarplöntur. Í verstu tilfellum fylgir jarðvegsrof í kjölfarið.
Sennilega er best að forðast hugtakið með öllu, nema ef til vill á einsleitum túnum. Það þarf því ekki að koma á óvart að flestir beitarvistfræðingar hafa horfið frá því að nota þetta hugtak. Sérstaklega á fjölbreyttum og viðkvæmum svæðum eins og á Íslandi. Samt sem áður skýtur því reglulega upp í umræðunni.

Hvernig á að meta beitarþol svona lands? Þegar langt er liðið á sumarið er auðveldast fyrir sauðféð að ná í næringarríkan nýgræðing á melum og öðru lítt grónu landi. Því getur lítil beit tafið mjög eða komið í veg fyrir sjálfgræðslu. Þess vegna á hugtakið „beitarþol“ ekki við í rofnu landi. Það breytir engu hvað þessar kindur hafa aðgang að stóru, vel grónu landi á meðan þær kjósa frekar að hirða upp nýgræðinginn á melunum. Sjá má á moldarlitnum á myndunum að sums staðar er virkt rof. Seinni myndin er klippt út úr fyrri myndinni. Myndir: Sig.A.
Eldgos
Við búum á eldfjallaeyju. Því má vænta að eldgos hafi átt þátt í að móta allt landslag á Íslandi. Þau eru eðlilegur þáttur af náttúrunni. Á það bæði við fyrir og eftir landnám. Þeir, þær og þau sem telja að landeyðing eftir landnám sé eldgosum að kenna má benda á fræg orð sem eignuð eru Snorra goða: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér rann hraunið, er nú stöndum vér á?“
Áhrif eldgosa geta verið með nokkuð mismunandi hætti en geta alltaf haft áhrif á gróður jarðar.
Fyrir það fyrsta skal nefnt að hraunrennsli valdur tiltölulega staðbundnum áhrifum þótt sum hraun séu stærri en önnur. Þau eira engu. Aftur á móti fer aska víða. Áhrif hennar á landið fara meðal annars eftir gerð þess lands sem hún lendir á. Er það enn eitt dæmið um að landnýting ræður miklu um viðnám jarðvegs gegn áhrifum náttúruafla.

Almennt er það svo að eldfjallaaska ber með sér efni sem nýtast gróðri. Þess vegna er eldfjallajörð að jafnaði talin með frjósamari jarðvegsgerðum sem finna má í heiminum. Þetta merkir að ef gróðurinn skemmist ekki eða kafnar undir öskunni, þá ættu áhrifin að vera góð fyrir hann. Þarna skipta skógar miklu máli. Þeir fanga öskuna og koma í veg fyrir að hún fjúki um og valdi tjóni. Þetta sást til dæmis mjög vel í Eyjafjallajökulsgosinu. Aska sem lenti í skógivöxnu svæði Þórsmerkur jók vöxtinn í birkinu. Þar settist hún að í stað þess að fjúka um og valda tjóni eins og á skóglausu landi. Aftur á móti hafa stórgos, eins og Öskjugosið árið 1875 gríðarleg áhrif. Það var samt ekki fyrsta stóra öskugosið sem orðið hefur á Íslandi. Samt var landið miklu betur gróið fyrir landnám. Ef landið hefði verið betur gróið á tímum Öskjugossins hefði skaðinn að öllum líkindum orðið minni en raunin varð.
Þriðji þátturinn sem eldgos geta valdið eru jökulhlaup. Þau sópa öllu í burtu og skilja eftir sig auðn. Fyrir landnám var fræfall af birki nægilegt til að græða slíkt land upp aftur, enda engin stór beitardýr á landinu sem fjarlægðu nýgræðinginn jafnóðum og hann birtist. Sambærilegt ferli á sér nú stað á Skeiðarársandi. Beitin er það lítil á svæðinu að birkið nær að græða upp sandinn. Áður átti þetta sér stað innan girðingar við Skaftafell enda var þar engin beit. Hugmyndir hafa verið uppi um byggð í fornöld á sandinum þegar hann var betur gróinn en síðar varð þótt jökulhlaup hafi að sjálfsögðu einnig orðið fyrir landnám. Skógi vaxnir sandarnir hafa án efa verið vel fallnir til búskapar. Vitað er að á Mýrdalssandi var byggð strax eftir landnám sem talin er hafa eyðst í Kötluhlaupi á 12. öld. Hvað varð til þess að sandarnir klæddust ekki skógi í kjölfar hlaupa eftir landnám ef þeir geta gert það nú og gerðu það fyrir landnám?
Við endum þennan kafla á að vitna í Sigurð Þórarinsson. Hann skoðaði jarðvegsþykknun á milli aldursgreindra öskulaga og niðurstaðan varð þessi: „Landnámið hafði meiri áhrif á gróðurfar en nokkurt eldgos síðastliðin 8000 ár. Orsökin er ekki veðurfarsleg, heldur eru það maðurinn og sauðkindin sem er meginorsökin.“ (Sigurður 1961).

Kolagerð og skógarbruni
Þegar landnemar komu að skógi vöxnu landi þurfti að ryðja skóga til að búa til akurlendi. Það var án efa gert. Líklegast með því að höggva og brenna skógana. Einnig hefur verið bent á að landnámsmenn þurftu að gera til kola í gríðarlegu magni. Um það vitna fjölmargar kolagrafir sem fundist hafa á Íslandi þar sem nú er enga skóga að finna. Kolin voru meðal annars framleidd til að hægt væri að dengja ljái og stuðla að efnahvörfum við framleiðslu járns úr mýrarrauða. Það var ekki bara að höggva þurfti skógana til að fá við í kolin. Eldur gat stundum hlaupið í skóga úr kolagröfunum eða þegar óvarlega var farið með eld. Þá gátu heilu skógarnir fuðrað upp. Má nefna að einn af Íslendingaþáttunum greinir frá svona dæmi. Heitir hann Ölkofra þáttur. Í honum er sagt frá skógarbruna á Þingvöllum sem varð fyrir slysni. Vegna þessa alls hefur því stundum verið haldið fram að kolagerð og skógarbruni hafi verið helsta ástæða landhnignunar og skógareyðingar. Þessu er jafnvel haldið fram þótt vitað sé að skógareyðing gekk mjög hratt fyrir sig löngu eftir að kolagerð var almennt hætt á landinu. Skógareyðing var gríðarlega mikil á 20. öld þegar sauðfjárfjöldi var í sögulegu hámarki. Á sama tíma hafði dregið verulega úr kolaframleiðslu á landinu. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd. Það er því alveg ljóst að tilgátan um að kolagerð sé meginorsök skógareyðingar á Íslandi er í hæsta máta vafasöm.

Skógarbrunar hafa einnig sést í seinni tíð þótt í minna mæli sé. Því miður hefur sinueldur stundum hlaupið í skóga eða einstök tré og drepið stóra og myndarlega stofna. Þá kemur endurnýjunarmáttur trjánna vel í ljós. Langflest birkitré þola þessa meðferð. Rótin lifir og upp vex nýtt birki, nema ef eitthvað kemur í veg fyrir endurnýjunina.

Til að skoða þetta aðeins betur er rétt að minna á hvernig birkiskógar endurnýja sig. Þegar birki nemur ný lönd treystir það á fræmyndun sína. Aftur á móti gengur það ekki til að endurnýja einstök birkitré í skógi. Fræið er það smátt að það hefur mjög litla möguleika á að spíra og verða að nýju tré í gróskumiklu umhverfi. Þess í stað treystir birkið á að mynda teinunga frá rótarhálsi. Í gömlum, þroskamiklum skógum er þetta áberandi. Þar má gjarnan sjá að þessi aðferð hafa trén nýtt aftur og aftur þannig að sjá má ákveðna klóna á nokkuð stóru svæði. Má nefna Leyningshóla í Eyjafirði og Sandfellsskóg í Skriðdal sem dæmi. Þetta er líka aðferðin sem trén nota ef stofn trjánna er höggvinn niður. Það drepur ekki rótina þannig að tréð endurnýjar sig með teinungi frá rót.
Þótt segja megi að skógarhögg drepi eða felli tré, þá dugar það ekki til að drepa skóginn. Til að drepa hann þarf að koma í veg fyrir endurnýjunina, til dæmis með beit. Það er því ekki skógarhögg og kolagerð, heldur beitin sem drap skógana.
Þrjár myndir af birki. Á fyrstu myndinni sést hvernig teinungurinn kemur upp frá rót og endurnýjar birkið. Á hinum tveimur sést enginn teinungur þótt vel sjáist á graslendinu að beitin er ekki mikil. Hún dugar þó til að fjarlægja allan teinung og stöðva endurnýjun birkisins. Það gerist þótt kolagerð komi hvergi við sögu. Myndir: Sig.A.
Kolagerðakenningin gengur út á tvennt. Hið fyrra er að kolagerð sé meginorsök skógareyðingar á Íslandi en hið síðara er að ekki skuli undir neinum kringumstæðum minnast á þátt sauðfjárbeitar. Þess vegna hafa sumir talið að kenningin sé einhver brandari eða útúrsnúningur. Svo er ekki. Þessari kenningu er enn haldið á lofti af ríkisstofnunum sem láta sig umhverfismál varða.

Staðan: Nýtum land en níðum ei
Sem betur fer er land víða í framför og því ber að fagna. Aftur á móti vitum við vel að sums staðar er staðan mjög slæm. Þrátt fyrir það viðgengst ofbeit ennþá á landinu. Annars hefði ekki verið lögð áhersla á að taka út viðmið um að land sem nýtt er til búfjárbeitar skuli vera í góðu ástandi og ekki sýna merki hnignunar eins og gert var þegar reglugerð um sjálfbærni var samþykkt. Frá því sögðum við í fyrri hluta pistilsins sem við birtum fyrir viku. Það sést einnig vel í gögnum GróLindar að staðan er ekki til fyrirmyndar, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Það er ekkert undarlegt, því sáralítið hefur verið gert til að bæta ástandið frá því að skýrslan, sem nefnd er í inngangi fyrri hlutans, var gefin út.

Allt of víða er enn einhvers konar ofbeit. Til að einfalda málin má hugsanlega skipta henni í tvennt.
1) Beit sem er svo mikil að landi fer aftur. Í kjölfarið er hætta á rofi. Þetta ætti að vera öllum landnotendum ljóst.
2) Beit sem kemur í veg fyrir að áður grónu landi fari fram. Þá þarf landi ekki beinlínis að fara aftur en því fer varla fram nema hugsanlega í allra bestu árum þótt beitin dragi þá úr framförum. Það er þess vegna sem beit á auðnum er ólíðandi. Það kvarnast úr grunnstoðum sjálfbærar nýtingar í hvert skipti sem beitardýrum er hleypt á þær. Beit á auðnum er alltaf ofbeit. Samt er það svo að samkvæmt þessari frétt er fé beitt á 25.000 ferkílómetra af nær gróðursnauðu landi (Kristín 2020). Sennilega var þetta þó vanmat þegar fréttin var birt, því vegna lausagöngu búfjár getur fé nánast farið þangað sem því sýnist.
Líklegt er að vegna samdaunasýki sé margt fólk sem áttar sig ekki á því að land sem tilheyri seinni flokknum sé í raun ofbeitt. Það er fólkið sem heldur að allt sé í himnalagi þegar kemur að beitarmálum. Svo er ekki. Því miður.

Þegar beit léttir á svæðum sem táknuð eru með gulri línu á myndinni hér að ofan má búast við að landinu fari nokkuð hratt fram og klæðist jafnvel skógi án frekari aðgerða. Rauða línan táknar hrunin vistkerfi þar sem hringrásir vatns, kolefnis og næringar hafa brostið. Þess vegna taka framfarir mjög langan tíma þegar land er komið niður á rauðu línuna.
Þegar því er haldið fram að verulega hafi dregið úr landeyðingu vegna ofbeitar á Íslandi er það að hluta til vegna þess að örfoka land blæs ekki lengur upp. Jarðvegurinn er farinn og ósjálfbær landnotkun kemur í veg fyrir eðlilegar framfarir.
Til að landi geti farið fram af sjálfsdáðum er ákaflega mikilvægt að lausaganga leggist af sem víðast og að vörsluskyldu verði komið á. Það er mikilvirkasta landgræðslu- og skógræktaraðgerð sem völ er á. Það sést til dæmis þegar friðað land er borið saman við beitt land. Víðast hvar á láglendi klæðist slíkt land skógi eða kjarri með tíð og tíma.
Tvær myndir sem eiga það sameiginlegt að vera teknar út um bílglugga og sýna beitarfriðað land vegna veggirðinga. Handan girðinganna er beitiland. Svona myndir er hægt að taka um nánast allt land. Myndir: Sig.A.
Komið hefur í ljós að ekki hafa allir áttað sig á samhenginu milli gróðureyðingar og beitar. Skiptist þar fólk í tvo hópa. Annars vegar þeir sem hafa skilning á samhenginu og hafa kynnt sér það sem fræðimenn hafa sagt um málin og svo hinir sem telja það árás á sauðfé og bændastéttina að benda á þessar staðreyndir. Sagt er að þeir sem benda á fyrirliggjandi staðreyndir hljóti að hata sauðfé. Auðvitað er það ekki þannig. Að halda slíkum bábiljum fram er ekki ósvipað og að segja að þeir sem eru á móti núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi hljóti að hata þorsk. Þar sem höfundi þessa pistils hefur oft verið núið þessu um nasir setti hann þetta saman:
Ekki vil ég Íslandsskógum glata
og ekki að landið fjúki út á haf.
Síst af öllu sauðkindur ég hata
en sjá þær vildi betur girtar af.

Samantekt
Ofbeitin fyrr á öldum var nauðvörn fátækrar og fákunnugrar þjóðar fyrir lífi sínu. Má vera að land- og gróðureyðing hafi verið það gjald sem greiða þurfti til að halda lífi í þjóðinni. En nú er öldin önnur. Hvaða afsökun höfum við fyrir ofbeit í dag?
Eldgos og vond veður eru eðlilegur hluti náttúrunnar. Á það bæði við fyrir og eftir landnám. Því er ekki hægt að kenna náttúruöflunum um breytta stöðu mála eftir landnám. Landnýting ræður miklu um viðnám jarðvegs gegn áhrifum náttúruafla. Beitin veikir viðnám gróðurs gegn áföllum eins og slæmu veðri og gjóskufalli. Afleiðingin er sú að landið er víða í tötrum. Klæði fjallkonunnar eru slitin og götótt.
Ástæðulaust er að bindast orða yfir því að staðan sé víða slæm. Almenningur og þeir sem nýta landið þurfa að fá fræðslu um samband ofbeitar, hnignunar gróðurlenda og jarðvegseyðingar. Við þurfum að vinna að því að auka landlæsi þjóðarinnar til þess að hún skilji þann vanda sem við er að etja. Aðeins með því að viðurkenna vandann er hægt að taka á honum. Það ætti að vera hið sameiginlega markmið okkar allra sem höfum áhuga á íslenskri náttúru.
Svo er önnur leið í boði. Hún byggir á gneistum samdaunasýkinnar. Hún er fólgin í því að afneita sannleikanum og vísindalegri þekkingu en trúa áróðri um að öll notkun beitilanda á landinu sé ábyrg og sjálfbær og að beit fari aðeins fram á óspilltu landi eins og haldið er fram í þessari skýrslu. Þessu er gjarnan haldið fram svo auðveldara sé að selja ferðamönnum okkar bragðgóða lambakjöt (Lilja og Soffía 2015). Sama fólkinu og heldur þessu fram tókst að fá það fellt út úr reglugerð um sjálfbærni að land eigi almennt að vera í góðu ástandi svo hægt sé að nýta það til beitar. Hvor aðferðin ætli skili betri árangri þegar til lengri tíma er litið?

Þakkir
Þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir vandaðan yfirlestur prófarkar og gagnlegar ábendingar. Ólafur Arnalds fær okkar bestu þakkir fyrir allan fróðleikinn. Án hans rannsókna og rita væri þekking okkar á jarðvegsrofi á Íslandi mun takmarkaðri en raun ber vitni. Hann á einnig þakkir skyldar fyrir að lesa yfir handritið í vinnslu og koma með gagnlegar ábendingar.
Að lokum viljum við einnig þakka þeim sem lánuðu okkur myndir og veittu upplýsingar sem að gagni komu við þessi skrif.
Heimildir og frekari upplýsingar
Rétt er að geta þess að þessi heimildaskrá er fyrir báða hluta pistilsins. Hún birtist líka í fyrri pistli.
GróLind. Sjá: GróLind | Ástand gróður- og jarðvegsauðlindar Íslands.
Jón Guðni Kristjánsson (2016): Sérfræðingur: Ofbeit er staðreynd. Frétt Ríkisútvarpsins frá 23. mars 2016. Sjá: Sérfræðingur: Ofbeit er staðreynd - RÚV.is
Jón Kalmann Stefánsson (2017): Saga Ástu. Bls. 235. Benedikt bókaútgáfa, Reykjavík.
Kristín Sigurðardóttir (2020): Fé beitt á 25.000 ferkílómetra af gróðursnauðu landi. Frétt Ríkisútvarpsins frá 18. júní 2020. Sjá: Fé beitt á 25.000 ferkílómetra af gróðursnauðu landi - RÚV.is.
Lilja Birgisdóttir og Soffía Sigurgeirsdóttir (2015): Stefnumörkun um markaðssókn íslenskra sauðfjárafurða. Kom ráðgjöf, desember 2015.
Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Sigmar Metúsalemsson, Ásgeir Jónsson, Einar Grétarsson og Arnór Árnason (1997): Jarðvegsrof á Íslandi. Landgræðsla ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Sjá: Jarðvegsrof-á-Íslandi.pdf
Ólafur Arnalds (2020): Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa. Rit LbhÍ nr. 130. Landbúnaðarháskóli Íslands. Sjá: rit_lbhÍ_nr_130_Ástandsrit.pdf (moldin.net)
Ólafur Arnalds og Ása L. Aradóttir (2015): Að lesa og lækna landið. Bók um ástand lands og vistheimt. Landvernd, Landgræðsla ríkisins og Landbúnaðarháskóli Íslands. Sjá: https://www.moldin.net/uploads/3/9/3/3/39332633/ad_lesa_og_l%C3%A6kna_landi.pdf.
Guy Shrubsole (2022): The Lost Rainforests of Britain. William Collins. An imprint of HarperCollinsPublishers. London SE1.
Sigurður Már Harðarson (2004): Horfið frá takmörkun beitar í fjalllendi. Grein í Bændablaðinu frá 6. júní 2004. Sjá: Horfið frá takmörkun beitar í fjalllendi - Bændablaðið.
Sigurður Þórarinsson (1961): Uppblástur á Íslandi í ljósi öskulagarannsókna. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1960-1961, bls. 17-54. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík. Sjá: Skógræktarritið 1960-1961 - Skógræktarfélag Íslands.
Sveinn Arnarsson (2017): Gróðursnautt land nýtt í herferð bænda. Frétt á Vísi frá 6. nóvember 2017. Sjá: Gróðursnautt land nýtt í herferð bænda - Vísir.
Frekari lestur
Finna má ýmsar gagnlegar upplýsingar á heimasíðu Ólafs Arnalds: Olafur Arnalds - soil scientist - www.moldin.net - Moldin.net Ólafur Arnalds. Þar á meðal er ritið Að lesa og lækna landið í enskri útgáfu. Sjá: To Read the Land - Olafur Arnalds. Soil and environmental scientist.
Fanney Ósk Gísladóttir, Sigmundur Helgi Brink og Ólafur Arnalds (2014): Nytjaland. Landbúnaðarháskóli Íslands.
Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn eyðimerkurmyndun (United Nations Convention to Combat Desertification). Sjá m.a. Home | UNCCD.
Herdís Þorvaldsdóttir (2012): Fjallkonan hrópar á vægð. Kvikmynd um ástand lands í leikstjórn Jóns Karls Helgasonar. Sjá: Fjallkonan hropar a vaegd.
Skýrsla frá Evrópusambandinu um jarðvegseyðingu í Evrópu (2020): 3.6 Soil degradation — European Environment Agency.



























Comments