top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Um nöfn og flokkunarkerfi. Seinni hluti

Þann 19. mars síðastliðinn birtum við pistil um tvínafnakerfið sem vísindasamfélagið notar til að flokka allar lífverur. Auðvitað var kastljósinu fyrst og fremst beint að trjám en í leiðinni sögðum við frá uppruna kerfisins og sögu þess. Við bendum áhugasömum á þann pistil til upprifjunar.

Við höggvum nú í sama knérunn og segjum nánar frá þessu kerfi og notkun þess. Einnig kynnum við hugtakið kvæmi og fjöllum um íslenska nafnahefð. Það liggur fyrir að ekki eru allar plöntur sömu tegundar nákvæmlega eins. Komið hefur í ljós að hverri tegund má oft og tíðum skipta í smærri flokkunareiningar. Eins bráðsnjallt og tvínafnakerfi Linnæusar reyndist vera hefur það ekki dugað til að lýsa nákvæmari flokkunareiningum en hann skilgreindi forðum. Því þurfti að endurbæta kerfið og laga það að aukinni þekkingu. Þessi pistill fjallar um það og er beint framhald af áðurnefndum pistli. Við lýsingu á frekari flokkun er hér meðal annars stuðst við Stóru Garðabókina frá 1996 sem Ágúst H. Bjarnason ritstýrði.

Utanverðir Leyningshólar í nóvember 1960. Birkið í Leyningshólum er ekki alveg eins og annað birki á Íslandi en það er samt birki. Mynd úr safni SE.
Utanverðir Leyningshólar í nóvember 1960. Birkið í Leyningshólum er ekki alveg eins og annað birki á Íslandi en það er samt birki. Mynd úr safni SE.

Frekari flokkun

Í fyrri pistli okkar um tvínafnakerfið (e. binomial nomenclature) sögðum við frá því að nöfn trjáa og reyndar allra annarra lífvera eru sett saman af tveimur nöfnum. Annars vegar er það ættkvíslarheiti og hins vegar viðurnafni. Stundum er þörf á að flokka tegundirnar nánar. Þá gerir tvínafnakerfið ráð fyrir að hægt sé að bæta þriðja heitinu við. Hvernig það er gert fer eftir því hve frábrugðnar plönturnar eru aðaltegundinni.

Sé um verulegt frávik að ræða sem nær yfir stóran hluta útbreiðslusvæðis tegundarinnar er gjarnan talað um undirtegund eða subspecies. Oftast er látið duga að stytta orðið, til dæmis með því að skammstafa það sem subsp. eða ssp. Sambærilegar skammstafanir eru notaðar fyrir önnur frávik og eru þau sett í sviga hér á eftir. Sé frávikið og útbreiðslan minni en svo að kalla megi þær undirtegundir er talað um afbrigði eða varietas (var.).

Þessi tvö ofantöldu dæmi eiga vanalega við um hóp planta sem finnast á ákveðnu svæði. Breytileiki sem getur skotið upp kollinum hvar sem er á útbreiðslusvæðinu, svo sem hvít blóm í stað annarra lita hjá mörgum tegundum, eða sérkennilegt útlit laufblaða, kallast tilbrigði eða forma (f.). Þegar einhverju þessara heita er bætt við er viðeigandi skammstöfun höfð á undan því. Þetta þriðja heiti er haft skáletrað, en ekki skammstöfunin, enda er hún ekki hluti af nafninu. Við getum nefnt eini, Juniperus communis L. sem dæmi. Einirinn á sér stórt útbreiðslusvæði í heiminum en hér á landi vex undirtegund sem kallast Juniperus communis L. subsp. nana (Willd.) Syme ef við viljum vera nákvæm. Við vekjum athygli á að orðið Syme er ekki skammstöfun og því er ekki punktur á eftir því eins og hjá hinum nöfnunum. Þarna er vísað í þrjá mæta menn sem koma að þessum nafngjöfum. Oft er nöfnum þeirra (eða skammstöfunum) sleppt. Þá gætum við skrifað: Juniperus communis ssp. nana. Það dugar alveg.

Íslenskur einir, Juniperus communis ssp. nana, getur komist af við erfið skilyrði. Mynd: Sig.A.
Íslenskur einir, Juniperus communis ssp. nana, getur komist af við erfið skilyrði. Mynd: Sig.A.

Nú mæla reglur svo fyrir að þegar undirtegundir eru skilgreindar þá skuli aðaltegundin einnig teljast undirtegund. Þá er viðurnafn endurtekið án nafnhöfundar. Þá kallast einirinn Juniperus communis subsp. communis. Ef þú, lesandi góður, vilt skoða fleiri svona dæmi má minna á þennan pistil um stafafurur þar sem nefnd eru þrjú afbrigði furunnar.

Stundum hefur skammstöfunum verið sleppt með öllu. Þannig er því til dæmis háttað þegar talað er um fugla og önnur dýr. Við getum hér tekið dæmi af músarrindli sem við höfum skrifað um. Íslenski stofninn er skýrt afmarkaður og hefur nokkur sérstök útlitseinkenni. Því er eðlilegt að flokka hann sem sérstaka undirtegund. Vaninn er að skrifa það með þremur nöfnum án skammstafana. Hann heitir Troglodytes troglodytes islandicus. Þetta viðgengst ekki hjá plöntum. Þá hefði verið skrifað Troglodytes troglodytes subsp. islandicus. Ágúst Bjarnason hefur útskýrt fyrir höfundi að ástæðan fyrir því, að dýrafræðingar sleppa ssp. (eða subsp.) er sú, að þeir nota aldrei frekari flokkun. Þeir eru löngu hættir að nota var. og f. eins og grasafræðingar. Þess vegna er þriðja orðið er ávallt ssp. og því óþarfi að taka það fram.


Breytingar

Við viljum geta þess að stundum eru undirtegundir það ólíkar megintegundinni að þær hljóta mismunandi tegundarheiti á íslensku. Þetta er þó langt frá því að teljast algilt. Þannig heitir öll stafafura á Íslandi stafafura, þótt augljós munur sé á undirtegundum. Stundum hafa rannsóknir leitt til þess að plöntur, sem áður voru taldar til tveggja tegunda, eru sameinaðar í eina. Hafi gömlu tegundirnar áður hlotið íslensk nöfn er vaninn sá að þær haldi þeim. Má nefna að lengi voru til tegundirnar dökkvíðir, Salix myrsinifolia (sem á sér samheitið S. nigricans) og viðja, S. borealis. Svo kom í ljós að þetta var ein og sama tegundin þótt munur væri á þeim. Þá var farið að telja viðjuna undirtegund dökkvíðis. Síðan heitir hún S. myrsinifolia ssp. borealis. Það er samt engin ástæða til að breyta um íslenskt heiti á viðjunni þótt grasafræðingar hafi flokkað hana á nýjan hátt. Fjölmörg sambærileg dæmi eru til. Þetta er til dæmis áberandi með elritegundir, Alnus spp., þar sem mikil uppstokkun fræðiheita hefur átt sér stað.

Við Moldhaugnaháls norðan Akureyrar hefur þessi glæsilega viðja sáð sér rétt við þjóðveginn. Hún er af tegundinni  Salix myrsinifolia ssp. borealis. Við gætum fjölgað henni kynlaust með græðlingum og þá gæti verið gott að geta greint afkomendurna frá öðrum viðjum sem vaxa á annan hátt. Næsti kafli fjallar um það. Mynd: Sig.A.
Við Moldhaugnaháls norðan Akureyrar hefur þessi glæsilega viðja sáð sér rétt við þjóðveginn. Hún er af tegundinni  Salix myrsinifolia ssp. borealis. Við gætum fjölgað henni kynlaust með græðlingum og þá gæti verið gott að geta greint afkomendurna frá öðrum viðjum sem vaxa á annan hátt. Næsti kafli fjallar um það. Mynd: Sig.A.

Yrki

Stundum gerist það að upp koma eiginleikar hjá plöntum sem skera sig verulega frá eiginleikum innan tegundahópsins. Þetta geta til dæmis verið óvenjuleg blóm eða blöð. Í garðyrkju verða slíkir eiginleikar oft býsna eftirsóttir og því er reynt að fjölga þeim. Úr því verða til sérstök ræktunarafbrigði eða yrki (cultivar) sem oftast er fjölgað kynlaust en það er ekki algilt (Ágúst 1996). Ef yrkjum er fjölgað með fræjum þurfa þau annað hvort að mynda fræ með geldæxlun, eins og þekkist til dæmis meðal margra reynitrjáa, eða frjóvgunin fer fram við stýrðar aðstæður. Dæmi um hið síðarnefnda eru birkiyrki eins og 'Embla' og 'Hekla' og lerkiblendingurinn 'Hrymur'. Miklu algengara er að fjölga yrkjum kynlaust með græðlingum. Það á til dæmis við um fjölmörg víði- og rósayrki sem og megnið af þeim sígrænu krúttrunnum sem finna má í garðrækt.

Ræktunarafbrigði, hvernig sem þeim er fjölgað, eru kölluð yrki og eru nöfn þeirra skráð aftan við viðurnafnið með stórum upphafsstaf og innan einfaldra gæsalappa eins og í dæmunum hér að framan. Rétt er að taka fram að þetta eru alþjóðlegar reglur og því tíðkast ekki að beygja heiti yrkja samkvæmt íslenskum beygingarreglum ef heitin eru höfð innan einfaldra gæsalappa. Ef þeim er sleppt, einhverra hluta vegna, er eðlilegt að beygja heitin ef þau falla að íslensku beygingakerfi.

Rósin 'Aloha' er eitt af fjölmörgum rósayrkjum í heiminum sem eru í ræktun og er búið til með endurtekinni kynblöndun. Því hafa flestir gefist upp á að skrá slík yrki sem tegundir en láta ættkvíslina og yrkisheiti duga. Þess vegna er oftast skrifað Rosa 'Aloha'. Rósinni er fjölgað kynlaust með græðlingum. Hún getur myndað fræ og þau geta spírað. Þá spretta upp rósir með annað útlit og því bera þær ekki þetta nafn. Mynd: Sig.A.
Rósin 'Aloha' er eitt af fjölmörgum rósayrkjum í heiminum sem eru í ræktun og er búið til með endurtekinni kynblöndun. Því hafa flestir gefist upp á að skrá slík yrki sem tegundir en láta ættkvíslina og yrkisheiti duga. Þess vegna er oftast skrifað Rosa 'Aloha'. Rósinni er fjölgað kynlaust með græðlingum. Hún getur myndað fræ og þau geta spírað. Þá spretta upp rósir með annað útlit og því bera þær ekki þetta nafn. Mynd: Sig.A.

Afmörkun

Hvar mörkin á milli mismunandi hópa liggja er ekki alltaf ljóst. Þótt yrki eigi alltaf að vera skýrt afmörkuð er þeim stundum ruglað saman við tilbrigði. Munurinn á tegundum, undirtegundum og afbrigðum getur verið mjög óljós og heimildir misvísandi. Má meðal annars lesa um það í þessum pistli um stafafurur þar sem þróun þeirra er borin saman við kenningar Darwins um náttúruval.

Annars hafa þessi hugtök víða skotið upp kollinum í pistlum okkar. Má nefna að í pistli okkar um broddgreni, Picea pungens, lýsum við því að hjá tegundinni kemur stundum fyrir að einstaklingar hafa óvenjuljóst barr í stað þess dökka, sem er miklu algengara. Þau tré eru gjarnan skráð sem tilbrigði (forma). Þá má skrifa: P. pungens f. glauca.

Sem dæmi um yrki má nefna að við höfum skrifað pistil um rósayrkið 'Eos'. Algengt er að yrki af rósum hafa orðið til sem blendingar og því eru tegundirnar ekkert alltaf nefndar, enda oft óþekktar. Við höfum einnig fjallað um yrkin Picea glauca 'Conica' og Populus tremula 'Erecta' svo dæmi séu nefnd. Eins og sjá má eru yrkisheitin ekki skáletruð.

Rétt er að muna að ef tekið er fræ af yrki, tilbrigði, afbrigði eða undirtegund er í flestum tilfellum alveg ómögulegt að segja nokkuð til um faðernið. Því er rangt að halda því fram að afkomendurnir hafi rétt á að bera nöfn þeirra. Fræ, sem tekin eru af lerkiblendingi sem kallast 'Hrymur' býr ekki yfir þeim eiginleikum sem yrkið býr yfir. Sama á við ef tekið er fræ af birkinu 'Embla'. Vitanlega á þetta einnig við um aðrar flokkunareiningar sem nefndar eru í hér að ofan.

Allar þessar myndir eru af einni tegund. Kallast hún alaskalúpína eða Lupinus nootkatensis Donn ex Sims. Oftast er nafnahöfundum sleppt og þá er látið duga að skrifa Lupinus nootkatensis. Myndin sem er neðst til hægri er af L. nootkatensis f. alba og þar fyrir ofan er L. nootkatensis 'Flensborg' sem nefnd er eftir tveimur systrum. Hinar fjórar plönturnar eru ekki allar steyptar í sama mót en hafa ekki sérstök heiti. Það yrði til að æra óstöðugan að gefa öllum alaskalúpínum nöfn eftir útlitseinkennum. Myndir: Sig.A.
Allar þessar myndir eru af einni tegund. Kallast hún alaskalúpína eða Lupinus nootkatensis Donn ex Sims. Oftast er nafnahöfundum sleppt og þá er látið duga að skrifa Lupinus nootkatensis. Myndin sem er neðst til hægri er af L. nootkatensis f. alba og þar fyrir ofan er L. nootkatensis 'Flensborg' sem nefnd er eftir tveimur systrum. Hinar fjórar plönturnar eru ekki allar steyptar í sama mót en hafa ekki sérstök heiti. Það yrði til að æra óstöðugan að gefa öllum alaskalúpínum nöfn eftir útlitseinkennum. Myndir: Sig.A.

ssp. og spp.

Þessi fyrirsögn sýnir tvær líkar skammstafanir. Þær hafa þó ólíka merkingu og hana þurfum við að útskýra. Sú fyrri, ssp., hefur þegar verið útskýrð. Þetta er skammstöfun fyrir undirtegund eða subspecies. Þessi líkindi er ein af ástæðum þess að sumir kjósa að nota frekar skammstöfunina subsp. í stað ssp. Þá er ekki lengur hætta á neinum ruglingi hvað þetta varðar. Skammstöfunin spp. er notuð þegar talað er um margar tegundir innan sömu ættkvíslar án þess endilega að gera greinarmun á þeim öllum. Þetta má stundum sjá í pistlum okkar og sést meira að segja í þessum pistli. Hér aðeins neðar segir: Samskonar kerfi á við um tegundir í öðrum ættkvíslum, svo sem víðitegundir eða Salix spp.Við hefðum auðveldlega getað komist hjá þessu með því að breyta setningunni og skrifa: Samskonar kerfi á við um aðrar ættkvíslir, svo sem víðiættkvíslina eða Salix.Munurinn er sá að í seinna dæminu er ekki talað um tegundir víðis og því er óþarfi að nota þessa skammstöfun.

Mismunandi tegundir af víði, Salix spp. í Lögmannshlíð ofan Akureyrar. Mynd: Sig.A.
Mismunandi tegundir af víði, Salix spp. í Lögmannshlíð ofan Akureyrar. Mynd: Sig.A.

Kvæmi

Hugtakið kvæmi á heima í þessari umræðu þótt það tilheyri varla nafngiftum tegunda. Í raun hefur það ekkert flokkunarfræðilegt gildi en hugtakið skiptir ræktendur máli. Um það var töluvert skrifað á sínum tíma. Má nefna greinar eftir höfðingjana Sigurð Blöndal (1981) og Óla Val Hansson (1989). Báðar voru þessar greinar í Ársritum Skógræktarfélags Íslands. Svo má nefna Stóru garðabókina frá 1996, en hún er meginheimild þessa pistils.

Þar sem lífverur hverrar tegundar um sig eru ekki allar steyptar í sama mót ræður umhverfið miklu um þróun þeirra og þol. Á hverju svæði lifa helst þær lífverur, þar með talin tré, sem eru best aðlöguð þeim aðstæðum sem ríkja á viðkomandi stað. Þess vegna eru þær líklegastar til að geta fjölgað sér og komið erfðaefni sínu til næstu kynslóðar. Hinir hæfustu, miðað við ríkjandi aðstæður, lifa af. Þess vegna birtist munur á stofnum tegunda eftir svæðum. Þetta er drifkraftur þróunar og því ákaflega mikilvægt fyrirbæri. Þessi aðlögun getur leitt til myndunar afbrigða og undirtegunda en þarf ekki endilega að gera það.

Tré, sem koma frá tilteknu svæði eru líkleg til að standa sig vel á þeim svæðum þar sem aðstæðum svipar til aðstæðna á væntanlegan ræktunarstað. Stofn eða hópur einstaklinga af sömu tegund, sem vex á meira eða minna afmörkuðu landssvæði má kalla kvæmi. Hugtakið er sumpart spunnið af erfðafræðilegum toga en sumpart af landfræðilegum (Sigurður 1981).

Vitneskjuna um mismunandi eiginleika hjá kvæmum innan sömu tegunda er hægt að nýta til að bæta árangur í skógrækt. Má sem dæmi nefna að kvæmið Bæjarstaður hefur reynst vel um allt land þegar kemur að ræktun birkitrjáa og kvæmið Skagway er mest ræktaða stafafurukvæmið á Íslandi. Það er samt ekki víst að furan frá Skagway skili allstaðar bestum árangri, en nálægt ströndinni gerir hún það. Það getur verið gott að þekkja til kvæma til að bæta árangur sinn í ræktun og því er stundum talað um Skagwayfuru og Bæjarstaðabirki með vísan upprunastað og þar með hvaða kvæmi er um að ræða. Þetta eru ekki eiginleg tegundarheiti, því tegundirnar heita stafafura og birki (eða ilmbjörk ef fólk vill frekar nota það). Vel má vera að þörf sé á að skrifa sérstakan pistil um kvæmi. Kæmi það mörgum eflaust vel að þekkja betur til hugtaksins.

Birkið í Vaglaskógi er sama tegund og annað, villt birki á Íslandi en það myndar sérstakt kvæmi. Þetta kvæmi vex betur á Norðurlandi en á Suðurlandi. Mynd: Sig.A.
Birkið í Vaglaskógi er sama tegund og annað, villt birki á Íslandi en það myndar sérstakt kvæmi. Þetta kvæmi vex betur á Norðurlandi en á Suðurlandi. Mynd: Sig.A.

Íslensk nafnahefð

Við endum þennan pistil á því að fjalla um þær venjur sem skapast hafa þegar trjám og öðrum plöntum eru gefin íslensk nöfn. Venjan er sú að gefa hverri tegund eitt samsett nafn. Fyrri helmingur þess er gjarnan lýsandi á einhvern hátt, rétt eins og viðurnöfnin í fræðiheitunum. Seinni hlutinn vísar gjarnan til ættkvíslarinnar. Þessi nafnahefð minnir dálítið á tvínafnakerfi Linnæusar nema hvað nöfnin eru samsett og ættkvíslarheitið kemur á eftir viðurnafninu. Þannig verða til orð eins og kasmírreynir, Sorbus cashmiriana, skrautreynir, S. decora og koparreynir, S. frutescens, svo dæmi séu tekin. Í þessum dæmum bera tvö fyrri dæmin dám af latínunni en hið síðasta vísar í haustliti tegundarinnar.

Samskonar kerfi á við um tegundir í öðrum ættkvíslum, svo sem víðitegundir eða Salix spp. Má nefna gulvíði, Salix phylicifolia, grasvíði, S. herbacea og alaskavíði, S. alaxensis sem dæmi. Innan þeirrar ættkvíslar eru einnig til tegundir sem ekki falla að hefðinni. Bæði selja, S. caprea, og viðja, S. myrsinifolia ssp. borealis eru víðitegundir og grasvíðirinn er stundum nefndur smjörlauf.

Rétt er að benda á að nafnahefðin gerir ráð fyrir samsettum nöfnum en ekki nöfnum sem fela í sér tvö heiti. Við tölum um kasmírreyni en ekki kasmírskan reyni, svo dæmi sé tekið. Blágreni er ekki það sama og blátt greni og svo mætti áfram telja. Oft má þekkja óvandaðar þýðingar á svona óvandvirkni.

Við bendum á að heiti tegunda á íslensku eru skráð með litlum upphafsstaf, jafnvel þótt þau séu kennd við sérnöfn eins og Kasmír í dæminu hér að ofan. Sama á við um alaskaösp, sitkagreni og svo framvegis. Nú kunna einhverjir lesenda að klóra sér í hausnum ef þeir muna að í kaflanum hér að ofan er talað um Skagwayfuru og Bæjarstaðabirki. Því er til að svara að það eru ekki tegundarheiti.

Koparreynir með sín koparrauðu haustlauf. Mynd: Sig.A.
Koparreynir með sín koparrauðu haustlauf. Mynd: Sig.A.

Á íslensku er algengt að nota fræðiheitin til að búa til heiti á tegundir, frekar en alþýðuheiti heimamanna. Þannig heitir skógarfura Pinus sylvestris á fræðimálinu. Þarna er viðurnafnið sylvestris notað til að gefa furunni nafn. Það vísar í það að tegundin myndar skóga. Á ensku er hún gjarnan kennd við grasafræðing að nafni Scott. Það hljómar eins og þær séu kenndar við Skotland og því eru skógarfurur stundum kallaðar skoskar furur í óvönduðum þýðingum. Sama á við um broddgreni, Picea pungens, sem er kennt við hinn bláa lit á mörgum tungumálum en íslenska heitið ber í sér þýðingu á pungens sem merkir stingandi. Á íslensku er hugtakið blágreni notað á aðra grenitegund; P. engelmannii.

Íslensk nafnahefð tekur einnig mið af eldri, íslenskum alþýðuheitum. Þau vísa ekki endilega í réttar ættkvíslir. Þannig er eyrarós ekki rós og mýrasóley ekki sóley, svo dæmi séu tekin. Engin ástæða er þó til að breyta rótgrónum nöfnum þótt þau falli ekki alltaf að ströngustu kröfum grasafræðinnar.

Ættkvíslin Berberis kallast broddar á íslensku. Þetta er tegundin Berberis thunbergii eða sólbroddur. Hann er svo flottur að hann bað um að fá að vera með í pistlinum. Mynd: Sig.A.
Ættkvíslin Berberis kallast broddar á íslensku. Þetta er tegundin Berberis thunbergii eða sólbroddur. Hann er svo flottur að hann bað um að fá að vera með í pistlinum. Mynd: Sig.A.

Það er ekki endalaust hægt að búa til stutt og laggóð heiti á allar ættkvíslir sem ræktaðar eru á Íslandi, þótt það hafi hingað til gengið nokkuð vel. Stundum eru búin til nöfn sem eru nokkuð löng. Þá er mikilvægt að hægt sé að nota styttingar á heiti tegunda. Í pistlum okkar um gífurviði eða Eucalyptus höfum við sagt frá þessu. Við köllum ættkvíslina gífurviði og styttum það í -gífur þegar við gefum tegundum nöfn, eins og til dæmis regnbogagífur sem við höfum fjallað um í sérstökum pistli.

Hverri nafnahefð geta fylgt kostir og gallar. Íslenska nafnahefðin er ljómandi góð en sá galli fylgir henni að þegar listar yfir tegundir eru birtir í stafrófsröð lenda óskyldar tegundir saman og erfitt getur verið að fá yfirlit yfir tilteknar ættkvíslir. Í þeim tilfellum er heppilegt að nota fræðiheitin. Þá lendir hver ættkvísl saman því ættkvíslarheitin koma fyrst. Það er ein af fjölmörgum ástæðum þess að gagnlegt getur verið að kunna skil á fræðiheitunum.


Þakkir

Til að minnka líkurnar á því að fylla þessa tvo pistla um nöfn og nafnahefðir af allskonar vitleysu lásu þau Ágúst H. Bjarnason og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir yfir handritið í vinnslu. Hér með er þeim báðum þakkað fyrir þarfar ábendingar og leiðréttingar. Allar villur sem kunna að leynast í textanum eru alfarið á ábyrgð höfundar.

Hér má sjá nokkrar tegundir af víði sem öllum er fjölgað kynlaust með græðlingum í Sólskógum í Kjarnaskógi. Þetta eru því margir klónar eða yrki sem hver hefur sitt nafn. Hjá sumum tegundum, eins og til dæmis jörfavíði, eru mörg yrki í ræktun. Mynd: Sig.A.
Hér má sjá nokkrar tegundir af víði sem öllum er fjölgað kynlaust með græðlingum í Sólskógum í Kjarnaskógi. Þetta eru því margir klónar eða yrki sem hver hefur sitt nafn. Hjá sumum tegundum, eins og til dæmis jörfavíði, eru mörg yrki í ræktun. Mynd: Sig.A.

Heimildir


Ágúst H. Bjarnason (ritstj.) (1996): Stóra garðabókin. Forlagið, Reykjavík.


Sigurður Blöndal (1981): Kvæmi innan trjátegunda. Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1981 bls. 17-27. Skógræktarfélag Ísland, Reykjavík.


Óli Valur Hansson (1989): Alaskavíðir og fleira. Kvæmi og arfgerðir. Í: Skógræktarritið. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1989. Reykjavík.



Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page