top of page

Súlublæösp

Updated: Nov 7, 2023

Áður hefur verið fjallað um mismunandi asparklóna á Íslandi. Það eru allt saman klónar alaskaaspar (Populus trichocarpa eða Populus balsamifera ssp. trichocarpa). Til eru fleiri tegundir aspa í heiminum og nokkrar þeirra þrífast ágætlega á Íslandi en aðrar miður.


Súlusvartösp

Mest rætkaði asparklónn í heimi (eða klón, ef konur vilja frekar hafa það í hvorugkyni) er svartasparklónninn Populus nigra ´Italica´. Sumir segja að það sé mest ræktaði trjáklónn í heimi. Formóðir allra þessara aspa óx í Lombardy á Norður-Ítalíu á 18. öld. Eins og vænta má er trjáklónn sem kenndur er við Ítalíu full suðlægur til stórræða á Íslandi. Hann hefur þó verið reyndur hér á landi en árangurinn er slakur. Þó er við því að búast að margir lesendur hafi séð þennan klón víða um Evrópu, sérstaklega sunnan til en einnig í Norður-Ameríku. Þetta er sérstakt tré með uppréttar greinar og mjög granna trjákrónu sem getur orðið allt að 20 -30 metrar á hæð eftir aðstæðum, en varpar litlum skugga vegna súluvaxtarlagsins. Myndin hér að neðan er af svartösp í Kaupmannahöfn.


Súlublæösp

Svo bar það til árið 1840 að í Gautlöndum uppgötvuðu menn aðra aspartegund sem einnig vex eins og súla. Er það blæösp (Populus tremula). Þetta latínuheiti klingir eflaust bjöllum hjá mörgum norðlenskum listamönnum og listáhugafólki. Þessi gautlenski klónn þrífst prýðilega á Íslandi og hefur ræktun hans aukist hin síðari ár en hann barst hingað fyrst um 1980. Hann er ekki nærri eins frekur til plássins og flestar aðrar aspir sem hér þrífast. Þessi tiltekni blæasparklónn heitir Populus tremula 'Erecta' en hefur á íslensku verið kallaður súlublæösp. Súlublæsöp hefur svipað vaxtarlag og svartasparklónninn sem áður var nefndur en getur lifað við lægri sumarhita og verður að auki mun smávaxnari. Við bestu skilyrði er þó sagt að klónninn geti orðið einir 15 metrar á hæð. Hér á landi má eflaust búast við að hann nái allt að 10 metrum með tíð og tíma. Súlublæösp útnefnum við #TrévikunnarSE að þessu sinni.

Fjölgun

Eins og aðrar blæaspir setur súlublæöspin töluverð rótarskot og má nota þau til að fjölga tegundinni. Einnig þekkist að græða greinar af súlublæösp á aðrar aspir sem ekki skríða eins mikið um. Að auki er hægt að rækta súlublæaspir með svokallaðri vefjaræktun. Til þess þarf nokkuð sérhæfðan búnað og er því lítið stundað þessi misserin. Öfugt við alaskaöspina sem hér er svo víða er ekki hægt að fjölga blæöspum með hefðbundnum græðlingum.

Norsk súlublæösp

Fregnir hafa borist af því að samskonar stökkbreyting hafi fundist í norskri blæösp og mun hún einnig ganga undir nafninu súlublæösp hér á landi. Hún er nokkuð grófgerðari en sú frá Gautlöndum og þrífst einnig hér á landi en er minna ræktuð.


Súlublæösp á Akureyri

Flestir íbúar á Akureyri þekkja súlublæaspir enda eru þær mjög áberandi á Glerárgötu eins og margir þekkja. Annars þekkist þessi ösp hér og hvar í bænum og eru allar myndirnar af súlublæöspinni teknar á Akureyri.




560 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page