top of page

Dverghvítgreni ´Conica´

Updated: Oct 3, 2023

Hvítgreni (Picea glauca) er grenitegund frá Norður-Ameríku. Hún vex í breiðu belti þvert yfir álfuna alla. Allt frá Alaska yfir til Nýfundnalands og er víðast hvar á því svæði algengasta trjátegundin. Tegund með jafn stórt útbreiðslusvæði getur verið nokkuð breytileg. Í Alberta í Kanada telja sumir að um sérstakt afbrigði sé að ræða. Kallast það Picea glauca var. albertiana. Reyndar vex það afbrigði mun víðar.


Svo var það einn bjartan vordag að tveir félagar, J.G. Jack og Alfred Rehder fóru í göngutúr í hæðunum ofan við vatnið Lake Laggan í Alberta í Kanada árið 1904. Þar vaxa þessir fínu hvítgreniskógar. Rákust þeir þá á dvergvaxið hvítgreni sem vakti undur þeirra. Reyndist það vera hvítgreni sem orðið hafði fyrir stökkbreytingu sem dregur mjög úr vexti. Á það bæði við um hæðarvöxt og vöxt barrnála. Þeim tókst að fjölga trénu með græðlingum og gáfu því yrkisheitið ´Conica´. Fullt fræðiheiti mætti skrá sem Picea glauca var. Albertiana ´Conica´. Við þurfum samt ekki að örvænta og leggja alla þessa nafnarunu á minnið. Hér á landi er það oftast kallað dverghvítgreni enda mun viðráðanlegra að muna það heiti. Nafnið keilugreni hefur einnig verið notað á yrkið. Nú er ´Conica´ að öllum líkindum mest ræktaði garðtrjáaklónn af ætt barrtrjáa í allri norðanverðri Norður-Ameríku. Það er svo víða að finna að sumum finnst jafnvel nóg um. Það hentar þó prýðilega í garða enda vex það hægt og er sérstaklega þétt og fallegt og tekur ekki mikið pláss í þéttri byggð. Svona smávaxin tré eru eftirsóknarverð í litla garða. Tréð kann vel við svöl sumur og kalda vetur og hentar því prýðilega í íslenska garða. Þó getur verið betra að skýla því vel fyrsta árið eða jafnvel fyrstu tvö árin á meðan það er að koma sér vel fyrir. Annars virðist það yfirleitt standa sig með prýði. Það er helst að vorsólin geti brennt greinar einkum ef þær hafa fengið á sig salt yfir veturinn. Það er vandamál sem þekkist meðal margra barrtrjáa á Íslandi. Best þrífst það í sól eða hálfskugga og í nokkru skjóli. Það hentar ekki sem skógartré, enda lítið og á erfitt með samkeppni við stærri gróður. Tréð er mjög hægvaxta og auðvelt er að forma það með klippingu ef þess er óskað. Annars er það svo þétt að oftast er klipping óþörf. Með tíð og tíma getur þó tréð náð allt að tveggja til fjögra metra hæð í útlöndum, en það tekur marga áratugi enda vex það sjaldan meira en 10 cm á ári. Þessi hægi vöxtur er það sem gerir tréð afar sérstakt en jafnframt nokkuð dýrt í framleiðslu. Plöntur sem komnar eru í söluhæð eru orðnar mun eldri en aðrir jafn stórir runnar.


Fyrir kemur, þótt ekki sé það algengt, að ein og ein grein fer að vaxa á dverghvítgreni eins og hvert annað stórvaxið hvítgreni. Þá er eins og þessi stökkbreyting bælist á einhvern hátt. Til að grenið haldi þessu eftirsóknarverða útliti er rétt að klippa slíkar greinar af. Þær aflaga bara tréð. Eitt annað einkenni er ónefnt. Það er að ´Conica´ myndar nánast aldrei köngla.


Konunglega breska garðyrkjufélagið (The Royal Horticultural Sosiety eða RHS) hefur verðlaunað þetta yrki sérstaklega. Slík verðlaun fá bara úrvals tré.


Meðfylgjandi eru myndir af Picea glauca ´Conica´ á nokkrum stöðum á Íslandi og í útlöndum.




346 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page