top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Helstu elritegundir

Á Íslandi vaxa nokkrar tegundir af ættkvíslinni Alnus sem á íslensku kallast elriættkvísl. Í fyrri pistlum okkar um ættkvíslina sögðum við frá því að elri og birki er af sömu ætt og tilheyra mjög skyldum ættkvíslum. Jafnvel svo mjög að elrið er talið hafa þróast frá einni grein birkiættkvíslarinnar. Í þeim pistlum sögðum við frá hinu og þessu um elriættkvíslina en í þessum þriðja pistli okkar um elri reynum við að setja fram yfirlit yfir helstu tegundir og hópa innan ættkvíslarinnar. Auðvitað leggjum við áherslu á þær tegundir sem finna má á landinu en fáeinar aðrar eru nefndar á nafn. Seinna munum við svo birta sérstaka pistla um sumar þessara tegunda.

Ungt elri af tegundinni Alnus glutinosa þremur árum eftir að því var plantað sem bakkaplöntu í Hellisskógi í Árnessýslu. Þar hefur Skógræktarfélag Selfoss ræktað fjölbreyttan skóg. Í skóginum má meðal annars finna átta metra hátt tré af þessari tegund. Tegundin er ýmist nefnd svartelri eða rauðelri á íslensku. Mynd og upplýsingar: Örn Óskarsson.
Ungt elri af tegundinni Alnus glutinosa þremur árum eftir að því var plantað sem bakkaplöntu í Hellisskógi í Árnessýslu. Þar hefur Skógræktarfélag Selfoss ræktað fjölbreyttan skóg. Í skóginum má meðal annars finna átta metra hátt tré af þessari tegund. Tegundin er ýmist nefnd svartelri eða rauðelri á íslensku. Mynd og upplýsingar: Örn Óskarsson.

Fjöldi tegunda

Í heiminum eru til nokkrir tugir elritegunda en heimildum ber illa saman um fjöldann. Þrátt fyrir að þessar tegundir hafi lítt verið notaðar í skóg- og garðrækt á Íslandi má segja að hérlendis séu ræktaðar einar átta tegundir og undirtegundir þótt fleiri séu til hjá söfnurum og í grasagörðum ef vel er gáð. Þetta er samt ekki alveg ljóst því miklar breytingar hafa verið gerðar í flokkun elris með aðstoð erfðafræðinnar á undanförnum árum. Ekki eru allir sammála um hvar mörk tegunda liggja og því er ógjörningur að setja fram einhverja ákveðna tölu um nákvæman fjölda. Þó liggur fyrir að þessar rannsóknir hafa orðið til þess að tegundum hefur fækkað töluvert. Það sem áður voru álitnar sérstakar tegundir flokkast nú sem undirtegundir. Samkvæmt World Flora Online eru nú viðurkenndar 44 tegundir innan ættkvíslarinnar auk undirtegunda og blendinga. Það er ekki verri tala en hver önnur.


Ryðelri, Alnus rubra, í mjög rýru landi í Skotlandi. Mörgum þykir tegundin heppileg landgræðsluplanta í skoskum fjöllum þar sem hún myndar fræ hærra í landinu en eina innlenda tegundin sem þar vex og kallast A. glutinosa. Ekki er full eining um íslenska heitið á þeirri tegund. Mynd og upplýsingar: Ronald Greer.
Ryðelri, Alnus rubra, í mjög rýru landi í Skotlandi. Mörgum þykir tegundin heppileg landgræðsluplanta í skoskum fjöllum þar sem hún myndar fræ hærra í landinu en eina innlenda tegundin sem þar vex og kallast A. glutinosa. Ekki er full eining um íslenska heitið á þeirri tegund. Mynd og upplýsingar: Ronald Greer.

Samkvæmt Trees and Shrubs Online eru margar elritegundir ræktaðar í heiminum. Tegundin Alnus cremastogyne, sem ekki á sér neitt íslenskt heiti, er ræktuð á samtals 1,5 milljónum hektara í Jangtse-dalnum í Kína. Þar með er sú tegund að líkindum mest ræktaða tegundin af öllu elri. Í Evrópu eru þrjár tegundir mest ræktaðar samkvæmt sömu heimild. Tvær þeirra vaxa villtar í Evrópu og heita gráelri, A. incana, og svo tegund sem ýmist er kölluð rauðelri eða svartelri, A. glutinosa. Sú þriðja er amerísk og kallast ryðelri, A. rubra. Þessar þrjár tegundir vaxa allar á Íslandi og um þær er fjallað hér neðar. Allar verðskulda þær sérstaka pistla. Til eru fleiri tegundir sem ræktaðar eru í minna mæli í Evrópu. Verða sumar þeirra nefndar hér á eftir.

Alnus glutinosa við litla á eða læk í bænum Glenfarg í Skotlandi. Mynd: Sig.A.
Alnus glutinosa við litla á eða læk í bænum Glenfarg í Skotlandi. Mynd: Sig.A.

Elri á Íslandi

Þeim tegundum ættkvíslarinnar sem finnast á Íslandi má í grófum dráttum skipta í tvær gerðir eða tvo meginhópa. Nánast alls staðar þar sem elri vex á annað borð í villtri náttúru og loftslagi svipar til þess er finna má á Íslandi má finna þessar tvær gerðir. Þær vaxa þó ekkert endilega saman og sums staðar vantar annan hópinn. Þetta eru annars vegar runnamyndandi tegundir og hins vegar trjátegundir. Í hlýrra loftslagi vantar lágvaxnari gerðina. Nokkuð langt virðist vera á milli þessara hópa í þróunarsögunni þótt ættkvíslin sé ekki talin mjög gömul. Báðir hóparnir geta bundið mikið nitur með hjálp rótarhnýðisgerla eins og við sögðum frá í fyrri pistlum.

Stundum hefur elriættkvíslinni verið skipt niður í þrjár undirættkvíslir (subgenus). Runnarnir tilheyra fyrsta hópnum og kallast hann Alnobetula. Innan hans er ein stórtegund, Alnus alnobetula, sem skipt er í margar undirtegundir. Þetta er hópurinn sem talinn er skyldastur birkinu. Önnur undirættkvísl kallast Alnus og er stærsti hópurinn.  Innan hans eru allar aðrar tegundir sem ræktaðar eru á Íslandi. Þriðja undirættin kallast Clethropsis. Innan hennar eru fáeinar elritegundir án þess að þær eigi neitt sérstaklega mikið sameiginlegt nema hvað þær blómstra á haustin en ekki á vorin eins og þær tegundir sem við þekkjum best á Íslandi. Clethropsis er ekki ræktuð á landinu og finnst ekki á svölum svæðum. Þess vegna tölum við um tvo hópa á Íslandi. Margar þeirra tegunda sem finnast hér á landi verðskulda frekari umfjöllun og eru pistlar í smíðum um sumar þeirra. Þess vegna höfum við umfjöllunina ekki mjög ítarlega um hverja tegund í þetta skiptið. Lesendur geta á meðan látið sig hlakka til frekari lesturs. Að okkar viti eru báðir hóparnir vannýttir í landgræðslu, skógrækt og garðrækt á landinu.

Hæruölur, Alnus hirsuta, frá Austur-Asíu er ein af þeim elritegundum sem eru lítið ræktaðar á Íslandi og reyndar á það við um Evrópu almennt. Um tíma var litið á tegundina sem undirtegund gráelris og hét þá Alnus incana ssp. hirsuta. Nú hefur verið horfið frá því. Þetta tré er í Lystigarðinum á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Hæruölur, Alnus hirsuta, frá Austur-Asíu er ein af þeim elritegundum sem eru lítið ræktaðar á Íslandi og reyndar á það við um Evrópu almennt. Um tíma var litið á tegundina sem undirtegund gráelris og hét þá Alnus incana ssp. hirsuta. Nú hefur verið horfið frá því. Þetta tré er í Lystigarðinum á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Runnar. Undirættkvíslin Alnobetula

Allt elri telst til frumbýlinga eða síðfrumbýlinga í sinni vist. Seinna hugtakið nær yfir plöntur sem koma snemma í vistina en á eftir allrafyrstu frumbýlingum.

Runnarnir eru í flestum tilfellum eindregnar frumbýlistegundir. Sumir geta myndað fræ býsna snemma á lífsferlinum, gjarnan á þriðja til fimmta ári. Algengt er meðal frumbýlinga að fræmyndun hefjist snemma. Þessi hópur elris er talinn skyldari birkinu en hinir hóparnir sem eru sundurleitari. Það sést meðal annars á því að birkiþéla, sem getur stórskemmt lauf á birki, hefur sést í laufum sitkaelris hér á landi en engin staðfest dæmi eru um að hún leggist á hinn hópinn sem finna má á landinu.

Í útlöndum eru runnarnir meðal annars þekktir fyrir að mynda oft og tíðum mikil þykkni eða þétt kjarr. Í mörgum tilfellum eru ýmsar víðitegundir sem vaxa með elrirunnunum í slíkri vist. Ekki er alltaf auðvelt að komast í gegnum slíkt kjarr. Að þessu leyti minnir það dálítið á íslenska birkikjarrskóga. Á Kamtsjatkaskaga myndar þetta kjarr eins konar belti í flestum fjöllum, rétt ofan við eiginleg skógarmörk. Sumir telja jafnvel að það kunni að þrýsta skógarmörkum steinbjarkarinnar, Betula ermanii, sem þar vex, eitthvað niður hlíðarnar. Steinbjörkin er af sömu ættkvísl og birkið okkar en myndar aldrei runna á heimaslóðum heldur tré. Þetta elrikjarr, ofan við steinbjörkina þar austur frá fellur ekki öllum í geð og hefur jafnvel verið kallað bölvun Kamtsjatka (Hultén 1927).

Snætt undir berum himni á Kamtsjatka. Til hægri á myndinni má sjá baksvipinn á Óla Val Hanssyni. Hann safnaði meðal annars elritegundum í Austur-Asíu og Alaska og fræddi pistlahöfund um ættkvíslina. Í baksýn má sjá hvar elrikjarr breiðir úr sér og steinbjörk vex upp úr þykkninu á stöku stað. Myndina tók Brynjólfur Jónsson og hana fengum við úr Skógræktarritinu árið 1995.
Snætt undir berum himni á Kamtsjatka. Til hægri á myndinni má sjá baksvipinn á Óla Val Hanssyni. Hann safnaði meðal annars elritegundum í Austur-Asíu og Alaska og fræddi pistlahöfund um ættkvíslina. Í baksýn má sjá hvar elrikjarr breiðir úr sér og steinbjörk vex upp úr þykkninu á stöku stað. Myndina tók Brynjólfur Jónsson og hana fengum við úr Skógræktarritinu árið 1995.

Í Alaska er svona tegundir einnig að finna ofan eiginlegra skógarmarka. Að auki eru runnarnir með allrafyrstu tegundum til að nema land þar sem jöklar hopa á þeim slóðum. Síðan fylgja kröfuharðari tegundir á eftir og skyggja runnana oftast út, rétt eins og við þekkjum með alaskalúpínuna hér á landi. Það er ekki nóg með að sums staðar vaxi elrið ofan við birkið, heldur vex það sums staðar norðar. Þannig er því til dæmis háttað á Grænlandi Þar sem finna má grænelri töluvert norðar en birkið sem er sama birkið og vex á Íslandi. Athygli vekur að runnakennt elri telst ekki til innlendra tegunda á Norðurlöndum. Af hverju það barst ekki þangað eftir ísöld eins og trén er óljóst.

Sitkaelri er skylt birkinu okkar en hefur Frankia-gerla á rótum sem vinna nitur úr andrúmsloftinu. Því vex það mun betur en birkið við erfið skilyrði. Hér er það á mel í Skriðdal. Í fjarska sést í Þingmúla en eftir honum heita tvær sýslur. Ef vel er að gáð má sjá að minnsta kosti tvær sáðplöntur á myndinni. Þrátt fyrir mikla fræmyndun sumra runnategundanna virðist elrið sjaldan sá sér langt frá móðurplöntunum. Sennilega stafar það af skorti á réttum rótarhnýðisgerlum nema mjög nálægt móðurplöntunum. Mynd: Sig.A.
Sitkaelri er skylt birkinu okkar en hefur Frankia-gerla á rótum sem vinna nitur úr andrúmsloftinu. Því vex það mun betur en birkið við erfið skilyrði. Hér er það á mel í Skriðdal. Í fjarska sést í Þingmúla en eftir honum heita tvær sýslur. Ef vel er að gáð má sjá að minnsta kosti tvær sáðplöntur á myndinni. Þrátt fyrir mikla fræmyndun sumra runnategundanna virðist elrið sjaldan sá sér langt frá móðurplöntunum. Sennilega stafar það af skorti á réttum rótarhnýðisgerlum nema mjög nálægt móðurplöntunum. Mynd: Sig.A.

Sums staðar eru þessir runnar ræktaðir í görðum á Íslandi og hefur það gefist vel ef þeir lenda ekki í skugga. Þeir haldast lengi grænir á haustin og kann það að virka á sumt fólk eins og eins konar sumarauki.

Runnarnir eru meira notaðir í jöðrum skóga en hávaxnara elri. Einnig má nota þá sem undanfara í skógrækt til að skapa skjól og frjóa jörð. Síðan má planta kröfuharðari tegundum í kjölfarið. Þannig er að nokkru hermt eftir náttúrunni sjálfri. Runnakennt elri getur reynst prýðisgóð tegund til landgræðslu. Þar getur það bætt jarðveginn og skapað skjól fyrir annan gróður.

Að jafnaði þola runnarnir þurrara land en trjátegundirnar en bestum þroska ná þeir ef þeir komast í sæmilegan raka.

Sitkaelri myndar oftast runna en sumar plöntur geta myndað tré. Hér er ein planta sem virðist ætla að verða tré. Myndin sýnir að svona elri getur vaxið vel í mjög rýru landi. Því er óhætt að mæla með henni til landgræðslu. Mynd: Sig.A.
Sitkaelri myndar oftast runna en sumar plöntur geta myndað tré. Hér er ein planta sem virðist ætla að verða tré. Myndin sýnir að svona elri getur vaxið vel í mjög rýru landi. Því er óhætt að mæla með henni til landgræðslu. Mynd: Sig.A.

Erfðafræðirannsóknir hafa breytt þekkingu okkar á þessum tegundum töluvert. Áður fyrr voru taldar nokkrar náskyldar tegundir í þessum hópi, svo sem sitkaelri, Alnus sinuata og grænelri, A. crispa í Norður-Ameríku, hríselri, A. fruticosa í Asíu og kjarrelri, A. viridis í Evrópu. Lengi hafa ýmsir plöntufræðingar bent á að þessir runnar séu svo líkir að færa megi rök fyrir því að þeir myndi í raun aðeins eina tegund. Erfðafræðirannsóknir sýna að þeir höfðu rétt fyrir sér og að eðlilegt er að kalla þetta allt saman eina tegund en gömlu heitin eru notuð á undirtegundir. Fyrst voru þær allar settar í hóp með kjarrelri og nefndar A. viridis og gömlu viðurnöfnin notuð sem heiti undirtegunda. Þá var sitkaelrið nefnt A. viridis ssp. sinuata og svo framvegis. Sumum þótti þetta dálítið merkilegt í ljósi þess að kjarrelrið í Ölpunum er ekki endilega best þekkt í heiminum þótt það sé best þekkt í Evrópu. Að auki hefur það fremur litla útbreiðslu miðað við hinar undirtegundirnar.

Útbreiðsla runnakenndu elritegundanna sem um tíma voru felldar undir safntegundina Alnus viridis. Rétt er að nefna að um þessa skiptingu sem kortið sýnir ríkir ekki fullkomin sátt. Þannig segja sumar heimildir að grænelri, A. viridis ssp. crispa, vaxi í Alaska en á kortinu er það orðið að hríselri. Að auki vantar eina tegund sem sjá má í töflunni hér að neðan. Kortið sýnir líka að næstum alls staðar á norðurhveli þar sem loftslagi svipar til þess sem finna má á Íslandi má finna runnakennt elri. Kortið er úr þessari grein. Nú er algengara að nota annað fræðiheiti á þennan hóp.
Útbreiðsla runnakenndu elritegundanna sem um tíma voru felldar undir safntegundina Alnus viridis. Rétt er að nefna að um þessa skiptingu sem kortið sýnir ríkir ekki fullkomin sátt. Þannig segja sumar heimildir að grænelri, A. viridis ssp. crispa, vaxi í Alaska en á kortinu er það orðið að hríselri. Að auki vantar eina tegund sem sjá má í töflunni hér að neðan. Kortið sýnir líka að næstum alls staðar á norðurhveli þar sem loftslagi svipar til þess sem finna má á Íslandi má finna runnakennt elri. Kortið er úr þessari grein. Nú er algengara að nota annað fræðiheiti á þennan hóp.

Nú hefur komið í ljós að til var eldra heiti á þessu runnakennda elri og hallast margir að því að eðlilegt sé að það taki yfir. Því kallast allar þessar tegundir Alnus alnobetula ef marka má World Flora Online. Hver undirtegund hefur svo sitt heiti en A. viridis er nú aðeins talið samheiti. Samkvæmt síðunni eru undirtegundirnar taldar vera fimm. Þessi síðasta breyting hefur þó ekki unnið sér varanlegan sess og víðast hvar er enn talað um A. viridis en sjaldgæft er núorðið að rekast á gömlu heitin.

Fimm undirtegundir af kjarrelri. Fjórar af þeim eru ræktaðar á Íslandi og hafa íslensk nöfn. Hin fimmta er ekki í ræktun hér á landi. Heimild um fræðinöfn: WFO.
Fimm undirtegundir af kjarrelri. Fjórar af þeim eru ræktaðar á Íslandi og hafa íslensk nöfn. Hin fimmta er ekki í ræktun hér á landi. Heimild um fræðinöfn: WFO.

Til eru fleiri runnakenndar tegundir af elri. Þær tilheyra ekki þessum hópi og eru almennt ekki ræktaðar hér á landi. Á því er aðeins ein mikilvæg undantekning. Tegundin fjallaelri, Alnus maximowiczii, er runnategund sem ekki er flokkuð sem A. alnobetula. Strangt tiltekið tilheyrir tegundin undirættkvíslinni Alnus en Eric Hultén (1927) taldi að hana mætti flokka sem sömu tegund og þá sem vex á Kamtsjatka. Fjallaelri og sitkaelri eiga það sameiginlegt umfram hinar tegundirnar geta myndað lítil tré en oftar eru tegundirnar taldar til runna. Í undirbúningi er sérstakur pistil um þessar runnakenndu tegundir sem reyndar hafa verið á Íslandi.

Þrjár myndir af fjallaelri, Alnus maximowiczii, úr ræktun Ólafs Njálssonar í Nátthaga. Hann fór sjálfur til Japans til í fræ af álitlegum mæðrum. Myndir: Ólafur Njálsson.


Tré. Undirættkvíslin Alnus.

Hinn hópurinn af elri sem vex á Íslandi myndar oftast tré frekar en runna. Hann er fjölbreyttari og rétt að skipta honum í fleiri kafla. Saman mynda tegundirnar undirættkvíslina Alnus. Stór hluti trjánna hefur verið sameinaður í eina safntegund sem kallast gráelri, Alnus incana. Þar fyrir utan er ein amerísk tegund og ein evrópsk í almennri ræktun hér á landi. Eitt merkilegt einkenni má sjá á öllum tegundum undirættarinnar. Sárin á nýsöguðum stofnum tegundanna er mjög rauð á litinn og því hafa nöfn eins og rauðelri og ryðelri verið notuð á sumar þeirra. Verður nú sagt frá þessum tegundum.

Gráölur, Alnus incana ssp. incana, vex prýðilega sem götutré á Akureyri. Samt hefur tréð ekki stöðugan og góðan aðgang að vatni. Mynd: Sig.A.
Gráölur, Alnus incana ssp. incana, vex prýðilega sem götutré á Akureyri. Samt hefur tréð ekki stöðugan og góðan aðgang að vatni. Mynd: Sig.A.

Gráelrihópurinn, Alnus incana

Um stóran hluta norðlægra svæða í heiminum er að finna elri sem áður var talið til nokkurra náskyldra tegunda. Þetta eru elritegundir sem gjarnan má finna innan um barrtré á norðurslóðum og í fjalllendi í Mið-Evrópu þar sem þær mynda tré. Tegundirnar vaxa gjarnan á sömu eða svipuðum slóðum og runnarnir sem nefndir voru hér að framan. Trjátegundirnar hafa flestar verið sameinaðar í eina safntegund sem skiptist í nokkrar undirtegundir. Á íslensku halda þær samt sínum gömlu heitum (Árni 2017). Flest þau tré af ættkvísl elris sem hér má finna eru af þessari safntegund. Það fer ekki á milli mála að tegundirnar eru skyldar en skyldleikinn er misjafnlega mikill. Sumar eru það fjarskyldar að í raun er vafasamt hvort þær eigi heima innan sömu safntegundar. Þess vegna ber heimildum ekki alltaf saman. Flest eru trén frumbýlingar eða síðfrumbýlingar. Þau geta myndað stæðileg tré en stundum stóra og margstofna runna. Trén eru að jafnaði þorstlátari en áðurnefndir runnar en geta þó vaxið á ótrúlega þurrum stöðum. Best líkar þeim við ferskan jarðraka svo sem nálægt rennandi vatni og margar hafa ekkert á móti því þótt að þeim flæði annað slagið. Til eru tré sem þola að standa í bleytu um tíma en fæst eru hrifin af því. Áður var sumum tegundum, eins og gráelri, A. incana ssp. incana, oft plantað á slíka staði en það reyndist ekki vel. Engar skipulagðar kvæmatilraunir hafa verið gerðar með þessar trjátegundir á Íslandi og verður að kalla það bagalegt.


Kort sem sýnir helstu tegundir sem felldar hafa verið undir safntegundina Alnus incana og reyndar hafa verið á Bretlandseyjum og geta þrifist á Íslandi. Sumar heimildir hafa fallið frá því að flokka fyrsttöldu tegundina með. Eina tegund, A. incana ssp. kolaensis, vantar á myndina enda er hún ekki ræktuð á eyjunum. Það elri vex á svæðinu á milli gráelris og hæruelris og skarast við gráelrið á þessari mynd. Myndina fengum við úr þessari grein.
Kort sem sýnir helstu tegundir sem felldar hafa verið undir safntegundina Alnus incana og reyndar hafa verið á Bretlandseyjum og geta þrifist á Íslandi. Sumar heimildir hafa fallið frá því að flokka fyrsttöldu tegundina með. Eina tegund, A. incana ssp. kolaensis, vantar á myndina enda er hún ekki ræktuð á eyjunum. Það elri vex á svæðinu á milli gráelris og hæruelris og skarast við gráelrið á þessari mynd. Myndina fengum við úr þessari grein.
Vætuelri, sem nú kallast Alnus incana ssp. rugosa, má finna á nokkrum stöðum á landinu en er hvergi algengt. Myndin er tekin í Lystigarðinum á Akureyri. Blöðin á því eru heldur þykkari og með dýpri æðar en lauf á öðru gráelri.
Vætuelri, sem nú kallast Alnus incana ssp. rugosa, má finna á nokkrum stöðum á landinu en er hvergi algengt. Myndin er tekin í Lystigarðinum á Akureyri. Blöðin á því eru heldur þykkari og með dýpri æðar en lauf á öðru gráelri.

Það er sjaldan augljóst hvar setja skuli mörk skyldra tegunda. Síðustu fréttir af þessu fjölskyldudrama eru þær að tvær af þessum undirtegundum hafa fengið sitt gamla heiti aftur og eru ekki lengur undirtegundir gráelris. Þetta eru Alnus hirsuta og A. oblongifolia. Þær eru samt vissulega náskyldar gráelrinu og eiga án efa sameiginlegan forföður.

Tafla byggð á grein eftir Árna Þórólfsson (2017) yfir tegundir sem skilgreindar hafa verið sem undirtegundir gráelris. *merkir að fallið hefur verið frá greiningunni samkvæmt WFO. ** merkir að nöfnin eru tillögur frá Árna.
Tafla byggð á grein eftir Árna Þórólfsson (2017) yfir tegundir sem skilgreindar hafa verið sem undirtegundir gráelris. *merkir að fallið hefur verið frá greiningunni samkvæmt WFO. ** merkir að nöfnin eru tillögur frá Árna.

Um ofangreindar tegundir má segja að þær geta orðið einstofna tré með breiða krónu sem geta við góð skilyrði náð um 25 metra hæð en eru stundum margstofna og þá lágvaxnari. Tegundirnar eru fremur skammlífar, rétt eins og birki. Evrópska gráelrið hefur verið lengi í ræktun á Íslandi og er sennilega mest ræktaða elritegundin á landinu. Hið ameríska blæelri er víða til en þessar tegundir eru mjög líkar. Aðrar tegundir þessa hóps eru sjaldgæfar á landinu.


Í Vífilsstaðahlíð er safn af plöntum frá söfnun sem farin var til Kamtsjatka árið 1993. Þar má finna nokkrar plöntur af hæruelri. Blaðgerð og vöxtur trjánna er mjög mismunandi. Plönturnar eru um þrír til fimm metrar á hæð. Plöntur í hafrænu loftslagi, svo sem á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu, eru líklegri til að mynda runna en sama tegund inn til landsins, svo sem í Eyjafirði. Myndir: Samson Bjarnar Harðarson.

Sama tegund myndar þetta frísklega tré við vesturinnganginn í konunglega grasagarðinum í Edinborg. Blöðin á tegundinni eru nokkuð fjölbreytt að lögun. Mynd: Sig.A.
Sama tegund myndar þetta frísklega tré við vesturinnganginn í konunglega grasagarðinum í Edinborg. Blöðin á tegundinni eru nokkuð fjölbreytt að lögun. Mynd: Sig.A.

Annað elri innan Alnus undirættkvíslarinnar

Sunnan við útbreiðslusvæði fyrrnefndra tegunda eru til fleiri trjákenndar tegundir af elri. Má segja að á meðan gráelrihópurinn vaxi í og við barrskóga séu þessi elritré einkenniselri norðlægra laufskóga.

Hér fjöllum við um þær tvær tegundir úr hópnum sem mest hafa verið ræktaðar hér á landi og reynst best. Önnur er evrópsk en hin amerísk. Komið hefur í ljós að báðar þessar tegundir þrífast hér prýðilega og í raun betur en nokkur þorði að vona, því þær vaxa töluvert sunnar á hnettinum en íslensk vist býður upp á. Almennt er talið að þær þurfi meiri sumarhita en gráelritegundirnar sem nefndar voru hér að ofan en það kann að vera ofmælt.

Í lokin nefnum við fáeinar tegundir sem lítil reynsla er af á Íslandi en til eru í báðum grasagörðunum.

Alnus glutinosa í Gunnarsholti veturinn 2024. Mynd: Narfi Hjartarson.
Alnus glutinosa í Gunnarsholti veturinn 2024. Mynd: Narfi Hjartarson.

Svart- eða rauðelri

Nú ber að nefna tegundina A. glutinosa sem á íslensku hefur ýmist verið nefnd rauðelri eftir viðnum eða svartelri eftir útliti. Það er auðvitað mjög bagalegt og skapar mikla hættu á ruglingi að ekki skuli hafa tekist að festa eitt nafn á tegundina.

Þessi tegund vex um stóran hluta Evrópu og getur vaxið í mjög blautum en ekki of köldum jarðvegi. Tegundin er að jafnaði stórvaxnari og beinvaxnari en gráelrið nema á erfiðum stöðum. Hún gerir meiri kröfur til jarðvegsraka en gráelrið ef hún á að vaxa vel. Tegundin vex ágætlega á Íslandi en sennilega gerir jarðvegskuldi það að verkum að hún er ekki eins öflug í blautum mýrum hér á landi eins og hún hefur reynst sunnar á hnettinum. Þess má geta að þetta er eina elritegundin sem vex villt á Bretlandseyjum. Ef lesendur finna heimildir frá eyjunum þar sem fjallað er um elri án þess að geta sérstaklega um tegund er um A. glutinosa að ræða.

Í smíðum er sérstakur pistill um tegundina og því geymum við frekari umfjöllun um hana. Fróðleiksfúsum lesendum er á meðan bent á þessa grein eftir Þorberg Hjalta Jónsson (2018). Þar kemur meðal annars fram að hugsanlega séu það langir frostakaflar á vetrum fremur en skortur á sumarhita sem gerir að verkum að almennt vex þessi tegund sunnar en gráelrið. Ef svo er má sjálfsagt rækta rauð- eða svartelri á nánast öllu láglendi Íslands ef vilji er fyrir hendi og raki er nægilegur.


Svart- eða rauðölur, Alnus glutinosa, í Vaðlaskógi. Mynd: Sig.A.
Svart- eða rauðölur, Alnus glutinosa, í Vaðlaskógi. Mynd: Sig.A.

Ryðelri

Í hafrænu loftslagi með fram Kyrrahafsströnd Norður-Ameríku, allt frá suðausturhluta Alaska og suður til Kaliforníu, vex stórvaxnasta elritegund í heimi. Hún getur auðveldlega náð um 40 m hæð í heimkynnum sínum. Sérstaklega er vöxtur mikill hjá ungum trjám en síðan dregur aðeins úr honum. Þetta er ryðelri, Alnus rubra, sem nú er stundum farið að nefna A. serrulata en fræðiheitið A. oregana hefur einnig verið notað. 

Eitt af einkennum tegundarinnar er að hún myndar fræ mjög snemma á lífsleiðinni, rétt eins og runnarnir af þessari ættkvísl. Leiðir það til þess að tegundin á auðvelt með að leggja undir sig röskuð svæði í heimkynnum sínum svo sem eftir skógarelda (Árni 2017). 

Lengi vel reyndist ryðelri fremur illa á Íslandi en komið hefur í ljós að sum kvæmi tegundarinnar vaxa hér prýðilega. Það kann að stafa af því að meðalhitastig á landinu er á uppleið eins og kunnugt er en ef til vill stafar munurinn einfaldlega af heppilegri kvæmum. Einna bestum þroska hafa plöntur náð sem vaxið hafa upp af fræi sem tekið er á Íslandi. Má vænta þess að meira verði ræktað af ryðelri á næstu árum en nú er gert.

Tegundin verðskuldar sérstakan pistil og reynslan mun skera úr um hversu hátt ryðelrið getur orðið á Íslandi.

Þorkell Þorkelsson flugvirki stendur við ryðelritré sem gróðursett voru árið 2010 og höfðu náð yfir 6 metra hæð sjö árum síðar þegar myndin var tekin. Mynd: Árni Þórólfsson.
Þorkell Þorkelsson flugvirki stendur við ryðelritré sem gróðursett voru árið 2010 og höfðu náð yfir 6 metra hæð sjö árum síðar þegar myndin var tekin. Mynd: Árni Þórólfsson.

Líttreyndar tegundir

Nokkrar elritegundir hafa verið reyndar hér á landi sem virðast ekki hafa neitt fram yfir þær tegundir sem nefndar hafa verið hér að framan. Sumar hafa beinlínis reynst illa en nokkrar þrífast alveg sæmilega. Sumar þessara tegunda eru til í Lystigarðinum á Akureyri og Grasagarðinum í Reykjavík. Þess vegna getum við ekki sleppt þeim alveg.

Ein af þessum tegundum er Alnus serrulata. Hefur tegundin, sem er frá austurhluta Norður-Ameríku, hlotið nafnið sagelri á íslensku. Í Lystigarðinum eru tvær svona plöntur og þrífast prýðilega. Sá sem þetta skrifar hefur hvergi séð þessa tegund nema í garðinum. Aðrar ónefndar tegundir hafa reynst verr í garðinum og verður ekki meira um þær fjallað í bili.

Sagölur í Lystigarðinum er hávaxinn runni með sagtennt laufblöð. Myndirnar teknar 27. júní 2025. Á þeirri fyrri virkar laufið ljóst, því sólin skín í gegnum runnann. Myndir: Sig.A.


Í Grasagarðinum í Reykjavík má einnig finna fáeinar tegundir sem ekki eru mikið ræktaðar á landinu. Hér nefnum við tvær þeirra. Önnur er mýrelri, A. japonica. Fræðiheitið vísar til Japans en tegundin vex víðar þarna fyrir austan, svo sem á Kóreuskaganum og víða í austurhluta Kína og Rússlands. Þar getur það orðið 20 metra hátt. Hér má lesa ögn meira um tegundina.

Mýrelri, A. japonica, í Grasagarðinum í Laugardal. Vaxtarlagið bendir til að tréð verði stundum fyrir kali og muni seint vaxa upp í 20 m hæð á Íslandi. Myndir: Sig.A.


Hin tegundin úr Grasagarðinum sem við nefnum heitir A. trabeculosa og er frá svipuðum slóðum og ofangreind tegund en vex þó heldur sunnar. Hún vex í Suðaustur-Kína og Japan. Tegundin hefur ekki enn fengið íslenskt heiti. Þrátt fyrir suðlægari uppruna er ekki að sjá annað en hún þrífist ekkert síður en mýrölurinn í garðinum. Hún verður um tíu metra há samkvæmt kínverskri flóru.

A. trabeculosa í Grasagarðinum í Laugardal. Mynd: Sig.A.
A. trabeculosa í Grasagarðinum í Laugardal. Mynd: Sig.A.

Við endum þessa hraðsoðnu umfjöllun um tegundir með því að nefna hið hraðvaxta Alnus cordata sem mætti kalla ítalíuelri eftir uppruna eins og gert er víða í Evrópu eða hjartaelri með vísan í fræðiheitið og blaðlögunina, en cordata merkir hjartalaga. Tegundin er ættuð frá suðurhluta Ítalíu og Korsíku. Nýjar greiningar segja að hún finnist víðar í suðurhluta Evrópu. Nú er sagt að tegundin þekkist til dæmis bæði á Grikklandi og í Albaníu (Sjöman & Anderson 2023).

ree

A. cordata við ána Farg í Skotlandi. Þar vex þetta elri hraðar og meira en A. glutinosa á sömu slóðum. Eins og sjá má eru laufin nokkuð hjartalaga. Myndir: Sig.A.


Með því að nefna þessa tegund höfum við nefnt allar helstu elritegundir sem finna má í ræktun norðan Alpafjalla. Upprunastaðurinn gefur ekki mikið tilefni til að halda að tegundin vaxi vel á Íslandi en góð reynsla er af tegundinni á Bretlandseyjum, allt norður til Skotlands. Því höfum við hana með í þessum pistli. Ef til vill verður þetta framtíðartegund hér á landi. Við sleppum umfjöllun um A. subcordata sem vex villt við Kaspíahaf og finna má í ræktun í Evrópu. Þessar tvær tegundir þykja nokkuð líkar nema hvað sú síðarnefnda hefur hærð blöð en sú ítalska glansandi lauf (Rushforth 1999). Að sögn Trees and Shrubs Online gæti þessi síðastnefnda tegund verið þurrkþolnasta elri í heimi.

63 ára gamalt Alnus cordata í Skotlandi. Myndina tók Glenn Brearley hjá Forest Research í Stóra-Bretlandi og myndina fengum við héðan.
63 ára gamalt Alnus cordata í Skotlandi. Myndina tók Glenn Brearley hjá Forest Research í Stóra-Bretlandi og myndina fengum við héðan.

Samantekt

Í þessum þriðja pistli okkar um elriættkvíslina höfum við sagt frá öllum helstu tegundum hennar á Íslandi. Í þeim fyrsta var fjallað almennt um ættkvíslina og má sjá hann hér. Í öðrum pistli okkar um ættkvíslina sögðum við frá sögu hennar og skreyttum hann með sögum er tengjast ættkvíslinni. Þann pistil má sjá hér. Hér á landi hefur mest verið ræktað af gráelri og sitkaelri en nú hafa augu margra beinst meira að svart- eða rauðelri annars vegar og ryðelri hins vegar. Fyrir utan sitkaelrið eru þetta þær tegundir sem mest eru ræktaðar í Evrópu og þær virðast allar eiga sér bjarta framtíð á Íslandi. Í framhaldinu munum við birta nokkra pistla um flestar þeirra tegunda sem hér eru nefndar. Við munum skrifa sérstakan pistil um runnakennda elrið, annan um gráelri og þann þriðja um svart- eða rauðelri. Við ætlum líka að skrifa um ryðelri og ef til vill skrifum við um blæelrið, sem nú er talið undirtegund gráelrisins. Annars ræðst framhaldið dálítið af viðbrögðum lesenda. Eftir því sem þessir elripistlar eru oftar opnaðir af lesendum þeim mun líklegra er að við birtum meira um þessa vannýttu ættkvísl í íslenskri skógrækt. Ef þið viljið hafa áhrif á efnistök eða deila reynslu ykkar eða myndum með okkur, þá megið þið alveg endilega hafa samband. Að lokum þökkum við þeim sem lánuðu okkur myndir og veittu okkur upplýsingar. Sérstakar þakkir fær Pétur Halldórsson fyrir vandaðan og þarfan yfirlestur handrits. Allar rangfærslur, sem kunna að finnast í textanum eru á ábyrgð höfundar.


Helstu heimildir


Tim Baxter & Hugh A. McAllister (2024): Alnus Mill. Af vefsíðunni Trees and Shrubs Online. Sjá: Alnus - Trees and Shrubs Online.  International Dendrology Society. Sótt 10. júlí 2025.


Eric Hultén (1927): Flora of Kamtchatka and the adjacent islands. Kungl. svenska vetenskapsakademiens. Stockholm.


Keith Rushforth (1999): Trees of Britain & Europe. Collins Wildlife Trust Guide. The Harper Collins Publishers, London.


Henrik Sjöman & Arit Anderson (2023): The Essential Tree Selection Guide for climate resilience, carbon storage, species diversity and other ecosystem benefits. Filbert Press & Royal Botanic Gardens, Kew.


Þorbergur Hjalti Jónsson (2018): Vanmetið fenjatré. Rit Mógilsár nr. 36. Rannsóknarsvið Skógræktarinnar. Sjá: Rit Mógilsár - Nr. 36 (2018) - Tímarit.is


Í aðrar heimildir er vísað beint í texta með krækjum. Við teljum óþarfa að endurskrifa þær hér.



Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page