top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Saga elris

Fyrir fáeinum vikum birtum við pistil um hina ágætu elriættkvísl. Tegundir af þeirri ættkvísl eru gagnlegar í skógrækt, garðyrkju, landgræðslu og sem götutré. Nú höldum við áfram að segja frá þessari ættkvísl sem rækta mætti mun meira en nú er gert. Í þessum pistli fjöllum við um ættina og ættkvíslina sem elrið tilheyrir og segjum aðeins frá náttúrusögu ættkvíslarinnar. Við segjum einnig frá erfðaflæði innan ættkvíslarinnar og frá ýmsu smálegu.

Flestar elritegundir, eins og þetta gráelri, Alnus incana, mynda blóm löngu fyrir laufgun. Þetta eru karlreklarnir sem mynda frjó. Vindurinn sér um að koma því á réttan stað. Mynd: Sig.A.
Flestar elritegundir, eins og þetta gráelri, Alnus incana, mynda blóm löngu fyrir laufgun. Þetta eru karlreklarnir sem mynda frjó. Vindurinn sér um að koma því á réttan stað. Mynd: Sig.A.

Ættin

Elri telst til bjarkaættar, Betulaceae. Innan þeirrar ættar eru meðal annars birkitegundir eins og ilmbjörk, Betula pubescens, og fjalldrapi, B. nana. Birkiættkvíslin og elriættkvíslin eru taldar náskyldar en aðrar ættkvíslir ættarinnar, svo sem hesli, Corylus, og agnbeyki, Carpinus, eru fjarskyldari. Nokkur atriði eru mjög lík á meðal tegunda innan allrar ættarinnar en í þessum pistli berum við fyrst og fremst saman birkiættkvíslina og elriættkvíslina, enda eru þær meira ræktaðar hér á landi en aðrir fjölskyldumeðlimir ættarinnar. Fyrst nefnum við samt að blöð trjáa í öllum þessum ættkvíslum eru nokkuð lík. Þau eru alltaf stakstæð, einföld og hjá flestum tegundum eru þau áberandi sagtennt.

Í Grasagarðinum í Laugardal má sjá allmargar elritegundir. Hér er það japanska tegundin Alnus trabeculosa sem ekki á sér neitt íslenskt heiti. Mynd: Sig.A.
Í Grasagarðinum í Laugardal má sjá allmargar elritegundir. Hér er það japanska tegundin Alnus trabeculosa sem ekki á sér neitt íslenskt heiti. Mynd: Sig.A.

Hjá öllum tegundum innan ættarinnar eru blómin einkynja en bæði kynin birtast á sömu trjánum. Stundum finnast þess dæmi að sum tré myndi mjög mikið af annarri tegundinni en sáralítið af hinni. Karlreklar elris eru nauðalíkir birkireklum og því miður er sami ofnæmisvaldur í birkifrjói og elrifrjói. Þó er sá munur á reklum birkis og elris að reklar elrisins eru að jafnaði lengri. Oftast eru þeir gulir eða gulbrúnir en hjá sumum tegundum þekkjast rauðir frjóreklar.

Ryðelri, Alnus rubra, hefur komið mörgum á óvart með góðum þrifum á Íslandi. Það er ættað frá vesturströnd Norður-Ameríku. Þessi unga planta er í Hellisskógi. Mynd: Örn Óskarsson.
Ryðelri, Alnus rubra, hefur komið mörgum á óvart með góðum þrifum á Íslandi. Það er ættað frá vesturströnd Norður-Ameríku. Þessi unga planta er í Hellisskógi. Mynd: Örn Óskarsson.

Flestar tegundir elris er með allra fyrstu trjátegundum til að blómgast á vorin. Á Íslandi hanga útsprungnir karlreklarnir stundum á trjánum strax í mars. Þeir eru ekki langlífir en mjög áberandi. Þótt nær allar tegundir elris blómgist snemma getur verið nokkur munur milli tegunda. Runnakennda elrið á Íslandi blómgast um leið og það laufgast á meðan gráelri og skyldar tegundir blómgast mjög snemma. Sú tegund sem talin er blómgast fyrst heitir A. subcordata. Hún er sennilega of suðræn fyrir okkar loftslag enda vex tegundin sunnan við Kaspíahaf. Hún á það til að opna karlreklana strax í desember þar sem hún er ræktuð í Evrópu, samkvæmt vefsíðunni Trees and Shrubs Online.

Hið runnakennda elri, sem nú er flokkað sem safntegund og kallast Alnus alnobetula en áður A. viridis, myndar karlrekla lengur fram eftir sumri en annað elri. Hér má sjá græna kvenrekla þessa árs og brúna kvenrekla frá fyrra ári. Ofarlega á myndinni má enn sjá karlrekla þótt myndin sé tekin í júlí. Þetta er nokkuð ólíkt upphafsmyndinni. Þar má sjá karlrekla á ólaufguðu gráelri. Mynd: Sig.A.
Hið runnakennda elri, sem nú er flokkað sem safntegund og kallast Alnus alnobetula en áður A. viridis, myndar karlrekla lengur fram eftir sumri en annað elri. Hér má sjá græna kvenrekla þessa árs og brúna kvenrekla frá fyrra ári. Ofarlega á myndinni má enn sjá karlrekla þótt myndin sé tekin í júlí. Þetta er nokkuð ólíkt upphafsmyndinni. Þar má sjá karlrekla á ólaufguðu gráelri. Mynd: Sig.A.

Kvenblómin eru einnig áþekk hjá birki og elri nema að hjá elrinu tréna reklarnir og minna á litla köngla sem hanga á trénu allan veturinn og geta verið til mikillar prýði. Oftast hanga nokkrir þessara meintu köngla saman en sjaldgæfara er að sjá þá staka. Ef erfitt er að þekkja í sundur birki og elri er sennilega auðveldast að átta sig á þessum könglum sem geta hangið lengi á elrinu. Nær alltaf má finna svona köngla á öllu elri.

Greinar með elrikönglum eru stundum nýttar til jólaskreytinga. Hér skreytir elrigrein, sem bæði er með gamla kvenrekla og óopnaða karlrekla, verslun í miðbæ Akureyrar. Mynd: Sig.A.
Greinar með elrikönglum eru stundum nýttar til jólaskreytinga. Hér skreytir elrigrein, sem bæði er með gamla kvenrekla og óopnaða karlrekla, verslun í miðbæ Akureyrar. Mynd: Sig.A.

Jafnvel fræ elris og birkis er nokkuð líkt. Báðar tegundirnar framleiða afar létt fræ með litla vængi. Að auki er fræ elris með loftfylltan vef á jöðrunum. Það hjálpar fræjunum að fljóta í burt frá trénu með ám og lækjum. Árni (2017) segir frá því að fræ mismunandi elritegunda geti verið misþungt. Í hverju grammi geta verið allt frá 200 upp í 3.000 fræ eftir tegundum.

Vert er að nefna í þessum kafla að birki og elri eiga það líka sameiginlegt að tegundir beggja ættkvísla eru fremur skammlífar. Oft verða einstaklingarnir ekki nema um 40 til 150 ára. Elstu tré verða varla nema um tveggja alda gömul en eru þá oftast farin að fúna löngu fyrr.

Ísland er stærsta landið við norðanvert Atlantshaf þar sem ekkert villt elri er að finna. Inn á þetta kort eru merkt þau lönd og ríki þar sem finna má villt elri. Það vex þó ekki alls staðar í hverju landi eins og ætla mætti þegar kortið er skoðað, en svona eru merkingarnar á World Flora Online. Þar eru ekki merkt tiltekin svæði heldur lönd eða ríki þar sem finna má tegundirnar. Því ber ekki að túlka kortið þannig að elri vaxi á Grænlandsjökli, svo dæmi sé tekið. Þarna segir að elri sé slæðingur í Argentínu en aðrar heimildir segja að í fjöllum þar séu syðstu mörk náttúrulegrar útbreiðslu ættkvíslarinnar.
Ísland er stærsta landið við norðanvert Atlantshaf þar sem ekkert villt elri er að finna. Inn á þetta kort eru merkt þau lönd og ríki þar sem finna má villt elri. Það vex þó ekki alls staðar í hverju landi eins og ætla mætti þegar kortið er skoðað, en svona eru merkingarnar á World Flora Online. Þar eru ekki merkt tiltekin svæði heldur lönd eða ríki þar sem finna má tegundirnar. Því ber ekki að túlka kortið þannig að elri vaxi á Grænlandsjökli, svo dæmi sé tekið. Þarna segir að elri sé slæðingur í Argentínu en aðrar heimildir segja að í fjöllum þar séu syðstu mörk náttúrulegrar útbreiðslu ættkvíslarinnar.

Innan allrar ættarinnar er birkið algengast og myndar víða stóra, samfellda skóga. Það gerir elrið sjaldan. Samt vex elrið jafnvel víðar en birkið því það hefur náð að koma sér fyrir sunnar en aðrar tegundir ættarinnar. Samkvæmt vefnum Trees and Shrubs Online eru suðurmörk ættkvíslarinnar í norðurhluta Argentínu en aðrar heimildir segja að elri teljist til slæðinga þar í landi. Ástæðan fyrir þessu gæti verið sú að nú er vitað að hinir fornu Inkar ræktuðu tegundina Alnus acuminata (sem er suðlægasta elritegund í heimi) hvar sem þeir fóru. Það gerðu þeir til að nýta áburðaráhrifin sem niturbinding elris hefur í för með sér eins og við lýstum í fyrri pistli okkar um ættkvíslina. Þannig gátu þeir ræktað meiri maís en aðrar þjóðir á svæðinu. Sennilega fluttu Inkarnir tegundina með sér að suðurhluta ríkis síns sem einmitt var þar sem nú er norðurhluti Argentínu. Þar vex elrið núna villt í dölum hátt uppi í Andesfjöllunum (Clapp & Crowson 2022).

Glæsilegur gráölur í Lystigarðinum á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Glæsilegur gráölur í Lystigarðinum á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Víða vaxa elritegundir ofar til fjalla en birki eða lengra í norðri. Annars staðar á birkið vinninginn. Bæði birki og elri er algengast að finna á norðurhveli jarðar, bæði í tempraða beltinu og í kuldabeltinu. Allar tegundir ættarinnar teljast til ljóselskra frumbýlinga eða síðfrumbýlinga en það er meira áberandi hjá elri og birki en öðrum tegundum ættarinnar (Tudge 2005). Tegundir elriættkvíslarinnar geta vaxið við fjölbreytt skilyrði. Margar, jafnvel flestar, tegundirnar vaxa best þar sem mikinn raka er að fá en það er ekki algilt. Nánar verður fjallað um það í sérstökum kafla hér á eftir. Sumar tegundir vaxa vel í þurru og röskuðu landi þótt þær þoli tímabundin flóð.

Elri vex allt frá hæstu fjöllum niður að sjávarmáli. Hæst vex elri í 3800 metra hæð yfir sjávarmáli. Það mun vera Alnus jorullensis frá Mið-Ameríku. Sú tegund hefur ekkert íslenskt heiti. Áður nefnd A. acuminata, sem Inkarnir ræktuðu, fylgir fást á eftir og vex nú í um 1.500 til 3.200 metra hæð yfir sjávarmáli. Í fyrri pistli okkar sögðum við frá elritegund í Himalajafjöllum sem heitir A. nepalensis. Hún vex upp í 3.000 metra hæð. Svo eru til aðrar tegundir sem geta jafnvel vaxið við sjávarstrendur. Það er mest áberandi beggja vegna við norðurhluta Kyrrahafs (Baxter & McAllister 2024) en elri á Íslandi er almennt frekar viðkvæmt fyrir mikilli saltákomu. Helst er það sitkaelri sem þolir slíkt.


Sitkaelri að vori. Nú kallast það Alnus alnobetula ssp. sinuata. Eldri heimildir kalla það A. sinuata. Efst á báðum myndum má sjá óútsprungna kvenrekla en karlreklarnir eru meira áberandi. Þeir framleiða frjó sem getur valdið ofnæmisviðbrögðum. Neðst til hægri á seinni myndinni eru trénaðir kvenreklar frá fyrra ári. Mynd: Sig.A. í maí 2015.


Fræsöfnun

Árni Þórólfsson (2020) hefur safnað og sáð elrifræi síðastliðin 30 ár. Hann hefur veitt almenningi góðar upplýsingar um hvernig hann ber sig að. Þessi lýsing er byggð á skrifum hans.

Það er í góðu lagi að safna fræreklum á meðan þeir eru enn grænir. Það þarf að passa að tína allt lauf af stilkunum þegar heim er komið og koma fræreklunum fyrir í glærum plastboxum og geyma við stofuhita í nokkra daga og þurrka þá vel. Gott er að koma boxunum fyrir ofan á sæmilega heitum miðstöðvarofni í þessum tilgangi. Að nokkrum dögum liðnum verða fræreklarnir allir brúnir og hafa opnast. Þá byrjar fræið að detta úr þeim og gott er að hafa nokkuð stóra tandurhreina fötu til taks. Upplagt er að nota tíu lítra fötu með loki. Fylla skal fötuna um það bil að einum þriðja og festa lokið tryggilega. Síðan er fatan hrist hraustlega og taktfast. Við þetta losnar nánast allt fræið úr könglunum. Þá má hella úr fötunni í sigti með um 0,5 cm götum til að ná fræjunum.

Hreinn Óskarsson safnar fræi af gráelri í Kjarnaskógi að hausti til. Hægt er að safna fræi af elri í nokkuð langan tíma á haustin áður en reklarnir (könglarnir) opnast og fræið dettur úr þeim. Mynd: Sig.A.
Hreinn Óskarsson safnar fræi af gráelri í Kjarnaskógi að hausti til. Hægt er að safna fræi af elri í nokkuð langan tíma á haustin áður en reklarnir (könglarnir) opnast og fræið dettur úr þeim. Mynd: Sig.A.

Þurru fræinu er gott að koma fyrir í hreinu íláti sem gæti verið sultukrukka með loki, plastbox undan rjómaís eða eitthvað álíka. Mikilvægt er að merkja boxin vel. Hægt er að sá elrifræinu í apríl vorið eftir og mikilvægt að smita smáplönturnar með heppilegu gerlasmiti. Ágætt er að gera það þegar komin eru þrjú eða fjögur blöð á hverja plöntu. Oftast er betra að endurtaka smitunina til að tryggja góðan árangur.

Reklar á elri líta út eins og könglar. Þessi vetrarmynd sýnir opna köngla. Þá er væntanlega allt fræ farið úr þeim. Þannig er það ekki alltaf. Í þeim löndum þar sem barrfinku er að finna er sagt að hún treysti mjög á elrifræ yfir veturinn ef ekkert grenifræ er að hafa. Mynd: Sig.A.
Reklar á elri líta út eins og könglar. Þessi vetrarmynd sýnir opna köngla. Þá er væntanlega allt fræ farið úr þeim. Þannig er það ekki alltaf. Í þeim löndum þar sem barrfinku er að finna er sagt að hún treysti mjög á elrifræ yfir veturinn ef ekkert grenifræ er að hafa. Mynd: Sig.A.

Náttúrusaga

Talið er að birkiættin hafi orðið til við lok krítartímabilsins fyrir um 70 milljónum ára. Smám saman urðu svo til mismunandi ættkvíslir innan ættarinnar og nú eru þær taldar vera sex talsins en fimm ættkvíslir teljast útdauðar. Birkiættkvíslin er miklu eldri en elrið. Líklegt er að einhver grein hennar hafi þróast yfir í það sem við nú köllum elri.

Elstu menjar um elri í jarðlögum eru um 18 milljóna ára (Árni 2017). Það merkir að þær eru frá þeim hluta tertíer sem kallast míósen. Á þeim tíma var landbrú frá Ameríku til Evrópu. Náði hún frá hinu íslausa Grænlandi þess tíma, yfir Ísland og til Skotlands. Því áttu þessar fornu tegundir greiða leið milli heimsálfa.

Elsta berg á þurrlendi Íslands er talið vera á milli 15 og 16 milljóna ára gamalt og tilheyrir því sama jarðsögutímabili og elstu merki um elri. Það er aðeins eldra en elsta berg Íslands. Því er ekki að undra að það hafi vaxið hér á landi löngu fyrir ísöld. Í elstu jarðlögum Íslands, þar sem á annað borð er að finna leifar trjáplantna frá tertíer, er meðal annars að finna leifar elris. Til dæmis hafa verið greind frjókorn elris úr bæði Selárdals-Botns setlagasyrpunni, sem talin er um 15 milljóna ára gömul og Dufandals-Ketilseyrar setlagasyrpunni sem er um 13,5 milljóna ára (Friðgeir og félagar 2007). Elri hefur því að öllum líkindum verið með alfyrstu trjám sem uxu á því svæði sem við nú köllum Ísland.

Hvanngrænt, runnakennt sitkaelri á Hólasandi. Mynd: Sig.A.
Hvanngrænt, runnakennt sitkaelri á Hólasandi. Mynd: Sig.A.
Sama tegund vex mun betur á Gerðisklöpp í Naustaborgum sem er ekki langt frá Kjarnaskógi. Þarna er elrið farið að sá sér út. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.
Sama tegund vex mun betur á Gerðisklöpp í Naustaborgum sem er ekki langt frá Kjarnaskógi. Þarna er elrið farið að sá sér út. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.

Fyrir um þremur milljónum ára gekk ísöld í garð. Þá var runninn upp sá hluti tertíer sem kallast Plíósen. Ísöldin var ekki eitt samfellt kuldatímabil heldur skiptust á hlýskeið og jökulskeið. Steingervingar benda til að elrið hafi vaxið hér á landi á hlýskeiðum framan af ísöldinni. Við vitum ekki hvort elrið lifði hér af kuldaskeiðin þar til fyrir hálfi milljón ára eða hvort það gat borist hingað á hlýskeiðum þegar vegalengdin var styttri yfir Atlantshaf en síðar varð. Fyrir um 500.000 árum, þegar síðasta og kaldasta jökulskeiðið geisaði á Íslandi, hvarf elrið endanlega og komst ekki án aðstoðar til baka (Sigurður og Skúli Björn 1999).

Á meginlandi Evrópu breiddust elritegundir hratt út í lok ísaldar og færðust í norður á eftir ísröndinni. En þá voru Atlantsálar orðnir of breiðir og hingað gat fræið ekki borist af sjálfsdáðum. Engum vafa er undirorpið að ef það hefði getað borist hingað hefði elrið breiðst hratt út. Því er spurning hvort réttara sé að kalla gróðursetningu þess á Íslandi endurheimt ættkvíslar frekar en nýjan landnema. 

Þessi framvinda í kjölfar þess að jöklar hopa er enn í gangi og vegna hnattrænnar hamfarahlýnunar er ekkert útlit fyrir að hægi á þeirri þróun. Að auki getur elri breiðst hratt út í kjölfar alls konar rasks svo sem skógarelda, árrofs eða þar sem fallið hafa stórar aurskriður eða snjóflóð.

Algengt er að ung lauf á elritegundum hafi örlítið rauðan lit fram eftir sumri eins og hér má sjá. Þetta einkenni er meira áberandi á köldum vorum, nema hvað gráelri hefur gjarnan svona rauðleit lauf á vorin, burtséð frá hitastigi. Ný lauf gráelris geta verið með rauða tóna fram á mitt sumar. Þessar myndir voru teknar 8. júlí 2025. Myndir: Sig.A.


Þegar hlýskeið og kuldaskeið ísaldar skiptust á þurfti elrið ýmist að hörfa eða sækja fram eftir því hvernig landið lá. Það sama á við um margar aðrar tegundir, svo sem víði, Salix og birki, Betula. Talið er að á þessum tíma hafi orðið töluverð blöndun innan hverrar þessara ættkvísla fyrir sig. Við það urðu nýjar tegundir til en aðrar hurfu. Colin Tudge (2005) segir að núverandi erfðahópar elris beri þessu erfðaflæði skýr merki. Elri, sem áður myndaði sérstakar tegundir, hefur runnið saman í nýjar tegundir og mismunandi erfðahópar hafa einangrast í mislangan tíma. Einangrun er oft forsenda þess að nýjar tegundir verði til. Þetta hefur leitt til þess að mörkin milli tegunda eru enn mjög óglögg og nú er tilhneiging til að sameina tegundir og skilgreina ólíka erfðahópa sem undirtegundir. Á það meðal annars við um flestar þær tegundir sem ræktaðar eru hér á landi. Samkvæmt World Flora Online eru tegundirnar nú taldar vera 44 auk undirtegunda og blendinga. Fimm blendingstegundir hafa sérstakt fræðiheiti samkvæmt sömu heimild. Það sýnir glöggt að erfðaflæði er enn á milli tegunda og erfðahópa. Aðrar heimildir hafa ekki endilega sömu tölu þótt ekki muni miklu.

Guðmundur Gíslason í Sólskógum heldur á sáðbökkum af elri snemma vors. Í hægri hendinni heldur hann á gráelri, A. incana, sem hefur þessi dæmigerðu rauðu blöð eins og sjá má. Í vinstri hendinni er hann með bakka af elri sem gengur bæði undir nöfnunum svartelri og rauðelri á íslensku en A. glutinosa á fræðimálinu. Mynd: Sig.A.
Guðmundur Gíslason í Sólskógum heldur á sáðbökkum af elri snemma vors. Í hægri hendinni heldur hann á gráelri, A. incana, sem hefur þessi dæmigerðu rauðu blöð eins og sjá má. Í vinstri hendinni er hann með bakka af elri sem gengur bæði undir nöfnunum svartelri og rauðelri á íslensku en A. glutinosa á fræðimálinu. Mynd: Sig.A.

Sjöman og Anderson (2023) gera þetta erfðaflæði að umtalsefni í sinni bók. Þau segja að tegundirnar séu um það bil fjörutíu en margar þeirra geti þó myndað frjóa blendinga. Tegundir sem hafa stórt útbreiðslusvæði geti líka haft fjölbreytt útlit. Þess vegna sé erfitt að fullyrða um tegundafjöldann og vandasamt geti verið að greina tegundirnar í sundur. Undir þetta er tekið á vefnum Trees and Shrubs Online. Þar eru tegundirnar taldar vera 39. Inni í þeirri tölu eru þrjár blendingstegundir.

Tvö kort sem sýna útbreiðslu tveggja safntegunda sem áður voru greindar sem nokkrar tegundir. Báðar safntegundirnar eru ræktaðar á Íslandi og ganga undir nokkrum nöfnum hvor. Heimild: Wikipedia. Nánar um það í komandi pistlum. Rétt er þó að taka fram að samkvæmt World Flora Online eru villur í myndunum, en þær skipta ekki höfuðmáli.
Tvö kort sem sýna útbreiðslu tveggja safntegunda sem áður voru greindar sem nokkrar tegundir. Báðar safntegundirnar eru ræktaðar á Íslandi og ganga undir nokkrum nöfnum hvor. Heimild: Wikipedia. Nánar um það í komandi pistlum. Rétt er þó að taka fram að samkvæmt World Flora Online eru villur í myndunum, en þær skipta ekki höfuðmáli.

Notkun timburs

Áður fyrr var viður birkis og elris gjarnan nýttur á sama hátt sem eldiviður og til kolagerðar. Lengi vel þóttu kolin af elritegundum mjög heppileg til púðurgerðar. Því var elri gjarnan plantað nærri verksmiðjum sem framleiddu byssupúður (Wills 2018, Wells 2010). Síðan voru þau höggin niður og kom sér þá vel að þau uxu hratt upp frá rót. Því mátti höggva trén aftur og aftur til kolagerðar. Sagt er að heilu akrarnir af elri hafi verið ræktaðir í þessum tilgangi og trén verið höggvin á fimm til sex ára fresti (Wills 2018).

Svo verðum við að nefna að viður elris var gjarnan nýttur til fiðlusmíða. Það var að vísu bara ein elritegund, Alnus glutinosa, sem á íslensku er ýmist nefnd rauðelri eftir viðnum eða svartelri eftir dökku útliti. Hin síðari ár hefur færst í aukana að nota elritegundir markvisst í ýmsa fínsmíði og í innréttingar og húsgögn. Árni (2017) hefur líka bent á að frá árinu 1950 hefur gítarframleiðandinn Fender notað elrivið í rafgítarkassa. Þar á meðal er hinn frægi Fender Stratocaster. Þeir gítarbræður Örn og Jón Arnarsynir staðfestu þessa notkun í samtali við þann er þetta ritar.

Hefðin mælir svo fyrir að í gítarkassann á Fender Stratocaster eigi að nota við af ryðöl, Alnus rubra. Í einhverjum tilfellum er askur notaður. Fender-verksmiðjur í Japan nota stundum léttari við, en elrið er það sem sóst er eftir (Örn og Jón 2025).
Hefðin mælir svo fyrir að í gítarkassann á Fender Stratocaster eigi að nota við af ryðöl, Alnus rubra. Í einhverjum tilfellum er askur notaður. Fender-verksmiðjur í Japan nota stundum léttari við, en elrið er það sem sóst er eftir (Örn og Jón 2025).

Viður elris er ríkur af próteinum sem ýmsir viðarormar eru hrifnir af. Því er viður trjánna ekki talinn góður smíðaviður í húsbyggingar eða hluti sem geymdir eru úti undir beru lofti. Aftur á móti er viðurinn sérlega vatnsþolinn og rotnar ekki svo auðveldlega í vatni. Því er hann gjarnan nýttur í smíði sem er á kafi í vatni. Frægasta dæmið um slíka notkun er að finna undir húsum í Feneyjum. Sérstaklega á þetta við um A. glutinosa og líka A. cordata, sem ekki er ræktuð á Íslandi. Við segjum meira frá þessu í sérstökum pistli um fyrrnefndu tegundina sem er í smíðum. Svo hefur viður sumra elritrjáa verið nýttur í smíði tréklossa að sögn Wells (2010).

Elriplankar úr ræktun Jóns Guðmundssonar. Þeir eru hráefni í hvers kyns handverk Jóns. Mynd: Jón Guðmundsson.
Elriplankar úr ræktun Jóns Guðmundssonar. Þeir eru hráefni í hvers kyns handverk Jóns. Mynd: Jón Guðmundsson.

Viður elris er gjarnan nýttur í hluti til notkunar innan dyra enda eru híbýli oftast laus við trjámaðka. Viðurinn þykir góður í rennismíði, spón, panil, innréttingar og húsgögn. Hér á landi er óvíst að elri vaxi nægilega hratt og vel til að öll þessi notkun sé möguleg, því fúa fer oft að gæta í stofni trjánna um 60 ára aldur. Eftir það er ekki hægt að nýta viðinn á allan þennan hátt (Þorbergur Hjalti 2018). Aftur á móti er viðurinn elris eftirsóttur í rennismíði og til tálgunar og í þeim tilfellum má nota ung tré (Jón 2025). Ef ráðist verður í umfangsmiklar kvæma- og tegundatilraunir hér á landi þarf að hafa þetta í huga.


Undirstöður húsanna í Feneyjum eru að mestu gerðar úr stólpum elris. Þar má að vísu einnig finna fleiri viðartegundir en elri er mest áberandi. Myndina fengum við af þessum auglýsingavef.
Undirstöður húsanna í Feneyjum eru að mestu gerðar úr stólpum elris. Þar má að vísu einnig finna fleiri viðartegundir en elri er mest áberandi. Myndina fengum við af þessum auglýsingavef.

Þjóðsögur

Til eru ýmsar þjóðsögur í útlöndum sem tengjast elri. Mjög oft eru þær tengdar þessum rauða lit sem sést þegar margar tegundir eru sagaðar niður. Wells (2010) bendir á að varla þurfi að koma á óvart að tré sem blæðir rauðu blóði þegar það er höggvið niður skuli skipa veglegan sess í ímyndunarafli mannshugans. Þannig var því víða trúað í Evrópu að krossinn, sem Jesús frá Nasaret var negldur á fyrir rúmum 2.000 árum, hafi verið úr elri. Þess vegna blæðir enn úr sárunum á trénu. Að vísu er sá galli á þessari þjóðsögu að engin elritegund vex í Palestínu, en hver veit nema Rómverjarnir hafi flutt með sér efni í krossa og önnur pyntingartæki frá Evrópu á sínum tíma. Margar aðrar tegundir hafa verið nefndar í þessu sambandi af hinum fjölbreyttustu ástæðum. Fæst þeirra vaxa í Mið-Austurlöndum.

Þegar þessi ölur var sagaður í búta urðu sárin rauð. Þetta sést hjá mörgum tegundum ættkvíslarinnar. Myndir: Daðey Arnborg Sigþórsdóttir.


Annað atriði, segir Wells (2010), hefur líka orðið ímyndunaraflinu fóður í góðar sögur. Það er sú staðreynd að margar elritegundir geta vaxið þar sem fá önnur tré geta náð einhverjum þroska. Nú vitum við að það tengist fyrst og fremst niturnáminu á rótum trjánna en ekki göldrum eða yfirskilvitlegum verum. Nema það séu þær sem lifa á rótum trjánna og stjórni niturnáminu. Svo geta sumar tegundir vaxið í meiri bleytu en svo að manneskjum þyki það hentugir dvalarstaðir. Þar er vísast að finna nornir og smádjöfla, ef marka má sögur.

Þetta gráelri, Alnus incana, er í Hafnarfirði. Þar vex það ágætlega sem götutré eins og sjá má. Mynd: Steinar Björgvinsson.
Þetta gráelri, Alnus incana, er í Hafnarfirði. Þar vex það ágætlega sem götutré eins og sjá má. Mynd: Steinar Björgvinsson.

Má í þessu sambandi minna á ljóð eftir Goethe frá 1780 sem heitir Erlkönig eða Ölrakonungur. Það fjallar um barn sem ríður með föður sínum í gegnum mýrlendi og heyrir ölrakonunginn reyna að lokka sig til sín. Við segjum nánar frá þessu söguljóði í pistli um elritegund sem ýmist er nefnd rauðelri eða svartelri á íslensku en Alnus glutinosa á fræðimálinu.

Einnig eru til sögur af ægifagurri ungri konu sem sat um að tæla til sín unga menn í elriskóga en breyttist í gamla, illa norn ef það tókst. Átti það að minna á börk elritrjáa. Hann er sléttur, ljós og fagur á ungum trjám en getur orðið dökkur og hrukkóttur á gömlum trjám sumra tegunda (Wells 2010). Einkum á þetta við um A. glutinosa sem af þessum sökum er stundum nefnt svartelri. Þessi kona er í sumum heimildum sögð vera dóttir ölrakonungsins sem Goethe orti um.

Glæsilegur ölur af tegundinni Alnus glutinosa við eitt af fjölmörgum vötnum Skotlands. Þessi elritegund er eina villta tegundin á Bretlandseyjum og getur þrifist vel á Íslandi, en mikill kvæmamunur er á þrifum tegundarinnar. Mynd: Sig.A.
Glæsilegur ölur af tegundinni Alnus glutinosa við eitt af fjölmörgum vötnum Skotlands. Þessi elritegund er eina villta tegundin á Bretlandseyjum og getur þrifist vel á Íslandi, en mikill kvæmamunur er á þrifum tegundarinnar. Mynd: Sig.A.

Lækningamáttur

Ólíkir menningarheimar hafa haft það fyrir satt á mismunandi tímaskeiðum að viður, börkur eða lauf elritrjáa hafi lækningamátt. Sjálfur Linnæus hinn sænski sendi mann að nafni Peter Kalm til Norður-Ameríku árið 1747 í leit að jurtum sem nýta mætti til lækninga. Kalm skrifaði bók um ferðir sínar og þar segir hann frá sænskum innflytjanda þar vestra sem hafði lent í því óhappi að skera sig inn að beini. Sá hafði þvegið sárið með soði af elriberki og þá hafði sárið gróið (Wells 2010). Þetta er bara eitt dæmi af mörgum um meintan lækningamátt elris, en nútímalæknavísindi hafa ekki getað fært sönnur á þetta. Þó er líklegra að börkur og lauf elritrjáa dugi betur á hvers kyns kaun og skeinur en djúp sár inn að beini. Colin Tudge (2005) segir að hefðin segi að börk þessara trjáa megi nota gegn sýkingum í húð og til að lækna brunasár. Simon Wills (2018) segir að blöðin hafi verið notuð í sama tilgangi og einnig til að draga úr kláða. Þau voru áður soðin, að hans sögn, og seyðið drukkið til að draga úr eymslum í hálsi. Inkar í Suður-Ameríku eru sagðir hafa notað innri börk af elri til að græða sár og laga húðvandamál og frumbyggjar Norður-Ameríku notuðu ryðelri á sama hátt samkvæmt Clapp & Crowson (2022 og 2023).

Elri getur myndað stór og stæðileg tré eins og hér má sjá í Skotlandi. Þetta er ölur af tegundinni Alnus glutinosa. Ekki er eining um hvort kalla beri hann svartöl eða rauðöl. Mynd: Sig.A.
Elri getur myndað stór og stæðileg tré eins og hér má sjá í Skotlandi. Þetta er ölur af tegundinni Alnus glutinosa. Ekki er eining um hvort kalla beri hann svartöl eða rauðöl. Mynd: Sig.A.

Tilraunir

Litlar og fáar tilraunir hafa verið gerðar með elri á Íslandi, enda hefur það verið lítið ræktað hingað til. Árið 1985 var gerð nokkuð umfangsmikil söfnun á elri í Alaska og Kanada. Þeim efnivið var plantað í 26 kvæmatilraunir um allt land árið 1988. Í þessum tilraunum var plantað út 50 kvæmum af tegundum sem þá voru kallaðar blæelri, grænelri og sitkaelri. Þessar tilraunir sýndu að bæði vöxtur og þrif elris geta verið til fyrirmyndar á rýru landi. Nú eru liðin um 30 ár frá því að síðast voru gerðar skipulagðar úttektir á þessum tilraunum. Meðal þess sem þessar tilraunir sýndu var í hvaða landgerðir hentar best að planta elri. Í stuttu máli eru niðurstöðurnar þær að elri hentar mjög vel í mela og rýrt og illa gróið land en alls ekki í grasgefið og frjótt land (Halldór 2013).

Í Alaska getur sitkaelri vaxið í lélegum jarðvegi alveg niður að sjó eins og hér má sjá. Mynd: Tumi Traustason.
Í Alaska getur sitkaelri vaxið í lélegum jarðvegi alveg niður að sjó eins og hér má sjá. Mynd: Tumi Traustason.

Hingað hefur einnig borist efniviður frá Austur-Asíu. Árið 1989 barst hingað efniviður frá Magadan og árið 1993 frá Kamtsjatka. Þessum efnivið var plantað víða um land í tilraunareiti og þar á meðal voru ýmis kvæmi af hrísöl og hæruöl. Hvorug tegundin hefur reynst vel á Íslandi. Nú hafa þær báðar verið felldar undir aðrar tegundir samkvæmt sumum heimildum og því sleppum við fræðiheitunum þar til í næsta pistli.

Hæruelri að Hálsi í Eyjafjarðarsveit sem sprottið er upp af fræi frá Kamtsjatka. Það reynist þarna mun betur en hríselrið. Mynd: Helgi Þórsson í maí 2021.
Hæruelri að Hálsi í Eyjafjarðarsveit sem sprottið er upp af fræi frá Kamtsjatka. Það reynist þarna mun betur en hríselrið. Mynd: Helgi Þórsson í maí 2021.

Þörf er á frekari tilraunum og kynbótum á þeim efnivið sem til er í landinu til að auka árangurinn í ræktun og finna arfgerðir sem eru heppilegar í skógrækt á Íslandi (Halldór 2013).

Skoskur rauðölur eða svartölur, Alnus glutinosa, á Mógilsá. Mynd Halldór Sverrisson.
Skoskur rauðölur eða svartölur, Alnus glutinosa, á Mógilsá. Mynd Halldór Sverrisson.

Samantekt og næstu pistlar

Í þessum pistli höfum við sagt náttúrusögu elrisins og rætt um ættina sem plönturnar tilheyra ásamt ýmsu smálegu. Við höfum sagt frá notkun viðarins og sögnum sem tengjast tegundunum. Við enduðum svo umfjöllun okkar á því að minna á hversu fáar og litlar tilraunir hafa verið gerðar með elri á landinu. Þar er komið tilvalið verkefni fyrir nemendur í skógrækt og landgræðslu.

Í næsta pistli munum við segja lítillega frá helstu tegundum sem ræktaðar eru á landinu. Í framhaldi af því munum við segja nánar frá nokkrum tegundum í sérstökum pistlum. Af nægu er að taka.Að lokum viljum við þakka Pétri Halldórssyni fyrir vandaðan og þarfan yfirlestur og öllum þeim sem veittu okkur aðstoð á einn eða annan hátt.

Alnus cordata, sem kalla mætti hjartaelri ellegar ítalíuelri, ásamt fleiri trjám. Þarna vex þessi tegund ljómandi vel nálægt lítilli á við bæinn Glenfarg í Skotlandi. Mynd: Sig.A.
Alnus cordata, sem kalla mætti hjartaelri ellegar ítalíuelri, ásamt fleiri trjám. Þarna vex þessi tegund ljómandi vel nálægt lítilli á við bæinn Glenfarg í Skotlandi. Mynd: Sig.A.

Heimildir og frekari lestur


Árni Þórólfsson (2017): Elri-Ölur. Skógræktarritið 2017 2. tbl. bls. 10-25. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.


Árni Þórólfsson (2020): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla.


Tim Baxter & Hugh A. McAllister (2024): Alnus Mill. Af vefnum Trees and Shrubs Online. Sjá: Alnus - Trees and Shrubs Online. International Dendrology Society. Sótt 10. júlí 2025.


Casey Clapp & Alex Crowson (2022): Archaeondronology (Andean Alder). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni Completely Arbortrary frá ágúst 2022 Sjá: ARCHAEONDRONOLOGY (ANDEAN ALDER) — Completely Arbortrary.


Casey Clapp & Alex Crowson (2023): Mid Succession (Red Alder). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni Completely Arbortrary frá febrúar 2023 Sjá: MID SUCCESSION (RED ALDER) — Completely Arbortrary.


Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson og Thomas Denk (2007): Elstu flórur Íslands. Náttúrufræðingurinn, 75 (2-4): 85-106. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Náttúrufræðistofa Kópavogs.


Jón Guðmundsson (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla.


Steven S. Perakis & Julie C. Pett-Ridge (2019): Nitrogen-fixing red alder trees tap rock-derived nutrients. Birt á vefnum PNAS.org 25. febrúar 2019. Sjá: Nitrogen-fixing red alder trees tap rock-derived nutrients | PNAS.


Sigurður Blöndal og Skúli Björn Gunnarsson (1999): Íslandsskógar. Hundrað ára saga. Mál og mynd.


Henrik Sjöman & Arit Anderson (2023): The Essential Tree Selection Guide for climate resilience, carbon storage, species diversity and other ecosystem benefits. Filbert Press & Royal Botanic Gardens, Kew.


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.

 

Diana Wells (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Simon Wills (2018): A History of Trees. Pen & Sword White Owl. Barnsley, South Yorkshire, England.


Scott McG. Wilson, Bill Mason, Peter Savill & Richard Jinks (2018): Non-native alder species (Alnus spp.). review the record and future potential for British forestry of alder species introduced from Europe and North America. Birt í Species Profile hjá rfs.org.uk í júlí 2018. Sjá: Layout 1.


Þorbergur Hjalti Jónsson (2018): Vanmetið fenjatré. Rit Mógilsár nr. 36. Skógræktin. Sjá: Rit Mógilsár - Nr. 36 (2018) - Tímarit.is


Örn Arnarson og Jón Kristófer Arnarson (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í apríl 2025.

Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page