top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Birkismugur

Höfundar: Brynja Hrafnkelsdóttir Sigurður Arnarson


Frá aldaöðli hafa tvær tegundir af birkiættkvíslinni, Betula, vaxið á Íslandi. Það eru fjalldrapi, B. nana og ilmbjörk, B. pubescens. Að auki hafa aðrar tegundir ættkvíslarinnar verið reyndar hér og getað þrifist hér prýðilega. Má þar helst nefna steinbjörk, B. ermanii og hengibjörk, B. pendula. Þar fyrir utan hafa ýmsar elritegundir, Alnus spp., verið ræktaðar hér en sú ættkvísl er talin töluvert skyld birki.  

Af þessum tegundum er ilmbjörkin mest ræktuð. Reyndar er hún mest ræktaða trjátegund landsins og sú eina sem myndaði hér samfellda skóga við landnám. Nú lætur nærri að af öllu skóg- og kjarrlendi landsins séu þrír hlutar af hverjum fjórum vaxnir birki. Sumt af því hefur áberandi mikið af erfðaefni fjalldrapa í genamengi sínu. 

Þegar tekið er tillit til þess hversu lengi birkið hefur verið á Íslandi og hversu mikið er ræktað af því er ekki að undra að ýmsir hópar skordýra hafi komist upp á lag með að nærast á því. Við höfum nú þegar birt sérstaka yfirlitsgrein um þessa skaðvalda en nú skoðum við nýjustu viðbótina í þessari fánu. 

Birkiþéla er ein af þremur tegundum sem smeygja sér inn í laufblöð á birki á Íslandi. Þess vegna köllum við þessar tegundir birkismugur. Hér er birkiþélan efst inni í birkilaufi. Inni í laufinu má sjá úrganginn sem hjá henni er alltaf kúlulaga eða eins og sandur. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.
Birkiþéla er ein af þremur tegundum sem smeygja sér inn í laufblöð á birki á Íslandi. Þess vegna köllum við þessar tegundir birkismugur. Hér er birkiþélan efst inni í birkilaufi. Inni í laufinu má sjá úrganginn sem hjá henni er alltaf kúlulaga eða eins og sandur. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.

Sérstaða íslensks birkis

Íslenska birkið er í ýmsu frábrugðið því birki sem vex í nágrannalöndum okkar. Fyrir það fyrsta er að sjá sem erfðaflæði milli birkis og fjalldrapa hafi verið hér heldur meira en í nágrannalöndunum. Er það sjálfsagt liður í aðlögun að sauðfjárbeit og annarri ósjálfbærri nýtingu í ellefu aldir.  

Ýmsar trjátegundir geta framleitt ýmis varnarefni til að verjast afræningjum. Slík framleiðsla kostar orku. Ef afræningjar eru ekki til staðar þjónar ekki nokkrum tilgangi fyrir trén að framleiða þau. Náttúruvalið sér þá um að sortera þau frá. Þess vegna var íslenska birkið sérlega illa varið fyrir beit spendýra þegar þau bárust hingað, en fjalldrapinn er minna étinn. Ef til vill stafar það af því að hann er svo lágvaxinn að fuglar á jörðu niðri geta étið hann. Því var meiri akkur í því fyrir fjalldrapa en birki að vera bragðvondur. Þetta kann að vera ein ástæða þess að þegar grasbítar úr hópi spendýra voru fluttir inn gaf náttúruvalið blendingum þessara tegunda betri tækifæri en víða í kringum okkur. Þeir gátu svo bakvíxlast við venjulegt birki. Þannig hefur erfðaefni fjalldrapa borist inn í erfðamengi birkisins.

Skemmdir eftir birkiþélu sumarið 2021. Þarna hefur nánast tekið fyrir alla ljóstillífun. Birkitré þola varla svona ástand mörg ár í röð. Mynd: Sig.A.
Skemmdir eftir birkiþélu sumarið 2021. Þarna hefur nánast tekið fyrir alla ljóstillífun. Birkitré þola varla svona ástand mörg ár í röð. Mynd: Sig.A.

Þegar þessir nýju skaðvaldar, sem þessi grein fjallar um, bárust til landsins voru hér engir náttúrulegir óvinir sem gátu slegið á stofninn og litlar líkur á að birkið framleiddi einhver varnarefni. Aftur á móti virðast allar þessar tegundir sækja mikið frekar í birkið en fjalldrapann. Hann virðist vera ólystugri í munni þessara lirfa. Svo getur verið að lauf fjalldrapans séu einfaldlega of lítil til að lirfurnar geti náð réttu þroskastigi með því að nærast á því.

Komið hefur í ljós að birkið er misjafnlega næmt fyrir þessum pöddum. Vel kann að vera að það stafi af mismiklu erfðaefni frá fjalldrapa. Því virðist það vera svo að birki sem hefur minna erfðaefni frá fjalldrapa, eða er jafnvel alveg laust við það, verður frekar fyrir skemmdum en blendingarnir. Hreint birki þekkist meðal annars á því að lauf þess eru að jafnaði stærri en hjá þeim trjám sem hafa meira af erfðaefni fjalldrapa í genamengi sínu. Hreint birki vex þar að auki hraðar og meira. Þetta leiðir til þess að það eru fyrst og fremst flottustu trén sem verða fyrir skaða enda hafa þau að jafnaði minna erfðaefni frá fjalldrapa. Þess finnast dæmi að birkismugur hafi drepið birkitré með samstilltum og endurteknum árásum. Þegar það gerist eru það fyrst og fremst kynbætt og glæsileg birkitré með stór laufblöð og ljósan stofn sem falla.

Skemmdir eftir birkiþélu á Akureyri sumarið 2024. Mynd: Sig.A.
Skemmdir eftir birkiþélu á Akureyri sumarið 2024. Mynd: Sig.A.

Nýir skaðvaldar

Nýjasta viðbótin í hópi skaðvalda birkis eru tegundir sem þróast hafa þannig að þær lifa inni í sjálfum laufunum og halda sig á milli efra og neðra borðs þeirra. Þess vegna stingum við upp á að kalla þær birkismugur. Komið hefur í ljós að nú hafa þrjár tegundir birkismuga numið hér land sem haga sér svona en fyrir árið 2005 var íslenska birkið laust við slíka óværu. Ein þeirra er fiðrildategund, en hinar tvær eru blaðvespur. Frá sjónarhóli skaðvaldanna getur það verið heilmikill kostur að lifa inni í laufblöðum. Þar geta þeir athafnað sig í rólegheitunum þar sem þeir eru tiltölulega vel varðir fyrir afræningjum eins og fuglum. Fiðrildalirfan er mest áberandi snemma á vorin þegar birkið er að hefja vöxt en blaðvespulirfurnar taka svo við. Þetta eykur verulega á tjónið sem þær valda því samanlagður lífsferill þessara lirfa inni í laufum birkitrjáa spannar nánast allan vaxtartíma birkisins.  

Þegar lirfurnar éta laufin innan frá verða ystu lög blaðsins eftir og hanga á birkinu eins og brúnir pokar. Það segir sig sjálft að brún laufblöð eru án blaðgrænu og því ljóstillífa þau ekki. Hvaða áhrif getur það haft á birki ef það verður svipt stórum hluta laufa sinna ár eftir ár? Hversu lengi geta slík birkitré lifað af? 

Hér á eftir segjum við frá þessum þremur tegundum af birkismugum en einnig frá einni lirfu í viðbót sem gæti reynst bjargvætturinn í þessari sögu. 

Tvær myndir eftir Björn Hjaltason af birkikembu. Fyrri myndin sýnir lirfu en hin sýnir fullvaxið fiðrildi. Það er mikill pönkari eins og sjá má á höfuðkambinum sem gefur því nafn.


Birkikemba, Heringocrania unimaculella

Á fyrsta áratug þessarar aldar, nánar tiltekið árið 2005, fannst í fyrsta skipti á Íslandi kvikindi sem kallað hefur verið birkikemba. Nafnið vísar til höfuðbúnaðar á fullorðnum fiðrildum. Fyrst fannst tegundin í Hveragerði. Birkikemba er fiðrildi sem skríður úr púpu sinni í apríl og verpir eggjum sínum í eða við brum ilmbjarka þegar þau eru að springa út eða í fyrstu laufblöðin sem birtast. Eggin klekjast út um leið og birkið hefur vöxt. Lirfurnar smjúga þá inn í nýútsprungin laufblöðin og halda sig á milli efra og neðra borðs laufblaðanna. Þar nærast þær á blaðholdinu þannig að eftir verða brúnleitir, gagnsæir pokar. Upp úr miðjum júní verður lirfan fullvaxta, skríður ofan í jörðu og púpar sig. Þá er allur sumarvöxturinn eftir og hann hylur skemmdirnar á laufinu nema eitthvað annað hendi (Sigurður 2021). Lirfan skilur eftir sig saur á milli laga og er hann þráðlaga. Má nota það til að greina tegundina en að auki kemur tímasetningin upp um hana. Það hefur vakið athygli að kemban sækir ekki jafnt í öll tré. Hvað það er sem veldur því er ekki fyllilega sannað en eftir því sem trén laufgast fyrr, þeim mun líklegri eru þau til að verða fyrir skemmdum. Einnig virðist skyldleiki við fjalldrapa skipta máli eins og við nefndum hér að ofan. Skemmdirnar virðast vera í öfugu hlutfalli við magn erfðaefnis frá fjalldrapa. Þegar þessi tegund uppgötvaðist fyrst gekk hún ýmist undir nafninu birkikemba eða birkismuga. Fyrra heitið varð ofaná. Þar sem seinna heitið er ekki lengur í notkun yfir þessa tegund er það á lausu, ef svo má segja. Þess vegna mælum við með því að endurnýta orðið og nota heitið birkismugur sem samheiti yfir þær tegundir sem hafa þennan lífsstíl. Er það gert í þessari grein.

Á þessu korti má sjá þekkta útbreiðslu birkikembu á Íslandi árið 2023. Starfsmenn Lands og skógar fara annað hvert ár um landið til að meta skemmdir svo nýtt kort mun væntanlega birtast í sumar. Eins og sjá má er kemban komin víða og er hún orðin mjög algeng í Eyjafirði og á suðvesturhorni landsins. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.
Á þessu korti má sjá þekkta útbreiðslu birkikembu á Íslandi árið 2023. Starfsmenn Lands og skógar fara annað hvert ár um landið til að meta skemmdir svo nýtt kort mun væntanlega birtast í sumar. Eins og sjá má er kemban komin víða og er hún orðin mjög algeng í Eyjafirði og á suðvesturhorni landsins. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.
Nærmynd af skemmdu birkilaufi eftir birkikembu. Sjá má að saurinn er þráðlaga. Mynd: Björn Hjaltason.
Nærmynd af skemmdu birkilaufi eftir birkikembu. Sjá má að saurinn er þráðlaga. Mynd: Björn Hjaltason.

Birkiþéla, Scolioneura betuleti

Nokkrum árum eftir að birkikemban fannst fyrst fór fólk að taka eftir því að sambærilegar skemmdir á laufblöðunum héldu áfram að birtast fram eftir sumri. Slíkar skemmdir sáust ekki bara á birki heldur einnig á öðrum tegundum af birkiættinni sem og sitkaelri sem er náskylt birkinu. Þetta kom fólki mjög á óvart enda lífsferill kembunnar vel þekktur frá útlöndum og svona hagar hún sér ekki. Uppi voru getgátur um að ef til vill yrðu til tvær kynslóðir af birkikembu á hverju sumri hér á landi og hér væri því um aðra kynslóð birkikembu að ræða. Það þótti þó ólíklegt því ekki fundust fiðrildi tegundarinnar á miðju sumri og skemmdirnar sáust ekki eingöngu á ilmbjörkinni eins og tilfellið á að vera með birkikembuna.  

Birkiþélan lætur sér ekki íslensku ilmbjörkina duga. Þessar myndir, sem teknar voru í júlí 2016, sýna skemmdir eftir birkiþélu í hengibirki á Akureyri. Myndir: Sig.A.


Við nánari skoðun kom í ljós að þetta var öldungis óskyld tegund. Þetta var ekki fiðrildalirfa heldur lirfa blaðvespu. Hlaut hún nafnið birkiþéla. Birkiþélan verpir eggjum sínum í laufblöð birkisins og inni í þeim þroskast lirfan. Staðfesting á komu birkiþélunnar til Íslands varð ekki fyrr en 2016 en að líkindum var hún komin töluvert fyrr. Sést það meðal annars á því hversu víða hún fannst sama ár og hún var greind í fyrsta skipti. Það vekur athygli að þótt allt bendi til að birkiþélan hafi verið hér í skemmri tíma en birkikemban, þá er hún komin víðar um landið. Hún hefur nánast lagt undir sig allt láglendið þar sem birki er á annað borð að finna. Að auki virðast skemmdir af hennar völdum vera meiri en kembunnar, en verstar verða þær þar sem kemban og þélan leggjast á sömu einstaklingana.  

Á þessu korti má sjá þekkta útbreiðslu birkiþélu á Íslandi árið 2023. Starfsmenn Lands og skógar fara annað hvert ár um landið til að meta skemmdir svo nýtt kort mun væntanlega birtast í sumar. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.
Á þessu korti má sjá þekkta útbreiðslu birkiþélu á Íslandi árið 2023. Starfsmenn Lands og skógar fara annað hvert ár um landið til að meta skemmdir svo nýtt kort mun væntanlega birtast í sumar. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.

Skemmdir eftir birkiþélu í Eyjafirði þann 11. september 2021. Mynd: Sig.A.



Eins og sjá má er birkiþélan ekki fiðrildi, heldur blaðvespa. Fyrri myndin sýnir par að maka sig en sú seinni sýnir lirfu. Myndir: Björn Hjaltason.


Ný tegund: Blaðþéla, Fenusella nana

Árið 2022 sendi annar höfundur þessarar greinar, Brynja Hrafnkelsdóttir, lirfur til raðgreiningar. Taldi hún víst að þær væru lirfur birkiþélu. Þá kom í ljós að ein af þessum lirfum var ný tegund á Íslandi, Fenusella nana. Þetta skordýr er líka blaðvespa eins og birkiþélan en hún hefur ekki hlotið viðurkennt, íslenskt nafn en hér stingum við uppá nafninu blaðþéla. Orðið vísar í það að tegundin er inni í blöðum birkisins og hún hefur svipaðan lífsferil og hin skylda birkiþéla. Því er ágætt að kalla einnig þessa tegund þélu. Þessar tvær blaðvespur, birkiþéla og blaðþéla, eru vandgreindar hvor frá annarri og skemmdir þeirra eru svipaðar, en þó ekki alveg eins. 

Þótt vespan hafi fyrst verið greind árið 2022 vitum við ekki hvort hún hefur verið hér lengur. Hún gæti vel hafa verið ranglega greind sem birkiþéla. Blaðþéla hefur aðeins verið greind á einum stað þrátt fyrir að leitað hefur verið að henni víðar. Þó má vera að hún feli sig einhvers staðar á milli skemmda eftir birkiþélu þar sem munurinn er ekki greinilegur.  

Birkiblað sem skemmt er af blaðþélu. Saurinn hangir saman eins og perlur á bandi. Það er ágætis greiningaratriði. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.
Birkiblað sem skemmt er af blaðþélu. Saurinn hangir saman eins og perlur á bandi. Það er ágætis greiningaratriði. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.

Samanburður

Allar þessar tegundir eiga sér nokkuð svipaðan lífsferil og lifa í sömu vist. Lirfur þeirra allra lifa innan í laufblöðunum og éta blaðholdið innan frá í skjóli frá flestum afræningjum. Að auki eru þær allar fremur nýir landnemar á Íslandi og því óvíst að lesendur geri mikinn greinarmun á þeim. Því þykir okkur rétt að hafa sérstakan kafla þar sem við berum þær saman.

Birkikemba er fiðrildalirfa sem étur birkilauf snemma vors en birkþélan og blaðþélan koma seinna og éta blöðin fram á haust. Það má því segja að þær komi í stafrófsröð. Þegar þessar tegundir leggjast á sömu birkitrén verður harla lítill tími eftir handa trjánum til að ljóstillífa.  

Saur allra tegundanna má sjá inni í laufblöðunum. Saurinn hjá kembunni er þráðlaga en en hjá þélunni er hann kúlulaga og líkist sandi. Það væri auðvitað betra að muna þetta ef það væri á hinn veginn. Þá stuðlaði þetta sem auðveldar minninu að geyma upplýsingarnar. En því miður eru þessir skaðvaldar ekkert sérstaklega ljóðrænir. Saur kembunnar er ekki kúlulaga og saur þélunnar er ekki þráðlaga. 

Saur blaðþélunnar er einskonar blanda af hinum tveimur. Kúlurnar hanga saman líkt og á perlufesti. Hann líkist þó saur birkikembunnar meira en hann líkist saur birkiþélunnar. Þetta má sjá hé að neðan.

Í þessari töflu má sjá helsta mun á saur, ytri skemmdum, tímasetningu lirfustigs og fæðuplöntu þessara þriggja tegunda. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.
Í þessari töflu má sjá helsta mun á saur, ytri skemmdum, tímasetningu lirfustigs og fæðuplöntu þessara þriggja tegunda. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.

Ytra útlit skemmda á laufblöðum eftir þessar tegundir er nokkuð líkt og erfitt að sjá muninn. Best er að greina á milli skemmda af völdum birkikembu og birkiþélu ef að lirfa finnst í laufblaðinu. Ef hún er í laufblaðinu fyrripart sumars er það birkikemba en ef að hún finnst seinnipart sumars er það birkiþéla eða blaðþéla. Ytra útlit skemmda eftir blaðþélu, F. nana, er líkt skemmdum hinna tegundana en er ólíkt að því leyti að þar sem lirfan byrjar að éta innan úr laufblaðinu myndast lítill þríhyrningur. Stundum er hann þó ekki greinilegur og hverfur þegar lirfan étur meira þannig að það er ekki alltaf hægt að nota þetta til greiningar.


Gleðifréttir 

Í grein Sigurðar Arnarsonar frá 2021 um birkiþélu og birkikembu sem sjá má hérsagði hann frá því að hér á landi virtist vanta náttúrulega óvini þessara kvikinda sem lifa inni í birkilaufum og við köllum nú birkismugur. Því er skaðinn á birki hérlendis miklu meiri af völdum þessara þriggja tegunda en erlendis þar sem þær þrífast. Svo var það að annar höfundur þessarar greinar, Brynja Hrafnkelsdóttir, var að kanna skemmdir á laufum birkis haustið 2023. Þá tók hún eftir að skaðinn á laufunum var öðruvísi en áður. Þetta má sjá á mynd sem hér fylgir.


Samkvæmt athugunum Brynju Hrafnkelsdóttur lítur út fyrir að haustið 2023 hafi skemmdir á laufi verið minni en áður á sumum svæðum. Það leit út fyrir að lirfurnar hafi byrjað að éta laufin en svo hætt í miðjum klíðum. Þar með var meiri laufgræna eftir í laufunum sem tréð gat nýtt til ljóstillífunar. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir. 
Samkvæmt athugunum Brynju Hrafnkelsdóttur lítur út fyrir að haustið 2023 hafi skemmdir á laufi verið minni en áður á sumum svæðum. Það leit út fyrir að lirfurnar hafi byrjað að éta laufin en svo hætt í miðjum klíðum. Þar með var meiri laufgræna eftir í laufunum sem tréð gat nýtt til ljóstillífunar. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir. 

Sama haust fann Brynja í fyrsta skipti lirfu sem var að éta lirfu birkiþélunnar. Þannig tókst Brynju að staðfesta að til landsins er kominn náttúrulegur óvinnur þélunnar. Við frekari leit fann Brynja fullt af púpum og út úr þeim komu ljómandi laglegar sníkjuvespur. Ekki hefur vespan verið greind endanlega til tegundar en líklegast er talið að hún tilheyri ættkvíslinni Pnigalio. Tegundir innan þessarar ættkvíslar eru einmitt þekktar fyrir að sérhæfa sig í að lifa á lirfum skordýra sem hafast við inni í laufum. 

Lirfa sníkjuvespu gæðir sér á lirfu birkiþélu. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.
Lirfa sníkjuvespu gæðir sér á lirfu birkiþélu. Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir.

Þetta verða að teljast ákaflega góðar fréttir. Ef allt fer vel getur þessi nýja tegund lagt birkinu lið í þessari baráttu og slegið það mikið á stofn birkiþélunnar að skaðinn verði hverfandi eftir birkiþéluna, rétt eins og við þekkjum í nágrannalöndum okkar. Það er þó alveg óvíst. Sumir telja ráð að flytja inn fleiri tegundir af sníkjuvespum sem geta nýtt sér þessa fæðuauðlind en sú opinbera stofnun sem hefur með málið að gera, Land og skógur, hefur ekki mótað sér stefnu um hvort slíkt verði reynt. Ef fleiri afræningjar berast til landsins, eða þá að þessi gerist nægilega öflugur, þá leysist þetta af sjálfu sér. 

Árið 2023 fundust þessar sníkjuvespur allt frá Selfossi og upp í Hvalfjörð, en flestir voru fundarstaðirnir á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Ári síðar fannst tegundin á Grund í Eyjafirði. Þar var að verki Helga Ösp Jónsdóttir, starfsmaður Lands og skógar á Norðurlandi og stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Eyfirðinga.

Birkikembur huga að næstu kynslóð í Kiðafelli í Kjós þann 25. apríl 2024. Mynd: Björn Hjaltason.
Birkikembur huga að næstu kynslóð í Kiðafelli í Kjós þann 25. apríl 2024. Mynd: Björn Hjaltason.

Að lokum viljum við þakka Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir vandaðan yfirlestur prófarkar og Birni Hjaltasyni fyrir lán á myndum. Fáir Íslendingar taka jafn glæsilegar myndir af skordýrum. Án þeirra mynda hefði þessi pistill ekki orðið svipur hjá sjón.


Heimildir:

Brynja Hrafnkelsdóttir (2025): Meindýrin og birkið – Innlendar og erlendar skordýrategundir sem lifa á birki á Íslandi. Fyrirlestur fluttur á Hrafnaþingi þann 29. janúar 2025. Sjá: Hrafnaþing Meindýrin og birkið – Innlendar og erlendar skordýrategundir sem lifa á birki á Íslandi.

 

Sigurður Arnarson (2021): Birkiþéla og hengibjörk. Pistill á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga frá 1. september 2021. Sjá: Birkiþéla og hengibjörk.





Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page