Skaðvaldar á birki
- Sigurður Arnarson
- Jun 25
- 22 min read
Birki er algengasta trjátegundin á Íslandi. Að auki er það eina tréð sem talið er að hafi myndað stóra, samfellda skóga við landnám. Talið er að um 25 - 40% landsins hafi þá verið þakið skógi. Mismunurinn liggur í þeim forsendum sem notaðar eru til að meta forna og horfna skóga og hvar þeir gætu hafa vaxið. Nú þekja birkiskógar og -kjarr aðeins um 1,5% landsins en skógar í heild um 2%. Ekki nóg með það. Það lætur nærri að um 2 af hverjum 5 trjáplöntum sem plantað er á Íslandi séu birki og hvarvetna, þar sem land er friðað fyrir beit, sprettur upp birki. Einkum ef stutt er í frætré. Þetta veldur því að eðlilegt verður að teljast að við veltum fyrir okkur birkiskógum.

Í þessum pistli skoðum við skaðvalda úr hópi hryggleysingja sem herja á birki. Fyrst og fremst skoðum við skordýr. Við sleppum hryggdýrum og sveppum í þetta skiptið því einhvers staðar verðum við að draga mörkin og láta staðar numið. Fyrst segjum við frá fórnarlömbunum og síðan almennt frá skordýrum á birki. Síðan fjöllum við um helstu hópa hryggleysingja sem herja á birki og fjöllum aðeins um tengsl hitastigs og skaðsemi skordýrabeitar. Að endingu höfum við lítinn kafla um náttúrulega óvini skaðvaldanna.
Birki á Íslandi getur verið mjög fjölbreytt og sumt af því hentar betur til skordýrabeitar en annað. Báðar myndirnar sýna plöntur sem sjálfar hafa sáð sér út. Fyrri myndin sýnir rauða, gula og græna haustliti í Krossanesborgum. Sú seinni sýnir birki í Grýtubakkahreppi sem neitar að vaxa upp á við. Myndir: Sig.A.
Birki á Íslandi
Áður en við komum að skaðvöldunum sjálfum skulum við aðeins skoða fórnarlömbin. Nú er talið að á Íslandi vaxa tvær villtar tegundir af birkiættkvíslinni, Betula spp. Önnur þeirra er birki eða ilmbjörk, Betula pubescens, en hin er fjalldrapi, B. nana. Komið hefur í ljós að töluvert erfðaflæði er á milli þessara tegunda á Íslandi.
Innan birkiættkvíslarinnar eru fleiri tegundir sem finna má í ræktun á Íslandi. Þar á meðal eru hengibjörk, B. pendula (syn. B. verrucosa) og steinbjörk, B. ermanii. Aðrar innfluttar tegundir ættkvíslarinnar eru fágætar.
Birkiættkvíslin er af bjarkarætt, Betulaceae. Innan þeirrar ættar eru líka elritegundir, Alnus spp., sem eru töluvert ræktaðar á landinu og einnig hesli, Corylus spp. og fleiri tegundir sem eru nánast ekkert ræktaðar hér á landi. Sumir skaðvaldar á birki geta herjað á aðrar ættkvíslir ættarinnar eða jafnvel óskyldar tegundir. Má nefna sem dæmi að bæði haustfeti og tígulvefari sækja á margar tegundir með góðum árangri. Fleiri skordýr geta einnig gert þetta en sennilega eru þessar tvær þekktastar. Aðrir skaðvaldar eru aftur á móti mjög sérhæfðir. Jafnvel svo mjög að þeir leggjast bara á tilteknar tegundir en ekki á aðrar náskyldar tegundir af sömu ættkvísl. Svo eru til tegundir sem geta valdið tjóni á ungum og nýgróðursettum plöntum meðan eldri og hraustari plöntur standast slíka ásókn með mestu ágætum. Það er einnig þekkt að tré, sem eiga undir högg að sækja af einhverjum ástæðum, standast verr ásókn meindýra en hraust og heilbrigð tré. Svo eru til skordýr sem sækja frekar í tré í góðum vexti en tré sem vaxa verr.

Eftir að ísöld lauk þróaðist birki í nokkur þúsund ár án stórra beitardýra og aðeins fárra tegunda hryggleysingja sem lögðust á það. Það hafði heilmikil áhrif á þróun hins íslenska birkis. Það er kostnaðarsamt fyrir plöntur að framleiða varnarefni gegn beitardýrum. Ef þær þurfa ekki á því að halda er eðlilegra að nota orkuna í annað. Náttúruvalið hefur svo séð til þess að velja þær plöntur úr sem eru best aðlagaðar hverju sinni. Því hefur verið sterkur þrýstingur, eftir að ísöld lauk, til að hætta framleiðslu sérhæfðra varnarefna. Þessi þróun leiddi til þess að birki er illa aðlagað beit. Það telst beinlínis lostætt í munni margra jurtaæta. Á það jafnt við um hryggleysingja og hryggdýr. Því þoldi birki illa þegar landnámsmenn fluttu með sér beitardýr og það sama á við þegar nýir skaðvaldar úr heimi hryggleysingja hafa numið hér land. Þetta, ásamt skorti á náttúrulegum óvinum, getur leitt til meiri skaða á íslensku birki en við sjáum á birki í útlöndum þar sem sömu skaðvalda er að finna.

Kynbætur og skaðvaldar
Í nokkur ár hafa áhugamenn reynt að kynbæta íslenskt birki. Þessar kynbætur hafa gjarnan miðað að því að fá upp fljótsprottin og beinvaxin tré með hvíta stofna. Hefur þetta tekist með mestu ágætum og á Þorsteinn Tómasson án efa mestan þátt í því. Það eru þá tré sem hafa minna erfðaefni frá fjalldrapa en kræklurnar sem víða er að finna eins og sést á myndinni hér að ofan. Einnig laufgast sumt af þessu birki fyrr en kræklurnar og nýtir því sumarið betur til vaxtar. Sá böggull fylgir skammrifi að tré sem laufgast snemma eru líklegri til að verða fyrir árás skordýra og eftir því sem minna er af erfðaefni fjalldrapa, þeim mun lostætari eru trén. Því miður leiðir þetta til þess að bestu birkiplönturnar verða frekar fyrir skemmdum af völdum skordýra en kræklubirkið. Ef til vill mætti huga að því að reyna að kynbæta birki þannig að það hafi meiri mótstöðu gegn skordýrabeit, en slík verkefni eru ekki í gangi.

Fjöldi meindýrategunda
Á Íslandi er vitað um rúmlega 80 pöddutegundir sem lifað geta á trjám og runnum. Þar af eru 32 tegundir sem nærast á birki en aðeins sumar þeirra geta valdið birkinu umtalsverðu tjóni (Brynja 2025). Í því sambandi er rétt að minna á að ef ekkert kvikt lifir á trjánum er erfitt að telja þau hluta af vistkerfinu. Þótt flestir skaðvaldar á birki valdi sjaldan miklu tjóni getur langvarandi skordýrabeit dregið úr vexti eða fræframleiðslu og veikt trén fyrir öðrum skaðvöldum. Svo geta samþættar og endurteknar árásir skordýra skaðað birkið töluvert, jafnvel þótt hver skaðvaldur fyrir sig valdi ekki miklu tjóni.

Af þessum 32 tegundum eru 21 tegund sem vitað er að voru hér fyrir aldamótin 1900 og vaninn er að segja að þær séu íslenskar, án þess að það ártal sé heilagt viðmið sem meitlað er í stein. Þetta eru tegundir eins og nokkrar ranabjöllur, ýmsar fiðrildalirfur eins og fetar og vefarar en einnig lúsategundir og fleira. Á öldinni sem leið og fram á þessa öld hafa bæst við 11 tegundir sem herja á birki og venjan er að segja að þær séu erlendar tegundir sem hér hafa numið land. Það er samt ekki þannig að fullur einhugur sé um hvenær telja beri tegundir íslenskar, svo því sé haldið til haga (Brynja 2025). Við ætlum okkur ekki að telja upp allar þessar tegundir og þeim mun síður að lýsa þeim öllum. Í þessum pistli skoðum við aðeins helstu skaðvalda á birki á Íslandi og tökum örfá dæmi af öðrum.

Nýjar tegundir
Eftir 1900 tóku að berast hingað ýmsir skaðvaldar. Framan af öldinni sem leið gerðist það hægt en með meiri samgöngum við útlönd og auknum hlýindum hin síðari ár hefur orðið mikill vöxtur í komu nýrra skaðvalda á trjám á Íslandi. Á hlýskeiðum er miklu líklegra að nýir skaðvaldar nemi hér land en þegar tíðin er kaldari. Sumar þessara nýju tegunda eru sérhæfðir birkineytendur en aðrar eru ekki eins matvandar. Rétt er að nefna að á myndinni hér að neðan eru nokkrar tegundir sem valda fullorðnum trjám ekki tiltakanlegum skaða en geta skemmt ungar og nýgróðursettar plöntur. Aðrar eru miklir skaðvaldar.

Hvar og hvernig nema skordýr land?
Langflestar nýjar tegundir meindýra í skógum landsmanna finnast fyrst á Suðvesturhorni landsins. Líklegar skýringar á því eru af tvennum toga. Í fyrsta lagi eru flest þau sem skoða þessi skordýr með starfsaðstöðu á þessu svæði, enda búa þar flestir. Það getur skipt máli, en hin ástæðan er veigameiri. Hún er sú að stærstur hluti þess varnings sem fluttur er til landsins kemur fyrst til hafna á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Því verður að teljast líklegt að það sé helsta innflutningsleið padda til landsins. Ef þessi dýr bærust hingað fyrst og fremst með vindum ættu þau að koma fyrst að landi á Suðaustur- og Suðurlandi, rétt eins og farfuglarnir. Þannig er það sjaldan. Því er óhætt að fullyrða að helsta innflutningsleið skaðvalda á birki sé með hverskyns innflutningi í gegnum hafnir landsins.
Næringarnám skordýra
Mismunandi hópar skordýra nærast á ólíkan hátt en í grófum dráttum má segja að plöntuétandi skordýr skiptist í tvo meginhópa eftir næringarnámi. Annar hópurinn bítur og nagar laufblöð, rætur eða aðra plöntuhluta á meðan hinn hópurinn sýgur til sín næringu úr sáldæðum eða frumum trjáa og gróðurs. Sem dæmi um fyrri hópinn má nefna lirfur ranabjallna sem éta rætur trjáplantna og lirfur sumra fiðrilda sem éta lauf trjáa. Þær köllum við gjarnan maðka. Í seinni hópnum eru blaðlýs áberandi.

Tjón af völdum skordýrabeitar
Skaðinn sem skordýr valda fer meðal annars eftir því hvernig þau næra sig og getur verið allt frá því að vera hverfandi yfir í það að vera svo mikill að plönturnar drepist. Sem betur fer er það ekki algengt en það getur gerst. Einkum ef aðrir þættir leggjast á sömu sveif eða átveisla skordýranna er viðvarandi í langan tíma. Annars má telja það galla, út frá sjónarhóli afræningjanna, ef fórnarlambið drepst. Þá tekur fyrir frekara fæðunám meindýranna. Algengast er að lirfur skordýra nærist á trjánum en drepi þau ekki. Slík beit getur vissulega haft áhrif á vöxtinn og getur veikt viðnámsþrótt trjánna fyrir öðrum áföllum svo sem skaða af völdum veðurs, sjúkdóma eða öðrum skaðvöldum. Má nefna sveppasjúkdóma og sauðfjárbeit sem dæmi. Samþættar árásir geta orðið trjám að fjörtjóni en oftast geta trén náð sér þótt síðar verði.

Hér á landi verður tjón á birki af völdum skordýra annars vegar á rótum en hins vegar á laufi. Það eru fyrst og fremst ranabjöllulirfur sem éta rætur en ýmsar tegundir nærast á laufi og nota til þess mismunandi aðferðir. Lýs sjúga næringu úr blöðunum á meðan fetar og vefarar éta blöðin. Svo eru nýlegir landnemar sem halda sig inni í laufunum og éta þau að innan. Nánar verður þessu lýst þegar fjallað er um hvern hóp fyrir sig.
Mófeti, Eupithecia satyrata, er ekki eins sérhæfður og margir fetar. Hann á það til að éta birki en veldur því tæpast miklu tjóni. Myndir: Björn Hjaltason.
Fiðrildalirfur
Þau meindýr úr heimi skordýra sem mestu tjóni hafa valdið á birki eru nokkrar tegundir af fiðrildalirfum. Sum árin hafa náttúrulegir birkiskógar landsins verið stórlega skemmdir af fiðrildalirfum en almennt má segja að mikill munur sé á fjölda þeirra á milli ára.
Næstum öll fiðrildi á Íslandi tilheyra ætt mölfiðrilda, Tineidae. Tveir hópar þeirra eru hér mest áberandi og fær hvor hópur um sig sérstakan kafla í þessum pistli. Annars vegar eru þetta svokallaðir vefarar og hins vegar fetar. Við þetta má bæta einum, mikilvægum hópi sem við köllum birkismugur. Það er hópur skordýra sem lifir inni í laufblöðum. Honum tilheyrir eitt fiðrildi á Íslandi og tvær sníkjuvespur. Við segjum nánar frá þessu í séstökum kafla. Seinna munum við birta sérstakan pistil um birkismugur. Svo má ekki gleyma yglum sem einnig eru fiðrildi. Engin ygla á Íslandi er sérhæfður birkineytandi en nokkrar tegundir éta allskonar plöntur og leggjast þá einnig á birki. Má nefna brandyglu, Euxoa ochrogaster, jarðyglu, Diarsia mendica og ertuyglu, Melanchra pisi eða Ceramica pisi, sem dæmi. Sú síðasttalda leggst á birki þótt hún sé miklu algengari í lúpínu og öðrum belgjurtum, enda við þær kennd því ætt belgjurta er einnig nefnd ertuætt. Sérstaklega sækir hún í birki sem er í góðum þrifum og þar með próteinríkt.
Sumarið 1996 varð svakalegur jarðyglufaraldur á Héraði. Yglan lagðist þá fyrst og fremst á lerki en aðrar tegundir voru einnig étnar. Þar á meðal var birki.

Þessar yglutegundir teljast vera íslenskar tegundir sem hafa sennilega lifað hér öldum saman en lengst af án þess að valda miklu tjóni nema í undantekningatilfellum. Undanfarið hefur ertuyglu fjölgað mikið með tilheyrandi áti á plöntum og samfara auknum hlýindum hefur hún aukið útbreiðslu sína á landinu. Rannsóknir hafa sýnt að það er fyrst og fremst sumarhitinn sem hefur áhrif á útbreiðslu hennar (Brynja 2025).

Þótt ertuygla éti vissulega birki er hún meira áberandi á öðrum tegundum og fær því ekki sérstaka umfjöllun í þessum pistli. Sama á við um aðrar yglutegundir.
Helst fljúga íslensk fiðrildi á næturna en láta lítið fyrir sér fara yfir hádaginn. Því kallast þau náttfiðrildi. Aftur á móti er mjög misjafnt milli tegunda hvenær sumarsins þær eru á ferðinni.

Vefarar, Tortricidae
Vefarar eru smávaxin fiðrildi sem þekkjast auðveldlega á því hvernig þau leggja vængi sína saman er þau hvílast. Þá mynda vængirnir einskonar burst yfir bolinn. Annað einkenni er að framvængirnir eru ekki þríhyrningslaga eins og algengast er hjá fiðrildum heldur nánast aflangir ferhyrningar. Á jöðrum vængjanna er stutt kögur (Guðmundur og Halldór 2014). Fiðrildin bera þetta nafn því lirfurnar vefja utan um sig blöðin til að púpa sig í skjóli frá hugsanlegum afræningjum. Rétt er þó að geta þess að allar fiðrildalirfur geta myndað vef svo varlegt er að treysta á þetta atriði til að greina tegundir. Vefararnir hafa það einkenni að vefja ekki bara silkiþráð utan um blöðin, heldur einnig utan um sig sjálfa. Það gera aðrar íslenskar lirfur ekki. Hér á landi eru átta ílendar tegundir vefara og lirfur þeirra allra eru minna en 20 mm að lengd. Helstu skaðvaldar á birki úr þessum hópi fiðrildalirfa eru birkivefari og tígulvefari. Þriðja tegundin, kjarrvefari, Apotomis sororculana, finnst einnig í birki en veldur ekki teljandi tjóni.

Birkivefari, Acleris notana
Þetta er vefari sem hefur sennilega verið öldum saman á landinu og er algengur um allt land. Hann lifir eingöngu á blöðum birkis og fyrstu einkenni eru étin blöð á sumrin. Flest fiðrildi á Íslandi lifa veturinn af sem púpur eða egg en birkivefarinn hefur annan háttinn á. Hann þreyir veturinn sem fiðrildi. Þau koma úr dvala á útmánuðum og verpa á vorin. Vanalega skríður lirfan úr eggi þegar komið er fram í júní og nýtir nánast allt sumarið sér til vaxtar. Í lok sumars púpar lirfan sig inni í laufblöðunum sem hún vefur utan um sig með þéttum vef. Það er mjög óvanalegt að fiðrildi púpi sig í laufi en ekki á jörðinni. Fullvaxin fiðrildi skríða úr púpunum á haustin og leggst síðan í vetrardvala (Guðmundur og Halldór 2014). Einhverra hluta vegna er skaðinn af birkivefara miklu meiri í skógum en í einkagörðum. Hann getur stórskaðað birkiskóga þegar mikið er um hann en hans verður sjaldan svo mikið sem vart í görðum. Stundum er þess getið í annálum að skógur beinlínis falli af maðki. Þar er að líkindum um birkivefara að ræða. Oftast nær eru þó skemmdir af völdum hans ekki mjög miklar. Litir fiðrildisins geta verið nokkuð breytilegir, rétt eins og litirnir á berki birkitrjáa. Væntanlega stafar það af stóru genamengi. Það rennir stoðum undir þá kenningu að birkivefarinn hafi verið hér lengi.

Tígulvefari, Epinotia solandriana
Þetta fiðrildi barst til landsins á fyrsa áratug 20. aldar. Það fannst fyrst árið 1907 og er nú eitt algengasta fiðrildi landsins og finnst á láglendi um allt land (Guðmundur og Halldór 2014). Algengast er það um sunnan- og vestanvert landið (Erling 2011) þótt faraldrar hafa einnig geisað um landið norðan og austanvert (Guðmundur og Halldór 2014). Eins og hjá mörgum öðrum fiðrildum er mikill áramunur á fjölda fiðrildanna. Tígulvefari heldur sig fyrst og fremst í birkiskógum en veldur líka tjóni í görðum. Þekkja má fiðrildin á ljósum blett á vængjunum sem minnir á tígul þegar fiðrildið situr kyrrt. Tígullinn verður minna áberandi er líður á sumarið. Tígulvefari getur verið æði fjölbreyttur á litinn. Hann getur verið í ýmsum brúnum tónum svo sem grábrúnum, svarbrúnum eða rauðbrúnum. Lirfan klekst úr eggi í byrjun sumars. Hún vex hratt og verður fullvaxin um mitt sumar og púpar sig þá. Mestur er skaðinn af áti lirfanna snemma á sumrin. Þá verða blöðin bitin og uppvafin. Í júlí skríða fiðrildin úr púpum sínum, makast og verpa á börk trjáa. Þar með er hringnum lokið (Guðmundur og Halldór 2014). Að mati Guðmundar Hallórssonar og Halldórs Sverrissonar er óhætt að segja að tígulvefari sé eitt versta meindýrið í birkiskógum landsins. Þegar mikið er um hann hefur plágan drepið fjöldann allan af trjám á stórum svæðum. Hér á landi er það fyrst og fremst birki og víðir sem verður fyrir barðinu á honum en erlendis er þekkt að hann leggst á fleiri tegundir, svo sem eik, beyki og sitkagreni (Guðmundur og Halldór 2014). Á vef Náttúrufræðistofnunar er ekki tekið jafn djúpt í árinni og í bók þeirra Guðmundar og Halldórs. Þar segir að skaðinn sé oftast staðbundinn og að oftast nái trén sér eftir árásirnar (Erling 2011).
Tígulvefari á birkiblaði. Fyrri myndin sýnir fiðrildi í ágætum felulitum og hvíti tígullinn, sem minnir á fugladrit, sést vel. Ef til vill gerir það fiðrildið ólystuga í huga afræningja að minna á fugladrit. Seinni myndin sýnir lirfu. Myndir: Björn Hjaltason.
Fetar
Þessar fiðrildalirfur eru auðþekktar á því hvernig þær færa sig til. Þær feta sig áfram með því að festa frambolinn um leið og þær færa afturbolinn fram á við. Við það skýst miðhlutinn upp á við og myndar kryppu. Má segja að lirfurnar minni töluvert á girðingarlykkjur þegar kryppan er stærst. Síðan er afturhlutinn festur og lirfan réttir úr kryppunni og þá er lirfan eins og nagli. Síðan hefst ferlið á nýjan leik. Annað einkenni er að á afturbol eru alltaf fleiri en tvö pör af gangvörtum. Fiðrildin teljast meðalstór á íslenskan mælikvarða og þekkjast meðal annars á þríhyrndum framvængjum sem liggja flatir yfir bolnum í hvíldarstöðu. Hátt í tugur tegundar af fetum finnast villtir á Íslandi. Þar á meðal eru birkifeti, haustfeti og skógarfeti sem allir sækja í birki.

Birkifeti, Rheumaptera hastata
Hér er komið fiðrildi sem hefur verið til í landinu um langa hríð. Lirfan lifir gjarnan á birki og getur valdið töluverðum skaða, en lirfan á það einnig til að éta lyngtegundir, einkum aðalbláberjalyng og bláberjalyng. Birkifeti fer jafnvel enn verr með þessar lyngtegundir en birkið. Eins og hjá svo mörgum tegundum fiðrilda er mikill munur milli ára á þeim skaða sem birkifeti veldur. Þessi tegund lifir af veturinn á púpustigi og fiðrildin skríða úr púpum sínum í byrjun sumars. Flugtími þeirra er einkum í júní og fram í júlí. Á þeim tíma makast þau og verpa. Síðsumars skríða svartar lirfur úr eggjunum sem búa um sig inni á milli laufblaða sem þær sauma saman. Síðan naga þau blöðin að innanverðu. Fyrst og fremst éta þær græna vefinn en þær láta æðstrengina eiga sig. Við það verða blöðin visin og sölna. Dauð laufin eru gjarnan rauð á litinn. Skaðinn er mest áberandi síðsumars og á haustin en lirfurnar éta meira og meira eftir því sem þær stækka. Lirfurnar púpa sig svo á haustin og þá gjarnan innan um fallin laufblöð. Þar með er hringrásinni lokið (Guðmundur og Halldór 2014).

Haustfeti, Operophtera brumata
Fyrst varð vart við haustfeta seint á öðrum áratug tuttugustu aldar. Hann hefur því verið hér í um eina öld. Öfugt við tígulvefara, sem barst til landsins skömmu á undan haustfeta, er hann fyrst og fremst að finna í görðum í þéttbýli en einhverra hluta vegna er hann miklu sjaldgæfari í birkiskógum og -kjarri. Þannig er þetta ekki í nágrannalöndum okkar. Má sem dæmi nefna að bæði í Finnlandi og Noregi veldur haustfeti miklu tjóni í birkiskógum (Brynja 2025). Þótt tegundin hafi verið hér í eina öld, án þess að valda teljandi tjóni í skógum, gæti það vel gerst að lirfan finni þá fæðuuppsprettu, til dæmis í kjölfar breytinga á veðurfari. Lengi vel var haustfeta fyrst og fremst að finna um sunnan og vestanvert landið þótt hann hafi einnig sést í öðrum landshlutum. Nú er hann víða um land og getur valdið miklu tjóni.
Þótt við nefnum hér haustfeta sem skaðvald á birki þá leggur hann sér ýmsar tegundir til munns. Hann étur reyni, víði, hegg og ýmsa runna svo dæmi séu tekin. Hann á það jafnvel til að éta barrtré.

Þessi tegund lifir veturinn af sem egg. Þau klekjast á vorin þegar brum trjáa taka að opnast. Lirfurnar taka út sinn þroska fyrrihluta sumarsins og er þær eru fullvaxnar láta þær sig síga til jarðar á silkiþræði og púpa sig þar. Fullvaxin fiðrildi koma út úr púpunum á haustin þegar fer að kula. Oftast sjást þau ekki fyrr en um miðjan september og eru á ferli fram eftir nóvember. Kvendýrin eru ófleyg og þurfa að hafa fyrir því að feta sig upp í tré þar sem þau verpa á trjágreinar og þar eru eggin yfir veturinn. Þetta kann að vera helsta ástæða þess að tegundin hefur ekki sést að neinu ráði í skógum, en það gæti breyst. Ef mikið hefur sést af haustfeta í görðum hafa sumir brugðið á það ráð að setja teppalímband á stofna fallegra trjáa svo kvendýrin komist ekki upp í tréð. Aftur á móti eru karlarnir vel fleygir en það dugar ekki til að dreifa tegundinni því þeir verpa ekki eggjum. Á haustin má oft sjá mikinn fjölda haustfeta á gluggum og húsveggjum.
Þar sem kvendýrin eru ófleyg geta dýrin varla hafa borist hingað til lands nema með innflutningi.
Haustfeti á Kiðafelli Kjós. Seinni myndin sýnir kvendýr með vængstubba sem gagnast ekki til flugs. Stundum eru kvendýrin alveg vænglaus. Myndir: Björn Hjaltason.
Skógfeti, Erannis defoliaria
Þetta er sjaldgæfasti fetinn af þeim sem lifa á birki á Íslandi. Hann á það reyndar líka til að éta reyni og erlendis leggst hann á fleiri tegundir, svo sem eik. Skógfeta er fyrst og fremst að finna á Suðausturlandi og hann dreifist hægt þaðan út, enda eru kvendýrin ófleyg. Á haustin skríða þau upp stofna á trjám á ástarfund við sín fleygu karldýr. Þar fer mökun fram og kvendýrin verpa á stofninn og eggin lifa þar af veturinn. Snemmsumars skríða lirfur úr eggjunum. Ólíkt flestum fiðrildum vefja þau ekki laufum utan um sig heldur háma þau í sig óvarin. Skógfetinn púpar sig í júlí og fullorðin dýr skríða úr púpunum á haustin. Aðeins tvær tegundir feta fljúga á haustin hér á landi en hin er áðurnefndur haustfeti (Guðmundur og Halldór 2014). Áður fyrr olli skógfeti töluverðu tjóni á skógi en nú eru mörg ár síðan það gerðist síðast.

Blaðlýs, Aphididae
Aðeins tvær tegundir blaðlúsa næra sig á birki á Íslandi. Þær heita birkisprotalús og birkiblaðlús. Almennt er talið að þær skaði birkið fremur lítið þótt mörgum geti þótt þær hvimleiðar þegar mikið er af þeim. Þessar tvær tegundir lúsa á birki eru auðgreindar hvor frá annarri.
Í heiminum öllum eru til nokkur þúsund tegundir blaðlúsa. Í mörgum tilfellum er skaðinn sem þær valda fyrst og fremst fólginn í því að þær geta borið vírussýkingar á milli plantna. Sem betur fer virðist það ekki eiga við hér á landi. Að minnsta kosti ekki í svo miklum mæli að til vandræða horfi.
Birkisprotalús, Euceraphis punctipennis
Birkisprotalúsin er stærri lúsin af þessum tveimur. Hún verður um 5 mm að lengd og fullorðin dýr eru alltaf vængjuð. Þær eru þaktar vaxhúð sem gefur þeim einkennandi blágrænan lit. Þær sitja helst á ungum sprotum eða neðan á laufum og nærast á vökva úr sáldæðum birkisins. Í byrjun sumars skríða lýsnar úr eggi og fjölga sér kynlaust fram í ágúst. Þá fara að birtast lýs af báðum kynjum. Þær makast og verpa eggjum sínum á greinar birkis og úr þeim klekjast lýsnar næsta sumar (Guðmundur og Halldór 2014).

Birkiblaðlús, Betulaphis quadrituberculata
Þetta er fremur smá blaðlús eða aðeins um 2 mm að lengd. Eins og flestar aðrar blaðlýs er hún græn á litinn. Lífsferill hennar er líkur því sem gerist hjá birkisprotalúsinni, nema hvað hún sýgur aðeins næringu úr blöðum en ekki sprotum. Birkiblaðlúsin á það sameiginlegt með mörgum frænkum sínum að þegar hún sýgur safann úr plöntunum fær hún svo mikið af sykrum miðað við prótín að þær geta ekki nýtt þær nema að litlu leyti. Afganginn losnar hún við með því að gefa frá sér hunangsdögg. Birkiblaðlúsin gefur frá sér mikla hunangsdögg. Á haustin verpir kvenlúsin á sprota birkisins rétt við brumin. Þannig er oftast mjög stutt fyrir nýklaktar lýs að skríða á laufblöðin. Þar halda þær sig fyrst og fremst á neðra borði (Guðmundur og Halldór 2014). Birkiblaðlúsin er það sérhæfður birkineytandi að fræðiheiti ættkvíslarinnar, Betulaphis, er dregið af fræðiheiti birkisins, Betula.

Ranabjöllur, Curculionidae
Flestar fullorðnar ranabjöllur eru auðþekktar á rananum sem þær hafa og gefur þeim nafn. Það er þó ekki algilt enda er fjöldi tegunda með hreinum ólíkindum. Af þeim eru þekktar meira en 86.000 fjölbreyttar tegundir af meira en 20 undirættum samkvæmt Náttúrufræðistofnun. Hátt í tveir tugir tegunda eru í náttúru Íslands og fáeinar aðrar finnast stundum innan dyra.
Ranabjöllulirfur geta valdið ungum trjáplöntum umtalsverðu tjóni, því þær éta rætur þeirra. Í verstu tilfellum getur það leitt til dauða þeirra annað hvort beint eða óbeint. Með því síðarnefnda er átt við að ef mikið er étið af rótunum eiga hinar ungu trjáplöntur erfiðara með að vaxa og geta þá orðið undir í samkeppninni við annan gróður og að auki eiga þær þá erfiðara með að verjast öðrum meindýrum. Ranabjöllulirfur eru eitt helsta vandamálið úr heimi skordýra sem herja á nýskógrækt á Íslandi. Birkið er þar ekki undantekning.
Eldri tré standast ásókn ranabjöllulirfa auðveldlega og þótt ranabjöllur lifi á rótum þeirra valda þær litlu tjóni. Þessar lirfur eru æði bústnar og pattaralegar ef ekki beinlínis feitar. Nöfn tegunda af ættkvíslinni Otiorhynchus eru dregin af útlitinu á lirfustiginu og eru þau búin til með viðskeytinu -keppur. Má nefna tegundir eins og hélukepp, O. nodosus og silakepp, O. arcticus, sem dæmi. Þeir herja báðar á birki. Aðrar tegundir eru kenndar við ranann sinn og tökum við eina slíka sem dæmi og látum umfjöllun um hana duga.

Birkirani, Strophosoma melanogrammum
Við tökum birkirana sem dæmi um ranabjöllu, enda er hann kenndur við birkið. Hann er fyrst og fremst að finna um sunnanvert landið. Í byrjun sumars verpa bjöllurnar. Þegar lirfurnar skríða úr eggi smjúga þær niður að rótum birkitrjáa og næra sig á þeim. Seinni hluta sumars púpa bjöllurnar sig og á haustin koma fullskapaðar bjöllur úr púpunum og þær liggja í dvala yfir veturinn (Guðmundur og Halldór 2014). Bjöllurnar eru aðeins um 5 mm langar og þótt þær nagi bæði lauf og börk birkitrjáa valda þær litlum skaða, nema á ungplöntum.

Skaðvaldar í fræ- og frjóreklum
Hér verða nefndir til sögunnar tvær gjörólíkar tegundir sem dregið geta úr frjósemi birkisins. Önnur þeirra leggst á karlreklana og étur frjóið á meðan hin sérhæfir sig í fræáti. Þar sem birki er almennt sérstaklega frjósamt á Íslandi er ekki að sjá að þessar pöddur séu líklegar til að valda tilfinnanlegu tjóni.

Birkiglitmölur, Argyresthia goedartella
Hér er komið sérlega fallegt kvikindi sem lifir bæði á birki og hinu skylda elri. Það fannst fyrst á Íslandi árið 2011 og hefur verið að dreifa sér um Suðvesturland síðan þá. Lirfa þessa snotra fiðrildis lifir fyrst á brumi trjánna en þegar greinarnar fara að vaxa færir hún sig gjarnan í karlreklana og étur þá (Brynja 2025). Við vitum ekki enn hversu miklum skaða birkiglitmölur getur valdið birkinu en við vitum að hann getur dregið úr frjósemi þess með því að skemma karlreklana. Það er samt með öllu óvíst hversu mikið það tjón telst vera. Skemmdir eftir birkiglitmölinn eru ekki áberandi og því hefur reynst örðugt að kortleggja tegundina. Ef til vill er hann víðar en við höldum (Brynja 2025).

Birkihnúðmý, Semudobia betulae
Birkihnúðmý hefur algera sérstöðu á meðal þeirra skaðvalda sem lifa á birki. Lirfur þess lifa á birkifræi og þegar haustar leggjast þær í dvala inni í fræreklunum. Um vorið púpar lirfan sig og skömmu síðar kemur fullvaxið mý úr púpunni, makast og kvendýrin verpa eggjum í nýmyndaða birkirekla. Úr eggjunum skríða litlar lirfur sem éta sig inn í fræið. Smitað fræ er auðþekkt frá öðru birkifræi. Það er bólgið og vængirnir afmyndaðir. Þegar mikið er um birkihnúðamý er meirihluti fræjanna smitaður en þar sem fræframleiðsla birkis er mikil telst tjónið frekar lítið (Guðmundur og Halldór 2014).

Birkismugur
Nýjasta viðbótin við skaðvalda í birki eru tegundir sem þróast hafa þannig að þær lifa inni í sjálfum laufunum og halda sig á milli efra og neðra borðs laufblaðanna. Komið hefur í ljós að nú hafa þrjár tegundir numið hér land sem haga sér svona. Ein þeirra er fiðrildategund, en hinar tvær eru blaðvespur. Frá sjónarhóli skaðvaldanna getur það verið heilmikill kostur að lifa inni í laufblöðum. Þar geta þeir athafnað sig í rólegheitunum þar sem þeir eru tiltölulega vel varðir fyrir afræningjum eins og fuglum. Við notum samheitið birkismugur fyrir þessar tegundir og við eigum tilbúinn pistil um þær. Hann mun birtast í fyllingu tímans og því geymum við frekari umfjöllun um þær.

Áhrif hitastigs á skaðsemi
Ekki hafa verið gerðar miklar rannsóknir á frostþoli þeirra skordýra sem lifa af veturinn á Íslandi sem egg, lirfur eða púpur. Slíkar rannsóknir hafa verið gerðar á sitkalúsum en þær lifa af veturinn sem fullorðin dýr og nærast á grenitrjám. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið, til dæmis á ertuyglum, benda ekki til þess að kuldakaflar hafi teljandi áhrif. Ertuyglur lifa af veturinn þótt kuldinn fari langt undir -20°C. Flestar tegundirnar lifa veturinn af sem egg eða púpur í jarðvegi eins og sjá má í umfjöllun um tegundirnar hér að ofan. Þar eru þær vel varðar fyrir miklum kuldum. Því virðist vetrarveður ekki hafa áhrif á stofnstærð þessara skaðvalda í íslensku birki. Aftur á móti virðist aukinn sumarhiti gagnast þessum afræningjunum birkisins betur en fórnarlömbunum. Brynja Hrafnkelsdóttir (2025) hefur skoðað þetta hjá ertuyglum og sennilega á það við um fleiri hópa skordýra. Þeim mun hlýrra, þeim mun betra fyrir dýrin og verra fyrir birkið. Að auki eykst hættan á að nýir skaðvaldar nemi hér land þegar hlýskeið ganga í garð.


Náttúrulegir óvinir
Sem betur fer virðast allar þær pöddur sem sækja í birki eiga sér einhverja náttúrulega afræningja. Það hafa meira að segja borist þau gleðitíðindi að til séu sérhæfðar sníkjuvespur sem leggjast á birkismugur á Íslandi. Fjölgun náttúrulegra óvina skaðvaldanna dregur verulega úr hættu á stórum, endurteknum faröldrum. Fjölgi skaðvöldum úr öllu hófi er næsta víst að afræningjum þeirra fjölgar í kjölfarið ef þeir eru til staðar. Þar með slær verulega á stofnstærð skaðvaldanna. Því verða faraldrar sömu tegundar sjaldan mörg ár í röð.
Margir fuglar kunna því vel að fjölbreytt skordýr nemi hér land. Að auki eru til ýmsir sérhæfðir hópar lífvera, til dæmis sníkjuvespur, sem treysta á skordýr sér til lífsviðurværis. Þessir sérhæfðu afræningjar á skaðvöldum geta vitanlega ekki numið hér land á undan skaðvöldunum. Því geta nýir skaðvaldar valdið mjög miklu tjóni en oft finnur náttúran leið til að draga úr því aftur. Þar koma náttúrulegir óvinir sterkir inn. Rétt er að nefna að með því að úða eitri yfir trjágróður í görðum er ekki bara verið að ráðast gegn skaðvöldunum heldur einnig þeim pöddum og fuglum sem á þeim lifa. Því getur eituraustur í görðum leitt til þess að plágur rísi hærra í kjölfarið, því náttúrulega óvini vantar. Rétt er líka að hafa í huga að þegar fiðrildalirfur hafa púpað sig og skriðið í skjól breytir eitrun engu fyrir afkomu skaðvaldanna. Á þeim tíma er eitrun því fullkomlega tilgangslaus nema ef ætlunin er að fækka afræningjum til að auka líkur á plágu að ári.
Þakkir
Þakkir fær Brynja Hrafnkelsdóttir fyrir alla hjálpina og fyrir fyrir að þola kvabb höfundar. Björn Hjaltason fær okkar bestu þakkir fyrir lán á myndum og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fær þakkir fyrir yfirlestur handrits.
Heimildir og frekari upplýsingar
Brynja Hrafnkelsdóttir (2025): Meindýrin og birkið – Innlendar og erlendar skordýrategundir sem lifa á birki á Íslandi. Fyrirlestur fluttur á Hrafnaþingi þann 29. janúar 2025. Sjá: Hrafnaþing Meindýrin og birkið – Innlendar og erlendar skordýrategundir sem lifa á birki á Íslandi.
Edda Sigurdís Oddsdóttir (2014): Skógarvistkerfið. Bls. 8-25 í: Heilbrigði trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim eftir Guðmund Halldórsson og Halldór Sverrisson. Iðunn, Reykjavík.
Erling Ólafsson (2011): Tígulvefari (Epinotia solandriana). Birt á vef Náttúrfræðistofnunar þann 19. október 2011. Sjá: Tígulvefari (Epinotia solandriana) | Náttúrufræðistofnun Íslands. Á vef Náttúrufræðistofnunar má finna umfjöllun um fleiri tegundir skaðvalda á birki og öðrum trjágróðri.
Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (2014) Heilbrigði trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim. Iðunn, Reykjavík.
Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson og Erling Ólafsson (2002) Dulin veröld. Smádýr á Íslandi. Mál og mynd ehf. (bókin var ekki nýtt sem heimild að þessu sinni en er ljómandi góð og við mælum með henni).
Sigurður Arnarson (2021): Birkiþéla og hengibjörk. Pistill á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga frá 1. september 2021. Sjá: Birkiþéla og hengibjörk.
Comments