Á fyrsta áratug þessarar aldar fannst í fyrsta skipti á Íslandi kvikindi sem kallað hefur verið birkikemba (Heringocrania unimaculella). Það er fiðrildi sem skríður úr púpu sinni í apríl og verpir eggjum sínum í eða við brum ilmbjarka (Betula pubescens) þegar þau eru að springa út eða í fyrstu laufblöðin sem birtast. Eggin klekjast út um leið og birkið hefur vöxt. Þá smjúga lirfurnar inn nýútsrpungin laufblöðin og halda sig á milli efra og neðra borðs laufblaðanna. Þar nærast þær á blaðholdinu þannig að eftir verða brúnleitir, gagnsæir pokar. Upp úr miðjum júní verður lirfan fullvaxta, skríður ofan í jörðu og púpar sig. Þá er allur sumarvöxturinn eftir og hann hylur skemmdirnar á laufinu, sem geta verið töluverðar.
Nokkrum árum eftir að birkikemban fannst fyrst fór fólk að taka eftir því að sambærilegar skemmdir á laufblöðunum héldu áfram að birtast fram eftir sumri. Slíkar skemmdir sáust ekki bara á birki heldur einnig á elri (Alnus sp), sem er náskylt sem og öðrum birkitegundum (Betula sp.). Þetta kom fólki mjög á óvart enda lífsferill kembunnar vel þekktur frá útlöndum og svona hagar hún sér ekki. Uppi voru getgátur um að ef til vill yrðu til tvær kynslóðir af birkikembu á hverju sumri hér á landi og hér væri því um aðra kynslóð birkikemba að ræða. Það þótti þó ólíklegt því ekki fundust fiðrildi tegundarinnar á miðju sumri og skemmdirnar sáust ekki eingöngu á ilmbjörkinni.
Dæmigerðar skemmdir. Laufin eru eins og tómir pokar og inni í þeim er skítur lirfanna eftir að þær fóru. Myndin er af hengibirki en ekki ilmbjörk.
Ný tegund nemur land
Eftir að fólk hafði klórað sér lengi í hausnum og velt vöngum yfir þessu komust menn að því að hér var annað kvikindi mætt til leiks. Heitir það birkiþéla (Scolioneura betuleti). Skemmdir á laufum eftir birkikembu og birkiþélu eru mjög svipaðar. Lirfur beggja tegunda haga sér eins. Eru inni í laufblöðunum og éta blaðholdið innan frá í skjóli frá fuglum sem gjarnan vildu éta þær. Eftir verða brúnleitir pokar í stað grænna laufblaða og inni í þeim má fyrst sjá lirfurnar og síðan saur eftir þær. Munurinn á lífsferlinum er sá að birkiþélan birtist síðar. Skemmdirnar eftir hana eru því ekki eingöngu á fyrstu laufblöðum birkisins heldur birtast þær fram eftir sumri. Þannig að eftir að birkikemban hefur lokið sér af og birkið ætlar að klæða af sér skemmdirnar tekur birkiþélan við og viðheldur ljótleika laufblaðanna.
Staðfesting á komu birkiþélunnar til Íslands varð ekki fyrr en 2017 en að líkindum var hún komin töluvert fyrr. Sést það meðal annars á því hversu víða hún hefur fundist.
Lirfa birkikembu sem ekki er sátt við að vera tekin úr húsi sínu (laufinu) og lögð ofan á það til myndatöku.
Ekki bara ilmbjörkin
Eins og flestir lesendur þessa pistils hafa án efa tekið eftir hefur sumarið hér í Eyjafirði verið einstaklega hlýtt og þurrt, þrátt fyrir óvenju síðbúin vorfrost. Vorfrostin höfðu engin áhrif á birkiþéluna enda var hún þá í dvala. Aftur á móti virðist þélan vera sérlega sátt við þurrt og sólríkt sumar. Það sem mesta furðu vekur er aftur á móti tegundavalið í sumar. Komið hefur í ljós að birkiþélan er ekki eins kræsin á tegundir og birkikemban. Hún sést á ilmbjörkinni (Betula pubescens) eins og við var að búast en einnig á sitkaelri (Alnus sinuata).
Lirfa birkiþélu inni í laufblaði sitkaelris.
Langmest sést af þessum nýja landnema í hengibirki (Betula pendula). Heilu trén af hengibirki standa albrún út um allan bæ þegar þetta er ritað. Óttast margir að þetta kunni að draga svo mjög úr ljóstillífun að vöxtur og vetrarþol skerðist. Ekki er þó að sjá að vöxtur sé neitt lakari nú en áður, enda sumarið hlýtt. Við verðum bara að bíða og sjá hvort langtímaáhrif koma síðar fram og hver þau verða.
Vonum það besta.
Ung planta af hengibirki illa haldin af birkiþélu en sýnir samt frábæran vöxt.
Hvernig hægt er að þekkja lirfurnar í sundur
Þótt skemmdir af völdum lirfanna séu nokkuð áþekkar þarf ekki að vera erfitt að þekkja þær í sundur. Lirfurnar eru áþekkar en ekki eins. Svo er skíturinn sem þær skilja eftir sig í laufblöðunum nokkuð ólíkur. Að auki eru lirfurnar á ferli á mismunandi tíma og birkikemban lætur aðrar tegundir en ilmbirki alveg í friði. Í raun eru þessar tegundir algerlega óskyldar. Birkikemban er fiðrildi. Fullvaxið fiðrildi er með kamb fram úr hausnum og hlýtur af því nafn sitt. Birkiþélan er blaðvespa. Fullorðin er hún lík öðrum blaðvespum. Lítil, svört og með gulleita fætur.
Úrgangur beggja tegunda sést vel inni í laufblöðunum. Birkikemban skilur eftir sig þráðlaga skít en birkiþélan skilur eftir sig kúlulaga kúk. Þeim sem þetta ritar gengi betur að muna þetta ef það væri öfugt (þélan með þráð og kemban með kúlur) en svo skáldlegar eru þessar pöddur ekki. Að auki eru lirfur þélunnar heldur mjóslegnari en lirfur kembunnar. Lirfur birkikembunnar eru ljósleitar en með dökkan díl eða blett á hausnum. Lirfur birkiþélunnar eru einnig ljósar að lit en hausinn er dökkur eins og sjá má af myndbandinu hér ofar. Lífsferill birkiþélunnar á Íslandi er ekki vel þekktur.
Einfaldast er þó að þekkja tegundirnar í sundur á tímasetningunni. Kemban kemur snemma vors en þélan ekki fyrr en seint í júlí eða í ágúst.
Tvær myndir af sömu hengibjörkunum teknar með árs millibili. Sú fyrri er tekin í september 2020 og þá má sjá dálitlar skemmdir eftir birkiþélu. Seinni myndin var tekin í dag og sýnir miklu meiri skemmdir.
Miklar skemmdir á heitu og þurru sumri
Það vekur nokkra athygli hversu miklar skemmdirnar á laufum hengibjarkanna eru þetta árið. Svona miklum skaða veldur birkiþélan ekki í Evrópu þar sem bæði vespan og birkið hafa lifað saman í árþúsundir. Það er þó ekkert einsdæmi að samband skaðvalda og hýsils breytist og versni þegar báðar tegundir berast á nýjan stað. Þannig tókst furulús (Pineus pini) nánast að útrýma skógarfuru (Pinus sylvestris) á Íslandi þrátt fyrir að lúsin og furan komi hingað af sömu slóðum. Algengara er að skaðvaldar valdi miklu tjóni þegar þeir komast í eitthvað nýtt! Það sjáum við t.d. þegar sitkalús (Elatobium abietinum), sem er evrópsk, komst í amerískar grenitegundir (Picea sp.) á Íslandi. Slíkir árekstrar geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir hýsilinn sem hefur engar varnir.
Vonandi verður skaðinn af birkiþélunni ekki varanlegur á þessari plöntu.
En hvernig stendur á þessum mikla skaða hér á landi? Af hverju stendur hengibjörkin sig ekki eins vel gegn birkiþélunni á Íslandi eins og hún gerir í Evrópu þar sem báðar tegundir finnast? Sjálfsagt er ekkert eitt, einfalt svar til við því en líklegt verður að teljast að hér vanti einhvern óvin sem herjað getur á þéluna.
Sem dæmi má nefna að það sem einna helst hefur bjargað sitkagreninu (Picea sitchensis) frá því að tapa of miklu barri vegna ágangs sitkalúsar er að hingað bárust litlir fuglar sem háma í sig lúsina. Kallast þeir glókollar (Regulus regulus) og eru í flestum greniskógum landsins og teljast vera minnstu fuglar Evrópu. Það lítur út fyrir að hér vanti náttúrulegan óvin fyrir birkiþéluna, hvort sem það er einhver fugl, sníkjuvespa (sem verpa eggjum sínum í lirfur skordýra) eða einhver annar bjargvættur þá verðum við bara að bíða og sjá hvort hann berst til landsins. Svo má auðvitað vona að eitthvert innlent dýr uppgötvi þessa fæðuauðlind og nýti hana, birkinu til bjargar. Allar myndirnar tók Sigurður Arnarson
Comentarios