Hástig líffjölbreytni: Skóglendi
- Sigurður Arnarson
- 13 minutes ago
- 20 min read
Um langa hríð hefur tegundin maður valdið sífellt hraðari og víðtækari breytingum á vistkerfi jarðar sem að stórum hluta eru óafturkræfar. Því er ekki að undra þótt mikið hafi verið ritað um líffræðilegan fjölbreytileika undanfarin misseri. Hugtakið er nokkuð langt og stirt. Þess vegna hefur það verið stytt niður í líffjölbreytni í seinni tíð.
Þrátt fyrir að flestir séu sammála um hnignun líffræðilegrar fjölbreytni virðist ekki vera fullur einhugur um hvernig meta beri ástandið eða hvaða kvarða eigi að nota til að meta það. Vistkerfi breytast bæði í tíma og rúmi. Sumir líta á breytingarnar sem ógn við líffjölbreytileika, en aðrir telja í fyllsta máta eðlilegt að framvinda eigi sér stað í vistkerfum og að þau taki breytingum með tímanum. Það er ekki samasemmerki á milli breytinga á vistkerfum og hnignunar þeirra. Ef vel er staðið að skógrækt geta skógar aukið líffjölbreytni vistkerfa. Það lítum við á sem jákvæða þróun. Því fögnum við aukinni skógrækt. Líta má á þennan pistil sem framhald af pistlinum Líffjölbreytileiki í skógum sem við birtum 22. október 2025.

Í þessum pistli segjum við frá því að hástig líffjölbreytni í heiminum er að jafnaði að finna í skógum. Þá erum við ekki bara að tala um trjátegundirnar sjálfar eða annan gróður sem finna má í skógum enda nær líffjölbreytni til allra lífvera. Okkar hlutverk er ekki eingöngu að vernda líffjölbreytileikann þar sem það á við og í því ástandi sem hann er í á hverjum tíma, heldur að stuðla að aukningu hans svo hann eflist og dafni. Sérstaklega á þetta við um svæði þar sem gróðri og líffélögum hefur verið eytt eða hrakað stórkostlega eins og gerst hefur á Íslandi. Við teljum ekki sérstaka ástæðu til að varðveita manngerðar eyðimerkur eða hnignunarsamfélög sem orðið hafa til vegna rányrkju undanfarinna alda.
Þar sem hægt er að endurheimta vistkerfi er það hið besta mál. Stundum er mögulegt að fara í aðgerðir sem ætlað er að endurheimta vistkerfi á forsendum náttúrunnar sjálfrar. Kallast það vistheimt. Við viljum alls ekki gera lítið úr slíkum verkefnum en þar sem vistkerfi eru síkvik getur þetta verið strembið og stundum óvíst hvaða mælistikur ber að nota til að meta árangur verkefnanna. Þegar vel tekst til með slíka vistheimt er eins og landið, sem til verður, hljóti alltaf að hafa verið þannig. Má nefna endurheimt sumra votlendisvistkerfa sem dæmi. Einnig er endurheimt birkiskóga í Leyningshólum og friðun Krossanesborga af sama meiði.

Vandasamt getur verið að finna viðmið fyrir svona endurheimt. Það vakna til dæmis spurningar um við hvaða tíma sé rétt að miða. Má nefna sem dæmi að á Íslandi eru allskonar plöntur, sveppir og dýr sem ekki voru hér fyrir landnám. Því vakna upp spurningar um hvort hindra eigi sumar lífverur á endurheimtum svæðum en aðrar ekki. Hvaða lífverur komast þá í gegnum það nálarauga og hvernig á að dæma þær hæfar eða óhæfar? Varla dugar að setja það viðmið að lífverur sem komu hingað á undan hreindýrunum séu æskilegar en þær sem komu á eftir þeim séu vondar og óæskilegar? Við getum nefnt að í Krossanesborgum má finna ýmsar tegundir plantna sem hafa slæðst þangað úr ræktun. Má nefna viðju, lerki, stafafuru og alaskalúpínu sem dæmi. Allt eru þetta innfluttar tegundir.
Annar möguleiki er að reyna að auka líffjölbreytileikann þar sem það er hægt frekar en að endurheimta glötuð vistkerfi. Því miður hefur stundum borið á þeim málflutningi að skógrækt með innfluttum trjátegundum geti á einhvern hátt dregið úr líffjölbreytileika. Við getum ekki séð að verndun líffræðilegrar fjölbreytni sé best tryggð með því að Ísland haldist áfram því sem næst skóglaust og að sem fæst tré fái að vaxa á landinu. Líffjölbreytni getur ekki haft það að leiðarljósi að fjölda tegunda lífvera skuli haldið í lágmarki. Því hljóta flestir að fagna aukinni skógrækt, einkum ef vistkerfisþjónustan eykst í leiðinni. Þannig verður líffræðileg fjölbreytni best tryggð. Um vistkerfisþjónustu skóga verður fjallað í sérstökum pistli í fyllingu tímans en nú höldum við áfram að skoða áhrif skóga á líffjölbreytni eins og við gerðum í pistlinum sem við nefndum í inngangi.
![Birkið í Leyningshólum hefur ekki alltaf verið svona vöxtulegt og þétt eins og hér má sjá. Hér er lýsing sem skrifuð var árið 1950: „Eini skógurinn, sem velli hefir haldið í öllu héraðinu, [Eyjafirði] er skógurinn í Leyningshólum. Skógurinn liggur í hlíðarbrekkum suður og upp frá bænum Leyningi og suður undir Torfufellsá. Ekki er þar þó um samfelt skóglendi að ræða, heldur er skógurinn í torfum og autt land á milli. Sunnan að skógartorfunum liggja örfoka melar, og er sýnilegt, að þar hefir uppblástur fylgt fast eftir, þegar skógurinn hefir eyðst. Var honum mikil hætta búin af uppblæstri, enda höfðu torfurnar gengið saman í tíð núlifandi manna. Skógræktarfélag Eyfirðinga lét girða mestan hluta þessa skóglendis á árunum 1937-1938. Flatarmál hins girta svæðis er um 50 ha, en af því eru um 35 ha alvaxnir skógi.“ (Steindór Steindórsson frá Hlöðum 1950).](https://static.wixstatic.com/media/5e2689_8799e860f9ff4756a3f2661079c74f54~mv2.jpg/v1/fill/w_900,h_600,al_c,q_85,enc_avif,quality_auto/5e2689_8799e860f9ff4756a3f2661079c74f54~mv2.jpg)
Alfa, beta, gamma
Fyrirsögnin sýnir okkur nöfnin á þremur fyrstu stöfunum í gríska stafrófinu. Heiti þeirra hafa stundum verið nýtt til að tákna þá kvarða sem notaðir eru til að tákna líffjölbreytni. Því er rétt að segja stuttlega frá þeim en ítarlegri umfjöllun var í pistlinum Líffjölbreytileiki í skógum sem áður var nefndur. Kvarðarnir eru stærri eftir því sem lengra kemur í stafrófið.
Alfa (α) er notað til að mæla tegundafjölda og breytingar á tegundafjölda á tilteknu, afmörkuðu svæði. Að jafnaði eru þau svæði lítil og skýrt afmörkuð. Oftast eru tekin nokkur alfasvæði til að gera samanburðinn betri.
Beta (β) er notað til að meta og bera saman svæði á stærri skala. Ef ein tegund berst inn á tiltekið svæði og leggur undir sig alfa-mælireit minnkar líffjölbreytni á alfakvarða á þeim tiltekna mælireit en á sama tíma getur orðið aukning á betakvarða því tegundum fjölgar í heildina.
Gamma (γ) er notað þegar bera skal saman svæði milli tiltekinna vistgerða á sama svæði sem stundum eru skilgreind mjög vítt. Þannig má til dæmis skoða líffjölbreytileika í Eyjafirði alveg sérstaklega. Í fjölbreyttu landi getur land skorað hátt á gammakvarða þótt í hverri vist séu fáar tegundir og þar með lágt skor á alfakvarða. Þessar hugmyndir voru upphaflega settar fram að bandarískum grasafræðingi að nafni R. H. Whittaker (1920-1980).
Rétt er að taka fram að stundum er einungis fjöldi plantna notaður til að meta líffjölbreytileika á tilteknu svæði. Það segir þó alls ekki alla söguna. Matið þarf að ná til allra lífvera á svæðinu ef vel á að vera eins og vel kemur fram í lögum um náttúruvernd frá 2013. Aukin gróska merkir nær alltaf aukningu í lífríkinu en getur haft tímabundnar neikvæðar afleiðingar á alfakvarða ef aðeins plöntur eru skoðaðar og taldar. Þetta sést til dæmis þar sem illa farið land er friðað fyrir beit og gróskumiklar tegundir nema land og breiða úr sér. Ef aðeins er reynt að meta fjölda plöntutegunda og jafnvel aðeins í tilteknum reit mætti ætla að það dragi verulega úr líffjölbreytni, en niðurstöður verða aðrar ef beta og gamma er bætt við og enn meiri verður fjölbreytnin ef aðrar lífverur eru einnig skoðaðar eins og vera ber.
Enn er ónefnt að breytingar á alfa, beta og gamma geta orðið með tíma án þess endilega að mannskepnan komi þar við sögu nema þá óbeint. Þannig breytist til dæmis vistkerfi Surtseyjar ár frá ári. Þar verða breytingar á öllum þremur kvörðunum á milli ára sem ná til alls lífríkisins. Með því öllu saman er fylgst af töluverðri nákvæmni af mörgum af okkar færustu vísindamönnum á þessu sviði. Þess vegna er ekki ætlast til að almenningur heimsæki þessa einstöku tilraunastöð náttúrunnar sjálfrar. Þarna fær náttúran að njóta vafans.

Líffélög og vistkerfi
Áður en lengra er haldið skulum við skoða tvö hugtök sem tengjast þessu efni. Hið fyrra er minna þekkt og kallast líffélag. Stundum er hugtakið lífríki notað á sama hátt. Með þeim báðum er átt við allar þær lífverur sem þrífast á tilteknu svæði og þau áhrif sem þær hafa hver á aðra. Frumframleiðendurnir, tré og annar gróður, binda orku sólarinnar í grænukornum og allt líffélagið byggir á þeirri framleiðslu. Ef dregur úr henni trosna þræðirnir sem halda því saman. Á frumframleiðendum lifa allskonar dýr sem síðan eru fæða fyrir önnur dýr. Hjá flestum dýranna byggist tilveran á því að éta eða vera étin. Að lokum drepast dýrin og þá er það hlutverk sundrenda, svo sem bjallna, sveppa og örvera að koma lífrænu efnunum aftur í umferð.
Vistkerfi er víðtækara hugtak. Það nær yfir líffélög á hverju svæði og lífvana umhverfi þeirra. Vindur, vatn, loftslag, hæð yfir sjávarmáli, ljósmagn og berggrunnur er hluti þessa umhverfis og þar með hluti og stór örlagavaldur í hverju vistkerfi. Breytingar á einum þætti vistkerfis geta valdið breytingum á öðrum þáttum sem ekki eru alltaf fyrirsjáanlegar.
Í skógum breytist vistkerfið meðal annars eftir hæð í skógunum. Lífvana þættir svo sem birta, raki og vindur breytast með hæð. Sama á við um lífverurnar í vistkerfinu, enda eru þær hluti af því. Þetta gleymist stundum þegar lífverur í alfareitum eru taldar.

Ræktum skóga
Íslensk stjórnvöld hafa undirritað og gengist við allskonar alþjóðlegum samningum um umhverfismál. Við fögnum því. Þessi sömu stjórnvöld hafa meðal annars gengist fyrir því að Ísland gerist aðildarland að IPBES (Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services). IPBES gerir ráð fyrir að aðildarþjóðirnar nái 23 markmiðum sem kennd eru við kínversku borgina Kunming og kanadísku borgina Montreal. Sjá má þau hér.
Of langt mál yrði að gera öllum markmiðunum skil en við viljum nefna hér 8. markmiðið sem dæmi.
Minimize the impact of climate change and ocean acidification on biodiversity and increase its resilience through mitigation, adaptation, and disaster risk reduction actions, including through nature-based solutions and/or ecosystem-based approaches, while minimizing negative and fostering positive impacts of climate action on biodiversity.
Í lauslegri þýðingu hljóðar þetta svona:
MARKMIÐ 8: Lágmarka áhrif loftslagsbreytinga á líffræðilegan fjölbreytileika og byggja upp viðnámsþrótt.
Lágmarka áhrif loftslagsbreytinga og súrnunar sjávar á líffræðilega fjölbreytni og auka viðnámsþrótt með aðgerðum til að draga úr losun, með aðlögun og með því að draga úr hamfarahættu, meðal annars með náttúrutengdum lausnum og/eða vistkerfisbundnum aðferðum, en lágmarka jafnframt neikvæð og efla jákvæð áhrif loftslagsaðgerða á líffræðilegan fjölbreytileika.
Einsýnt er að aukin skógrækt getur stuðlað að því að þessu markmiði verði náð. Því fjölbreyttari sem skógræktin er, þeim mun líklegra er að það takist.

Fjölbreytni í skipulagi og breytingar með tíma
Þegar vel er staðið að skógrækt gildir að hafa mikla fjölbreytni. Að auki þarf að gera ráð fyrir að trén í skóginum taki upp á því að vaxa og breytast með aldri. Tegundaríkir skógar eru líklegri til að þola breytingar í vistkerfum vegna ófyrirsjáanlegra eða fyrirsjáanlegra þátta. Breytingar til lengri tíma geta til dæmis tengst loftslagsbreytingum af mannavöldum sem munu að líkindum halda áfram næstu aldir. Fjölbreyttir skógar hafa meiri seiglu en tegundafátækir skógar og miklu meira þanþol en þau illa förnu vistkerfi sem einkenna landið og má jafnvel líta á sem sérkenni þess.
Líffélög skóga geta byggst upp af mörgum tegundum trjáa af misjöfnum aldri. Sum trén eru frumherjar og önnur eru af tegundum sem koma síðar inn. Þannig er skógarvistkerfi síkvikt og háð stöðugum breytingum sem auka á fjölbreytnina þegar til lengri tíma er litið.

Víða um heim hefur orðið mikil vakning í þeim málum sem snúa að fjölbreytni í allri ræktun. Má nefna bók eftir Sjöman & Anderson (t.d. bls. 28 og 29) sem gefin var út af Kew-Gardens árið 2023. Þar er lögð mikil áherslu á fjölbreytni í garð- og skógrækt. Þannig aukast líkurnar á að skógar og trjáreitir geti staðist þær áskoranir sem loftslagsbreytingar og hugsanlegir sjúkdómar kunna að valda á komandi árum og áratugum. Í bókinni er sérstaklega varað við tegundafábreytni. Það gerir umhverfið miklu viðkvæmara fyrir hugsanlegum breytingum vistkerfanna í komandi framtíð. Fjölbreytnin er þá eins konar trygging. Ef vaxtarskilyrði einnar tegundar versna þurfa aðrar tegundir að geta tekið við. Tekið er fram í bókinni að þessi fjölbreytni nái ekki bara til trjátegunda heldur einnig til mismunandi kvæma og erfðahópa innan sömu tegunda. Einnig þarf að huga að runnum og öðrum gróðri í skógunum. Fjölbreytni í tegundavali hentar öllu lífi í skóginum með því að skapa mismunandi vist sem stutt getur við dýralíf á öllum tímum árs.

Sums staðar getur skógurinn verið þéttur, annars staðar gisnari og rjóður og votlendi verða að fá sitt pláss ef vel á að vera. Skilyrði í jöðrum og rjóðrum skóga eru önnur en í þeim miðjum og það skapar ólíka vist. Undirgróður getur verið misjafn og ræðst meðal annars af ýmsum lífvana þáttum í vistkerfinu en einnig af þeim gróðri sem fyrir var á svæðinu áður en skógrækt hófst og þeim plöntum sem kann að vera plantað í skógana til skrauts og yndisauka. Allt getur þetta smám saman leitt til mikillar fjölbreytni. Það á ekki bara við um tré og annan gróður, heldur einnig allar aðrar lífverur í skóginum.
Þó er rétt að hafa í huga að margir villtir skógar á norðlægum slóðum eru oft fremur tegundafáir þegar kemur að trjám. Stór svæði barrskógabeltisins eru fyrst og fremst vaxin grenitegundum og örfáum öðrum trjátegundum. Villtir, íslenskir skógar eru fyrst og fremst með aðeins eina trjátegund: Birki. Í ræktuðum skógum má auka fjölbreytnina töluvert.
Gömlum og jafnvel dauðum trjám geta fylgt fjölbreyttar lífverur. Myndirnar voru teknar á Sveinseyri í Mosfellsdal í október 2022. Myndir: Sig.A.
Lagskipting skógarhússins
Skógur er ekki bara tré. Hann er ekki heldur bara landslag. Hann er heilt samfélag sem lifir á mörgum hæðum. Þetta samfélag köllum við vistkerfi. Því má líkja við hús eða jafnvel blokkir.
Mismunandi lög skógarins geyma mismunandi lífverur. Í því sambandi er gjarnan talað um fjögur eða sex hæðarlög: Trjálag, runnalag, graslag og svarðlag eru lögin kölluð ef við miðum við að þau séu fjögur. Þar fyrir neðan er feyrulag og jarðvegslag. Í sumum tilfellum geta sum þessara laga skarast eða tekið yfir misjafnlega margar hæðir í skógarhúsinu. Rétt er að skoða þessi lög aðeins nánar.

Stundum getur verið rétt að tala um að trjálagið sé margskipt. Trén geta verið í nokkrum hæðum og því eru mörkin við runnalagið ekki alltaf glögg. Svo eru til tegundir sem stundum mynda hávaxna runna en stundum lágvaxin tré og geta því verið í báðum lögunum. Hjá mörgum vekur trjálagið mesta athygli þegar komið er í skóga. Þar eru þakíbúðirnar í samfélaginu.
Runnalagið skiptir miklu máli og getur verið mjög fjölbreytt. Þar má oft sjá allskonar berjarunna og blómstrandi tré. Þar eru íbúðir sem eru neðan við efstu íbúðirnar í skógarhúsinu. Stundum vantar þetta lag í plantaða skóga en vanalega sjá fuglar um að draga úr þeim vanköntum með tíð og tíma.
Graslagið inniheldur allskonar grastegundir en einnig blómplöntur, byrkninga og aðra „smávini fagra“. Sumar tegundir, sem venja er að kalla runna, geta verið lægri en sumar blómplöntur. Því er ljóst að runna- og graslagið geta skarast. Þetta lag er næsta hæð ofan við jarðhæðina og er skógarbotninn í samfélaginu eins og hann birtist flestum gestum skógarins.
Þar fyrir neðan er jarðhæðin sem er örlítið niðurgrafin í skógarsamfélaginu. Það lag köllum við svarðlag. Þar eru mosar, fléttur og sveppir mest áberandi ásamt allskonar fallegum pöddum. Þessir íbúar skógarins eru smávaxnir og svo hógværir að þeir trana sér ekki mikið fram. Því þekkja færri gestir skógarins þessa íbúa sem geta þó verið hin fegurstu djásn ef grannt er skoðað og mikilvægi þeirra er engu minna en þeirra sem ofar búa.
Þar fyrir neðan er kjallarinn. Hann köllum við feyrulag. Það samanstendur af allskonar fersku eða rotnandi efni svo sem trjágreinum og laufi. Þar er einnig að finna rotverur sem sjá um að koma efnunum aftur í umferð. Þarna er unnið eftir mottóinu: Af jörðu ertu komin(n) og að jörðu muntu aftur verða. Niðurbrot á dauðum plöntum og dýrum stuðlar að uppsöfnun á lífrænum efnasambönum í jarðveginum og aukinni frjósemi.
Þar fyrir neðan er húsgrunnurinn sem við köllum jarðvegslag. Þar má finna sveppþræði og jarðvegsdýr. Lífvana þættir jarðvegslagsins, svo sem vatn, sýrustig og fleira, skiptir alla íbúa hússins miklu máli.

Flókið samspil getur verið milli þessara hæðarlaga og öll gegna þau mikilvægu hlutverki, hvert á sinn hátt. Oftast er það þannig að ekkert af þeim fjórum fyrstnefndu eru svo þétt að þau útiloki hvert annað. Þess vegna nýtist sólarorkan mjög vel í skógarvistkerfum. Í gegnum ljóstillífun flyst talsvert af orku sólarinnar niður í jarðveginn á formi lífræns kolefnis. Það leiðir til þess að uppsöfnun kolefnis verður ekki bara í greinum, stofni og rótum trjánna heldur einnig í jarðvegi. Allt stuðlar þetta að aukinni frjósemi. Þetta eru meðal þeirra þátta sem leiða til þess að almennt er meiri gróska í skógum en á skóglausu landi. Hvert lag fær sinn skerf. Hverju lagi fylgja svo ýmsar lífverur sem eru ekki endilega í næsta lagi fyrir ofan eða neðan. Ef aðeins er notaður alfakvarði og einungis taldar plöntur í graslaginu, segir það harla lítið um líffjölbreytnina í skógarhúsinu okkar.
Tré og annar gróður í skóginum ver skógarbotninn fyrir roföflum svo næring skolast ekki í burtu eins og gerist á ofnýttum, skóglausum svæðum. Því getur lífríkið í feyrulaginu og jarðvegslaginu í skógum verið umtalsvert meira en á bersvæði þótt þess sjáist ekki endilega merki ef aðeins æðplöntur eru taldar. Allt leiðir þetta til aukinnar líffjölbreytni, eins og vænta má. Þó er aðeins hluti þessa alls sýnilegur berum augum.

Lífríki skóga
Fjölmargar lífverur lifa í skógum. Til samans treysta þær á öll hæðarlögin í skóginum sem lýst er hér að framan. Þær treysta á krónur trjánna, greinar og stofna, runnana eða skógarbotninn sjálfan sér til lífsviðurværis. Í skógi má finna skjól, fæðu, mismunandi raka og fjölbreytt búsvæði. Lífsskilyrðin breytast með hæð skógarins, þéttleika, tegundum og aldri. Samhliða þeim breytingum geta orðið breytingar á líffélagi skógarins.
Hver tegund er aðlöguð sinni vist. Raki og birta geta verið mismunandi eftir því hvar í skógarhúsinu lífverurnar búa og krónurnar hafa gjarnan allt aðra vist en sjálfur skógarbotninn. Við sögðum frá því í pistli okkar um strandrauðviði að vistkerfið í krónum þeirra er gjörólíkt vistkerfinu sem er undir þeim. Þannig er það oft í skógum þótt vissulega tengist þessi vistkerfi og munurinn getur verið misjafnlega mikill eftir því um hverskonar skóga er að ræða.
Samkvæmt Wohlleben (2016) hafa tiltölulega fáar og litlar rannsóknir verið gerðar á lífinu í krónum trjáa. Ástæðuna segir hann einfaldlega vera þá að mun auðveldara er að rannsaka lífið í neðri lögum skógarins. Þá þarf ekki krana og dýr tæki eins og þegar efstu lögin eru skoðuð. Í sumum rannsóknum hefur verið gripið til stórtækra aðgerða til að halda kostnaði niðri, ef marka má Wohlleben. Því til sannindamerkis benti hann á merkilega rannsókn frá árinu 2008. Þá skoðaði Dr. Martin Goßner, ásamt félögum sínum, elsta og stærsta tréð í Skógarþjóðgarði í Bæjaralandi (Nationalpark Bayerischer Wald). Tréð var sex hundruð ára gamalt og eftir því stórt og mikið. Það var um 52 m hátt þintré með tæplega tveggja m þvermál í brjósthæð. Til að kanna hvaða skordýr, áttfætlur eða aðrar pöddur lifðu hátt uppi í þessu eina tré spreyjuðu rannsakendur skordýraeitri sem kallast pyrethrum á greinarnar. Árangurinn lét ekki á sér standa og allskonar smádýr hrundu dauð á jörðina. Talin voru 2041 dýr af 257 tegundum þennan morgun í þessari einu krónu. (Müller og félagar 2009).
Samt er það svo að margir líffræðingar telja að almennt búi fleiri tegundir smádýra í mörgum lauftrjám en flestum barrtrjám eins og í þessum eina þin í Bæjaralandi. Þannig segir Shrubsole (2022, bls. 160) að á greni á Bretlandseyjum nærist 37 tegundir skordýra en á eikartrjám 284 tegundir. Greni er af sömu ætt og þinurinn sem nefndur er hér að framan. Þannig að þarna virðist muna töluverðu á bresku greni og þýskum þin. Mismunurinn liggur fyrst og fremst í því að í þininum voru ekki bara pöddur sem átu af trénu, heldur einnig pöddur sem átu aðrar pöddur. Þær voru hluti af líffélagi þessa eina trés þar sem aðeins sum dýrin næra sig beint á trénu. Þau smádýr verða svo fæða fyrir önnur dýr þar sem hver étur annan. Öll þessi smádýr eru hluti af líffjölbreytileika skóga og geta myndað flókið og forvitnilegt líffélag og margvíslegar fæðukeðjur og fæðuvefi.
Tvær myndir úr greininni sem vísað er í hér að ofan. Báðar eru teknar 14. júní 2008. Þá fyrri tók Heiner Müller-Elsner en þá seinni Ulrich Jansen. Á henni sést mannvera í trénu og má ráða stærð trésins af henni. Við mælum ekkert endilega með þessari aðferð til að telja pöddur í skógi.
Við gerum ráð fyrir að líffjölbreytni þeirra skordýra og áttfætlna sem lifa á Íslandi sé eitthvað minni en nefnt er hér að ofan. Við þetta bætast smærri og stærri dýr sem teljast hvorki til skordýra né áttfætla, svo sem lindýr og hvers kyns ormar. Einnig dýr sem lifa í skógarbotninum að ógleymdum plöntum, sveppum og öðrum lífsformum.
Þetta litla dæmi segir til um hversu varlegt er að treysta eingöngu á talningu háplantna á tilteknu svæði og tímabili til að meta líffjölbreytni vistkerfa. Allt þetta líf var í aðeins einu tré.

Votlendi í skógum
Það væri sem að bera í bakkafullan lækinn að fjalla enn einu sinni um votlendi og skóga. Það höfum við gert í nokkrum pistlum eins og dyggir lesendur okkar vita. Við getum þó ekki stillt okkur um að segja frá því að til eru tré sem mynda eins konar sýnishorn af votlendi uppi í trjákrónunum. Það höfum við ekki nefnt áður. Þetta getur til dæmis gerst þegar trjástofnar klofna eins og stundum gerist á Íslandi. Í sárið getur safnast örlítið vatn og í þessa litlu polla geta smáar flugur verpt eggjum sínum. Í hinum stóra heimi mynda svona litlir pollar eigin vistkerfi og fæðuvefi. Sérstakar bjöllur éta lirfurnar sem skríða úr eggjum flugnanna en talið er að þær þrífist á gerlum í pollunum sem aftur lifa á hvers kyns gruggi sem berst í vatnið (Wohlleben 2016). Þetta er lítið dæmi um hversu fjölbreytt og skemmtileg vistkerfi skóga geta verið.
Raki í trjákrónum getur einnig haft mikil áhrif á þær ásætur sem vaxa í skógum. Í regnskógum getur fjöldi ásæta verið ótrúlega mikill. Sumar þeirra, eins og til dæmis orkideur, eru ræktaðar sem stofublóm á Íslandi. Við höfum birt tvo stutta pistla um ásætur. Annan um ásætur í erlendum skógum, hinn um ásætur á íslenskum trjám.
Í bók sinni The Lost Rainforests of Britain notar höfundurinn Guy Shrubsole (2022) einmitt gerð ásæta, ásamt fleiri þáttum, til að meta hvort um norðlæga regnskóga sé að ræða. Ef marka má niðurstöður bókarinnar má gera ráð fyrir að á Íslandi ættu að vera regnskógar á suðausturhluta landsins. Ef til vill er það rétt. Með tíð og tíma munu skógar á þeim slóðum hugsanlega fá allt annað útlit en til dæmis skógar í Eyjafirði, jafnvel þótt að hluta til geti sömu trjátegundir vaxið í þeim. Eykur það enn á líffjölbreytni landsins.
Sumar af þeim ásætum sem þekktar eru úr regnskógum Bretlandseyja geta líka þrifist í þurrara loftslagi ef trén standa nærri ám. Við þær er nægur raki. Hér má sjá mosa og burkna sem vaxa við árbakka. Á bakkanum vex hlyntré og á greinunum, sem slúta yfir ána, má einnig sjá burkna og mosa. Myndir: Sig.A.
Dauði skógar
Tré sem fellur hefur áhrif á vistkerfið í skógarbotninum. Þá breytist birtan og rakastigið, sumar plöntur hafa beðið lengi eftir svona tækifæri á meðan aðrar eiga á hættu að verða undir í samkeppninni. Sama á við um hin fjölbreyttu lífsform sem þrífast í gróðrinum.

Tré drepast misjafnlega hratt. Sum, eins og til dæmis reynitré, verða sjaldan mjög gömul. Þegar þau eru um 60 ára gömul má búast við að sveppur sem kallast reyniáta fari að herja á greinar og stofna. Fyrst drepast stöku greinar, svo stofninn í heild. Hann tekur að rotna innan frá. Að lokum fellur tréð til jarðar og sundrendur vistkerfisins, sveppir, skordýr og gerlar, endurvinna efnin í þeim. Allan þennan tíma breytist líffélag trésins og jafnvel í dauða sínum eykur það fjölbreytnina (WSL 2025). Önnur tré verða miklu, miklu eldri og breytingin sem þróun þeirra og þroski hefur á vistkerfið gerist mun hægar en hjá birki, reyni, víði og öðrum skammlífum trjám. Þetta skiptir miklu máli í þroskuðum skógarvistkerfum. Í heiminum öllum er talið að fimmta hvert dýr og sama hlutfall planta séu háð dauðum viði á einn eða annan hátt (Wohlleben 2016).

Það er ekki bara þannig að tré drepist, fyrr eða síðar, úr elli eða einhverju öðru. Alltaf verður einhver skyndidauði í skógum. Hann getur til dæmis orðið vegna stormfalls, sjúkdóma eða meindýra. Í þroskuðum vistkerfum hefur þetta að jafnaði sáralítil áhrif á heildina en þeim mun meiri áhrif á einstök svæði.
Stórt tré sem fellur breytir mjög miklu á afmörkuðum stað. Dýr og sveppir sem treysta á þann vökva og þær sykrur sem finna má í trénu verða svipt lífsviðurværi sínu. Þær verða að finna sér önnur búsvæði eða drepast. En einn, eða jafnvel margir, koma í annars stað. Lífverurnar eiga misjafnlega erfitt með að takast á við þetta verkefni. Má nefna að skógarfuglarnir geta auðveldlega fært sig en ásætur, sveppir og ýmis smádýr lenda í vanda. Á sama tíma geta breytingar í skógarbotninum orðið mjög dramatískar enda breytast lífvana þættir vistkerfisins í einni svipan. Þeir hafa svo áhrif á líffélagið á hverjum stað. Rétt er einnig að hafa í huga að í skógi er dánartíðni trjáa óháð aldri þeirra. Til samanburðar er hæsta dánartalan í elstu aldurshópunum en hjá fiskum er hún að jafnaði hæst hjá yngstu aldurshópunum. Hjá trjám í skógi er dánartala jöfn í öllum aldursflokkum (Ágúst 2025). Þetta er mikilvægt því rotverur hafa þess vegna alltaf næga fæðu sem eykur á líffjölbreytni.

Dauðu trén
Við höfum áður sagt frá því í sérstökum örpistli að dauð tré eru mjög mikilvæg í vistkerfum skóga. Fyrir þá sem lesa þýsku má benda á þessa síðu sem heitir Totholz und alte Bäume. Þar má finna nokkrar greinar um efnið.

Um leið og tré fellur í skógi mynda bæði stofn og rætur átveislu fyrir þúsundir sveppa, skordýra og smærri lífvera. Hver tegund er sérhæfð í sinni vist og ein tegund tekur við af annarri uns ekkert verður eftir af trénu, nema minningin ein. Það getur þó tekið drjúgan tíma. Á meðan getum við skoðað og dáðst að þeim lífsformum sem sveppir og pöddur mynda í dauðum við. Það má jafnvel greina orrustuvelli þar sem mismunandi tegundir sveppa takast á og verja sína fæðu og sitt yfirráðasvæði. Ef rotnandi viður er sagaður í sundur má stundum sjá ljósa og dökka liti sem sveppþræðir mynda í viðnum. Á milli þeirra er næstum svart lag sem sveppirnir mynda sér til varnar. Þetta dökka lag er eins konar víglína sveppanna (Wohlleben 2016).
Við hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga reynum að halda stígum í skógum okkar hreinum og greiðfærum og stundum hreinsum við nágrenni þeirra. Fjær skiljum við eftir brotnar greinar og fallna stofna, enda eru þeir mikilvægur partur af vistkerfinu. Dauðir, fallnir stofnar, sérstaklega þeir digru, auka mjög á líffjölbreytni í skógum. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að skógar eru skógar en ekki skrúðgarðar. Það á ekki að hirða skóga eins og skrúðgarða. Í skógum gildir að hafa þá viljandi villta. Allt í nafni fjölbreyttari vistkerfa og aukinnar líffjölbreytni. Það skilar sér í auknum vexti og meiri grósku, sem aftur hefur áhrif á þá þætti sem stuðla að enn meiri líffjölbreytni. Fjölbreytnin í skógarhúsinu eykst.

Að lokum
Í þessum pistli höfum við lýst mismunandi lögum skógarins og drepið á mismunandi kvarða sem nýttir eru til að lýsa líffjölbreytni. Við höfum bent á að líffjölbreytni er almennt hvergi meiri en í þroskuðum skógarvistkerfum. Vistkerfi skóga eru margbrotin og breytilega í tíma og rúmi. Ef rétt er að staðið má fullyrða að því meiri skógar sem vaxa upp, þeim mun meiri verður líffjölbreytnin. Því er alveg óþarfi að benda á hrunin vistkerfi og telja að þau beri að vernda í nafni líffjölbreytileika. Það er engin sérstök ástæða til að vegsama eymdina. Sérstakar þakkir á Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir skildar fyrir vandaðan og góðan yfirlestur.

Heimildir og ítarefni
Ágúst H. Bjarnason (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla 4. desember 2025)
Jörg Müller, Martin Goßner, Theo Blick, Herbert Nickel, Johannes Bail, Dieter Doczkal, Axel Gruppe, Andreas Floren, Ulrich Simon & Stefan Schmidt (2009): Wie viele Arten leben auf der älteste Tanne des Bayerischen Walds? AFZ-Der Wald 4 bls. 164-165. Sjá: (PDF) Wie viele Arten leben auf der ältesten Tanne des Bayerischen Waldes?
Guy Shrubsole (2022): The Lost Rainforests of Britain. William Collins. An imprint of HarperCollinsPublishers. London SE1.
Henrik Sjöman & Arit Anderson (2023): The Essential Tree Selection Guide for climate resilience, carbon storage, species diversity and other ecosystem benefits. Filbert Press & Royal Botanic Gardens, Kew.
Steindór Steindórsson frá Hlöðum (1950): Skógar í Eyjafirði. Drög til sögu þeirra. Í: Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1950 bls. 49-81. Reykjavík 1951.
Peter Wohlleben (2016): The Hidden Life of Trees. What They Feel, How they Communicate. 21. kafli. David Suzuku Institute. Greystone Books. Vancouver, BC, Canada.
WSL, Forschungsanstalt für Wald, Schnee und Landschaft (2025): Totholz und alte Bäume – kennen, schützen, fördern: Sjá: WWW.totholz.ch. Birt á vef þann 12. desember 2015.



















Comments