top of page

Ásætur á trjám á Íslandi

Updated: Apr 10, 2023

Í klassískri vist- og líffræði er talað um þrennskonar sambýli lífvera. Gildir það jafnt um dýra- og plönturíkið.

Í fyrsta lagi má nefna sambýli þar sem aðeins annar aðilinn hagnast en hinn bíður tjón af. Kallast það sníkjulífi.

Í annan stað má nefna sambýli þar sem annar aðilinn hagnast en hinn aðilinn kippir sér ekkert upp við sambýlið. Kallast það gistilífi.

Þriðja gerðin af sambýli er þar sem báðir aðilarnir hagnast af sambýlinu. Kallast það samhjálp.

Rétt er að taka það fram að stundum eru mörkin á milli mismunandi sambýla ekki alveg ljós. Það getur jafnvel verið að ein gerð sambýlis þróist í aðra.


Fléttur, bæði blaðfléttur og hrúðurfléttur eins og á þessari mynd, eru myndaðar með samhjálp sveppa og þörunga. Flétturnar eru svo ásætur á þessu birkitré.


Við ætlum nú að beina kastljósinu að gistilífi. Verður það gert í tveimur pistlum. Í hinum fyrri verður sjónum fyrst og fremst beint að gistilífi í íslenskum skógum en í hinum síðari, sem birtist að viku liðinni, verður kastljósinu beint til útlanda. Þá verður meira fjallað um háplöntur sem þróast hafa sem ásætur. Sumar þeirra eru ræktaðar á Íslandi sem stofuplöntur.

Mosi og grænþörungar á stofni síberíuþyrnis, Crataegus sanguinea, sem stendur við læk. Þar virðist nægur raki fyrir þessar ásætur.


Skilgreining

Gistilífi er sambýli sem er í því fólgið að annar aðilinn hagnast en hinn aðilinn býður hvorki skaða né nýtur góðs af sambýlinu. Sá aðili sem hefur einhvern hagnað af sambýlinu kallast ásæta en aðilinn sem hann lifir á kallast hýsill. Í dýraríkinu má nefna hrúðurkarla sem festa sig á hvali sem dæmi um gistilífi. Það virðist ekki trufla hvalinn (hýsilinn) neitt en hrúðurkarlinn (ásætan) hefur betri aðgang að næringu en ef hann væri fastur við stein.

Ásætur í plönturíkinu eru eitthvert form af plöntum sem vaxa á yfirborði annarra plantna. Hýslarnir eru mjög oft tré. Oftast nær fá ásætur bæði vatn og næringu beint úr andrúmsloftinu eða með regnvatni sem lekur niður trjástofnana. Þær gegna oft og tíðum mikilvægu hlutverki í hringrás næringarefna og auka fjölbreytni þeirra skóga sem þær vaxa í. Sumar eru að auki mikilvægar fyrir dýralíf í þeim skógum þar sem þær vaxa. Ef ásætur taka upp á því að ræna næringarefnum frá trénu eða öðrum hýslum kallast þær ekki lengur ásætur, heldur sníkjuplöntur. Slíkt sambýli kallast sníkjulífi og er utan við efni þessara tveggja greina.

Í skógum er það oftast nær svo að eldri plöntur eru líklegri til að hafa ásætur en yngri plöntur. Sama máli gildir um eldri hluta trjáa. Þær hafa frekar ásætur en ungar greinar í miklum vexti.

Ásætur eru mun fjölbreyttari sunnar á heiminum og mest áberandi eru þær í hvers konar regnskógum. Sumar ásætur finnast aðeins á trjám, jafnvel aðeins tilteknum trjám. Aðrar vaxa einnig á klettum og steinum, fúnum viði og jafnvel á jörðu niðri á mismunandi undirlagi.


Mismunandi tegundir af skófum og grænn mosi á reynitré í kirkjugarðinum á Akureyri í febrúar 2022.


Orðið

Ásæta er sett saman úr atviksorðinu „á“ og nafnorðinu „sæti“. Ásæta er því einhver eða eitthvað sem situr á einhverju öðru (hýslinum). Orðið ásæta er ekki sett saman úr nafnorðunum „ás“ og „æta“. Það væri þá lífvera sem borðar ása. Það er því munur á á+sæta og ás+æta. Þessi pistill fjallar ekki um slíkar ætur.






Á alþjóðamálum eru ásæturnar kallaðar epiphyte. Orðið er sett saman út grísku orðunum epi, sem merkir á eða ofan á og phyton sem merkir planta. Íslenska heitið vísar í alþjóðaorðið. Planta sem situr á annarri plöntu = ásæta.


Ásætur á íslenskum trjám

Í íslenskum skógum finnum við fulltrúa flestra höfuðfylkinga plönturíkisins, en aðeins fáar þeirra sitja almennt á trjánum. Það eru þær sem við köllum ásætur. Hér á landi eru það nær eingöngu fléttur og í minna mæli mosar. Einkum eru ásætur á gömlum trjám. Stundum má einnig sjá grænþörunga á trjám og vaxa þeir þá sem ásætur.


Ásætur eru oft minna áberandi á barrtrjám á Íslandi en lauftrjám. Einkum þeirra sígrænu. Myndin er Garðsárreit, tekin í október. Sjá má þörunga og fléttur á stofnum grenitrjánna ef vel er að gáð.


Fyrir kemur að tré eða runnar spíri í glufum eða holum á öðrum trjám. Það er þó á mörkunum að slík „flugtré“ geti kallast ásætur því þær þurfa jarðveg til að geta vaxið eitthvað að ráði. Þetta er þó furðualgengt ef vel er að gáð. Þá er að líta til þess að tegundir sem mynda ber treysta á að fuglar dreifi fræjunum. Þeir eiga það til, eins og flestir vita, að dvelja í trjám. Því er það ekki að undra þótt fræ tegunda eins og reynitrjáa og rifsrunna lendi stundum í einhvers konar glufum á trjám og spíri þar.


Rifsplanta vex á íslensku birkitré. Hún á ekki bjarta framtíð á þessum stað. Á myndinni má einnig sjá einhverja glæðutegund, Xanyhotis spp. sem eru algengar fléttur á Íslandi.


Reynir reynir að vaxa í birki. Stundum eru svona tré kölluð flugtré.


Fléttur

Hörður Kristinsson skrifaði mjög góða grein í Skógræktarritið árið 1998 um fléttur á trjám á Íslandi. Greinin er í Ársriti Skógræktarfélags Íslands það sama ár. Segir þar frá helstu tegundum sem finna má sem ásætur. Algengastar eru þær á birki en finnast einnig á öðrum tegundum svo sem ösp, reyni en sjaldnar á ýmsum barrtrjám. Eins og við er að búast er greinin mjög upplýsandi. Áhugasömum er bent á greinina og myndirnar sem í henni eru. Hægt er að skoða greinina hér en því miður eru myndirnar ekki eins góðar og í prentuðu útgáfunni.

Rétt er líka að benda á Sveppabókina eftir Helga Hallgrímsson. Þar er meðal annars fjallað um fléttur, enda eru þær nú taldar til sveppa. Hjá honum kemur fram að um fimmtungur sveppa lifir í sem sambýlislífverur í fléttum.

Fléttur eru sambýlislífverur af þeirri gerð sem kallast samhjálp. Þær eru oftast settar saman af sveppum og grænþörungum en stundum eru það blágrænar bakteríur (eða blágrænir þörungar) sem koma í stað grænþörunganna. Til þægindaauka skulum við bara kalla þetta þörunga. Þörungurinn myndar sérstakt lag, svokallað þörungalag og sér um ljóstillífun. Sveppurinn umlykur þörunginn og myndar yfirborð fléttunnar. Þörungurinn lifir þarna í þægilegu og vernduðu umhverfi og sér hýsli sínum fyrir sykrum með ljóstillífun. Af þessu leiðir að fléttur líta allt öðru vísi út en venjulegir sveppir. Þær eru miklu flatari og vaxa ofanjarðar enda hentar það þörungunum betur til ljóstillífunar. Þegar fléttan er þurr er sveppalagið illa eða ekki gagnsætt en það breytist um leið og hún blotnar. Þá getur þörungurinn farið að ljóstillífa. Meirihluti allra fléttna á Íslandi vex á beru grjóti eða í fremur rýru mólendi. Sumar þeirra geta einnig vaxið á trjám og það eru algengustu ásætur Íslands.

Fléttur sem vaxa á trjám pikka því í tvö hólf af þremur þegar kemur af sambýli lífvera og fjallað er um í upphafi pistilsins. Þær grundvallast á samhjálp og stunda gistilífi á trjám.


Nokkrar tegundir af fléttum á gráelri, Alnus incana, nálægt Gömlu Gróðrarstöðinni.


Samkvæmt venju er fléttum oftast skipt í þrjá hópa eftir útliti. Þær eru kallaðar blaðfléttur (einnig nefndar skófir), runnafléttur og hrúðurfléttur. Af þeim eru þær fyrstnefndu mest áberandi. Þær má þekkja á því að þær eru aðeins fastar við börkinn með smáum rætlingum svo auðvelt er að fletta þeim af án þess að skaða börkinn. Hrúðurfléttur eru ekki eins áberandi en miklu algengari. Þær eru samvaxnar berkinum og því er ekki hægt að fletta þeim af án þess að skaða börkinn. Minnst er af runnafléttunum. Þær er nær eingöngu að finna á birki í inndölum á Suð-Austurlandi og Austurlandi. Þær þurfa loftraka og skjól til að þrífast. Má búast við að með meiri skógrækt geti þeim fjölgað. Meira en 100 tegundir fléttna hafa fundist á birki á Íslandi (Hörður Kristinsson).



Starra Heiðmarsson, fléttufræðingur kannaði fyrir okkur hvort svona skrár hefði verið uppfærðar eða hvort auðvelt væri að draga upplýsingarnar fram. Svo er ekki. Ástæðan er sú að ekki hefur alltaf verið skráð á hvers konar undirlagi fléttur hafa fundist. Þess vegna hefur þessi tala sem Hörður nefnir og hefur eftir enn eldri heimildum (meira en 100 tegundir) ekki verið uppfærð. Það sama á við um mosa. Sumir þeirra geta vel vaxið á trjám ef aðstæður eru heppilegar. Því má gera ráð fyrir að fjöldi fléttna sem vex á trjám sé mun meiri en þessar 100 tegundir. Er hér með bent á það sem verkefni fyrir fróðleiksfúsa líffræðinema að greina og telja ásætur á íslenskum trjám. Fjöldi þeirra er óþekktur.

Samkvæmt vefsíðunni Flóra Íslands; http://floraislands.is/ eru nú þekktar 755 tegundir fléttna á Íslandi og 606 tegundir mosa. Báðir þessir hópar eiga fleiri tegundir í flórunni en blómplöntur og byrkningar til samans.


Mosar


Þær rúmlega 600 tegundum af mosum, sem þekktir eru á Íslandi, geta vaxið á margskonar undirlagi. Þeir geta vaxið á og í jarðvegi, á steinum, klettum, steinsteypu og flestum lífrænum efnum. Þar á meðal er trjáviður, bæði lifandi og dauður. Því má oft sjá mosa sem ásætur á trjám, einkum gömlum trjám. Grasafræðingurinn Ágúst H. Bjarnason skrifaði og gaf út stórgóða bók um mosa (sjá heimildaskrá). Ekki kemur þar fram hversu margar tegundir mosa vaxa sem ásætur, en á bls. 18 stendur: „Allnokkrar mosategundir vaxa á trjábolum. Þær kallast ásætur og hafa engin áhrif á tréð.




Myndirnar hér til hliðar og að neðansýnir mosa á reynitré í Lystigarðinum. Einnig má greina fléttur.




Mosar eru með allra elstu plöntum á landi. Samkvæmt áðurnefndri heimild hafa þeir ekki allir þróast frá sama forföður. Þeir eru það sem hann kallar „hjáættaðir“. Það merkir að þeir geta átt sér fjölbreyttan uppruna. Því má skipta mosum í þrjár mismunandi fylkingar (ekki eina eins og oftast er gert) eftir uppruna og hver fylking er auðþekkt þegar vel er að gáð. Þær eru, samkvæmt sömu heimild, blaðmosar, flatmosar og hornmosar. Á Íslandi vex aðeins einn hornmosi og óþarfi að fjalla meira um hann, en bæði flatmosar og blaðmosar geta lifað sem ásætur á trjám. Blaðmosar virðast samt miklu algengari sem ásætur. Þeir sem vilja fræðast meira um mun tegundanna er bent á títtnefnda bók.

Mosar og fléttur geta vaxið á margskonar yfirborði.



Mosar þrífast ekki bara sem ásætur á Íslandi, heldur um nær allan heim þar sem raki er nægur. Þessi er í gróðurhúsi í Edinborg þar sem safnað er saman plöntum úr regnskógum.


Mos (grænn) og fléttur (gráar) á reynitré.


Lærdómur af fléttum

Eins og vænta má eru til fléttur í útlöndum sem vaxa á trjám. Hörður segir frá því í grein sinni að fléttuflóra Íslands sé mun fátæklegri en í löndum á svipuðum breiddargráðum. Sumar algengustu tegundir af fléttum í Skandinavíu og Bretlandseyjum finnast ekki hér á landi. Þetta eru svipaðar niðurstöður og þegar mosa- eða blómplöntuflóran er skoðuð. (Hörður Kristinsson)

Sums staðar á Norðurlöndum hefur mönnum tekist að læra að lesa ýmsa þætti náttúrunnar með því að skoða fléttur á trjám. Það getur verið villugjarnt í stórum og víðfeðmum birkiskógum. Sagt er að margir samar og aðrir íbúrar norðurslóða geti vel áttað sig (í orðsins fyllstu merkingu) í víðfemum birkiskógum með því að skoða fléttur. Sumar fléttur þurfa litla birtu og finnast frekar á stofnum sem snúa í norður á meðan aðrar vilja meiri birtu og vaxa sunnan á trjánum. Því er hægt að halda áttum ef menn þekkja fléttur.

Í áður nefndri grein Harðar er sagt frá flétta sem nefnist Melanelia olivace. Hún er mjög algeng á birki á Norðurlöndum. Hún er notuð sem mælikvarði á snjódýpt þar sem hún vex ekki á þeim hluta stofnsins sem er undir snjó á vetrum. Þessi flétta hefur ekki fundist á Íslandi, en frænka hennar, Melanelia exasperata, sem kallast birkiskóf á íslensku, er hér algeng. Hún segir samt ekkert til um snjódýpt og er lítt áberandi á Norðurlöndum.


Mosi og fléttur á stofni reynitrés. Því miður má einnig sjá ummerki um reyniátu, sem er fúasveppur og getur drepið tréð. Hann flokkast ekki sem ásæta.

Helgi Hallgrímsson segir frá því í bók sinni að í seinni tíð hafi komið í ljós að fléttur í þéttbýli og næsta nágrenni borga geta orðið hart úti vegna loftmengunar. Því hefur fléttuflórunni stórhrakað í flestum stórborgum heimsins. Flétturnar þola mengun mjög misvel. Sumar láta undan síga á undan öðrum. Því hafa sums staðar verið búnir til kvarðar með fléttutegundum til að meta mengun í borgum. Þannig er hægt að nýta fléttuflóruna sem mengunarmæli.

Rétt er líka að segja frá fléttum af ættkvíslinni Xanyhotis spp. Þær kallast glæður á íslensku og til nokkrar líkar tegundir. Þær eru orangegular á litinn og mjög áberandi. Til að þær geti þrifist þurfa þær mikið nitur. Það fá þær gjarnan úr fugladriti. Því má gjarnan finna þær þar sem fuglar setjast, svo sem á hornstaurum í girðingum, trjám og klettum og steinum sem standa hærra en umhverfið. Þessar fléttur má nota til að meta hvar fuglar hafast við.



Skaði af fléttum og mosum

Oft er það svo að fólk telur að fléttur og mosar sem vaxa á trjám hljóti að skaða trén sem þær vaxa á. Svo er ekki. Þær eru ásætulífverur en ekki sníkjuplöntur. Trén eru aðeins undirlag fyrir flétturnar. Þær vaxa á berkinum en taka hvorki vatn né næringu frá trénu. Aftur á móti er það svo að þegar tré eru orðin gömul og fúin kemst stundum aukin birta að fléttunum sem þá fara að vaxa meira en áður. Að auki endurnýjar trjábörkur trjáa sem er í miklum vexti sig hraðar en svo að flétturnar geti komið sér fyrir. Því geta fléttur og mosar verið meira áberandi á gömlum og deyjandi trjám en trjám í góðum vexti. Það er samt ekki fléttunum eða mosanum að kenna.


Dauð grein þakin ásætum. Það er ekki ásætunum að kenna að greinin drapst.


Fléttur á bergfuru. Oft er minna af fléttum á sígrænum barrtrjám en lauftrjám á Íslandi.

Klifurplöntur

Það er ekki langur vegur frá ýmsum tegundum klifur- og vafningsplantna yfir í ásætuplöntur. Munurinn er fyrst og fremst sá að almennt hafa ásætur ekki rætur í jarðvegi, nema hugsanlega þeim litla jarðvegi sem sest á börk trjáplantna. Aftur á móti eru mörkin ekki alltaf alveg augljós enda hefur náttúran ekkert endilega fyrir því að framleiða plöntur sem passa í þau hólf sem mannfólkið hefur búið til. Flokkunin er alltaf mannanna verk og ætlað að auðvelda okkur skilning á náttúrunni. Í garðaflóru landsins má finna ýmsar klifurplöntur sem vel geta þrifist í skóglendi. Almennt teljast þær samt ekki ásætur.


Bergflétta í Grasagarðinum í Laugardal. Almennt teljast klifurplöntur, sem hafa rætur í jarðvegi, ekki ásætur. Munurinn er samt ekki mikill þar sem þær festa sig við trjástofna.


Aðrar ásætur á Íslandi

Rétt er að halda því til haga að til eru ásætuplöntur í vatni. Það er að vísu utan efnis þessa pistils sem fjallar um ásætur á skógartrjám en upplýsingarnar fá samt að fljóta með. Það eru meira að segja til ásætur á botnföstum þörungum hafsins. Þannig er rauðþörungurinn Þangskegg Polysiphonia lanosa algeng ásæta á brúnþörungnum klóþangi Ascophyllum nodosum í íslenskum fjörum.

Sumar þeirra ásætuplantna sem þrífast í vatni eru gjarnan ræktaðar í fiskabúrum þar sem þær festa sig við greinar eða steina. Að auki má nefna að mjög margar tegundir inniblóma eru í raun ásætuplöntur frá útlöndum. Við skoðum það betur í næstu viku.


Ásætuplanta í fiskabúri vex á trjárót í búrinu. Á plöntunni vaxa einnig grænþörungar, eins og sjá má. Þeir eru ásætur á ásætu!


Eftirmáli

Nú styttist í sumarið. Dagurinn er orðinn lengri en nóttin og lengist dag frá degi. Samt er það svo að við verðum að bíða aðeins lengur eftir að gróður skóganna taki verulega við sér. Á meðan getum við samt gengið um þessa sömu skóga og notið þeirra. Þá er upplagt að skoða ásæturnar. Þær eru ekki eins fjölbreyttar hér á landi og sums staðar úti í hinum stóra heimi en engu að síður skreyta fléttur og mosar skógana allt árið.

Höfum það í huga við næsta göngutúr út í skóg.


Allar myndirnar í pistlinum tók höfundur.


Helstu heimildir

Ágúst H. Bjarnason (2018): Mosar á Íslandi. Gefið út af höfundi.


Helgi Hallgrímsson (2010): Sveppabókin. Íslenskir sveppir og sveppafræði. Skrudda.


Hörður Kristinsson (1998): Fléttur á íslenskum trjám. Í Skógræktarritinu 1998. Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Bls. 34-59


Starri Heiðmarsson: Munnleg heimild 25. mars 2020.

766 views

Recent Posts

See All
bottom of page