top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

ʻŌhiʻa Lehua

Eins og tryggir lesendur okkar vita mætavel höfum við ekki bara áhuga á þeim trjám og skógum sem vaxa á Íslandi. Við höfum alveg sérlega mikinn áhuga á framandi trjám enda eru mörg þeirra ákaflega merkileg. Tré vikunnar að þessu sinni er eitt þeirra. Á alþjóðlega fræðimálinu heitir það Metrosideros polymorpha Gaudich. Þetta er einlend tegund á Hawaii og langalgengasta tréð á því framandi eylandi. Heimamenn kalla tréð ʻōhiʻa lehua en það hefur ekki hlotið íslenskt heiti. Þangað til gott heiti finnst notum við orð heimamenn yfir þetta fagra og heillandi tré. Við erum sannfærð um að eftir lestur þessa pistils þá munuð þið heillast jafnmikið af því og við í Skógræktarfélaginu.

Mynd af ʻōhiʻa lehua á Hawaii og hraunrennsli í fjarska. Myndina fengum við af facebooksíðunni RapidOhiaDeath Myndina tók H. Barnett.
Mynd af ʻōhiʻa lehua á Hawaii og hraunrennsli í fjarska. Myndina fengum við af facebooksíðunni RapidOhiaDeath Myndina tók H. Barnett.

Upphaf eyjanna

Eyjarnar sem mynda Hawaii urðu til við neðansjávareldgos yfir svokölluðum heitum reit eins og er undir Íslandi en eyjarnar eru ekki á flekaskilum eins og Ísland. Eyjarnar urðu að mestu til fyrir um 30 milljón árum og þar til fyrir um hálfri milljón ára. Eldvirknin hefur síðan haldið áfram að móta eyjarnar og bæta við þær um leið og sjórinn brýtur þær niður. Það hljómar kunnuglega í eyrum Íslendinga. Vitanlega voru eyjarnar alveg lausar við gróður þegar þær risu úr sæ órafjarri öðrum löndum. Smám saman bárust plöntur til eyjanna, væntanlega mest með fuglum. Hægt og rólega varð til einstakt lífríki með fjölmörgum einlendum tegundum plantna og dýra sem lengst af þróuðust án afskipta manna. Fjölbreytni gróðurs jókst svo til muna þegar landnám Pólynesa hófst fyrir um 1.000 árum að því að talið er. Evrópumenn komu svo seint á 18. öld og líkt og frumbyggjarnir þá fluttu þeir með sér bæði dýr og plöntur. Síðan hefur verið deilt um hvort aukinn fjöldi dýra og plantna merki meiri eða minni líffjölbreytni. Um þessar breytingar má lesa í þessari fréttaskýringu frá BBC.


Lýsing

ʻŌhiʻa lehua er óviðjananlega fallegt þegar það er í blóma. Utan þess tíma er það fyrst og fremst fjölbreytt. Þeir Hodel & Weissich (2012) segja að tréð sé líklegast vinsælasta innlenda tréð á Hawaii. Ef til vill skipar það svipaðan sess í huga eyjaskeggja og birkið gerir hér á landi. Báðar tegundirnar eru fjölbreyttar í útliti, algengasta tréð og vinsælt meðal almennings.

Börkurinn á þessari tegund er ákaflega misjafn á milli einstaklinga. Hann getur verið sléttur eða margsprunginn og allt þar á milli. Hann er stundum ljós, nánast gráhvítur, stundum í alls konar brúnum tónum og jafnvel mjög dökkur. Hann getur einnig breyst með aldri trjánna.

Trén verða að jafnaði 20 - 24 m á hæð er þau vaxa í dæmigerðum skógum eyjanna en verða miklu lægri ef þau vaxa stök eða á beru hrauni eða í mýrlendi (Friday & Herbert 2006).

Trén geta verið býsna fjölbreytt og mörg þeirra eru sérlega glæsileg. Þessa mynd af trénu fengum við af síðu sem heitir Tropical Plant Database.
Trén geta verið býsna fjölbreytt og mörg þeirra eru sérlega glæsileg. Þessa mynd af trénu fengum við af síðu sem heitir Tropical Plant Database.

Lauf

Laufin á ʻōhiʻa lehua eru gagnstæð á greinunum en geta verið nokkuð misjöfn að lögun. Laufin eru fagurgræn á litinn en þegar þau birtast eru þau mikið hærð. Hárin eru rauðgrá á litinn, þannig að ný blöð eru rauðleit eða rauðgul á litinn. Það eldist af þeim flestum er laufin vaxa. Til að auka á fjölbreytnina halda laufin á sumum trjánna áfram að vera mikið hærð er þau vaxa en á öðrum verða þau hárlaus með öllu. Sum lauf verða fremur þykk. Önnur tré hafa mun þynnri lauf sem tapa öllum sínum hárum og verða glansandi græn.

Vel kann að vera að vaxtarstaðir eða aðrir umhverfisþættir hafi áhrif á hvernig laufin líta út en þeir Clapp & Crowson (2025) segja að það liggi ekki fyrir. Síðar í þessum pistli segjum við frá því að til eru að minnsta kosti átta skilgreind afbrigði eða undirtegundir af þessari tegund sem eru á ýmsan hátt ólík. Meðal einkenna sem ákveðin afbrigði hafa eru mismunandi lauf. Laufin vaxa oftast utarlega á greinunum en yst á þeim birtist höfuðdjásn þessara trjáa. Um þau fjöllum við í næsta kafla.

Lauf og blóm á ʻōhiʻa Lehua sem vex í nýlegu basalthrauni. Myndina fengum við héðan.
Lauf og blóm á ʻōhiʻa Lehua sem vex í nýlegu basalthrauni. Myndina fengum við héðan.
Þessi tungumálakennsla er úr grein Hodel & Weissich (2012). Taflan geymir orðaforða sem lýsir sex litum blóma og tveimur gerðum laufa.
Þessi tungumálakennsla er úr grein Hodel & Weissich (2012). Taflan geymir orðaforða sem lýsir sex litum blóma og tveimur gerðum laufa.

Blóm

Mesta skraut þessara trjáa eru blómin. Þau myndast alveg yst á greinunum og eru einstaklega glæsileg. Þau vaxa mörg saman í þéttum sveipum og vaxa svo þétt að fljótt á litið mætti ætla að um sé að ræða eitt, stórt blóm, en svo er ekki. Saman mynda mörg blóm glæsilega heild sem lítur út fyrir að vera eitt blóm. Upp úr hrúgunni vaxa áberandi fræflar svo opin blóm minna einna helst á sæfífla. Fræflarnir verða um einn - þrír cm langir. Orðið lehua (seinni helmingur nafnsins ʻōhiʻa lehua) vísar í þessa fræfla sem eiga að minna á hár. Gyðja með sama nafni hafði óviðjafnanlega fallegt hár og eiga blómin að líkjast því.

Litir blómanna geta verið breytilegir milli trjáa. Til vinstri sér í óopnuð blóm. Þegar þau eru skoðuð sést að þetta eru mörg blóm sem mynda eina heild. Myndina fengum við héðan.
Litir blómanna geta verið breytilegir milli trjáa. Til vinstri sér í óopnuð blóm. Þegar þau eru skoðuð sést að þetta eru mörg blóm sem mynda eina heild. Myndina fengum við héðan.

Oftast eru blómin rauð en þau geta verið í ýmsum litum. Sum eru appelsínugul, gul, bleik eða hvít og önnur eru í einhverjum litatónum sem liggja þarna á milli. Hvítu blómin eru sjaldgæfust og því þykja sumum þau vera merkilegust (Friday & Herbert 2006, Clapp & Crowson 2025).

Algengast er að blómin á ʻōhiʻa lehua séu rauð. Myndina fengum við af þessari Facebooksíðu en því miður kemur ekki fram hver tók hana.
Algengast er að blómin á ʻōhiʻa lehua séu rauð. Myndina fengum við af þessari Facebooksíðu en því miður kemur ekki fram hver tók hana.

Blómin á hverju tré endast í nokkra daga og laða að sér margar tegundir fugla og skordýra sem sækja í hunangslöginn sem þau framleiða í miklu magni. Eyjarnar eru meðal annars þekktar fyrir að þar eru margir tugir glæsilegra, einlendra fuglategunda, sem hver og ein hefur aðlagast tilteknu búsvæði. Margar þessara tegunda eiga það sameiginlegt að sækja sér fæðu í blóm á ʻōhiʻa lehua og dreifa frjói þeirra í leiðinni (Clapp & Crowson 2025).

Þrjár einlendar fuglategundir sem allar treysta á þetta merkilega tré. Myndir (að ofan og niður) Jack Jeffrey, Robby Kohley og Jack Jeffrey. Myndirnar fengum við héðan.
Þrjár einlendar fuglategundir sem allar treysta á þetta merkilega tré. Myndir (að ofan og niður) Jack Jeffrey, Robby Kohley og Jack Jeffrey. Myndirnar fengum við héðan.

Þrátt fyrir að þessi trjátegund vaxi mjög hægt geta ung tré framleitt blóm. Jafnvel tveggja ára tré geta auðveldlega blómgast og hugað að næstu kynslóð. Mest er blómgunin í kjölfar regntímans, en stöku tré geta blómstrað á hvaða tíma ársins sem er. Það er mikilvægt fyrir fugla og skordýr sem árið um kring geta náð sér í sopa í þessi blóm. Þessi fögru blóm skipta miklu máli í menningu eyjarskeggja. Þau má til dæmis hnýta saman í blómakransa sem hengdir eru á fólk við ýmis hátíðleg tækifæri.

Blómarós dansar með kransa af blómum ʻōhiʻa lehua. Myndina fengum við héðan en hún er merkt Merrie Monarch Photo, Hawai‘i Magazine.
Blómarós dansar með kransa af blómum ʻōhiʻa lehua. Myndina fengum við héðan en hún er merkt Merrie Monarch Photo, Hawai‘i Magazine.

Þjóðsagan um blómin

Það er ekki að undra að svona fögur og fjölbreytt blóm rati í þjóðsögur. Eins og við höfum klifað á kalla heimamenn þetta tré ʻōhiʻa lehua. Stundum er fyrra orðið notað um tréð en seinna orðið um blómin sem á því vaxa. Orðið ʻŌhiʻa er einnig nafn á frægri persónu í þjóðsögum heimamanna á Hawaii. Eldfjallagyðjan Pelé hreifst mjög af ʻŌhiʻa. Vandinn var sá að ʻŌhiʻa var ástfangin af Lehua sem mun hafa verið með fallegra hár en allar aðrar gyðjur. Eldfjallagyðjunni Pelé líkaði það stórilla og varð sérlega afbrýðisöm. Eins og nærri má geta eru eldfjallagyðjur nokkuð geðstirðar og Pelé breytti ʻŌhiʻa í tré og Lehua í blóm. Öðrum guðum í guðagalleríi Hawaiibúa þótti þetta leiðinlegt og færðu þessa elskendur saman, þannig að blómin vaxa nú á trénu. Aðrar útgáfur segja að það hafi verið sjálf Pelé sem sá eftir öllu saman og sameinaði elskendurna á þennan hátt þegar hún hafði blásið aðeins úr sér. Saga þessi er til í mörgum útgáfum en er hér höfð eftir Clapp & Crowson (2025).

Við þetta má bæta að stundum er talið að Pelé sé ekki alveg búin að fyrirgefa ʻŌhiʻa. Þegar hún verður fúl út í hann þá lætur hún hraun renna yfir trén sem bera nafn hans (Friday & Herbert 2006).

Enn ein myndin af glæsilegum blómum þessa trés. Myndina fengum við af þessari Facebooksíðu.
Enn ein myndin af glæsilegum blómum þessa trés. Myndina fengum við af þessari Facebooksíðu.

Aldin

Ef allt gengur að óskum mynda blómin lítil ber sem verða þrír til tíu 10 mm í þvermál og minna á bláber að lögun og stærð en verða brún að lit er þau þroskast. Í hverju og einu eru mörg fræ. Í hverju grammi af fræjum eru um 1750 fræ samkvæmt Friday & Herbert (2006). Ef berin eru ekki étin geta fræin verið í aldinum á trjánum í allt að einu ári áður en þau falla af.

Bragðið heillar ekki mannfólkið á eyjunum. Berin eru eftirlátin fuglum og öðrum dýrum sem éta þau og dreifa fræjunum út um allt. Sum lenda á greinum annarra trjáa og spíra þar, önnur úti í nýlegum hraunum og spíra þar og enn önnur í skógarbotninum og spíra þar. Öll geta orðið að trjám.

Nærmynd af aldinum. Myndina fengum við héðan en hana eiga Forst & Kim Starr.
Nærmynd af aldinum. Myndina fengum við héðan en hana eiga Forst & Kim Starr.

Vöxtur

Ólíkt því sem ætla mætti með frumherjatré á Hawaii er þetta ekki hraðvaxta tré. Þvert á móti. Það vex hægt. Það leiðir til þess að viðurinn er ákaflega harður en ekki að sama skapi neitt sérlega sterkur. Sérstaklega vex það hægt á þverveginn. Það bætir aðeins um einum til þremur millimetrum við þvermál sitt á hverju ári að sögn Friday & Herbert (2006). Það hefur sjálfsagt eitthvað að gera með hvað viðurinn verður harður. Þeir Clapp og Crowson (2025) segja að meta megi aldur trjáa út frá þykkt stofna í brjósthæð. Þannig má áætla að tré sem er tæpir 40 cm í þvermál sé um 500 ára gamalt. Til eru tré sem eru meira en tveir metrar í þvermál. Þau hljóta því að vera orðin mjög gömul að sögn þeirra félaga. Vöxtur trjánna ræðst meðal annars af vaxtarstað. Sums staðar mynda þau aðeins runna, annars staðar þykkni af stærri stofnum og við bestu skilyrði mynda þau einstofna, stór tré. Þá geta þau orðið meira en 30 metra há með uppréttar greinar. Samt er ársvöxturinn ekki nema um 30 - 60 cm á ári. Það telst ekkert mjög mikið í hitabeltisskógum. Í skógunum hefur meðalvöxtur trjánna verið reiknaður 70 - 84 m³ á ha. Þar sem jarðvegur er óhentugur eru þessar tölur vitanlega miklu lægri (Friday & Herbert 2006).  

Ein af fjölmörgum myndum af ʻōhiʻa lehua eftir J.B. Friday. Þessa mynd má meðal annars finna í þessari grein.
Ein af fjölmörgum myndum af ʻōhiʻa lehua eftir J.B. Friday. Þessa mynd má meðal annars finna í þessari grein.

Upphaf vaxtar

Það er mjög algengt að þessi tré hefji líf sitt sem ásætur á trjám. ʻŌhiʻa lehua líkar nefnilega alveg stórvel við að fræið spíri uppi í trjákrónum annarra trjáa. Þar vaxa þau gjarnan og senda síðan loftrætur til jarðar. Fyrst eru þær örþunnar og minna jafnvel á gróft hár. Halda mætti að þetta hár vaxi niður úr einhvers konar hreiðri. Þessar loftrætur fanga raka úr umhverfinu.

Fleiri tegundir ættkvíslarinnar mynda sams konar loftrætur. Hér eru það loftrætur á Metrosideros excelsa sem vex á Nýja-Sjálandi. Myndina fengum við af þessari Wikipediusíðu.
Fleiri tegundir ættkvíslarinnar mynda sams konar loftrætur. Hér eru það loftrætur á Metrosideros excelsa sem vex á Nýja-Sjálandi. Myndina fengum við af þessari Wikipediusíðu.

Ef og þegar þessar rætur ná til jarðar harðna þær og mynda smám saman stofna (Clapp & Crowson 2025). Svipað fyrirbæri þekkist hjá mörgum öðrum trjám og höfum við meðal annars sagt frá því að þetta er algengt hjá fíkjutrjám.

Þessi hæfni trjánna til að hefja líf sitt sem ásætur í krónum annarra trjáa virðist hafa haft óvæntar hliðarverkanir. Trén geta nefnilega líka byrjað að vaxa ofan á klettum eða í nýrunnum hraunum. Það er samt miklu algengara að þau hefji vöxt sinn ofan á trjáburknum sem eru algengir sem undirgróður í hávöxnum regnskógum á svæðinu.


ʻŌhiʻa Lehua og trjáburknar

Í hitabeltisskógum eru trjáburknar býsna algengir sem undirgróður. Skógar af ʻōhiʻa lehua eru þar ekki undantekning. Þegar fuglar drita fræjum sínum í krónur trjáburkna, eða fullþroskuð fræ falla einfaldlega á þá, spíra fræin þar og trén hefja líf sitt sem ásætur á burknunum. Svo virðist sem í krónum trjáburknanna sé mjög passleg hæð fyrir þessi tré að vaxa í. Þau mynda loftrætur eins og að framan er lýst og þær ná niður til jarðar, harðna og mynda stofna. Við þetta geta trjáburknarnir ekki keppt. Þeir láta í minnipokann í myrkrinu og drepast. Eftir verða tré sem oft eru margstofna. Þetta er mjög algengt upphaf þessara trjáa en um leið boðar það endalok viðkomandi trjáburkna. Þar sem trén vaxa mjög hægt tekur það langan tíma að kæfa trjáburknana, en það hefst á endanum. Þrátt fyrir að ʻōhiʻa lehua og trjáburknar séu gjarnan nefnd í sömu andrá benda þeir Friday & Herbert (2006) á að þekktar séu um 40 trjátegundir sem vaxa með tré vikunnar í eldri skógum eyjanna. Þá eru aðrir runnar, klifurplöntur og fjölæringar ótaldir.

Botngróður í skógi af ʻōhiʻa lehua er gjarnan blanda af alls konar hitabeltisburknum sem geta verið mjög stórir. Sumir þeirra tréna og mynda trjáburkna. Myndina fengum við úr þessari grein. Hana tók J.B. Friday árið 2006.
Botngróður í skógi af ʻōhiʻa lehua er gjarnan blanda af alls konar hitabeltisburknum sem geta verið mjög stórir. Sumir þeirra tréna og mynda trjáburkna. Myndina fengum við úr þessari grein. Hana tók J.B. Friday árið 2006.

Geta trén gengið?

Á eyjunum í Kyrrahafi er algengast að trén séu einstofna en það er samt ekki algilt. Það má einnig finna tré sem hafa sett niður margar stoðrætur sem síðan verða sjálfar að trjástofnum. Sumir segja að slík tré minni á kolkrabba meðan aðrir segja að halda mætti að trén séu á gangi í skóginum. Svo er auðvitað ekki. Stundum gerist þetta ef jarðvegurinn undir trjánum er þannig að ætla mætti að hann héldi ekki trénu. Annað hvort vegna þess að hann er rokgjarn (mikið af ösku í jarðveginum eins og hér á landi) eða of blautur. Svona skilyrði geta orðið til þess að aukastofnar, sem styðja við tréð, myndast og líta út eins og stultur eða fætur. Sama á auðvitað við þegar tréð byrjar líf sitt sem ásæta í öðru tré og sendir margar loftrætur niður til jarðar sem síðan mynda stofna eins og sagt er frá hér ofar. Tré ganga samt ekki, þótt stundum mætti halda það (Clapp & Crowson 2025).


Margstofna ʻōhiʻa lehua. Myndirnar eru úr þessari grein þar sem finna má fleiri myndir. Þær eru merktar höfundi greinarinnar: Nate Yuen.


Fræðiheitið

Fræðiheiti þessarar fegurðardísar er Metrosideros polymorpha. Ættkvíslarheitið Metrosideros er komið úr grísku og set saman úr grísku orðunum μετρό (metra) sem getur merkt hjarta, kjarni eða eitthvað álíka og orðinu σίδηρος (sidiron) sem merkir járn. Nafn ættkvíslarinnar mætti því þýða sem hjartajárn eða járnhjarta. Nafnið vísar í að viður trjánna er mjög harður. Sérstaklega kjarnviðurinn. Því mætti þýða fræðiheiti ættkvíslarinnar sem kjarnviðajárn (Friday & Herbert 2006, Clapp & Crowson 2025). Seinni hluti nafnsins, viðurnafnið polymorpha er vel til fundið. Það merkir margvísleg eða margs konar með vísun í að allt varðandi tegundina getur verið fjölbreytt og breytilegt. Lauf, vöxtur, blóm, vaxtarstaðir og fleira er æði fjölbreytt eins og vel kemur fram í þessum pistli. Orðið er úr grísku þar sem poly merkir margs konar og morphe merkir form eða lögun (Friday & Herbert 2006, Hodel &  Weissich 2012).

Polymorpha lýsir sér meðal annars í fjölbreyttum laufum. Hér höfum við runna af þessari tegund sem hefur gráloðin laufblöð. Myndina fengum við frá Wikipediu.
Polymorpha lýsir sér meðal annars í fjölbreyttum laufum. Hér höfum við runna af þessari tegund sem hefur gráloðin laufblöð. Myndina fengum við frá Wikipediu.

Ættfræði

Þessi kjarnviðarjárnsættkvísl eða Metrosideros er nokkuð stór. Hér má sjá nöfn allra, þekkta tegunda ættkvíslarinnar. Þar kemur fram að tegundirnar eru 68 og þar af er aðeins ein blendingstegund. Af þessum hátt í sjötíu tegundum eru fimm tegundir sem vaxa á Hawaii og hvergi í heiminum nema einmitt þar (Hodel & Weissich 2012). Þess vegna segjum við að þær séu einlendar á eyjunum. Engin þeirra er samt eins áberandi á eyjunum og ʻōhiʻa lehua. Það tré vex á öllum sex stóru eyjum eyjaklasans samkvæmt Friday & Herbert (2006). Clapp & Crowson (2025) bæta því við að á öllum eyjunum séu þau algengustu trén sem þar finnast.

Allar hinar tegundir ættkvíslarinnar vaxa villtar á suðurhveli jarðar og engin vex á þeim stöðum sem við Íslendingar heimsækjum hvað helst. Þær er að finna syðst í Afríku og Suður-Ameríku en einnig á mörgum eyjum í Kyrrahafinu. Á meðfylgjandi korti sjást ekki allar þessar eyjar. Þær eru of smáar.

Kort frá The World Flora Online sem sýnir hvar tegundir ættkvíslarinnar vaxa. Samkvæmt kortinu hafa tegundirnar hvergi náð að sá sér út frá ræktun þannig að þær hafi numið land fyrir tilstilli mannsins. Samt segja Friday & Herbert (2006) að tré vikunnar geti auðveldlega orðið ágengt í framandi vist.
Kort frá The World Flora Online sem sýnir hvar tegundir ættkvíslarinnar vaxa. Samkvæmt kortinu hafa tegundirnar hvergi náð að sá sér út frá ræktun þannig að þær hafi numið land fyrir tilstilli mannsins. Samt segja Friday & Herbert (2006) að tré vikunnar geti auðveldlega orðið ágengt í framandi vist.

Vist

Þegar kemur að svæðum þar sem loftslag er með svipuðum hætti og finna má á Hawaii má búast við fjölbreyttum gróðri. Hann er það líka þarna í miðju Kyrrahafinu. Tré vikunnar, ʻōhiʻa lehua, er þeirra algengast og má segja að það vaxi út um allt (Clapp & Crowson 2025). Þetta er næstum eins algengt og birkið á Íslandi við landnám. Það eru reyndar töluverðar ýkjur því þarna vaxa margar tegundir trjáa. Tréð getur vaxið nálægt sjávarmáli en þeir Friday & Herbert (2006) hafa þó bent á að tréð þoli illa mikla saltákomu, þannig að það vex óvíða nærri sjó. Það getur samt sem áður vaxið á skjólsælum stöðum við ströndum og upp í 2.500 metra hæð yfir sjávarmáli. Jafnvel á Hawaii frystir stundum þegar svo hátt er komið. Hærra en það vaxa tré ekki í þessari hitabeltisparadís.

Þeir Hodel & Weissich (2012) segja að trén þoli vel að frost fari niður í um -4°C í stutta stund en fari frostið niður fyrir -8°C má búast við varanlegum skemmdum á vefjum trjánna.

Lífið getur verið einkennilegt í regnskógunum. Þetta margstofna tré gæti vel hafa byrjað líf sitt sem ásæta í trjáburkna en nú hafa fjölmargar ásætur sest að í trénu. Myndin er fengin héðan en hana tók Nate Yuen.
Lífið getur verið einkennilegt í regnskógunum. Þetta margstofna tré gæti vel hafa byrjað líf sitt sem ásæta í trjáburkna en nú hafa fjölmargar ásætur sest að í trénu. Myndin er fengin héðan en hana tók Nate Yuen.

Algengust eru trén í þokuskógum sem hefjast í um 1.200 metra hæð. Þeir Clapp & Crowson (2025) segja að víða í þeim láti nærri að um annað hvert tré sé af þessari tegund. Það er mjög óvanalegt í hitabeltisskógum að einhver ein tegund sé svona algeng. Enn óvenjulegra er þó að sums staðar myndar tréð nær hreina skóga eða teiga þar sem aðrar trjátegundir er tæpast að finna. Í kaflanum um viðsjár, hér aðeins neðar, sést hvaða hættur fylgja því.

Vistin á þessu stóra svæði getur verið æði fjölbreytt og taka trén mið af því. Þar sem tréð vex í rökum, frjóum skógum nær það mestum þroska og getur þá orðið yfir þrjátíu metra hátt. Ef það stendur utan skóga verður það ekki eins hátt, en getur þó náð allt að tuttugu metrum. Þá myndar það einnig breiðari krónu en í þéttum skógum. Vaxi tréð í mýrum eða mjög hátt yfir sjávarmáli þá verður tréð aðeins lágvaxinn runni sem nær eingöngu fárra sentimetra hæð. Eina algenga vistin á þessum eyjum sem tréð leggur ekki undir sig eru sendnar fjörur (Clapp & Crowson 2025, Hodel &  Weissich 2012). Það hefur líka vakið athygli að tréð getur vaxið við mjög mismunandi úrkomumagn. Það getur vaxið hlémegin í háum fjöllum þar sem úrkoman er mjög lítil. Það finnst á stöðum þar sem ársúrkoman er ekki nema 400 mm á ári en einnig þar sem hún er meiri en 10.000 mm á ári og allt þar á milli. Fjallið Mt. Wai‘ale‘ale á eyjunni Kaua‘i er einn blautasti staður jarðar. Þar er úrkoman rúmlega 10.000 mm á ári og það má að sjálfsögðu finna ʻōhiʻa lehua í hlíðum þess (Friday & Herbert 2006).

Myndir úr grein þeirra Hodel & Weissich (2012) sem sýna tré af þessari tegund við erfiðar og þurrar aðstæður sem eru gjörólíkar þeim aðstæðum sem finna má í regnskógunum. Fyrri myndin sýnir tré sem vex í hrauni en sú seinni er af margstofna tré sem stendur í regnskugga á mjög þurrum stað.
Myndir úr grein þeirra Hodel & Weissich (2012) sem sýna tré af þessari tegund við erfiðar og þurrar aðstæður sem eru gjörólíkar þeim aðstæðum sem finna má í regnskógunum. Fyrri myndin sýnir tré sem vex í hrauni en sú seinni er af margstofna tré sem stendur í regnskugga á mjög þurrum stað.

Landnemar í hraunum

Við þekkjum það vel á Íslandi að gróður getur átt í dálitlu basli með að leggja undir sig hraun. Oftast nær kemur þó að því að það tekst. Vanalega er það birkikjarr sem að endingu nær að vaxa í því ásamt mosum og öðrum gróðri, en það gerist hægt. Á Hawaii fljúga fuglar stundum yfir hraun og drita í leiðinni. Þannig berast fræ ʻōhiʻa lehua inn á hraunin. Það breytir ekki öllu hvort tréð byrjar að vaxa sem ásæta uppi í tré, trjáburkna eða hraundranga, nema hraunið sé enn það heitt að fræið brenni. Annars er allt í himnalagi. Á svona stöðum sendir það niður loftrætur til að fanga vatn og næringarefni. Ef lítið er að hafa verða ræturnar einfaldlega fleiri. Þær smjúga um allt og finna gjarnan eitthvert ryk eða lífræn efni sem fokið hafa í holur og lautir. Það dugar þessum trjám til lífsviðurværis. Vatnið fá þau gjarnan úr loftrakanum en þurfa ekki að ná í það úr jörðinni fyrr en tréð fer að stækka nema þau séu á mjög þurrum stöðum. Það er lítið vatn að hafa í loftinu ef enginn er rakinn. Þegar ræturnar hafa náð í heppilega næringu fara trén að vaxa upp á við og klæða hraunin skógi (Clapp & Crowson 2025).

Þeir Friday & Herbert (2006) greina frá því að ekkert annað heimatré á Hawaii geti numið land í hraunum svona snemma. Aðrar innlendar trjátegundir geta ekki vaxið í hraunum fyrr en mörgum árum eða áratugum eftir að þau renna, nema fyrir tilstilli frumbýlinga eins og ʻōhiʻa lehua. Svona öflugt tré vantar sárlega á Íslandi.


 Þrjátíu ára gamalt tré í basalthrauni. Myndina fengum við frá Wikipediu.
 Þrjátíu ára gamalt tré í basalthrauni. Myndina fengum við frá Wikipediu.

Ræktun

Þeir Friday & Herbert (2006) segja frá því í sinni grein að tréð sé sjaldan ræktað á eyjunum. Þegar það er gert er tilgangur ræktunar sá að fá trén til að mynda skjól eða til skuggamyndunar og að sjálfsögðu til fegurðarauka. Trén hjálpa einnig til við býflugnarækt og hungangsframleiðslu og viður trjánna er nýttur til smíða og til eldiviðar. Til að rækta tré til viðarnytja, eða til skjólmyndunar eru þó önnur tré talin heppilegri, því ʻōhiʻa lehua vex hægt eins og áður getur. Þeir félagarnir segja að tegundin sé nokkuð algeng sem skrautplanta á Nýja-Sjálandi.

Í langri grein eftir Hodel & Weissich (2012) kveður við annan tón. Þar segir að þetta sé glæsilegt skrauttré fyrir fjölbreyttar aðstæður. Þeir telja tréð öldungis frábært fyrir bæði einka- og almenningsgarða og mjög gott götutré til skjól- og skuggamyndunar. Þeir nefna líka að þar sem útlit trjánna er býsna fjölbreytt gefi það aukna möguleika á alls konar notkun til skrauts og yndisauka. Það sem helst kemur í veg fyrir notkun þess í görðum og almenningsrýmum á eyjunum, að sögn þeirra félaga, er hvað tréð er algengt í skógunum. Það er eins og það fari fram hjá heimamönnum að nýta megi það til skrauts í görðum. Þeir Hodel &  Weissich mæla með notkun á eyjunum og í suður- og miðhluta Kaliforníu þar sem loftslag getur verið svipað og á eyjunum.

Myndir af götutrjám úr grein þeirra Hodel &  Weissich (2012). Þeir taka fram að þegar trén eru ræktuð svona þurfi að klippa af þeim stoðrætur og lægstu greinarnar til að trén geti myndað háan stofn og kærkominn skugga. Í greininni kemur fram að götutré verða aldrei jafnstór og tré sem standa í frjósömum regnskógum.
Myndir af götutrjám úr grein þeirra Hodel &  Weissich (2012). Þeir taka fram að þegar trén eru ræktuð svona þurfi að klippa af þeim stoðrætur og lægstu greinarnar til að trén geti myndað háan stofn og kærkominn skugga. Í greininni kemur fram að götutré verða aldrei jafnstór og tré sem standa í frjósömum regnskógum.

Undirtegundir

Útlit ʻōhiʻa lehua ræðst töluvert af því hvar það vex. Mismunandi vaxtarskilyrði hafa leitt til þess að trén hafa þróast í ýmsar áttir. Þau hafa myndað nokkuð marga ólíka erfðahópa sem við getum sem best kallað undirtegundir. Smám saman móta mismunandi vaxtarstaðir þessi tré þannig að þau verða ólíkari og ólíkari og fyrr eða síðar kemur að því að kalla megi þær mismunandi tegundir. Það sem helst virðist tefja fyrir þeirri þróun er að frjó getur auðveldlega borist með fuglum á milli vaxtarstaða og þar með erfðahópa. Það er ekki fyrr en það tekur fyrir þessa blöndun sem undirtegundirnar geta orðið að sjálfstæðum tegundum sem ekki æxlast auðveldlega hver við aðra. Við höfum áður rætt um svona þróun, til dæmis í pistli um stafafurur. Um þær má lesa hér. Þeir Friday & Herbert (2006) benda á að sums staðar hafi trén þróast í þá átt að frjó berst ekki milli erfðahópa. Þeir nefna sem dæmi að gulblómstrandi tré stunda miklu meiri sjálffrjóvgun en aðrir hópar ʻōhiʻa lehua.

Mynd af gulu blómi  ʻōhiʻa lehua sem við fengum af þessari Facebooksíðu. Ekki kom fram hver tók myndina.
Mynd af gulu blómi  ʻōhiʻa lehua sem við fengum af þessari Facebooksíðu. Ekki kom fram hver tók myndina.

Þegar breytileiki tegundarinnar er hafður í huga er ekkert undarlegt við það að grasafræðingar hafa skilgreint mikinn fjölda afbrigða og undirtegunda. Fárra sentimetra háar plöntur í mýrum og hátt til fjalla geta verið gjörólíkar og báðar enn ólíkari stórum trjám í þéttum skógum eða frumherjum í hraunum. Líklega tengist mismunandi börkur, blómlitur og lauf þessum fjölbreyttu vaxtarstöðum og ólíkum erfðahópum.

ʻŌhiʻa lehua er enn talin vera ein og sama trjátegundin, en fyrr eða síðar mun það mynda fleiri tegundir. Við höfum þróunina fyrir augunum á Hawaii.

Í þessari grein (Friday & Herbert 2006) og í þessari grein (Hodel & Weissich 2012) er sagt að átta undirtegundum eða afbrigðum hafi verið lýst. Þau bera meira að segja sömu nöfnin í báðum greinum, svo þetta er væntanlega nærri lagi, en hjá World Flora Online eru afbrigði og undirtegundir orðnar 13. Of langt mál er að fara í þau fræði en áhugasömum er bent á greinarnar.

Það er magnað að sjá hvað þetta tré lætur sér lynda. Myndina fengum við héðan þar sem skoða má fleiri myndir.
Það er magnað að sjá hvað þetta tré lætur sér lynda. Myndina fengum við héðan þar sem skoða má fleiri myndir.

Viðsjár

Í fyrri pistlum höfum við sagt frá því að í regnskógum sé að finna meiri líffræðilega fjölbreytni en víðast hvar annars staðar á jörðinni. Það á ekki bara við um tré, heldur allt lífríkið. Þar á meðal eru alls konar sjúkdómsvaldandi lífverur og meindýr sem herjað geta á trén. Þetta er af mörgum talið vera meginástæða þess að oft er langt á milli trjáa af sömu tegund í regnskógunum. Ef þau vaxa mörg saman, eins og svo algengt er til dæmis í barrskógabeltinu, er auðveldara fyrir lífverur sem valda sjúkdómum og ýmsa sérhæfða skaðvalda að dreifa sér.

Margstofna tré sem hrjáð eru af leiðinda sveppasýkingu tveggja Ceratocystis tegunda. Laufin orðin brún og grá. Tréð mun ekki lifa þetta af. Myndina fengum við héðan.
Margstofna tré sem hrjáð eru af leiðinda sveppasýkingu tveggja Ceratocystis tegunda. Laufin orðin brún og grá. Tréð mun ekki lifa þetta af. Myndina fengum við héðan.

Því miður er það einmitt þannig hjá ʻōhiʻa lehua. Alls konar sjúkdómar herja á þessi tré og um suma þeirra má lesa hér. Fæstir þeirra virðast valda mjög miklu tjóni. Á því eru þó leiðinlegar undantekningar. Í grein sem Hawai‘i Forest Institute og Hawai‘i Forest Industry Association gáfu út árið 2016 segir frá því að mikil ógn sæki að þessum trjám. Þetta er sveppasjúkdómur sem kallast Rapid ‘Ōhi‘a Death. Það hefur meira að segja verið stofnuð sérstök Facebooksíða sem ber heitið RapidOhiaDeath og er tileinkuð þessum vanda og hugsanlegum lausnum á honum.


Tvær myndir af þessari síðu sem sýna áhrif sveppanna á trén. Fyrri myndina tók J. B. Friday en seinni myndina tók  ©Jared Bernard. Svo er að sjá sem J.B. Friday komi víða við í þeim heimildum sem við höfum skoðað.


Lýsingar og myndir af þessum sjúkdómi eru ekki par glæsilegar. Sveppirnir leggja fullorðin tré af velli á undraskömmum tíma. Öll laufin verða brún á fáeinum dögum og falla síðan af greinunum. Innan fárra vikna drepst tréð. Fyrst var talið að um væri að ræða nýtt afbrigði af sveppnum Ceratocystis fimbriata, sem lengi hefur þekkst í sætum kartöflum á eyjunum. Sá sem skrifar þennan pistil hafði það fyrir satt að þannig væri þetta. Svo vill til að prófarkalesari okkar, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, er sveppafræðingur og vissi þetta auðvitað allt saman. Hún leiðrétti því pistlahöfund og fær okkar bestu þakkir fyrir. Guðríður Gyða fræddi okkur á að þegar þetta var rannsakað nánar kom í ljós að þetta væru tvær  glænýjar Ceratocystis tegundir ættaðar sín úr hvorri áttinni og nýlega komnar til eyjanna. Þetta voru Ceratocystis huliohia og Ceratocystis lukuohia og þær valda þessum hraða trjádauða og er sú síðarnefnda sérlega bráðdrepandi meðan sú fyrrnefnda er staðbundnari og drepur aðeins hluta trésins í einu. Það þótti við hæfi að sveppirnir fengju hawaiísk nöfn en frá því er sagt hér. Sjúkdómurinn berst helst á milli trjáa í gegnum sár á berki þeirra. Klaufdýr, eins og svín, sem beitt er á skógana, skaða oft börk trjánna, opna leiðina inn í viðinn og þar með er fjandinn laus. Eins og gefur að skilja er allt gert til að reyna að hemja útbreiðslu þessa vágests. Við bendum á áðurnefndar greinar og facebooksíðuna til frekari fróðleiks fyrir áhugasama.


Það er víðar en á Íslandi sem búfjárbeit veldur tjóni á náttúrulegum skógum. Þessi mynd er frá Facebooksíðunni RapidOhiaDeath. Hvít og grá tré eru dauð eða deyjandi. Á myndina er teiknað svart strik sem sýnir girðingu sem sett var upp til að draga úr líkum á trén verði fyrir tjóni. Hún hjálpar en sjúkdómseinkenni má þó sjá beggja vegna við girðinguna. Til hægri er skógur sem nýttur er til búfjárbeitar.
Það er víðar en á Íslandi sem búfjárbeit veldur tjóni á náttúrulegum skógum. Þessi mynd er frá Facebooksíðunni RapidOhiaDeath. Hvít og grá tré eru dauð eða deyjandi. Á myndina er teiknað svart strik sem sýnir girðingu sem sett var upp til að draga úr líkum á trén verði fyrir tjóni. Hún hjálpar en sjúkdómseinkenni má þó sjá beggja vegna við girðinguna. Til hægri er skógur sem nýttur er til búfjárbeitar.

Verndun

Þar sem þessi tré mynda skóga skapa þau einstök vistkerfi á eyjunum. Það er ekki bara að fuglar eyjanna sæki sér fæðu í trén, heldur eru tvær sérstakar tegundir einlendra trjásnigla sem treysta algerlega á þau. Fyrir utan sjúkdóma sem herja á trén stafar helsta hættan af búfjárrækt. Reyndar tengist sveppasjúkdómurinn, sem nefndur er hér að ofan einnig búfjárrækt, en áhrifin eru einnig önnur. Skógar eru gjarnan ruddir til að skapa beitilönd. Verði þau yfirgefin og önnur rudd í þeirra stað er ekkert víst að þessi tré komi aftur. Að minnsta kosti ekki strax, enda eru trén hægvaxta. Fyrst koma önnur og hraðvaxnari tré til sögunnar. Þetta setur vistkerfi þessara trjáa í mikla hættu. Fuglarnir og trjásniglarnir geta ekki beðið árum saman eftir að þessi vist verði endurheimt. Nú er vaxandi þrýstingur meðal heimamanna að vernda þessa einstöku skóga og þar með lífríkið sem þeim fylgir (Friday & Herbert 2006).

Hawaiiíski trjásnigillinn Achatinella lila. Myndina fengum við héðan en hana tók Alan Hart.
Hawaiiíski trjásnigillinn Achatinella lila. Myndina fengum við héðan en hana tók Alan Hart.

Það er von okkar og trú að það takist að bjarga þessum trjám svo að hin einstöku vistkerfi, sem háð eru þeim, fái áfram dafnað. Að lokum viljum við færa prófarkalesaranum okkar, Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur, okkar bestu þakkir fyrir sitt framlag. Hún las ekki bara yfir pistilinn heldur fræddi okkur um sveppina sem leggjast á þessi tré.


Heimildir


Casey Clapp & Alex Crowson (2025): Ironheart (‘Ōhi’A Lehua). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá janúar 2025. Sjá: IRONHEART (‘ʻŌHI’A LEHUA) — Completely Arbortrary.


J. B. Friday & Darrell A. Herbert (2006): Metrosideros polymorpha (‘ōhi‘a lehua). Í: Species Profiles for Pacific Island Agroforestry.

Sjá: (PDF) Metrosideros polymorpha ('ōhi'a lehua). Sótt 25. febrúar 2025.


Hawai‘i Forest Institute & Hawai‘i Forest Industry Association (2016): 'Ōhi‘a lehua. Sjá: Rapid-Ohia-Death-Poster.pdf


Donald R. Hodel & Paul R. Weissich (2012): Trees in the landscape, Part 5: Metrosideros polymorpha. Birt fyrst í hausthefti Western Arborist árið 2012. Sjá: 186124.pdf


Í texta er vísað beint í aðrar heimildir með krækjum þar sem það á við.


Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page