top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Strandrauðviður

Spænsku sjómennirnir sigldu meðfram ströndum þessara framandi slóða og horfðu með undrun til lands. Þar blöstu við ótrúlega stór tré og þeir sáu frá hafi að börkurinn var kanilrauður. Þeir kölluðu tréð palo colorado sem getur útlagst sem rauðviður. Þeir skrifuðu niður lýsingar á þessum furðulegu risum. Enginn Spánverji hafði nokkurn tímann séð eitthvað þessu líkt.

Þessi sjóferð spænskra landkönnuða var meðfram ströndum Kaliforníu í október árið 1769 og ekki er vitað um eldri, skriflegar lýsingar á trjánum sem við þeim blöstu (Wells 2010).

ree

Það er ekkert undarlegt að Spánverjarnir hafi nefnt þessa risa palo colorado. Myndin er fengin héðan.


Methafar í náttúrunni vekja alltaf athygli. Þessa vikuna fjöllum við einn slíkan. Strandrauðviður eða Sequoia sempervirens Endl., sem er tegundin sem Spánverjarnir sáu árið 1769, myndar í dag hæsta, þekkta tré í heimi. Það er sagt vera 115 metra hátt. Sagnir eru til um enn hærri strandrauðvið á 19. öld sem höggnir voru niður. Einnig eru til sagnir af degli, Pseudotsuga menziesii, og gífurviðum Eucalyptus spp. sem felld hafa verið og voru jafnvel enn hærri. Því miður er ekki auðvelt að sannreyna slíkar sögur. Núverandi heimsmethafi standandi, þekktra trjáa er strandrauðviður með sérnafnið Hyperion.

Tré vikunnar er strandrauðviður.

ree

 Mynd frá náttúruverndarsamtökunum Save the Redwood League sem sýnir stærð strandrauðviða borið saman við eplatré, 10 hæða blokk og risafuru sem einnig kallast fjallarauðviður.


Nánasta fjölskylda

Strandrauðviður, Sequoia sempervirens, er ein af þremur tegundum sem stundum er kallaður rauðviður og mynduðu áður sérstaka ætt ásamt örfáum öðrum ættkvíslum. Hún kallaðist Taxodiaceae. Nú hefur hún verið sameinuð Cupressaceae ættinni. Þessir þrír fjölskyldumeðlimir eru nokkuð áþekkir og hafa verið á jörðinni frá forsögulegum tíma. Einn af þeim vex villtur í Kína en hinir tveir í vesturhluta Norður-Ameríku. Heitið rauðviður vísar bæði í kjarnvið þessara trjáa og í litinn á berkinum. Hvoru tveggja er rauðbrúnt á litinn. Það á jafnt við um ættingjana í Klettafjöllunum og í Kína. Sama heiti er einnig notað á hinar útdauðu tegundir þótt við vitum ekkert um hvernig þær voru á litinn. Engin ástæða er þó til að ætla að þær hafi borið allt annan lit en núlifandi ættingjar.

Áður fyrr, þegar jörðin var hlýrri, voru tegundir rauðviða til muna útbreiddari en síðar varð og fundust meðal annars á Íslandi.

ree

Horft upp í krónurnar á eldgömlum risum. Myndin er fengin héðan en hana tók Jon Parmentier.


Ekki er alltaf auðvelt að greina steingervinga til tegunda, enda tilviljunum háð hvaða hlutar trjáa varðveitast. Helst þurfa að finnast leifar stofna, greina, barrs og köngla á sama svæði til að hægt sé að fullyrða eitthvað af viti um fornar barrtrjátegundir. Samt eru vísbendingar um að til hafi verið að minnsta kosti 40 tegundir af allskonar rauðviðum á norðurhveli jarðar fyrir nokkrum milljónum ára (Spade 2024).

ree

Myndarlegur steingervingur af útdauðum rauðvið sem kallast Sequoia affinis. Þeir eru fjölmargir á þessum slóðum. Mynd og upplýsingar: C.J. Earle en myndin birtist á The Gymnosperm Database.


Þótt furðulegt megi virðast tilheyra þessar þrjár skyldu tegundir, sem nú eru á lífi, ekki sömu ættkvísl, heldur þremur aðskildum ættkvíslum með einni tegund í hverri. Eins og til að undirstrika skyldleikann hafa allar þrjár ættkvíslirnar sama orðstofninn í fræðiheitinu. Tré vikunnar er af ættkvíslinni Sequoia en hinar tvær ættkvíslirnar heita Sequoiadendron og Metasequoia. Um þær tvær tegundir sem tilheyra síðarnefndu ættkvíslunum höfum við áður fjallað. Fyrri tegundin gengur undir ýmsum nöfnum, svo sem risafura, fjallarauðviður og mammútatré. Seinni tegundina má kalla fornrauðvið eða fenjagreni. Þegar vísindafólk fór að skoða erfðaefni þessara þriggja tegunda var náinn skyldleiki staðfestur enn frekar. Má nefna sem dæmi að grunnlitningafjöldi hverrar frumu er sá sami hjá þeim öllum, X = 11.

Fræðiheiti tegundanna þriggja innihalda öll orðið sequoia. Almennt er talið að það sé til heiðurs Sequoyah (u.þ.b. 1765-1843) sem frægur varð fyrir að búa til ritmál fyrir Cherokee þjóðina. Sequoyah þessi lést fjórum árum áður en strandrauðvið var fyrst lýst af grasafræðilegri nákvæmni og gefið fræðiheiti. Það gerði austurrískur grasafræðingur að nafni Endlicher. Hann gaf aldrei neitt upp um það af hverju hann gaf ættkvíslinni þetta nafn. Nú er orðið nokkuð seint að spyrja hann sjálfan, því hann lést árið 1849.

Seinni hluti fræðiheitisins, sempervirens, getur haft tvær merkingar. Fyrri hlutinn, semper, merkir eilífur en seinni hlutinn, virens, merkir grænn. Sempervirens getur því merkt sígrænn og passar það ágætlega. Stundum hefur orðið verið þýtt sem endalaus og grænn og með yfirfærðri merkingu þýðir það eilífur. Það er dálítið bratt, því almennt er eilífðin talin ná yfir meira en 2000 ár, sem er talinn líftími standandi stofna þessara trjáa, þótt sumir stofnar geti sjálfsagt orðið miklu eldri. Sjaldan eru það sjúkdómar eða skemmdir af völdum dýra sem draga þessa öldunga til dauða. Þegar þeir falla af náttúrulegum ástæðum er það vanalega vegna öflugra eldinga eða óvenjumikilla storma. Svona stór tré taka auðvitað á sig mikinn vind og vindurinn fellir þau flest fyrir rest (Spade 2021). Þess verður að geta að viðurnefnið sempervirens á sér eðlilega skýringu, jafnvel þótt það eigi að merkja eilífur og grænn eða að eilífu grænn. Við komum að henni hér á eftir en þú, lesandi góður, mátt á meðan velta því fyrir þér í hverju þessi eilífð er fólgin.

ree

Fallinn strandrauðviður sem neitar að gefast upp. Myndin fengin héðan en hana tók J.R. Crellin í plöntuðum skógi í Evrópu.


Fundur og flutningur til Evrópu

Vitanlega voru það frumbyggjar Norður-Ameríku sem fyrstir manna sáu þessi tré, gáfu þeim nöfn, sögðu um þau sögur, nýttu viðinn og lifðu í skjóli þeirra. Þeir lifðu með þeim í margar þúsaldir án þess að trén væru í sérstakri hættu. Það átti heldur betur eftir að breytast. Frumbyggjarnir áttu sér ekkert ritmál og því skrifuðu þeir ekki um þessi tré, frekar en nokkuð annað.

Í inngangskaflanum er sagt frá spænskum leiðangri árið 1769. Skoski grasafræðingurinn Archibald Menzies sá þessi tré árið 1794. Menzies var á siglingu í kringum hnöttinn á þessum tíma og þetta var ári áður en hann hirti fræ af apahrellinum eins og við sögðum frá í pistli um þá tegund. Hann lýsti þessum trjám en öfugt við apahrellinn tók hann hvorki fræ né eintak með sér heim til Bretlands (Wells 2010). Þetta er sá sami Menzies sem degli, Pseudotsuga menziesii, er nefnt eftir. Deglið og strandrauðviðurinn vaxa á sömu slóðum og báðar tegundir geta myndað risa. Við verðum líka að nefna að þriðji risinn í partýinu er sjaldgæfari á þessum slóðum. Við þekkjum hann vel. Þar er komið sitkagreni, Picea sitchensis, sem er mest ræktaða grenitegundin á Íslandi og hefur náð hér yfir 30 metra hæð.

Wells (2010) segir frá því að fyrstu tré þessarar tegundar hafi borist til Evrópu árið 1840. Þeim trjám var plantað í St. Pétursborg. Þremur árum síðar bárust tré til Bretlands og hafa verið ræktuð þar alla tíð síðan. Á þessum tíma var töluverður nafnaruglingur í gangi á þessari tegund. Það var árið 1847 sem austurríski grasafræðingurinn Endlicher gaf ættkvíslinni það nafn sem enn er notað. Þess vegna er réttast að skrifa fræðiheiti ættkvíslarinnar Sequoia Endl. þar sem viðbótin er til að minnast hins austurríska Endlicher, þótt það sé auðvitað með mjög takmörkuðum hætti. Það er samt skemmtilegt að minnast loksins á Endlicher.

ree

Horft upp í krónur strandrauðviða. Myndin fengin héðan.


Heimkynni

Strandrauðviður vex villtur í fjallshlíðum, nánast fyrir opnu hafi á tiltölulega mjóu belti, í ríkjunum Oregon og Kaliforníu. Trén vaxa einnig í dölum í rökum skógum sem þarna eru. Þau vaxa ýmist í hreinum lundum eða í blandskógum með til dæmis degli, Pseudotsuga menziesii. Farjon (2008) nefnir einnig rauðþin, Abies magnifica og sykurfuru, Pinus lambertiana, sem dæmi um tré sem vaxa með strandrauðviðum ásamt fleiri tegundum barrtrjáa. Bæði rauðþinur og sykurfura verða oft um 40-60 m á hæð á þessum slóðum. Sjöman & Anderson (2023) bæta við stórþin, Abies grandis, marþöll, Tsuga heterophylla og svo lauftrénu ilmhlyn, Acer macrophyllum. Allt eru þetta hávaxin tré.

Strandrauðvið er að finna allt frá sjávarmáli upp í 300 metra hæð og stöku tré vaxa upp í allt að 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þegar Spánverjar sigldu þarna fram hjá árið 1769 uxu trén víða alveg að ströndum fram en vegna ofnýtingar eru þau að mestu horfin frá fjörunni að sögn Colin Tudge (2005) en finnast að jafnaði um 1-30 mílur upp af ströndinni. Það eru tæpir 1,5 km og upp í tæpa 50 km frá ströndinni. Á heimaslóðum risans rignir mikið og þokur eru ákaflega tíðar. Stundum er talað um þetta svæði sem þokubeltið. Þokan er talin mjög mikilvæg því hún færir vatn inn á vaxtarsvæði trjánna sem hafa einstaka hæfileika til að fanga rakann úr henni. Þannig nýtist rakinn trjánum sjálfum og öllu vistkerfinu. Diana Wells (2010) og Colin Tudge (2005) segja bæði frá því í sínum bókum að strandrauðviður fái allt þriðjung af því vatni sem þeir þurfa úr morgunþokunni. Hún kemur nánast daglega upp úr hinu kalda Norður-Kyrrahafi.

Þegar innar dregur í landið er ekki að vænta neinnar þoku. Þar með er minna vatn í umhverfinu og þar vex strandrauðviðurinn ekki villtur. Í heimaríkinu Kaliforníu þrífast þessi tré einfaldlega ekki nema þar sem oft gætir þoku. Án hennar er of heitt og þurrt fyrir tegundina (Eckenwalder 2009). Með þeirri hamfarahlýnun sem nú herjar á heiminn í auknum mæli óttast margt fólk að þessir dalir kunni að þorna og þá verður framtíð þessara trjáa ótrygg. Utan þessa þokubeltis er hægt að rækta tegundina en þá er engin von til þess að trén nái svipaðri hæð og á sínum náttúrulegu heimaslóðum.

ree

Útbreiðsla Sequoiadendron giganteum (bleikrautt) og Sequoia sempervirens (grænt) samkvæmt Wikipediu. Þriðja núlifandi tegund rauðviða: Metasequoia glyptostroboides, vex í Kína.


Líffræðingar hafa haft fyrir því að klífa þessi tré og skoða hvað þrífst í krónunum. Þeir hafa komist að því, segir Eckenwalder (2009), að vistkerfin sem eru upp í krónunum ná sjaldan alveg niður í skógarbotninn. Þar er allt önnur vist. Það var ekki fyrr en komið var fram á 21. öld sem vísindamenn komust að þessu.

Í Kaliforníu hafa fundist um 20 milljón ára gamlir steingervingar rauðviða og er ekki annað að sjá en að trén hafi verið þarna allan þennan tíma. Það yrði mannkyni til skammar ef athafnir þess yrðu til að útrýma tegund sem hefur verið svona lengi á þessum slóðum.


Ungplöntur

Fyrstu áratugina mynda þessi tré vanalega píramídalaga krónu eins og svo algengt er hjá barrtrjám. Þegar trén eldast verður krónan nokkuð jöfn allt frá neðstu greinum og nánast upp í topp. Þegar aðstæður eru góðar, með löngu vaxtartímabili ásamt nægum hita og raka, geta trén vaxið mjög hratt. Ársvöxtur upp á 1,5 til 2 metra er algengur hjá ungum trjám en smám saman dregur úr vexti. Ungplöntur eru taldar mjög skuggsælar (Sjöman & Anderson 2023).

Ungur strandrauðviður framan við stóran og gamlan risa. Unga tréð hefur hið dæmigerða lag ungra barrtrjáa. Myndina fengum við héðan en hana tók Steven Ng.
Ungur strandrauðviður framan við stóran og gamlan risa. Unga tréð hefur hið dæmigerða lag ungra barrtrjáa. Myndina fengum við héðan en hana tók Steven Ng.

Lýsing

Lýsingu tegundarinnar byggjum við fyrst og fremst á Eckenwalder (2009) nema annað sé tekið fram. Lýsing Eckenwalder er auðvitað samhljóða öðrum lýsingum en áherslur höfunda geta verið mismunandi. Almennt má segja að tréð sé sígrænt (sempervirens) og hver barrnál lifi í nokkur ár á trénu og sé þá endurnýjuð rétt eins og við þekkjum hjá barrtrjám á Íslandi. Trén hafa nánast alltaf einn beinan stofn sem hefur þykkan og mikið sprunginn börk. Þar sem tréð vex í náttúrulegum heimkynnum sínum verður það allra trjáa hæst.

Krónan er að jafnaði keilulaga, nema eitthvað óvænt verði til að aflaga hana. Með hækkandi aldri dregur úr keiluforminu. Þekkt er að trén geti orðið um 2000 ára gömul en til eru enn eldri tré. Tekist hefur að telja um 2200 árhringi í einu felldu tré. Það er elsti stofn á tegundinni sem vitað er um. Sneiðin er geymd svo efasemdafólk geti sjálft talið árhringina. Það hefur hafið vöxt um svipað leyti og Hannibal fór yfir Alpana með fíla sína og hefur verið um tveggja alda gamalt þegar Jesús fæddist i Betlehem (Tudge 2005). 

Við skiptum frekari lýsingu í fáeina undirkafla.

ree

Kanilrauðir stofnar strandrauðviða. Myndin fengin héðan.


Stofn

Á okkar tímum er ekki vitað um nein önnur tré sem mynda svona langa stofna. Til eru tré sem náð hafa 112 til 115 metra hæð og eldri sagnir segja frá enn hærri trjám. Stofninn sjálfur getur svo orðið 9 metrar í þvermál.

Viðurinn er ljós, rauðleitur og mjúkur en nokkuð brothættur. Hann stenst einstaklega vel ásókn fúasveppa og er mjög eldtraustur. Árhringir eru áberandi en ákaflega misstórir og ójafnir. Gefur það viðnum nokkuð sérstakan svip.

Sú staðreynd að viður þessara trjáa er ekkert sérstaklega sterkur er merkilegt í ljósi þess hversu há trén geta orðið. Aftur á móti er það nokkuð algengt hjá trjám sem vaxa hratt. Þegar framtakssamir, ungir menn unnu við að fella þessi tré til að fá mikinn við úr hverjum stofni, áttu trén það til að brotna í spón þegar þau féllu á bera jörð úr mikilli hæð. Því þurfti að tryggja að láta trén falla á eitthvað tiltölulega mjúkt, til dæmis krónur annarra trjáa. Þau brotnuðu reyndar oftast við álagið en rauðviðurinn slapp. Þannig skemmdi þetta skógarhögg ekki bara hin feldu tré, heldur fjölmörg önnur tré í leiðinni (Spade 2021). Stofnar trjánna eru svo stórir og umfangsmiklir að á heimaslóðum þeirra má sjá banka, kirkjur og önnur stórhýsi sem hvert um sig er byggt úr aðeins einu tré (Tudge 2005). Frumbyggjar Ameríku voru ekki þekktir af því að höggva niður þessa stóru risa. Óvíst er þó að það tengist sérstakri ást þeirra á umhverfismálum, heldur hinu að þá skorti verkfæri til að ráða við verkið. Þeir þekktu hvorki járn né járnvinnslu. Þess vegna felldu þeir frekar tré sem höfðu ekki eins þykka stofna og voru viðráðanlegri.

ree

Börkur á stofni strandrauðviðar. Myndin fengin héðan en hún er tekin í Gloucestershire á Englandi. Strandrauðviður er víða ræktaður en hefur hvergi náð sömu hæð og á heimaslóðum.


Börkur

Börkurinn er mjög þykkur og ver tréð gegn skógareldum. Hann er í fyrstu rauðbrúnn en getur gránað nokkuð með aldrinum. Hann getur orðið allt að 35 cm þykkur. Það merkir að ef við vildum bora gat í börkinn og teygja okkur í viðinn fyrir innan má gera ráð fyrir að við náum ekki markmiðinu fyrr en við værum búin að troða handleggnum inn næstum því upp að olnboga, eða þar um bil.

Þrátt fyrir þennan þykka börk eiga trén það til að farast í skógareldum. Einkum á það við um yngri tré en eldri tré sleppa oftast. Þó ekki ef eldarnir verða óvenjulega ákafir. Ólíkt flestum öðrum barrtrjám lætur strandrauðviður þetta ekki slá sig út af laginu. Rótin getur sem best haldið lífi og upp af henni getur nýr stofn vaxið. Sama gerist stundum þegar strandrauðviður hefur verið felldur. Þá kemur nýr vöxtur upp úr stofninum. Svipaða aðferð nota margar gerðir lauftrjáa en þetta þekkist aðeins hjá örfáum barrviðum. Þetta er ástæða þess að tréð er kallað sempervirens samkvæmt heimasíðunni Redwood Facts. Orðið getur merkt eilífur og vísar til þess að svo er að sjá að stofnarnir geti endurnýjað sig endalaust. Tudge (2005) bætir því við að ef stór tré falla eigi stofnarnir það til að skjóta rótum þannig að nýir stofnar spretta upp í beinum röðum upp af hinum fallna stofni. Má sjá mynd af slíku fyrr í pistlinum. Til eru fleiri tegundir barrtrjáa, til dæmis ýviðir, eða Taxus spp., sem leikið geta þetta eftir. Þótt ætla megi að stofnar villtra trjáa verði um 2000 ára, eins og áður greinir, er með öllu óþekkt hversu gamlar ræturnar geta orðið. Þær geta verið miklu eldri en stofninn sem upp af þeim vex. Það er ekki allt. Til að flækja málin enn frekar þá geta ræturnar endurnýjað sig. Þar með er eiginlega vonlaust að mæla aldur þeirra því þær geta verið töluvert eldri en elstu hlutar þeirra. Ef til vill eru þær í raun eilífar eins og fræðiheitið gefur til kynna.

ree

Það er ekki alltaf auðvelt að fara yfir fallna rauðviðarstofna. Aftur á móti má gera göngustíga í gegnum þá. Sjá má lifandi greinar á stofninum og ef til vill mynda þær nýja stofna með tíð og tíma. Myndin er fengin héðan en höfundur kallar sig YayaErnst.


Þegar skógareldar geisa í rauðviðarskógum drepst nánast allur undirgróður og þá skapast pláss fyrir næstu kynslóð rauðviða. Þá gefst tækifæri fyrir fræ strandrauðviðarins til að spíra og ef hin nýja kynslóð vex nægilega hratt og myndar nægilega öflugan börk áður en næstu skógareldar kvikna kann henni að vera borgið.


Viður

Það er ekki bara börkurinn sem er illbrennanlegur á þessum trjám. Samkvæmt Spade (2021) er viðurinn einnig nokkuð eldtraustur, svona miðað við timbur almennt.

Árið 1906 urðu miklir og öflugir jarðskjálftar í San Francisco. Í kjölfarið kviknuðu eldar í borginni. Margir ferkílómetrar brunnu en sagnfræðingar segja að þetta hefði getað farið enn verr. Það sem helst hægði á eldunum var að þegar þeir náðu til þess hluta bæjarins sem var að mestu byggður úr viði strandrauðviðar, hægði mjög á brunanum. Það gaf íbúum svæðanna tækifæri til að bregðast nægilega hratt við til að ná tökum á eldunum og þar með að bægja frá frekari hættu (Hull 2006, Spade 2021).

ree

Nær allar byggingar við Mission Street brunnu til kaldra kola þann 18. apríl 1906. Eldarnir náðu ekki að skemma húsin til hægri á myndinni. Þau voru byggð úr strandrauðvið. Uppistandandi rafmagnsstaurar eru einnig úr strandrauðvið. Myndin fengin héðan þar sem lesa má um atburðinn.

Greinar og barr

Greinum strandrauðviðar má lauslega skipta í tvennt. Annars vegar myndast langar greinar, hins vegar stuttar. Báðar gerðir eru þaktar þéttu barri en stuttgreinar vaxa aðeins í eitt vaxtartímabil á meðan langgreinar bæta við sig vexti á hverju ári.

Eins og títt er um tré þarf strandrauðviður að endurnýja barr sitt. Hver barrnál verður um 3 til 5 ára gömul á langgreinum og fellur svo af, þannig að á hverju ári er hluti barrsins endurnýjaður eins og hjá flestum öðrum barrtrjám. Smágreinarnar fara öðruvísi að. Þær endurnýja ekki barrið. Þess í stað standa þær í nokkur ár á trjánum og falla svo af í heilu lagi með barri og öllu saman.

ree

Smágrein með dauðu barri. Hún fellur svo af og ný grein sprettur fram. Myndin er frá The Gymnosperm Database en hana tók Dr. Linda B. Brubaker.


Samkvæmt The Gymnosperm Database eru dæmi þess að allt barr hafi brunnið af stórum trjám en þau lifað það af. Þá hafa trén endurnýjað barr og smágreinar en það getur tekið upp undir heila öld fyrir trén að ná sér eftir slíkt áfall.

ree

Mynd af strandrauðvið sem fór illa út úr skógareldum þremur árum áður en myndin var tekin. Mynd: C.J. Earle en hún birtist á The Gymnosperm Database.


Það má heita merkilegt að ekki er nóg með að barrið vaxi á tvenns konar greinum, heldur getur það einnig verið af tvennum toga. Annars vegar er það nokkuð hefðbundið, líkt og finna má á greni og fleiri tegundum, nema hvað það er mjúkt eins og á þintrjám. Það myndar einskonar spíral á greinunum en kínverski ættinginn, fornrauðviður, hefur flatt barr og þekkist á því. Þessi hefðbundna gerð af barri er meira áberandi og algengari en hin gerðin. Barrið er lengst um miðbik hverrar greinar.

Narfi Hjartarson með dauða smágrein af strandrauðvið í Grasagarðinum í Edinborg í október 2025. Mynd: Sig.A.
Narfi Hjartarson með dauða smágrein af strandrauðvið í Grasagarðinum í Edinborg í október 2025. Mynd: Sig.A.

Hin gerðin af barri strandrauðviðarins minnir meira á barrið á lífviðum og sýprusum. Það sperrist ekki út frá greinunum heldur myndar einskonar flögur sem liggja þétt að greinunum og skarast. Það líkist hreistri skriðdýra frekar en venjulegu barri. Á þessu barri sést skyldleikinn við margar aðrar tegundir í Cupressaceae ættinni. Þessar hreisturlíku barrnálar vaxa á greinum sem mynda köngla og einnig á báðum endum uppréttra greina en ekki á hliðargreinum sem setja mestan svip á tréð. Köngulgreinarnar eru stuttar og vaxa út frá endum hefðbundinna greina en aldrei á smágreinum sem áður eru nefndar. Samkvæmt The Gymnosperm Database getur ljósmagn haft áhrif á hvor tegundin af barri myndast.

ree

Myndir af báðum gerðum barrs sem finna má á strandrauðviðum. Myndir: C.J. Earle en þær fengum við á The Gymnosperm Database.


Til þess er tekið hversu auðvelt er að ræta uppréttar greinar af þessum trjám. Ef þær eru settar í vatn vaxa rætur auðveldlega út úr þeim og þannig má fjölga trjánum kynlaust. Þau eru meira að segja stundum ræktuð sem stofuplöntur og svo færð út þegar þau stækka. Fjölmörg yrki eru í ræktun sem mjög auðvelt er að fjölga.

 

Könglar

Hversu stórir ætli könglar hæstu trjáa í heimi séu? Eru þeir einnig risavaxnir eins og trén sem þeir vaxa á? Við skellum hér inn einni Höskuldarviðvörum og segjum frá því að það er alls ekki þannig.

Hvert tré þessarar tegundar er tvíkynja. Trén mynda kynhirslur af báðum kynjum eða bæði karlkyns- og kvenkyns köngla, ef svo má segja. Karlkönglarnir mynda frjókorn. Þeir birtast á endum hefðbundinna greina og frjókornin eru aðeins 30-40 µm í þvermál. Kvenkönglarnir birtast á endum greina sem hafa hreisturkennt barr og vaxa út úr stórum hliðargreinum eins og nefnt er hér að ofan. Þeir eru ótrúlega smáir eða einungis 1,3 til 3,5 cm langir og breiddin er enn minni. Í hverjum köngli myndast tvö til sjö lítil og vængjuð fræ. Þau eru aðeins 3-6 mm löng.

ree

Stærð köngla á þessum trjám er ekki í nokkru samræmi við stærð trjánna. Myndin fengin af heimasíðu hlaðvarpsþáttanna My Favorite Trees.


Rætur

Eftir því hefur verið tekið að í rauðviðarskógum, líkt og mörgum öðrum skógum, tengist rótarkerfi trjánna. Ungviðið tengist rótarkerfi eldri trjáa þannig að eldri tré virka sem fóstrur fyrir ungviðið og sjá þeim fyrir lífsnauðsynlegum sykrum og vatni. Litlu trén vaxa oft í skugga þar sem þau eru í raun ófær um að ljóstillífa nema svo lítið að það ætti ekki að duga til að lifa af. Þessi litlu tré þiggja því næringu frá fósturtrjánum. Þegar trén stækka taka þau að sér samsvarandi fósturhlutverk fyrir næstu kynslóð og stundum fyrir fallna öldunga sem neita að gefast upp (Redwood Facts 2024).

ree

Rætur á föllnum strandrauðvið. Myndin fengin héðan.


Stærð

Strandrauðviður getur vaxið mjög hratt þar sem vel fer um hann. Hann þrífst best þar sem vaxtartímabilið er langt og loftslagið er rakt og hlýtt. Í Evrópu er það sjaldnast þannig. Þó má gera ráð fyrir að í álfunni nái trén allt að 50 metra hæð. Það þykir mörgum töluvert en það er innan við helmingur þeirrar hæðar sem trén ná á sínum upprunalegu heimaslóðum (Sjöman & Anderson 2023). Umfangsmestu trén af þessari tegund eru ekki endilega þau hæstu. Árið 1997 var tré mælt sem talið er vera stærst þótt það sé ekki hæst. Það var þá 97,9 m á hæð með stofn sem hafði þvermál upp á 7,7 metra. Þvermál krónunnar á þessu tré reyndist 22,9 metrar (Eckenwalder 2009).

Hæsta lifandi tré sem vitað er um í heiminum er af þessari tegund. Það hefur sérnafn og kallast Hyperion.

Nafn

Staður

þvermál stofns 

Hæð í m.

Hyperion

Redwood National Park

4,84

115,85

Helios

Redwood National Park

4,96

114,58

Icarus

Redwood National Park

3,78

113,14

Stratosphere Giant

Humboldt Redwoods State Park

5,18

113,05

National Geographic

Redwood National Park

4,39

112,71

Orion

Redwood National Park

4,33

112,63

Federation Giant

Humboldt Redwoods State Park

4,54

112,62

Paradox

Humboldt Redwoods State Park

3,9

112,51

Mendocino

Montgomery Woods State Reserve

4,19

112,32

Millennium

Humboldt Redwoods State Park

2,71

111,92

Tíu hæstu strandrauðviðir sem þekktir eru í heiminum samkvæmt The Gymnosperm Database. Þvermál stofns er gefið upp í brjósthæð og allar tölur eru í metrum. Töflu með fleiri trjám og frekari upplýsingar um tegundina má finna hér.


Hyperion

Samkvæmt grískri goðafræði áttu þau Gaia (jörð) og Úranus (himinn) saman ein tólf börn. Voru þau einhvers konar risar sem kölluðust Títanar og voru í eina tíð æðri öðrum guðum og réðu alheiminum. Meðal þessara Títana voru ljósverurnar og systkinin Þeia og Hyperíon. Þau eignuðust saman Helíos (sólina), Selenu (mánann) og Eos (morgunroðann). Það er gaman að segja frá því að í Lystigarðinum er rós ein mikil sem gæti verið stærsta rós á Íslandi og heitir einmitt Eos. Nafnið á Hyperíon mun merkja eitthvað í líkingu við frumkvöðull eða forgöngumaður. Eftir þessu gríska goði er hæsta tré í heimi nefnt.

Hyperion er í Redwood National Park í Kaliforníu en nákvæmri staðsetningu er haldið leyndri til að koma í veg fyrir skemmdir á trénu. Svæðið í kringum tréð er lokað almenningi.

ree

Á þráðum alnetsins má finna nokkrar myndir líkar þessari sem sagðar eru af Hyperion. Sá sem þetta ritar er ekki sannfærður um að þær séu sannar. Hvernig er hægt að halda nákvæmri staðsetningu leyndri á svona tré? Þessi mynd er fengin héðan þar sem sagt er að tréð sé 115,61 metri á hæð.

Ekki ber heimildum alveg saman um hvað þetta tré sé stórt en ekki munar miklu hjá mismunandi heimildum. Samkvæmt þessari grein eftir Fish (2021) er það 115,92 metrar á hæð. Það má alveg námunda það upp í 116 og er það stundum gert. Á Wikipediu er grein um tréð og þar segir frá mælingu frá 2019 þar sem tréð mældist 116,07m. Þarna munar ekki nema níu cm á þessum risa og er það væntanlega vel innan skekkjumarka. Sagt er að rúmmál stofnsins á þessu eina tré sé um 530 m³.

ree

Strandrauðviður myndar ótrúlega risa. Myndin er fengin héðan.


Litningar og stærð

Strandrauðviður er sexlitna. Það merkir að hver fruma hefur sexfaldan fjölda (hexaploid) grunnlitningafjöldans sem er 11 eins og áður greinir. Hver fruma hefur því 66 litninga. Það er einsdæmi meðal þeirra barrtrjáa þar sem þetta hefur verið kannað (Eckenwalder 2009, Earle 2024).

Þegar vísindamenn komust að þessu töldu margir (burt séð frá kyni) að þetta gæti bent til þess að í raun væri strandrauðviður blendingstegund. Helst datt þeim í hug að tegundin hefði orðið til við blöndun Sequoiadendron og Metasequoia þegar þær ættkvíslir uxu saman á stórum svæðum um norðanverðan hnöttinn. Sú fyrrnefnda er tvílitna og því gæti það vel verið tilfellið að strandrauðviðurinn hafi orðið til við blöndum við einhverja fjöllitna tegund. Þegar litningar fornrauðviðarins, Metasequoia, voru skoðaðir kom í ljós að sú tegund er ekki fjöllitna, heldur tvílitna. Blöndun þessara tveggja tegunda getur því varla skilað sex litna tegundum. Það merkir að ef strandrauðviður varð til við blöndun tegunda var önnur þeirra væntanlega einhver tegund sem nú er útdauð. Það er vel þekkt að mörg fjöllitna tré vaxa hraðar en tvílitna tegundir af sömu ættkvísl. Það er þó ekki algilt svo ekki er hægt að fullyrða að það eigi þátt í því hversu stór þessi tré verða því náskyldar tegundir eru svo fáar og engin önnur tilheyrir sömu ættkvísl.

ree

Gamlir og tiltölulega ungir stofnar af strandrauðvið. Myndin er fengin héðan.


Hefðbundnar nytjar

Frumbyggjar á heimaslóðum strandrauðviðar nýttu þessi tré eins og aðrar gjafir náttúrunnar. Þeir smíðuðu úr þeim eintrjáninga og hús. Að auki ófu þeir körfur úr viðartrefjum barkarins. Þeir nýttu einnig tegundina til litunar og við trúarathafnir.

Á þetta allt saman við um þá ólíku ættbálka sem bjuggu á þessum slóðum áður en bleiknefjar lögðu allt undir sig. Eins og títt er með margar tegundir trjáa getur kjarnviðurinn farið að rotna úr gömlum strandrauðviðum. Frumbyggjarnir áttu það til að stækka slíkar holur og nýta sem geymslur. Þegar bleiknefjarnir birtust notuðu þeir slík holrými í trjám sem aðhald fyrir búfé (Spade 2024).


ree

Hefðbundin hús frumbyggja á slóðum strandrauðviða voru smíðuð úr klofnum plönkum fallina rauðviða. Húsin voru að jafnaði byggð yfir gryfjur sem voru heldur minni en ummál húsanna. Þannig urðu til setbekkir og geymslusvæði við veggina. Heilu þorpin voru byggð á þennan hátt og hvert þorp laut sinni eigin stjórn. Það var enginn einn ættbálkur sem réð mestu en þeir stunduðu verslun og viðskipti hver við annan. Mynd og upplýsingar eru héðan. Sjá má að hinn rauði viður gránar með aldrinum.


Breytingar

Áður en bleiknefjarnir komu bjuggu þarna fjölmargar þjóðir, samkvæmt þessari heimild. Þar kemur fram að nú eru aðeins fjórar þjóðir eftir, sem eiga sér tungumál. Þær heita Tolowa, Yurok, Hupa og Karuk. Það eru fyrst og fremst eldra fólk sem enn kann þessi tungumál en vakning er meðal yngra fólks að læra þau. Ekkert fólk af þessum þjóðum lifir svipuðu lífi á okkar dögum og það gerði fyrir árið 1850 þegar bleiknefjarnir birtust. Reyndar er líf bleiknefjanna líka allt öðruvísi, eins og vænta má. Flestir frumbyggjanna búa í hefðbundnum amerískum bæjum en sumir á sérstökum verndarsvæðum. Þar hafa verið teknir upp nútímalegir siðir. Talið er að um 1850 hafi gamall strandrauðviður vaxið á tæpum 2 milljónum ekra. Þótt frumbyggjarnir hafi nýtt þessi tré til smíða bjuggu þeir yfir mjög frumstæðum verkfærum. Því var það afar sjaldgæft að þeir reyndu að fella þessi stóru, gömlu tré. Þeir hjuggu frekar yngri tré og nýttu sér fallna stofna. Þetta breyttist allt með gráðugum bleiknefjum. Þegar gullæði braust út á þessum slóðum gekk mjög á þessa skóga og enn frekar gekk á þá þegar keðjusagir komu til sögunnar. Nú eru aðeins eftir um 5% af upphaflega skóglendinu samkvæmt þessari heimild, en hér er því haldið fram að aðeins 3% þeirra skóga sem voru á svæðinu fyrir 150 árum séu enn uppistandandi.

ree

Skógar strandrauðviða eiga enga sér líka. Myndin fengin héðan og er merkt Alisha McDarris.


Lítil saga með hollan boðskap

Eins og vænta má tengjast þessi stórfenglegu tré einnig þjóðsögum þeirra þjóða sem þarna var og er að finna. Ein sagan segir að einu sinni hafi allar plöntur og öll dýr verið einhvers konar fólk. Einn þeirra var sjálfur Coyote. Hann skapaði allt í heiminum frá toppi Sonoma-fjalls. Hann bauð öldungunum í þorpinu að verða að rauðvið til að minna á að allar verur heimsins eiga sér sameiginlegan uppruna. Við þurfum aðeins að líta til vesturs og sjá hinn stóra strandrauðvið til að muna að við erum öll af sama blóði (Viloria 2018).


Verndun

Þar sem strandrauðviður er nokkuð algengur á þeim svæðum þar sem hann vex á annað borð og hafa í árþúsundir verið nýttir í timburiðnaði þótti lengi vel afar fáum eitthvert tilefni til að vernda þessi tré.

Þegar bleiknefjar fóru að þyrpast á þessar slóðir var það ekki síst vegna þess gulls sem þarna var að finna. Óhætt er að fullyrða að ef til vill voru gullgrafararnir ekki alltaf ábyrgðarfyllstu íbúar álfunnar. Þeir þurftu á timbri að halda og þarna voru þessi stóru tré. Áður hefur verið nefnt að skógarhöggið gekk ekki alltaf vel fyrir sig og því fór víðsfjarri að skógarnir væru nýttir á sjálfbæran hátt.

Hin síðari ár hefur þetta breyst. Til eru umhverfissamtök sem vilja verja þessa stórvöxnu öldunga. Frægust þeirra eru samtökin Save the Redwood League sem stofnuð voru árið 1918. Þau samtök hafa barist fyrir stofnun þjóðgarða til að vernda öldungana og einnig keypt landsvæði þar sem trén er að finna og þannig tryggt framtíð þeirra svo langt sem það nær. Þessi samtök eru enn til og má sjá heimasíðu þeirra hér.

Þrátt fyrir þessi samtök og önnur með sömu eða svipuð markmið, geta þau ekki ráðið við loftslagsbreytingar. Til þess þarf samræmt átak allra þjóða heimsins. Hvað gerist ef dramatískar breytingar verða til þess að það dregur úr þokumyndun á heimaslóðum þessara trjáa?

ree

Mynd af vef Britannicu sem sýnir sólstafi í rauðviðarskógi.


Framtíðin

Allt bendir til að verndarstarfið skili miklum og góðum árangri. Enn eru til sýnishorn af fornum skógum sem hafa að líkindum verið lítið breyttir frá ísaldarlokum. Vegna rakans sem fylgir morgunþokunni og þeirrar mildu birtu sem kemst niður í skógarbotninn geta gönguferðir um þessa skóga verið óviðjafnanlegar. Allt um kring eru risatré og saman draga þykkur mosinn og trén úr öllum hljóðum. Þarna ríkir þögn sem aðeins er rofin af fuglum sem eru svo hátt uppi í krónunum að lítt heyrist til þeirra. Í skógarbotninum má sjá skuggþolna burkna og ýmsar blómplöntur sem eiga það sameiginlegt að hafa þróast í rökkrinu. Nær allar blómplönturnar bera ljós eða hvít blóm svo þau séu áberandi í augum hugsanlegra frjóbera í hálfrökkrinu.

Að sögn er upplifunin svipuð og að vera einn í stórri dómkirkju. Það er gott til þess að vita að svona staðir eru til í náttúrunni. Við skulum vona að hamfarahlýnun af mannavöldum skemmi ekki þessa fögru mynd. Við erum þakklát fyrir að svona staðir eru til. Við eru líka þakklát Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir að lesa yfir próförk pistilsins og færa textann til betri vegar.


Heimildir

James E. Eckenwalder (2009): Conifers of the World. The Complete Reference. Timber Press, Portland & London.


Christopher J. Earle (ritstj.) (2024): Sequoia sempervirens í The Gymnosperm Database. Sjá: Sequoia sempervirens (coast redwood) description (conifers.org). Sótt 10. apríl 2024.


Aljos Farjon (2008): A Natural History of Conifers. Timber Press, Inc. Portland, Oregon, USA.


Tom Fish (2021): The 25 Tallest Trees in the World. Í Newsweek 18. október 2021. Sjá: The 25 Tallest Trees in the World (newsweek.com). Sótt 8. apríl 2024.


Elizabeth Hull (2006): Redwood in the 1906 San Francisco Earthquake & Fires. Í: Forest History Today. Sjá: FHT_2006.qxd (foresthistory.org). Sótt 9. apríl 2024.


Thomas Spade (2021): The Coast Redwood. Podcast þáttur í þáttaröðinni My Favorite Trees https://mftpodcast.com// nr. 15 frá 21.03. 2021. Sjá: Episode 15: The Coast Redwood – My Favorite Trees (mftpodcast.com). Sótt 1. apríl 2024.


Henrik Sjöman & Arit Anderson (2023): The Essential Tree Selection Guide for climate resilience, carbon storage, species diversity and other ecosystem benefits. Filbert Press & Royal Botanic Gardens, Kew.


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


Dana Viloria (2018): The Ancient Ones: Redwoods Through the Eyes of a Southern Pomo and Coast Miwok Native. Í: Save the Redwoods 15. nóvember 2018. Sjá: The Ancient Ones: Redwoods Through the Eyes of a Southern Pomo and Coast Miwok Native - Save the Redwoods League


Diana Wells (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.




Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page