top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Lifandi steingervingur: Fornrauðviður

Elstu setlög Íslands geyma menjar um gróðurfar sem var allt öðruvísi en sá gróður sem nú vex á Íslandi. Ein af þeim tegundum sem var hér þá var af ættkvísl sem kallast Metasequoia Hu & W.C.Cheng á latínu en gengur undir nafninu fornrauðviðir á íslensku. Sú ættkvísl á sér merka sögu þótt af henni vaxi nú aðeins ein tegund í heiminum. Sú tegund vex austur í Kína. Áður uxu skyldar tegundir víða um nyrstu hluta heimsins.

Í þessum pistli segjum við frá þessari tegund í Kína og útdauðu tegundinni sem óx á Íslandi fyrir um 15 milljónum ára.


Fornrauðviður í grasagarðinum í Edinborg. Mynd: Sig.A.


Tímarammi

Elstu steingervingar fornrauðviðar eru um 100 milljón ára gamlir. Fyrir um 65 milljónum ára var tegund af þessari ættkvísl algeng á Svalbarða og fyrir um 45 milljónum ára voru til nokkrar tegundir um allt norðurhvel jarðar, allt norður til 80° norðlægrar breiddar. Síðan fór smám saman að draga úr viðgangi fornrauðviða og reyndar líka annarra rauðviða. Vitað er að fyrir um 15 milljónum ára óx tegundin á Íslandi en yngstu steingervingar ættkvíslarinnar í heiminum eru um 2 milljón ára gamlir. Svo er eins og tegundin hafi horfið nema hvað snemma á fimmta áratug síðustu aldar fannst ein tegund, sem tilheyrir ættkvíslinni, sprelllifandi og í fínu formi austur í Kína. Í greininni segjum við nánar frá þessu.

Haustmynd af trjáröð af fornrauðviðum á þýsku eyjunni Mainau í Bódenvatni. Trén voru um 50 ára gömul þegar myndin var tekin. Þangað bárust þau frá Englandi aðeins 10 árum eftir fund þeirra í Kína. Hæsta tréð í röðinni er 27 metra hátt. Mynd og upplýsingar eru úr þessari stuttu grein þar sem talað er um tegundina sem lifandi steingerving.


Fundur í Japan

Árið 1938 fundust steingervingar í Japan frá plíósentímanum á tertíer af trjám sem voru á lífi fyrir um 2 til 6 milljónum ára. Prófessor við háskólann í Osaka að nafni Shigeru Miki skoðaði þessa steingervinga náið  og komst að því að þótt steingervingarnir væru líkir strandrauðvið eða Sequoia sempervirens og risafuru eða fjallarauðvið, Sequoiadendron giganteum, þá væri tegundin frábrugðin í ýmsu. Hann tók eftir því að ákveðin einkenni pössuðu ekki við þessar tegundir, sem báðar vaxa núna í Norður-Ameríku. Við höfum fjallað um aðra þeirra og munum fjalla um hina við tækifæri. Shigeru Miki sá að könglarnir voru frábrugðnir og að barrið á steingervingunum hafði vaxið á greinunum í gagnstæðum pörum en ekki á eins tilviljunarkenndan hátt og á hinum tegundunum. Hann var því viss um að hann væri með áður óþekkta og útdauða tegund í höndunum. Árið 1941 gaf hann ættkvíslinni nafnið Metasequoia. Orðið meta er forskeyti sem merkir „eins og“. Fræðiheitið merkir því „eins og Sequoia“ en það er einmitt latínuheitið á strandrauðvið og orðstofninn má líka finna í latínuheiti risafurunnar eins og sjá má hér ofar (Miles 2021, Wells 2010).


Smágreinarnar eru áberandi gagnstæðar og barrið er það líka á þessum fornrauðvið í Kaupmannahöfn. Myndin fengin héðan.


Fundur í Kína

Árið 1941, sama ár og Shigeru Miki birti niðurstöður sinna rannsókna í Japan um forna tegund sem var vísindunum algerlega ókunn, varð merkileg uppgötvun í Sixhuan í Kína. Sá staður er í um 3000 mílna fjarlægð frá fundarstaðnum í Japan. Þar voru íbúar í þorpinu Mo-tao-chi eða Modaoxi vanir að nota barrið af tré sem þeir kölluðu eitthvað í líkingu við vatnaþin sem fæðu handa nautgripum sínum. Tréð ræktuðu þeir við hrísgrjónaakra sína í töluverðri bleytu (Miles 2021, Farjon 2008) og af því hlaut tréð nafn sitt. Kínverjar skrifa það 水杉 og bera það fram sem shui shan samkvæmt The Gymnosperm Database (Earle 2023).


Þekktir vaxtarstaðir villtra fornrauðviða eru á tveimur aðskildum stöðum í Kína. Myndin sýnir fyrri staðinn þar sem tegundin fannst, en hinn staðurinn er þar skammt frá. Myndin er úr bókinni  Conifers of the World eftir Eckenwalder (2009).

Skógfræðingur að nafni Zhan Wang átti leið þarna um og þurfti að dveljast þar lengur en til stóð þar sem hann smitaðist af malaríu. Þar sá hann þessa tegund við akrana, þekkti hana ekki en rámaði í að hafa lesið um rannsóknirnar í Japan og grunaði að þetta væri eitthvað svipað. Hann sendi sýnishorn til kínverskrar systurstofnunar Rannsóknarstofu skógræktar að Mógilsá. Þaðan voru sýnin send til prófessors við háskólann í Chungking að nafni Wan Chun Cheng sem á þeim tíma var aðalfræðingur Kínaveldis í berfrævingum. Má segja að hann hafi verið einskonar Aðalsteinn Sigurgeirsson Kína á þessum tíma. Hann og félagar hans urðu furðu lostnir þegar þeir sáu sýnishornin. Þeim þótti tegundin lík fenjavið eða Glyptostrobus pensilis en samt frábrugðin í ýmsu. Fenjaviður óx eitt sinn á Íslandi og um hann höfum við fjallað áður.


Fornrauðviður (sem er á myndunum) á það sameiginlegt með fenjavið að geta vaxið í mikilli bleytu. Fyrri myndin er fengin héðan en hana á Erik Berman. Seinni myndin er frá Arnold Arboretum þar sem tegundin vex í tilbúnu mýrlendi. Myndin er  fengin héðan en hana tók Michael Dosmann. Arnold Arboretum átti mikinn þátt í að kynna þennan lifandi steingerving fyrir íbúum Vesturlanda. Stofnar trjánna líkjast stofnum fenjaviðar.


Síðari heimsstyrjöldin og borgarastyrjöld í Kína gerðu það að verkum að fundur einnar trjátegundar við hrísgrjónaakra í Sixhuan fór ekki mjög hátt. Það var ekki fyrr en 1947 sem W. C. Cheng fór með félaga sínum, Hu Ziansu til að skoða trén. Leiðangur þeirra var gerður út á vegum Arnold Arboretum í Boston þar sem Hu hafði verið við nám. Þeir félagarnir fundu villt tré ekki langt frá þorpinu þar sem þau höfðu áður fundist, en þau voru í töluverðri hættu vegna mannfjölgunar á svæðinu með tilheyrandi röskun á náttúrulegu umhverfi. Þessi tré eru í dal sem heitir Shui-dalur og vaxa þar á 25 kílómetra löngum kafla. Í þessum dal voru um 2000 plöntur og reyndust flestar vera um 400-450 ára gamlar. Þeir söfnuðu saman öllum upplýsingum sem þeir komust yfir og komust að því að þetta væri klárlega sama tréð og prófessor Miki hafði fundið steingervinga af næstum áratug áður. Þeir Cheng og Hu gáfu tegundinni nafn og notuðu nafnið sem Miki hafði stungið upp á sem ættkvíslarheiti og nýttu viðurnefni sem vísar í fenjavið (Miles 2021, Wells 2010). Þannig varð til heitið Metasequoia glyptostroboides Hu & W.C.Cheng árið 1948 (WFO 2023). Það verður að teljast einkennilegt að nöfn þeirra Hu og Cheng séu skráð á eftir nafni ættkvíslarinnar í helstu grasafræðiritum en ekki nafnið á prófessor Miki sem fyrstur stakk upp á nafninu. Á því kunnum við engar skýringar. Ef til vill voru japanskir grasafræðingar ekki hátt skrifaðir á þessum tíma frekar en margir samlandar þeirra eftir stríð. Svo kann að vera að aðrar reglur gildi um nafngiftir steingervinga en lifandi plantna. Nú eru þessi tré í Shui-dalnum alfriðuð og skógarverðir hafa verið ráðnir til að gæta þeirra. Enn er þó ungum trjám stundum stolið og lítið er um náttúrulega endurnýjun. Því er framtíð þessara trjáa ekki trygg (Eckenwalder 2009). Á þessari öld fannst annar lundur af þessum trjám og þar með stækkaði erfðamengið verulega og þar með er líklegra að framtíð þeirra í heiminum sé borgið.

Hinn vestræni heimur leit ekki þessi tré augum fyrr en árið 1948 þegar Cheng sendi fræ af tegundinni til grasafræðinga í áðurnefndum grasagarði í Boston í Bandaríkjunum og lýsti tegundinni. Smám saman bárust fræ þaðan til annarra grasagarða í heiminum. Ekkert tré af þessari tegund hefur enn náð 90 ára aldri utan Kína, þótt þau líti út fyrir að vera eldgömul.

Smám saman áttuðu fræðingar sig á því að margir steingervingar á söfnum, sem merktir voru sem rauðviðir eða risafurur voru af þessari ættkvísl (Farjon 2008).

Þarna var kominn lifandi steingervingur.


Fornrauðviður í haustlitum í grasagarði í suðurhluta Kína. Myndin fengin héðan.


Staðan

Eins og áður segir fundu vísindamenn tegundina fyrst við hrísgrjónaakra, þar sem tegundin er ræktuð í mjög blautum jarðvegi og dregur af því nafn sitt í heimalandinu. Auðvitað þekktu heimamenn þessa tegund en höfðu ekki hugmynd um að hún væri eitthvað merkilegri en aðrar tegundir á svæðinu. Nú er tegundin þekkt á tveimur aðskildum vaxtarstöðum í Sixhuan. Á fyrri staðnum var hún á barmi þess að hverfa alveg úr náttúrunni en var borgið við hrísgrjónaakrana. Farjon (2008) segir frá því að genafjölbreytileiki innan tegundarinnar sé nokkuð mikill og það hjálpar tegundinni örugglega við að takast á við yfirstandandi umhverfisbreytingar og kann að gefa tegundinni aukin tækifæri.

Þekktir ræktunarstaðir fornrauðviðar samkvæmt þessari heimasíðu. Í greininni er sagt frá því að vegna loftslagsbreytinga sé tegundinni hætta búin þar sem hana er að finna í náttúrulegu umhverfi en á nýjum slóðum er henni trúlegast borgið (Zhang o.fl. 2020). Ef til vill kemur sú tíð að heppilegt verði að rækta hana á Íslandi. Það kemur dálítið á óvart hvað tegundin virðist fágæt í Norður-Ameríku miðað við Evrópu þegar haft er í huga að hún barst fyrst til Boston og þaðan í aðra grasagarða. Ef til vill stafar það af því að heimamenn í Bandaríkjunum eiga tvær þarlendar tegundir sem eru nokkuð líkar fornrauðviðnum.


Þótt tegundin sé fágæt í heimalandinu lítur út fyrir að tekist hafi að bjarga henni frá útrýmingu. Eintök af henni má finna í grasagörðum víða um heim og sums staðar í stórum almenningsgörðum. Í garðrækt er tegundin ekki mikið ræktuð. Sennilega kemur þar bæði til að tréð vex hratt og getur orðið mjög stórt og svo hitt að það þolir illa klippingu og hentar því ekki í limgerði. Þess vegna er fornrauðviður frekar gróðursettur þar sem plássið er meira en í litlum einkagörðum.

Komið hefur í ljós að sums staðar vex tegundin betur í ræktun en á upprunastöðunum í Kína. Það er ekki einsdæmi að hægt sé að bjarga trjátegundum frá útrýmingu með því að flytja þau á heppilegri staði. Þá getur tegundinni verið borgið þótt hún teljist framandi á nýjum slóðum  (Zhang o.fl. 2020). Náttúruvernd getur tekið á sig ýmsar myndir.

Trjágöng af fornrauðvið í Gyeongpo grasagarðinum í Gangneung í Suður-Kóreu. Mynd: Store norske leksikon úr þessari grein.


Það tré sem við vitum um og stendur hvað næst Íslandi er í Osló. Í grasagarðinum þar í borg er eitt tré sem er orðið um 18 metrar á hæð (Aune 2022). Vel má vera að það finnist víðar í Noregi og ef til vill má reyna tegundina á skýldum og sérvöldum stöðum á Íslandi en hæpið er að það gangi. Sennilega er sumarið of stutt og ekki nægilega hlýtt. Frost á vetrum ætti ekki að vera vandamál því á heimaslóðum trésins getur það vel farið niður fyrir -30°C. Tréð vex einnig í Danmörku og í Skotlandi svo dæmi séu tekin. Meðal annars má sjá glæsileg tré af þessari tegund í Edinborg.

Þrjár myndir af steingervingum fornrauðviðar á Ellersmereyju í kanadíska Íshafinu. Fyrsta myndin sýnir 2,1 cm langa grein. Myndin er eignuð Hong Yang & Qin Leng sem einnig skrifuðu greinina sem myndirnar eru úr. Miðmyndin sýnir steingerving af stórum trjástofni. Lokamyndin sýnir mjög forna „Drumbabót“ með steingervingum sem standa upp úr jörðinni. Seinni myndirnar tvær tók Christopher J. Williams. Myndirnar fengnar héðan.


Lýsing

The World Flora Online (WFO) er með á síðu sinni lýsingu á ættkvíslinni og þeirri einu tegund sem nú er þekkt. Er hún byggð á kínverskri flóru sem okkur er ekki handbær. Meðfylgjandi lýsingar byggja á lýsingu WFO og Eckenwalder (2009).

Tvær myndir af vel sköpuðum fornrauðvið að vori til í Bute Park í Cardiff í Veils. Þrátt fyrir að krónan sé ákaflega regluleg sést á seinni myndinni að greinarnar eru hlykkjóttar. Ung tré hafa gjarnan þetta vaxtarlag en með auknum aldri dregur úr þessu formi krónunnar. Myndir: Sig.A.


Greinar fornrauðviðar eru óreglulegar og vísa dálítið upp á við eins og sjá má hér að ofan. Þær eru oft nokkuð hlykkjóttar og smærri greinar eru fjölbreyttar að gerð. Þær eru oftast gagnstæðar eða því sem næst og það sama á við um barrið sem er nokkuð flatt en vex ekki í allar áttir. Það getur myndað einskonar spírala á megingreinum. Loftaugu eru aðeins á neðra borði barrsins á fullorðnum trjám og sjást ef vel er að gáð.


Barr á fornrauðvið í Skotlandi. Mynd: Sig.A.


Að jafnaði myndast tvö endabrum á hverri grein að hausti en annað þeirra verður ríkjandi þegar vöxtur hefst á vorin. Brumin eru því sem næst egglaga með 6 til 8 brumhlífar.

Frjókönglar þroskast á haustin en losa sig við frjóið um vorið þegar kvenkönglar birtast. Kvenkönglarnir vaxa á greinum fyrra árs. Þeir hanga á greinunum og eru með 16 til 24 trékenndar hreisturskeljar á hverjum köngli. Kvenkönglar myndast á nokkuð ungum trjám eða þegar þau eru um 10-15 ára gömul. Þegar fyrst var farið að rækta þessi tré í Evrópu og Ameríku gekk erfiðlega að fá fræ. Ástæðan reyndist sú að karlblómin (ef nota má það orð um berfrævinga) fara ekki að myndast fyrr en mörgum árum síðar. Tréð þarf að verða 25-30 ára gamalt til að mynda frjó. Þá getur fræmyndun hafist. Þess vegna var það ekki fyrr en á 8. áratug síðustu aldar að frjótt fræ varð algengt utan Kína. Í hverjum köngli geta myndast 5 til 9 fræ ef frævun heppnast og eru þau áberandi vængjuð. Hvor vængur um sig er tvisvar til fjórum sinnum breiðari en fræið sem þeir vaxa á (WFO 2023, Eckenwalder 2009).

Wells (2010) bætir við þessa lýsingu að fornrauðviður vaxi hratt og segir að talið sé að í görðum geti tréð lifað í mörg þúsund ár, rétt eins og hinar skyldu tegundir sem hafa lík fræðinöfn. Sum þeirra fornu trjáa eru svo þekkt að þau hafa sérnöfn. Ef til vill kemur að því að fornrauðviðurinn fái sambærileg sérnöfn, en sennilega þurfum við að bíða í nokkrar aldir eftir því. Enn hefur ekkert tré þessarar tegundar náð aldarafmæli utan Kína. Framan af ævinni er krónan mjög regluleg eins og sjá má á myndinni af trénu í Bude Park hér að ofan. Eldri tré hafa meiri karakter, ef svo má segja.

Vakið hefur athygli ræktenda að hægt er að rækta fornrauðvið við fjölbreytt skilyrði. Hitt er einnig merkilegt að hvorki sjúkdómar né skordýr virðast herja á tegundina. Getur verið að ættkvísl trjáa sem til hefur verið á jörðinni í 100 milljón ár og myndaði í margar milljónir ára ein algengustu tré norðursins hafi aldrei verið étin af skordýrum? Það er ákaflega ólíklegt. Líklegra er að dýrin hafi dáið út þegar tréð nánast hvarf af sjónarsviðinu. Svona getur lífið verið fullt af óvæntum vendingum.


Barrið

Barrið á fornrauðviðum er líkt og á hinum skyldu rauðviðum (strandrauðviðum og risafurum). Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er það fremur flatt á greinunum en vex ekki í allar áttir. Nálarnar eru flatar og mjúkar og rúnaðar í endann. Eftir að haustlitirnir birtast er barrið í raun dautt og aflagast auðveldlega.

Tvær haustmyndir af skoskum fornrauðvið í grasagarðinum í Edinborg. Á fyrri myndinni er barrið rétt að byrja að hausta sig en á þeirri seinni sést grein í byrjun desember. Myndir: Sig.A.


Eitt er þó gjörólíkt hjá þessari tegund og skyldum tegundum. Fornrauðviður fellir barrið á haustin eins og lerki og fenjaviður. Við höfum fjallað um síðarnefndu tegundina en hún óx hér á sama tíma og íslenski fornrauðviðurinn og meira að segja uxu þessar tegundir saman. Auðvitað höfum við skrifað marga pistla um lerki en þessi er um ættkvíslina í heild. Hinar náskyldu ættkvíslir strandrauðviða eða Sequoia og risafura, Sequoiadendron, eru sígræn eins og flest barrtré.

Grasafræðingar hafa stundum skrifað um þá staðreynd að flest lauftré á norðurhveli fella laufið á haustin en flest barrtré gera það ekki. Svo eru undantekningar hjá báðum hópum. Líklegt er að í báðum tilfellum sé þetta einhvers konar aðlögun. Þá kemur auðvitað fyrst í hugann að aðlögunin tengist kulda. Aljos Forjan (2008, bls. 114) segir að annar áhrifavaldur kunni að hafa ýtt undir þessa þróun hjá fornrauðviðum. Þegar þeir voru hvað algengastir í heiminum var mun hlýrra á jörðinni en síðar varð. Þá uxu fornrauðviðir meðal annars á þeim slóðum þar sem nú eru freðmýrar norðan við barrskógabeltið. Þá voru þar barr- og blandskógar í fremur hlýju loftslagi. Aftur á móti hafa trén þurft að taka langt vaxtarhlé vegna þess að birtuna vantaði svona langt í norðri, rétt eins og nú. Því kann þetta barrfall upphaflega að hafa verið aðlögun að myrkum tímum frekar en frostum, þótt hugsanlega hafi fryst yfir háveturinn. Eckenwalder (2009) tekur undir þetta á sinn hátt og segir að samkvæmt steingervingum hafi þetta verið einkenni allrar ættkvíslarinnar en ekki bara þessarar einu tegundar sem til er í dag.

Á Íslandi þekkjum við vel gula haustliti lerkisins, en fornrauðviðir hafa bronsrauða eða ryðrauða haustliti.


Haustlitir á fornrauðvið í Edinborg. Mynd: Sig.A.


Nafnaflækja

Hér að ofan er fjallað um fræðiheiti fornrauðviðar og er engin sérstök ástæða til að fjalla nánar um það. Um uppruna nafnsins Sequoia höfum við fjallað í þessari grein og endurtökum það ekki núna, heldur bendum á þá grein.

Á ensku hefur fornrauðviður verið nefndur dawn redwood. Dawn vísar þarna í eitthvað fornt samanber „dawn of history“ með vísan í að þetta er forn tegund (Wells 2010). Að vísu eru báðar hinar skyldu tegundir, rauðviður og risafurur, einnig mjög fornar.

Orðabanki Íslenskrar málstöðvar segir okkur að Svíar kalli tréð kínverskt sekvoja með vísan í uppruna tegundarinnar. Á íslensku gefur bankinn upp orðið fenjagreni en gefur upp samheitin kínarauðviður og vatnsgreni. Kínarauðviður er hugsað á sama hátt og sænska heitið nema hvað Svíarnir hafa tekið upp fræðiheitið Sequoia og lagað það að sænskunni. Fenjagreni og vatnsgreni er sambærilegt við kínverska heitið þar sem tréð hefur verið ræktað við hrísgrjónaakra. Aftur á móti er þetta ekki greni og þarf ekki að vaxa í bleytu. Því höfnum við þessu heiti. Kínarauðviður á ágætlega við tegundina sem enn er til í heiminum en hentar illa fyrir hinar útdauðu tegundir sem meðal annars uxu á Íslandi á sínum tíma.

Glæsilegur fornrauðviður í grasagarðinum í Edinborg. Mynd: Sig.A.


Í grein Friðgeirs og félaga frá árinu 2007 er tegund af þessari ættkvísl nefnd fornrauðviður og er það nokkuð í samræmi við enska heitið. Hér notum við orðið fornrauðviður yfir ættkvíslina en sættum okkur alveg við það að kalla hina kínversku tegund kínarauðvið ef vilji er fyrir því. Reynslan mun skera úr um hvað verður ofan á. Hér notum við sama heitið á íslenska tréð og núlifandi kínverska tréð enda lítil hætta á misskilningi. Norðmenn hafa svipaðan hátt á og kalla núlifandi tegund urtidstre (Aune 2022). Ef við hefðum ekki séð nein íslensk heiti á trénu hefðum við getað stungið upp á árrauðviður en við ruggum nafnabátnum ekki meira en þörf er á. Hugmyndin með því nafni er að fyrri hluti orðsins (ár) getur bæði merkt vatnsfall og vísað í eitthvað fornt, samanber „ármenn aldanna og ár og síð“. En fornrauðviður er ágætt orð og við notum það.


Stofn af fornrauðvið í Edinborg. Börkurinn er mjúkur og á það til að flagna af í nokkuð löngum næfrum. Áberandi er að mjög lítil lykt er af viðnum og hann er fremur ljós og mjúkur. Kjarnviðurinn er rauðbrúnn og harðari en rysjan. Árhringir mjög áberandi (Eckenwalder 2009). Mynd: Sig.A.

 

Fornrauðviður á Íslandi

Upplýsingar um fornrauðviðinn sem óx á Íslandi, Metasequoia abietina, er að finna í elstu jarðlagasyrpum landsins sem geyma steingervinga. Það eru setlagasyrpur sem finnast á Vestfjörðum og á Vesturlandi og kallast Selárdals-Botns setlagasyrpurnar og eru taldar vera um 15 milljón ára gamlar. Þær menjar „endurspegla sumar- og sígræna laufskóga með barrtrjáaflákum“ eins og Friðgeir og félagar orðuðu það í grein frá 2007 og er okkar helsta heimild um þessa tegund á Íslandi.


Fornrauðviður á Íslandi. Margrét Hauksdóttir sáði fyrir þessari tegund árið 2006 og plantaði fáeinum í garðinn sinn til uppeldis árið 2008. Þar döfnuðu þær ágætlega og kól lítið sem ekkert. Margrét flutti þær í móa árið 2010 en þar reyndist ekki nægilegt skjól. Þar drápust allar plönturnar veturinn á eftir. Eins og sjá má voru þetta fallegar plöntur og gefa okkur ákveðna von um að hægt sé að rækta þær hér. Mynd og upplýsingar Margrét Hauksdóttir.


Íslenski fornrauðviðurinn óx á láglendi. Á svæðum þar sem grunnvatn stóð hátt voru fenjaviðir, og elri mest áberandi en þar sem land stóð ögn hærra og var því aðeins þurrara var fornrauðviðurinn meira áberandi og með honum gátu stundum vaxið lauftré. Svona samfélag plantna var að finna í Botni í Súgandafirði. Þar ber mest á leifum barrtrjáa en laufblöð lauftrjáa eru sjaldgæfari. Steingervingarnir finnast í rofseti og eru ýmist samanpressaðar kolaleifar, svartkolað blaðefni eða viður. Viðurinn er mest áberandi og fornrauðviðurinn er mest áberandi tegundin sem þarna finnst. Greinarnar eru frekar breiðar og með aflangar nálar. Á sama svæði má einnig finna kolaðar greinar af fenjavið Glyptostrobus europaeus sem við höfum áður fjallað um. Í grein þeirra Friðgeirs og félaga (2007) er sú tegund reyndar nefnd evrópuvatnafura. Könglar beggja tegunda finnast einnig í Botni og þeir Friðgeir og félagar túlka þessar leifar sem staðbundinn láglendisgróður.


Grein af fornrauðvið með mikinn fjölda barrnála sem fannst í 15 milljón ára gömlu bergi. Kvarðinn er 1cm. Myndin úr grein Friðgeirs og félaga frá 2007.


Enn á eftir að bera kennsl á sumar af þeim ættkvíslum sem fundist hafa í Botni en áðurnefndar tvær tegundir eru mest áberandi.

Það er forvitnilegt að þeir félagar segja að fornrauðviðurinn hafi verið meira áberandi á þurrari svæðum á meðan fenjaviður óx þar sem var blautara. Núlifandi tegund getur vaxið á mjög blautum stöðum og svo er að sjá sem íslenska tegundin hafi líka getað gert það, því samkvæmt þeim Friðgeir og félögum mátti að hluta til einnig finna fornrauðvið með fenjaviðnum. Því hefur fornrauðviður verið alger lykiltegund í þessum vistkerfum sem finna mátti í Botni í Súgandafirði fyrir 15 milljónum ára.

Svona sér listmálarinn Yuyang Zhuge heimskautasvæðin fyrir sér í lok vaxtatímabils fyrir um 45 milljónum ára. Ætli láglendi Íslands hafi verið svipað þessu fyrir 15 milljónum ára? Myndin fengin héðan.


Hvernig komst fornrauðviður til Íslands?

Þeir Friðgeir og félagar (2007) segja frá því að fornrauðviðurinn dreifi fræjum sínum fyrst og fremst með vindi en aðeins stuttar vegalengdir. Takmörkuð vatnadreifing getur einnig hjálpað. Þetta á reyndar við um fleiri tegundir sem uxu á landinu fyrir 15 milljónum ára. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum bendir þetta sterklega til þess að þegar tegundirnar bárust til landsins hafi enn verið landbrú frá Grænlandi yfir Ísland og Færeyjar til Skotlands. Annars hefði tegundin aldrei getað borist hingað. Þetta segir okkur samt ekki hvort landbrúin var enn til staðar fyrir 15 milljónum ára, heldur að hún var hér þegar tegundin nam hér land.


Kvenkyns könglar á fornrauðvið. Þeir eru fyrst grænir en verða síðan brúnir við þroskun. Myndin fengin héðan.


Undan ströndum Vestfjarða eru eldri jarðlög. Það er ekki hlaupið að því að skoða hugsanlega steingervinga sem þar kunna að leynast. Ef þeir eru þar eru miklar líkur á að þar á meðal sé fornrauðviður. Eftir því sem jarðlögin eru eldri, þeim mun líklegra er að þar séu leifar fornrauðviðar.


Við innganginn að grasagarðinum í Edinborg stendur þessi fornrauðviður. Myndin tekin í desember. Mynd: Sig.A.

 

Ættfræði

Í strandskógum í vesturhluta Kaliforníu vex strandrauðviður, Sequoia sempervirens og er eina tegund sinnar ættkvíslar. Náskyld ættkvísl vex innar í landinu, fjær sjó og hefur einnig bara eina tegund. Heitir hún risafura eða fjallarauðviður, Sequoiadendron  giganteum. Þriðja náskylda ættkvíslin vex í Kína og hefur aðeins eina tegund. Það er tré vikunnar, fornrauðviður eða Metasequoia glyptostroboides. Þetta eru þær þrjár tegundir sem enn eru til af því sem í eina tíð var mjög stór hópur skyldra planta um norðanverðan hnöttinn (Wells 2010).

Lengi vel voru þessar þrjár tegundir settar saman í eina ætt ásamt fáeinum öðrum ættkvíslum. Var sú ætt kölluð Taxodiaceae og innihélt átta eða níu ættkvíslir en aðeins um tólf tegundir. Þetta nafn má enn sjá í grasagörðum og bókum en grasafræðingar hafa komist að því ekki sé nægilega mikill munur á þessum tegundum og öðrum skyldum tegundum sem eru í ættinni Cupressaceae til að réttlæta að þær myndi sérstaka ætt. Því hafa ættirnar verið sameinaðar og fyrra nafnið lagt niður. Síðan er Cupressaceae stærsta ætt barrtrjáa í heiminum með einar 30 ættkvíslir (Miles 2021, Farjon 2008). Að sögn réð miklu um þessa skipan að fornrauðviðurinn, sem greinilega er skyldur öðrum rauðviðum, á margt sameiginlegt með sýprusum. Það er einkum barrið á fornrauðviðum sem leiddi til þessara breytinga á ættum samkvæmt Eckenwalder (2009). Það er líkt barrinu á öðrum rauðviðum en vex í pörum eins og algengt er hjá mörgum plöntum innan Cupressaceae. Einnig eru nokkur líkindi með könglum þessara tegunda.


Tvær myndir af þroskuðum fornrauðvið í Edinborg.


Náttúrusaga

Í fyrsta kafla þessarar greinar var farið á hundavaði yfir tímarammann sem tegundin fyllir út í. Nú segjum við aðeins nánar frá þessari sögu.

Loftslag jarðarinnar var til muna mildara fyrir mörgum milljónum ára. Blómplöntur voru þá rétt að koma fram en allskonar rauðviðir voru algengir. Stóru fjallgarðarnir sem við þekkjum á okkar tímum, eins og Himalajafjöll og Klettafjöllin voru ekki svipur hjá sjón.

Fyrir um 100 milljónum ára voru tegundir líkar þeim sem áður mynduðu Taxodiaceae miklu fleiri og voru mjög algengar um nánast allt norðurhvel jarðar (Miles 2021). Um tíma virðast þessi tré hafa verið ríkjandi á stórum svæðum um norðanverðan hnöttinn en uxu samt ekki á því svæði sem við nú köllum Vestur-Evrópu. Þessir steingervingar eru nokkuð fjölbreyttir og ekki er nokkur leið að fullyrða hversu margar tegundir voru til af ættkvíslinni (Eckenwalder 2009). Aðrir taka ekki svo djúpt í árinni og segja að þekktar séu 12 vel aðgreindar tegundir sem eru skyldar þeim trjám sem nú finnast í Ameríku: Risafurum (fjallarauðvið) og strandrauðvið. Að auki hafa verið greindar nokkrar tegundir af fornrauðviðum líkir þeim sem nú vaxa villtir í Kína.

Elstu steingervingar fornrauðviða hafa fundist bæði í Alaska og í Síberíu. Á þeim er barrið ekki endilega í pörum eins og síðar varð. Næstum jafn gamlir steingervingar hafa fundist í Kanada.

Á Svalbarða eru steingervingar fornrauðviða nokkuð algengir. Anna Stella Guðmundsdóttir fann þá reglulega milli kolalaga í borkjörnum er hún var þar að störfum. Hún hefur einnig fundið þá í felti. Þessir steingervingar eru sagðir um 65 milljón ára gamlir (Anna Stella 2024). Fyrir 45 milljónum ára voru heimskautin enn íslaus í þeim hlýindum sem þá ríktu. Þá uxu fornrauðviðir á því svæði sem nú eru freðmýrar á nyrstu eyjum heimsins, svo sem á kanadísku íshafseyjunum Ellesmere og Axel Heiberg. Þær teygja sig báðar norður fyrir 80° norðlægrar breiddar (Yang og Leng 2018). Þá var tegundin einnig á Norður-Grænlandi á svipaðri breiddargráðu (Eckenwalder 2009).

Fyrir um 35 milljónum ára fór að kólna og norðurheimskautssvæðið varð of kalt fyrir fornrauðviði og reyndar einnig aðra skóga, svona almennt. Smám saman drógust heimkynni þessara trjáa saman (Eckenwalder 2009).

Elstu jarðlög Íslands eru ekki nema 15 milljón ára og geyma steingervinga sumra þessara tegunda sem þá voru enn uppi. Þar á meðal voru fornrauðviðir. Þá var enn mjög hlýtt á Íslandi miðað við það sem síðar varð en heimkynni rauðviða voru að færast sunnar á hnöttinn.


Voldugur steingervingur af fornrauðvið á Íslandi sem lengi var á skrifstofu Skjólskóga á Vestfjörðum. Hann kom úr setlagi í Hrafnhólum í Helgafelli í Dýrafirði og óx þar fyrir um 12-14 milljónum ára. Mynd og upplýsingar: Sæmundur Kr. Þorsteinsson.

Með áframhaldandi kólnun drógust heimkynni þessara tegunda saman. Þau hurfu af norðlægum eyjum og einnig frá Alaska og Síberíu. Yngstu steingervingarnir sem þekktir eru fundust í Japan eins og áður segir.


Tvö frímerki til heiðurs fornrauðvið. Hið fyrra frá Kína þar sem tréð er enn lifandi. Hið síðara frá Norður-Kóreu sem sýnir steingerving og tré eins og talið er að þau hafi verið. Myndirnar fengnar héðan.



Svo fór að kólna fyrir alvöru. Kuldinn leiddi til ísmyndunar á pólunum og þar með minnkaði það vatn sem aðgengilegt var plöntum. Jörðin varð ekki bara kaldari, heldur einnig þurrari. Þá fækkaði þessum tegundum smám saman. Fyrir um 2 milljónum ára virðist ættkvíslin nánast alveg hafa horfið af jörðinni. Að minnsta kosti héldu vísindamenn það uns eina núlifandi tegundin fannst snemma á fimmta áratug síðustu aldar. Yngri steingervingar en tveggja milljón ára gamlir hafa ekki fundist (Miles 2021).


Fornrauðviður í haustlitum á blautum stað. Mynd: Alpsdake en myndin er fengin frá Wikipedia.


Að ofansögðu má ljóst vera að fornrauðviður er ekki bara merkilegt tré heldur á hann sér líka stórmerkilega og langa sögu. Ef til vill kemur sú tíð að hægt verði að rækta hann hérlendis en þangað til getum við skoðað tegundina í erlendum grasa- og almenningsgörðum og dáðst að henni. 



Þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir vandaðan yfirlestur og þarfar ábendingar. Allar villur sem kunna að leynast í textanum eru þó á ábyrgð höfundar. Þakkir fá einnig Anna Stella Guðmundsdóttir, Margrét Hauksdóttir og Sæmundur Kr. Þorsteinsson fyrir upplýsingar og myndalán.


Heimildir og frekari lestur


Anna Stella Guðmundsdóttir (2024) Upplýsingar í gegnum Facebook í febrúar 2024.


Egil Ingvar Aune (2022) Metasequoia. Í Store norske leksikon. sjá:

Metasequoia – Store norske leksikon (snl.no) Sótt 9. feb. 2024.


Aljos Farjon (2008): A Natural History of Conifers. Timber Press, Inc. Portland, Oregon, USA.


Christopher J. Earle (2023): Metasequoia glyptostroboides hjá: The Gymnosperm Database: Sjá; Metasequoia glyptostroboides (dawn redwood) description (conifers.org) sótt 12.02.2024.


James E. Eckenwalder (2009) Conifers of the World. The Complete Reference. Timber Press, Portland & London.

 

Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson og Thomas Denk (2007): Elstu flórur Íslands. Í Náttúrufræðingurinn, 75(2-4): 85-106.. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Náttúrufræðistofa Kópavogs.


Margrét Hauksdóttir (2024): Upplýsingar í gegnum Facebook.


Archie Miles (2021):The Trees that Made Britain. An Evergreen History. BBC Books. Byggt á samnefndum sjónvarpsþætti BBC2 Sjá: https://www.bbc.co.uk/programmes/b006z75x.


Sæmundur Kr. Þorsteinsson (2023) Upplýsingar í gegnum Facebook.

 

The World Flora Online (WFO) (2023): Metasequoia glyptostroboides. Sótt 4. febrúar 2024. Sjá: Metasequoia glyptostroboides Hu & W.C.Cheng (worldfloraonline.org) og Metasequoia Hu & W.C.Cheng (worldfloraonline.org)


Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Hong Yang & Qin Leng (2018): Old Molecules, New Climate: Metasequoia’s Secrets. Í: Arnoldia - 76(2): 24-32. Sótt 12.02. 2024.


Xiaoyan Zhang, Haiyan Wei, Xuhui Zhang, Jing Liu, Quanzhong Zhang & Wei Gu (2020): Non-Pessimistic Predictions of the Distributions and Suitability of Metasequoia glyptostroboides under Climate Change Using a Random Forest Model. Í: Forests 2020, 11, 62. https://doi.org/10.3390/f11010062. Sótt 11.02.2024.




383 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page