top of page

Lerkiættkvíslin

Updated: Jul 13, 2023


Lerki (Larix) hefur þá sérstöðu innan þallarættarinnar (Pinaceae) að fella barrið á haustin. Því getur lerki myndað glæsilega, gula haustliti eins og sjá má hér að ofan. Aðrar ættkvíslir af þallarætt, sem ræktaðar eru á Íslandi, gera það ekki. Reyndar er það svo að ekki er mikill munur á fjölda barrnála sem falla til jarðar árlega í lerkiskógum og öðrum skógum ættarinnar. Önnur tré svo sem furur, þinur og greni, fella jafn mikið barr árlega en þar verður hver barrnál nokkuð eldri á hverju tré. Þau eru því sígræn. Eldri heiti á lerki á íslensku eru m.a. barrfellir og lævirkjatré. Þau hafa nú vikið fyrir lerkiheitinu. Lerkiættkvíslin er #TrévikunnarSE.


Ellefu tegundir eru sagðar vera innan ættkvíslarinnar samkvæmt nýjustu talningu. Það er þó breytilegt hvað telja skuli til tegunda þannig að sumir segja að þær séu á bilinu 10 til 20. Þær geta flestar tímgast innbyrðis og eru blendingar víða ræktaðir. Þannig er t.d. hinn vinsæli ´Hrymur´ blendingur evrópu- og síberíulerkis, búinn til í fræhúsinu á Vöglum. Myndin hér til hægri er úr fræhúsinu og sýnir blóm lerkisins.Almennt um lerki

Lerki er góður frumherji í skógrækt.

Allt lerki er ljóselskt og margar þrífast við rýran kost. Því er það mjög gjarnan nýtt sem frumherjatré á Íslandi. Tré sem veita öðrum gróðri gott skjól og bæta bæði jarðveg og staðviðri.Að jafnaði eru lerkiskógar bjartari en aðrir barrskógar. Þeir hleypa meira ljósi í gegnum sig þannig að gróður í botni þeirra getur verið fjölbreyttur og gróskumikill.
Þéttur lerkiskógur að vaxa upp í Austurríki. Stöku rauðgrenitré skreyta skóginn.

Lerki vex einkum í barrskógarbeltinu, bæði í Evrasíu og Ameríku. Sunnar á hnettinum, t.d. í Evrópu, Japan og Himalaya vaxa þær til fjalla þar sem svalara er en á láglendinu.


Lerkitré í Skriðdal skrýðast ljósgrænum lit langt á undan staðarbirkinu.

Þessi vaxtarsvæði í heimkynnum lerkitrjáa eru að því leyti ólík aðstæðum á Íslandi að hér er að jafnaði boðið upp á hafrænna loftslag. Veldur það stundum dálitlum vandkvæðum við ræktun lerkis. Sumar tegundir vilja fara af stað nokkuð snemma á vorin sem getur verið tvíeggjað sverð þegar enn er hætta á vorfrostum.
Þessi mynd sýnir haustliti á lerki. Ljósu blettirnir eru nývöxtur á miðju hausti. Þetta er algengt á hlýjum haustum en býður hættunni á haustkali heim.
Evrópulerkitré við skógarmörk í Austurríki. Kjarrvaxnar furur vaxa hærra en lerkið myndar þarna beinvaxin tré.

Allar mynda lerkitegundirnar einstofna og hávaxin tré ef aðstæður leyfa. Hér á landi láta sumar tegundir blekkjast af umhleypingum og eiga því á hættu að verða fyrir endurteknu kali. Því er það svo að því fer fjærri að öll lerkitré á landinu séu með einn beinan og hávaxinn stofn.Lerkiskógur í Skriðdal. Skúmhöttur í baksýn.

Ef og þegar lerkitré eru beinvaxin mynda þau mjög eftirsóttan við sem er til margra hluta nýtanlegur. Í Evrópu og Ameríku er viðurinn gjarnan nýttur sem stoðir í hverskyns námum enda þarf sá viður að vera einkar sterkur. Viðurinn þolir vel raka og ásókn fúasveppa. Því má vel nota þá í glugga, pallaefni og margt fleira.


Þrír árgangar af lerkikönglum á lerkigrein. Skortur á heppilegu fræi kemur í veg fyrir að lerki sé enn meira ræktað en nú er.

Lerkitré hafa lengi verið ræktuð á Íslandi og eru enn mjög mikilvæg skógartré. Það sem helst hefur komið í veg fyrir að þau séu enn meira ræktuð er skortur á heppilegu fræi.Tegundir

Helstu tegundir sem finnast hér á landi eru eftirfarandi:

1. Síberíulerki (Larix siberica) Það er mest ræktaða lerkitegundin á Íslandi en um þessar mundir er minna framleitt af því en markaður er fyrir vegna þess að erfitt er að nálgast heppilegt fræ. Áður fyrr var þessari tegund skipt í að minnsta kosti tvær tegundir. Síberíulerki (L. siberica) sem vex austan Úralfjalla og rússalerki (L. sukaczewii) sem vex vestan þeirra.Grasafræðingar segja þetta þó vera sömu tegundina. Það getur þó verið gagnlegt fyrir okkur á Íslandi að skipta þessu í tvo hópa vegna þess að lerkið sem vex vestan Úralfjalla (rússalerkið) vex hér mun betur en það sem vex austan þeirra.2. Evrópulerki (Larix decidua) Það vex í til fjalla í Evrópu, einkum í Alpa- og Karpatafjöllum og víða fara ekki önnur tré jafn hátt til fjalla á þeim slóðum. Þó má finna runna sem fara ofar. Aftur á móti virðist það vera svo að í Ölpunum myndar evrópulerkið alltaf beinvaxin tré ef þau þrífast á annað borð. Þannig haga þau sér því miður ekki hér á landi. Þau vaxa gjarnan langt fram á haustið og verða títt fyrir haustkali. Því er það svo að íslensk evrópulerki eru gjarnan sérlega kræklótt. Það líkar mörgum skógarmanninum, sem rækta vill skóg til viðarframleiðslu, stórilla. Aftur á móti gleðjast börn gjarnan yfir þessu vaxtarlagi því þau henta sérlega vel til klifurs. Að auki eru þau oft með mikinn karakter. Myndin er af grein evrópulerkis í fræhúsinu á Vöglum.


3. Dáriulerki (Larix gmelinii) Tekur við af síberíulerki austur í Síberíu. Það vex allt frá fljótinu Lenu og austur að kyrrahafi. Það er það tré sem á þeim slóðum vex lengst í norður eða allt að 73° norðlægrar breiddar. Hingað til hafa tré af þessari tegund hvorki vakið athygli fyrir fallegt vaxtarlag né mikinn vöxt. Þó má búast við að ef rétt kvæmi berast hingað muni tegundin geta nýst okkur, enda á tegundin sér víðfema útbreiðslu. Sem dæmi má nefna að sá sem þetta pikkar gróðursetti tré af þessari tegund austur í Skriðdal. Voru þau tré frá Kamtsjatka skaga. Vaxa þú hægar en rússalerkið (síberíulerkið) á sömu slóðum en áfallalítið. Gætu e.t.v. hentað í garðrækt o.fl.

Af sömu tegund er lerki sem nefnt hefur verið kúrileyjalerki (L. gmelinii var. japonica). Það vex m.a. á Miðhálsstöðum og má lesa um þau tré hér. Tréð í Skriðdal fellur betur að lýsingu kúrileyjalerkis en venjulegs dáríulerkis.Myndina hér til hægri tók Helgi Þórsson. Lerkið lengst til vinstri er tré ræktað upp af fræi af kúrileyjalerkinu á Miðhálsstöðum. Fremri trén tvö eru fjallalerki. Um þau má lesa neðar.

4. Mýrarlerki (Larix laricina) Þetta er norðuramerísk tegund. Það vex allt frá Nýfundnalandi til Alaska. Reyndar er þetta eina lerkitegundin sem vex frá náttúrunnar hendi í Alaska. Þetta lerki vex hægar og minna en síberíulerkið og er því mun minna ræktað. Það verður oft undir í samkeppni í heimahögum sínum við önnur barrtré nema þar sem skilyrði fyrir önnur tré eru lakari. Í mýrum vaxa fá norðlæg tré en mýrarlerkið þolir það. Það er þó fjarri því að það sé kjörlendi tegundarinnar. Við vötnin miklu í Norður-Ameríku myndar tegundin stór og stæðileg tré en myndar lágvaxið, kræklótt kjarr við erfiðari skilyrði svo sem í Labrador. Sagt er að ekkert tré vaxi norðar í Norður-Ameríku en þessi tegund.

Stofn þessa lerkis er oftast mjög grannur en sterkur. Það má segja að það sé eitt af einkennum tegundarinnar hve þvermálsvöxtur er lítill. Hann verður því mjög sterkur og er gjarnan nýttur undir járnbrautarteina og frumbyggjar skáru út tótemsúlur úr honum. Að auki nýttu þeir börk, við og nálar með margvíslegum hætti.5. Fjallalerki (Larix lyalli)

Fjallalerki er tegund sem vex í smálundum við og nálægt skógarmörkum í Klettafjöllum Norður-Ameríku. Það getur orðið meira en 1000 ára gamalt. Það er fremur hægvaxta og þrífst í grýttum og sendnum jarðvegi. Það er frostþolið og beinvaxið á Íslandi en þolir nær enga samkeppni við annan gróður. Það væri sjálfsagt meira ræktað hér til yndisauka ef auðveldara væri að afla fræs. Myndin sem hér fylgir er af fjallalerki á Höfða á Héraði. Hana tók Þröstur Eysteinsson í október árið 2020. Það er teinrétt og fallegt þrátt fyrir skjólleysi og rýran jarðveg en vex frekar hægt.


6. Risalerki (Larix occidentalis)

Þetta er hávaxnasta lerkitegund í heimi en óvíst er hversu há þau verða á Íslandi. Í heimkynnum sínum í Norður-Ameríku getur það orðið 30 til 60 metrar á hæð! Það er talið náskylt fjallalerki en vex hraðar strax í æsku. Hér á landi myndar það oftast beinvaxið tré þrátt fyrir að vaxa jafn lengi fram á haustin og evrópulerkið gerir. Lítil reynsla er enn af því á Íslandi. 7. Japanslerki (Larix kaempferi)

Það finnst í fjallendi á Honshu-eyju í Japan. Því hefur verið plantað víða utan útbreiðslusvæðis síns, meðal annars í Evrópu. Í japan er það að auki stundum ræktað sem bomsaitré. Það hefur verið reynt hérlendis en átt erfitt uppdráttar. Stendur grænt langt fram á haust og er hætt við endurteknu haustkali. Auk ofangreindra tegunda hafa verið ræktaðir blendingar af tegundum á Íslandi. Hæst ber þar yrki sem heitir ´Hrymur´ sem áður hefur verið nefndur. Hann er blendingur evrópulerkis og rússalerkis (Larix decidua x sukaczewii ). Hrymur væri sjálfsagt enn meira ræktaður ef til væri meira fræ af honum. Hann vex lengra fram á haustið en síberíulerkið en virðist samt ekki hætt við haustkali. Hrymur sýnir mun meiri vöxt en rússalerki, sem mest er ræktað á Íslandi. Munurinn í æsku getur verið sláandi eða hátt í fjórfaldur!


Annar blendingur sem reyndur hefur verið á Íslandi er sifjalerki (Larix x marschlinsii ) sem áður gekk undir nafninu L. eurolepis) Sifjalerki er blendingur á milli japanslerkis og evrópulerkis. Hann var fyrst uppgötvaður í Skotlandi þar sem báðum foreldrunum hafði verið plantað en hvorugt þeirra á sér náttúruleg heimkynni á Bretlandseyjum þótt þau finnist víða. Sifjalerki erfir gjarnan góða eiginleika foreldranna og sýnir mikinn blendingsþrótt. Það merkir að vaxtarhraðinn er meiri en hjá báðum foreldrunum. Hingað til hefur sifjalerki orðið afar kræklótt í vextinum en gæti sjálfsagt þrifist betur sunnan heiða en norðan.

Hér fyrir neðan má sjá enn fleiri myndir af lerki,494 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page