top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Runnkennt elri til landgræðslu - Fyrri hluti: Almennt

Víða er þörf á að græða upp land á Íslandi. Stundum er talið að hástig landgræðslu sé fólgið í því að búa til skóg eða akra úr örfoka landi. Þar sem þessi pistill er hluti af pistlaröð um tré, skóga og tengd málefni geymum við akrana í þetta skiptið en höldum okkur við ræktun skóga og kjarrs. Stundum, þegar illa farið land er tekið til ræktunar, er byrjað á því að reyna að koma lífi í landið, til dæmis með notkun belgjurta eða endurtekinni áburðargjöf sem í sumum tilfellum getur komið af stað gróðurframvindu. Trjám er síðan plantað þegar framvindan er komin í gang. Sum tré og runnar eru svokallaðir frumherjar í vistkerfum. Frumherjar koma snemma inn í gróðurframvinduna. Birki og víðitegundir eru slíkar plöntur en í mjög ófrjóu landi verður framvindan hæg. Fyrir löngu sögðum við frá því að hægt er að auka vöxt trjáa með því að nota belgjurtir, sem binda nitur beint úr andrúmslofti með aðstoð örvera á rótum. Nitrið bætir næringarástand landsins og eykur vöxt trjánna og annars gróðurs. Er ekki hægt að finna trjá- og runnategundir sem gera þetta sjálfar? Tegundir sem binda nitur og bæta þannig frjósemina?

Jú, það er hægt. Reyndar eru ættkvíslirnar fleiri en ein. Við höfum meira að segja sagt frá heilli ættkvísl nú þegar sem getur þetta. Það er elriættkvíslin eða Alnus.

Á þessari mynd eru hafþyrnir, alaskalúpína og sitkaelri sem plantað var í örfoka land. Allar þessar tegundir, sem tilheyra mismunandi ættum plantna, hafa gerla á rótunum sem vinna nitur úr andrúmsloftinu. Lúpínan er farin að hörfa og grastegundir taka við af henni. Í bakgrunni sést í blandskóg með lerki og stafafuru. Þær tegundir hafa sveppi í þjónustu sinni. Mynd: Sig.A.
Á þessari mynd eru hafþyrnir, alaskalúpína og sitkaelri sem plantað var í örfoka land. Allar þessar tegundir, sem tilheyra mismunandi ættum plantna, hafa gerla á rótunum sem vinna nitur úr andrúmsloftinu. Lúpínan er farin að hörfa og grastegundir taka við af henni. Í bakgrunni sést í blandskóg með lerki og stafafuru. Þær tegundir hafa sveppi í þjónustu sinni. Mynd: Sig.A.

Í þessum pistli skoðum við hóp runna sem tilheyra elriættkvíslinni og geta vaxið þar sem fá tré ná einhverjum þroska. Ástæðan er fyrst og fremst þetta sambýli við örverur sem vinna nitur. Um þessa ættkvísl setti Philip Vogler saman þessa vísu:

Þar sem lítum svarta sanda,

sorfið grjót og áfoksvanda

virðist Alnus öflug planta

og ennþá meir á Fróni vanta.

Við skiptum pistlinum í tvo hluta. Í þeim fyrri, sem hér má sjá, fjöllum við almennt um þessa runna eða þetta kjarr og hvar kjarrið er að finna en í þeim seinni segjum við frá helstu tegundum og undirtegundum. Við komumst samt ekki hjá því að nefna fáeinar tegundir í þessum pistli en þó enn frekar undirtegundir og við vonum að okkur fyrirgefist það.

Runnkennt elri, sennilega sitkaelri, í skriðum ofan við Búlandsnes við Djúpavog árið 2016. Þarna mun væntanlega verða elrikjarr með tíð og tíma ef landið fær frið. Það mun hafa jákvæð áhrif á grósku, því örverur á rótum runnanna binda nitur sem nýtist öllu vistkerfinu. Mynd: Sig.A.
Runnkennt elri, sennilega sitkaelri, í skriðum ofan við Búlandsnes við Djúpavog árið 2016. Þarna mun væntanlega verða elrikjarr með tíð og tíma ef landið fær frið. Það mun hafa jákvæð áhrif á grósku, því örverur á rótum runnanna binda nitur sem nýtist öllu vistkerfinu. Mynd: Sig.A.

Elriættkvíslin

Í fyrri elripistlum okkar sögðum við frá því að elri er náskylt birki. Þó er sá meginmunur á að elrið lifir í sambýli við gerla sem vinna nitur beint úr andrúmsloftinu og breyta því í form sem elrið getur nýtt sér. Gerlar þessir heita Frankia alni og mynda sérstök hnýði á rótunum þar sem vinnslan fer fram. Það er þessi niturbinding sem gerir að verkum að elri getur vaxið ljómandi vel á mjög rýru landi. Elritegundir eru því gjarnan frumbýlingar sem í fyllingu tímans víkja fyrir stærri og kröfuharðari tegundum. Þetta er eiginleiki sem gerir elritegundir mjög áhugaverðar í landgræðslu og skógrækt. Í þessum pistli, sem fjallar almennt um elritegundir, sögðum við frá því að nánast allt elrikjarr tilheyrir undirættkvísl sem kallast Alnobetula. Innan hennar er ein stórtegund, Alnus alnobetula, sem skipt er í margar undirtegundir. Þetta er sá hópur ættkvíslarinnar sem talinn er skyldastur birkinu. Þegar við tölum um runnkennt elri til landgræðslu er það að mestu leyti þessi safntegund sem átt er við. Ekki liggur að fullu fyrir hvar ein tegund, fjallaelri, Alnus maximowiczii, lendir því hún tilheyrir ekki safntegundinni A. alnobetula en er þó skyld henni. Við höfum hana með í þessari umfjöllun enda myndar hún gjarnan runna og kjarr.

Guðmundur Halldórsson virðir fyrir sér sjálfsáið grænelri og sitkaelri í Skógey í Hornafirði árið 2012. Báðar tegundirnar hafa nú verið felldar undir safntegundina Alnus alnobetula. Árni Þórólfsson (2017) segir í sinni grein að runnkennda elrið sái sér meira út á Suðausturlandi en annars staðar á landinu. Mynd: Halldór Sverrisson.
Guðmundur Halldórsson virðir fyrir sér sjálfsáið grænelri og sitkaelri í Skógey í Hornafirði árið 2012. Báðar tegundirnar hafa nú verið felldar undir safntegundina Alnus alnobetula. Árni Þórólfsson (2017) segir í sinni grein að runnkennda elrið sái sér meira út á Suðausturlandi en annars staðar á landinu. Mynd: Halldór Sverrisson.

Elrikjarr

Ensk tunga geymir marga orðstofna úr norrænu. Diana Wells (2010) nefnir dæmi af orðinu carr. Orðið er notað um þykkni trjástofna sem vaxa þétt án þess að ná endilega mikilli hæð. Helst er þetta notað um elri og kallast það aldercarr. Hér er komið norræna orðið kjarr sem við þekkjum vel. Samkvæmt Wells getur elrikjarr vaxið þar sem fátt annað vex. Þrátt fyrir að Wells sé fyrst og fremst að tala um trjátegundina Alnus glutinosa, sem hefur ýmist verið nefnd svart- eða rauðelri á íslensku, passar lýsing hennar mjög vel við þær lýsingar sem finna má í erlendum bókum um það runnkennda elri sem hér er fjallað um. Orðið er notað almennt yfir elritegundir sem mynda kjarr þar sem það vex á erfiðum stöðum. Þetta minnir okkur á hversu algengt það er í heiminum að elri myndi kjarr á stöðum sem reynast öðrum tegundum erfiðar. Það getur viðhaldist árutugum saman þar sem önnur tré ná ekki rótfestu.

Sitkaelrikjarr í Alaska sem er svo þétt að það er varla manngengt. Mynd: Tumi Traustason.
Sitkaelrikjarr í Alaska sem er svo þétt að það er varla manngengt. Mynd: Tumi Traustason.

Elri til landgræðslu

Bæði tré og runnar af elriættkvíslinni geta verið frumbýlingar og hentað til landgræðslu. Sá sem þetta ritar plantaði nokkrum tegundum af elri í Eyrarteigi í Skriðdal fyrir mörgum árum. Ekki er að sjá að runnategundirnar sitkaelri og grænelri séu endilega heppilegri en trjátegundir á borð við gráelri og blæelri í þeirri sveit nema á sérstaklega þurrum stöðum. Þar þrífast runnarnir miklu betur. Ef aðstæður eru þannig að trjátegundirnar þrífast á annað borð eru þær á margan hátt heppilegri en runnarnir. Þær endast lengur í vistinni og skapa verðmætari við. Því er oftast nær full ástæða til að nota trén frekar en runnana nema ef til vill í jöðrum og annars staðar þar sem æskilegra er að hafa runna eða kjarr af einhverjum ástæðum. Rétt er líka að nefna að þótt runnarnir þoli töluverðan þurrk vaxa þeir miklu betur ef þeir fá nægan raka.

Hávaxið, runnkennt sitkaelri framan við furu- og lerkitré í Bolholti á Rangárvöllum. Mynd: Sig.A.
Hávaxið, runnkennt sitkaelri framan við furu- og lerkitré í Bolholti á Rangárvöllum. Mynd: Sig.A.

Þrátt fyrir það sem sagt er hér að framan er rétt að hafa í huga að runnar og kjarr geta haft nokkra kosti fram yfir tré sem vert er að nefna. Runnkennt elri hefur reynst heppilegri til notkunar á ákveðnum svæðum. Sérstaklega á þetta við um svæði sem flest tré eiga erfitt uppdráttar af einhverjum ástæðum. Þar má vel reyna svona elri. Það vex að jafnaði hraðar og bætir jarðveginn meira en til dæmis birki getur. Þannig getur runnkennt elri komið af stað mikilvægri gróðurframvindu. Þess vegna hefur Þorsteinn Tómasson (1999) mælt alveg sérstaklega með ræktun elrirunna við erfið skilyrði á melum þar sem frjósemi er lítil og frosthreyfingar koma í veg fyrir skjóta, náttúrulega uppgræðslu. Allt bendir til að seint á áttunda áratug síðustu aldar hafi Þorsteinn orðið fyrstur til að reyna runnkennt elri til landgræðslu á Íslandi með góðum árangri. Niðurstaða hans varð sú að elri getur spjarað sig þar sem aðrar trjá- og runnategundir virðast eiga í erfiðleikum með að nema land (Þorsteinn 1999).

Víða á norðlægum slóðum getur elrikjarr grætt upp land eftir hverskyns rask og þar sem jöklar hopa svo dæmi séu tekin. Á sambærilegum stöðum á Íslandi má vel nota elrirunna.

Í hálöndum Skotlands, til dæmis hér í 600 metra hæð yfir sjávarmáli í Grampian Highlands, hefur Alnus alnobetula staðið sig vel sem landgræðsluplanta. Hér hafði gróður eyðst vegna ósjálfbærrar landnýtingar en elrið hjálpar til við að ná upp fyrri grósku. Eins og á Íslandi er tegundin innflutt í Skotlandi. Mynd og upplýsingar: Ron Greer.
Í hálöndum Skotlands, til dæmis hér í 600 metra hæð yfir sjávarmáli í Grampian Highlands, hefur Alnus alnobetula staðið sig vel sem landgræðsluplanta. Hér hafði gróður eyðst vegna ósjálfbærrar landnýtingar en elrið hjálpar til við að ná upp fyrri grósku. Eins og á Íslandi er tegundin innflutt í Skotlandi. Mynd og upplýsingar: Ron Greer.

Runnarnir geta einnig verið heppilegir til að fanga snjó við mörk trjáreita þannig að tré brotni síður undan honum. Það gerir kjarrinu ekkert til þótt það brotni. Það vex upp aftur.

Á norðlægum slóðum eru aðstæður stundum þannig að kjarrskógar elris halda varanlega velli. Það á til dæmis við þar sem snjóflóð eru það tíð að barrskógar komast ekki á legg (Halldór 2013). Slíkt kjarr getur dregið mjög úr áhrifum snjóflóða.

Austur á Kamsjatkaskaga myndar elrikjarr belti ofan við skógarmörk þar sem það bindur jarðveg og heftir snjó. Elrirunnar vaxa einnig norðan eða ofan við skógarmörk víðar í Asíu og sömuleiðis í Ameríku. Á Grænlandi vex grænelri norðar en birki sem er sömu gerðar og vex á Íslandi. Það sýnir vel hvað elrikjarr getur verið harðgert.

Þessi dæmi sýna að elrikjarr getur vaxið þar sem annar trjágróður á í vanda. Ef til vill gæti það haldið velli sums staðar á Íslandi þar sem annar trjágróður getur trauðla numið land. Kjarrið gæti í kjölfarið veitt öðrum trjátegundum nægilegt skjól til að koma sér fyrir. Tilraunir, sem settar voru út á 25 stöðum á landinu árið 1988, sýndu að elrirunnar henta mjög vel í mela og annað rýrt og illa gróið land en alls ekki í grasgefið og frjótt land (Halldór 2013). Þar eiga aðrar tegundir betur heima því ungar plöntur af runnkenndu elri tapa í þeirri samkeppni. Sá sem þetta ritar vill bæta því við að í mjög leirkenndum, þéttum og loftlitlum jarðvegi virðist elrirunnar stundum eiga í vanda jafnvel þótt lítil samkeppni sé við annan gróður. Sendinn eða grýttur jarðvegur hentar betur. Enginn hörgull er á slíkri vist á Íslandi.

Sitkaelri og rússalerki í gömlum mel austur í Skriðdal. Þetta er gott dæmi um vel heppnaða landgræðslu. Í baksýn sést Hallbjarnarstaðatindur. Mynd: Sig.A.
Sitkaelri og rússalerki í gömlum mel austur í Skriðdal. Þetta er gott dæmi um vel heppnaða landgræðslu. Í baksýn sést Hallbjarnarstaðatindur. Mynd: Sig.A.

Önnur notkun

Þótt þessi pistill sé fyrst og fremst um notkun elrirunna til landgræðslu getum við ekki stillt okkur um að nefna að auðvitað má nota þá víðar. Þeir geta hentað vel í jaðra skógarreita og sumarbústaðalanda. Þá má einnig nota í klippt limgerði og í skjólbelti. Jafnframt geta þeir hentað víðar til skjólmyndunar og sem áburðargjafi.

Runnkenndar elritegundir má vel nýta í þétt og klippt limgerði eins og hér er gert með sitkaelri í Hafnafirði. Þó verður að hafa í huga að tegundirnar eru ljóselskar og þola ekki að standa í skugga. Mynd: Steinar Björgvinsson.
Runnkenndar elritegundir má vel nýta í þétt og klippt limgerði eins og hér er gert með sitkaelri í Hafnafirði. Þó verður að hafa í huga að tegundirnar eru ljóselskar og þola ekki að standa í skugga. Mynd: Steinar Björgvinsson.

Blómgun

Almennt má segja að runnkennt elri byrjar að mynda fræ nokkuð snemma á lífsleiðinni ef miðað er við önnur tré og runna. Það er einmitt eitt af einkennum frumherjategunda. Blómgun elrirunna hefst oft þegar trén eru um fimm ára gömul. Stundum má sjá rekla í litlum mæli á yngri runnum og sumir eru lengur að verða kynþroska, sérstaklega ef vöxtur og þroski er ekki nægilega góður en bæði erfðir og umhverfi skiptir miklu máli um fræþroska.

Flest trén af elriættkvíslinni byrja að blómstra löngu fyrir laufgun. Þar sem vindur sér um að bera frjóið á milli plantna hefur það ótvíræða kosti að blómstra áður en laufið truflar flæðið. Á móti kemur að vorfrost eru miklu líklegri til að skemma blóm og fræþroska ef blómgunin hefst snemma. Sennilega er það þess vegna sem þróunin hefur orðið til þess að hið runnkennda elri, sem almennt getur lifað norðar og hærra yfir sjávarmáli en tré af sömu ættkvísl, blómstrar heldur seinna en trén. Runnarnir byrja oftast að blómstra um leið og það laufgast eða rétt áður. Ef til vill berst minna frjó á kvenreklana þegar lauf hefur myndast en á móti kemur að ólíklegra er að blómin eða fræið skemmist í frosti þegar blómgun er seinkað. Til að draga úr líkum á sjálfsfrjóvgun og tryggja uppstokkun erfðaefnis hefur elrið þróast þannig að karlblómin koma á undan flestum kvenblómunum á hverjum runna fyrir sig. Þegar fáir runnar vaxa saman getur þetta leitt til þess að hörgull verður á frjói þegar kvenblómin eru flest og fræmyndun verður þá takmörkuð. Ef fleiri runnar vaxa nálægt hver öðrum verður fræmyndun miklu meiri og tryggari enda nægilegt frjó í loftinu nema fyrir þá runna sem mynda kvenblóm seinast. Þá vantar frjóið frá karlblómunum.

Ef ætlunin er að fá mikið fræ þrátt fyrir fáa runna má vel reyna að bera frjó handvirkt á milli plantna en það er óþarfi ef runnarnir eru margir saman (Þorsteinn 1999).

Tvær myndir af sitkaelri sem myndar fræ. Á fyrri myndinni eru ungir fræreklar sem ekki hafa enn trénað. Á seinni myndinni má sjá frjórekla og trénaða kvenrekla frá árinu á undan. Efst á þeirri mynd eru nýir fræreklar. Því miður er íslenskt fræ oft frekar lélegt og stór hluti þess ófrjór. Það á sérstaklega við ef fáir runnar vaxa saman. Samt sem áður eru mörg dæmi um að elrikjarr geti sáð sér út í rýru og ófrjóu landi. Þar sem marga runna er að finna er fræmyndun tryggari. Myndir: Sig.A.


Fræmyndun

Í landgræðslu getur verið mikill kostur að runnarnir séu ungir þegar fræframleiðsla hefst. Vel má ímynda sér að hægt sé að búa til svokallaðar elrieyjar sem sáð geta sér út á örfoka landi. Þetta hefur stundum verið gert með birki með góðum árangri. Elrieyjarnar eru þá nokkrir elrirunnar sem vaxa saman, skýla hver öðrum og frjóvga hver annan. Á milli eyjanna getur verið nokkurt bil og í það svæði geta runnarnir sáð sér og grætt upp landið. Ef til vill þarf að sjá til þess að koma réttu gerilsmiti í landið þegar fræframleiðslan hefst því skortur á smiti kemur í veg fyrir að ungplönturnar komist á legg. Þetta er vitanlega allt saman háð því að landið sé friðað fyrir beit enda gengur öll landgræðsla betur fyrir sig á friðuðu landi. Reyndar hefur skortur á vörsluskyldu búfjár gert allar landgræðsluaðgerðir dýrari og erfiðari en þær þyrftu að vera. Þótt prýðisdæmi séu um að landgræðsla hafi tekist ágætlega samfara beit á það sjaldnast við ef ætlunin er að klæða landið skógi eða kjarri.

Þrjár myndir af trénuðum fræreklum sem stundum eru nefndir könglar. Fyrsta myndin sýnir mjög unga plöntu sem farin er að mynda fræ. Miðmyndin sýnir unga rekla sem eru að þroska fræ. Lokamyndin sýnir opna rekla frá fyrra ári sem kastað hafa fræi sínu. Myndir: Sig.A.


Samkvæmt rannsóknum Þorsteins Tómassonar (1999) getur verið árangursríkt að sá sitkaelri beint í mela ef þess er gætt að hafa rétt smit með. Best reyndist honum að sá á haustin, rétt eins og náttúran gerir. Samkvæmt Þorsteini má bæta árangurinn með því að setja akrýldúk yfir sáninguna.

Hér hefur Aðalsteinn Sigurgeirsson hrært saman reklum af elri og sandi undan elrirunnum þar sem finna má heppilegt smit. Sumt af fræinu hefur losnað úr könglunum og sést í sandinum. Þessu má sá beint í mela þar sem annar gróður getur ekki keppt við elrið þegar fræið spírar. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.
Hér hefur Aðalsteinn Sigurgeirsson hrært saman reklum af elri og sandi undan elrirunnum þar sem finna má heppilegt smit. Sumt af fræinu hefur losnað úr könglunum og sést í sandinum. Þessu má sá beint í mela þar sem annar gróður getur ekki keppt við elrið þegar fræið spírar. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Sjálfsáning

Dæmi eru um að sitkaelri, sem er mest ræktað af þessum runnum, hafi sáð sér töluvert út frá ræktun á Íslandi. Sjaldnast er það þó þannig að það sái sér langt frá móðurplöntunum. Oftast nær er eins og plönturnar komist aðeins á legg þar sem fræið spírar nálægt rótarhveli móðurplöntunnar. Að minnsta kosti á það við um fyrstu árin eftir að runnunum er plantað. Að öllum líkindum stafar þetta af því að þegar fjær kemur frá móðurplöntunni eru ekki réttir rótargerlar til staðar. Dregur þetta verulega úr getu elrirunna til að græða hratt upp stór, samfelld svæði.

Sitkaelri getur sáð sér út en stundum aðeins stutt frá móðurplöntunum. Fyrri myndin sýnir staka, sjálfsána plöntu en á þeirri seinni má sjá sjálfsánar plöntur nærri móðurplöntunni. Myndir: Sig.A.


Hin allrasíðustu ár hafa fundist dæmi um að runnkennt elri hafi sáð sér nokkra metra frá móðurplöntunum. Gæti það bent til þess að smám saman sé elrið að koma sér betur fyrir í íslenskri náttúru. Í þessu sambandi er rétt að nefna þann möguleika að gerlarnir geti með tímanum dreift sér að svo miklu marki í náttúrunni að líkurnar á að elrifræ smitist aukist að miklum mun. Þá gæti hugsanlega orðið eins konar sprenging í útbreiðslunni og berar, manngerðar auðnir klæðst gróðri að nýju þar sem elri er á annað borð að finna. Ef svæði eru þannig í sveit sett að þar hefur allur lífrænn jarðvegur fokið í burtu og lengi hefur hvorki verið þar trjá- eða runnagróður að finna virðist elrið yfirleitt ekki geta sáð sér út nema þar sem ungplönturnar hafa tengsl við móðurplönturnar og mynda þar tengingar við rétta jarðvegsgerla.

Í móajarðvegi, jafnvel rýrum móajarðvegi, virðist stundum mega finna aðra Frankia-gerla sem þó geta myndað sambýli með elri en á það er varlegt að treysta. Sennilega eru það gerlar sem upphaflega hafa myndað sambýli með öðrum tegundum en elri. Þeir virðast í sumum tilfellum geta hjálpað elrinu en sambýlið verður aldrei eins öflugt og ef gerlar af Frankia alni eru til staðar. Annar möguleiki er að sums staðar hafi réttir gerlar lifað af í móajarðvegi frá því að elri óx á Íslandi fyrir ísöld. Ef til vill hafa þeir tórt með öðrum tegundum. Mörgum þykir þessi tilgáta ósennileg.


Þótt sitka- og grænelri sái sér sjaldan langt frá móðurplöntunum þekkjast þess dæmi. Á sínum tíma var elri plantað í þennan mel upp af Gerðisklöpp í Naustaborgum á Akureyri. Aðeins fáar plöntur komust á legg af ókunnum orsökum. Þær hafa vaxið vel og eru farnar að sá sér töluvert í melinn. Ef til vill var enn að finna smit í jarðvegi frá gömlu gróðursetningunni þegar þessar sáðplöntur fóru að vaxa. Myndir: Ingólfur Jóhannesson.


Elrikjarr á erfitt með að komast á legg í frjóu og gróskumiklu landi. Það mun aldrei leggja undir sig slíka vist því ungar plöntur tapa þar í samkeppni við annan gróður. Aftur á móti getur kjarrið lifað góðu lífi í slíkri vist ef runnarnir eru nógu stórir og öflugir þegar þeir eru gróðursettir. Einnig geta þeir lifað áfram í landi sem þeir hafa auðgað þótt það hafi ekki verið frjótt þegar ungplöntum var plantað. Þar vaxa runnarnir þar til þeir drepast úr elli eða annar trjágróður vex þeim yfir höfuð og myndar meiri skugga en elrið þolir. Þá lætur kjarrið undan og hverfa smám saman nema í jöðrum og annars staðar þar sem sólar nýtur.

Elri og birki í skógarjaðri. Handan þess var plantað lerki og furu. Nú er alaskalúpína að leggja undir sig mölina. Þar sem elrið er komið vel á veg mun lúpínan ekki trufla það. Aftur á móti eiga ungar elriplöntur ekki auðvelt með að vaxa upp í gróskumiklu landi. Mynd: Sig.A.
Elri og birki í skógarjaðri. Handan þess var plantað lerki og furu. Nú er alaskalúpína að leggja undir sig mölina. Þar sem elrið er komið vel á veg mun lúpínan ekki trufla það. Aftur á móti eiga ungar elriplöntur ekki auðvelt með að vaxa upp í gróskumiklu landi. Mynd: Sig.A.

Kostir eða gallar

Í huga margra eru fyrirmyndarlandgræðsluplöntur þær sem auka frjósemina, mynda mikið fræ á unga aldri svo þær geti sáð sér út en þó aðeins á rétt svæði. Þær eigi ekki að sá sér í gróið land. Síðan eigi þær að víkja hratt og örugglega fyrir öðrum gróðri sem á einhvern hátt er talinn æskilegri. Sennilega eru slíkar plöntur ekki til. Runnkennt elri skorar engu að síður nokkuð hátt á þessum skala. Elrið auðgar jarðveginn af nitri og eykur þannig frjósemina. Það myndar töluvert fræ frá ungaaldri, ef miðað er við flestar trjá- og runnategundir. Því getur það sáð sér nokkuð snemma út en sjaldan langt frá móðurplöntunum. Ungar plöntur eiga í erfiðleikum með að keppa við annan gróður, svo hættan á að elrið sái sér í gróið land er hverfandi. Hvort það er kostur eða galli fer sjálfsagt eftir sjónarhorni þess sem vill græða upp land. Að lokum mun elrið víkja að mestu fyrir öðrum trjám nema í undantekningartilfellum, en það víkur ekki fyrir lágvaxnari gróðri ef það hefur á annað borð komið sér fyrir. Slíkt elri getur myndað mikið fræ og á meðan plantnanna nýtur við munu þær sá sér í nálæg svæði ef þau verða fyrir raski.

Landgræðsla er ekki bara fólgin í því að græða upp örfoka land, heldur einnig að bæta illa farið land. Hér hefur furum, ættuðum úr fjöllum Evrópu og stöku sitkaelri verið plantað í rýran og rofinn lyng- og fjalldrapamóa í útjaðri skógræktarsvæðis. Hugmyndin var að þetta yrði skógarjaðar nærri þjóðveginum. Eftir að þessu var plantað var þjóðvegurinn færður. Mynd: Sig.A.
Landgræðsla er ekki bara fólgin í því að græða upp örfoka land, heldur einnig að bæta illa farið land. Hér hefur furum, ættuðum úr fjöllum Evrópu og stöku sitkaelri verið plantað í rýran og rofinn lyng- og fjalldrapamóa í útjaðri skógræktarsvæðis. Hugmyndin var að þetta yrði skógarjaðar nærri þjóðveginum. Eftir að þessu var plantað var þjóðvegurinn færður. Mynd: Sig.A.

Áhrif á vist

Þetta elri telst til landnemaplantna og getur aðeins haldið sér við til langframa þar sem aðstæður eru öðrum trjágróðri óhagstæðar. Það býr í haginn fyrir annan gróður með miklu niturnámi með aðstoð gerla á rótum. Því er hægt að nota elri til forræktunar á rýrum svæðum. Hægt er að planta því um leið og öðrum frumbýlingstrjám eins og til dæmis birki, lerki og furu. Reynslan bendir til þess að elrirunnarnir muni þá vaxa meira en trén til að byrja með. Runnarnir munu í upphafi binda meira kolefni en önnur tré, auðga jarðveginn og veita öðrum trjám skjól. Þeir geta því flýtt fyrir vexti trjáa sem seinna koma til með að mynda skóga. Þau tré munu væntanlega skyggja elrirunnana út svo þeir hverfi, nema í rjóðrum og jöðrum. Þar geta þeir prýtt skóginn um langa hríð og aukið á frjósemi og fjölbreytni.

Hið runnkennda elri virðist ekki gera sömu kröfur um aðgang að vatni og sumar elritegundir sem mynda tré. Því er vel hægt að nota elri til að græða upp þurra mela ef vilji er fyrir hendi. Það vex þó enn betur þar sem raki er nægur.


Sitkaelri og rússalerki í möl. Þessu var öllu plantað á sama tíma en nokkur ár eru á milli mynda. Elrið skýlir lerkinu og auðgar jarðveginn. Þegar lerkið stækkar verður elrið í skógarjaðrinum. Á fyrri myndinni er eins og eitt sitkaelrið hafi ákveðið að verða tré. Það gerist frekar hjá þessari tegund en skyldum tegundum. Á seinni myndinni hefur lerkið náð elrinu í hæð en gróskan í elrinu er meiri. Mynd: Sig.A.

Dæmisaga

Sá sem þetta skrifar plantaði eitt sinn 20 bökkum eða 800 plöntum af sitkaelri á einni kvöldstund á malareyrum sem fyrir löngu höfðu verið græddar upp með grasfræi og áburði og nýttar sem beitarhólf. Hólfið var fjárlaust á þessum tíma og hafði verið það um nokkurt skeið. Eða það átti að vera það. Rýr og lágvaxinn gróður var á svæðinu. Landið er marflatt og gróðursetningin fór fram í ágústmánuði á björtu og fallegu kvöldi. Nánast allar plönturnar fóru niður þar sem einhver gróðurþekja var til staðar en lítill minnihluti fór í bera mölina þar við hliðina.

Svo komu vondu tíðindin.

Það eru ekki margar trjátegundir sem vaxa auðveldlega upp úr svona landi en elrirunnar geta það. Mynd: Sig.A.
Það eru ekki margar trjátegundir sem vaxa auðveldlega upp úr svona landi en elrirunnar geta það. Mynd: Sig.A.

Um nóttina gerði næturfrost. Allar elriplönturnar sem voru í hálfgróna og gróna landinu féllu eins og kartöflugrös. Aftur á móti sá ekkert á þessum fáu plöntum sem lent höfðu í mölinni. Sennilega hefur sá litli gróður sem þarna var myndað einangrandi lag en ber mölin drukkið í sig nægan varma og síðan geislað honum frá sér aftur þegar frysti. Það dugði til að verja litlu bakkaplönturnar í mölinni fyrir frostskemmdum. Sitkaelri ætti ekki að planta í frostpollum eða vel grónu landi. Ef það er rétt smitað getur það vaxið vel í rýru landi og gert mikið gagn. Í þannig landi á það heima.

Seinna var plantað dálitlu af grænelri á þessum stað og reyndist það betur. Það gæti vel stafað af því að ekki komu þarna hörð ágústfrost þegar því var plantað. Þegar elrið er komið á legg valda svona frost miklu minni skaða. Því er ekki hægt að draga of miklar ályktanir um hvort grænelri hentar betur á svona svæðum, en það er líklegt.

Elrikjarr hátt til fjalla í Austurríki ásamt furu og evrópulerki. Mynd: Sig.A.
Elrikjarr hátt til fjalla í Austurríki ásamt furu og evrópulerki. Mynd: Sig.A.

Samantekt

Hér hefur verið sagt frá runnkenndu elri sem ræktað er á Íslandi og getur myndað kjarr. Í raun eru þetta aðeins tvær tegundir. Annars vegar er fjallaelri frá Japan, Alnus maximowiczii, og hins vegar safntegund sem á fræðimálinu kallast Alnus alnobetula. Allar myndirnar sem hér má sjá eru af þeirri tegund. Henni er síðan skipt niður í nokkrar undirtegundir en mörk þeirra eru stundum óljós. Í seinni pistli okkar munum við segja nánar frá þessum tegundum og undirtegundum, kostum þeirra og göllum. Í upphaflegum heimkynnum sínum vaxa þær norðarlega eða hátt til fjalla í Ameríku, Asíu og Evrópu. Í þessum pistli höfum við sagt frá því í hvers konar vist þessar tegundir henta best og kostum kjarrsins í landgræðslu. Tegundirnar vinna nitur úr andrúmsloftinu með aðstoð gerla og munu því auka frjósemi landsins og stuðla að aukinni seiglu í vistkerfinu, meiri grósku og aukinni líffjölbreytni. Svo margt mælir með því að við ræktum elri á Íslandi að það vekur furðu hve lítið því er sinnt.

Sitkaelri er skylt birkinu okkar en hefur Frankia-gerla á rótum sem vinna nitur úr andrúmsloftinu. Því vex það mun betur en birkið. Munurinn er enn meiri við erfið skilyrði. Hér er það í grýttu landi í Skriðdal. Mynd frá árinu 2006: Sig.A.


Þakkir

Þakkir fá þau sem lánuðu okkur myndir og veittu okkur upplýsingar. Pétur Halldórsson fær okkar bestu þakkir fyrir þarfan og gagnlegan yfirlestur prófarkar.


Heimildir


Árni Þórólfsson (2017): Elri-Ölur. Skógræktarritið 2017 2. tbl. bls. 10-25. Skógrækarfélag Íslands, Reykjavík.


Ron Greer (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla veturinn 2025.


Halldór Sverrisson (2013): Elri á Íslandi – reynsla og möguleikar. Rit Mógilsár 27, bls. 32-37. Sjá: Rit Mógilsár - Nr. 27 (2013) - Tímarit.is


Diana Wells (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Þorsteinn Tómasson (1999): Elri til landgræðslu – Reynslusaga. Skógræktarritið 1999 2. tbl. bls. 37-47. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.

 

Í seinni pistlinum verður vísað í fleiri heimildir en hér sjást.



Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page