top of page

Risafurur

Updated: Oct 23, 2023

Það er varla hægt að mótmæla því að almennt má líta á risafururnar, Sequoiadendron giganteum, í Kaliforníu sem konunga hinna villtu trjáa í heiminum. Svo mikilfengleg eru þau í stærð og aldri að erfitt er að finna einhvern samanburð. Því þykir okkur rétt að fjalla aðeins um þær á þessum síðum þótt ekki séu neinar líkur á að þær þrífist á Íslandi við núverandi veðurskilyrði. Það hefur að vísu verið reynt en þessi tré verða þvi miður ekki langlíf á Íslandi. Ekki enn.


Risafurur í grasagarðinum í Edinborg nú í október. (Mynd: Sig.A.)

Undirætt rauðviða (Sequoioideae)

Það er kunnara en frá þurfi að segja að almennt hefur konungsríkjum fækkað í heiminum á undanförnum árhundruðum. Sama má segja um undirætt rauðviða eða Sequoideae nema hvað tímakvarðinn hjá henni er dálítið annar og meiri. Aðeins þrjár ættkvíslir eru í þessari undirætt og aðeins ein tegund í hverri ættkvísl. Allar ættkvíslirnar hafa stofninn Sequia í heitum sínum. Þetta eru Sequoia sempervirens og Sequoiadendron giganteum sem báðar lifa í Kaliforníu. Sú þriðja er Metasequoia glyptostroboides sem vex í Kína.


Báðar amerísku tegundirnar teljast til risa í Kaliforníu, aðskildar af háum fjöllum. Steingervingar benda bæði til meiri útbreiðslu þessara tegunda sem og fleiri tegunda af sömu ættkvíslum. Bæði í Ameríku og í Asíu. Meira að segja hafa fundist steingervingar af trjám á Íslandi frá Tertíer sem líklega hafa verið einhverskonar Sequoia-tegundir.


Risafura, sem ber sérnafnið Boole, gnæfir yfir umhverfi sitt. Sannkallaður risi. Heimild. Hann er 82 metrar á hæð og ummál stofnsins er 34,4 metrar.


Nafnið

Nokkur nöfn hafa verið notuð yfir þessa risa á íslensku. Á það einnig við um önnur tungumál. Algengustu íslensku heitin eru mammúttré, risafurur, risarauðviður og fjallarauðviður. Hér er stuðst við íðorðabanka Árnastofnunar og notast við risafurunafnið, jafnvel þótt þetta séu hreint ekki furur. Furur tilheyra allt annarri ætt. Aftur á móti er það algengt í íslensku að heiti jurta eru ekki endilega alveg rökrétt. Besta dæmið er sennilega mýrasóley. Hún vex ekki í mýrum og er ekki af sóleyjarætt. Á fræðiheitinu kallast tréð Sequoiadendron giganteum og verður heiti ættkvíslarinnar útskýrt síðar.


Kona sækir sér orku í stofn risafuru í Skotlandi í ágúst 2019. (Mynd Sig.A.)


Hvar vaxa þær?

Risafurur finnast villtar á 26 aðskildum stöðum í fjölladölum í Sierra Nevada (Snæfjöll) í Kaliforníu í um 1800 til 2500 metra hæð yfir sjávarmáli. Þarna getur snjóað töluvert að vetri til en sumrin eru að jafnaði bæði þurr og hlý. Þegar á annað borð rignir á þessum slóðum er það engin smá súld, heldur úrhelli sem fylgir þrumum og eldingum. Eldingarnar eiga það til að hæfa þessa trjárisa og jafnvel verða þeim að aldurtila. Hingað til virðist fátt annað geta drepið risafurur ef þær eru á annað borð komnar vel á legg (eða stofn). Við komum að því síðar að nú eru þar blikur á lofti.

Þessir stóru, eldgömlu risar eru það vel þekkt að mörg þeirra eiga sér sérnöfn. Hver þekktur vaxtarstaður á sér líka sérnafn.


Útbreiðsla Sequoiadendron giganteum (bleikrautt) og Sequoia sempervirens (grænt) samkv. Wikipedia. Heimild


Víða um Evrópu og Ameríku hefur þessum trjám verið plantað og er varla til sá grasagarður í Mið-Evrópu sem ekki býr yfir eintökum. Því þurfum við Íslendingar ekki endilega að fara upp í háfjöll í vesturhluta Ameríku til að sjá trén. Hin evrópsku tré eiga þó enn langt í land með að ná ættingjum sínum í stærð og umfangi en þó erut til evrópsk tré sem náð hafa meira en 50 metra hæð.


Risafururnar í Benmore Botanic Garden í Skotlandi var plantað árið 1863. Þær eru yfir 50 metra háar. Heimild


Hvað eru risarnir stórir?

Áður en við getum svarað því hert sé stærsta tré í heimi verðum við að skilgreina hvað það er sem við viljum mæla. Hæsta tréð er ekki endilega það sverasta eða með mest kolefnisinnihald. Því eru í raun margar aðferðir til kveða upp úr um stærstu trén.

Sagt er að risafurur verði að jafnaði um 50-85 metrar á hæð. Til samanburðar má nefna að turn Hallgrímskirkju er 74,5 metra hár.


Því hefur verið haldið fram að stofninn á General Sherman sé stærsti trjástofn í heimi. Heimild


Risafururnar eru hvorki hæstu tré (Sequoia sempervirens geta orðið hærri) né endilega þau sverustu í heimi. Þau eru samt viðarmestu og þyngstu tré í heimi. Engar aðrar lífverur geyma jafn mikið kolefni í stofni sínum og þær.


Einn af þessum frægu risum heitir General Grant. Það tré er sagt vera rúmir 82 metrar á hæð. Enn stærra er þó Hart tréð (sem er ekki harðara en önnur, heldur er það nefnt eftir manni að nafni Michael Hart sem fann tréð). Það er sagt vera 84,7 metri á hæð.


General Grant. Myndin fengin að láni hjá Wikipedia. Heimild


Tölur um þvermál stofnanna eru álíka lýgilegar. Algengt þvermá er um 6-8 metrar. Eitt tré er kallað The Boole tree. Ummál þess hefur verið mælt í tæplega fimm metra hæð (16 fet) og reyndist það vera 7,6 metrar í þvermál! Er það talið met meðal lifandi trjáa svo hátt yfir jörðu.

Ef marka má sagnir þá voru til enn breiðari tré en þau voru felld fyrir meira en öld og erfitt getur verið að sannreyna slíkar sagnir. Óstaðfest met er sagt hafa verið 17 metrar en á lifandi tré hefur mest verið mælt 8,8 metrar í brjósthæð.

Töflu yfir nöfn og stærð 32 stærstu trjánna má sjá hér


Börkurinn

Börkur þessara trjárisa getur verið um eitt fet að þykkt. Á hann án efa þátt í hversu langlíf trén geta orðið því hinn þykki börkur virðist geta varið stór tré fyrir skógareldum. Minni tré verða þeim að bráð, enda börkurinn ekki eins þykkur á þeim. Hin allra síðustu ár hefa þó borist fregnir af því að í mjög miklum hitum hefur þessi eldvörn ekki alltaf dugað til og stæðileg tré hafa farist í skógareldum. Á Wikipediu segir að á árunum 2020 til 2021 hafi 13-19% fjölda fullorðinna trjá tegundarinnar farist í skógareldum. Er það enn eitt dæmið um áhrif hamfarahlýnunar á jörðinni.


Skógareldar í Snæfjöllum hafa grandað risafurum. Sjá hér. Myndin tekin í ágúst árið 2000 þegar meira en 70 ha brunnu í fjöllunum og drápu fjölmargar risafurur.


Artúr konungur hefur lifað af skógarelda eins og sjá má. Sjá hér


Fundur risanna og baráttan um nafnið

Eins og við er að búast þekktu frumbyggjar Kaliforníu þessi tré alla tíð, rétt eins og landið sem þau vaxa á. Því er auðvitað alveg vonlaust að áætla hvenær einhver leit þau augum fyrst. Það er ekki heldur alveg auðvelt að átta sig á sögusögnum ævintýramanna sem þvældust um fjöllin og sögðu frá trjárisum. Sá sem fyrstur lýsti þessum trjám í rituðu máli sagði frá námuverkamanni sem elti bjarndýr inn í skóginn að vori til árið 1852. Björninn stökk að svona stóru tré og hóf að klífa það. Verkamðurinn varð svo heillaður að hann sleppti því að skjóta björninn en starði agndofa á risann. Þegar hann kom til baka sagði hann frá 50 ekrum af trjám sem væru allt að 100 metra há og meira en sex metrar í þvermál. Hann kallaði þessi tré mammútatré og hafa þau stundum verið kölluð það allt til þessa dags.


Olíumálverk frá 1874 eftir Albert Bierstadt. "Giant Redwood Trees of California". Sjá nánar hér.


Innan við mánuði síðar tók einhver (nafn hans er óþekkt) greinar, barr og köngla og einhver enn annar kom þeim til plöntufræðings að nafni Dr. Albert Kellogg. Kellogg þessi er talinn einn af fyrstu plöntufræðingum heimsins til að skoða tré og annan gróður markvist í Kaliforníu. Þó sá hann sennilega aldrei sjálfur þessa risa en lýsti þeim af nákvæmni.

Tveimur árum síðar sá breskur maður að nafni William Lobb þessi sýnishorn hjá Dr. Kellogg. Hann dreif sig inn í skóg, náði í sýnishorn og kom þeim til landa síns, grasafræðings að nafni John Lindley, sem sigldi strax með þau til Bretlands og birti fyrstu grasafræðilegu lýsinguna á þessum trjám í desember 1853. Hann var þar fyrstur til að gefa tegundinni fræðiheiti á latínu. Svona tré þurfti auðvitað að bera almennilegt nafn! Þá var enn á lífi Arthur Wellesley hertogi af Wellington sem hafði borið sigurorð af Napolen Bonaparte við Woterloo. Hann fékk nú þennan mikla risa nefndan eftir sér og var tréð kallað Wellingtonia gigantea.


Horft upp í krónu á risafuru í Skotlandi. (Mynd: Sig.A.)


Bandarískum grasafræðingum var ekki skemmt. Búið var að nefna náttúruundur frá þeim í höfuðið á herforingja fyrrum herraþjóðarinnar. Þá kom það upp úr kafinu að sex árum áður hafði hinni skyldu tegund Sequoia sempervirens verið lýst í þýsku riti. Þjóðverjarnir höfðu gert þetta allt saman í samvinnu við Kanana og notað nafnið Sequoia sem ættkvíslaheiti. Ljóst var strax að þetta væru skyldar tegundir. Samkvæmt alþjóðareglum er eðlilegast að nota það heiti sem fyrst var notað og því gátu bandarískir þjóðernissinnar andað léttar. Nafnið Sequoiadendron var valið til að heiðra minningu mikils höfðingja af ætt Cherokee índíána sem einmitt hét Sequoia. Eða hann var að minnsta kosti kallaður það. Hann helgaði líf sitt því að búa til ritmál fyrir þjóð sína og kenna öðrum indíánum að nota það. Seinni hluti Sequoiadendron -dendron merkir viður og er stundum notað sem viðskeyti í svona fínum nöfnum. Því höfum við nú bæði Sequoia og Sequoiadendron þarna fyrir vestan.


Aldur

Því hefur stundum verið haldið fram að risafura verði allra trjáa elst. Það er reyndar ekki endilega rétt. Til eru tré sem hafa náð hærri lífaldri en við vitum svo sem ekki hvað þau geta orðið gömul ef eldingar granda þeim ekki. John Muir (sjá síðar) taldi árhringi á trjám sem voru felld á hans tíma og sagði að þeir væru fleiri en 4000. Það kann að vera rétt en ekki er hægt að staðfesta það lengur. Nú á dögum hefur verið staðfest að trén geta náð 3200 ára aldri. Fáar aðrar tegundir ná því en það er ekki einsdæmi.

Sennilega er General Sherman þekktasta risafura í heimi. 83,8 metrar á hæð og ummál stofns er 31,3 metrar. Sjá nánar hér


Hin fyrsta fjölgun

Það er ekki auðvelt fyrir venjulegt fólk að tína köngla af trjám sem vaxa marga tugi metra ofan við jörðu. Aftur á móti eiga íkornar auðvelt með það. Þeir hlaupa um greinarnar og klippa af köngla með þroskuðum fræjum svo tugum skiptir. Fara svo hina löngu leið lóðbeint niður og safna saman fengnum og koma í skjól fyrir veturinn.

Sagan greinir frá vonsviknum gullgrafara að nafni G. H. Woodruff frá New York ríki. Á sjötta áratug nítjándu aldrar ráfaði hann um fjöllin og gekk inn í stóran lund af þessum risatrjám. Þar kastaði hann sér niður, bakveikur af öllu erfiðinu sem engu hafði skilað og með mikla heimþrá. Þar að auki var hann búinn með síðustu tóbaksbirgðirnar sínar. Þar sem hann lá í skóginum og horfði upp í grænt barrþakið fór allt í einu að rigna könglum allt í kringum hann! Hann safnaði þeim saman og hristi úr þeim fullþroskuð fræ og setti í tóman tóbakskassann sinn. Kassann sendi hann svo til fræfyrirtækis á Austurströndinni og þar spíruðu fræin árið 1855. Allt í allt voru þetta um 4000 tré. Því miður seldust þau ekki vel fyrir austan svo reynt var að senda hluta trjánna yfir hafið til Englands. Þar rokseldust trén undir nafninu Wellingtonia. Allir helstu efnamenn á Bretlandseyjum vildu að sjálfsögðu eignast tré til heiðurs Wellington. Grasagarðar víða um Evrópu vildu líka eignast tré og verðið rauk upp. Í skyndi var símað til austurstrandar Bandaríkjanna til að senda fleiri tré til Evrópu sv að hægt væri að anna eftirspurn en vestan Atlandsála var lítill áhugi á trjánum. Það er af hinum bugaða gullgrafara Woodruff að frétta að þegar hann kom til baka til New York beið hans ávísun upp á $1036,60 fyrir sinn hlut af söluhagnaðinum.


Horft upp í barrið á risafurum, hátt yfir höfði ferðamanna. (Mynd: Sig.A.)



Verndun trjánna

Þegar framtakssamir menn sáu þessa risa meðal trjáa fóru þeir að sjálfsögðu að nýta sér þau sér og samfélaginu til framdráttar. Einfaldasta leiðin til að græða á þeim var að sjálfsögðu að saga þau niður og selja timbrið til austurstrandarinnar eða Evrópu. Það þótti aldeilis fínt að eiga stórt borðstofuborð sem var þverskurður af aðeins einu tré! Slíkar sneiðar mátti einnig nýta til annarra hluta. Þannig er til þess tekið að ein sneið var nýtt í dansgólf þar sem 30 pör gátu stigið saman vals á sama tíma! Á þessu mátti græða töluvert þótt trjáfellingarnar gengi oft á tíðum frekar illa. Bæði er óhemju seinlegt að fella svona þykk og mikil tré og að auki kom það fyrir að þau brotnuðu í klessu þegar þau féllu og allt erfiðið þá nánast til einskis.

Flestum var samt strax alveg ljóst að þetta var ekki beinlínis heppilegt til frambúðar. Því þótti ágætt að brenna yngri tré til að skapa beitiland fyrir bæði geitur og sauðfé og skapa þannig varanleg búsetuskilyrði. Var það gert í stórum stíl.

Svo bar það til að menn bar að frá austurströndinni sem þótti þessi meðferð á landi mikil hneisa og töldu réttast að vernda þessi náttúruundur fyrir komandi kynslóðir. Hinum framtakssömu heimamönnum var ekki skemmt yfir slíkum hugmyndum. Átti nú að stöðva sjálft einkaframtakið í landi frelsisins? Hvað var þetta smáborgarapakk að austan að skipta sér að atvinnuuppbyggingu heimamanna? Pakkið greinilega hataði bændur og framtakssama skógarhöggsmenn! Hélt þetta lið að austan að hægt væri að græða á því að horfa bara á náttúruna? Það gæti þá bara sjálft flutt í bjálkakofa, lifað af fjallagrösum og berjum og leyft heimamönnum að koma undir sig fótunum með dugnaði og elju!

Eitthvað þessu líkt voru mótmæli þeirra sem vildu nota gjafir náttúrunnar sem fyrst.

Talið er að með eldi, öxum, sögum og sprengiefni hafi tekist að útrýma þessum risum á 71 vaxtarstað en enn má finna þau á 26 aðskildum stöðum.

Ekki verður skilið við þessa sögu án þess að nefna til tvo menn sem mikið lögðu að mörkum til að friða trén og umhverfi þeirra áður en það yrði of seint. Umfjöllunin um þann seinni byggir á grein eftir Sigrúnu Helgadóttur frá 1984.


Muir

Árið 1838 fæddist í Skotlandi maður sem nefndur var John Muir. Ellefu ára gamall flutti hann með fjölskyldu sinni til Wisconsin í Bandaríkjunum. Muir var mikill náttúruunnandi og fór víða um í Ameríku. Þar kom að hann fór vestur til Kaliforníu. Þegar hann kom í fyrsta skipti til Yosimeta varð hann algerlega agndofa af hrifningu. Hann var óþreytandi við að reyna að bjarga þessum trjárisum og er að jafnaði talinn sá maður sem mestan þátt átti í að koma því til leiðar að stofna til friðlanda í Yosimite og Sequoia National park. Einkum gerði hann það með tíðum skrifum um þessi svæði þannig að almenningur fékk að vita af stórfengleik þeirra. Það sem Muir þótti ógna lífríkinu í Yosimite hvað mest var búfjárbeit í dalnum og tókst með baráttu sinni að losna við búfjárhald í dalnum. Einkum voru það stórir hópar sauðfjár sem fóru í taugarnar á honum enda ótækt að stofna einskonar þjóðgarð (áður en það hugtak var til) og leyfa þar búfjárhald sem stórskaðar umhverfið.

Muir fór víða um þessi torsóttu fjallasvæði og skráði frásagnir um ferðir sínar og hugleiðingar. Honum þótti merkilegt að utan þeirra svæða sem risafururnar fundust á voru engar menjar um að þær hafi verið þær. Hvorki fyrr né síðar.


Risafurulundurinn í grasagarðinum í Edinborg er helgaður minningu John Muir. (Mynd: Sig.A.)


Olmsted

Árið 1853 var gerð áætlun um að stofna stóran almenningsgarð í New York. Við þekkjum hann nú sem Central Park. Til verksins var ráðinn ungur landslagsarkitekt að nafni Fredrick Law Olmsted. Þegar vinna við garðinn stóð sem hæst sinnaðist Olmsted við yfirmenn sína og flutti frá hálfkláruðu verki árið 1863. Honum bauðst þá vinna skammt sunnan við Yosemite og flutti vestur. Þar kom aldeilis réttur maður á réttum tíma. Reynsla hans frá New York nýttist honum vel. Hann gekk til liðs við þá sem friða vildu svæðið og að níu mánuðum liðnum hafði verið samin tillaga um friðun svæðisins sem samþykkt var í Washington og staðfest af Lincoln forseta. Í tillögunni fólst að Kaliforníuríki fengi yfirráð yfir garðinum og fururnum sem í honum uxu. Hann var því ekki „þjóðgarður“ heldur einskonar „ríkisgarður“. Svæðið átti að vera almenningi til afnota til ánægju og yndisauka en ekki vera nýtt í annað. Olmsted var formaður nefndarinnar yfir garðinum og samdi fyrstu reglugerðina um garðinn. Hún var síðan grunnurinn að fyrstu reglugerðinni um Yellowstone þjóðgarðinn sem almennt er talinn fyrsti þjóðgarður í heimi, stofnaður árið 1872. Það ár var ekki búið að stofna Wyomingríki svo þess í stað var ákveðið að öll Bandaríkin bæru ábyrgð á garðinum. Hann var því ekki „ríkisgarður“ heldur „þjóðgarður“.


Án þessara manna er óvíst að við hefðum þessa risa enn á meðal vor.




Helstu heimildir:


Donald Culross Peattie 2007: A Natural History of North American Trees útgefandi Trinity University Press San Antonio, Texas. (Aðal heimildin)


Sigrún Helgadóttir 1984: Um upphaf þjóðgarða. Í Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1984 bls. 26-31


Wikipedia. Ýmsir stubbar.

376 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page