top of page

Fenjaviður - þá var Ísland rangnefni

Updated: Dec 4, 2023

Elstu setlög Íslands geyma leifar fjölbreyttrar flóru sem óx á Íslandi við allt annað loftslag en nú ríkir á landinu. Meðal þeirra trjátegunda sem uxu hér var fenjaviður eða Glyptostrobus eins og ættkvíslin kallast á latínu. Tegundir af þeirri ættkvísl finnast ekki lengur í nágrenni landsins. Aftur á móti vex ein tegund ættkvíslarinnar í Asíu. Hún gefur okkur vísbendingar um hvernig fenjaviður leit út á Íslandi og við hvers konar aðstæður hann óx.


Það er ekki margt í núverandi flóru sem sjá má í Botni í Súgandafirði sem minnir á þann gróður sem þar óx fyrir 15 milljónum ára. Sjá má manneskju skoða setlögin sem geyma steingervingana. Þeir segja þeim sögu sína sem kunna að lesa þessar heimildir. Mynd: Friðgeir Grímsson.

Fundur á Íslandi

Elsta þekkta setlagasyrpa á Íslandi sem geymir steingervinga er svokölluð Selárdals-Botns setlagasyrpan sem talin er um 15 milljón ára gömul. Hún kemur fram á útskögum Vestfjarða og er víða aðgengileg (Leifur og Denk 2007). Setlagasyrpan geymir fjölbreyttar menjar þess gróðurs sem var á landinu á þessum tíma. Fundist hafa greinar, lauf, barr, fræ, aldin, könglar og frjó sem oft má greina til ætta, ættkvísla og jafnvel tegunda. Gróður á þessum tíma virðist hafa verið mjög fjölbreyttur og mismunandi eftir svæðum. Hér er kastljósinu fyrst og fremst beint að Botni í Súgandafirði þar sem fenjaviður hefur fundist. Plöntusamfélagið þar hefur verið allt annað en t.d. í Selárdal þar sem engar leifar fenjaviðar hafa sést í jafn gömlum setlögum.


Í grein sem birtist í Náttúrufræðingnum árið 2007 segir frá elstu flóru Íslands (Leifur og Denk 2007). Þar segir að í jarðlögunum í Botni beri mest á leifum barrtrjáa en lítið finnst af lauftrjám. Mest ber á greinum fornrauðviðar, Sequoia abietina og evrópufenjavið Glyptostrobus europaeus, sem þeir félagar kalla reyndar evrópuvatnafuru eins og algengast er. Fleiri tegundir hafa fundist og verður sumar þeirra nefndar hér síðar.

Þess má geta að fornrauðviðurinn og fenjaviður tilheyra sömu ætt og eru töluvert skyldar. Þær eiga það einnig sameiginlegt að á okkar dögum eru eingöngu til ein tegund af hvorri ættkvísl (Wells 2010).


Steingervingur af fenjavið á síðu Amerikan Conifer Society. Hann er sagður um 49 milljón ára gamal. Hann er því miklu eldri en elstu, íslensku steingervingarnir.


Fenjaviður á okkar dögum

Svo er að sjá sem fenjaviður hafi verið býsna algengur á tertíer. Á það ekki bara við um Ísland heldur einnig Ameríku, Evrópu og Asíu. Nú er einungis ein tegund til af þessari ættkvísl. Kallast hún Glyptostropus pensilis og vex meðfram ám og á öðrum rökum svæðum svo sem í fenjum, mýrum og flæðilöndum í suðausturhluta Kína og í norður Tailandi (Wells 2010). Hann getur vaxið í að minnsta kosti 60 cm dýpi og myndar þá svokallaðar loftrætur. Þær vaxa upp úr vatninu og hjálpa trénu að ná í súrefni. Á þurrari stöðum myndar hann ekki svona loftrætur. (Amerikan Conifer Society) Vaxtarstaðir þessarar tegundar eru mun hlýrri en við getum boðið upp á hér á Íslandi. Meðalhiti hlýjustu mánaðanna er yfir 22°C og víðast hvar á útbreiðslusvæðinu eru þurrkatímabil. Það á þó ekki við um alla núverandi vaxtarstaði. Sums staðar á vaxtarsvæðunum er hlýtt og rakt allt árið (Denk og drengirnir 2011). Tréð er barrtré sem fellir barrið, rétt eins og lerkið okkar gerir. Við bestu skilyrði getur það orðið um 30 metrar á hæð eða jafnvel meira. Stofninn getur orðið meira en metri í þvermál og er áberandi þykkastur neðst.


Fenjaviður getur verið glæsilegur í einkagörðum eins og hér í New Plymouth á Nýja Sjálandi. Á svona stöðum myndar tegundin ekki loftrætur. Myndin er fengin frá International Dendrology Society og hana tók Tom Christian í nóvember 2017.


Núlifandi fenjaviður finnst varla lengur villtur í náttúrunni. Sumar heimildir segja að hann sé eingöngu til í ræktun en aðrar heimildir ganga ekki svo langt. Honum hefur víða verið nánast útrýmt með skógarhöggi. Aftur á móti er tegundin sjálf ekki talin í útrýmingarhættu því henni er víða plantað við árbakka og hrísgrjónaakra til að verja bakka fyrir vatnsrofi.


Merkilegt má heita að samkvæmt Denk og drengjunum (2011) er ekki mikinn mun að sjá á núlifandi fenjavið og íslenskum steingervingum. Núverandi fenjaviður gefur því góða hugmynd um hvernig skyld tré litu út á Íslandi fyrir um 15 milljónum ára.

Ungur fenjaviður í haustlitum í Oregon Garden.


Nafnið

Heiti ættkvíslarinnar, Glyptostropus, merkir eitthvað í líkingu við útskorinn köngull. Könglar ættkvíslarinnar líta út fyrir að vera einmitt það. Útskornir. Þeir eru það þó auðvitað ekki. Núlifandi tegund hefur viðurnefnið pensilis sem merkir hangandi. Það vísar til þess að barr og greinarnar hanga á trénu. Fenjaviðurinn sem óx á Íslandi hefur viðurnefnið europaeus og er auðskilið.


Könglar fenjaviðar eru mikið skraut.

Myndin er fengin héðan en hana tók Tony Rodd.

Þegar könglarnir opnast er eins og einhver hafi skorið þá út. Þaðan kemur nafnið. Myndin fengin héðan en hana tók Michael Becker.

Þessi köngull myndaðist fyrir um 15 milljónum ára. Síðan hefur hann pressast dálítið undan þunga jarðlaganna. Samt má sjá að hann er ekki ósvipaður þeim könglum sem sjá má á myndunum hér að ofan, enda af sömu ættkvísl. Kvarðinn (svarta, lárétta strikið) er 1 cm.

Mynd: Friðgeir Grímsson.Áður hefur tegundin gjarnan verið nefnd vatnafuru á Íslandi. Fellur það vel að vaxtarstöðum tegundarinnar. Það nafn er meðal annars notað af Leifi og Denk árið 2007 og það er einnig að finna í Íðorðabanka Árnastofnunar. Aftur á móti verður ekki hjá því komist að nefna að þetta er alls ekki fura. Tréð er ekki einu sinni af sömu ætt og furur. Því er þetta dálítið óheppilegt heiti. Í ágætum pistli sínum, sem birtist á þessum síðum í desember síðastliðnum, kallaði Helgi Þórsson þessa tegund fenjavið. Það er ljómandi gott nafn og er notað í þessum pistli.


Fenjaviður getur vaxið í vatni. Þá myndar hann sérstakar rætur til að ná i súrefni. Þær vaxa upp úr vatninu eins og sjá má.

Myndin er fengin frá Global Trees Campaign.Leifar fenjaviðar

Það sem fundist hefur af leifum fenjaviðar í Botni í Súgandafirði eru greinar með barri og könglar. Mest ber á koluðum greinum fenjaviðarins. Þær sýna töluverðan breytileika. Í grófum dráttum má þó skipta greinunum í tvo flokka. Sumar greinarnar eru svokallaðar langgreinar en aðrar eru stuttgreinar. Löngu greinarnar hafa mjóar og aflangar nálar og hjá þeim er nokkuð stórt bil á milli nálanna. Stuttu greinarnar eru innan við 5 cm langar og hafa að jafnaði styttra og þéttara barr (Leifur og Denk 2007, Denk og drengirnir 2011). Myndirnar hér að neðan sýna þetta.


15 milljón ára gamall steingervingur af stuttri grein fenjaviðar þar sem barrnálarnar standa mjög þétt. Kvarðinn er 1 cm. Mynd: Friðgeir Grímsson.


Lengri sproti af fenjavið. Lengra er á milli barrnálanna sem eru mjóar og aflangar. Kvarðinn er 1 cm. Mynd: Friðgeir Grímsson.


Friðgeir Grímsson, sem starfar við háskólann í Vínarborg við stofnun um steingervingafræði (Department of Palaeontology), hefur verið okkur innan handar og veitt okkur upplýsingar um fornflóru landsins. Hann sendi okkur einnig nokkrar af myndum sínum. Færum við honum okkar bestu þakkir fyrir aðstoðina og birtum hér myndirnar.


Botn í Súgandafirði á okkar tímum. Fyrir 15 milljónum ára var þar votlendi og í því óx meðal annars fenjaviður. Á þurrari stöðum uxu aðrar tegundir. Mynd: Friðgeir Grímsson.

Hin 15 milljón ára gömlu setlög geyma menjar um forna en horfna flóru. Hún gefur okkur vísbendingu um loftslag og staðhætti. Mynd: Friðgeir Grímsson.


Frjókorn

Þeir Leifur og Denk (2007) létu sér ekki nægja að greina handsýnin. Þeir greindu einnig frjókorn úr sýnum eins og hægt er. Meðfylgjandi tafla sýnir þá hópa sem fundust þarna og geta myndað tré. Sumar ættir, t.d. rósaætt og ertublómaætt, geta bæði myndað tré og jurtir. Þeim ættum sem aðeins geta myndað jurtir er sleppt í töflunni. Þessar rannsóknir bæta miklum upplýsingum við þekkingu okkar um hvaða tegundir hafa vaxið á Íslandi til forna.


Taflan er unnin upp úr grein Leifs og Denks frá 2007 og sýnir hversu mörg frjó hafa fundist frá hverri ætt eða ættkvísl í 15 milljón ára gömlum setlögum frá Botni í Súgandafirði. Sjá nánar bls. 98 í heimildinni. Eins og vanalega eru heiti ættkvísla skáletruð en ekki heiti ætta. Leifar frjókorna bæta miklu við þekkingu okkar sem byggist á steingerðum leifum mismunandi trjáhluta.


Í grein Denks og drengjanna frá 2011 er þessum frjókornum lýst. Við leggjum það ekki á venjulega lesendur að endurtaka þá lýsingu. Við látum duga að segja að þau eru mjög lítil. Í raun og veru eru þau alveg rosalega lítil. Þau eru svo lítil að stærð þeirra er mæld í míkrómetrum. Áhugasamir verða bara að fletta þessu upp ef þeir fá engan botn í textann undir næstu myndum en vilja vita hversu lítil þau eru.


Við tökum hatt okkar ofan fyrir þeim sem hafa þolinmæði til að finna, skoða og greina frjókorn úr fornum setlögum. Myndirnar sýna 15 milljón ára frjókorn fenjaviðar. Kvarðinn er 10 µm. Forskeytið míkró (µ) táknar einn milljónasta hluta. Lengdin 1 µm er því einn milljónasti hluti úr metra eða einn þúsundasti úr millímetra. 10 µm er því einn hundraðasti úr millímetra.

Myndir: Friðgeir Grímsson


Fenjaviður til forna

Elstu menjar um gróður á Íslandi eru um 15 milljón ára gamlar en elsta bergið er um milljón árum eldra. Það hefur ekki varðveitt steingervinga. Aftur á móti er til eldra berg í heiminum sem varðveitt hefur steingervinga af fenjavið. Hann var því til í heiminum löngu áður en Ísland varð til. Þegar Ísland var hluti af landbrú milli Evrópu og Ameríku fluttist gróður yfir þessa brú. Því var gróður um margt líkari beggja vegna Atlandsála fyrir 15 milljónum ára en hann er í dag. Um þetta má meðal annars lesa í þessari grein og í þessari grein.

Denk og drengirnir (2011) segja frá því að gerður hafi verið listi yfir 28 ættkvíslir barr- og lauftrjáa sem þrifust á míósen tímabilinu um norðanverðan hnöttinn. Af þeim hafa 10 fundist á Íslandi. (Acer, Alnus, Betula, Cercidiphyllum, Comptonia, Fagus, Glyptostrobus, Liriodendron, Pterocarya og Tilia). Segir það sína sögu um hversu mikilvæg flutningsleið landbrúin var á þessum tíma. Þeir Denk og drengirnir segja að íslenska flóran hafi á þessum tíma sýnt mikil líkindi með bæði flórunni í Evrasíu og Norður-Ameríku en hér vanti ættir sem uxu enn sunnar.


Denk og drengirnir nefna nokkra staði þar sem evrópufenjaviður óx á svipuðum tíma og hann var hér. Hann óx m.a. í Alaska [59°26´N], Hokkaido í Japan [ca. 42°N], Austurríki [47°29‘N] og víðar. Jafnvel á Banks eyju [74°20‘N] og [75°57´N] óx einhver fenjaviður á sínum tíma.

Í Idaho í Bandaríkjum Norður-Ameríku [47°00´N] óx tegundin G. oregonensis þegar evrópufenjaviður óx á Íslandi.


Steingervingafræðingur í Botni í Súgandafirði gefur sér tíma til að líta til ljósmyndarans. Annars eru það hin koluðu, svörtu jarðlög sem athyglin beinist að. Mynd: Friðgeir Grímsson.


Ef við förum enn lengra aftur má einnig finna fenjavið. Í stórmerkilegri bók tiltekur Aljos Farjon (2008) dæmi um flóruna á Axel Heiberg eyju fyrir 45 milljón árum. Sú eyja liggur norðan við meginland Kanada nálægt 80°N. Þangað er ekki hægt að sigla því hafið er alltaf frosið. Sífreri er í jörðu en á sumrin þiðna ef til vill um fimm efstu sentimetrarnir. Það dugar til að örlítill gróður getur þrifist þarna og stundum álpast moskusuxar þangað á ísnum og éta gróður. Það gera þeir þó ekki árlega. Framleiðnin er of lítil þarna til að geta borið stórar jurtaætur nema sem gesti.

Svona var ekki umhorfs á þessum slóðum fyrir 45 milljónum ára. Þá uxu þarna hitakærar tegundir. Þá hafa verið þarna stórvaxnir burknar og hávaxnar elftingar sem myndað hafa einhvers konar tré. Einnig var þarna „tréð sem tíminn gleymdi“ og að auki voru þarna allskonar barrviðir. Þar á meðal var einhver fenjaviður. Hann var ríkjandi tegund í heitum og rökum fenjunum sem þá voru þar sem nú er eilífur kuldi og ís.


Hinar einkennandi loftrætur fenjaviðar sem vex í grunnu vatni. Myndin fengin héðan af síðu um barrtré.


Nú verða sagðar veðurfréttir

Miðað við flóruna á Íslandi fyrir um 15 milljónum ára virðist lágmarkshiti hafa verið á bilinu 8-12°C ef marka má Denk og drengina (2011). Á láglendi hefur jafnvel verið enn hlýrra. Þar hefur hitinn varla farið niður fyrir 15°C. Staðsetning landsins hefur samt ekki breyst svo neinu nemi. Á þessum tíma var landið í miðju Atlantshafi. Það var að vísu þrengra en það er í dag en gera má ráð fyrir að hér hafi verið nægur raki og hann dreifst nokkuð jafnt yfir árið, rétt eins og á okkar dögum.

(Gott er að lesa næstu línu upphátt og ímynda sér að maður sé Einar Bessi Gestsson): „Botn í Súagndafirði: Lágmarkshiti 15°. Rigning.“ Svo er að sjá sem síðan hafi kólnað á Íslandi. Í yngri setlögum bólar ekkert á fenjavið. Hann virðist hafa hörfað og að lokum alveg horfið þegar veðurfar tók að kólna. Engar menjar fenjaviðar hafa fundist í jarðlögum sem varðveist hafa og eru 10 milljón ára eða yngri. Aftur á móti fór þá að bera á evrópufenjaviði sunnar í Evrópu. Sem dæmi má nefna að á norður Grikklandi [40°40´N og 21°42´E] má finna evrópufenjavið í 6 milljón ára gömlum setlögum og í Frakklandi [45°07´N og 2°25´E] í rúmlega þriggja milljón ára gömlum setlögum (Denk og drengirnir 2011).


Almennt má segja að ekki skorti vatn á Íslandi. Það kunni fenjaviðurinn vel að meta á meðan nægilega hlýtt var hér á landi fyrir hann. Myndin tekin í Kolugljúfri í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu í ausandi rigningu. Mynd: Sig.A.


Botn fyrir 15 milljónum ára

Algengustu leifar trjáa í Botni í Súgandafirði eru fornrauðviður og fenjaviður eins og áður segir. Þar hafa líka fundist menjar um barrtré af grátviðarætt, Cupressaceae, en eintökin eru aðeins örfá og því hefur hvorki tekist að greina leifarnar til ættkvísla né tegunda. Lauftré virðast hafa verið sjaldgæf þarna en þó hafa fundist leifar af elri, Alnus spp. og arnbeyki, Fagus friedrichii. Um arnbeykið höfum við fjallað áður en það var mjög algengt í öðrum leifum frá þessum tíma, svo sem í Selárdal. Það bendir einmitt til þess að aðstæður hafi verið aðrar í Botni.


Plöntusamfélagið í Botni fyrir 15 milljónum ára einkennist af tegundum sem vilja töluverðan raka. Salix er víðir, Glyptostrobus er fenjaviðurinn (vex þar sem er blautast), Pterocarya er vænghnetutré, Parthenocissus er villivínviður og Alnus er elri. Önnur flóra einkenndi þurrari svæði.

Mynd: Friðgeir Grímsson.

Eins og að framan greinir vex fenjaviður í Asíu fyrst og fremst þar sem grunnvatnsstaða er há. Vísindamenn telja að það sé einmitt kjörlendi ættkvíslarinnar en ekki bara þessarar einu tegundar.

Samsetning plöntusamfélagsins í Botni og setlagagerðin á sama stað benda til þess að plöntuleifarnar hafi fallið til á staðnum og séu einkennandi fyrir þann gróður sem óx á láglendi á Íslandi fyrir 15 milljónum ára. Fenjaviður hefur væntanlega vaxið á einhvers konar flæðilandi, mýrum eða í tengslum við eitthvert vatnakerfi þar sem grunnvatn stóð hátt. Svo er að sjá sem fenjaviður hafi myndað víðáttumestu skóganna á láglendi á þessum tíma. Á þurrari svæðum hefur fornrauðviður vaxið. Sennilega hefur arnbeykið vaxið í minna mæli með fornrauðviðnum á þurrari svæðunum og líklega var arnarlind, Tilia selardalense, þarna líka. Þegar hærra kom í hlíðarnar lét rauðviðurinn undan á kostnað beykisins og linditrjánna. Þannig urðu laufskógarnir algengari þegar hærra kom í landið. Auk áðurgreindra tegunda voru þar kastaníutré, álmur, hjartatré, platanviður og fleira. Þessa fornflóru má alla saman sjá með því að skoða steingervingana í Selárdal en þær finnast í minna mæli, eða hreint ekki, í Botni í Súgandafirði.


Enn í dag má gjarnan finna sumar elritegundir, Alnus spp., þar sem grunnvatn stendur hátt. Ef til vill átti það líka við um elrið sem þarna óx. Það var þó ekki nærri eins algengt og fenjaviðurinn. Líklega óx víðir þarna líka með elrinu og fenjaviðnum ásamt vænghnetutrjám. Hlynur hefur vaxið á þurrari stöðum. Einhvers konar vínviður gæti svo hafa vaxið sem klifurjurt í skógunum.


Þegar allt er skoðað hefur þarna verið fjölbreyttur skógur með innslagi margra trjátegunda en fenjaviðurinn mest áberandi í heitu og röku loftslagi. Þá var Ísland sannarlega rangnefni.


Að lokum

Friðgeir Grímsson fær okkar bestu þakkir fyrir aðstoðina.


Heimildir:

Aljos Farjon (2008): A Natural History of Conifers. Timber Press, Inc. Portland, Oregon.


Thomas Denk, Friðgeir Grímsson, Reinhard Zetter og Leifur A. Símonarson (2011): Late Cainozoic Floras of Iceland. 15 Million Years of Vegetation and Climate History in the Northern North Atlantic. Springer.


Leifur A. Símonarson og Thomas Denk (2007): Elstu flórur Íslands. Í Náttúrufræðingurinn, 75. árg. 2.-4. hefti 2007. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Náttúrufræðistofa Kópavogs.


Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Amerikan Conifer Society (án ártals): Glyptostrobus Genus (Chinese water-pine / Chinese swamp cypress)

Recent Posts

See All

Σχόλια


bottom of page