top of page

Tréð sem tíminn gleymdi

Updated: Jul 6, 2023

Fyrir um 260 milljónum ára, eða á Permian tímabilinu, var til heill ættbálkur lauftrjáa sem hvorki telst til dulfrævinga (eins og lauftré nútímans) né berfrævinga (eins og barrtré). Reyndar var hann skyldari barrtrjám en lauftrjám (sem þá voru ekki einu sinni til) en er afar fjarskyldur öllum þekktum ættum trjáa sem nú eru uppi. Steingerð lauf af þessum trjám hafa oft fundist í jarðlögum frá þessum tíma. Þau eiga það sameiginlegt að líta út ekki ósvipað og fótspor eftir endur. Hvergi í heiminum eru til villt tré af þessum ættbálki, sem nú kallast musterisviður, og var hann lengi vel talinn útdauður með öllu. Ef svo væri lyki þessum pistli hér.

Steingert laufblað af musterisvið. Myndin fengin af vef Wikipediu.


Hin forna saga

Eins og áður segir eru til minjar um ættbálk musterisviða frá því á Permian tímabilinu fyrir 260 milljón ára. Til að fólk átti sig á hversu langt er síðan má nefna að Atlantshafið var ekki einu sinni orðið til á þessum tíma og Antarktíka var enn föst við suðurálfurnar; Suður-Ameríku, Afríku og Ástralíu. Á þessum tíma lifði musterisviður í öllum heimsálfum og myndað hið minnsta nokkrar tegundir og ef til vill mjög margar tegundir sem uxu með berfrævingum og öðrum frumstæðum trjám. Áður hefur verið skrifað um þessi fornu tré á þessum síðum. Sjá hér.

Svo kom áfallið.

Til urðu dulfrævingar og önnur tré urðu að láta undan síga. Það dugði þó ekki til að útrýma musterisviðum þótt þeim fækkaði.

Svo kom annað áfall.

Stórviðburðir breyttu lífsskilyrðum á jörðinni og þeir atburðir urðu til þess að risaeðlur hurfu af jörðinni. Samfara þeim hörmungum öllum urðu auðvitað margar aðrar breytingar á lífríki jarðar. Á þeim tíma virðast musterisviðir hafa horfið með öllu úr suðurálfunum en áfram hafa þeir lifað í N-Ameríku, Evrópu og Asíu.


Fyrir um 50 milljón árum var loftslag á jörðinni til muna hlýrra en nú er. Frá þeim tíma hafa fundist minjar musterisviða á heimskautasvæðum norðursins. Þegar tók að kólna hörfuðu þau þaðan og færðu sig sunnar. Næstu 40 milljón árin virðast þau hafa lifað ljómandi góðu lífi í norðurálfunum en þá fór að halla undan fæti. Hvers vegna það gerðist á þeim tíma er ekki alveg ljóst en þegar áar okkar lögðu af stað frá Afríku virðast þessi tré hafa átt undir högg að sækja svo fátítt er að finna steingerð lauf þeirra. Þegar ísöld gekk í garð virðast þessi tré nánast hafa horfið með öllu. Þau hurfu alveg frá Norður-Ameríku og Evrópu og sennilega hafa þau aðeins lifað af í afskekktum dölum einhvers staðar á því svæði sem nú kallast Kína. Það eru reyndar getgátur því steingervingar musterisviða hafa ekki fundist frá þessum tíma. Það er kunnara en frá þurfi að segja að víða hafa tegundir dýra og plantna orðið að láta í minni pokann þegar tegundin sem kallar sig vitiborna hefur mætt á svæðið. Fyrir um fimmtíu þúsund árum var okkar tegund komin til Asíu og hafa þá leiðir okkar og musterisviða væntanlega legið saman í fyrsta skipti. En svo virðist sem sambúðin hafi gengið prýðilega. Sennilega hefur skipt þar miklu máli að aldin trjánna eru æt en viðurinn ekkert sérstakur til smíða. Að auki bendir margt til að snemma hafi orðið einhvers konar átrúnaður á musterisvið en um það er ekkert hægt að fullyrða.


Fundur tegundarinnar

Einn góðan veðurdag árið 1690 átti þýskur grasafræðingur að nafni Engelbert Kaempfer leið um Austurlönd. Þar rakst hann á svona tré við japanskt musteri. Tré, sem hvergi eru til villt í náttúrunni og af tegund sem var uppi á sama tíma og risaeðlurnar stóð sprelllifandi beint fyrir framan hann! Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þetta var ekkert einsdæmi. Munkar höfðu öldum saman ræktað svona tré við musteri í Kína, Japan og Kóreu - og gera enn. Trén finnast við musteri og hof ólíkra trúarbragða svo sem búddisma, taóisma, shintóisma og einnig hjá áhangendum Konfúsíusar.


Haustmynd af musterisviði fyrir utan musteri í Suður-Kóreu. Mynd: Élias Mgarde. Myndin fengin að láni af Facebooksíðunni Planet Ginkgo Sjá hér.


Þegar Kaempfer var þarna á ferð höfðu vísindamenn ekki áttað sig á þessari fornu sögu sem að framan er rakin. Þannig að sennilega hefur Kaempfer ekki orðið jafn hissa og maður gæti ætlað þegar hann fann trén. Þetta var jú tæpum 170 árum á undan þróunarkenningu Darwins og hugtakið steingervingur var aðeins fárra áratuga gamalt árið. Hugmyndin um aldauða tegunda var að auki mjög ung og ekki jafn ótvíræð eins og á okkar dögum. Grasafræðingar Evrópu hafa því sennilega ekkert orðið steinhissa þótt til væru svona tré sem ekki voru steingervingar. Það var ekki fyrr en seinna sem menn áttuðu sig á því hvað þetta er í rauninni merkilegt.


Rétt er að geta þess að það hefur eflaust hjálpað þessari tegund að hvert tré getur orðið mörg hundruð ára gamalt og jafnvel tughundraða ára. Því er það svo að þótt heilu kynslóðir manna planti ekki einu einasta tré þá er tegundinni ekki hætta búin.


Elgamall musterisviður í Wonju í Suður-Kóreu. Mynd: Élias Mgarde. Fleiri myndir af þessu tré má sjá hér. Myndin fengin að láni af Facebooksíðunnu Planet Ginkgo. Einhverjum árum eftir að Kaempfer, fyrstur Evrópubúa, „fann“ þessi tré í Asíu var farið að rækta þau í Evrópu og um öld seinna í Norður-Ameríku. Þá höfðu þau ekki verið á þeim slóðum í tugi milljóna ára. Það vekur upp spurningar um það hvort trén teljist framandi í þeim álfum eða hvort þau hafi einfaldlega verið endurheimt. Þar er komið ljómandi gott efni í almennileg rifrildi milli vistfræðinga næstu framtíðarinnar.

Ef ekki væri fyrir ræktun munkanna við musterin fyrir austan hefði tegundin án efa horfið með öllu því til þessa dags hefur hún hvergi fundist villt. Trén geta þó vel sáð sér út frá ræktuðum reitum í Asíu. Heimildir eru til um ræktun trésins í Japan allt frá 14. öld og þar hafa fundist sjálfsánar plöntur sem slæðingar í nágrenni við musteri. Í Evrópu hafa þau verið ræktuð í um þrjár aldir og um tvær aldir í Ameríku. Í hvorugri álfunni eru staðfest dæmi um að þau hafi af sjálfsdáðum sáð sér út. Hvað þessu veldur er algerlega á huldu. Tegundin myndar frjótt fræ og auðvelt er að sá því en það er eins og hún geri það sjaldan sjálf.


Laufin

Lauf musterisviða eru auðþekkt frá öllum öðrum laufblöðum á jörðinni. Þau eru blævængslaga en fyrir miðju, gegnt stilknum, er stundum eins konar rauf eða skora niður í laufið. Nánar um hana hér á eftir.


Forsíðumyndin af Facebooksíðunni Planet Ginkgo. Myndina á Sam Pratt.


Þeir sem einu sinni hafa skoðað blöð af musterisviði þekkja þau sjálfsagt alltaf aftur. Það kann að vera ein af ástæðum þess hversu algengt er að nota stílfærðar myndir af þeim í hin og þessi merki. Hér að neðan má sjá merki þriggja háskóla í Asíu sem nota þessi lauf.Merki þriggja háskóla sem byggir á laufi musterisviða. Zhejiang Agriculture and Forestry University í Kína, Osaka Uiversity í Japan og Sung Kyun Kwan University í Suður-Kóreu.


Að auki eru til um allan heim alls konar fyrirtæki sem nýta sér laufblöðin. Ginkgo kaffihús má finna í Frankfurt í Þýskalandi, Minnesota í Bandaríkjunum, Melbourn í Ástralíu og sjálfsagt víðar. Til eru Ginkgo veitingastaðir og Ginkgo heilsulindir svo eitthvað sé nefnt. Nánast allir slíkir staðir nota einhvers konar útfærslu af laufblöðunum í sín lógó. Gúgúl frændi getur sýnt okkur ótal útgáfur af slíkum merkjum.


Dæmi um lógó fyrirtækja sem kenna sig við musterisvið eða Ginkgo biloba.


Mjög er misjafnt hversu djúp raufin í mitt laufblaðið er. Stundum vart merkjanleg en stundum klífur hún laufið nánast í tvennt. Þá er nánast eins og hvert lauf sé samsett úr tveimur. Bæði formin má sjá á einu og sama trénu. Þegar lítill vöxtur er í greinum fyrst á vorin eru laufin án þessara skora, en þegar vöxtur eykst verður hún meira áberandi. Á stuttum greinum sem vaxa lítið sést þetta varla. Á lengri greinum birtast svona blöð og skoran verður dýpri og meira áberandi eftir því sem vöxturinn er meiri. Þetta einkenni hefur vakið athygli margra manna og verða hér á eftir rakin tvö dæmi. Annað frá skáldi, hitt frá grasafræðingi.


Musterisviðir fá glæsilega sterkgula haustliti. Þetta 1400 ára gamla tré stendur við Búddamusteri í Kína. Myndin fengin að láni hjá Planet Ginkgo. Sjá nánar hér.


Goethe og musterisviðurinn

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Johann Wolfgang von Goethe er eitt höfuðskáld Þjóðverja. Það er varla til það smáþorp í miðhluta Þýskalands sem ekki hefur Goetheplatz eða Goethestraße.

Árið 1815 sendi Goethe bankastjórafrú í Frankfurt að nafni Marianne von Willemer tvö lauf af musterisviði sem tákn um vináttu þeirra. Hann samdi ljóð um tréð, eða öllu heldur lauf þess, skrifaði það upp og festi laufin neðst á blaðið. Skömmu síðar fór hann með Marianne að trénu sem hann tók laufin af og sýndi henni það. Mun það hafa verið í síðasta skiptið sem hann hitti konu þessa. Trénu hafði verið plantað 1795 og árið 1925 var settur upp skjöldur við tré í garðinum við kastalann í Heidelberg þar sem því er haldið fram að það sé tréð sem varð Goethe innblástur. Einhverjir hafa orðið til að draga það í efa og telja tréð í garðinum of ungt. Hvað sem því líður má enn finna minningarskjöld um skáldið við musterisvið við kastalann og er ljóðið skrifað á skjöldinn.


Frumritið af ljóðinu frá 1815 er geymt á Goethe safninu í Düsseldorf.

Ljóðið var fyrst sett á prent fjórum árum síðar eða árið 1819. Það er allrar athygli vert að samkvæmt sögunni skrifaði Goethe vísvitandi Gingo í stað Ginkgo þegar ljóðið var prentað. Það gerði hann til að nafnið hefði mýkri hljóm en heyra má í fráblásnu og hörðu „k“ hljóði. Ekki er gott að segja hvað þýska þjóðskáldinu hefði þótt um íslenskt harðmæli Norðlendinga í samanburði við mjúkmælgi Sunnlendinga.


Frumritið af ljóðinu er enn til og geymt á safni í Düsseldorf. Hér má sjá heimildina

Eins og sjá má stendur Ginkgo í frumritinu en ekki Gingo eins og þegar ljóðið var fyrst prentað.

Gingo


Dieses Baums Blatt, der von Osten Meinem Garten anvertraut, Giebt geheimen Sinn zu kosten, Wie's den Wissenden erbaut, Ist es Ein lebendig Wesen, Das sich in sich selbst getrennt? Sind es zwei, die sich erlesen, Daß man sie als Eines kennt? Solche Frage zu erwidern, Fand ich wohl den rechten Sinn, Fühlst du nicht an meinen Liedern, Daß ich Eins und doppelt bin?Merking ljóðsins er um það bil þessi

Musterisviður


Lítil lauf úr austri ættuð

Lifa nú í mínum garði

Þau geyma göfug leyndarmál

Sem gleðja þá er þekkja þau.


Lifa þessi laufblöð enn

en liggja þó í tveimur pörtum?

Máski hugsa báðir hlutar

Að heildin ein sé besta lausnin?


Svona spurnum svara þarf

Svo að allir skilji rétt.

Finnst þér ei að flest mín ljóð

Fjalli um einn – en samt um tvo?


Viðbót: Grasafræðingurinn Ágúst H. Bjarnason las þetta ljóð á þýddi það af stakri snilld. Veitti hann okkur leyfi til að birta það hér. Hafi hann okkar bestu þakkir fyrir.


Lítið blað úr austur átt

á nú skjól í garði mínum.

Hefur í sér huliðsmátt

handa mér og vinum sínum.


Veiztu hvort það varir enn?

Vill það lifa‘ í tveimur hlutum?

Kunna tveir að kjósa senn

um kosti sem við báðir lutum.


Svo að eg minn segi hug

sýnir það minn ljóðaheimur,

að á mér sérðu engan bug,

eg einum hlít, en stundum tveimur.


Nafnið

Af fundarstað þessara trjáa við musteri og vegna þess hve algeng þau eru við austurlensk musteri hefur tréð hlotið sitt íslenska nafn. Það er oftast kallast musteristré, musterisviður eða jafnvel musterishneta. Sumar aðrar þjóðir hafa einnig farið þá leið að kenna tréð við musteri. Hitt er þó algengara að menn noti einfaldlega latínuheitið og kalla tréð Ginkgo eða Ginkgo-tré. Á íslensku hefur þetta fræðiheiti einnig verið notað en er þá að sjálfsögðu stafsett sem ginkgó.


Lauf musterisviðar, Ginkgo biloba, af Wikipediu.


Fræðiheitið, Ginkgo biloba, er eignað sjálfum Linnaeus, sænska náttúrufræðingnum sem bjó til tvínafnakerfið sem alls staðar er notað. Fyrra orðið, Ginkgo, er fengið frá Kaempfer sem fyrstur Evrópubúa leit tréð augum. Hann sagði að þetta væri nafnið sem notað er í Japan yfir tréð. Seinna heitið, biloba, er búið til úr bi og loba. Það vísar í það að stundum er eins og hvert lauf sé í raun eins og tvö samsett blöð eins og áður greinir.


Aldin

Eins og vænta má er þetta tré mikið eftirlæti grasafræðinga. Þeir hafa meðal annars skoðað hvernig þetta forna tré fjölgar sér. Það hefur sérbýli (trén eru annað hvort kk eða kvk) og mynda fræ ekki ólíkt og barrtré gera. Þó er sá munur á að frævunin er að sumu leiti líkari því sem gerist hjá gróplöntum. Karlblómin mynda ekki almennileg frjó eins og við þekkjum heldur eins konar sáðfrumur sem þurfa svo að berast á kvenblómin. Sumir grasafræðingar segja að þetta séu í raun frjó sem geta synt. Þetta einkenni sýnir í raun hversu frumstætt tréð er því önnur tré hafa fyrir löngu lagt af þessa aðferð. Þegar kemur að frævun og frjóvgun stendur musterisviður eiginlega mitt á milli gróberandi plantna eins og burkna og byrkninga og svo berfrævinga sem við almennt köllum barrtré. Þetta er alveg í stíl við það sem áður hefur komið fram að musterisviðir eru ævafornir á jörðinni.


Kven- og karlblóm musterisviðar. Myndirnar fengnar hjá Wikipediu.


Utan um fræin myndast eins konar húð. Hún er skinnkennd og illa lyktandi en Kínverjar og fleiri Austurlandabúar safna þeim saman og nýta fræin til átu. Kallast fræin musterishnetur eða ginkó-hnetur. Það er t.d. vel þekkt í Kóreu að borða ginkgóhnetur soðnar í kókósmjólk sem eftirrétt.

Þar sem aldinin eru ekki nýtt til átu þarf að hreinsa þau upp og fjarlægja. Þótt lyktin af þeim sé almennt talin frekar vond er það hrein hátíð miðað við aldin sem fá að rotna á jörðinni í lengri tíma.

Aldin musterisviðar. Myndin fengin frá Wikipediu.


Lífsþróttur

Musterisvíðir eru í auknum mæli nýttir sem borgartré. Ræður langlífi þeirra miklu þar um, saga þeirra og svo sú merkilega staðreynd að fá tré virðast standast mengun stórborga betur en einmitt musteristré. Í erlendum bókum er talað um að þau þoli öfga í veðri. Þau eru sögð þola bæði miklinn hita og ískulda. Sumarhitinn hér á landi er þó ekki nægilega mikill til að þau geti þraukað á landinu. Það er ekki vetrarkuldinn sem hamlar vexti þeirra á Íslandi heldur skortur á sumarhita.

Frægasta dæmið um lífsþrótt þessara trjáa er frá Hírósíma. Þar í borg eru til sex ákaflega fræg tré af þessari tegund. Þau stóðu um 1-2 km frá miðju kjarnorkusprengjunnar sem þar var sprengd í síðari heimsstyrjöld. Nánast allt líf á þessum slóðum þurrkaðist út en musterisviðirnir lifðu af og standa enn. Á japönsku kallast þessi tré Hibakujumoku eða eftirlifendur. Um þessi tré má meðal annars lesa hér.


Önnur fræg tré

Til eru mörg önnur fræg tré af þessari tegund. Mörg þeirra standa við gömul musteri eins og íslenska nafnið bendir til. Eitt þeirra er í Nongso, Seonsan í Suður-Kóreu. Því var plantað við musteri rétt við markaðstorg fyrir einum fjögur hundruð árum. Tréð stendur enn og er sérlega glæsilegt. Það er sagt vera meira en 30 metrar á hæð og þvermál krónu er hátt í fimm metrar. Bæði musterið og markaðstorgið eru nú rústir einar en tréð stendur enn. Það er sagt vera svo heilagt að fuglar neiti að setjast á greinar þess. Frá þessu greinir Peter Crane í bók sinni (sjá heimildaskrá).´

Sum tré eru vel þekkt vegna þess að þeim var plantað af frægu fólki. Í sumum tilfellum er það löngu látið fólk en langlífi musterisviða heldur uppi nafni þerra sem þau gróðursettu. Þannig er nokkuð frægt tré í Detroit sem Yoko Ono plantaði og annað í Caen sem plantað var af sjálfum Dalai Lama. Þessi tré munu halda uppi minningu þeirra í aldir eftir að þau falla frá. Það á þó kannski ekki við um Dalai Lama, því hann endurfæðist alltaf.

Önnur tré eru fræg vegna þess hvar þau standa. Áður hefur verið nefnt að við mörg hof í Asíu standa gömul og fræg tré en þau má einnig finna í garðinum við Hvíta húsið, við keisarahöllina í Japan og á Torgi hins himneska friðar í Peking svo aðeins fáein dæmi séu nefnd.

Í Missouri í Bandaríkjunum er eitt tré af þessari tegund sem er ekki nærri eins frægt og þau sem á undan eru nefnd. Samt stendur það mjög nálægt heimili Harry Trumans sem einmitt fyrirskipaði að kjarnorkusprengju yrði varpað á Hírósíma. Þannig tengist tegundin þessum hræðilega viðburði á fleiri en einn máta.

Eflaust vita flestir lesendur þessa pistils að eftir að Tvíburaturnarnir hrundu í hryðjuverkaárásinni um árið var ákveðið að reisa minningargarð um fórnarlömbin í stað þess að endurbyggja turnana Að sjálfsögðu má í garðinum finna musterisvið.


Þetta fræga tré er í Tournal í Belgiíu. Sjá heimild hér


Notkun og ræktun

Eins og áður segir eru fræin, musterishneturnar, nýttar til átu. Viður trjánna er almennt ekki mikið nýtur en úr laufunum eru unnin heilsubótarlyf. Fræin hafa einnig verið notuð í óhefðbundin lyf og úr þeim er stundum unnin olía.


Musterisviður er prýðisgott götutré þar sem hann á annað borð þrífst. Þessi mynd er frá Japan og hana tók Yasunori Yamamoto og birti á Facebooksíðunni Planet Ginko. Sjá hér.

Musterisviður er nú víða ræktaður á svæðum þar sem sumrin eru ekki alveg jafn svöl og þau sem við getum boðið upp á hér á Fróni. Þau eru ræktuð bæði vegna þess að þau þykja sérstaklega fögur og eins vegna þess að þau þola mengun betur en flest önnur borgartré. Að auki eru þau vindþolin og standast vel hvers kyns snjóbrot. Tréð er sumargrænt og fær áberandi gula haustliti. Eftir að haustlitir sýna sig standa laufin mjög stutt á trénu en falla fljótt. Í Evrópu verða þessi tré um 20-25 metrar á hæð og auðþekkt. Til eru eldgömul tré í Kína sem eru enn hærri eða meira en 50 metra há. Trén eru langlíf og þekkt eru tré sem eru yfir 2500 ára gömul.

Eins og vænta má af trjám sem jafn mikið eru tæktuð í Japan eru til bonsai afbrigði af musterisviðum. Mætti eflaust rækta þau í garðskálum hér á landi. Þessa mynd á

Sándor Pap sem býr í Búddapest í Ungverjalandi. Sjá hér.


Musterisviður er með sanni eins og lifandi steingervingur. Hann er tréð sem tíminn gleymdi.


Viðbót:

Árið 2012 birtist grin í American Journal of Botany um Ginkgo tré. Þar segir að í Dalou fjöllum í Suð-vestur Kína megi finna lund af musterisviði. Ekkert bendir til að honum hafi verið plantað svo að allt bendir til að þessi reitur sé síðustu leifar villtra musterisviðaskóga í heiminum. Ef þetta er rétt stenst það ekki lengur að musterisviðurinn finnist hvergi villtur. Greinina má nálgast hér Er þessari leiðréttingu hér með komið á framfæri og Margréti Steinþórsdóttur þakkað fyrir að benda á greinina.Helstu heimildir Bækur:

Colin Tudge (2007): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter

Peter Crane (2013): Ginkgo. Yale University Press. Netsíður: https://www.inverse.com/article/47833-hiroshima-gingko-trees-atomic-bomb
820 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page