top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Bergfuran við Aðalstræti 44

Í Innbænum á Akureyri eru mörg fögur tré, enda hófst trjárækt þar fyrir mjög mörgum árum. Hafa sum þessara trjáa ratað í þessa litlu pistlaröð og sjálfsagt eiga mörg eftir að gera það síðar.

Í húsinu við Aðalstræti 44 býr Anna Kristveig Arnardóttir. Anna Kristveig sinnir garði sínum í kringum húsið af mikilli alúð og eins og sumir nágrannar hennar, þá hugar hún einnig að gróðrinum ofan við lóðarmörkin. Þar hefur hún grisjað stafafuru eins og þarf og fært þangað gróður úr garði sínum þegar hún hefur þurft að grisja og hreinsa til. Að auki hefur hún endurnýjað húsið og byggt við það af mikilli smekkvísi. Viðbyggingin er aftan við húsið og breytir því götumyndinni mjög takmarkað en annars fellur viðbyggingin vel að húsinu og umhverfi þess.

Neðst í garðinum, í suðvesturhorninu, alveg við götuna, er stæðileg bergfura. Svona stæðilegar bergfurur eru ekki margar í bænum og því veljum við hana núna sem tré vikunnar.

Bergfuran við Aðalstræti 44 á þokudegi í janúar 2025 og á sólríkum maídegi á sama ári. Myndir: Sig.A.


Kortasjáin

Við í Skógræktarfélaginu höfum auðvitað dáðst að þessari furu í nokkurn tíma. Þess vegna er hún merkt inn á kortavefsjá félagsins eins og svo mörg falleg og merk tré í Eyjafirði. Sjá má kortasjána hér. Í henni eru trén flokkuð í þrjá flokka. Sum eru stórmerkileg og falla í fyrsta flokk á meðan önnur eru merkileg og eru sett í annan flokk. Að lokum eru sum sögð vera efnileg. Þau falla í þriðja flokk. Allt er þetta teygjanlegt en tré vikunnar er í síðast talda flokknum. Þessi fura telst vera efnilegt tré.

Kortasjáin byggir meðal annars á bæklingi sem gefin var út í tilefni af 75 ára afmæli félagsins og sjá má hér. Bæklingurinn heitir Merk tré á Akureyri og eins og nafnið bendir til fjallar hann einmitt um tré sem teljast merk og finnast á Akureyri. Þegar hann var gefin út var bergfuran í garðinum við Aðalstræti 44 varla nema stór runni og því rataði hún ekki inn í bæklinginn. Nú hefur hún stækkað og vaxið og telst til efnilegra trjáa.

Rétt er að geta þess að það er Bergsveinn Þórsson sem ber veg og vanda af þessari kortasjá. Hún stækkar smám saman um leið og trén í bænum. Við tökum fagnandi við hverskyns athugasemdum er kortasjánni viðvíkur.

Mynd Bergsveins Þórssonar af hinni efnilegu furu sem birt er í kortasjánni.
Mynd Bergsveins Þórssonar af hinni efnilegu furu sem birt er í kortasjánni.

Tegundin

Við höfum áður sagt frá því að flokka má furur á Íslandi í þrjá flokka. Í einum þeirra eru furur sem hafa fimm langar nálar í hverju nálaknippi. Í öðrum eru svokallaðar broddfurur. Þær hafa fimm stuttar nálar í hverju knippi. Í þriðja flokknum eru svo furur sem hafa tvær eða þrjár fremur stuttar nálar í hverju knippi. Bergfurur fylla þann flokk ásamt nokkrum öðrum tegundum. Mest ræktaða fura landsins er stafafura. Hún tilheyrir sama flokki og geta þessar frænkur stundum verið nokkuð líkar. Ef vafi leikur á má skoða brumin. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru brum bergfurunnar ljósbrún að lit en brum stafafuru eru rauðbrún og gjarnan umlukin trjákvoðu.

Horft á brum og nálar bergfurunnar. Sjá má ljósbrúnt hært brum og barrnálarnar sem alltaf eru tvær í hverju knippi.
Horft á brum og nálar bergfurunnar. Sjá má ljósbrúnt hært brum og barrnálarnar sem alltaf eru tvær í hverju knippi.

Bergfura, Pinus uncinata, vex villt í fjöllum í suðurhluta Evrópu, svo sem í Pýreníafjöllum og Ölpunum allt austur til Karpatafjalla. Ofar í fjöllunum vex náskyld fura sem kallast fjallafura, Pinus mugo. Sumir telja eðlilegra að flokka þetta sem afbrigði eða deilitegundir af einu og sömu safntegundinni. Þá er bergfuran skráð sem Pinus mugo subsp. uncinata. Við ætlum okkur ekki þá dul að geta skorið úr um hvort sé réttara en nú virðist sveiflan vera sú að telja þetta tvær tegundir. Bergfura telst vera mjög ljóselsk tegund og þolir illa að vaxa í skugga eða í mikilli samkeppni við annan gróður. Þar sem hún vex, í fjöllum Evrópu, er hún talin mjög mikilvæg til að binda jarðveg í brattlendi, skriðum og urðum. Hún myndar víða hávaxna og nokkuð bjarta skóga. Hér á landi vaxa bergfurur frekar hægt og má gera ráð fyrir að þær geti náð um 15 metra hæð. Þar sem þessi tegund hefur nægt vaxtarrými getur hún breitt töluvert úr sér og myndað breiða og mikla krónu. Stundum mynda þær einstofna tré en stundum marga stofna. Það gæti bent til erfðaflæðis milli hennar og fjallafuru.

Þessi snjóamynd er tekin þegar liðinn er um áratugur frá því að furunni var plantað. Mynd: Anna Kristveig Arnardóttir.
Þessi snjóamynd er tekin þegar liðinn er um áratugur frá því að furunni var plantað. Mynd: Anna Kristveig Arnardóttir.

Lýsing

Þessi efnilega bergfura er 8,2 m á hæð samkvæmt mælingu Bergsveins Þórssonar árið 2024. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er hún margstofna tré. Meginstofnarnir eru alls fimm. Oft er það notað til að skilgreina muninn á trjám og stórum runnum að runnarnir hafa marga stofna en trén aðeins einn eða tvo. Okkur er samt lífsins ómögulegt að halda því fram að þetta tré sé runni, þrátt fyrir stofnafjöldann.

Tréð er frístandandi og ekkert sem þrengir að því. Því fær það að breiða vel úr sér og nýtur sín vel. Þvermál krónunnar er 6,65 x 7 m.

Mynd sem Arnór Bliki Hallmundsson tók þann 15. ágúst 2009. Þá náði krónan alveg að jörðu. Sjá má furuna lengst til vinstri á myndinni.
Mynd sem Arnór Bliki Hallmundsson tók þann 15. ágúst 2009. Þá náði krónan alveg að jörðu. Sjá má furuna lengst til vinstri á myndinni.

Elínarbaukur

Arnór Bliki Hallmundsson skrifaði grein á Akureyri.net í marsmánuði árið 2025. Þar kemur fram að húsið gengur undir hinu áhugaverða nafni Elínarbaukur. Sennilega er húsið nefnt eftir Elínu Einarsdóttur Gunnarsen sem eignaðist húsið 1873 en eiginmaður hennar, Bjarni Gunnarsen hafði þá strokið úr landi. Elín þessi lifði lengst af á saumaskap en opnaði greiðasölu í húsinu árið 1875. Á þessum árum var það hefð í bænum að kalla veitingasölur bauka og þannig er nafn hússins til komið. Elín rak bauk sinn í áratug og leigði einnig út eitt herbergi auk þess sem í húsinu var rekið gistiheimili. Þar fyrir utan var á sama tíma rekið lítið úraverkstæði í húsinu. Má ætla að stundum hafi verið nokkuð þröngt í húsinu á þessum árum. (Arnór Bliki 2025). Arnór bætir því við að Elín bjó í húsinu allt til dauðadags árið 1914.

Þrjár myndir af bergfurunni frá ólíkum sjónarhornum og ólíkum árstíðum. Runninn, framan við furuna, sem er lauflaus á tveimur myndanna en ljósgrænn á þeirri þriðju er kergi, Caragana arborescens, sem einnig er kallað síberískt baunatré. Myndir: Sig.A.


Árið 1940 voru tvær íbúðir í húsinu, ein á hvorri hæð. Þar bjuggu á annarri hæðinni Hallgrímur Helgason og Matthildur Grímsdóttir ásamt tveimur dætrum sínum, en Hallgrímur hafði eignast húsið árið 1918. Á hinni hæðinni bjó einnig dóttir þeirra hjóna ásamt eiginmanni sínum og börnum. Samtals bjuggu þá átta íbúar í húsinu. Tvær af þessum systrum voru þær Helga og Anna Hallgrímsdætur. Þær áttu hér heima alla sína tíð í húsinu. Anna lést árið 1985 og Helga árið 1988. Nú býr frænka þeirra, Anna Kristveig Arnardóttir í húsinu en þær Helga og Anna voru afasystur hennar. Húsið hefur því verið í eigu sömu fjölskyldu frá því árið 1918. Anna segir svo frá að hún hafi verið 12 ára gömul þegar hún ákvað að hún ætlaði að kaupa húsið af frænkum sínum þegar hún yrði stór.

Eins og tíðkaðist víða voru íbúar í Innbænum með skepnur á þessum tíma. Ofan við húsið, þar sem nú er áföst nýbygging, voru þær systur með lítið fjós. Að sögn Arnórs Blika (2025) var það fjós upphaflega reist árið 1859. Auðvitað þurfti að moka úr því eins og öðrum útihúsum og var gjarnan mokað suður úr húsinu. Þar sem lóðin er í töluverðum halla varð ekki hjá því komist að það rynni aðeins úr fjóshaugnum. Gerði það jarðveg í allri brekkunni sunnan við íbúðarhúsið sérlega frjóan og góðan. Neðst í þessari brekku stendnur furan og nýtur enn þess góða viðgjörnings sem stafaði af hæfilegu nábýli við litla fjósið ofan við íbúðarhúsið (Hallgrímur 2025). Þetta nýttu þær systur Anna og Helga sér. Þær ræktuðu kartöflur í nánast öllum garðinum, nema rétt undir snúrustaurunum þar sem þær hengdu upp þvott. Svo mikil var kartöfluræktin að þær seldu kartöflur á haustin.


Fyrri myndin er tekin einhvern tímann á árunum 1984 til 1986. Þá er furan um 10 ára gömul. Takið eftir hversu lítið er um gróður í brekkunni að baki hússins. Það hefur heldur betur breyst eins og sést á seinni myndinni sem tekin er í maí 2025. Að auki hefur furan vaxið töluvert eins og sjá má og breytingar á húsinu eru til batnaðar. Fyrri mynd: Anna Kristveig Arnardóttir. Seinni mynd: Sig.A.


Húsið

Elínarbaukur er einlyft timburhús á lágum steingrunni með háu risi og að framanverðu er lítill kvistur í risinu. Að vestan tengist húsið steinsteyptri viðbyggingu sem fellur vel að byggingunni. Hún er einnig er með háu risi og er samsíða framhúsi. Byggingarnar eru tengdar með tengibyggingu úr timbri.

Samkvæmt skrám var húsið við Aðalstræti 44 byggt árið 1840. Það telst því í 3. – 5. sæti yfir elstu hús bæjarins að sögn Arnórs Blika (2025). Hann segir reyndar að þetta sé nokkuð á reiki og að húsið gæti vel verið töluvert yngra.

Á árunum 1997-2000 voru miklar framkvæmdir við Aðalstræti 44 á vegum Önnu Kristveigar. Gamla húsið var endurbætt, viðbyggingar frá 3. áratug 20. aldar voru rifnar en byggt við á ný til vesturs (Arnór Bliki 2025). Þessi viðbygging er mjög vel heppnuð og breytir ekki yfirbragði gamla hússins, sem fær að njóta sín óhindrað.

Bergfuran setur mikinn svip á umhverfi sitt, jafnt sumar sem vetur. Myndir: Sig.A.


Furan

Núverandi íbúi hússins, Anna Kristveig, keypti húsið af frænkum sínum, þeim Önnu og Helgu Hallgrímsdætrum. Það var í þeirra tíð sem bergfurunni var plantað. Þær systur bjuggu í „gamla húsinu“ enda var þá ekki búið að byggja við það.

Innar í götunni býr Hallgrímur Indriðason, föðurbróðir Önnu Kristveigar. Hann er fyrrum framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga og það er honum að þakka að furan er þarna. Heitir Hallgrímur eftir afa sínum sem jafnframt var faðir þeirra systra Önnu og Helgu. Þær voru því föðursystur hans.

Helga Hallgrímsdóttir fæddist árið 1915. Þegar hún varð sextug ára, árið 1975 færði Hallgrímur frændi hennar henni litla furu að gjöf. Að sögn Hallgríms (2025) var bergfuran þá um 30 cm há. Hana hafði Hallgrímur tekið upp úr götuslóða í Kjarnaskógi. Er óhætt að fullyrða að furan hafi braggast vel frá því henni var plantað þarna í frjósama brekkuna þar sem áður var kartöflugarður.

Í eina tíð gat snjóað á Akureyri, en furan lét sér það í léttu rúmi liggja. Mynd: Anna Kristveig Arnardóttir.
Í eina tíð gat snjóað á Akureyri, en furan lét sér það í léttu rúmi liggja. Mynd: Anna Kristveig Arnardóttir.

Vöxtur og viðgangur

Í heimkynnum sínum í Alpafjöllunum eru bergfurur jafnan einstofna, stæðileg tré. Eftir því sem ofar dregur í fjöllin er líklegra að finna margstofna tré og enn ofar er aðeins runna að sjá. Hvort sem það eru erfðir eða umhverfi sem ráða mestu um útlit bergfurunnar við Elínarbauk þá liggur fyrir að hún hneigist til þess að hafa marga stofna. Það getur verið óheppilegt í timburskógrækt en það þarf alls ekki að vera til ama í garðrækt. Slíkar furur geta betur klætt sig með sígrænu barri allt að jörðu.

Frá því að þessari litlu afmælisgjöf var plantað í frjósama brekkuna hefur hún vaxið og dafnað. Stundum hefur hún jafnvel vaxið aðeins of mikið. Því hefur þurft að grisja úr krónunni annað veifið. Anna Kristveig segist reyndar ekki hafa þurft að saga mikið af furunni, nema til að tryggja að hún vaxi ekki þannig að hún valdi gangandi vegfarendum vandræðum. Því hefur hún þurft að saga greinar sem vaxa út yfir gangstéttina við húsið.

Vetrarmynd frá því í mars 2025. Sjá má að lerki, sem er töluvert yngra en furan, vex mun hraðar. Mynd: Sig.A.
Vetrarmynd frá því í mars 2025. Sjá má að lerki, sem er töluvert yngra en furan, vex mun hraðar. Mynd: Sig.A.

Þakkir

Við gerð þessa pistils leituðum við til Önnu Kristveigar Arnardóttur og Hallgríms Indriðasonar eftir upplýsingum. Þau urðu bæði ljúflega við því að segja okkur allt um furuna. Að auki fór Anna Kristveig í gegnum myndasafn sitt og lánaði okkur myndir. Við nýttum okkur einnig að Arnór Bliki Hallmundsson var að skrifa um húsið á sama tíma og við. Upplýsingar frá honum komu að góðum notum og fengum að auki lánaða myndi úr greininni. Öllu þessu fólki færum við okkar bestu þakkir. Einnig fær Guðríður Gyða þakkir fyrir prófarkalestur.

Tvær myndir frá ólíku sjónarhorni sem sýna þessa dökku furu sem ber í annan gróður. Myndir: Sig.A.



Heimildir:

Arnór Bliki Hallmundsson (2025): Hús dagsins: Aðalstræti 44; Elínarbaukur. Birt hjá akureyri.net þann 16. mars 2025. Sjá: Hús dagsins: Aðalstræti 44; Elínarbaukur | akureyri.net.


Munnlegar upplýsingar í febrúar 2025: Hallgrímur Indriðason Anna Kristveig Arnardóttir



Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page