top of page

Ísland var brú, Ísland var tangi. Brot af sögu birkiættkvíslarinnar á Íslandi

Updated: Feb 24

Við erum stödd á Skotlandi fyrir 15 miljón árum. Almennt séð er fólk enn mjög apalegt á þessum tíma, en þar sem við komum í tímavél þá hefur það engin áhrif á okkur. En auðvitað leiðist okkur í Skotlandi og við ákveðum að fara frekar til Ameríku, en þar sem tímavélin er biluð og ekki um nein skip að ræða þá erum við í vanda, eða hvað? Ónei, ekki aldeilis, við bara löbbum, það vill nefnilega svo heppilega til að það er til brú, og á miðri þessari brú er Ísland. Eða allavegana byrjunin á því sem við köllum Ísland í dag.

Dýralífið kemur svolítið á óvart, það eru lítil hjartardýr og einhvern veginn sýnist okkur við sjá undarlegan fíl og gott ef ekki sverðkött í skugga trjánna.

Á Íslandi mæta okkur tignarlegir skógar með musteristrjám (Ginkgo) rauðviði (Sequoia) fenjaviði (Glyptostrobus) allt saman tré sem eru 30 -50 metra há og svo eru ótal minni lauftré svo sem túlipanatré (Magnolia) og ótal margt annara framandi trjáa. Og svo stöndum við frammi fyrir fallegu gulu tré (það er nefnilega haust) og þetta tré er eitthvað kunnuglegt, jú þetta er birki, en samt eitthvað öðruvísi. Þetta er nefnilega ný tegund sem hvergi hefur sést fyrr. Við nefnum þetta tré af sjálfsögðu Betula islandica.


Eins og glöggir lesendur tóku eftir þá var þetta bara skáldskapur með tímavélina. En allt hitt í textanum voru blákaldar staðreyndir, eða því sem næst.

Það eru ótal gögn sem þarf að skoða til að gera kort af löndum jarðar fyrir miljónum ára. Eitt af því sem veitir vitneskju um þetta eru steingervingar. Mörg dýr og plöntur eiga það sameiginlegt að vera vonlaus í því að ferðast yfir haf og verða að koma landleiðina. Á Íslandi fyrir ísöld var urmull plantna sem ekki komst yfir haf og steingervingar af litlu hjartardýri hafa einnig fundist. Það staðfestir landbrú. Héðan hafa komið tegundir bæði frá Ameríku og Evrópu svo ekki var einungis um brú til Íslands að ræða, heldur hefur Ísland verið brú milli Ameríku og Evrópu. Steingervingar benda til þess að fyrst hafi rofnað sambandið við Evrópu fyrir um 9 miljón árum en við duttum úr sambandi við Grænland fyrir um 6 miljón árum. Með almennu orðalagi má því segja að Íslandi hafi um árabil verið útvöxtur eða skagi á Grænlandi. Hugsanlega voru einhver skörð í brúna eða jafnvel eyjar til að stikla á. En samt ekki meira en svo að hrossakastanía og bambi litli komust á milli. Ekki eru allir jarðfræðingar sannfærðir um þessa kenningu, enda skipta menn ekki um sannleika eins og sokka.


Það eru steingervingar sem gera okkur kleift að endurgera fortíðina og gott betur en það, því þeir hjálpa okkur að skilja, þróun lífsins og jafnvel rek meginlanda og forna sjávarstöðu, breytileika í hitastigi jarðar og á sjávarstraumum og svo mætti lengi telja.Laufblað (efri myndin) og hugsanlega rekilblað (neðri myndin), sem fundið var í Súlu-Kerlingarfjallgarðinum í Eyjafirði. Aldurinn gæti verið um 10 miljón ár sem heldur báðum möguleikum opnum. Ef þetta litla steingerða fótspor frá sama stað er rekilblað, þá er það með stuttar tær sem frekar ætti við vatnabirki en íslenska fornbirkið.


Ísland er nokkuð ríkt af steingervingum frá míósen tíma, það er að segja frá því fyrir um 15 miljón árum og eru fundarstaðir þeirra fjölmargir. Mest eru þetta blöð trjáa og allskyns plönturestar og frjókorn. Af spendýrum hafa aðeins fundist menjar um eitt dýr. Brot af Herðablað af litlu hjartardýri frá því fyrir ísöld. Eflaust hefur verið hér líflegt dýralíf fyrir ísöld með björnum, hjörtum, nautum, úlfum og sverðköttum og öllum þessum kvikindum sem voru á sveimi í Ameríku og Evrópu á þessum tíma.

En nú skulum við einbeita okkur að birkinu Betula islandica. Við skulum kalla hana hina íslensku fornbjörk. Það sem við ekki vitum er hvernig börkurinn var á litinn, hvort hún var tré eða runni, hvort hún hafði fallega haustliti eða hvernig genasamsetning hennar var. En við vitum nákvæmlega hvernig laufblöðin voru og líka fræ og rekilblöð. Það færir okkur til deildarinnar Aspera í bjarkarætthvíslinni, með undirhópana Lentae og Asperae En það eru einskonar fornbirki hópar (Ásbjörn og Allister). Og Hvað er nú það?

Kenningin er sú að til séu fágætar stökkbreytingar í tegundum sem komi aðeins fram sjaldan eða einu sinni. Hjá birkiættinni hafa atriði eins og hvítur börkur, langir blaðstilkar, fáar blaðæðar, stuttar rekilblaðatær, reklar sem detta alveg í sundur (ekki köngulreklar eins og hjá elri), þunnir og breiðir frævængir og langir hangandi kvenreklar verið talin til þessara nýmóðins stökkbreytinga sem segir okkur að venjulegt birki (Betula pubescens) og náin frænka þess hengibirkið (Betula pendula)séu nútímaleg birki, með hvítan börk, langa hangandi kvenrekla, langa blaðstilka og fáar blaðæðar. Hinsvegar er Betula lenta (sem er einkennistegund Lentae hópsins) Með gráan börk, upprétta rekla o.s.frv. (Ásbjörn og Allister).

Ísland fyrir 15 milljón árum. Það var fátt líkt með skógum Íslands fyrir 15 miljón árum og skógum Íslands í dag. Þar voru tré af tegundum sem hafa náð 30 - 50 metra hæð, mikið um forna berfrævinga eins og fenjavið og rauðvið sem þarna eru í bakgrunni. Einnig hefur verið urmull af lauftrjám eins og hið forna túlípanatré. En fyrir miðri mynd er hin forna íslandsbjörk (Betula islandica) í sínum fallegu haustlitum. Það er ekki einfalt að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika þessa tímabils. Til þess þyrftum við gróðurhús.


Jæja, jæja. Þetta fer nú að verða leiðinleg lesning og ennþá versnar það. Þessi partur mun fyllilega jafnast á við bókina „Vafasamar ættir Þingeyinga“. Það er nefnilega þannig að skipting birkiættkvíslarinnar í deildir og hópa er eitthvað sem er breytingum háð. Þeir Ásbjörn og Allister hafa nýlega sett saman skiptingu sem margir taka mark á og vitna til. En enn nýrri rannsóknir hafi samt ekki fyllilega staðfest þá skiptingu. (1). Þá má geta þess að Wikipedia heldur sig við aðra skiptingu sem líklega byggir á eldri rótum. En þeir Denk og Friðgeir og co hafa hina fornu íslandsbjörk (Betula islandica) einfaldlega í deildinni costatae. Það er gaman að geta þess að í Þeirri deild er einmitt kunnuleg tegund sem þrífst vel á Íslandi nefnilega steinbjörk (Betula ermanii).


Hér má sjá blöð og rekilblöð beggja útdauðu íslensku birkitegundanna ásamt frænku þeirra frá Austur-Asíu (steinbjörk) sem er sprelllifandi, til samanburðar. Takið eftir stóru tönnunum við enda hverrar æðar og löngum tám á rekilblöðunum hjá forna íslandsbirkinu. Annars eru blöðin nokkuð svipuð og öll eru þau áberandi langydd. Teiknað eftir nokkrum ljósmyndum af mismunandi steingervingum til að fá sem besta heildarmynd. Ekki er því að leyna að steinbjarkarblaðið var ekki valið af handahófi heldur valið blað sem líktist blöðum hinna útdauðu tegunda. Kvarðinn er 2 cm.


Hin forna íslandsbjörk (Betula islandica) átti sitt blómaskeið svona ca. frá 13,5-10 miljón árum síðan. Fundarstaðir eru Ketilseyri (13,5 miljón ár), (Surtarbrandsgil 12 m.á.), Húsavíkurkleyf (10 m.á.). Blaðið er stórt með stuttan blaðstilk. Stilkurinn er 6-16 mm en blaðið 8-12,5 cm. blaðæðar (9)10-11 sem næra aðaltennur á blaðjöðrum (hver æð endar í stórri tönn á blaðjaðri). Íslandsbjörkin forna hefur tæplega hegðað sér eins og venjulegt birki gerir í dag. Hún hefur ekki myndað samfellda einsleita skóga. Hún óx hér innan um fjölda annarra trjátegunda og hefur komið sér fyrir hist og her í ótrúlega fjölbreyttum skógi. Íslandsbjörkin forna er löngu útdauð, en eins og fyrr segir þá á hún ættingja á lífi sem eru skyldari henni heldur en okkar venjulega birki (Betula pubescens).

Ferðinn í gegnum þoku tímans heldur áfram. Við stöldrum við steingert blað frá Hrútagili. Blaðstilkur er lengri, tennurnar jafnari í stærð og rekilblaðtærnar styttri en á íslenska fornbirkinu (Betula islandica). Þetta er ný tegund (ný gömul tegund): Vatnabirki (Betula cristata). Hvað er nú það ? Vatnabirki (Betula cristata) er önnur sér íslensk birkitegund sem þekkt er af steingervingum frá 9-5,5 miljón árum. Þessi tegund er sem sagt öllu nútímalegri en íslenska fornbjörkin (Betula islandica). Ásbjörn og Allister eru næsta vissir um að þetta sé nútíma birki í deildinni Betula og hópnum Betula. Sem sagt ekki óskylt okkar nútíma venjulega birki (Betula pubescens). Blöðin eru samt miklu stærri og með fjölda æða. Eða eins og sagt er í lýsingu á tegundinni. Blaðstilkur 5-21 mm, blaðlengd 3-13 cm og blaðbreidd 2-8,5 cm. Fjöldi æðapara er 8-13. Þetta gæti því verið hvítstofna birki með hegðun ekki ólíka okkar nútíma, venjulega birki (Betula pubescaens).


Ísland fyrir 10 milljón árum.

Fyrir 10 miljón árum var farið að kólna og furur, greni, döglingsviður og lerki voru farin að komin sterk inn í íslenska flóru. Á myndinni má sjá íturvaxið vatnabirki með hvítan stofn og íslenska bambann í forgrunni. Höfundur treysti sér ekki til að hafa nashyrning á myndinni því steingervingar af honum hafa ekki enn fundist. Það er hætt við að einhverjum skógræktarmanninum finnist að skógrækt á Íslandi nútímans sé einskonar vistheimt á skóginum sem óx hérna á síðari hluta míósen tímans. Það er líka hætt við því að sumum öðrum fyndist það ekkert fyndið.


Góðir lesendur. Þið skuluð ekki ímynda ykkur að 15 miljón ára skógur og 10 miljón ára skógur séu eins. Ónei. Það voru nefnilega loftlagsbreytingar þarna á seinni hluta míósentímans, sem gerði það að verkum að öllu þau tré sem þrífast best við hlýtt loftslag dóu út en tegundir sem nú þekkjast í norðrinu og fjallatoppum í suðri tóku við. Tegundir sem við þekkjum vel í nútíma skógrækt svo sem lerki, döglingsviður, greni, fura, víðir, hlynur, lyngrósir og svo má lengi telja. Það er því næsta víst að íslenskum skógræktarmönnum nútímans þætti sem þeir væru komnir í Hallormastaðaskóg eða Kjarnaskóg ef þeir fengju að kíkja á vatnabirkið og félaga þess fyrir 7 miljón árum. Samt er hætt við því að nashyrningar og önnur kvikindi míósentímans hefðu komið skógræktarmönnunum í opna skjöldu. En það er næsta víst að svoleiðis kvikindi hafa kíkt hér við eða átt heima.


Eftirmáli

Aðalheimild við ritun þessa pistils er bók sem ber heitið: Late Cainozoic Floras of Iceland. 15 Million Years of Vegetation and Climate History in the Northern North Atlantic. Eftir þá félaga: Thomas Denk, Friðgeir Grímsson, Reinhard Zetter og Leif A. Símonarson. Þessi bók slær ferskan tón í sögu lífsins á Íslandi. Hún er ekki nema tæplega 900 blaðsíður og er ómissandi í bókahillu náttúruáhugamannsins. Í þessari bók er farið í gegnum fyrirliggjandi gögn um steingervinga Íslands og þeir flokkaðir upp á nýtt. Við það fækkar tegundum svo heildarmyndin verður einfaldari og skýrari. Með þessari aðferð fæst betri mynd af þróun íslenskra vistkerfa fyrir ísöld. Helstu niðurstöður eru þær að íslenskur forngróður var alls ekki eins amerískur og stundum hefur verið haldið fram, heldur einnig evrópskur. Einnig sýna þessar rannsóknir að þar sem margar af þeim tegundum sem fundust á Íslandi fyrir ísöld höfðu mjög takmarkaða dreifingarmöguleika (þungar hnetur og þess háttar) er erfitt eða ómögulegt að skýra tilveru þeirra á annan hátt en að landbrú hafi verið bæði til austurs og vesturs. Ekki eru þó allir jarðvísindamenn tilbúnir að viðurkenna þessa kenningu að svo stöddu.

Um ályktanir um dýralíf er það að segja að finnst lítið hjartardýr kom trítlandi hingað þá hafa fleiri skepnur þessa tíma gert það líka.

Loks má geta þess að fleiri hugmyndir eru til um Ísland til forna. Vísindamenn hafa skrifað um sokkið meginland og aðrir um hamfaraflóð sem hingað hafi fleytt heilu skógunum frá Ameríku. En ekki meira um það hér og nú.


Bestu þakkir:

Friðgeir Grímsson fyrir greinasendinguna.

Lovísa Guðrún Ásbjörnsdóttir, náttúrufræðistofnun Íslands, fyrir mynd af rekihlífarblaðinu í kassa 2. Safnnúmeri sýnisins er 9581.

Sigurður Arnarson fyrir að vera veraldlegur og andlegur stuðningur.

Annars allar myndir og texti: Helgi Þórsson Kristnesi.


Heimildir:

Kenneth Ashburner and Hugh A. McAllister (2013): The genus Betula. A Taxonomic Revision of birches. Kew publishing (Þeir hinir sömu og kallaðir eru Ásbjörn og Allister)


Thomas Denk. Friðgeir Grímsson. Reinhard Zetter og Leifur A. Símonarson (2011): Late Cainozoic Floras of Iceland. 15 Million Years of Vegetation and Climate History in the Northern North Atlantic. Springer. For other titles published in this series, go to http://www.springer.com/series/6623


1) Kiran Singewar, Christian R Moschner, +1 author M. Fladung (2020): Species determination and phylogenetic relationships of the genus Betula inferred from multiple chloroplast and nuclear regions reveal the high methyl salicylate-producing ability of the ancestor. Published 16 May 2020

Professor R.J.Barry and Professor A. Hallam. The Collins Encyklopedia of Animal evolution. (1986): William CollinsSons and co Ltd. (Stuðst við kort við uppdrátt).


733 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page