top of page

Gróður á Íslandi fyrir ísöld

Updated: Dec 1, 2023

Ef og þegar loftslag kólnar svo mjög um alla jörð að jöklar þekja stór, samfelld svæði á báðum hvelum jarðarinnar, kemur ísöld. Talið er að síðasta ísöld hafi hafist fyrir um 2,6 milljón árum eða jafnvel fyrr og lokið fyrir um 10-12 þúsund árum. Á þessu langa tímabili skiptust á hlýskeið og kuldaskeið. Á hlýskeiðum gat gróður breiðst út en lét í minni pokann þegar ísar tóku aftur að breiðast út.

Vetrarmynd úr Eyjafirði. Hver vetur gefur okkur örlitla innsýn í kuldaskeið ísaldar, nema hvað jökullinn varð að sjálfsögðu þykkari en þessi föl sem við fáum núna. Mynd: Sig.A.


Áður en ísöldin gekk í garð var hér langt hlýskeið. Hvernig leit landið þá út? Hvaða tré uxu hér áður en tók að kólna og hvernig viðraði?


Þeir félagar og bræður í trjánördaskap: Helgi Þórsson og Sigurður Arnarson, eru að skoða þetta og munu birta pistla um efnið á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga undir flipanum FRÓÐLEIKSMOLAR. Munu þessir pistlar verða hluti af #TrévikunnarSE en aðrir pistlar munu að sjálfsögðu einnig birtast eins og hingað til.

Þessi mynd er tekin í grasagarðinum Arnold Arboratum í Boston. Þar kennir margra grasa, eins og vera ber í grasagörðum. Tréð á myndinni er frá suðaustur hluta Bandaríkjanna og kallast Oxydendrum arboreum. Ef til vill litu skógar Íslands á tertíer út svipað þessu. Mynd: Sig.A.


Fyrsti pistillinn í þessu þema hefur nú þegar birst en okkur þykir rétt að fjalla örlítið um jarðsöguna áður en ísöldin gekk í garð.

Elstu þekktu plöntusamfélög á Íslandi. Líkanið er byggt á steingerðum plöntuleifum; blöðum, aldinum og fræjum úr Selárdal, Botni í Súgandafirði og við Ketilseyri. Myndin fengin úr BA ritgerð Margrétar Theódóru Jónsdóttur (2009).


Tertíer

Fyrir langa löngu, eða fyrir svona 65 milljónum ára, varð einhver atburður sem leiddi til þess að risaeðlurnar dóu út. Þessi atburður markar tímamót. Þá hófst það jarðfræðitímabil sem kallað hefur verið tertíer. Um þær mundir gerðust einnig þeir atburðir sem urðu til þess að Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn klofnuðu hvor frá öðrum og fóru að reka í sundur. Við það myndaðist Atlandshafið. Þar sem álfurnar lágu saman er neðansjávarhryggur sem kenndur er við hafið. Á honum norðanverðum er svokallaður heitur reitur og yfir honum tók að myndast land. Í dag kallast það land Ísland. Við komum nánar að því í næsta kafla.


Heitir reitir eru taldir stafa af svokölluðum möttulstrókum sem flytja glóandi efni frá iðrum jarðar og nær yfirborðinu. Talið er að strókarnir séu um 200-300°C heitari en möttulefnið umhverfis og þess vegna eðlisléttari. Þess vegna er mikil eldvirkni þar í samanburði við landið í kring og þar rís landið hátt yfir umhverfið því vegna þess að undir þeim er tiltölulega eðlisléttur sökkull. Þetta kemur meðal annars fram í því að blágrýtisskorpan undir Íslandi er um 30 km þykk en skorpan sunnan og norðan við landið er um 6 km að þykkt. (Sigurður Steinþórsson 2003). Vegna þessara eiginleika sígur landið þegar það færist fjær heita reitnum.

Mynd úr grein í Náttúrufræðingnum árið 2007 eftir Friðgeir og félaga sem sýnir lista yfir plöntuhópa sem þá hafði verið borin kennsl á úr elstu setlögum landsins. Taflan sýnir hvar plöntusteingervingarnir fundust og nöfn náskyldra núlifandi tegunda. Myndin fengin héðan.


Ein af þeim tegundum sem sjá má listanum hér að ofan er hin ameríska Platanus occidentalis sem hér vex í Edinborg. Skyld tegund óx á Íslandi á tertíer. Mynd: Sig.A.


Almennt er talið að tertíer hafi lokið við upphaf ísaldar fyrir um 2,6 milljónum ára. Tertíer stóð því yfir í meira en 63 milljónir ára. Óhætt er að fullyrða að það er býsna langur tími. Þess vegna hafa menn brugðið á það ráð að skipta tertíer í minni jarðsögutímabil. Tertíer skiptist í eftirfarandi tímabil:

Paleósen (65 - 58 milljónir ára) Eósen (58 - 36 milljónir ára) Ólígósen (36 - 24 milljónir ára) Míósen (24 - 5,2 milljónir ára) Plíósen (5,2 - 2,6 milljónir ára)

Síðan hófst ísöld þegar plíósen lauk fyrir um 2,6 milljónum ára.

Myndaröð sem sýnir hugmyndir manna um opnun Norður-Atlantshafs og hugsanlegar dreifileiðir plantna á mismundandi tímum tertíer. Myndin fengin úr BS ritgerð Margrétar Theódóru Jónsdóttur. Sjá hér.Erfitt getur verið að átta sig á svona tímaskala. Til að við fáum einhvern botn í þetta 65 milljón ára ferli getum við ímyndað okkur að það sé eitt ár. Þá samsvarar hver dagur um 178 þúsund árum. Til samanburðar má geta þess að ísöld lauk fyrir um 10 þúsund árum. Það merkir að henni lauk kl. langt gengin í 11 á gamlárskvöld því klukkustundin er sama og 7417 ár. Ísöldin hófst á þessum kvarða fyrir um hálfum mánuði og lauk fyrir rúmum klukkutíma.


Mynd sem ætlað er að sýna tímalínuna frá tertíer og til nútíma. Tíminn er settur upp sem eitt ár. Risaeðlurnar dóu út 1. janúar og á svipuðum tíma klofnaði Evrasíuflekinn frá Ameríkuflekanum. Þá hófst myndun Atlantshafsins. Elsta berg á þeim stað sem við nú köllum Ísland myndaðist í september. Veður fór hægt kólnandi eftir það og ísöld hófst þann 18. des. Henni er nýlokið, nema við séum einfaldlega á einu af hlýskeiðum hennar og hún sé því enn í gangi.

Laufskógar við skoska á. Þar er kaldara nú en þegar elstu skógar Íslands uxu úr grasi. Lauftrén voru því suðlægari en á þessari mynd. Skógar Skotlands gefa ákveðna hugmynd um útlit skóga á Íslandi þegar nær dró ísöld.

Mynd: Sig.A.


Tilurð Íslands

Eftir því sem Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn rak lengra frá miðhryggnum varð Atlantshafið stærra. Frá þessum tíma eru eldgosamyndir á Norður Írlandi, Skotlandi, Færeyjum og Austur-Grænlandi. Þau lönd hafa fyrir löngu rekið frá heita reitnum en eldvirknin hélt áfram. Talið er að fyrir um 27 milljónum ára hafi gosvirkni færst frá Ægishrygg og vestur á Kolbeinseyjarhrygg (Leifur A. Símonarson og Jón Eiríksson 2012). Væntanlega mynduðust margar eyjar sem smám saman uxu saman vegna endurtekinna eldsumbrota yfir heita reitnum sem talinn er vera um 200 km í þvermál. Líta má á þetta ferli sem upphaf Íslands. Þess vegna segja sumir að Ísland hafi orðið til fyrir um 20 milljón ára eða þar um bil. Ef við skoðum kaflann um tertíer hér að framan má segja að Ísland hafi byrjað að myndast á míósen. Það er nokkuð seint á tertíer og er stundum kallað síðtertíer. Þau þrjú tímabil sem eru þar á undan koma ekki mikið við sögu Íslands og verður ekki meira um þau fjallað. Þetta frum-Ísland hefur verið tengt bæði Ameríku og Evrópu með landbrú. Helgi Þórsson hefur þegar sagt frá þessari fornu landbrú á þessum síðum. Sjá hér.Hafsbotninn umhverfis Ísland. Brúnu svæðin standa hærra en umhverfið vegna þess að jarðskorpan er þar eðlisléttari og þar með þykkari. Auðvelt er að ímynda sér hvar landbrúin var. Myndin er fengin héðan.


Yfir þessum heita reit þenst jarðskorpan út eins og áður segir. Þegar flekarnir halda áfram að færast hvor frá öðrum og Atlantshafið stækkar fjarlægist nýja bergið virka gosbeltið og heita reitinn. Þar með sekkur það í sæ. Það land sem myndaðist fyrst yfir heita reitnum er allt löngu sokkið nema það sem við sjáum m.a. í Færeyjum og Grænlandi. Eins og við er að búast er elsta bergið á Íslandi það berg sem er lengst frá virka gosbeltinu. Þegar það berg myndaðist voru þau svæði yfir virka gosbeltinu en eru nú aðskilin af yngri jarðmyndunum. Elsta bergið sem til er á Íslandi er ekki nema um 16 milljón ára. Það er að finna á Vestfjörðum en um milljón árum yngra berg er á Austfjörðum. Gera má ráð fyrir að enn eldra berg sé að finna undan ströndum Íslands. Allt þetta gamla berg tilheyrir blágrýtismynduninni. Henni lauk fyrir um 2,6 milljónum ára (Leifur A. Símonarson og Jón Eiríksson 2012). Þar með má segja að allt blágrýtið á Íslandi sé myndað á tertíer.

Lítið hvalbak í Krossanesborgum norðan Akureyrar með jökulrákum og tilheyrandi. Svona fyrirbæri voru ekki til á Íslandi á tertíer. Hvalbök mynduðust þegar skriðjöklar runnu yfir þau. Mynd: Sig.A.


Grettistak (setstaður fugla ef marka má skófirnar) á jökulsorfnu hvalbaki í Krossanesborgum norðan Akureyrar. Sjá má jökulrákir til vinstri á myndinni. Jökullinn hefur flutt þennan stein með sér og notað hann til að skrapa hvalbakið. Jökullinn er nú farinn að ná í meira grjót. Mynd: Sig.A.


Gróður á Íslandi á Tertíer

Elstu jarðlög Íslands einkennast af þykkum hraunlögum en á milli þeirra eru setlög og víða eru forn gjóskulög í þeim. Í þessum lögum má stundum finna steingervinga sem gefa okkur vísbendingar um gróðurfar þegar þeir mynduðust. Stundum má sjá setlög horfina plantna sem þjappast hafa saman undir þrýstingi. Þá myndast það sem við köllum surtarbrand. Því má finna miklar minjar um fornan gróður í surtarbrandslögum.

Helstu fundarstaðir steingervinga á Íslandi. Steingerðar skeljar inni í landi benda til hærri sjávarstöðu. Blágrýtismyndirnar eru bláar á myndinni. Það berg myndaðist á tertíer. Myndin er fengin af Vísindavefnum.


Landslag þess tíma hefur verið gjörólíkt því sem nú er. Engir jöklar höfðu grafið firði eða dali og engin móbergsfjöll höfðu myndast undir jökli en móberg gæti þó hafa myndast við gos í vatni eða sjó. Það dugar samt ekki til að mynda móbergsfjöll eins og við þekkjum þau, því ekki var um neinn jökul að ræða sem haldið gat við gosefnin. Víðáttumikil blágrýtishraun mynduðu fremur hallalítið landslag en upp úr sléttunum hafa staðið virkar megineldstöðvar. Eftir því sem lengra dró frá gosbeltinu var lengra á milli hraunlaga. Aðeins stóru hraunin náðu að renna nægilega langt. Því gátu setlögin spannað frá um 6000-10000 ár, eða nánast jafn langur tími og leið frá síðustu ísöld til dagsins í dag.

Setlagasyrpur á Vestfjörðum og Vesturlandi þar sem plöntusteingervingar hafa fundist. Á myndinni má einnig sjá afstöðu til þekktra megineldstöðva og hallastefnu jarðlaga.

Myndin fengin úr BA ritgerð Margrétar Theódóru Jónsdóttur (2009).


Mynd úr fróðlegu riti Denk og félaga frá 2011. Myndin sýnir fjölda minja um plöntutegundir úr 15 milljón ára gömlum setlögum á Íslandi. Hæð súlnanna segir til um fjölda sýnishorna. Algengast er að finna trjákennda dulfræfinga (sem við þekkjum best sem lauftré) og þar á eftir koma barrtré og skyldir berfrævingar eins og Ginko spp.


Fyrir 9-8 milljón árum hafði samsetningin breyst töluvert. Mosar og byrkningar (fyrsta súlan) hafa bætt töluvert við sig, en trén hafa enn forystuna. Myndin er frá Denk og félögum (2011)


Fyrir 1,1 milljón árum höfðu jurtkenndir dulfrævingar (sem við vanalega köllum blóm og grös) tekið yfir sem algengasti plöntuhópurinn. Lauftrén eru í örðu sæti. Myndin er frá Denk og félögum (2011). Fleiri sambærilegar myndir má sjá í ritinu og öðlast þannig betri yfirsýn yfir breytingarnar.Gera má ráð fyrir að nánast frá upphafi hafi verið gróður á Íslandi, enda landið tengt bæði Evrópu og Ameríku. Elstu minjar um gróður á landinu eru um 15-milljón ára gamlar. Það merkir að í minnsta kosti 11-12 milljón ár hafði gróður tækifæri til að þróast á því svæði sem við nú köllum Ísland, áður en ísöld gekk í garð. Það er um þúsundfaldur sá tími sem liðinn er frá því að ísöld lauk. Til eru ýmsar vísbendingar um hvernig sá gróður leit út. Í setlögunum hafa meðal annars fundist „gró og frjókorn, steingerð laufblöð eða för eftir þau, barrnálar, aldin, könglar, fræ og stöngulhlutar“ (Friðgeir Grímsson o.fl. 2007). Mest áberandi eru laufblöð. Misjafnt er hversu vel þessar leifar hafa varðveist. Sums staðar eru þær svo vel varðveittar að greina má þær til ættkvísla eða jafnvel tegunda (um muninn á þessum hugtökum má lesa hér). Laufblöð skyldra hópa geta verið nokkuð lík. Því auðveldar það mjög greininguna til tegunda og ættkvísla ef fleiri hlutar finnast með laufblöðunum, svo sem fræ og aldin (Friðgeir Grímsson o.fl. 2005). Rannsóknir á þessum leifum hafa gefið okkur margvíslegar upplýsingar um gróðurfar á Íslandi á síðtertíer. (Leifur A. Símonarson og Jón Eiríksson 2012, Denk o.fl. 2011). Í hraunlögunum sjálfum má einnig stundum finna merki um fornan gróður. Þar eru holur eftir trjáboli og greinar algengustu ummerkin og víða má sjá menjar eftir trjábörk á holuveggjunum. Þetta hefur gerst þegar glóandi hraun rann yfir skógana og trén koluðust án þess að brenna strax, þar sem súrefni hefur ekki átt greiða leið að viðnum (Leifur A. Símonarson og Jón Eiríksson 2012).


Laufblöð útdauðs beykis úr Hrútagili í Mókollsdal. Mælikvarði er 5 cm. Myndin fengin úr BA ritgerð Margrétar Theódóru Jónsdóttur (2009) og er eignuð Friðgeiri Grímssyni og Leifi A. Símonarsyni. Grein um þetta beyki mun birtast síðar.


Fróðlegt getur verið að skoða þessar vísbendingar og bera saman við þann gróður sem vex í heiminum á okkar tímum og við hvers konar loftslag sá gróður vex. Þannig má ráða í hvers konar veður hefur ríkt á landinu þegar flóran myndaðist. Í öðrum pistlum verður fjallað nánar um sumar af þessum tegundum og skyldleika þeirra við núlifandi tegundir.

Dreifing núlifandi plantna í Norður-Ameríku sem taldar eru skyldar íslensku tertíerflórunni. Á gráa svæðinu finnast nú plöntutegundir sem eru keimlíkar tegundum sem þrifust við sambærilegt loftslag á Íslandi á tertíer fyrir um 15 milljónum ára. Myndin fengin úr BA ritgerð Margrétar Theódóru Jónsdóttur (2009).Myndin mun upphaflega hafa birst í bókinni Myndun og mótun lands (1991) eftir Þorleif Einarsson og þar byggð á grein W. Fridrich og Leifs A. Símonarssonar frá 1981.


Elstu menjar um gróður á Íslandi sýna gróðursamfélög sem eru mjög frábrugðin þeim sem hér finnast á okkar dögum. Í þeim ber mikið á plöntum sem eru náskyldar plöntum sem nú lifa á heittempruðum svæðum eins og nú má finna við Miðjarðarhafið og víðar. Hér hefur því vaxið skógur sem er líkur þeim skógi sem nú vex í suðausturhluta Bandaríkjanna eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Þetta hafa án efa verið víðáttumiklir laufskógar en einnig hafa vaxið hér barrtré sem mörg hver voru gjörólík þeim sem hafa verið ræktuð hér hin síðari ár. Fundist hafa steingervingar af um 50 ættkvíslum plantna frá míósen. Mest ber þar á trjám.

49 milljón ára gamlar leifar af barri af tegund af ættkvíslinni Glyptostrobus frá Washington í Bandaríkjunum. Sama tegund eða líkar tegundir uxu líka hér á landi. Pistill um tegundina er í vinnslu. Myndin fengin héðan.

Svo virðist sem litlar breytingar hafi verið á flórunni sem hér óx fyrir 15 milljónum ára og þeirri sem óx hér fyrir 13,5 milljónum ára. Loftslag virðist þá hafa verið mjög stöðugt. Flóran bendir eindregið til þess að hér hafi verið fremur heitt og rakt á þeim tíma. Eftir það urðu hér dramatískar breytingar á flóru landsins samfara kólnuninni sem varð þegar nálgast tók plíósen. Breytingarnar urðu það miklar að í ritinu Late Cainozoic Floras of Iceland (Denk o.fl. 2011) er sérstakur kafli sem ber heitið: Evidence from Major Vegetation Changes eða Sannanir fyrir meiriháttar breytingum á gróðri (bls. 674 og áfram). Á tímabilinu frá því fyrir 12 milljónum ára og þar til fyrir um 10 milljón árum hurfu margar af þeim hitakæru plöntum sem áður einkenndu flóru Íslands. Á sama tíma urðu einnig breytingar á skeldýrafánunni við landið sem einnig benda til kólnunar.

Plöntusteingervingar úr síðtertíer setlögum á Íslandi. a og b er álmur, Ulmus spp. C, d og e er vænghnota, Pterocarya spp. Mælikvarðinn er mismunandi milli mynda en svarta strikið er alltaf jafn langt.

Samsetta myndin er fengin héðan.


Samkvæmt rannsóknum á surtarbrandi og setlögum frá því fyrir um 14-6 milljónum ára fór loftslag hlýnandi frá 14 til 12 milljón árum. Þá er talið að lofstlag hafi verið allt að 10°C heitara en nú er. Síðan kólnaði eftir því sem nær dró ísöld. Plíósen var því kaldara en míósen. Flóran hér á landi hefur þá verið áþekk þeirri flóru sem nú má finna um vestanverða Mið-Evrópu. Þar eru köldustu mánuðir ársins með meðalhita yfir 0°C þótt vissulega frysti stundum. Gera má ráð fyrir að á míósen sé líklegast að barrskógar hafi haft yfirhöndina (eða á að skrifa yfirgreinina?) þótt hér hafi einnig vaxið lauftré.

Mynd úr grein í Náttúrufræðingnum árið 2007 eftir Friðgeir og félaga sem sýnir yfirlit yfir núverandi plöntuhópa sem eru hvað skyldastir þeim plöntuhópum sem lifðu hér á landi fyir 15-13,5 milljónum ára, ef marka má steingervinga. Ætla má að ársmeðalhiti hafi þá verið 9,3°C-10,5°C miðað við þessa töflu. Það er afmarkað með rauðum, lóðréttum línum. Yngri plöntuleifar sýna að þá hafði kólnað. Myndin fengin héðan.


Lítið hefur fundist af leifum spendýra í fornum jarðlögum en engin ástæða er til að ætla annað en að þau hafi verið hér. Þau hafa getað komið yfir landbrú bæði frá austri og vestri og getað lifað góðu lífi á Íslandi uns ísöld gekk í garð. Almennt má segja að leifar dýra geymast illa í kalksnauðu umhverfi. Það er sennilega meginástæða þess að hingað til hefur aðeins einu sinni verið staðfest að bein úr spendýri hafi fundist á milli fornra blágrýtislaga. Var þar um að ræða lítið hjartardýr. Aftur á móti hafa fundist leifar hryggleysingja, bæði þeirra sem lifðu í vatni og á þurru landi. Það er þó utan við efni þessa pistils.


Rannsóknir sýna einnig að þær plöntur sem fyrst numu hér land gátu bæði komið frá Evrópu og Norður-Ameríku, rétt eins og vænta má. Núverandi flóra er miklu skyldari flóru Evrópu en Ameríku. Það stafar sennilega helst af því að þegar Grænlandsjökull myndaðist tók fyrir flutninga úr þeirri átt.

Stórmerkilegt kökurit úr grein Friðgeirs og félaga (2007) sem sýnir hlutfallslega skiptingu plantna eftir dreifileið fræja út frá móðurplöntum. 6 af hverjum 10 tegundum dreifðu fræjum sínum með vindi yfir stutta vegalengd. Enn ein vísbendingin um landbrú.


Útlit íslenskra skóga á tertíer

Ef marka má þær plöntuleifar sem finnast í íslenskum setlögum hafa hér vaxið skógar á tertíer. Þeir hafa verið stórir og nokkuð samfelldir, því meira finnst af leifum trjáa en annarra plantna. Munur hefur verið á skógunum eftir því hvar þeir stóðu. Aðrar tegundir vaxa þar sem framboð af vatni er ríkulegt en þar sem minna er af því. Hæð yfir sjó kann einnig að hafa haft áhrif þá sem nú. Hér ofar í greininni má sjá mynd sem ætlað er að sýna þetta. Laufskógar í árdölum og barrtré þegar hærra dregur. Þeir Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson og Walter L. Friedrich skrifuðu merkisgrein í Náttúrufræðinginn árið 2005 sem heitir Kynlega stór aldin úr síðtertíerum setlögum á Íslandi. Verður án efa meira vísað í þá grein í öðrum pistlum á þessum síðum. Í niðurlagskafla greinarinnar velta því þeir fyrir sér af hverju hér á landi hafi fundist óvenjustór aldin tegunda sem nota vind til dreifingar fræja. Heilar þrjár ólíkar ættkvíslir trjáa, álms, vænghnotu og hlyns mynduðu allar mjög stór aldin á Íslandi. Það er ekkert óvenjulegt að finna eina tegund trjáa á tilteknu svæði sem, einhverra hluta vegna, framleiðir stór aldin. Hitt er einkennilegra að þær skuli vera þrjár sem þar að auki tilheyra lítt skyldum ættkvíslum!


Fyrir ofan eyðibýlið Skeggjastaði á Jökuldal má finna surtarbrandslög í Garðárgili. Þau lög eru yngri en elstu lögin fyrir vestan. Garðáin, sem sést á myndinni, hefur grafið þetta v-laga gil. Dalir sem jöklar grafa eru meira u-laga. Mynd: Sig.A.


Í grein sinni benda þeir á að í 9-8 milljón ára gömlum setlögum í Mókollsdal megi finna allar þrjár ofangreindar tegundir en einnig aðrar tegundir sem treysta á vind til frædreifingar. Má þar nefna furu, greni, lerki, elri, birki og víði auk vænghnotu, álms og hlyns. Þarna má líka finna nokkrar tegundir eins og hesli, valhnotu, eik, toppa og beyki sem dreifa fræjum sínum með dýrum eða dreifa þeim einfaldlega mjög lítið. Það er því ljóst að þrátt fyrir að fyrir 9-8 milljónum ára hafi verið hlýtt á Íslandi var hér vindasamt. Það hefur ekkert lagast.

Mynd úr grein þeirra Friðgeirs og félaga frá 2005 sem sýnir óvenjustór fræ með óvenjustóra vængi. Hlutföll milli fræja tegundanna eru ekki rétt.


Létt fræ geta borist langar leiðir með vindi. Þung fræ berast styttra. Þó má lengja þær vegalengdir með því að hafa stóra vængi. Einkum dugar það ef vindur er mikill. Stórir vængir á stórum fræjum geta einnig hjálpað til eftir að fræið er lent. Það getur „skoppað“ undan vindi. Til þess að það gerist mega skógarnir ekki vera of þéttir eða að það þurfa að vera einhvers konar eyður í þeim. Því er það svo að í plöntusamfélögum er helst að finna plöntur sem treysta á vind til að bera fræin langt í jöðrum skóga eða opnum svæðum svo sem við læki og vötn eða giljum og daldrögum. Aftur á móti er ekki við því að búast að dalir hafi verið sérlega algengar á Íslandi áður en jöklar fóru að grafa þá út. Hér hefur verið fremur flatt land. Ár hafa þó vel getað grafið niður gil.


Haustmynd frá árinu 2012 tekin grasagarði í Boston. Voru skógar Íslands eitthvað líkir þessum fyrir um 8 milljón árum? Mynd: Sig.A.


Aftur á móti er það svo að stór fræ þróast fyrst og fremst þar sem lággróður er mikill og þéttur. Stór fræ hafa meiri forðanæringu en lítil fræ. Þau geta þá spírað og vaxið í meiri samkeppni en lítil fræ. Plöntur sem mynda stór fræ eru því einkennandi fyrir skuggsælt og þéttvaxið vistkerfi. Frumbýlingar, eins og birki og víðir, þola miklu minni samkeppni og mynda lítil fræ sem berast langt.

Stór fræ með stóra vængi virðast því hafa þróast til að gera hvoru tveggja. Geta vaxið í þéttum gróðri og borist langt.

Börn að leik við á í Lord Ancrum´s Wood í Skotlandi. Fjölbreytt lauftré vaxa við ána. Voru skógar tertíer á Íslandi líkir þessum, þótt ungviði spendýra hafi verið önnur? Mynd: Sig.A.


Því er það svo að hér á landi virðast hafa vaxið þéttir og skuggsælir skógar á afmörkuðum svæðum. Hversu afmarkaðir þeir voru er erfitt að segja. Líklegt er að laufskógar hafi verið í fjallshlíðum og við hugsanlega við vötn og ár. Aftur á móti hafa skógar þessir orðið fyrir sífelldri röskun vegna eldgosa. Vænta má að það hafi tekið tíma að nema land á hraunum, rétt eins og nú. Þá getur verið heppilegt að hafa stór fræ sem berast langt. Stóru fræin geta vel geymt næringu sem hjálpar til við að nema land á næringarsnauðum hraunum. Þessi lýsing smellpassar við fræ þessara þriggja tegunda. Þau hafa þróast svona til að mæta endurtekinni röskun á skógunum og flýtt fyrir endurkomu laufskóganna í íslenskum hraunum á tertíer. Væntanlega var mikil samkeppni í þéttum skógarbotnum og því heppilegt að senda sem flest fræin langt út í hraunið og vaxa þar. Til þess þarf stór fræ með mikilli forðanæringu fyrir kímplönturnar og stóra vængi til að feykja þeim langt.


Ferðabók Eggerts og Bjarna kom fyrst út á dönsku árið 1772 og bar hróður landsins víða enda þýdd á helstu heimstungur þess tíma. Steindór Steindórsson frá Hlöðum þýddi bókina á íslensku árið 1942 og endurskoðaði þá þýðingu fyrir þjóðhátíðarútgáfu árið 1974. Myndin er af þriðju útgáfu þeirrar þýðingar sem kom út árið 1978 í glæsilegu broti. Hún er notuð í þessari grein. Mynd: Sig.A.


Eggert og Bjarni

Fyrstir Íslendinga til að skrifa og lýsa surtarbrandslögum á Íslandi voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson sem skrifuðu ferðabók sem gefin var út árið 1772 undir nafninu Rejse igennem Island. Ferðabókin var gefin út á íslensku löngu síðar, fyrst árið 1943. Það er mjög fróðlegt að lesa lýsingar þeirra á surtarbrandi og steingervingum. Þeir áttuðu sig á því að laufförin sýna að hér hafi í eina tíð vaxið miklir laufskógar. Aðrir héldu lengi vel að þar sem engir almennilegir skógar finnast á Íslandi hafi surtarbrandurinn myndast úr rekaviði.


Svo merkilegar eru athuganir þeirra félaga að við getum ekki stillt okkur um að vitna aðeins í rit þeirra og notum þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum.


Í útgáfunni frá 1978 eru litprentaðar frumteikningar Eggerts og Bjarna. Hér birtist ljósmynd af þeirri litprentun, en hana tók Sig.A. fyrir Skógræktarfélagið. Teikningin sýnir steingerðan við.


Í kaflanum um Norðurland minna þeir á að surtarbrand sé víða að finna á landinu. „Er það skýr sönnun þess, hvílíkar stórfelldar breytingarhafa gengið yfir landið, löngu áður en því var nafn gefið.“ (efnisgrein 724).

Í efnisgrein 723 segir: „Á Norðurlandi finnst nokkuð af steingervingum, einkum steinrunnum viði.“


Önnur mynd úr útgáfunni frá 1978. Teikningin sýnir steingerð blöð og stöngla.


Þeir lýsa því að þykkustu surtarbrandslögin séu á Vestfjörðum og þar segja þeir frá því að hafa séð steinrunnin bol af rauðgreni. Þeir lýsa einnig nokkrum jarðlögum og segja svo: „Á milli flagnanna er krökkt af hinum áður kunnu steinblöðum (Lithophyller), sem er trjálauf, er drukkið hefir í sig steinvökva. Sum þeirra eru lítið steinrunnin, og er þar unnt að greina birki, reyniviðar- og víðiblöð, og auk þess finnast bæði lófastór blöð, sem líkjast helzt eikarblöðum, og einnig grófgerð för eftir þau í steininum.“

Meðal þeirra steingervinga sem Eggert og Bjarni fundu voru eikarlauf. Ef til vill voru þær eikur eitthvað líkar þessum hvíteikum, Quercus alba, sem nú má finna víða um mið- og austanverða í Norður-Ameríku. Mynd: Sig.A.

Stofninn á hvíteikum getur verið ansi voldugur. Eggert og Bjarni töluðu um steinrunninn eikarvið á Norðurlandi. Mynd: Sig.A.


Margt er merkilegt við þessar lýsingar. Má nefna að fræðiheitin á latínu voru ekki í eins föstum skorðum og síðar varð. Samt er það svo að tvínafnakerfið, sem sænski grasafræðingurinn Linné bjó til, var komið fram á þessum tíma en hafði ekki slitið barnsskónum. Sem dæmi má nefna að þeir bera mann að nafni Worm fyrir því að surtarbrandur kallist Ebenum fossile Islandicum. Um Ebenum verður fjallað í mars. Sá viður er svartur, en þar með er samlíkingunni við surtarbrandinn lokið.

Aftur á móti verður að taka hattinn ofan fyrir þessum merku vísindamönnum sem áttuðu sig á að fyrr á öldum höfðu vaxið hér ýmsar tegundir sem ekki fundust á Íslandi á 18. öld. Þeir þekkja meðal annars eikarblöð og greniboli í surtarbrandslögunum. Þeir voru fyrstir til að átta sig á að hér hafi vaxið fornir stórskógar löngu fyrir landnám.

Framhaldið

Þessi pistill er einskonar kynningarpistill. Við munum halda áfram að skrifa allskonar pistla um tré. Þar á meðal munum við skrifa um eitthvað af þeim trjám sem uxu hér á tertíer og tengingu þeirra við þau tré sem finna má í heiminum á okkar tímum.

Almenningsgarður í Boston. Ef til vill gefur hann einhverja hugmynd um Íslands fornu skóga. Mynd: Sig.A.

Heimildir


Thomas Denk, Friðgeir Grímsson, Reinhard Zetter og Leifur A. Símonarson (2011): Late Cainozoic Floras of Iceland. 15 Million Years of Vegetation and Climate History in the Northern North Atlantic. Springer.


Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson (1772): Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1752-1757. Þýðing: Steindór Steindórsson frá Hlöðum. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík 1978.


Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson og Walter L. Friedrich (2005): Kynlega stór aldin úr síðtertíerum setlögum á Íslandi. Í Náttúrufræðingurinn, 73. árg. 1.-2. hefti 2005. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.


Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson og Thomas Denk (2007): Elstu flórur Íslands. Í Náttúrufræðingurinn, 75. árg. 2.-4. hefti 2007. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Náttúrufræðistofa Kópavogs.


Leifur A. Símonarson og Jón Eiríksson (2012): Steingervingar og setlög á Íslandi. Í Náttúrufræðingurinn, 82. árg. 1.-4. hefti 2012. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Kópavogur.


Margrét Theódóra Jónsdóttir (2009): Skyldleiki íslensku tertíerflórunnar við núlifandi flóru í Norður-Ameríku. BS ritgerð, jarðvísindadeild, Háskóli Íslands, Reykjavík. Sjá: https://skemman.is/bitstream/1946/4296/1/BSfinale_MargretJonsd_fixed1.pdf?fbclid=IwAR1Zhj-x1RAHSjLqUYJA-2JTdeAATjULjdg-MvzptIDFbIMltUsIrfofy1s


Sigurður Steinþórsson. „Er heitur reitur undir Íslandi?Vísindavefurinn, 21. október 2003. Sótt 15. nóvember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=3811.

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig var tertíertímabilið á Íslandi?Vísindavefurinn, 28. apríl 2008. Sótt 30. október 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=29662.


Í aðrar netheimildir er vísað beint í texta.

721 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page