top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Um ættir og ættkvíslir

Updated: Oct 12, 2023

Undanfarið höfum við fjallað um tré sem nokkuð auðvelt er að þekkja í vetrarbúningi í þættinum #TrévikunnarSE. Nú verður örlítil breyting á fræðslu okkar. Við ætlum að fjalla aðeins um ættir trjáa, enda eru Íslendingar sérlega ættfróðir menn. Það má þó vel vera að við skjótum inn fleiri pistlum um tré í vetrarbúningi. Við byrjum á örlitlum útskýringum fyrir áhugasama og greinum frá ættfræðihugtökum sem notuð eru í líffræðinni. Til útskýringar viljum við taka dæmi sem flestir þekkja úr dýraríkinu og bera það saman við sömu hugtök innan grasafræðinnar. Frá hinu víðtæka til hins sértæka má raða þessu í eftirfarandi röð: Ætt – ættkvísl – tegund. Tegundin er reyndar skráð með tveimur nöfnum; ættkvísl og viðurnefni. Í grasafræði má stundum bæta við hugtökum eins og undirtegund (=deilitegund), afbrigði og tilbrigði. Fræðiheiti subspecies (ssp.), varietas (var.) og forma (f.). Þessi heiti koma þá aftast og eru ekki skáletruð. Í dýrafræði er aðeins greint í undirtegundir og þess vegna er ssp. sleppt í dýraheitum.


Flest þekkjum við kattardýr. Þau eru af ÆTT kattardýra sem kallast Felidae á máli fræðimanna sem er latína. Öll kattardýr eiga sitthvað sameiginlegt og eru komin frá sameiginlegum forföður. Kattardýrunum má síðan skipta í nokkrar ÆTTKVÍSLIR. Frægastar eru stórkettir og smákettir. Hver ættkvísl hefur sitt tiltekna fræðiheiti. Stórkettir kallast Panthera en smákettir Felis. Nöfn ættkvísla eru alltaf skrifuð með stórum staf og gjarnan skáletruð ef forritin leyfa slíkt. Ef það er ekki hægt bregða sumir á það ráð að undirstrika orðin. Margt er líkt með Panthera og Felis en fjölmargt skilur ættkvíslirnar að. Fyrst er það auðvitað stærðin en að auki geta þess að stórkettir geta ekki mjálmað. Sjáið þið fyrir ykkur stórt og grimmt ljón sem gengur út úr skógarþykkninu, lítur á ykkur grimmum augum og mjálmar?


Innan hvorrar ættkvíslar eru fjölmargar TEGUNDIR. Nöfn þeirra eru sett saman úr ættkvíslarheitinu og VIÐURNAFNI sem getur verið einkennandi á einhvern hátt. Til að forðast endurtekningar er venjan að sleppa ættkvíslarheitinu og nota þess í stað aðeins upphafsstafinn þegar fjallað er um margar tegundir innan sömu ættkvíslar. Sem dæmi má nefna að innan stórkatta má finna tegundirnar Panthera leo , P. Pardus og P. tigris. Óþarft ætti að vera að segja hvað þau dýr kallast á íslensku en vakin er athygli á að viðurnefnin eru skráð með litlum staf. Öll tígrisdýr eru af sömu tegund (Panthera tigris) en þau geta verið ólík eftir uppruna. Þeim má því skipta niður í UNDIRTEGUNDIR. Þar sem í dýrafræðinni er aðeins greint í undirtegundir er ssp. sleppt í dýraheitum. Frægust eru bengaltígrar. Þeir heita þá Panthera tigris tigris (en ekki Panthera tigris (ssp.) tigris). Svona tvítekning er stundum notað yfir meginafbrigðin af tiltekinni tegund. Dæmi um aðrar undintegundir eru síberíutígur (P. t. altaica) og Súmötrutígur (P. t. sumatrae). Í þessum dæmum eru heiti tegundanna skráð með skáletri en ekki undirtegundirnar eins og áður greinir.


Sem dæmi um tegund innan ættkvísl smákatta má nefna villiköttinn; Felis silvestris. Viðurnefnið silvestris er úr latínu og vísar í skóga. Villikötturinn heitir því skógarköttur á latínu. Einhvern tímann tóku menn upp á því að temja villiketti. Afkomendur þeirra teljast nú sérstök undirtegund og kallast Felis silvestris catus á latínu en heimiliskettir á íslensku. Innan ættar kattardýra eru margar fleiri ættkvíslir. Má þar nefna gaupur (Lynx), fjallaljón (Puma) og pardusdír (Leopardus).


Hrímuð grein af reynitré. Það er af rósaætt

Reynitré eru af rósaætt

Ef við skoðum sambærileg heiti í grasafræðinni getum við skoðað hina stóru rósaætt (Rosaceae). Hún er þá sambærileg við ætt kattardýra. Fjölmörg einkenni eiga allar plöntur af rósaætt sameiginleg en við förum ekki út í það í bili. Innan rósaættarinnar eru fjölmargar ættkvíslir. Þær skipa þá sama sess og t.d. Panthera, Felis og Leopardus ættkvíslirnar hjá kattardýrum. Meðal ættkvísla rósaættarinnar má nefna rósir (Rosa) og reyni (Sorbus) auk fjölmargra annarra ættkvísla. Hver ættkvísl getur svo haft eina eða fjölmargar tegundir. Þannig má t.d. finna innan reyniættkvíslarinnar tré eins og ilmreyni (Sorbus aucuparia) og kasmírreyni (S. cahsmeriana) og margar fleiri. Þær samsvara því tegundum eins og ljónum og tígrisdýrum. Það er sitthvor tegundin en af sömu ættkvísl. Af ilmreyninum eru til mikill fjöldi í heiminum og á mjög stóru svæði. Slíkar tegundir geta verið nokkuð fjölbreyttar í útliti. Sumir vilja því skipta honum niður í nokkrar undirtegundir, líkt og gert er með tígrísdýrin. Þau eru þó öll af sömu tegund en eru mismunandi afbrigði.

175 views0 comments

Kommentare


bottom of page