top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Bláminn á barrinu

Hátt uppi í Himalajafjöllum vex himalajaeinir. Hann er frægur fyrir sitt bláa barr.

Hátt uppi í Klettafjöllum vex broddgreni ásamt blágreni og fjallaþin. Öll þessi tré eiga það sameiginlegt að barrið á trjánum er vaxborið og getur verið nokkuð bláleitt.

Hátt uppi í Himalajafjöllum vex bláleitur sedrusviður. Náskyld tegund af bláum sedrusviði vex í Atlasfjöllum Norður-Afríku. Þar vex líka sýprus sem er blárri á litinn en annar sýprus nálægt Miðjarðarhafi.

Ofangreindar tegundir eru allar fremur vinsælar í garðrækt, sumar hér á landi, aðrar erlendis og enn aðrar bæði hér á landi og í útlöndum. Getur það verið hrein tilviljun að hátt uppi í fjöllum vaxi barrviðir af ólíkum tegundum, ættkvíslum og jafnvel ættum sem eiga það sameiginlegt að barrið á þeim er blátt, frekar en grænt? Hvað veldur þessum bláa lit? Þessar spurningar eru kveikjan að pistli vikunnar.

Blátt barr á himalajasedrus, Cedrus deodara, hátt í Himalajafjöllum. Af hverju eru svona margir barrviðir með bláleitt barr hátt til fjalla? Eins og sést eru þarna einnig tré sem eru ekki með neina bláa tóna. Myndin er fengin héðan.
Blátt barr á himalajasedrus, Cedrus deodara, hátt í Himalajafjöllum. Af hverju eru svona margir barrviðir með bláleitt barr hátt til fjalla? Eins og sést eru þarna einnig tré sem eru ekki með neina bláa tóna. Myndin er fengin héðan.

Aðlögun að þurrki eða kulda?

Fólk hefur lengi velt því fyrir sér hvernig á þessum bláma standi. Líklegt er að þetta tengist á einhvern hátt erfiðari lífsskilyrðum svona hátt uppi, eitthvað sem veldur álagi, stressar plönturnar og veldur keimlíkri þróun þeirra. En hvaða stressvaldur er þetta?

Sumir hafa látið sér detta í hug að þetta gæti verið aðlögun að þurrki. Ef það er rétt, þá liggur ekki fyrir af hverju þetta gerist ekki á þurrum svæðum á láglendi.

Aðrir hafa stungið upp á að þetta tengist kulda í fjöllunum. Ef það er rétt ætti þessi blámi að vera algengur á norðurslóðum þar sem kuldinn er engu minni. Má nefna að hvítgreni getur tekið upp svona bláma hátt til fjalla (hugsanlega vegna erfðaflæðis frá blágreni) en gerir það ekki á norðurslóðum. Þetta bendir til þess að einhver annar orsakavaldur en kuldi eða þurrkur sé drifkraftur þessarar þróunar. Stundum virðist þrýstingur á tiltekna þróun stafa af fleiri en einum þætti. Því má vel vera að kuldi eða þurrkur eigi hlut að máli, en meira þarf þó til.

Getur blái liturinn á barri himalajaeinis (fyrri mynd) og sumum þintegundum (seinni mynd) verið vörn gegn kulda eða þurrki? Fyrri myndin er tekin í frosti í garði á Akureyri en sú seinni að vetrarlagi í Lystigarðinum. Myndir: Sig.A.


Rétt er að taka fram að þurrkar og kuldi tengjast nánum böndum í háfjöllum. Það er vel þekkt að sígræn tré hylja nálar sínar með vaxhúð sem dregur úr vatnstapi gegnum nálarnar sem verður til þess að sykurmagnið eykst í vefjum trjánna. Það eykur frostþol þeirra. En það er ekki þannig að vaxhúðin sé alltaf svona bláleit. Þurrkarnir, sem hrjá gróður á köldum stöðum, geta stafað af því að vatnið er frosið. Þar með getur gróður ekki nýtt sér það. Ef að auki blæs hraustlega, þegar allt vatn er frosið, geta barrtré tapað vatni um loftaugu barrnálanna án þess að mögulegt sé að endurnýja það með vatni úr jarðvegi. Þetta getur þurrkað upp greinar og jafnvel heilu trén. Þannig má segja að þurrkur og kuldi geta verið greinar af sama meiði. Því er algengt að sjá því haldið fram að bláleit vaxhúð á barrtrjám hljóti að vera vörn gegn þurrkum. Það er rétt, svo langt sem það nær.


Ljóstillífun og hinn græni litur

Við höfum áður fjallað um ljóstillífun plantna í vikulegum pistlum okkar um tré og tengd málefni. Má nefna pistlana Afleiðingar hins græna lífsstílsAf hverju er skógurinn grænn? og Hverfulleiki haustlitanna.

Allar plöntur á landi eru afkomendur grænþörunga sem námu land fyrir ákaflega mörgum árum eins og við segjum frá í pistlinum Um þróun örvera til trjáa. Þar má fræðast um að græni liturinn er plöntum sérlega mikilvægur. Ljóstillífun plantna fer fram í hinum græna hluta plöntunnar, nánar tiltekið í grænukornum í þeim hluta laufa og barrs sem við köllum laufgrænu. Ljóstillífun byggist á því að nýta koltvísýring (CO2) og vatn ásamt uppleystum steinefnum til að búa til sykrur. Ferlið þarfnast orku og hún kemur úr sólinni. Plönturnar nýta allt hið sýnilega litróf ljóss til ljóstillífunar, nema græna hlutann. Plantan varpar frá sér hinum græna lit og þess vegna sjáum við plönturnar sem grænar. Ef plöntur gætu nýtt allt hið sýnilega litróf ljóss til tillífunar gætu þær ekki varpað frá sér sýnilegu ljósi. Þá væru þær svartar á litinn. Ef það væri svo að plöntur vörpuðu frá sér öðrum litum, svo sem bláu, þá nýttist orkan í bláa ljósinu ekki til ljóstillífunar. Þess vegna má vænta þess að bláar plöntur eigi erfiðara með ljóstillífun en grænar plöntur. Samt hefur þróun ólíkra ætta barrtrjáa leitt til blárra tóna. Þrýstingur til slíkrar þróunar hlýtur að hafa einhvern ávinning í för með sér sem vegur upp á móti minni ljóstillífun, nema plöntunum hafi tekist að koma sér upp sérstakri tækni sem nýti ljósið betur til tillífunar. Það er ekki útilokað.

Við vinnslu þessa pistils höfðum við samband við hinn fjölfróða skógfræðing Úlf Óskarsson (2025) og þar komum við ekki að tómum kofunum. Hann benti okkur á þessa grein þar sem segir frá rannsóknum á fjallafuru, Pinus mugo subsp. mugo, í svissnesku Ölpunum (Jacobs og félagar 2007). Þar kemur fram að furan getur myndað vaxhúð til varnar útfjólubláu ljósi. Í greininni er því lýst hvernig litarefni í vaxinu, sem sennilega má kalla flúrljómandi efni (fluorophore) breytir útfjólubláa ljósinu í blátt ljós. Því er ekki víst að plönturnar fórni bláu sólargeislunum og tapa orku til ljóstillífunar, heldur kemur bláa ljósið sem þær endurvarpa úr hættulegri geislun sem vaxhúðin umbreytir (Úlfur 2025). Í greininni kemur fram að fleiri tegundir plantna á þessum slóðum búa yfir svipuðum vörnum (Jacobs og félagar 2007).


Mynd úr grein Jacobs og félaga (2007) sem á að sýna hvernig skaðlegir útfjólubláir geislar (UV-geislar) breytast í skaðlausa bláleita birtu af  flúrljómandi efni í vaxhúð nálanna. Sjá nánari upplýsingar hér.
Mynd úr grein Jacobs og félaga (2007) sem á að sýna hvernig skaðlegir útfjólubláir geislar (UV-geislar) breytast í skaðlausa bláleita birtu af  flúrljómandi efni í vaxhúð nálanna. Sjá nánari upplýsingar hér.

Í framhjáhlaupi má nefna að gaman gæti verið að velta því fyrir sér hvernig plöntur litu út ef það hefðu verið rauðþörungar eða brúnþörungar sem námu þurrlendið en ekki grænþörungar. Þá mætti búast við að ríkjandi litur gróðurs væri annar en hann er.

Tvær myndir af himalajaeini ‘Meyeri’ eða Juniperus squamata ‘Meyeri’ fyrir utan náttúrulækningahælið í Hveragerði. Fyrri myndin tekin í ágúst en sú seinni í desember. Í ágúst er blái liturinn ögn daufari en snemma á sumrin en í desember hefur dregið töluvert úr honum. Allt árið eru runnarnir samt blárri en flestar aðrar tegundir af eini sem finnast í íslenskum görðum. Myndir: Sig.A.


Útfjólubláir geislar

Af hinu sýnilega ljósi hefur fjólublátt ljós minnsta bylgjulengd og mesta orku. Þar fyrir utan (með enn minni bylgjulengd og meiri orku) er útfjólublátt ljós. Það er rafsegulgeislun sem við sjáum ekki með berum augum en til eru skordýr, fuglar og jafnvel fiskar sem skynja þessa geislun sem sýnilegt ljós.

Útfjólublátt ljós er rafsegulbylgjur með bylgjulengd frá 400 nm niður í um 100 nm. Sumar heimildir segja reyndar að hún nái allt niður í 4 nm. Þar fyrir utan, með enn minni bylgjulengd og meiri orku, eru röntgengeislar. Þess má geta að 1 nm (nanómetri) er aðeins 10-⁹m eða 0,000000001 m.

Útfjólublátt ljós getur haft ýmis áhrif í lífríkinu. Sum þeirra teljast jákvæð, en önnur geta verið neikvæð. Sem dæmi má nefna að þessir geislar geta fengið húð okkar til að framleiða D-vítamín en einnig valdið sólbruna og sortuæxlum í mannfólki. Geislunin getur verið það öflug að hún getur beinlínis drepið ýmsar örverur. Þannig eru útfjólubláir geislar stundum notaðir til að sótthreinsa bæði vatn og loft.

Regnbogi austur í Skriðdal. Efst er rauður litur. Þar fyrir innan er innrautt. Neðst er fjólublátt. Þar fyrir utan er útfjólublátt. Mynd: Sig.A.
Regnbogi austur í Skriðdal. Efst er rauður litur. Þar fyrir innan er innrautt. Neðst er fjólublátt. Þar fyrir utan er útfjólublátt. Mynd: Sig.A.

Eftir því sem meira berst til jarðar af þessum geislum, þeim mun hættulegri eru þeir fyrir lífríkið. Sem betur fer kemst aðeins lítill hluti geislunarinnar til jarðar. Mestur hluti hennar er gleyptur í efri hlutum lofthjúpsins í sérstöku lagi sem kallast ósonlag. Þess vegna er það mjög mikilvægt fyrir allt líf á jörðinni.

Eftir því sem rafsegulbylgjur þurfa að fara lengri leið í gegnum lofthjúpinn dregur úr styrk ljóssins, einkum þess hluta sem hefur stutta bylgjulengd. Þetta sjáum við til dæmis þegar sól er lágt á lofti, bæði kvölds og morgna. Þá þarf sólarljósið að fara lengri leið í gegnum lofthjúpinn en yfir daginn til að berast til okkar. Þá sjáum við fyrst og fremst þá bylgjulengd ljóss sem hefur lengsta bylgjulengd. Það er hinn rauði hluti ljóssins. Þar fyrir innan er innrautt ljós. Sólargeislun er sterkari eftir því sem nær dregur miðbaug og líka með aukinni hæð yfir sjávarmáli. Sérstaklega eru það hinir orkumiklu geislar með stutta bylgjulengd (fjólublátt ljós og útfjólublá geislun) sem eru meira áberandi eftir því sem hærra kemur frá sjávarmáli. Leiðin þangað er styttri en niður að sjávarmáli en meira máli skiptir tærleiki loftsins. Raki og ýmsar agnir andrúmsloftsins, sem sía geislunina og taka úr henni orku, eru fágætari eftir því sem ofar dregur.

Eyjafjörður þann fyrsta janúar 2019. Á þessum árstíma er sólin svo lágt á lofti við fjörðinn að sólarupprás og sólarlag renna saman í eitt. Mynd: Sig.A.
Eyjafjörður þann fyrsta janúar 2019. Á þessum árstíma er sólin svo lágt á lofti við fjörðinn að sólarupprás og sólarlag renna saman í eitt. Mynd: Sig.A.

Viðbrögð við orkumiklum rafsegulbylgjum

Þar sem meira er af orkumiklum rafsegulbylgjum hátt til fjalla þarf lífríkið að bregðast við á einhvern hátt. Annars verður geislunin til skaða. Þegar þessi geislun lendir á mannslíkamanum bregst hann við með því að framleiða melanín í húðinni. Við það dökknar húðin. Það köllum við sólbrúnku.

Plöntur verða ekki sólbrúnar. Þær þurfa því að grípa til annarra varnaraðgerða til að verjast orkumiklum geislum sólar. Hér vörpum við fram þeirri tilgátu að ólíkar ættir barrtrjáa hafi dottið niður á svipaða lausn, að framleiða bláleita vaxhúð á barri sínu. Í sumum tilfellum er barrið alltaf bláleitt en hjá öðrum tegundum veðrast megnið af vaxhúðinni af þegar líður á sumarið. Það getur verið heppilegt því að jafnaði er minni geislun þegar líður á sumarið og grænt barr hentar betur til ljóstillífunar en blátt barr. Oft er það þannig að yngsta barrið, sem er viðkvæmast, hefur bláa litinn en annað barr er grænna.

Við munum nú segja örlítið frá mismunandi ættkvíslum trjáa og hvernig þetta birtist hjá þeim. Ættkvíslirnar tilheyra tveimur ættum. Annars vegar er þallarætt, Pinaceae, en hins vegar einisætt, Cupressaceae, sem einnig hefur verið nefnd grátviðarætt, lífviðarætt og sýprusætt. Til að flækja málið enn frekar eru sum heitin skrifuð á mismunandi hátt eftir heimildum en það er utan við efni þessa pistils.

Við byrjum á dæmum úr þallarættinni.

Gróður á Íslandi þarf sjaldnast að hafa áhyggjur af orkumiklum geislum sólar, enda hefur tekist að stöðva eyðingu ósons í lofthjúpnum með samstilltu átaki þjóða heimsins. Mynd: Sig.A.
Gróður á Íslandi þarf sjaldnast að hafa áhyggjur af orkumiklum geislum sólar, enda hefur tekist að stöðva eyðingu ósons í lofthjúpnum með samstilltu átaki þjóða heimsins. Mynd: Sig.A.

Blágreni og broddgreni

Hátt uppi í Klettafjöllum Norður-Ameríku vaxa tvær nokkuð áþekkar grenitegundir. Heita þær blágreni, Picea engelmannii, og broddgreni, P. pungens. Þrátt fyrir að tegundirnar séu nokkuð líkar eru þær ekki taldar mjög skyldar. Svo virðist sem þróun, vegna aðlögunar að umhverfinu, hafi skilað báðum tegundunum svipuðum lausnum.

Að jafnaði vex blágrenið heldur hærra eða norðar í fjöllunum en broddgrenið. Það myndar víða skógarmörk. Broddgrenið vex neðan við blágrenið en þar sem ekkert blágreni er að finna, myndar það skógarmörk. Skilin milli tegundanna eru ekki skörp, þannig að víða vaxa þær saman í skógum. Við höfum áður birt séstaka pistla um broddgreni og blágreni. Báðar þessar tegundir vaxa það hátt í fjöllum að þar sem þær er að finna er styrkur útfjólublárrar geislunar umtalsverður. Styrkurinn er það mikill að hann getur skaðað vefi beggja tegunda, sérstaklega unga vefi. Það á bæði við um ungar plöntur en einnig um nývöxtinn á hverju vori.

Báðar tegundirnar hafa brugðist við á sama hátt. Þegar nývöxtur hefst er hann þakinn vaxkenndri, bláleitri húð. Hún ver viðkvæman nývöxtinn fyrir sterkri geislun. Það skiptir meira máli en minni ljóstillífun. Þess vegna eru báðar tegundirnar fremur bláleitar fyrri part sumars. Þegar líður á sumarið gerist tvennt sem kemur við þessa sögu. Annars vegar dregur úr styrk sólarljóss og hins vegar þroskast sprotarnir. Þar með þurfa trén ekki lengur á þeirri vörn að halda sem vaxhúðin veitir og ekkert gerir til þótt vaxhúðin veðrist smám saman af og sprotarnir taki upp hinn græna lit. Þvert á móti er það til bóta, því þannig geta hinir nýju sprotar nýtt stærri hluta litrófsins til ljóstillífunar og þar með ljóstillífað meira en meðan þeir voru nýsprottnir, viðkvæmir og bláleitir.

Rétt er að taka fram að ekki er allt broddgreni bláleitt. Aftur á móti er það svo að stundum myndast hjá tegundinni sérstakt tilbrigði sem hefur ljósblátt barr. Slík tilbrigði kallast „forma“ á fræðimálinu sem oftast er skammstafað með bókstafnum f í fræðiheitum. Þessi tilbrigði eru því skráð sem P. pungens f. glauca eins og við sögðum frá í pistlinum um broddgrenið. Líklegt verður að telja að þetta tilbrigði sé tilkomið vegna þeirra umhverfisaðstæðna sem lýst var að ofan. Svona broddgrenitré eru víða um heim ræktuð sem garðtré, enda eru þau óvenjuleg. Þau geta sem best haldið ljósa, bláa litnum allt árið, þótt hann sé engu að síður mest áberandi þegar tréð er í fullum vexti. Þetta er ástæða þess að broddgreni er á mörgum tungumálum kennt við hinn bláa lit.

Blágreni við lítinn læk. Nýju sprotarnir eru mjög bláir og gefa tegundinni nafn á íslensku. Mynd: Sig.A.
Blágreni við lítinn læk. Nýju sprotarnir eru mjög bláir og gefa tegundinni nafn á íslensku. Mynd: Sig.A.

Hvítgreni

Hvítgreni, P. glauca, vex einnig í Norður-Ameríku. Það á sér stórt útbreiðslusvæði sem nær yfir þvera álfuna og vex meðal annars norðarlega í Klettafjöllunum. Broddgreni og hvítgreni vaxa hvergi saman í náttúrulegum heimkynnum en í Klettafjöllunum skarast vaxtarstaðir hvítgrenis og blágrenis. Þar vex hvítgrenið hærra yfir sjó en víðast hvar á útbreiðslusvæði sínu.

Eitt af því sem einkennir hvítgreni er lyktin af barrinu. Sumum þykir hún heldur óþægileg og segja að hún minni á lykt af kattarhlandi. Sum kvæmi hvítgrenis lykta meira en önnur en þetta veldur því að almennt þykir hvítgreni heldur óheppilegt jólatré í upphituðum híbýlum manna. Þar sem hvítgreni vex í Klettafjöllum hafa sum kvæmi tekið upp bláa litinn á barri, einkanlega ungu barri. Það kann að stafa af erfðaflæði frá blágreni enda eru þessar tegundir náskyldar og útbreiðslusvæði þeirra skarast. Blendingar tegundanna eru svo algengir að þeir hafa hlotið sérstakt nafn og kallast Picea x albertiana.

Þessi blámi gæti verið til komin vegna sjálfstæðrar þróunar hjá hvítgreninu án erfðaflæðis, en hitt er þó allt eins líklegt. Þetta bláleita hvítgreni minnir töluvert á blágreni í útliti. Stundum hefur því verið fjölgað á Íslandi sem blágreni. Sá munur er á þessu bláleita hvítgreni og hefðbundnu blágreni að lyktin af hvítgreninu er önnur. Frægt er að fyrir nokkuð mörgum árum setti stór jólatrjáasali slík hvítgrenitré á markað sem blágreni. Þau seldust ágætlega en heldur kárnaði gamanið þegar heim var komið með trén í hlý híbýli. Stofur landsmanna fylltust þá af óþægilegri kattahlandslykt. Þetta varð til þess að enn í dag telja sumir að blágreni sé alveg ómögulegt jólatré vegna þess hversu illa það lykti. Þarna er blágrenið haft fyrir rangri sök. Það sem illa lyktar er hvítgreni, sem þróast hefur eins og hér var lýst.

Til eru bláleit yrki af hvítgreni sem ættuð eru úr Klettafjöllum. Myndin sýnir yrkið Picea glauca  'Alberta Blue'. Myndina fengum við héðan en hana tók Gabriel Tomzynsky.
Til eru bláleit yrki af hvítgreni sem ættuð eru úr Klettafjöllum. Myndin sýnir yrkið Picea glauca  'Alberta Blue'. Myndina fengum við héðan en hana tók Gabriel Tomzynsky.

Sitkagreni

Þar sem sitkagreni er mest ræktaða grenitegundin á Íslandi getum við ekki sleppt því í þessari umfjöllun. Það er fjarri því að vera jafnblátt og til dæmis blágreni og nýir sprotar eru miklu frekar grænir en bláir. Að auki vex það ekkert sérstaklega hátt til fjalla. Þvert á móti vex það helst á láglendi og oftast frekar nærri sjó. Samt er það svo að þegar sitkagreni er borið saman við rauðgreni, eða önnur barrtré frá Evrópu og Asíu, er það töluvert bláleitara. Tegundin hefur óneitanlega nokkurn vaxgljáa. Hvernig getur staðið á þessu? Af hverju hefur norðlæg láglendistegund verndandi vaxhúð gegn sterkum, útfjólubláum geislum? Er það með einhver gen frá háfjallategundum? Það getur einmitt vel verið tilfellið!

Talið er að margar trjátegundir í Norður-Ameríku séu ættaðar úr suðlægum fjöllum og hafi dreifst þaðan niður á láglendið. Þegar jöklar tóku að hörfa í lok ísaldar ferðuðust þessar fyrrverandi fjallategundir í norður og fylgdu jökulröndinni þegar ísa tók að leysa. Þannig er sennilegt að blámi sumra láglendistegundanna sé til kominn vegna þess að formæður og -feður þróuðust í háfjöllum. Grenitegund náskyld sitkagreni, Picea chihuahuana, hefst enn við í háfjöllum Mexíkó og bíður næstu ísaldar svo hún geti lagst í ferðalög. Hún er með bláleitt barr eins og vera ber (Úlfur 2025).


Evrópskt greni

Þær grenitegundir sem vaxa villtar í Evrópu hafa ekki þróast á sama hátt. Breytir þá engu þótt þær vaxi hátt til fjalla í Ölpunum. Þar vex rauðgreni, Picea abies, allt upp í 2.500 metra hæð yfir sjávarmáli (Auður 2006). Samkvæmt sömu heimild vex blágreni allt upp í 4.000 metra hæð i Klettafjöllunum. Þrátt fyrir að okkur þyki tré vaxa nokkuð hátt þegar þau finnast í um 2.500 metra hæð má sennilega draga þá ályktun að tré í Ölpunum vaxi ekki nægilega hátt uppi í fjöllum til að þróunin leiði til svipaðra lausna með bláum tónum og hún gerir í enn hærri fjöllum í Ameríku og Asíu. Svo kann auðvitað vel að vera að hrein tilviljun ráði því að þessi þróun hefur ekki orðið í Evrópu. Ef til vill vantar eitt stökkbreytt gen til að hrinda þróuninni af stað. Að minnsta kosti er þekkt að skógarfura í háfjöllum Evrópu hafi brugðist við þessum sterku geislum. Við viljum þó minna á þessa grein sem við nefndum hér ofar. Þar kemur fram að furur og fleiri tegundir hafa fetað svipaða slóð í öðrum háfjöllum svo sem Ölpunum, þótt blái liturinn sé þar ekki eins áberanadi og í ýmsum öðrum fjöllum.

Greni og þinur í Ölpum Austurríkis. Ekkert bólar á bláma á barrinu. Mynd: Sig.A.
Greni og þinur í Ölpum Austurríkis. Ekkert bólar á bláma á barrinu. Mynd: Sig.A.

Þinur

Ættkvísl þintrjáa, Abies, er af þallarætt, Pinaceae, rétt eins og grenið. Sú þintegund sem mest hefur verið ræktuð á Íslandi kemur úr Klettafjöllunum, rétt eins og blágrenið og broddgrenið. Þessi þintegund kallast fjallaþinur eða Abies lasiocarpa og vex gjarnan með blágreni. Fjallaþinur hefur að jafnaði heldur bláleitara yfirbragð en flestar aðrar þintegundir sem ræktaðar eru á Íslandi. Það er samt svo að nokkur munur getur verið á lit fjallaþins á landinu. Má í því sambandi nefna að meðal afurða doktorsverkefnis Brynjars Skúlasonar eru tveir frægarðar fjallaþins til jólatrjáaræktar í uppvexti á Vöglum á Þelamörk. Annars vegar er grænleitt yrki og hins vegar bláleitt. Það bláa er úr efniviði hátt úr fjöllum í Arisóna og Nýja-Mexíkó. Þar vex blár fjallaþinur allt upp í 4.000 metra hæð. (Brynjar 2017). Verður spennandi að fylgjast með þessu verkefni á næstu árum.

Önnur þintegund, sem einnig vex í Klettafjöllunum, hefur einnig nokkuð bláleitt barr, rétt eins og fjallaþinurinn. Sú tegund heitir hvítþinur eða A. concolor. Hann vex allt upp í 3.400 metra hæð. Bláir tónar þessara tegunda eru samt nokkuð ólíkir. Litur hvítþinsins minnir meira á ljósa litinn hjá broddgreninu sem áður er nefndur. Helgi Þórsson (2024) er manna fróðastur um þintegundir og fleiri barrtré á Íslandi. Því fágætari sem barrtrén eru, þeim mun betur þekkir Helgi þau. Hann benti okkur á að svo virtist sem áþekkir litir kæmu stundum fram í fleiri þintegundum sem hér er að finna. Þetta sést stundum hjá rauðþin, A. magnifica, sem er að finna í 1.400–2.700 metra hæð yfir sjávarmáli og eðalþin, A. procera, sem reyndar vex ekkert mjög hátt yfir sjávarmáli. Þeir Clapp & Crowson (2023) segja að þessi blámi hjá eðalþin komi aðeins fram þar sem greinar eru í mikilli birtu en liturinn hverfi í skugga. Það gæti sem best rennt stoðum undir að þetta hafi eitthvað með útfjólubláa geisla að gera. Svo má vera að þetta sé gen úr ættingjum sem þróuðust í háfjöllum.

Svo má nefna helgiþin, A. religiosa, sem er ekki ræktaður á Íslandi. Um hann höfum við talað áður. Helgiþinur er háfjallatré í Mexíkó og er gjarnan bláleitur, einkum þeim megin sem snýr að sólu.

Þessar bláleitu plöntur eru allar gjarnan ræktaðar í görðum, því þær þykja fallegar. Eftir því sem blái liturinn er meira áberandi, þeim mun líklegra er að tegundirnar rati í garðrækt. Engum blöðum er um það að fletta að þarna hefur þróunin farið í sömu átt og hjá grenitrjám og þintrjám sem vaxa hátt uppi í fjöllunum. Þintré á sömu slóðum hafa tekið upp svipaðar varnir gegn útfjólublárri geislun og frændur þeirra og frænkur í greniættkvíslinni. Eina undantekningin er hjá eðalþin sem verður stundum bláhvítur þótt hann vaxi ekki mjög hátt yfir sjávarmáli eins og nefnt var hér að ofan. Það verður að teljast ólíklegt að erfðaflæði hafi átt sér stað á milli grenitrjáa og þintrjáa. Annað hvort hafa umhverfisaðstæður leitt til svipaðrar þróunar eða þetta einkenni komið fram áður en ættkvíslirnar skildust að. Aftur á móti má vel ímynda sér erfðaflæði millri skyldra þintegunda annars vegar og skyldra grenitegunda hins vegar.

ree

Hávaxinn fjallaþinur og lágvaxinn hvítþinur á Íslandi. Myndir: Sig.A.


Vandkvæði við ræktun

Áður en við höldum áfram viljum við nefna eitt sem tengist þeim ættkvíslum sem við höfum nefnt hér að ofan. Það virðist eiga við um blágreni, broddgreni og fjallaþin að ungplöntur fá sjaldnast þennan bláa lit fyrr en eftir einhvern tíma frá því að fræið spírar. Sjálfsagt er þetta eitthvert trix til að spara orku hjá ungu plöntunum svo þær verði síður undir í samkeppni við annan gróður. Þetta getur skapað vandamál. Ungu plönturnar þola verr sólarljós þegar engri sólarvörn er fyrir að fara. Því líður þeim ljómandi vel á unga aldri ef lítið er um útfjólubláa geisla sólar. Í náttúrunni hefur þessi þróun ýtt undir að ungplönturnar eru taldar sérlega skuggþolnar. Það er eiginlega það sama og að vera ljósfælin. Samt er það svo að því fer fjarri að allar ungplönturnar vaxi í skugga. Allar þrjár tegundirnar geta vaxið við skógarmörk. Eðli málsins samkvæmt eru þar engin tré sem varpa skugga á nývöxtinn. Allt er þetta því málum blandið og sennilega er nokkur kvæmamunur hvað þetta varðar. Svo getur það hjálpað ef fræin spíra nægilega snemma á vorin þegar sólargeislarnir eru ekki eins sterkir.

Ofan við skógarmörk í Washington má finna dvergvaxið blágreni ásamt klettafuru, Pinus albicaulis. Hún þekkist á myndinni á því að hún er græn á meðan blágrenið ber sinn einkennandi lit. Mynd C.J.Earle árið 2015. Myndina fengum við héðan.
Ofan við skógarmörk í Washington má finna dvergvaxið blágreni ásamt klettafuru, Pinus albicaulis. Hún þekkist á myndinni á því að hún er græn á meðan blágrenið ber sinn einkennandi lit. Mynd C.J.Earle árið 2015. Myndina fengum við héðan.

Í ræktun hefur þetta leitt til þess að mörgum þykir betra að rækta ungplöntur af þessum tegundum undir allt að 50% skugga en aðrir ræktendur telja það óþarfa. Þarna er það sennilega reynsla hvers og eins ásamt mismunandi kvæmum, sem ræður mestu (Guðmundur 2024 og Jón 2024). Þeir sem hafa góða reynslu af ræktun þessara tegunda undir skugga segja að plönturnar vaxi betur og verði mun jafnari og fallegri við þessi skilyrði. Þegar fjallaþinur og blágreni vaxa í of mikilli birtu í uppeldi eiga báðar tegundirnar það til að hætta vexti tilviljunarkennt, hvenær sem er á vaxtartímanum. Sumar geta svo jafnvel farið að vaxa aftur. Þegar það gerist verða plönturnar ójafnar og hættara við skemmdum. Þetta gerist ekki í myrkvuninni (Jón 2024).

Fremst á þessari mynd er rauðgreni. Þar fyrir aftan er blágreni en aftast er sitkagreni. Þótt sitkagreni sé blárra en rauðgreni hefur það ekki roð við bláa litnum hjá blágreninu. Mynd: Sig.A.
Fremst á þessari mynd er rauðgreni. Þar fyrir aftan er blágreni en aftast er sitkagreni. Þótt sitkagreni sé blárra en rauðgreni hefur það ekki roð við bláa litnum hjá blágreninu. Mynd: Sig.A.

Furur

Þótt furur, Pinus, séu af sömu ætt og grenið og þinurinn hér að framan lítur út fyrir að bláleitt barr sé þar sjaldgæfara en hjá frændunum og frænkunum í hinum ættkvíslunum. Þar kann að spila inn í að oft vex það neðar í fjöllunum en grenið. Má sem dæmi nefna að stafafura vex stundum í sömu fjöllum og blágreni, en þá alltaf neðar í hlíðunum. Það sama má segja um furur í Mexíkó sem vaxa neðar en helgiþinirnir í sömu fjöllum. Þetta er þó alls ekki algilt eins og sjá má á mynd hér ofar af klettafuru og jarðlægu blágreni.

Hér ofar segjum við frá því að fjallafura nálægt skógarmörkum, hátt uppi í Ölpunum í Sviss, hefur svona vaxhúð sem ver hana gegn útfjólubláum geislum sólar. Fleiri barrtrjátegundir á þessum slóðum hafa líka svipaðar varnir. Bæði lindifura, Pinus cembra, og einir, Juniperus communis, hafa þær líka, samkvæmt grein um málið (Jacobs og félagar 2007).

Til eru ræktuð yrki af sumum furum þar sem sambærileg stökkbreyting hefur átt sér stað og sjá má hjá greni og þin. Við tökum hér tvö dæmi af furum sem hafa bláleitt barr og sýnum af þeim myndir. Þessar furur eru báðar ræktaðar í grasagarðinum í Edinborg og eru myndirnar þaðan.

Pinus sylvestris 'Beuvronensis' er sérstakt, bláleitt yrki af skógarfuru en sumar greinar þessa einstaklings hafa eðlilegan, grænan lit. Skógarfura vex á mjög stóru svæði í Evrópu og Asíu. Þar á meðal vex hún bæði í Ölpunum og í Píreneafjöllum. Myndin er tekin í Edinborg.
Pinus sylvestris 'Beuvronensis' er sérstakt, bláleitt yrki af skógarfuru en sumar greinar þessa einstaklings hafa eðlilegan, grænan lit. Skógarfura vex á mjög stóru svæði í Evrópu og Asíu. Þar á meðal vex hún bæði í Ölpunum og í Píreneafjöllum. Myndin er tekin í Edinborg.

Pinus muricata er furutegund frá Kaliforníu í Bandaríkjunum og hefur nokkuð bláleitt barr. Hún er samt ekki háfjallategund, heldur vex hún villt í sendnu landi nálægt sjó. Ef til vill er styrkur útfjólublárra geisla nægilega mikill við strendur Kaliforníu til að þessi litur hafi kosti fram yfir græna litinn. Þetta gæti verið sama fyrirbærið og margir sólþyrstir mörlandar þekkja og nýta sér þegar þeir fara til heitra landa og flatmaga á ströndinni til að verða fyrir sem mestri geislun í von um að verða brúnir án þess að fá sortuæxli. Geislar sólar speglast á haffletinum og auka þar með á magn geislanna í umhverfinu. Gallinn við þetta allt saman er sá að ef komið er sunnar, í enn meiri geislun, eru til tré, sem flestir telja til þessarar tegundar en hafa grænt en ekki bláleitt barr. Það ætti eiginlega að vera á hinn veginn. Myndirnar eru teknar í grasagarðinum í Edinborg. Myndir Sig.A.

 

Degli

Degli, eða döglingsviður, Pseudotsuga menziesii, vex sums staðar í háfjöllum. Þar myndar það gjarnan sérstaka undirtegund með vaxhúðað barr sem gefur sama bláhvíta litinn og sjá má hjá broddgreni. Þannig háttar til dæmis til í háfjöllum í Mexíkó eins og við sögðum frá í pistli okkar um helgiþin. Kallast þessi undirtegund Pseudotsuga menziessi subsp. glauca. Sumar heimildir flokka þetta sem afbrigði en á því er bara stigsmunur. Þá er það skráð sem var. glauca. Norðar er einnig til degli með bláleitu barri í háfjöllum en neðar í fjöllunum og nær Kyrrahafinu eru trén alltaf með grænt barr. Í Lystigarðinum á Akureyri má finna eitt af þeim trjám sem tilheyra þessari undirtegund. Tréð hefur bláleitt barr og liturinn er mest áberandi snemma sumars.

Degli með blátt ungt barr í Lystigarðinum á Akureyri. Eldra barr ber hefðbundinn grænan lit og þegar líður á sumarið verður allt tréð grænt. Í garðinum er tréð skráð sem Pseudotsuga menziessi var. glauca. Mynd: Helgi Þórsson.
Degli með blátt ungt barr í Lystigarðinum á Akureyri. Eldra barr ber hefðbundinn grænan lit og þegar líður á sumarið verður allt tréð grænt. Í garðinum er tréð skráð sem Pseudotsuga menziessi var. glauca. Mynd: Helgi Þórsson.

Sedrusviður

Síðasta ættkvíslin sem við nefnum af þallarætt í þessum pistli er sedrusviður eða Cedrus. Samkvæmt Wikipediu vex sedrusviður í vesturhluta Himalajafjalla í 1.500 til 3.200 metra hæð yfir sjávarmáli og í fjöllum við Miðjarðarhafið í 1.000–2.200 m hæð.

Glæsilegur, blár sedrusviður í kirkjugarði í Horsens á Jótlandi. Mynd: Sig.A.
Glæsilegur, blár sedrusviður í kirkjugarði í Horsens á Jótlandi. Mynd: Sig.A.

Í Atlasfjöllum Norður-Afríku, nánar tiltekið í Marokkó og Alsír, vex atlantssedrus, C. atlantica, í 1.370 til 2.200 m hæð, samkvæmt upplýsingum á skilti í grasagarðinum í Edinborg. Þetta er nokkru lægra en rauðgrenið í Ölpunum. Samt eru til tré þarna í fjöllunum sem tekið hafa upp blágráan lit. Í ræktun eru bæði til yrki sem kallast 'Glauca' og 'Glauca Pendula'. Bæði yrkin hafa ljóst, bláleitt barr og sjálfsagt eru til fleiri yrki með svipaðan lit. Þessi yrki eru meira ræktuð í görðum í Evrópu og Ameríku en grænleitu trén, sem eru algengari í náttúrunni.


Þessi atlantssedrus, Cedrus atlantica, er í grasagarðinum í Edinborg. Þar er hann merktur sem 'Glauca Group'. Það heiti er notað á þessu bláhvítu tré án þess að tiltekin yrki séu nefnd. Myndir: Sig.A.


Nú má velta því fyrir sér hvernig á því standi að svona tré koma fram í ekki meiri hæð en raun ber vitni. Sennilegasta skýringin er sú að Atlasfjöllin í Norður-Afríku eru sunnar en til dæmis Alpafjöllinn. Hér að ofan segjum við frá því að styrkur rafsegulbylgna vex með hæð og eftir því sem komið er nær miðbaug. Þannig má vel vera að styrkur útfjólublárra geisla sé meiri í 2.200 metra hæð Atlasfjalla en 2.500 m hæð í Ölpunum. Það kann að varpa ljósi á af hverju þetta form varð til hjá sedrusviðum í Norður-Afríku. Þetta er ekki eina barrtréð í Atlasfjöllum sem skartar bláma. Nánar um það síðar í þessari grein.

Himalajasedrus, C. deodara, vex í Himalajafjöllum allt upp í 3.200 metra hæð. Þar eru bæði til dökkgræn tré en einnig tré sem hafa bláhvítt barr. Okkar heimildir geta þess ekki hvort bláleitu trén vaxi almennt hærra í fjöllunum en þau grænu, en það kæmi ekki á óvart.

Við höfum áður skrifað sérstakan pistil um sedrusvið. Heitir hann Hinn guðdómlegi sedrusviður.

Tvær myndir af himalajasedrus, Cedrus deodara, í grasagarðinum í Edinborg. Fyrri myndin er af bláhvítu yrki sem kallast 'Pendula' og er stærsta tré þessa yrkis á öllum Bretlandseyjum. Seinni myndin er af hefðbundnara tré með venjulegan, grænan lit. Það vex betur en ljósbláa yrkið enda er styrkleiki ljóss ekki tiltakanlega mikill í Edinborg. Myndir Sig.A.


Sýprus

Allt í kringum Miðjarðarhafið má finna sýprustré, Cupressus sempervirens. Þau tilheyra ekki þallarættinni heldur einisætt. Á fræðimálinu er sú ætt kennd við sýprusana og kallast Cupressaceae. Samkvæmt Eckenwalder (2009) vaxa þessi tré allt upp í 2000 metra hæð en eru algengari nær sjávarmáli. Til eru bláleit yrki með áberandi vaxhúð á nálum og fylgir hér mynd af einu þeirra. Væntanlega eru þetta yrki ættuð úr fjöllum og þar sem Miðjarðarhafið er nokkuð sunnarlega er geislun á öflugri bylgjulengd nægileg til að ýta undir svona varnir.

Yrki af sýprus með bláleitt barr og hið vinsæla mjókeilulaga vaxtarlag. Myndin fengin héðan.
Yrki af sýprus með bláleitt barr og hið vinsæla mjókeilulaga vaxtarlag. Myndin fengin héðan.

Í Atlasfjöllum, sem við nefndum í tengslum við sedrusviði hér að framan, má einnig finna sýprustré. Eckenwalder (2009) telur það vera afbrigði af þessum venjulega sýprus og kallar hann C. sempervirens var. atlantica. Sumir telja þennan sýprus það frábrugðinn að réttara sé að hafa hann sem sérstaka tegund og kalla hann C. atlantica eða jafnvel C. dupreziana var. atlantica. Hvað sem því líður má kalla þessi tré atlassýprus og tvö atriði skilja á milli hans og sýprusa sem vaxa norðan við Miðjarðarhafið. Í fyrsta lagi vaxa barrnálarnar í tveimur röðum en ekki í allar áttir eins og á megintegundinni. Hitt atriðið kemur væntanlega ekki á óvart. Nálarnar á þessum trjám, sem vaxa hátt uppi í Atlasfjöllum í Suður-Marokkó, eru blágrænar og vaxbornar.

Atlassýprus nálægt Marrakech í Marokkó. Myndin fengin á Flickr-síðu og er eftir ©Philippe de Spoelberch. 
Atlassýprus nálægt Marrakech í Marokkó. Myndin fengin á Flickr-síðu og er eftir ©Philippe de Spoelberch. 

Himalajaeinir

Að lokum fjöllum við um þessa vinsælu runna sem eru af einisætt, Cupressaceae, eins og sýprusinn. Hér veljum við það nafn á ættina sem notað er í Íðorðabanka Árnastofnunar.

Himalajaeinir er vinsæl planta í garðrækt, bæði hér á Íslandi og víða erlendis. Það sem helst gerir hann vinsælan er hinn sérstaki blái litur sem einkennir barrið. Við höfum áður fjallað um þessa tegund í pistli frá árinu 2021 en þá vorum við ekkert að velta ástæðum þessa bláma fyrir okkur.

Barrið á himalajaeini er mjög blátt á litinn. Ólíkt trjánum af þallarætt, sem nefnd eru hér að ofan, heldur hann hinum bláa lit mun lengur en sem nemur vaxtartímabilinu. Það er helst að kalla megi runnana græna þegar líður á veturinn. Annars er barrið blátt. Tegundin vex villt í fjalllendi í Asíu frá um 1.600 upp í 4.900 m hæð yfir sjávarmáli. Á þessu svæði vex einirinn gjarnan í mikilli birtu og þarf því að kljást við mikið magn útfjólublárra geisla. Þess vegna þarf þessi blámi á barrinu ekki að koma á óvart. Til eru fjölmörg yrki í ræktun og sögðum við frá þeim sem eru algengust á Akureyri í fyrrnefndum pistli. Eitt yrki sker sig úr. Það er yrkið 'Holger'. Þegar það hefur vöxt á vorin eru sprotarnir ljósgrænir en ekki bláir eins og hjá hinum yrkjunum. Þegar líður á sumarið fær hann sama bláa litinn og önnur yrki tegundarinnar. Ef til vill er þetta yrki ættað neðar úr fjöllunum en önnur sem hér eru ræktuð, því það er einmitt nývöxturinn sem er viðkvæmastur fyrir útfjólublárri geislun. Það er skemmtilegt að segja frá því að öll þau yrki trjáa sem nefnd eru í þessum pistli eru ræktuð vegna þess hvað þau eru óvenjulega blá. Þegar kemur að þessu eina yrki af eini sem nefnt er á nafn kemur í ljós að það er í ræktun því það er ekki blátt. Svona getur tískan í garðrækt verið merkileg.


Himalajaeinir. Fyrri myndin sýnir dæmigert blátt barr eins og það er á flestum yrkjum þegar vöxtur er hvað mestur. Seinni myndin sýnir yrkið 'Holger' sem hefur annan hátt á. Myndir: Sig.A.


Samantekt

Hátt uppi í fjöllum er styrkur útfjólublárrar geislunar að jafnaði mun meiri en á láglendi. Það sama á við þegar nær kemur miðbaug jarðar. Þessi geislun hefur áhrif á lífríkið, þar með talið á barrtré. Margar ólíkar tegundir barrtrjáa hafa dottið niður á svipaðar lausnir til að verjast þessari geislun. Þau gera það með því að mynda ljósa og bláleita vaxhúð á barrinu. Það leiðir til þess að trén hafa yfir sér einkennandi bláma. Í flestum tilfellum er þetta mest áberandi þegar vöxtur hefst á vorin og fram eftir sumri. Þessi blámi þykir nokkuð skemmtilegur og því eru þessar tegundir gjarnan ræktaðar í görðum og opnum svæðum víða um heim þar sem loftslag hentar. Þar halda þessi tré sínum bláa lit og setja mikinn svip á garða og skógarreiti þótt þau hafi lítið við þessa sólvörn að gera á þeim slóðum. Rétt er að geta þess að þetta eru aðeins ályktanir áhugamanns um efnið. Ef aðrar og betri skýringar fást drögum við þetta allt til baka. Þannig virka vísindin. Settar eru fram tilgátur byggðar á athugunum og síðan tekst að sanna þær eða afsanna eða eftir atvikum. Hvort heldur sem er byggist smám saman upp meiri og betri þekking.

Himalajaeinir heldur sínum bláa lit allt árið en hann er mest áberandi þegar runninn er í vexti. Þessi mynd er af fræplöntu í grasagarðinum í Edinborg. Óvanalegt er að sjá himalajaeini án þess að um sérstakt yrki sé að ræða. Myndin er tekin að hausti en samt er runninn frekar blár en hann er samt miklu grænni en einirinn á myndinni hér að ofan, sem tekin er snemma vors. Mynd: Sig.A.
Himalajaeinir heldur sínum bláa lit allt árið en hann er mest áberandi þegar runninn er í vexti. Þessi mynd er af fræplöntu í grasagarðinum í Edinborg. Óvanalegt er að sjá himalajaeini án þess að um sérstakt yrki sé að ræða. Myndin er tekin að hausti en samt er runninn frekar blár en hann er samt miklu grænni en einirinn á myndinni hér að ofan, sem tekin er snemma vors. Mynd: Sig.A.

Þakkir

Þakkir fá Jón Kristófer Arnarson og Guðmundur Gíslason fyrir veittar upplýsingar um ræktun blágrenis og fjallaþins í gróðurhúsum. Jón var á sínum tíma framkvæmdarstjóri Barra og náði mjög góðum tökum á ræktun beggja tegundanna með því að nota skyggingu. Guðmundur vinnur í Sólskógum og hlaut menntun sína í Noregi í þessum fræðum og þekkir þar vel til. Jón veitti einnig ýmsar fleiri upplýsingar sem tengjast efni pistilsins.

Þakkir fær einnig Helgi Þórsson sem skoðaði þintegundir á Íslandi alveg sérstaklega með tilliti til bláma á barri.

Úlfur Óskarsson las yfir handritið í vinnslu og benti okkur á vísindagrein um efnið. Fyrir það þökkum við alveg sérstaklega því það eykur líkurnar á að pistillinn sé ekki tóm þvæla.

Að auki fær Pétur Halldórsson þakkir fyrir sérstaklega vandaðan lestur prófarkar.

 

 

Heimildir

Auður I. Ottesen (ritstj.)(2006): Barrtré á Íslandi. Handhægur leiðarvísir fyrir ræktendur. Sumarhúsið og garðurinn, Reykjavík.


Brynjar Skúlason (2017): Provenance variation in subalpine fir grown as an exotic tree species in Denmark and Iceland. Københavns Universitet. Sjá: Provenance variation in subalpine fir grown as an exotic tree species in Denmark and Iceland - University of Copenhagen Research Portal.


Clapp & Alex Crowson (2023): Two Fir One (Subalpine Fir & Noble Fir). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá 26. jan. 2023. Sjá: TWO FIR ONE (SUBALPINE FIR & NOBLE FIR) — Completely Arbortrary

James E. Eckenwalder (2009) Conifers of the World. The Complete Reference. Timber Press, Portland & London.


J.F. Jacobs, G.J.M. Koper &  W.N.J. Ursem (2007): UV protective coatings: A botanical approach. Í: Progress in Organic Coatings 58 (2007) 166–171. Sjá: UV protective coatings: A botanical approach - ScienceDirect.


Helgi Þórsson (2024) veitti okkur upplýsingar um þintegundir. Jón Kristófer Arnarson (2024) og Guðmundur Gíslason (2024) veittu upplýsingar um ræktun á blágreni og fjallaþin.


Úlfur Óskarsson (2025) veitti okkur upplýsingar um ýmislegt smálegt og benti á vísindagrein um efnið.




 



 

 

 

 

 

 

Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page