top of page

Hverfulleiki haustlitanna

Updated: Apr 10, 2023


Hverfulleikinn einkennir haustið. Margir fegurstu litir ársins birtast á haustin en þeir eru tákn fyrir hrörnunina sem óhjákvæmilega fylgir árstíðinni. Ef við grípum til tískuorða gætum við sagt að haustið sé sannarlega fallegasta árstíðin. Þar sem við treystum okkur ekki til að sanna það þá sleppum við því að taka svo djúpt í árinni, enda sjálfsagt misjafnt hvað fólki þykir fallegt.

Birki getur haft fjölbreytta haustliti. Meðal annars vegna þess að erfðaflæði hefur átt sér stað frá fjalldrapa (sem fær rauða haustliti) yfir í birkið.


Haustið í æfi mannsins getur verið ótrúlega gjöfult og litríkt, rétt eins og hjá birkinu hér að ofan. Haustlitir plantna eru birtingarmynd þess að þær eru að undirbúa sig fyrir veturinn. Undirbúa sig fyrir kuldann og myrkrið. Undirbúa sig fyrir að leggjast í dvala. Hinir skrautlegu haustlitir boða elli og dauða. Ef til vill er það svona skrautlegt til að minna okkur á að aftur kemur vor að liðnum vetri. Aftur verður skógurinn grænn og næturnar bjartar. Fuglarnir halda sína árlegu haustveislu með berjaáti og kvaki. Síðan fara margir þeirra til heitari landa.


Hljóðnar nú haustblær húsið við rótt.

Dvelur við dyrnar drungaleg nótt.

Fljúga þá fuglar flestir sinn veg,

kvakandi kvíðnir – kvöldljóðin treg. (Sigríður Þorgeirsdóttir)

En hvernig stendur eiginlega á þessum haustlitum?


Haust við Eyjafjörð.


Hélurifs ásamt rottueyra.


Haustlitir í Boston 2. okt. 2012.

Haust

Eftir því sem líður á sumarið dregur smám saman úr vexti flestra plantna og þær fara að undirbúa sig undir veturinn. Vandamálin sem plöntur standa frammi fyrir yfir veturinn eru einkum tvenns konar. Annars vegar er það ljósleysið og hins vegar kuldinn.


Svífur burt sumar sólar í lönd,

kveður létt kossi klettótta strönd,

ljósu frá landi leysir sitt band,

byltist þung bára – bláan við sand.

(Sigríður Þorgeirsdóttir)Mjallhyrnir, Cornus alba, fær alltaf flotta haustliti. Greinar hans standa svo eldrauðar allan veturinn. Hann fer einstaklega vel framan við eitthvað sígrænt.Skortur á ljósi kemur í veg fyrir ljóstillífun á vetrum og kuldinn hrjáir plöntur á margan hátt. Vegna hans er oft skortur á vatni yfir vetrarmánuðina því það er í föstu formi. Líf allra frumna er samt háð vatni. Þess vegna þurfa plönturnar að draga úr allri starfsemi frumna og hægja þannig eða nánast slökkva á sjálfu lífinu. Næsta vor fer svo allt af stað aftur. Þá þurfa plönturnar að vera tilbúnar.

Haustlitir í Lystigarðinum í október 2019.

Gamli grunnskólakennari þess er þetta pikkar, Sigríður I. Þorgeirsdóttir (1937-2018) orti ljóð sem heitir Hljóðnar nú haustblær við úkraínskt þjóðlag. Fyrsta erindið er í inngangskaflanum og annað erindið hér að ofan. Lokaerindið er svona:

Breiðir svo húmið hljóðlátan væng,

milt eins og móðir mjúkri hjá sæng.

Fjúka um foldu fölnandi blóm,

hlýða á haustsins – helkaldan dóm.

(Sigríður Þorgeirsdóttir)Erfðir og umhverfi hafa áhrif á haustliti eins og svo margt annað.


Jurtir

Jurtir eru ýmist einærar eða fjölærar. Einærar jurtir ljúka allri starfsemi sinni á einu sumri og mynda svo fræ sem lifað geta af veturinn. Fjölærar jurtir (sumar bara tvíærar en aðrar lifa lengur) losa sig við allan yfirvöxtinn en geyma forða í rótum og brumum rétt undir yfirborðinu. Þar eru þau betur varin fyrir frosti og illviðrum.

Roðalyng ´Sweet tea´ er fjölæringur með flotta haustliti.

Eldrauður sigurskúfur undir grænu birki í Vaglaskógi þann 14.09.2022.


Þessi mynd er tekin sama dag og myndin af græna birkinu hér ofar. Rauðir litir á laufum bjarka eru oft taldir til vitnis um erfðaflæði frá fjalldrapa. Hinn ljósi stofn birkisins minnir ekkert á fjalldrapa.


Runnar og tré

Áskorunin hjá runnum og trjám er sýnu meiri. Vaxtarbrum þeirra hafa ekkert skjól yfir veturinn. Sama hversu mikið frostið kann að verða. Því verða þau að leggja töluvert á sig til að vaxtarbrumin frjósi ekki og drepist. Stundum tekst það ekki og þá kemur það sem við köllum haustkal. Þá þurfa brumin að „hlýða á haustsins – helkaldan dóm“ rétt eins og blómin sem „fjúka um foldu“ í ljóði Sigríðar Þorgeirsdóttur hér ofar.


Runni og tré. Mispill framan við alaskaösp.

Mikilvægt er fyrir tré og runna að nýta sumarið sem best en hætta vexti áður en frost og ljósleysi skemma allt. Þetta jafnvægi getur verið hvikult. Áður en veturinn tekur völdin þurfa plönturnar að vera hættar að vaxa og draga til sín mikilvæg næringarefni úr laufunum sem nýst geta næsta vor. Þá birtast haustlitir.Birkikvistur og runnamura. Runnamuran stendur oft í blóma langt fram á haust.Reynirinn tekur hér alla athygllina. Myndin tekin frá Kálfaströnd við Mývatn.


Þessi dúnþyrnir fer snemma í haustliti.


Hvenær?

Strax upp úr miðju sumri fara plöntur að undirbúa sig fyrir veturinn og næsta vor. Þá fara þær að safna næringarforða í rætur, stofna og brum. Sumar plöntur, sem safna næringarforða í rætur safna þeim í sérstök hnýði. Það kann dýrategund sem af lítillæti kallar sig hina vitibornu, vel að meta. Þess vegna ræktum við kartöflur, gulrætur og ýmsa rótarávexti. Ferlið heldur svo áfram fram eftir hausti og fyrripart vetrar. Smám saman eykst frostþol plantnanna.

Sumar hlyntegundir fá mjög flotta haustliti.

Ljóslota og hiti

Misjafnt er eftir tegundum hvað það er sem fær plöntur til að hefja undirbúning undir veturinn. Sama á við um hvað það er sem fær plöntur til að hefja vöxt á vorin. Má jafnvel segja að þær búi yfir innri klukku sem segir þeim hvaða árstíð stendur yfir og hvað beri að gera sem viðbrögð við því. Kerfið er flókið og margþætt. Minnkar það líkurnar á því að mistök verði sem truflað geta klukkuna.

Beyki í Hellisgerði.


Almenna reglan er sú að uppsöfnuð hitasumma á vorin er helsta ástæða þess að gróður fer að vaxa á vorin en lengd ljóslotunnar er meginhvati breytinganna á haustin. Þess vegna gerist það stundum að ef norrænar plöntur eru fluttar sunnar á hnöttinn þá fara þær fyrr í haustliti en gróður sem fyrir er. Við þekkjum til dæmis vel að glæsilegar hengibjarkir má finna víða í bænum sem eru af norðlægu kvæmi. Þær fara trjáa fyrst í haustliti í bænum. Þetta er líka ástæða þess að birki, sem ættað er frá Bæjarstaðaskógi, fer seinna í haustliti en staðarbirkið í Eyjafirði.

Norðlægt kvæmi af hengibjörk komið í haustliti í ágúst.Þessi hrafnþyrnir var líka kominn í haustliti í ágúst.


Ef plöntur eru fluttar á norðlægari breiddargráður tefst haustlitakoman stundum óþarflega lengi og blöðin standa græn langt fram á haust. Þetta þekkjum við líka vel á Íslandi. Sums staðar má sjá gljávíði sem Schierbeck sem var landlæknir 1882–1895 og stofnandi Garðyrkjufélags Íslands, flutti inn á sínum tíma frá Danmörku. Þessi gljávíðir fer ekkert í haustliti heldur stendur hann grænn allt of lengi og heldur græna litnum þegar annað sölnar. Að auki laufgast hann seint á vorin.


Gráreynir í Lystigarðinum.


Stundum fá sumar alaskaaspir rauða, en ekki gula, haustliti.

Rétt er að taka það fram að misjafnt er milli tegunda hvaða þættir ráða mestu um komu haustlita. Þannig er talið að meðal eplatrjáa ráði hiti meiru um komu haustlita en daglengd. Niðurstaðan er samt alltaf sú sama. Afurðum ljóstillífunnar er forðað frá tortímingu og þá koma haustlitirnir í ljós.

Haustlitir við Mógilsá í Kollafirði.


Aspir og birki í gulum haustlitum bera við grænt grenið sem hlaðið er könglum eftir sumarið 2022.

Haustlitir við Eyvindará á Héraði.

Hörgull

Til að nýta sumarið sem best taka plönturnar fyrst og fremst til sín þau efni sem þau helst þurfa en sleppa þeim sem nó er af. Þess vegna er það svo að plöntur sem vaxa á þurrum og næringarsnauðum jarðvegi fá oft og tíðum miklu glæsilegri haustliti en hinar sem eru á rökum og frjóum svæðum. Þær plöntur taka til sín meira af efnum úr blöðunum. Þetta er einnig ástæða þess að haustlitir geta verið mismunandi hjá sömu tegundum eftir því hvar þær vaxa.


Kasmýrreynir í Lystigarðinum.


Rósakirsuber, Prunus nipponica


Ýmsar tegundir brodda fá mjög rauða haustliti. Hér eru það sunnubroddur og glæsibroddur.


Sólbroddur, Berberis thunbergii, að byrja að roðna.

Lauf

Plöntur stunda ljóstillífun. Hún fer fram í græna hluta plöntunnar. Hún byggist á því að nýta koltvísýring (CO2) og vatn ásamt uppleystum steinefnum, til að búa til sykrur. Ferlið þarfnast orku og hún kemur úr sólinni. Ljóstillífunin fer fram í grænukornum laufblaðanna. Í þeim er efni sem við köllum laufgræna og gefur hún laufum grænan lit. Laufgrænan er úr kolefni, (C), vetni (H), súrefni (O) og nitri (N). Að auki er magnesíum (Mg) í laufgrænu. Oftast nær er nægur forði af þessum efnum, nema af nitrinu og stundum af magnesíum. Því er mikilvægt að draga þau efni úr laufunum (sérstaklega nitrið) og inn í plönturnar sjálfar áður en laufin falla af. Minni ástæða er til að endurvinna vetni, súrefni og kolefni þar sem enginn hörgull er á þeim efnum í umhverfi plantna. Til eru plöntur, eins og elri, Alnus spp., sem eru með gerla á rótunum sem framleiða nitur beint úr andrúmslofti. Hjá þeim er enginn hörgull á nitri og því standa þær ekkert í þessu veseni. Þess vegna fá elriplöntur sjaldnast neina haustliti.


Hirðingjareynir, Sorbus tianshanica.


Skrautreynir, Sorbus decora.

Karótín

Laufgræna er ekki eina litarefnið í grænukornum. Þar má líka finna hóp olíuleysanlegra efna sem kallast karótín. Þau geta verið nokkuð breytilega á litinn, allt frá gulu yfir í rauðgult. Nafnið karótín er komið af gríska orðinu karotan. Það er í fræðiheiti gulrótarinnar, Daucus carota, og hefur ratað í ýmiss Evrópumál eins og ensku, frönsku og ítölsku. Litur gulrótarinnar stafar af karótíni.


Skrautreynir í Kjarnaskógi.


Rósir fá líka haustliti.


Ígulrósin ´Jóhanna´ getur fengið rauða haustliti.

Vaðlaheiði.

Karótín er gert úr frumefnum vetni, súrefni og nitri. Eins og áður segir er enginn hörgull á þeim efnum í umhverfi plantna. Undir haust, skömmu áður en laufin falla, fara plönturnar að ná til sín mikilvægum næringarefnum. Þá brotnar laufgrænan niður enn karótín verður eftir, enda hvorki nitur né magnesíum í því. Þessi efni eru alltaf þarna en sjást ekki fyrr en laufgrænan brotnar niður. Þá koma gulir og rauðgulir litir í ljós í laufunum. Þrátt fyrir að efnin séu þarna alltaf er meira af þeim upp úr miðju sumri og fram á haust. Plöntur auka framleiðslu þess á þessum árstíma því það er talið vera forveri plöntuhormóns sem undirbýr plöntufrumur fyrir vetrardvalann.


Ilmreynir ´Xanthocarpa´, Sorbus aucuparia ´Xanthocarpa´


Haustlitir reynitrjáa geta verið misjafnir. Reynir var áður nefndur reyðnir vegna hins rauða litar. Sama orðstofn má enn sjá í færeysku. Þar er starfræktur reyðikross og þar má drekka reyðivín.Antócýanín

Í laufblöðunum eru fleiri efni sem koma við sögu. Antócýanín-efni eru vatnsleysanleg og finnast í safabólum frumna. Safabólur eru einskonar vatnsforðabúr í frumum plantna. Þar leysast upp ýmiss efni og fara inn í frumurnar. Antócýanín-efni ummyndast úr sykrum sem ekki hefur skilað sér úr laufum inn í tréð. Þau eru í ýmsum rauðum litum, sem meðal annars ráðast af sýrustigi. Litirnir eru allt frá rósrauðu yfir í fjólublátt og eru úr sömu frumefnum og karótín. Mest verður myndunin á köldum nóttum eftir sólríkan dag. Þeim mun meiri dægursveifla í hita, þeim mun meiri og fjölbreyttari verða þessir litir. Þess vegna eru rauðir haustlitir meira áberandi inn til landsins þar sem nætur eru kaldari á haustin og sólríkir dagar algengari.


Haustlitirnir í Mývatnssveit eru frægir.


Oft er fremur jarðvegsgrunnt hjá götutrjám. Þá fara þau fyrr í haustliti eins og þessi reynir sem var alrauður þann 13. september 2022. Rósirnar, sem vaxa undir honum, þola greinilega meiri þurrk.

Þar sem plöntur vaxa á þurrum stöðum getur orðið hörgull á vatni. Þá leysist minna upp af antócýanín-efnum og haustlitir koma þá fyrr og verða rauðari en þar sem nægt framboð er af vatni.


Koparreynir.


Um antócýanín var fjallað í þessum pistli fyrr í sumar. Það er talið vera einskonar vörn gegn útfjólubláum geislum sólar. Sumar plöntur eru meira og minna rauðar allt sumarið vegna þessa efnis eins og þar er lýst. Þegar blaðgrænan byrjar að brotna niður er mikilvægt að hafa aukna sólarvörn svo blöðin skemmist ekki. Þess vegna eykst framleiðsla antócýanín-efna á haustin. Þegar svo græni liturinn fer sjáum við þau alltaf betur og betur.


Gljámispill, Cotoneaster lucidus


Blóðbeyki, Fagus sylvatica.

Samantekt

Hinir glæsilegu litir haustsins eru í laufunum allt sumarið en þurfa að víkja fyrir grænum litum blaðgrænunnar svo plönturnar geti stundað sína ljóstillífun. Það er ekki fyrr en hún brotnar niður á haustin, til að tré og runnar geti passað upp á mikilvæg næringarefni, að við sjáum þessa liti. Samhliða þessu niðurbroti laufgrænunnar eykst framleiðsla litarefnanna sem áður voru nefnd. Það er gott til þess að vita að þetta gera plönturnar til að geta tekist á við vorið á ný eftir dimman, kaldan vetur.

Haustlitir í Fnjóskadal.Gult, rautt og grænt birki.


Myndir og texti: Sigurður Arnarson


Heimildir

Ágúst H. Bjarnason 2012: Haustlitir. Í Skógrætarritinu 2012 2. tbl. Skógræktarfélag Íslands. Reykjavík.


Sigurður Arnarson 2022: Af hverju er skógurinn grænn? https://www.kjarnaskogur.is/post/af-hverju-er-skogurinn-graennJapanskvistur ´Fortunel´


Heiðakvistur fær líka dásamlega haustliti. Guli liturinn lítur út á milli rauðra laufa.517 views

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page