top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Ástand lands og landlæsi. Fyrri hluti: Staðan

Á árunum 1991 til 1997 kortlagði hópur manna undir stjórn Ólafs Arnalds jarðvegsrof á Íslandi í tengslum við verkefni sem hlaut nafnið Jarðvegsvernd. Afraksturinn var gefinn út í skýrslu árið 1997 sem heitir Jarðvegsrof á Íslandi. Ári seinna, eða fyrir hartnær 30 árum, hlutu Íslendingar umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í fyrsta skipti. Verðlaunin voru veitt fyrir þetta verkefni. Síðan hefur furðulítið verið gert með niðurstöðurnar. Til er fólk, jafnvel í ábyrgðarstöðum, sem hefur alla tíð afneitað vandanum sem ósjálfbær landnýting hefur leitt af sér. Þetta sama fólk vill sem minnst af þessu verðlaunaverkefni vita.

Á heimasíðu Ólafs Arnalds má fræðast meira um verkefnið. Það fól í sér flokkun og þróun mælikvarða á virkni rofs og úr varð viðamikill gagnabanki og þekking á jarðvegsrofi á Íslandi.

Forsíða skýrslunnar sem gefin var út í bókarformi árið 1997 og hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs ári síðar. Höfundar: Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Sigmar Metúsalemsson, Ásgeir Jónsson, Einar Grétarsson og Arnór Árnason. Skýrsluna má skoða hér.
Forsíða skýrslunnar sem gefin var út í bókarformi árið 1997 og hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs ári síðar. Höfundar: Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Sigmar Metúsalemsson, Ásgeir Jónsson, Einar Grétarsson og Arnór Árnason. Skýrsluna má skoða hér.

Skýrsla þessi á enn fullt erindi við allan almenning og þá sem nýta landið á einn eða annan hátt. Síðan þetta grundvallarrit var gefið út hefur legið fyrir að ástand lands á Íslandi er víða slæmt. Jafnvel mjög slæmt. Á þeim tæpu þrjátíu árum, sem liðin eru frá útgáfu skýrslunnar, hefur mikið vatn runnið til sjávar og sem betur fer hefur landi sums staðar farið fram. Enn eru þó til mjög illa farin svæði á landinu. Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar sem eiga það flestar sameiginlegt að staðfesta niðurstöður skýrslunnar og renna styrkari stoðum undir þær ályktanir sem þar er að finna. Í þessari grein er vísað í sumt af þessu efni og sjá má frekari upptalningu í heimildaskrá. Má nefna sem dæmi verkefnið Nytjaland sem miðar að því að gera gagnagrunn með upplýsingum um bújarðir landsins, meðal annars með tilliti til landkosta. Undirbúningur verksins hófst veturinn 1999-2000. Nýjasti þátturinn í þessum fræðum er verkefnið GróLind. Þar er reynt að flokka þau beitilönd sem sauðfjárbændur nota til sinnar framleiðslu. Hér má sjá kortavefsjá verkefnisins og hér er glærukynning frá því að verkefninu var hleypt af stokkunum. Samkvæmt GróLind er landinu skipt í fimm flokka eftir ástandi. Eins og við er að búast eru niðurstöðurnar í góðu samræmi við niðurstöður skýrslunnar frá 1997.

Kort af vefsíðu GróLindar. Í verkefninu er landinu gefin einkunn frá 5-30. Eftir þeirri einkunn er landinu skipt í fimm ástandsflokka. Í flokki 1 (37% lands) er ástandið verst. Þar er þurrt land og mikið landrof. Í flokki 2 (8% lands) er lítið af gróðri og mikið rof. Það er ekki fyrr en komið er í flokk 4 að lítið er um rof og gróður þó nokkur. Aðeins 7% lands lenda í 5. flokki sem er besti flokkurinn. Kortið sýnir vel að ástand íslenskra beitilanda er dapurlegt. Samkvæmt mati GróLindar eru tæp 30% beitar í verst farna landinu og tæp 40% í tveimur verst förnu flokkunum. Þar er átt við þau svæði sem gefin eru upp sem beitiland af sauðfjárbændunum sjálfum. Dæmin sýna þó að innan verst förnu svæðanna má iðulega sjá fé á beit þar sem það á ekki að vera, enda er ekki almenn vörsluskylda búfjár á Íslandi.
Kort af vefsíðu GróLindar. Í verkefninu er landinu gefin einkunn frá 5-30. Eftir þeirri einkunn er landinu skipt í fimm ástandsflokka. Í flokki 1 (37% lands) er ástandið verst. Þar er þurrt land og mikið landrof. Í flokki 2 (8% lands) er lítið af gróðri og mikið rof. Það er ekki fyrr en komið er í flokk 4 að lítið er um rof og gróður þó nokkur. Aðeins 7% lands lenda í 5. flokki sem er besti flokkurinn. Kortið sýnir vel að ástand íslenskra beitilanda er dapurlegt. Samkvæmt mati GróLindar eru tæp 30% beitar í verst farna landinu og tæp 40% í tveimur verst förnu flokkunum. Þar er átt við þau svæði sem gefin eru upp sem beitiland af sauðfjárbændunum sjálfum. Dæmin sýna þó að innan verst förnu svæðanna má iðulega sjá fé á beit þar sem það á ekki að vera, enda er ekki almenn vörsluskylda búfjár á Íslandi.

Í þessum pistli skoðum við landlæsi, jarðvegsrof og gróðurfar á Íslandi en eins og við vitum var það einu sinni skógi vaxið. Við veltum fyrir okkur hvað veldur hnignun lands. Við veltum einnig fyrir okkur þeirri eindregnu afneitun sem því miður viðgengst í þjóðfélaginu. Auðvitað tengist þetta skógum og skógrækt, því víða er reynt að bæta ástand lands með skógrækt og þar sem land er friðað fyrir beit á láglendi má víða finna sjálfsprottin tré sem geta myndað skóga.

Í svona yfirlitsgrein getum við ekki varið miklu plássi í hvern þátt, en hugsanlega skrifum við meira um eitthvað af þessu ef áhugi er fyrir hendi. Þar sem viðfangsefnið er umfangsmikið skiptum við umfjölluninni að þessu sinni í tvo hluta. Seinni hlutinn verður birtur eftir viku.

Sauðfé á beit í ágúst. Það sækir í nýgræðinginn utan við skóginn, einkum þegar líður á sumarið. Þess vegna á landið erfitt með að gróa upp. Myndin sýnir einnig hversu mikla seiglu skógarnir hafa gegn eyðingaröflunum. Mynd: Sig.A.
Sauðfé á beit í ágúst. Það sækir í nýgræðinginn utan við skóginn, einkum þegar líður á sumarið. Þess vegna á landið erfitt með að gróa upp. Myndin sýnir einnig hversu mikla seiglu skógarnir hafa gegn eyðingaröflunum. Mynd: Sig.A.

Áhrif landnáms

Þegar landnemar komu til Íslands fyrir rúmlega ellefu hundruð árum hafði jarðvegur og gróðurfar hér á landi þróast án afskipta manna og búsmala hans í meira en 9000 ár. Einu dýrin sem lifðu á jurtum á Íslandi fyrir landnám voru fuglar og ýmis smádýr. Það er mjög óvenjulegt fyrir svona stórt landsvæði. Hér voru engin spendýr úr hópi grasæta og þróun gróðurs og líffélaga tók mið að því. Vitað er að jarðvegur er lengi að byggjast upp þannig að til verði frjósamt land en án efa var frjósemin mikil þegar landnám hófst. Landið var viði vaxið milli fjalls og fjöru.

Stór hluti villtra, íslenskra birkiskóga er beittur. Ef þeir væru allir svona gróskumiklir væri það í góðu lagi. Samtals þekja birkiskógar og birkikjarr aðeins um 1,5% landsins. Mynd: Sig.A.
Stór hluti villtra, íslenskra birkiskóga er beittur. Ef þeir væru allir svona gróskumiklir væri það í góðu lagi. Samtals þekja birkiskógar og birkikjarr aðeins um 1,5% landsins. Mynd: Sig.A.

Áður en landið var numið mótaðist gróðurfar af þeim aðstæðum sem hér voru. Stundum kom kuldatíð, ár gátu hlaupið, jöklar skriðu fram og hopuðu á víxl, hraun runnu og aska féll. Allt þetta hefur mótað vistkerfi landsins og ekkert af þessu hófst við landnám. Samt byggðist smám saman upp frjósamur jarðvegur með gróskumiklum gróðri á meðan landið var óbyggt.

Við landnám urðu miklar breytingar á gróðurfari landsins. Landnemarnir þekktu ekki hinn viðkvæma jarðveg og hafa sjálfsagt ekki gert sér grein fyrir því að jarðvegsauðlindin er óendurnýjanleg auðlind ef hratt er gengið á hana. Þá hófst jarðvegs- og gróðureyðing sem enn sér ekki fyrir endann á. Það reyndist mun fljótlegra að skemma vistkerfi en að byggja þau upp. Þetta hefur vitanlega legið fyrir æði lengi þótt deilt hafi verið um hin fínni blæbrigði þessarar hnignunar. Þó liggur alveg fyrir að landnemarnir fluttu hvorki með sér eldgos né vond veður.


Mynd úr Sagnagarði Landgræðslunnar, sem nú er hluti af hinni nýju stofnun Landi og skógi. Í íslenskum jarðlögum má víða sjá hin skörpu skil sem urðu við landnám. Myndin sýnir niðurstöður frjógreiningar í jarðvegssniði í Þrándarholti í Hreppum. Rauða línan er hið svokallaða landnámsöskulag. Fljótlega eftir landnám snarfækkaði birkifrjóum en grasfrjó færðust í aukana. Það segir sína sögu um breytingar sem urðu á vistkerfum landsins.  Ljósmynd: Sig.A.
Mynd úr Sagnagarði Landgræðslunnar, sem nú er hluti af hinni nýju stofnun Landi og skógi. Í íslenskum jarðlögum má víða sjá hin skörpu skil sem urðu við landnám. Myndin sýnir niðurstöður frjógreiningar í jarðvegssniði í Þrándarholti í Hreppum. Rauða línan er hið svokallaða landnámsöskulag. Fljótlega eftir landnám snarfækkaði birkifrjóum en grasfrjó færðust í aukana. Það segir sína sögu um breytingar sem urðu á vistkerfum landsins. Ljósmynd: Sig.A.

Mikilvægi gróðurs fyrir jarðveg

Það er kunnara en frá þurfi að segja að ekki er nóg með að gróður landsins eigi stærstan hluta að máli þegar kemur að myndun frjósams jarðvegs. Gróðurkápan verndar einnig jarðveginn sem undir henni er. Þegar göt koma á klæði landsins er hætta á jarðvegsrofi en eftir því sem gróskan er meiri, þeim mun meiri er verndin. Því er það svo að skógar veita meiri jarðvegsvernd en annar gróður. Við landnám voru það fyrst og fremst birkiskógar sem vernduðu jarðvegsauðlindina á láglendi. Ofar, þar sem of kalt var fyrir skóga, mátti víða finna kjarr sem gegndi sama hlutverki. Inn á þetta höfum við komið áður í pistlum okkar sem tengjast vistfræði og vatnsmiðlun skóga.

Jarðsil (dílarof í brattlendi) er ótrúlega algengt fyrirbæri á Íslandi. Jarðsil er hugtak sem lýsir flutningi á jarðvegi hægt og sígandi niður hlíðar landsins vegna kulferla, en við það myndast stallar (paldrar) sem oft eru áberandi í landslaginu. Svona land er viðkvæmt fyrir beit og getur hæglega spillst ef landnýting er óhófleg. Ef dílarnir stækka verður landið mjög viðkvæmt fyrir vind- og vatnsrofi og getur skriðið fram. Jarðsil getur verið undanfari rofsára eins og sjást á myndunum. Fyrsta myndin sýnir paldra í landi sem skriðið hefur fram. Á miðmyndinni má sjá paldra vegna jarðsils beggja vegna við girðingu. Augljóst er hvorum megin beitin er þyngri og þeim megin er landið í mikilli hættu. Í stað þess að binda kolefni losar rofna landið kolefni á meðan moldin er óvarin. Á síðustu myndinni má annars vegar sjá paldra sem sýnast vel grónir og land sem látið hefur undan, rofnað og skriðið fram. Hægt er að stækka og skoða hverja mynd fyrir sig. Myndir: Sig.A.


Sauðfé á íslensku hálendi. Myndin er skjáskot úr myndbandi sem Markaðsráð sauðfjárbænda, Icelandic Lamb, sendi frá sér. Myndbandinu er ætlað að mæra frjálsa för sauðfjár (Roaming free) á beit á íslensku hálendi svo auðveldara sé að selja útlendingum lambakjöt. Myndina fengum við úr þessari blaðagrein þar sem sjá má myndbandið í heild.
Sauðfé á íslensku hálendi. Myndin er skjáskot úr myndbandi sem Markaðsráð sauðfjárbænda, Icelandic Lamb, sendi frá sér. Myndbandinu er ætlað að mæra frjálsa för sauðfjár (Roaming free) á beit á íslensku hálendi svo auðveldara sé að selja útlendingum lambakjöt. Myndina fengum við úr þessari blaðagrein þar sem sjá má myndbandið í heild.

Á Íslandi er jarðvegur undirstaða fæðuframleiðslu, rétt eins og annars staðar í heiminum. Þess vegna er hverri þjóð mikilvægt að vernda sinn jarðveg. Þegar gróðurinn lætur undan síga er þess sjaldan langt að bíða að áður frjósamt land breytist í manngerðar eyðimerkur. Þar skipar hinn öskublandni og þar með rofgjarni jarðvegur stóran sess á Íslandi. Erfitt getur verið að endurheimta fyrri frjósemi eftir langvarandi ofbeit en halda má eyðimörkinni við með áframhaldandi ósjálfbærri landnýtingu. Þegar það er gert, til dæmis með því að beita auðnir þar sem áður var gróið land, er að vísu óvíst að nokkur jarðvegseyðing eigi sér lengur stað því jarðvegurinn er farinn. Aftur á móti kemur slík landnotkun í veg fyrir að landið klæðist þeim gróðri sem það á skilið. Jafnvel lítil beit dregur úr framförunum og kemur í veg fyrir að land grói upp. Því getur fátt fé valdið ofbeit á stórri auðn. Rétt er að taka fram að samkvæmt óbirtum rannsóknum getur létt beit á vel grónu landi verið til bóta í einhverjum tilfellum. Sagt er að hún geti jafnvel leitt til aukinnar kolefnisbindingar í jarðvegi. Það má þó hvorki nota þær niðurstöður til að réttlæta þunga beit á vel grónu landi né létta beit á illa grónu landi enda ljóst að við lögum ekki ástandið með sömu aðferðum og sköpuðu vandann.

Lengst af voru Krossanesborgir norðan Akureyrar jafn nauðbeittar og annað landbúnaðarland í kringum bæinn. Árið 2005 voru borgirnar friðaðar að hluta sem fólkvangur. Miklar breytingar hafa orðið á svæðinu síðan það var leyst undan beitaránauð og sjálfsprottinn trjágróður setur orðið mikinn svip á landið. Mest ber á birki og víði eins og sjá má á myndinni. En myndin sýnir meira. Sjá má að þurru og verst förnu svæðin gróa mjög hægt upp. Einnig má sjá að efst á þurri klöpp til vinstri á myndinni sprettur gras og annar gróður. Þar er til dæmis helluhnoðri nokkuð áberandi. Þessar niturkæru tegundir vaxa þarna vegna þess að mávar bera sjávarfang á land og því fylgir nitur. Þannig tekst sjófuglum að auka gróskuna. Mynd: Sig.A.
Lengst af voru Krossanesborgir norðan Akureyrar jafn nauðbeittar og annað landbúnaðarland í kringum bæinn. Árið 2005 voru borgirnar friðaðar að hluta sem fólkvangur. Miklar breytingar hafa orðið á svæðinu síðan það var leyst undan beitaránauð og sjálfsprottinn trjágróður setur orðið mikinn svip á landið. Mest ber á birki og víði eins og sjá má á myndinni. En myndin sýnir meira. Sjá má að þurru og verst förnu svæðin gróa mjög hægt upp. Einnig má sjá að efst á þurri klöpp til vinstri á myndinni sprettur gras og annar gróður. Þar er til dæmis helluhnoðri nokkuð áberandi. Þessar niturkæru tegundir vaxa þarna vegna þess að mávar bera sjávarfang á land og því fylgir nitur. Þannig tekst sjófuglum að auka gróskuna. Mynd: Sig.A.

Landlæsi

Landlæsi hjálpar okkur að skynja betur landið og ástand þess. Það byggist á því að sjá, skilja og viðurkenna þær vísbendingar sem ásýnd landsins gefur. Um landlæsi má fræðast meira í ritinu Að lesa og lækna landið (Ólafur og Ása 2015) og mörgum öðrum ritum sem finna má á heimasíðu Ólafs Arnalds, moldin.net.

Þær mælistikur sem nýttar eru við landlæsi fela oftast í sér mat á ástandi jarðvegs og gróðurs. Skoðaðir eru þættir sem segja meðal annars til um hvort landi er að hnigna eða hvort það sé í framför. Um leið fæst sýn á ótal aðra þætti umhverfisins, svo sem fjölbreytileika gróðurs og dýralífs, framleiðslugetu lands, stöðugleika og seiglu landsins, vatnsmiðlun, skjól, gildi til útivistar og margt fleira. Eins og vænta má byggir svona mat á þeim línum sem lagðar voru í skýrslunni sem sagt var frá í inngangi. Ekki hafa allir fallist á þessar niðurstöður né heldur á aðrar sambærilegar niðurstöður úr þeim verkefnum sem síðar voru unnin. Má sem dæmi nefna að Oddný Steina Valsdóttir, þáverandi formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og formaður faghóps um kortlagningu gróðurauðlindarinnar sagði í þessari frétt: „Einnig hef ég óskað eftir rannsóknum á því að sauðfjárbeit haldi aftur af gróðurframvindu en landgræðslumenn hafa ekki getað bent mér á þær rannsóknir.“ (Sveinn Arnarsson 2017).

Gróðurþekja Heiðmerkur var víða mjög illa farin eftir ofbeit þegar svæðið var friðað árið 1949. Oft er það svo að friðun, ein og sér, dugar ekki til að bæta ástandið á mjög illa förnu landi nema á þeim mun lengri tíma. Á þessari mynd, sem tekin var árið 1966, sést að enn eru víða rofaborð, möl og moldarflákar sem fauk úr er vind hreyfði. Einnig sést hvernig lúpína er að byrja að þekja sum sárin. Hún hefur nú víðast hvar vikið þar sem henni var sáð til að byrja með. Í fjarska sér í Akrafjall, Esjuna og Úlfarsfell. Rauðhólar sjást einnig vel á myndinni. Myndin er líklega tekin uppi á Sauðási í Heiðmörk en ljósmyndari er ókunnur. Myndin er úr safni Skógræktarfélags Reykjavíkur og er hér birt með góðfúslegu leyfi félagsins.
Gróðurþekja Heiðmerkur var víða mjög illa farin eftir ofbeit þegar svæðið var friðað árið 1949. Oft er það svo að friðun, ein og sér, dugar ekki til að bæta ástandið á mjög illa förnu landi nema á þeim mun lengri tíma. Á þessari mynd, sem tekin var árið 1966, sést að enn eru víða rofaborð, möl og moldarflákar sem fauk úr er vind hreyfði. Einnig sést hvernig lúpína er að byrja að þekja sum sárin. Hún hefur nú víðast hvar vikið þar sem henni var sáð til að byrja með. Í fjarska sér í Akrafjall, Esjuna og Úlfarsfell. Rauðhólar sjást einnig vel á myndinni. Myndin er líklega tekin uppi á Sauðási í Heiðmörk en ljósmyndari er ókunnur. Myndin er úr safni Skógræktarfélags Reykjavíkur og er hér birt með góðfúslegu leyfi félagsins.

Í þessari skýrslu sem heitir Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa (Ólafur 2020) er meðal annars fjallað um landlæsi. Þar kemur fram að með umtalsverðri afneitun sé slæmu ástandi landsins oft tekið sem eðlilegum hlut. Hefur það, að sögn Ólafs Arnalds, verið kallað „heilkenni breyttra grunnviðmiða“ sem er þýðing á enska hugtakinu „shifting baseline syndrome“. Ólafur hefur reyndar fundið styttra og betra orð yfir þetta fyrirbæri. Þetta er orð sem lýsir heilkenninu mjög vel. Hann kallar þetta samdaunasýki. Í sumum tilfellum má segja að meðvirkni og samdaunasýki séu samheiti. Ólafur telur mikilvægt að efla skilning landnotenda, stjórnsýslu og almennings á bágri stöðu vistkerfanna og finna lækningu við samdaunasýkinni. Liður í því er að efla fræðslu á þessu sviði og er þessi pistill lítið vog á þá vogarskál.

Sá sem ekki viðurkennir vandann sér auðvitað enga ástæðu til að takast á við hann. Ef til vill gaf Jón Kalmann Stefánsson (2017) upp ástæðu samdaunasýkinnar í bók sem heitir Saga Ástu (bls. 235). Þar stendur Vanþekkingin gerir þig frjálsan, þekkingin hneppir þig í fjötra ábyrgðar.

Skjáskot úr myndbandi úr auglýsingaherferð Sláturfélags Suðurlands þar sem fjallað er um umhverfisvænan búskap. Myndbandið má sjá hér. Sem betur fer er þarna iðagrænt gras en engu að síður er þarna einnig rofið land. Í myndbandinu sést að þar er sauðfé sem ástæða þykir til að sýna áhorfendum sem dæmi um umhverfisvæna búskaparhætti.
Skjáskot úr myndbandi úr auglýsingaherferð Sláturfélags Suðurlands þar sem fjallað er um umhverfisvænan búskap. Myndbandið má sjá hér. Sem betur fer er þarna iðagrænt gras en engu að síður er þarna einnig rofið land. Í myndbandinu sést að þar er sauðfé sem ástæða þykir til að sýna áhorfendum sem dæmi um umhverfisvæna búskaparhætti.

Nánar um afneitun og samdaunasýki

Landeyðing forfeðra okkar stafaði helst af fátækt og vanþekkingu á því hvað landið þoldi. Við getum ekki álasað þeim fyrir það. Færa má rök fyrir að jarðvegseyðing hafi verið það gjald sem þjóðin þurfti að greiða til að komast af. Þjóðin lifði en skógurinn dó. Þegar þannig háttaði liggur alveg fyrir að fyrr á öldum var hvorki sauðfjárrækt né önnur landnýting sjálfbær eða umhverfisvæn.

Í upphafi árs 2024 var gerð tilraun til að gera sauðfjárrækt umhverfisvæna með því að setja reglugerð um sjálfbærni. Hér má sjá reglugerðardrögin. Mikil andstæða var við þessa tilraun hjá mörgum og má sjá hluta þeirra viðbragða hér. Þar er sagt að þetta sé tilraunin til að vega að íslenskum landbúnaði. Eftir að gerðar höfðu verið breytingar á reglugerðinni var hún staðfest af ráðherra 15. maí 2024 og má sjá endanlega útgáfu hennar hér. Fróðlegt er að bera drögin saman við endanlega útgáfu. Um hana sagði Árni Bragason, þáverandi landgræðslustjóri, að margt sé í raun mjög gott í henni en ráðuneytið sé „búið að þynna þetta svolítið út“. Þarna grípur Árni til þekkts stílbragðs úr Íslendingasögunum sem kallast úrdráttur. Þetta er ekki ósvipað og þegar sagt var í Grettissögu um þá Gretti Ásmundsson og Þorgeir Hávarðsson að þeir væru heldur menn í röskara lagi.

Sauðfé á beit í íslenskri náttúru. Svona land sýnir skýr merki hnignunar. Moldin varð til á mjög löngum tíma þegar gróður batt kolefni með aðstoð ljóstillífunar. Nú er hún óvarin fyrir öllum veðrum. Allt bendir til að á báðum þessum stöðum (fyrri myndin tekin á Norðurlandi en sú seinni á Suðurlandi) hafi áður verið birkiskógar. Eftir sem áður er því haldið fram af samtökum sauðfjárbænda að öll sauðfjárbeit á Íslandi sé sjálfbær og fari aðeins fram á óspilltu landi. Má nefna sem dæmi að í þessu viðtali frá 2016 kannast þáverandi formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, ekki við að ofbeit sé á Íslandi. Myndir: Sig.A.


Ef sömu viðmið um landnýtingu væru notuð á Íslandi og gert er í Noregi yrði öll beit stöðvuð strax á öllu gosbeltinu, enda er ástandið verst þar eins og kunnugt er. Það kemur sláandi vel fram í skýrslunni sem vísað er til í inngangskaflanum og á kortum GróLindar. Eitt af því sem var fellt úr reglugerðinni var þessi málsgrein: „Land sem nýtt er til búfjárbeitar skal almennt vera í góðu ástandi og ekki sýna merki hnignunar vistkerfis umfram það sem vænta má frá viðmiðunarsvæðum“. Einnig var fallið frá því að nota hugtakið vistgeta í reglugerðinni og var því fagnað séstaklega af samtökum sauðfjárbænda eins og lesa má um í blaðagrein um málið. Í henni er glaðst yfir að hvorki þurfi að taka tillit til vistgetu né skoða viðmiðunarsvæði til að bera saman við hið beitta land. Þar með má ætla að í góðu lagi sé að beita land eins og sést hér að ofan og neðan. Einnig þótti sérstök ástæða til að gleðjast yfir að viðmið vegna nýtingar lands í bratt- og fjalllendi voru tekin út.

Að fella þetta allt saman úr reglugerðinni var liður í því að draga tennurnar úr henni svo engu þurfi að breyta í nýtingu lands, enda þarf land, sem nýtt er til sauðfjárbeitar, ekki að vera í góðu ástandi og það má sýna merki hnignunar ef marka má reglugerðina eins og hún var samþykkt. Þegar útþynnt og endanleg mynd reglugerðarinnar er lesin er ekki örgrannt um að sumir telji hana bera keim af grænþvotti.

Reglugerð um sjálfbærni var meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að svona land yrði nýtt sem beitiland. Það tókst ekki. Myndir: Sig.A.

Í áðurnefndri blaðagrein er vísað í ummæli Katrínar Pétursdóttur lögfræðings Bændasamtakanna og í þeim kemur fram álit á sjálfbærni og vistfræði sem er nokkuð á skjön við álit vísindamanna. Í eftirfarandi klausu er reynt að réttlæta að beita megi illa farið og rofið land með óvarinn jarðveg:


Sjálfbærni er í eðli sínu annað orð yfir kyrrstöðu, það er að viðhalda einhvers konar punktstöðu. Til þess að efla vistkerfi landsins skal stefnt að því að byggja upp og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast, það er skilyrði fyrir því að ráðist verður í uppbyggingu og endurheimt vistkerfis að landið þarf að hafa raskast fyrst. Land sem hefur mikinn óvarinn jarðveg eða rof sem helst þannig óbreytt í mörg ár telst sjálfbært, þar sem það hefur ekki raskast.“ (Sigurður 2024).


Verður þetta að teljast prýðisdæmi um samdaunasýki.

Hér má sjá mikinn óvarinn jarðveg. Auðvitað var það gróður sem bjó til þessa lífrænu mold og sárið varð til vegna rasks. Það verður að teljast merkilegt að til sé fólk sem heldur að þetta sé óraskað land og að það haldist óbreytt árum saman þótt moldin fjúki úr því í vindi og vatn beri moldina með sér í læki og ár. Á myndinni má einnig sjá nokkur tré þar sem sauðfé er á beit. Sjá má að neðstu greinarnar vantar. Beitin kemur í veg fyrir að birki geti endurnýjað sig. Fremst á myndinni má sjá sinu í sverðinum. Það bendir til þess að þar sé beitin fremur lítil. Mynd: Sig.A.
Hér má sjá mikinn óvarinn jarðveg. Auðvitað var það gróður sem bjó til þessa lífrænu mold og sárið varð til vegna rasks. Það verður að teljast merkilegt að til sé fólk sem heldur að þetta sé óraskað land og að það haldist óbreytt árum saman þótt moldin fjúki úr því í vindi og vatn beri moldina með sér í læki og ár. Á myndinni má einnig sjá nokkur tré þar sem sauðfé er á beit. Sjá má að neðstu greinarnar vantar. Beitin kemur í veg fyrir að birki geti endurnýjað sig. Fremst á myndinni má sjá sinu í sverðinum. Það bendir til þess að þar sé beitin fremur lítil. Mynd: Sig.A.

Minnkuð frjósemi - minni framleiðni

Ef álagið á gróður jarðar er of mikið dregur úr gróskunni og gróðurhulan getur gefið eftir. Þá skerðist jafnframt frumframleiðni vistkerfisins. Minni gróska þýðir minni ljóstillífun. Þess vegna dregur úr vinnslu kolefnis úr andrúmslofti þannig að það hægir á vexti og uppsöfnun kolefnis í jarðvegi og í plöntunum sjálfum. Þegar þetta er haft í huga er auðskilið að hvers kyns ofnýting veldur því að kolefnisforði og næringarforði í jarðvegi minnkar smám saman. Þetta hefur leitt til þess að skert frjósemi vistkerfa er nú talin víðtækasta form landhnignunar í heiminum (Ólafur 2020). Henni er svo iðulega haldið við með áframhaldandi nýtingu.

Afleiðingar ósjálfbærrar landnýtingar sjást mjög víða á Íslandi. Mynd: Sig.A.
Afleiðingar ósjálfbærrar landnýtingar sjást mjög víða á Íslandi. Mynd: Sig.A.

Ofnýting vistkerfa þekkist víða um heim. Öll kerfi má ofnýta hvort sem þau eru á frjósömum svæðum eða á jaðri hins byggilega heims. Aftur á móti eru viðkvæmum kerfum meiri hætta búin þegar þau eru ofnýtt. Þanþol þeirra er minna (Ólafur 2020). Sem dæmi um svipaðan vanda og hér þekkist en þar sem loftslagið er gróðri hagstæðara, má nefna Bretlandseyjar. Maður að nafni Guy Shrubsole (2022) skrifaði bók sem heitir The Lost Rainforests of Britain. Shrubsole notar mörg af þeim hugtökum sem eru nefnd hér að ofan, svo sem samdaunasýki (shifting baseline syndrome), og kemst að þeirri niðurstöðu að um ofbeit sé að ræða á stórum hluta eyjanna þótt landeyðingin þar sé ekki eins svakaleg og á Íslandi. Þar kemur ofbeit í veg fyrir endurnýjun skóga og að landið klæðist þeim gróðri sem það á skilið. Þetta gæti allt eins verið skrifað um Ísland. Munurinn er bara sá að hér er landið viðkvæmara og þar með eru áhrifin meiri. Hér á landi leiddi stórfelld skógareyðing til minnkandi frumframleiðni vistkerfanna og áframhaldandi ofnýting þeirra opnaði leiðina fyrir óblíð náttúruöfl. Sums staðar varð niðurstaðan rof á hringrásum vatns, kolefnis og næringarefna. Í kjölfarið varð algert hrun vistkerfa. Frumorsök víðtækrar landeyðingar á Íslandi er ofnýting vistkerfanna og skógareyðing.

Stundum er því haldið fram, jafnvel af sómakæru fólki, að fuglabeit, einkum beit álfta og gæsa, skaði landið mun meira en beit húsdýra. Þessar myndir voru teknar við Hörgá í samnefndum dal. Þar var dalbotninn friðaður með því að girða ofan við þjóðvegina beggja vegna dalsins. Þar fyrir neðan er allur búsmali hafður í afgirtum hólfum með þeim árangri að kjörlendi gæsa og álfta er smám saman að breytast í skóg- og kjarrlendi. Þannig hefur landið verið við landnám. Þetta sýnir að það er fremur léleg smjörklípa að kenna fuglum um slæmt ástand landsins þótt þeir geti farið illa með tún. Myndir: Sig.A.

Jarðvegsrof

Þegar gróður lætur undan síga vegna ofnýtingar getur gróðurþekjan opnast. Þá eiga vindur og vatn greiða leið að yfirborði jarðvegs. Þegar það gerist verður hætta á að hann blási upp eða skolist burt. Algengast er að þetta gerist það hægt að landnotendur átta sig ekki á hnignuninni (samanber ummæli lögfræðings bændasamtakanna sem vísað var í hér ofar) en í sumum tilfellum getur þetta gerst á ótrúlega skömmum tíma. Hvort heldur sem er getur jarðvegsrof breytt áður frjósömum landsvæðum í auðnir.

Í riti sínu: Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa segir Ólafur Arnalds (2020) frá því að Íslands sé oft getið í erlendum heimildum sem dæmi um land þar sem frjósöm vistkerfi hafa hrunið og moldin tapast á stórum svæðum.

Rofdílar geta verið ótrúlega lengi að gróa upp. Því er mikilvægt að haga landnýtingu þannig að þeir myndist ekki. Hið sama á við um flög. Á myndinni má sjá nokkrar sjálfsánar birkiplöntur enda er svæðið friðað fyrir beit. Endurheimt birkiskóganna er hafin en beit á svona svæði getur spillt miklu. Mynd: Sig.A.
Rofdílar geta verið ótrúlega lengi að gróa upp. Því er mikilvægt að haga landnýtingu þannig að þeir myndist ekki. Hið sama á við um flög. Á myndinni má sjá nokkrar sjálfsánar birkiplöntur enda er svæðið friðað fyrir beit. Endurheimt birkiskóganna er hafin en beit á svona svæði getur spillt miklu. Mynd: Sig.A.

Breyting frá landnámi

Fjölmargir fræðimenn hafa bent á það að landið var miklu betur gróið fyrir rúmum ellefu hundruð árum en að starfsemi vistkerfanna hafi hnignað frá þeim tíma. Hér hefur geigvænleg gróðureyðing átt sér stað frá landnámi með tilheyrandi jarðvegsrofi. Það er óhætt að fullyrða að uppblástur og landeyðing sé eitt mesta umhverfisvandamál landsins. Það þarf alveg sérstaklega skæða samdaunasýki til að hafna því.

Það er ekki að undra að fólk hafi velt því fyrir sér hvað valdið hafi þessum breytingum. Líklega má flokka hugsanlegar ástæður í tvo meginþætti eða flokka. Annars vegar gæti þetta stafað af óblíðri náttúru landsins og hins vegar af áhrifum mannsins og húsdýra hans. Líklegast er þó að samspil þessara þátta skipti mestu en við getum aðeins haft áhrif á annan flokkinn. Það er hann sem er frumorsökin. Óblíð náttúra getur ekki verið frumorsök hinnar geigvænlegu landeyðingar sem hér hefur átt sér stað. Rétt er að fara aðeins nánar í þá fullyrðingu. Það gerum við í seinni hluta þessa pistils, sem birtur verður eftir viku.

Rofabörð á norðanverðu hálendinu. Ljósu öskulögin eru væntanlega frá Heklu. Það efra er um 2800 ára gamalt og hið neðra um 4000 ára. Merkilegt er að sjá hvað jarðvegur er lítill undir og á milli öskulaganna enda var áfok af rofsvæðum nær óþekkt fyrir landnám. Eftir landnámið jókst áfokið gríðarlega vegna landrofs þannig að jarðvegurinn þykknaði með margföldum hraða þegar fokefni af nærliggjandi rofsvæðum settust að í gróðurtorfunum.  Getur verið að óblíð náttúruöfl hafi færst svona í aukana við landnám? Mynd: Sig.A.
Rofabörð á norðanverðu hálendinu. Ljósu öskulögin eru væntanlega frá Heklu. Það efra er um 2800 ára gamalt og hið neðra um 4000 ára. Merkilegt er að sjá hvað jarðvegur er lítill undir og á milli öskulaganna enda var áfok af rofsvæðum nær óþekkt fyrir landnám. Eftir landnámið jókst áfokið gríðarlega vegna landrofs þannig að jarðvegurinn þykknaði með margföldum hraða þegar fokefni af nærliggjandi rofsvæðum settust að í gróðurtorfunum. Getur verið að óblíð náttúruöfl hafi færst svona í aukana við landnám? Mynd: Sig.A.

Heimildir og frekari upplýsingar


Rétt er að geta þess að þessi heimildaskrá er fyrir báða hluta pistilsins. Hún birtist líka í seinni pistli.



Jón Guðni Kristjánsson (2016): Sérfræðingur: Ofbeit er staðreynd. Frétt Ríkisútvarpsins frá 23. mars 2016. Sjá: Sérfræðingur: Ofbeit er staðreynd - RÚV.is


Jón Kalmann Stefánsson (2017): Saga Ástu. Bls. 235. Benedikt bókaútgáfa, Reykjavík.


Kristín Sigurðardóttir (2020): Fé beitt á 25.000 ferkílómetra af gróðursnauðu landi. Frétt Ríkisútvarpsins frá 18. júní 2020. Sjá: Fé beitt á 25.000 ferkílómetra af gróðursnauðu landi - RÚV.is.


Lilja Birgisdóttir og Soffía Sigurgeirsdóttir (2015): Stefnumörkun um markaðssókn íslenskra sauðfjárafurða. Kom ráðgjöf, desember 2015.


Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Sigmar Metúsalemsson, Ásgeir Jónsson, Einar Grétarsson og Arnór Árnason (1997): Jarðvegsrof á Íslandi. Landgræðsla ríkisins og Rannsóknarstofnun landbúnaðarins. Sjá: Jarðvegsrof-á-Íslandi.pdf 


Ólafur Arnalds (2020): Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa. Rit LbhÍ nr. 130. Landbúnaðarháskóli Íslands. Sjá: rit_lbhÍ_nr_130_Ástandsrit.pdf (moldin.net)


Ólafur Arnalds og Ása L. Aradóttir (2015): Að lesa og lækna landið. Bók um ástand lands og vistheimt. Landvernd, Landgræðsla ríkisins og Landbúnaðarháskóli Íslands. Sjá: https://www.moldin.net/uploads/3/9/3/3/39332633/ad_lesa_og_l%C3%A6kna_landi.pdf.


Guy Shrubsole (2022): The Lost Rainforests of Britain. William Collins. An imprint of HarperCollinsPublishers. London SE1.

 

Sigurður Már Harðarson (2004): Horfið frá takmörkun beitar í fjalllendi. Grein í Bændablaðinu frá 6. júní 2004. Sjá: Horfið frá takmörkun beitar í fjalllendi - Bændablaðið.


Sigurður Þórarinsson (1961): Uppblástur á Íslandi í ljósi öskulagarannsókna. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1960-1961, bls. 17-54. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík. Sjá: Skógræktarritið 1960-1961 - Skógræktarfélag Íslands.


Sveinn Arnarsson (2017): Gróðursnautt land nýtt í herferð bænda. Frétt á Vísi frá 6. nóvember 2017. Sjá: Gróðursnautt land nýtt í herferð bænda - Vísir.


Frekari lestur


Finna má ýmsar gagnlegar upplýsingar á heimasíðu Ólafs Arnalds: Olafur Arnalds - soil scientist - www.moldin.net - Moldin.net Ólafur Arnalds. Þar á meðal er ritið Að lesa og lækna landið í enskri útgáfu. Sjá: To Read the Land - Olafur Arnalds. Soil and environmental scientist.


Fanney Ósk Gísladóttir, Sigmundur Helgi Brink og Ólafur Arnalds (2014): Nytjaland. Landbúnaðarháskóli Íslands.

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn eyðimerkurmyndun (United Nations Convention to Combat Desertification). Sjá m.a. Home | UNCCD.


Herdís Þorvaldsdóttir (2012): Fjallkonan hrópar á vægð. Kvikmynd um ástand lands í leikstjórn Jóns Karls Helgasonar. Sjá: Fjallkonan hropar a vaegd.


Skýrsla frá Evrópusambandinu um jarðvegseyðingu í Evrópu (2020): 3.6 Soil degradation — European Environment Agency.

















Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page