top of page

Apahrellir, Araucaria auracana

Updated: Nov 1, 2023

Einu sinni var skoskur grasafræðingur, að nafni Archibald Menzies, að fá sér að borða í Síle. Hann var þá á hringferð um heiminn með skipinu HMS Discovery og árið var 1795. Hann var ráðinn sem skipslæknir og grasafræðingur í þessa ferð, en á þeim árum fór það gjarnan saman. Skipið hafði siglt suður með vesturströnd Norður-Ameríku og var á suðurleið. Hr. Menzies (sem degli eða döglingsviður er nefndur eftir: Pseudotsuga menziesii) var í matarboði hjá landstjóranum í Santiago ásamt fleiri stórmennum. Þarna var líka skipstjórinn á HMS Discovery. Hann hét Captein Vancouver og eftir honum er nefnd eyja við strönd Norður-Ameríku. Eflaust hafa þeir félagar fengið eitthvað gott í aðalrétt. En í eftirrétt fengu þeir ýmsar hnetur. Þá varð forvitnin vakin hjá Menzies sem laumaðist til að lauma fáeinum þeirra í vasann. Þær voru af einni og sömu tegundinni. Þegar um borð í skipið var komið plantaði hann hnetunum og þær spíruðu. Fimm plöntur lifðu af þriggja mánaða siglingu alla leið til Englands. Þrjár af plöntunum færði hann kollegum sínum í Kew Gardens. Aðeins ein af þeim lifði en hún óx í garðinum í næstum heila öld. Hún drapst árið 1892.

Þetta var fyrsti apahrellirinn í Evrópu.


Ungur apahrellir framan við annan eldri. Hvorugur neitt sérstaklega gamall. Myndin tekin í Grasagarðinum í Edinborg. Þarna er nægilega bjart og nægilega mikil úrkoma til að tréð haldi greinum sínum frá toppi til táar, ef svo má að orði komast um lífverur sem ekki mynda tær. Mynd: Sig.A.


Heimkynni

Allar tegundir í þessari ættkvísl, Araucaria, lifa villtar sunnan við miðbaug. Þær lifa í Suður-Ameríku, Austur-Ástralíu, Nýju Gíneu og nokkrum eyjum Kyrrahafsins. Apahrellirinn sjálfur, A. araucana, lifir í Padagoníu í fjöllum Vestur-Argentínu og Mið-Síle í Suður-Ameríku þar sem hann vex í um 600 til rúmlega 2000 metra hæð yfir sjávarmáli. Oftast vaxa þeir ofan við lenjuskógana, Nothofagus spp. Er það enn eitt dæmi þess að dulfrævingar, sem mynda tré, leggja undir sig svæði berfrævinganna. Þeir síðarnefndu lifa fyrst og fremst þar sem dulfrævingarnir þrífast verr. Samt er rétt að halda því til haga að til eru sagnir um apahrelli mun neðar á þessum slóðum. Honum hefur nú verið eytt af duglegum aðkomumönnum og aðrar tegundir tóku þá við (Laciný).


Á þessari síðu er fjallað um skógana í Patagoniu. Þetta eru fyrst og fremst lenjur en ofar tekur apahrellirinn við. Á þessari haustmynd má þó sjá unga apahrella. Fjær sér í stærri tré.


Apahrellinn er fyrst og fremst að finna á milli 37° og 39° suðlægrar breiddar og er þjóðartré Sílebúa. Tréð vex þó ekki nema á litlum hluta landsins enda nær það frá 17° til 56° suðlægrar breiddar.

Áður fyrr var það fellt þar til að nýta timbrið, en því hefur verið hætt, enda er þetta ekki gott timburtré. Samkomulag náðist árið 1990 um bann við að fella þessi tré. Það var þó ekki gert fyrr en þeim hafði verið útrýmt af ákveðnum svæðum. Aftur á móti nýta menn fræin enn til átu.


Apahrellir á ýmsum aldri í Padegóníu. Eldfjall í baksýn. Myndin er tekin í Parque Nacional Lanin - Lago Tromen í Argentínu í um 1100 metra hæð yfir sjávarmáli. Mynd: Marek Laciný


Í Evrópu og Norður-Ameríku er þessi tré víða að finna í almenningsgörðum. Til að þau njóti sín sem best eru þau gjarnan stakstæð eða í þyrpingum fjarri öðrum trjám. Í litlum þyrpingum nýtur sín vel að trén eru einkynja og hvert með sitt svipmót þegar þau eldast. Trén eru einnig auðþekkt í görðum á þessum slóðum og vekja alltaf athygli. Apahrellir er án nokkurs vafa harðgerðasta tré sinnar ættkvíslar. Það þrífst t.d. ágætlega í Færeyjum.


Ferðamenn skoða apahrelli í Skotlandi. Sjá má aldin á trénu. Mynd: Sig.A.


Fækkun

Því miður er það svo að villtum skógum af apahrelli hefur fækkað mikið hin síðari ár þrátt fyrir að hætt sé að fella þessi tré og í raun bannað frá árinu 1990. Svo virðist sem hamfarahlýnun eigi stóran þátt í fækkuninni. Frá 1977 til 2003 minnkaði apahrellaskógurinn um 64% í Suður-Ameríku. Eldar árin 2001-2002 eyddu um 30.000 ha. skógi. Þar af drapst 71% af skógi í Malleco þjóðgarðinum í Síle. Þau tré voru talin hátt í 2000 ára gömul. Eldri en það verða þessi tré ekki. Reyndar segja sumar heimildir (m.a. Marek Laciný 2022) að þau geti orðið 1300 ára. Má vera að fréttamenn hafi bætt nokkrum öldum við trén í fréttunum af skógareldunum til að auka dramatíkina. Sumir hafa einnig áhyggjur af því að þessir villtu skógar finnast í hlíðum eldfjalla. Það getur auðvitað komið niður á skógunum ef illa fer. r er frétt Ríkisútvarpsins um skógarelda í Conguillo þjóðgarðinum árið 2015. Meðfylgjandi mynd er úr fréttinni. Þegar fréttin var skrifuð höfðu brunnið 3700 hektarar lands. Hefðbundinn landbúnaður ásamt ofbeit er einnig talin hafa sín áhrif á fækkun trjánna.Reynsla á Íslandi

Komið hefur í ljós í útlöndum að apahrellir er þolinn á allskonar jarðveg og þolir mikla öfga í veðri. Hann lifir líka hærra til fjalla en lenjurnar í Síle. Lenjur frá Eldlandi þrífast á Íslandi og af hverju ætti þá apahrellirinn ekki að geta gert það?

Samt er það svo að hingað til hefur það verið alveg á mörkunum að þessi tegund geti þrifist á Íslandi. Á því er að verða breyting. Samt er rétt að hafa það í huga og mikilvægt er að skýla þeim vel, sérstaklega fyrstu árin.

Fáein dæmi eru til um apahrella sem lifa alveg ágætu lífi hér á landi og ræktun þeirra mun sennilega aukast á næstu árum. Er það vel. Það telst vonandi kostur að rækta þessi tré utan heimkynna sinna þar sem þau eiga undir högg að sækja.


Nýspírað apahrellisfræ á Íslandi árið 2014. Mynd: Ari Egilsson.


Til að fá upplýsingar um reynslu af ræktun apahrella á Íslandi leituðum við upplýsinga á Facebooksíðu Trjáræktarklúbbsins. Eftirfarandi upplýsingar eru frá meðlimum klúbbsins og er þeim hér með þökkuð aðstoðin.

Svo virðist sem fyrsti veturinn í lífi hvers apahrellis sé sá mikilvægasti. Ef tréð lifir hann af má gera ráð fyrir að björninn sé unninn. Því mæla margir með því að yfirvetra plönturnar, fyrsta veturinn hið minnsta, í köldu gróðurhúsi.

Þetta tré var gróðursett í nágrenni Þorlákshafnar ásamt fleiri trjám af sömu tegund árið 2019. Myndin tekin ári síðar. Allir apahrellirnir sem komust óskaddaðir í gegnum fyrsta veturinn eru við hestaheilsu í júlí 2022. Ú sömu sáningu voru 20 plöntur geymdar í köldu gróðurhúsi einn vetur og plantað í Esjuhlíðar. Allar geisla þær af hreysti, nema ein, sem lenti í sláttuorfi sumarstarfsmanns. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.


Sólveig Jónsdóttir er með þrjár plöntur í sumarbústaðalandi sínu í Hvalfjarðarsveit. Uppruni þeirra er mismunandi en allir standa þeir sig vel. Ein þeirra hefur aðeins skemmst í vetur en hinar tvær eru alveg óskemmdar. Annarri þeirra er skýlt með vörubrettum. Myndir: Sólveig Jónsdóttir.


Frægasti apahrellir landsins er sennilega sá sem er í Grundargerði í Smáíbúðarhverfinu í Reykjavík. Að sögn Axels Kristinssonar var það faðir hans, Kristinn Helgason, sem gróðursetti hann árið 1985. Nú er búið að selja húsið en apahrellirinn fær, sem betur fer, enn að vera þarna. Hann er orðinn meira en fjórir metrar á hæð. Mynd: Ari Egilsson. Myndvinnsla: Sig.A.


Vetrarmynd af apahrellinum í Grundargerði í Reykjavík.

Mynd Axel Kristinsson.


Ólafur Sturla Njálsson gróðursetti sjö apahrelli í skjólgóðan stað undir lerkiskermi í Nátthaga í Ölfusi. Gróðursetningin fór fram í október 2021. Allar voru plönturnar sjö ára gamlar við gróðursetningu. Þær fóru alveg á kaf í snjó en komu allar óskemmdar undan sínum fyrsta vetri.


Í Borgarnesi er að minnsta kosti einn apahrellir í garði. Hann hefur verið þar í tvo vetur en lítið vaxið.


Í Eyjafirði er ekki mikið um apahrelli. Elvar Óskarsson, sem mörgum ræktunarmönnum á Akureyri er vel kunnur, enda mesti eplaræktandi bæjarins, er með örfáa tré í uppeldi. Enn hefur ekki reynt mikið á þær.

Í Hrísey hefur Frank Widemann ræktað apahrelli í garði sínum í þrjú ár. Honum hefur verið skýlt með furugreinum yfir veturinn.

Apahrellir í Hrísey. Mynd: Frank Widemann


Sjálfsagt má finna þessa tegund víðar um landið enda flutti Trjáræktarklúbburinn inn fræ fyrir nokkrum árum. Gaman verður að fylgjast með þeim öllum á næstu árum. Hver veit nema þau verði algeng og áberandi innan fárra áratuga.


Lýsing

Apahrellir er ekki líkur neinu öðru tré sem við þekkjum. Hann er sígrænt barrtré, sem verður um 15-40 metrar á hæð og með stofna sem geta náð um 1 metra þvermáli. Stöku tré geta þó orðið enn hærri. Jafnvel allt að 50 m. Rætur þeirra geta náð í allt að 50 metra frá stofni.

Eins og títt er hjá barrtrjám myndar það köngla. Þeir eru mjög ólíkir þeim könglum sem við helst þekkjum. Flest barrtré á Íslandi tilheyra þallarætt. Ólíkt þeim barrtrjám er apahrellirinn einkynja. Hvert tré er annað hvort karltré, sem ber karlblóm, eða kventré, sem ber kvenblóm sem þroskast í köngla sem bera fræ.


Aldin á apahrelli. Myndir: Marek Laciný


Fræ þessi eru borðuð í Suður-Ameríku. Blóm og könglar eru nokkuð lengi á trénu. Karlblómin eru vanalega saman, eitt til sex, í einskonar kippu og verða um 8-12 cm að stærð. Þau eru græn framan af og losa frjó sín á miðju sumri. Eftir það brúnka þau en hanga á trénu í nokkra mánuði. Það er fremur óvenjulegt meðal trjáa. Flest tré eru fljót að losa sig við karlblómin þegar ekki er lengur þörf á þeim. Kvenblómin eru glansandi græn og mynda græna köngla sem geta orðið um 14-20 cm í þvermál. Þeir brúnka þegar fræin þroskast og geta verið allt að 200 fræ í hverjum. Fræin eru líta út eins og hnetur og verða um 4 til 5 cm á stærð og vega um 2 til 6 grömm. Fullþroskaðir könglar falla í sundur. Þetta ferli tekur um 18 mánuði hið minnsta og eru fræin vanalega að fullu þroskuð í mars og apríl.

Í forgrunni er ungur apahrellir. Handan hans er karltré með brúnum blómum. Mynd: Sig.A.


Greinar og sprotar

Greinabygging allrar ættarinnar er mjög einföld. Tiltölulega fáar greinar eru á hverju tré. Krónan er því mjög opin og varpar litlum skugga. Tré eiga það til að missa neðri greinarnar. Er það meira áberandi í þurru loftslagi og þegar tréð vex með öðrum trjám sem varpa skugga. Þá verða bara fáar greinar efst á trénu og krónan verður dálítið eins og regnhlíf í laginu. Sprotarnir eru grænir og geta verið það í mörg ár. Að lokum verða þeir að brúnum greinum sem oft eru nánast þaktar grænu, stingandi laufi, ef lauf skyldi kalla.

Flestir lesenda þekkja sjálfsagt hvernig tré af þallarætt, svo sem greni og fura, vaxa. Þau mynda sprota á hverju ári og á enda þeirra myndast brum sem hefja vöxt næsta ár. Fljótt á litið mætti ætla að þannig væri það einmitt hjá apahrellinum. En það er ekki svo. Apahrellir myndar engin brum. Hann hættir bara að vaxa þegar kólnar og heldur svo áfram þegar hlýnar. Hver sproti getur vaxið í nokkur ár áður en honum dettur í hug að mynda nýjar greinar. Þetta á stóran þátt í því hversu opin krónan er.

Íslenskur ferðamaður skoðar greinar á apahrelli í Skotlandi. Svona ung tré hafa annað mynstur á stofni en eldri tré. Mynd: Sig.A.


Laufið, ef lauf skyldi kalla

Eins og aðrir berfrævingar hefur apahrellir óhefðbundin lauf. Þau eru ummynduð í eins konar barr. Það er leðurkennt, þríhyrningslaga og oddhvasst og gjörólíkt því barri sem við þekkjum á hefðbundnum barrtrjám. Sumar heimildir herma að þetta sé hreint ekki barr, heldur lauf. Hvort sem þetta er barr eða lauf þá vex það í nokkurs konar vöndlum frá endum hverrar greinar. Að auki eru gallar greinar þakktar þessu barrlaufi og hvassir endarnir gera óárennilegt að reyna að klifra upp eftir því. Má vel vera að þróunin hafi einmitt tekið mið af því. Ef svo er var það þó ekki til að verjast öpum, heldur einhverjum tegundum af risaeðlum. Apar komu ekki til sögunnar fyrr en löngu síðar. Hvert lauf eða barr verður á trénu í um 10-15 ár og endurnýjast þá.

Það er ekki freistandi að grípa fast um svona greinar. Mynd: Sig.A.


Börkur

Eitt af eftirtektarverðum einkennum apahrellis er börkurinn. Hann er grár eða dökkgrár á litinn. Hann myndar sérstaklega falleg rúmfræðileg mynstur. Í því sjást gjarnan hringir eftir greinar sem fallið hafa af. Börkurinn á ungum trjám er eins og raðað hafi verið löngum, flötum og ílöngum hyrningum lárétt upp eftir öllum stofninum. Þegar tréð eldist verða þessar flögur á berkinum óreglulegri. Þessu mynstri hefur verið líkt við húðina á fótum fíla. Börkurinn getur verið býsna þykkur eða allt að 15 cm og ver tréð fyrir öfgum í hitafari sem eru tíðir á heimaslóðum.


Börkur á þroskuðum apahrelli. Mynd: Marek Laciný


Börkurinn á ungum apahrellum lítur öðruvísi út en á þeim gömlu.

Mynd: Sig.A.


Við getum kallað þetta börk á miðaldra apahrelli. Sjá má hvar greinar hafa verið sem nú eru fallnar af. Myndin er fengin héðan.

Listmálarinn Marianne North teiknaði þennan börk árið 1884 í Síle og sagði að hann væri eins og fullkomið púsluspil fyrir börn, búið til úr flötum fimm- og sexhyrningum sem raða mætti saman eins og býflugnabúi.

Teikning eftir Marianne North af apahrelli í Síle.


Náttúrusaga

Apahrellir er ævagömul tegund. Má jafnvel líta á hann sem eins konar lifandi steingerving. Tegundin hefur vaxið í heiminum allt frá tímum risaeðlanna. Þessi ætt trjáa, Araucariaceae, var upp á sitt besta fyrir um 245 milljónum ára til um 65 milljónum ára, samkvæmt Tudge (2005). Til samanburðar má nefna að apar komu fyrst til Suður-Ameríku fyrir um 30 milljónum ára. Þegar þessi tré voru upp á sitt besta voru heimsálfurnar enn fastar saman í eitt, stórt meginland. Á þessum forsögulega tíma lifðu þessi tré um nánast allan heim.

Apahrellir á sendinni strönd í Argentínu. Jarðvegseyðing gerir rótum trjánna erfitt fyrir. Mynd: Marek Laciný.


eru til um 40 tegundir af þessari fornu trjáaætt í þremur ættkvíslum. Allar lifa þær eingöngu villtar á suðurhelmingi jarðkringlunnar. Ættin er nefnd eftir ættkvíslinni sem apahrellirinn er af. Hún heitir Araucaria. Innan þeirrar ættkvíslar eru 19 tegundir. Þar af vaxa 13 þeirra aðeins á Nýju Kaledóníu. Fyrir utan aparellinn frá Síle og Argentínu er önnur tegund allvel þekkt á Íslandi. Það er Auraucaria heterophylla. Hún kallast stofugreni á íslensku, en er auðvitað ekkert greni. Stofugreni er ræktað sem skrauttré víða um heim þar sem veðurlag hentar, en hér er tegundin stundum ræktuð sem stofublóm, ef kalla má berfrævinga blóm.


Stofugreni, Auraucaria heterophylla, er stundum ræktað sem stofublóm á Íslandi. Það er af sömu ættkvísl og apahrellir, Araucaria auracana. Myndin fengin af þessari sölusíðu.


Best þekkta tré ættkvíslarinnar er samt apahrellirinn. Hann heitir Araucaria araucana á latínu. Latínuheitið sýnir ef til vill hversu mikilvægt tréð er innan ættarinnar. Öll þrjú heitin (ættin, ættkvíslin og tegundin) hafa sama orðstofninn. Þetta er einkennistré ættkvíslarinnar sem er einkennisættkvísl ættarinnar!

Hinir fáu skógar náttúrulegra apahrellistrjáa í Suður-Ameríku eru stórkostleg sjón. Þeir geta sýnt okkur hvernig skógar litu út, löngu áður en apar og menn gengu um þessa jörð.


Fjallshlíð með apahrelli í Huerquehue þjóðgarðinum í Síle. Myndin er tekin í um 1300 metra hæð yfir sjávarmáli. Ekki er að sjá að þarna sé mikill jarðvegur. Mynd: Marek Laciný.


Apahrellir virðist þola býsna margt. Myndin fengin héðan.


Sagan

Upp úr miðri 19. öld varð apahrellir vinsæll á Bretlandseyjum. Það þótti dálítið merkilegt að eiga eintak af svona undarlegri trjáplöntu. Þess vegna var þeim gjarnan plantað nærri húsum á þannig stöðum að hægt væri að dást að plöntunni út um glugga. Á þeim tíma höfðu menn ekki alveg áttað sig á því að tréð getur orðið stór. Meira að segja mjög stórt. Því miður varð þetta til þess að mörg þessara trjáa þurftu að víkja þegar þau uxu. Minnir þetta dálítið á sögu alaskaaspa í görðum á Íslandi.

Ung tré af apahrelli í Grasagarðinum í Edinborg. Mynd: Sig.A.


Frægasta safn apahrellistrjáa á Englandi er að finna í Devon í Englandi. Því var plantað árið 1844 af sjálfum James Veitch, sem stóð að innflutningi trjánna tveimur árum áður. Sjá nánar í næsta kafla. Veitch vildi búa til trjágöng úr þessum trjám sem stæði saman af tveimur röðum með 25 trjám í hvorri. Raðirnar ná yfir 500 metra og mynda stærstu trjágöng apahrellis í gjörvallri Evrópu og stendur enn. Mesta þvermál krónu í þessum trjágöngum er fjórir metrar og hæsta tréð er um 30 metra hátt.


Nafnið

Í inngangskafla þessa pistils segir frá því þegar apahrellir barst fyrst til Evrópu. Á þeim tíma gekk hann undir nafninu sílefura (Chile pine) eða Araucarian pine. Á ensku eru hinir ýmsu barrviðir oft nefndir furur (pine). Það er svipað og með rósaheitið í íslensku. Ýmsar plöntur, t.d. eyrarrós og engjarós, eru kenndar við rósir á íslensku þótt þær séu ekki rósir.


Ungur apahrellir í potti á Íslandi. Myndin fengin af Wikipediu.

Svo gerðist það árið 1842 að plöntusafnari að nafni William Lobb fór að safna fræi af sílefuru, eins og hún var þá nefnd. Þetta er sami Lobb og kom við þessa sögu af risafuru. Hann var sendur til Síle af James Veitch sem sérhæfði sig í ræktun sjaldgæfra og framandi plantna. Veitch þekkti plöntuna frá Kew og þótti hún spes. Lobb fór upp í fjöllin í Síle í leit af þessum trjám. Sagan segir að hann hafi verið fremur illa búinn til fjallaferða og verið alveg ískalt. En hann var einbeittur. Hann fann réttu trén, en sér til hrellingar voru könglarnir hátt í trjánum. Hann dó þó ekki ráðalaus, heldur skaut þá niður með haglabyssu. Þannig tókst honum að safna 3000 fræjum. Þegar til Englands kom spíruðu fræin vel og trén urðu vinsæl. Einn af þeim sem keypti plöntu var þingmaður að nafni Sir William Molesworth. Greiddi hann góða summu fyrir tréð. Hann hélt auðvitað veislu til að sýna vinum sínum þessa sérstöku plöntu. Í veislunni var Mættur lögfræðingur að nafni Charles Austin. Hann skoðaði plöntuna með höndunum og sagði: „It would be a puzzle to a monkey“ eða: „Þetta gæti hrellt apa“. Þessi saga er til í nokkrum útgáfum, en síðan hefur tréð verið kallað Monkey puzzle á ensku. Á íslensku er því prýðilegt að nefna tréð apahrelli. Eins og fram kemur hér að ofan er þó tréð mun eldri tegund en allir apar heimsins. Því hefur þetta nafn pirrað margan, fróðan manninn.


Apahrellir í Egersund í Noregi skreyttur sem jólatré.


Árið 1884 fór listmálarinn Marianne North víða um heim til að mála tré og blóm. Hún fór til Síle til að mála apahrelli. Hún skrifaði bók um ferðalög sín og sagði að þetta nafn væri ekki beinlínis viðeigandi því í Síle væru engir apar sem tréð kynni að hrella. „Sennilega fóru þeir allir í burtu vegna viðbjóðs á þessum oddhvössu plöntum.“ Skrifaði hún í dagbók sína (Wells 2010). Fyrir andlát sitt ánafnaði North teikningum sínum til Kew Gardens þar sem enn eru til sýnis meira en 800 verk. Sumt af þeim má skoða nánar á þessari slóð. og hér má lesa um þessa merku konu. Ein mynda hennar er ofar í þessum pistli.

Skógar apahrellis eru náttúruundur. Mynd: Marek Laciný


Latínuheitið

Hér að ofan kemur fram að apahrellirinn heitir Araucaria auracana á latínu og er algert erkitré í ætti sinni. Fyrstu trén sem grasafræðingar kynntust voru frá héraði í fjöllum Síle sem kallað hefur verið Arauco. Þaðan er nafnið komið. Þetta nafn héraðsins hefur nú vikið fyrir nafninu sem frumbyggjarnir nota og heitir Mapuche en gamla heitið lifir í fræðiheiti trjánna.


Pehuen

Héraðið Mapuche er heimkynni Pehuenche þjóðarinnar. Í þeirra menningu skiptir þetta tré miklu máli. Þeir nefna tréð stundum móðurtré upp á sína tungu. Það þykir þeim er þetta ritar fallegt nafn. Opinberlega heitir tréð Pehuen eða Pewen á þeirra tungu. Þeir líta á tréð sem mikilvæga áminningu um gildi jafnvægis milli kynjanna. Eins og sjá má er nafnið Pehuen af sama stofni og nafn þjóðarinnar Pehuenche. Sýnir það mikilvægi trésins í menningu þeirra.

Fræ apahrellis hefur öldum saman verið nýtt af þessu fólki sem mikilvæg fæða. Þar eru fræin, eða hneturnar, nefndar gijiw. Þær eru borðaðar hráar, soðnar eða steiktar. Úr þeim má einnig búa til mjöl sem notað er í brauð og drykki. Drykkurinn sem gerður er úr gijiw gegnir hlutverki við trúarathafnir heimamanna og á að tryggja jafnvægi í náttúrunni. Pehuenche þjóðin og aðrir íbúar Mapuche líta á það sem heilaga skyldu sína að vernda þessa trjátegund. Það er þó ekki alltaf auðvelt. Hnattræn hlýnun, skógareldar, eldgos, jarðvegseyðing, aurskriður og snjóflóð eru helstu hætturnar sem steðja að. Samt er það svo að þessi tré hafa svo lengi þróast í hlíðum eldfjalla að þol þeirra gegn áföllum af þeirra völdum hefur vakið aðdáun. Að vísu þola þau ekki hraunflóð frekar en önnur tré en eldri tré þola öskufall ótrúlega vel. Jafnvel þótt heill metri af ösku falli á trén vaxa þau ljómandi vel. Heit aska á það til að svíða laufið (eða barrið, ef við viljum nota það orð) af trjánum en þau laufgast aftur þegar betur árar og halda áfram að vaxa.

Þegar vegir eru lagðir um Mapuche í Síle reyna menn, eins og hægt er, að vernda apahrellinn. Mynd: Marek Laciný

Þau sem vilja skoða fleiri myndir af apahrelli er bent á þessa Facebooksíðu. Þar er eingöngu fjallað um þessa tegund. Myndin af apahrelli sem jólatré er af þessari síðu.


Heimildir:

Bjarni Diðrik Sigurðsson (2025) Náttúruskógar í Síle í S-Ameríku. Í: Skógræktarritið 2015 2. tbl. bls. 55-63. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.

Keith Rushforth (1999):Trees of Britain & Europe. A photographic guide to the trees of Britain and Europe. Harper Collins Publishers, London.


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Simon Wills (2018): A History of Trees. Pen & Sword White Owl. Barnsley 1 South Yorkshire.


Marek Laciný, Náttúrufræðingur: Munnlegar heimildir í júlí 2022. Marek hefur ferðast um og kynnt sér skóga í Padegoníu, bæði í Argentínu og Síle.


Netheimilda er getið í texta þar sem það á við.


548 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page