top of page

Lenja

Updated: Apr 23, 2023

Árið 1520 fann Magellan sund í gegnum suðurhluta Suður-Ameríku sem síðan er við hann kennt. Þá þurfti ekki lengur að sigla fyrir Hornhöfða til að komast úr Atlantshafi yfir í Kyrrahaf. Þegar hann sigldi, fyrstur Evrópumanna, í gegnum sundið sá hann víða mikinn reyk stíga upp af hinni stóru eyju sem er fyrir sunnan sundið. Þar voru frumbyggjar landsins að halda á sér hita með varðeldum. Vegna þessara elda kölluðu skipverjar landið Tierra del Fuego eða Eldland. Svo heitir landið enn í dag.

Hvað kemur þessi frásögn tré vikunnar við?

Jú, frá Eldlandi hafa borist plöntur til Norður-Evrópu. Þar á meðal eru lenjur eða suðurbeyki (Nothofagus). Lenja er #TrévikunnarSE að þessu sinni.


Nafnið

Lenjur (Nothofagus) eru skyldar beyki (Fagus) og eru áþekkar í vexti. Þaðan er fræðiheitið komið. Það merkir eitthvað í líkingu við gervibeyki eða falskt beyki. Á ensku er tegundin kölluð Southern Beeches og þaðan er nafnið suðurbeyki komið. Hér á landi hefur þó heitið sem íbúar Eldlands nota unnið á. Heimamenn kalla þetta tré Lenga, upp á spænsku. Í þeirra munni er það nokkuð nálægt íslenska heitinu lenja. Það er að auki mun þjálla í samsetningum en suðurbeyki.

Til eru að minnsta kosti 25 tegundir lenja á suðurhveli jarðar og finnast m.a. í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Tasmaníu auk Suður-Ameríku. Tvær tegundir þrífast hér á landi og koma þær báðar frá Eldlandi.


Saga

Það var árið 1951 sem Sturla Friðriksson varð fyrstur manna til að flytja hingað plöntur og fræ frá þessu fjarlægja landi. Æði misjöfn voru þrif þeirra fyrsta kastið hér á landi. Meðal þessara plantna voru lenjur en óvíst er um afdrif þeirra.

Svo var það 40 árum síðar, árið 1991 að hingað bárust aftur plöntur frá Eldlandi. Það ár fóru þeir Pétur N. Ólason (Per í Mörk), Jón H. Björnsson og Guðmundur T. Gíslason þangað í söfnunarferð. Töluverðum efnivið var safnað í ferðinni og gerðar ræktunartilraunir með hann í gróðrarstöðinni Mörk sem Per rak á þessum tíma. Skemmst er frá því að segja að flest þreifst hér illa eða alls ekki. Sumt af þessu efni var reynt í Færeyjum og þreifst þar mikið betur en hér. Báðar lenjutegundirnar sem hér finnast í dag, snælenja (Nothofagus antarctica) og hvítlenja (Nothofagus pumilio) reyndust hér þó alveg ágætlega og mjög vel í Færeyjum. Þar eru lenjur nokkuð algengar í görðum Þórshafnarbúa, enda er þar minna frost á vetrum en í Eyjafirði. Því var það að pistlaritari hafði lengi takmarkaða trú á því að lenjur gætu þrifist á Íslandi nema þá helst í hafrænu loftslagi höfuðborgarsvæðisins. Einn góðan veðurdag sá hann báðar tegundirnar af lenju í Skrúðgarðinum á Húsavík og snarskipti um skoðun. Lenjur þrífast hér ágætlega ef þær fá sæmilegt skjól í uppvexti.


Tegundir

Snælenja (Nothofagus antarctica) og hvítlenja (Nothofagus pumilio) eru áþekkar og svo virðist sem þeim sé ruglað nokkuð saman. Það er helst að skoða hvernig tennurnar raðast á blöðin til að skera úr um hvora tegundina er um að ræða. Báðar tegundirnar hafa fremur smá laufblöð en vöxtur og greinabygging minnir á beyki. Tennur snælenjunnar eru óreglulegar en tennurnar á hvítlenjunni eru alltaf tvær á milli æðanna sem eru áberandi í blöðunum.


Til vinstri er snælenja og til hægri er hvítlenja. Hvítlenjan stendur sig þarna betur enda hefur snælenjan fokið um koll í miklu roki. Því er hún nú bundin við staur. Eins og sjá má er hún hærri en hvítlenjan. Myndin tekin í skrúðgarði Húsvíkinga.

Ræktun

Reynsla manna af ræktun beggja tegunda er æði misjöfn og kann að skipta máli að þær hafi með sér réttar sambýlisbakteríur ef þær eiga að þrífast. Í Færeyjum er vel þekkt að sérstakir rótarsveppir fylgja lenjum en þeir eru ógreindir á Íslandi. Hin síðari ár hefur ræktunin almennt gengið betur en hún gerði áður. Má vera að hlýrri sumur hafi eitthvað með það að gera eða réttir sambýlingar nema hvort tveggja sé.

Myndirnar sem hér fylgja eru teknar á Húsavík, í trjásafninu í Melatungu í Kópavogi og í Sólskógum í Kjarnaskógi.


Lauf snælenju. Tennurnar eru óreglulegar.

Stór og stæðileg lenja á Húsavík.

Þátttakendur á aðalfundi SÍ skoða snælenju í Kópavogi árið 2019.

Snælenjur á sölusvæði Sólskóga.

Ung og efnileg snælenja.


141 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page