top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Líffjölbreytileiki í skógum

Ræktaðir skógar draga úr líffræðilegum fjölbreytileika á Íslandi.“

Margur skógræktarmaðurinn hefur undrast ofangreinda fullyrðingu og aðrar í sama dúr sem stundum er haldið fram af andstæðingum skógræktar á Íslandi. Þessu er jafnvel haldið fram af þeim sem vita að ræktaðir skógar þekja aðeins um hálft prósent landsins. Þar fyrir utan þekja birkikjarr og -skógar um 1,5%.

Sá sem þetta skrifar verður reyndar að játa að hann gleðst innilega í hjarta sínu þegar hann heyrir fólk halda svona löguðu fram. Ástæðan er sú að hann er svo hamingjusamur að heyra að fólk telur að skógar Íslands geti breytt svo mikið úr sér að þeir geti orðið til vandræða. Svona segir enginn sem ekki hefur stórkostlegt álit á íslenskum skógum og mætti þeirra.

Aftur á móti má nálgast þetta frá öðru sjónarhorni. Hvernig metum við líffjölbreytileika eða líffræðilega fjölbreytni yfir höfuð? Hvaða hugtök skipta þarna máli og hvaða lög hafa verið samþykkt er lúta að efninu?

Þessari grein er ætlað að skoða þessi mál.

Greinin er að stórum hluta byggð á hugleiðingum fyrrum framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Eyfirðinga, Jóns Kr. Arnarsonar og spjalli hans og höfundar um málið. Í framhaldinu munum við svo birta annan pistil þar sem kafað verður dýpra í líffjölbreytni skóga. Óhjákvæmilegt er að efni þessara pistla muni eitthvað skarast.

Fjölbreyttur og fallegur skógur við bæinn Dollar í Skotlandi. Mynd: Sig.A. 22. ágúst 2025.
Fjölbreyttur og fallegur skógur við bæinn Dollar í Skotlandi. Mynd: Sig.A. 22. ágúst 2025.

Lög um náttúruvernd

Þann 10. apríl 2013 voru samþykkt lög á hinu háa Alþingi um náttúruvernd. Eru það lög númer 60 það árið og má skoða hér.

5. grein þessara laga nefnir til sögunnar þær skilgreiningar sem fara skal eftir. Dugar ekki minna en að hafa þarna einar 29 skilgreiningar sem raðað er í stafrófsröð. Þrettánda skilgreiningin fjallar um líffræðilegan fjölbreytileika og er svohljóðandi: „Líffræðileg fjölbreytni: Breytileiki meðal lifandi vera á öllum skipulagsstigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa.“

Til að meta meintan skaða af skógrækt á Íslandi er líka gott að hafa þriðju skilgreininguna í huga. Hún er svona: „Ágeng framandi lífvera: Framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni.“

Til að átta okkur á þessari skilgreiningu verðum við að vita hvað „framandi lífvera“ er. Áttunda skilgreiningin svarar því: „Framandi lífverur: Tegund eða lægri flokkunareining, svo sem afbrigði, kyn eða stofn, þ.m.t. lífhlutar, kynfrumur, fræ, egg eða dreifingarform sem geta lifað af og fjölgað sér, sem menn hafa flutt vísvitandi eða óvitandi út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði.“ Ekki verður betur séð en þessi skilgreining geri til dæmis allan, íslenskan búsmala að framandi lífverum því hann kom hingað með mönnum. Breytir þá engu þótt við teljum húsdýrin íslensk.

Gott er að hafa ofangreindar orðskýringar í huga við áframhaldandi lestur.

Í Hekluskógaverkefninu hefur nær berum melum verið breytt í skóga, fyrst og fremst birkiskóga. Til að auka vöxt og gera vistkerfin öflugri öflugri hefur meðal annars verið sáð lúpínu. Mynd: Sig.A.
Í Hekluskógaverkefninu hefur nær berum melum verið breytt í skóga, fyrst og fremst birkiskóga. Til að auka vöxt og gera vistkerfin öflugri öflugri hefur meðal annars verið sáð lúpínu. Mynd: Sig.A.

Því miður er ekki farið nánar út í það í lögunum að skilgreina „náttúrulegt fornt eða núverandi útbreiðslusvæði.“ Því er ekki alveg ljóst hvar á landinu planta megi íslenskri blæösp án þess að hún kunni að teljast framandi. Sama á við um stofna af birki, svo sem Bæjarstaðabirki. Sennilega telst það framandi þegar því er plantað í aðra landshluta. Því hefur hópur manna í auknum mæli viljað fjölga svokölluðu „staðarbirki“ og nota það til landgræðslu þegar hægt er. Gildir þá einu hvort staðarbirkið er til orðið vegna erfðablöndunar við fjalldrapa í kjölfar aldalangrar ofbeitar.

Þetta vekur upp spurningar um hvort það geti virkilega verið hugsunin að rangt sé að planta fallegu, beinvöxnu birki í skóga og skógarjaðra þegar land er tekið til skógræktar. Slík tré geta auðveldlega myndað fræ með staðarbirkinu, ef það er til staðar. Er betra að birkið sé kræklóttur blendingur birkis og fjalldrapa? Er hægt að mæla gegn því að planta birki í skógarreiti jafnvel þótt staðarbirkið myndi lítið eða ekkert fræ, eins og þekkist sums staðar? Við vitum að við fáum aldrei sömu skógana og voru hér við landnám. Í því sambandi má minna á orð franska heimspekingsins Voltaire. Hann hafði áhyggjur af því að það að keppa að ómögulegri fullkomnun gæti komið í veg fyrir að eitthvað verði gert sem er gott eða fullnægjandi. Því spurði hann: „Er rétt að láta hið fullkomna verða fjandmann hins góða?“ Þegar sá er þetta ritar var skógarbóndi mátti finna náttúrulegt, kræklótt birki á nokkrum stöðum í landinu sem tekið var til skógræktar. Á því svæði sem finna mátti birkikjarr var öðrum trjám ekki plantað svo neinu næmi. Engar tilraunir voru gerðar til að reyna að fjölga þessu staðarbirki í gróðrarstöðvum enda líklegt að það gæti sáð sér út þegar landið var friðað fyrir beitaránauð. En hvað með skógarjaðra og skjóltré á skógræktarlandinu? Mátti planta þar birki sem gæti myndað fræ með staðarbirkinu, eða væri réttara að planta engu birki? Má rækta stórvaxið og fallegt birki ef kjarr er á svæðinu?

Hér má sjá lauflaust staðarbirki austur í Skriðdal. Þarna eru líka aðrar trjáplöntur meðal annars birki sem ættað er frá Bæjarstað og er farið að laufgast. Það vex umtalsvert betur en staðarbirkið. Getur verið að það sé slæmt að planta því þarna ef það gæti kynbætt staðarbirkið? Mynd: Sig.A.
Hér má sjá lauflaust staðarbirki austur í Skriðdal. Þarna eru líka aðrar trjáplöntur meðal annars birki sem ættað er frá Bæjarstað og er farið að laufgast. Það vex umtalsvert betur en staðarbirkið. Getur verið að það sé slæmt að planta því þarna ef það gæti kynbætt staðarbirkið? Mynd: Sig.A.

Tvö hugtök

Áður en lengra er farið er rétt að skilgreina tvö hugtök. Annars vegar líffélag og hins vegar vistkerfi. Þetta eru skyld hugtök en gott er að vita muninn á þeim.

Líffélag nær yfir allar lífverur sem lifa saman í tilteknu búsvæði. Þessar lífverur hafa áhrif hver á aðra á margvíslegan hátt.

Vistkerfi er hugtak sem nær yfir líffélag á hverju svæði fyrir sig og lífvana þætti umhverfisins. Lífvana þættir geta átt við um jarðveg, vatn, skjól, hæð yfir sjó og margt fleira. Þegar hér á eftir er talað um líffélög og vistkerfi eru þetta þær hugmyndir sem liggja að baki. Seinna munum við birta eins konar framhaldspistil sem heitir Hástig líffjölbreytni: Skóglendi. Í honum förum við betur í þessi hugtök.

Þegar þessi mynd var tekin snéri ljósmyndarinn baki í landgræðsluskógrækt sem er sambærileg við mynd númer tvö í þessum pistli. Sjá má eina lúpínu til hægri á myndinni. Hún mun örugglega leggja þetta land undir sig og auka frjósemi þess. Er það gott eða slæmt? Mynd: Sig.A.
Þegar þessi mynd var tekin snéri ljósmyndarinn baki í landgræðsluskógrækt sem er sambærileg við mynd númer tvö í þessum pistli. Sjá má eina lúpínu til hægri á myndinni. Hún mun örugglega leggja þetta land undir sig og auka frjósemi þess. Er það gott eða slæmt? Mynd: Sig.A.
Til samanburðar er mynd úr Kjarnaskógi. Þar var skóglaust og þungbeitt land áður en Skógræktarfélagið tók við því. Það var að vísu ekki jafn illa farið og landið hér að ofan en inn á milli voru uppblásnir melar. Í suma þeirra var plantað lerki. Nú eru þetta gjörólík vistkerfi þótt svo hafi ekki alltaf verið. Mynd: Sig.A.
Til samanburðar er mynd úr Kjarnaskógi. Þar var skóglaust og þungbeitt land áður en Skógræktarfélagið tók við því. Það var að vísu ekki jafn illa farið og landið hér að ofan en inn á milli voru uppblásnir melar. Í suma þeirra var plantað lerki. Nú eru þetta gjörólík vistkerfi þótt svo hafi ekki alltaf verið. Mynd: Sig.A.

Mismunandi skalar

Til að meta líffjölbreytileika horfa fræðimenn gjarnan til þriggja kvarða eða skala.

Þessir þrír skalar eru nefndir eftir fyrstu þremur stöfunum í gríska stafrófinu. Þeir heita alpha, sem við ættum auðvitað frekar að skrifa sem alfa (α), beta (β) og gamma (γ). Munurinn er sá að á alfaskala er fjölbreytileikinn metinn á tilteknu svæði vistkerfisins, venjulega með því að telja fjölda tegunda. Betaskalinn er notaður til að meta breytileikann á milli vistkerfa eða hluta vistkerfa. Gammaskalinn er notaður til að meta breytileikann á stóru landfræðilegu svæði. Þetta má einnig orða svona: Á alfaskala er metinn fjöldi tegunda lífvera í afmörkuðum hluta vistkerfis. Á betaskala er metinn breytileiki tegunda milli svæða innan líffélaga eða vistkerfa. Á gammaskala er metinn líffræðilegur fjölbreytileiki á stóru landsvæði.

Verður nú aðeins sagt frá hverjum skala og byggt á þessari heimild. Þar er frá því sagt að skilgreiningarnar hafi verið settar fram árið 1972 af manni að nafni R. H. Whittaker (Samanthi 2021).

Miðhálsstaðaskógur í Öxnadal er í umsjá Skógræktarfélags Eyfirðinga. Hvaða skala ætli sé heppilegast að nota til að meta líffjölbreytni skógarins? Mynd: Sig.A.
Miðhálsstaðaskógur í Öxnadal er í umsjá Skógræktarfélags Eyfirðinga. Hvaða skala ætli sé heppilegast að nota til að meta líffjölbreytni skógarins? Mynd: Sig.A.

Alfaskali

Á alfaskala er metinn fjöldi tegunda lífvera í afmörkuðum hluta vistkerfis.

Þegar lagðir eru út mælireitir innan tiltekinna vistkerfa og lífverur taldar (til dæmis á reitum sem eru 1x1 metri að stærð) er verið að mæla innan alfaskala. Skalinn er notaður til að telja allar lífverur sem staddar eru á viðkomandi úttektarreit þegar mælingin fer fram. Oft eru slíkir reitir það vel afmarkaðir og merktir að hægt er að endurtaka mælinguna á fárra ára fresti til að meta þær breytingar sem orðið hafa. Þannig getur alfaskali gefið okkur gott yfirlit yfir líffjölbreytileika á tilteknu svæði. Skalinn er samt miklu minni en beta- og gammaskalar (Samanthi 2021). Einhverra hluta vegna virðist það vera býsna algengt í úttektum á Íslandi að telja fyrst og fremst æðplöntur (stundum nefndar háplöntur) á alfaskala. Stundum fylgja einnig mosar, fléttur og aðrar einfaldari (sumir segja frumstæðari) plöntur en sjaldnast er reynt að telja fulltrúa annarra lífsforma eins og ætla mætti að gera þurfi þegar skilgreiningar lagatexta eru skoðaðar.

Votlendi í birkiskógi. í lögum um náttúruvernd segir: „Líffræðileg fjölbreytni: Breytileiki meðal lifandi vera á öllum skipulagsstigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa.“ Mynd: Sig.A.
Votlendi í birkiskógi. í lögum um náttúruvernd segir: „Líffræðileg fjölbreytni: Breytileiki meðal lifandi vera á öllum skipulagsstigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa.“ Mynd: Sig.A.

Betaskali

Þegar meta skal líffjölbreytileika á milli svæða er gripið til betaskala. Hægt er að nota skalann til að bera saman breytileika innan líffélaga og vistkerfa. Þá eru einkennistegundir hvers svæðis metnar og taldar eða bornar saman við nærliggjandi svæði. Ef margir úttektarreitir á alfaskala eru nýttir má nota þær úttektir til að meta breytileikann á betaskala. Þá er munurinn á milli mælireita metinn. Eftir því sem munurinn er meiri milli mælireita telst líffjölbreytileikinn meiri á betaskala. Myndin hér að ofan sýnir þetta ágætlega. Allt aðrar lífverur eru í mýrinni en í skóginum.

Dæmi: Gefum okkur að í mælireit A séu 8 tegundir sem ekki finnast í mælireit B og að í mælireit B séu 3 tegundir sem ekki finnast í A. Þá er breytileikinn á betaskala 11. Þetta er alveg óháð því hversu margar tegundir eru í hvorum mælireit. Skalinn er einnig nýttur til að meta hversu auðveldlega lífverur geta ferðast á milli vistkerfa. Oft eru það athafnir manna sem hindra för lífvera á milli svæða en ýmsir þættir vistkerfisins geta einnig haft áhrif (Samanthi 2021). Þeir þættir sem geta haft áhrif hér á landi og hindrað að lífverur færist á milli svæða eru til dæmis ár, eyðisandar, beit, tún og annað ræktarland og er þá aðeins fátt eitt nefnt. Má nefna sem dæmi að hraði á niðurbroti lífrænna efna í lúpínubreiðum er meðal annars háð því hvort ánamaðkar hafi borist í þær og þá hvaða tegundir. Ef breiða af lúpínu er umlukin eyðisandi er ólíklegt að þar sé að finna margar tegundir ánamaðka. Því brotna hin lífrænu efni breiðunar hægar niður en ella. Svo getur það vel gerst að maðurinn stuðli að færslu tegunda milli svæða. Stundum meðvitað, stundum ómeðvitað.

Fremst á þessari mynd má sjá landgræðslu- og skógræktarsvæði á vegum Hekluskógaverkefnisins. Vel má vera að í auðninni sem aldalöng ofbeit hefur skapað megi finna litla alfareiti þar sem fleiri tegundir æðplantna er að finna en í samsvarandi reit í ungskóginum. Jafnvel er hugsanlegt finna megi bletti þar sem þónokkur kolefnisbinding á sér stað, þótt öllum megi ljóst vera að það á ekki við um svæðið í heild. Mynd: Sig.A.
Fremst á þessari mynd má sjá landgræðslu- og skógræktarsvæði á vegum Hekluskógaverkefnisins. Vel má vera að í auðninni sem aldalöng ofbeit hefur skapað megi finna litla alfareiti þar sem fleiri tegundir æðplantna er að finna en í samsvarandi reit í ungskóginum. Jafnvel er hugsanlegt finna megi bletti þar sem þónokkur kolefnisbinding á sér stað, þótt öllum megi ljóst vera að það á ekki við um svæðið í heild. Mynd: Sig.A.

Gammaskali

Til að meta líffjölbreytni á stóru landsvæði er gripið til gammaskalans. Á honum er hægt að meta fjölbreytni allra þátta vistkerfisins innan tiltekins svæðis sem gjarnan má vera nokkuð víðfemt. Á þessum skala þarf að taka jafnt tillit til fjölbreytileika í líffélögum og annarra þátta vistkerfisins. Einnig er gott að meta hvernig þessir þættir hafa áhrif hver á annan. Gammaskalinn nær því yfir stærri svæði en alfa og beta og má nýta til að meta fjölbreytni á landfræðilega stóru svæði.

Alfa, beta og gamma eru þrír mismunandi kvarðar sem nýttir eru til að meta líffjölbreytni vistkerfa. Alfakvarði mælir fjölbreytni á litlu, afmörkuðu svæði. Betakvarðinn er notaður til að bera saman breytileika innan vistkerfa og gammakvarðinn er notaður til að bera saman fjölbreytileikann á milli stórra svæða. Allir eru skalarnir mikilvæg hjálpartæki til að meta líffjölbreytileika og breytingar á tegundasamsetningu í tíma og rúmi. Niðurstöður má nota til að vernda og jafnvel auka líffjölbreytileika. Myndina fengum við héðan en hana teiknaði Anja Knaebel.
Alfa, beta og gamma eru þrír mismunandi kvarðar sem nýttir eru til að meta líffjölbreytni vistkerfa. Alfakvarði mælir fjölbreytni á litlu, afmörkuðu svæði. Betakvarðinn er notaður til að bera saman breytileika innan vistkerfa og gammakvarðinn er notaður til að bera saman fjölbreytileikann á milli stórra svæða. Allir eru skalarnir mikilvæg hjálpartæki til að meta líffjölbreytileika og breytingar á tegundasamsetningu í tíma og rúmi. Niðurstöður má nota til að vernda og jafnvel auka líffjölbreytileika. Myndina fengum við héðan en hana teiknaði Anja Knaebel.

Úti í hinum stóra heimi hefur vistkerfum víða farið aftur eins og kunnugt er. Í grein Dr. Samanthi (2021) segir að það sé á hinum stóra gammaskala sem komið hefur í ljós hin geigvænlega hnignun líffjölbreytileika í heiminum. Það er á þeim skala sem fjöldaútrýming lífvera í heiminum kemur hvað best fram. Fækkun og útrýming tegunda er ein helsta ógnin við líffjölbreytileika í heiminum.

Til að meta líffjölbreytileika á þessu svæði þarf að nota gammaskalann. Mynd: Sig.A.
Til að meta líffjölbreytileika á þessu svæði þarf að nota gammaskalann. Mynd: Sig.A.

Útúrdúr: Nánar um stafina α og β

Fyrstu tveir stafirnir í gríska stafrófinu, α og β eða alfa og beta hafa verið settir saman á mörgum tungumálum til að búa til heiti yfir stafrófið. Á ensku og þýsku heitir það Alphabet en Danir skrifa það sem alfabet og á spænsku er sagt alfabeto, svo dæmi séu tekin. Ef einhver hefur áhuga á því má nefna að á grísku heitir það Αλφάβητο

Þess má líka geta að skólabróðir þess er þetta ritar átti einu sinni kærustu sem hét Alfa. Þau slitu samvistir og hann tók saman við stúlku sem heitir Elísabet og er kölluð Beta. Þeirra samband entist betur og síðast þegar fréttist voru þau hamingjusamlega gift. Gárungarnir telja að sambúðin endist svona ljómandi vel því að sem betur fer kynntist maðurinn aldrei neinni stúlku sem var kölluð Gamma.

Líffjölbreytni skóga getur verið býsna mikil eins og hér má sjá í Skotlandi. Þó sjást ekki skógarfuglarnir, sveppirnir eða smádýrin á myndinni sem þarna eru hluti af vistkerfinu. Mynd: Sig.A.
Líffjölbreytni skóga getur verið býsna mikil eins og hér má sjá í Skotlandi. Þó sjást ekki skógarfuglarnir, sveppirnir eða smádýrin á myndinni sem þarna eru hluti af vistkerfinu. Mynd: Sig.A.

Hvað ber að skoða?

Til að meta líffræðilegan fjölbreytileika eða líffjölbreytileika ber, samkvæmt lögunum, að skoða lífverur á öllum skipulagsstigum lífs. Það er mikilvægt að hafa í huga að ekki dugar að telja aðeins æðplöntur til að finna út líffjölbreytileika ef lagatextinn er hafður í huga, heldur þarf að meta allt líffélagið. Það er samt að ýmsu leyti skiljanlegt að rannsakendur skoði helst plöntur á alfaskala. Má nefna að til dæmis mýs og fuglar eru líkleg til að yfirgefa reitina á meðan á talningu stendur.

Gott er að hafa í huga að almennt má segja að eftir því sem gróskan er meiri, þeim mun fleiri tegundir lífvera finnast að öllu jöfnu á svæðinu á ýmsum skipulagsstigum. Það stafar einfaldlega af því að mikil gróska leiðir af sér meiri frumframleiðni sem gagnast öllu líffélaginu í vistkerfinu. Þá vaknar sú spurning hvort ef til vill sé einfaldara að mæla lífmassa á flatareiningu til að meta ástand lands, frekar en að telja lífverur. Ef við viljum meta líffræðilega fjölbreytni er sjálfsagt að skoða nokkra alfareiti og nota þá til að meta betafjölbreytni eða jafnvel gammafjölbreytni. Þó þarf alltaf að hafa takmarkanir alfamælinga í huga þegar það er gert.

Í Vaðlaskógi er mikil fjölbreytni innfluttra og innlenda tegunda plantna, runna og trjáa. Það kunna lífverur á öðrum skipulagsstigum vel að meta. Mynd: Sig.A.
Í Vaðlaskógi er mikil fjölbreytni innfluttra og innlenda tegunda plantna, runna og trjáa. Það kunna lífverur á öðrum skipulagsstigum vel að meta. Mynd: Sig.A.

Þrautpínd líffélög

Eins og kunnugt er hefur víða verið gengið ansi nálægt grósku landsins með ofnýtingu í gegnum aldirnar. Þótt vissulega séu til afar ánægjuleg dæmi um hið gagnstæða verður ekki fram hjá því horft að enn er landbúnaður á Íslandi að hluta til rekinn með ofbeit. Það sést vel ef skoðuð eru beitt og friðuð svæði og þau borin saman.

Gríðarleg breyting hefur orðið á ásýnd Krossanesborga við Eyjafjörð eftir að þær voru friðaðar fyrir beit. Mynd: Sig.A.
Gríðarleg breyting hefur orðið á ásýnd Krossanesborga við Eyjafjörð eftir að þær voru friðaðar fyrir beit. Mynd: Sig.A.

Það eru gömul sannindi og ný að oft eru fleiri tegundir æðplantna á beittu svæði en óbeittu. Skammlífar tegundir og tegundir sem þola litla samkeppni verða algengar. Svæði, sem ætti að vera eitt samfellt gróðurfélag, verður að slitróttum gróðurfélögum. Þetta eru samfélög sem sýna hnignandi vist. Rétt er að árétta að allt er þetta háð því hvernig beitinni er stýrt, ef henni er á annað borð stýrt. Fjöldi beitardýra og tegundir þeirra skipta líka máli. Hestar, kýr, kindur og geitur ganga misjafnlega nærri gróðri. Þá getur skipt máli hvenær ársins og hversu lengi beitin varir. Vor- og haustbeit getur verið skaðlegri en sumarbeit á rýru landi en sem betur fer er vetrarbeit víðast hvar aflögð nema tímabundið og þá innan afgirtra svæða. Vissulega er engin goðgá að beita vel gróið land með leyfi landeiganda (sem getur vel verið sá sami og á búféð) ef beitarþunginn er ekki of mikill. Stefna ætti að því að öll beit fari aðeins fram á landi sem af bestu manna yfirsýn er talið þola hana. Skammtímahagsmunir búfjáreiganda eiga þar ekki að ráða för. Sérstaklega á það við á landi sem ekki er í eigu búfjáreigandans.

Land sem nýtt er til matvælaframleiðslu á Íslandi er í mjög misjöfnu ástandi. Mynd: Sig.A.
Land sem nýtt er til matvælaframleiðslu á Íslandi er í mjög misjöfnu ástandi. Mynd: Sig.A.

Í heilbrigðum og öflugum vistkerfum er eins og plönturnar myndi eins konar mósaíkmynstur. Hver plöntutegund þekur ákveðið svæði og reynir að auka sína útbreiðslu í stöðugri samkeppni við annan gróður. Það er einnig vel þekkt að í mikið beittum vistkerfum riðlast þessi mósaík. Það stafar af því að þá dregur úr samkeppni á milli plantnanna. Þær plöntur sem eru betur aðlagaðar tiltekinni vist geta ekki endilega lagt hana undir sig þegar dregur úr samkeppninni um þær bjargir sem heilbrigt vistkerfi bíður uppá. Það getur leitt til þess að tegundafjölbreytni háplantna á þrautpíndum svæðum getur verið mjög mikill þótt gróskan sé lítil og þar með oftast lítil fjölbreytni á öðrum skipulagsstigum. Litlir, afmarkaðir mælireitir, sem ætlað er að meta fjölbreytni gróðurs á alfaskala skila því oft einkennilegum niðurstöðum. Gott er að muna að svona land hefur litla seiglu gegn hvers kyns áföllum og með áframhaldandi ofnýtingu geta hringrásir, vatns, næringarefna, kolefnis og orku riðlast. Þá er stutt í að vistkerfið hrynji með tilheyrandi landeyðingu. Þess vegna verður að snúa þróuninni við áður en það er um seinan.

Vel er þekkt að þegar illa farin svæði eru friðuð fyrir beit þá geta sumar plöntur, sem lítið ber á í beittu landi, svo sem blágresi og gulvíðir, aukið hlutdeild sína á kostnað gróskuminni plantna sem þola beitina betur. Við það fækkar plöntutegundum að minnsta kosti tímabundið. Smám saman má þó gera ráð fyrir að fleiri plöntutegundir nemi land, ef þær eru í nágrenninu. Samt er alveg óvíst að litlir, afmarkaðir alfamælireitir skili jafn fjölbreyttum niðurstöðum í friðuðu landi og í rýru, beittu mólendi.

Blómlegur undirgróður undir lerkiskermi í Leyningshólum. Samt er ekki víst að plöntutegundirnar í alfareit á svona stað séu fleiri en í beittu landi utan skógræktargirðingarinnar. Mynd: Pétur Halldórsson.
Blómlegur undirgróður undir lerkiskermi í Leyningshólum. Samt er ekki víst að plöntutegundirnar í alfareit á svona stað séu fleiri en í beittu landi utan skógræktargirðingarinnar. Mynd: Pétur Halldórsson.

Skógarreitir

Þegar land er friðað og tekið til skógræktar má gera ráð fyrir að eins og í öðru friðuðu landi fækki plöntutegundum innan skógarins til að byrja með. Gróður á landi sem friðað hefur verið fyrir beit í nokkur ár eða aðeins fáa áratugi er sjaldnast kominn í jafnvægi við hin nýju vaxtarskilyrði. Síðan breytist gróðursamfélagið, gróskan eykst og lífverum á fleiri skipulagsstigum fjölgar. Því er tímabundin fábreytni tegunda á alfaskala eðlileg fyrstu árin og jafnvel áratugina þótt fjölbreytnin á öllum skipulagsstigum lífs aukist þegar til lengri tíma er litið. Ef slík svæði eru aðeins metin á alfaskala fyrst eftir að skógrækt hefst og aðeins haft fyrir því að telja plöntur má ætla að niðurstöðurnar verði þær að beitt og rýrt land sýni meiri fjölbreytni en gróskumikið land. Dæmið snýst algerlega við þegar beta- og gammaskalar eru notaðir, jafnvel þótt aðeins æðplöntur séu taldar. Sérstaklega á það við ef þess er gætt að planta fjölbreyttum tegundum skógartrjáa og runna og haft í huga að planta mismunandi þétt og að skilja eftir rjóður í skóginum. Þannig getum við haft áhrif á mósaíkina í skóginum. Þá mun vaxa upp fjölbreyttur skógur sem verður hluti af öflugra vistkerfi en nauðbeittir og rýrir móar.

Plantaðir skógar á Íslandi auka líffjölbreytni landsins. Á það bæði við um beta- og gamma kvarða jafnvel þótt alfakvarðar kunni tímabundið að sýna aðra niðurstöðu ef aðeins hluti lífveranna er talinn. Á sama tíma verja skógarnir jarðvegsauðlindina betur en rýrt land og skógar hafa meiri seiglu gagnvart hvers kyns áföllum. Þar sem skilyrði fyrir allar lífverur breytast þegar skógur vex upp getur það einnig gerst að fjölbreytni á alfakvarða breytist og þróist með aldri. Slíkar breytingar eru fátíðar á mikið beittu landi.

Horft yfir hluta af Kjarnaskógi yfir í Vaðlaheiði. Fremst á myndinni má sjá dæmigert illa farið beitiland með rofdílum. Þar má samt finna töluverðan tegundafjölda æðplantna. Er hægt að draga þá ályktun að það land búi yfir meiri líffjölbreytileika en skógurinn sem sést á þessari mynd eða skógurinn í Leyningshólum sem sést á mynd hér aðeins ofar?
Horft yfir hluta af Kjarnaskógi yfir í Vaðlaheiði. Fremst á myndinni má sjá dæmigert illa farið beitiland með rofdílum. Þar má samt finna töluverðan tegundafjölda æðplantna. Er hægt að draga þá ályktun að það land búi yfir meiri líffjölbreytileika en skógurinn sem sést á þessari mynd eða skógurinn í Leyningshólum sem sést á mynd hér aðeins ofar?

Alþjóðlegir samningar

Íslensk stjórnvöld hafa undirritað og gengist við allskonar alþjóðlegum samningum um umhverfismál. Því ber að fagna. Þessi sömu stjórnvöld hafa meðal annars gengist fyrir því að Ísland er nú aðildarland að IPBES (Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services). IPBES hefur sömu stöðu gagnvart sáttmálanum um líffræðilega fjölbreytni og IPCC hefur gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna.

Í tengslum við þessa aðild er í drögum að stefnu Íslands um líffræðilega fjölbreytni tekin upp fjöldi markmiða sem eiga að nást eigi síðar en árið 2030. Þau markmið eru kennd við kínversku borgina Kunming og kanadísku borgina Montreal. Sjá má þau hér. Fyrir árið 2030 á að vera búið að endurheimta eða endurhæfa að minnsta kosti 30% af öllum vistkerfum sem teljast vera í hnignunarástandi (Restore 30% of all Degraded Ecosystems). Það verður að teljast ólíklegt að það takist nema með stórátaki. Ekki er hægt að sjá í drögunum hvenig þetta á að takast.

Svo virðist sem nokkur blæbrigðamunur sé á upphaflegu markmiðunum og þeim þýðingum sem stuðst er við í stefnudrögunum. Það vekur ekki minni athygli að skoða það sem ekki er haft með í drögunum en það sem þar er að finna. Má sem dæmi nefna eftirfarandi kafla. „Endurheimt“ og „endurhæfing“ er þarna skilgreind með svohljóðandi hætti:


Restoration – Restoration refers to the process of actively managing the recovery of an ecosystem that has been degraded, damaged or destroyed. Restoration activities can be undertaken for a variety of reasons and across a continuum of actions. For example, ecological restoration includes efforts to increase the area of a natural ecosystem and its integrity through recovering an ecosystem that has been degraded or destroyed, this includes conversion of non-natural transformed ecosystems back to a natural ecosystems state. On the other hand ecosystem rehabilitation includes efforts to increase ecosystem functions and services of transformed ecosystems. Given, the continuum of restoration activities, efforts to reach this target should be specific and identify the type of restoration being undertaken, the overall objectives being sought and the type of area or ecosystem being restored.


Þetta mætti þýða svona:


Endurheimt

Endurheimt er ferli sem byggist á að stýra með virkum hætti bata vistkerfis sem hefur hnignað, skemmst eða eyðilagst. Endurheimtarverkefni geta verið unnin af ýmsum ástæðum og spannað breitt svið aðgerða. Til dæmis felur vistfræðileg endurheimt í sér aðgerðir til að auka stærð og heilleika náttúrulegra vistkerfa með því að endurheimta vistkerfi sem hefur hnignað eða verið eyðilagt. Þetta getur falið í sér að umbreyttu vistkerfi, sem er ekki náttúrulegt, sé breytt aftur í náttúrulegt ástand.


Á hinn bóginn felur endurhæfing vistkerfa í sér aðgerðir til að auka virkni og þjónustu umbreyttra vistkerfa. Í ljósi þess hve endurheimtarverkefni geta verið fjölbreytt, þá ættu aðgerðir til að ná þessu markmiði að vera sértækar og tilgreina hvaða tegund endurheimtar er verið að vinna að, heildarmarkmiðin sem stefnt er að og hvers konar svæði eða vistkerfi er verið að endurheimta.


Ekki verður séð að gert sé ráð fyrir að seinni hlutinn af þessum kafla verði tekin upp í íslensku stefnunni. Er það miður að fjalla um endurheimt án þess að nefna endurhæfingu. Það er einmitt það sem skógræktarfélög um land allt gera. Þau endurhæfa illa farin vistkerfi. Vel má vera að seinna munum við skrifum meira um IPBES markmiðin sem íslensk stjórnvöld hafa lofað að fylgja.

Íslenskir birkiskógar geta verið virkilega fallegir og veitt fjölbreytta vistþjónustu. Þeir þekja aðeins um 1,5% landsins. Mikilvægt er að verja þá og lofa þeim að vaxa, dafna og dreifa úr sér. Þessi skógur er í Grýtubakkahreppi. Mynd: Sig.A.
Íslenskir birkiskógar geta verið virkilega fallegir og veitt fjölbreytta vistþjónustu. Þeir þekja aðeins um 1,5% landsins. Mikilvægt er að verja þá og lofa þeim að vaxa, dafna og dreifa úr sér. Þessi skógur er í Grýtubakkahreppi. Mynd: Sig.A.

Takmarkanir alfamælinga

Eins og að ofan greinir getur skortur á samkeppni í rýru landi valdið því að rannsóknir á alfakvarða á slíku landi sýna meiri fjölbreytni æðplantna en í gróskumeiri vistkerfum. Slík einföldun er á skjön við skilgreiningarnar í lögum um náttúruvernd. Það er hæpin náttúruvernd að vernda sérstaklega illa farið beitiland sem stenst verr hverskyns áföll en gróskumikið land. Að auki er það ekki í anda þeirra alþjóðlegu sáttmála sem Ísland er aðili að.


Tökum dæmi.

Vel má ímynda sér gamlan birkiskóg þar sem aðalbláberjalyng er áberandi í sverði. Samkvæmt vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar kallast slík vist lyngskógavist. Jafnvel á vetrum getur lyngið myndað áberandi breiður með grænum árssprotum. Ef svona land er borið saman við rýrt mólendi með því að afmarka lítinn reit í breiðunni og annan reit í mólendinu og telja þar æðplöntur má búast við að færri tegundir og þar með minni líffjölbreytni sé að finna í skóginum. Þetta er óheppileg notkun á alfaskala sem segir ekki alla söguna. Strax væri skárra að skoða einnig aðrar lífverur í skóginum en enn betra væri að skoða skóginn sem heild á betaskala. Þar með talið skóglaus rjóður í skóginum og auðvitað allar lífverurnar í honum. Finna má fleiri reiti í birkiskóginum þar sem annar undirgróður er ríkjandi, enda má búast við mósaíkmynstri í skógarbotninum. Líklegt verður að teljast að þar sé til dæmis að finna blómskógavist, svo vistkerfisflokkun Náttúrufræðistofnunar sé notuð. Þar kunna að finnast önnur skordýr og að hluta til aðrir sveppir og aðrar fléttur en í lyngskógavistinni. Í rýra mólendinu er líklegra að reitirnir verði hver öðrum líkir. Þegar betaskalinn er notaður kemur ótvírætt í ljós að gamall birkiskógur hefur mjög fjölbreytt vistkerfi. Þau eru mun fjölbreyttari en í beittu mólendi. Á þeim forsendum er eðlilegt að reynt sé að vernda þær birkiskógarleifar sem til eru í landinu. Ef við síðan berum birkiskóginn saman við ræktaðan fjölnytjaskóg má gera ráð fyrir aukningu á gammaskala.

Skógarbotn í birkiskógi. Mynd: Sig.A.
Skógarbotn í birkiskógi. Mynd: Sig.A.

Tökum annað dæmi.

Við getum gert ráð fyrir að einstaklingur (eða félagasamtök) eigi 100 hektara land og hafi áhuga á umhverfismálum í víðasta skilningi þess orðs. Þá er ekki ólíklegt að hann vilji auka kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi ásamt því að stuðla að aukinni líffjölbreytni á þessu svæði. Þá er mun eðlilegra að meta landið út frá beta- en alfaskala. Þannig má meta fjölbreytnina innan svæðisins í heild, enda er það meira í anda laganna sem í gildi eru. Þá er ljóst að með því að nota bæði birkikjarr og innflutt tré, svo dæmi séu tekin, mun líffræðileg fjölbreytni verða meiri en ef aðeins ein tegund er notuð.

Getur það þá verið rétt að stafafura, sitkagreni og fleiri tegundir innfluttra barrtrjáa minnki líffræðilegan fjölbreytileika á Íslandi? Já, það er rétt ef landið er aðeins metið út frá alfaskala og ekki tekið tillit til annarra forma lífs, en nei ef það er metið út frá beta- og gammaskala og tillit tekið til allra skipulagsstiga lífs, eins og það er kallað í lögum um umhverfisvernd. Á meðan skógrækt er ekki umtalsvert meiri en hún er nú um stundir, þá er líklegast að tegundir eins og stafafura, sitkagreni, alaskaösp og fleiri innfluttar trjátegundir auki líffræðilega fjölbreytni. Svo má ekki gleyma því að með auknum aldri og þroska skóganna breytist líffélagið. Þannig breytist líffjölbreytni þeirra með tíma. Að auki má gera ráð fyrir að kolefnisbinding aukist í leiðinni og til verði fjölbreyttari útivistarsvæði, svo ekki sé minnst á þau atvinnutækifæri sem skapast munu við að nýta skóginn og afurðir hans í framtíðinni og treysta með því búsetu í byggðum sem eiga undir högg að sækja vegna fábreytni í atvinnulífi.

Fjölbreyttir blandskógar auka líffjölbreytni á Íslandi. Mynd: Sig.A.
Fjölbreyttir blandskógar auka líffjölbreytni á Íslandi. Mynd: Sig.A.

Eitt dæmi í viðbót Hér er skýrsla sem gefin var út af Náttúrufræðistofnun Íslands í mars 2022 þar sem því sagt er fá því hvernig stafafura var metin sem ágeng tegund í Steinadal í Suðursveit. Rannsóknir á alfakvarða sýndu að tegundafjöldi æðplantna var marktækt meiri í birkikjarri og mólendi í Steinadal en í ræktuðum stafafuruskógi á sama dal. Niðurstöður skýrsluhöfunda eru þær að stafafura dragi verulega úr líffræðilegum fjölbreytileika æðplantna.

Þröstur Eysteinsson og Pétur Halldórsson skoða furuna í Steinadal. Mynd: Aðalsteinn Sigugeirsson.
Þröstur Eysteinsson og Pétur Halldórsson skoða furuna í Steinadal. Mynd: Aðalsteinn Sigugeirsson.

Mynd úr skýrslu Náttúrufæðistofnunar sem sýnir dalbotninn í Steinadal. Gæti það orðið ógn við líffjölbreytni þótt stafafura sái sér á þetta svæði?
Mynd úr skýrslu Náttúrufæðistofnunar sem sýnir dalbotninn í Steinadal. Gæti það orðið ógn við líffjölbreytni þótt stafafura sái sér á þetta svæði?

Í skýrslunni segir líka að ætla megi að útbreiðsla stafafuru um vel hirt ræktarland sé ekki greið. Auk þess er nefnt að stafafura sé ljóssækin tegund og á skuggsælum stöðum dragi mjög úr spírun og lifun ungplantna. Aftur á móti getur hún vel sáð sér út þar sem landi svipar til lands í Steinadal. Fram kemur í skýrslunni að engar athugasemdir þurfi að gera við notkun stafafuru þar sem umhverfið bíður ekki upp á útbreiðslu hennar en ástæða sé til að fara varlega þar sem umhverfið er líkt því sem finna má í dalnum. Þess má til gamans geta að skógræktarfélagið sem hefur umsjón með stafafurureitnum hefur að undanförnu náð í jólatré inn í Steinadal. Þau tré eru fyrst og fremst þessi sjálfsánu.

Vist- og landgerðakort úr Steinadal úr Suðursveit. Kortið var birt í skýrslunni sem vísað er til í kaflanum og sýnir landgerð þar sem stafafura á auðvelt með að sá sér út.
Vist- og landgerðakort úr Steinadal úr Suðursveit. Kortið var birt í skýrslunni sem vísað er til í kaflanum og sýnir landgerð þar sem stafafura á auðvelt með að sá sér út.

Tveimur árum áður en skýrslan var gefin út birtist grein í Ársriti Skógræktarinnar eftir Ólaf Eggertsson og Delfina Andrea Castiglia (2020). Þau Ólafur og Delfina birtu niðurstöður rannsóknarinnar einnig í ritrýndu vísindatímariti með jafningjamati: IAS (áður Búvísindi). Margt er líkt í þessum tveimur greinum. Meðal annars segja þau Ólafur og Delfina að sjálfsáningin sé áberandi mest á gróðursnauðum melum en mun minni og nær engin þar sem gróðurþekjan er sem þéttust og mest. Þau álykta að furufræin eigi auðvelt með að ná fótfestu á röskuðu landi þar sem samkeppnisgóður er í lágmarki. Þetta er alveg sambærilegt við niðurstöður skýrslu Náttúrufræðistofnunar. Aftur á móti fullyrða þau ekkert um hvort tegundin kunni að draga úr líffjölbreytileika eða hvort hún sé ágeng þótt hún geti dreift sér á illa förnu landi. Ástæðan er væntanlega sú að stafafuran eykur líffjölbreytileika á svæðinu ef horft er til betaskala.

Mynd úr grein Ólafs og Dalfinu (2020) sem sýnir fjölda stafafuruplantna sem sáð hafa sér frá skógarreitnum í Steinadal í Suðursveit í 200 m2 reitum á sniði út frá móðurplöntum. Langmest er af sjálfsánum plöntum í nágrenni við reitinn eins og vænta mátti. Fjöldinn er mestur í 20-40 metra fjarlægð frá gamla skógarreitnum eða um 7.500 plöntur á hektara og fer síðan fækkandi. Þegar komið er í um 200 metra fjarlægð er þéttleikinn um 50 plöntur á hektara.
Mynd úr grein Ólafs og Dalfinu (2020) sem sýnir fjölda stafafuruplantna sem sáð hafa sér frá skógarreitnum í Steinadal í Suðursveit í 200 m2 reitum á sniði út frá móðurplöntum. Langmest er af sjálfsánum plöntum í nágrenni við reitinn eins og vænta mátti. Fjöldinn er mestur í 20-40 metra fjarlægð frá gamla skógarreitnum eða um 7.500 plöntur á hektara og fer síðan fækkandi. Þegar komið er í um 200 metra fjarlægð er þéttleikinn um 50 plöntur á hektara.

Endurheimt votlendis

Endurheimt votlendis hefur marga kosti. Þegar hugmyndum um hana fór að vaxa ásmegin var til hópur manna sem fann því margt til foráttu. Innan þess hóps voru meira að segja líffræðingar sem bentu á að með endurheimtinni gæti dregið úr líffræðilegri fjölbreytni. Það var alveg hárrétt hjá þeim ef litið er til skammst tíma og aðeins taldar æðplöntur á alfaskala. Um leið og við skoðum mýrarnar á betaskala og að ekki sé talað um gammaskala snýst dæmið við. Sérstaklega ef við tökum einnig tillit til fleiri lífsforma. Endurheimt votlendis býr til meiri líffjölbreytileika, rétt eins og skógarnir. Að auki eykur hún viðnámsþrótt eða seiglu vistkerfanna, rétt eins og skógarnir. Svo má ekki gleyma því að endurheimtin stöðvar losun kolefnis út í andrúmsloftið sem er til bóta, rétt eins og þegar gróðursettir skógar auka kolefnisbindingu í jarðvegi, rótum, greinum og stofni.

Af þessu sést að gróðursetning nýrra skóga og endurheimt votlendis eiga margt sameiginlegt. Skógar og votlendi geta vel unnið saman að fallegu og fjölbreyttu landi sem hentar einkarvel til útivistar. Um það má meðal annars lesa í þessum pistli.

Skógar og hverskyns vatn og votlendi geta farið mjög vel saman. Mynd: Sig.A.
Skógar og hverskyns vatn og votlendi geta farið mjög vel saman. Mynd: Sig.A.

Skilvirkar leiðir

Stundum er því haldið fram af sumum starfsmönnum Lands og skógar að fyrsti valkostur vegna skóggræðslu sé að nota íslenskt birki, helst staðarkvæmi. Hvaða rök eru fyrir þessu vali? Sé ætlunin að koma upp skógi sem bindur kolefni er þetta slæmur kostur. Einnig ef ætlunin er að nýta viðinn í fyllingu tímans. Það eru nefnilega til miklu fljótvirkari aðferðir og ódýrari til þess að ná þessum markmiðum. Ef birki er valið ætti að nota birki sem vex hratt og er beinvaxið. Það er þá fyrst og fremst birki af Bæjarstaðauppruna eða kynbætt birki eins og til dæmis 'Embla'. Það er einnig auðveldara að ná í fræ af slíkum trjám og sá í stórum gróðrarstöðvum. Því er slíkt birki ódýrara í framleiðslu.

Eins og kunnugt er er næringarástand jarðvegs oft helsta hindrun þess að ásættanlegur árangur náist af skógrækt. Sérstaklega á þetta við á auðnum og öðrum illa förnum svæðum þar sem náttúrulegum hringrásum hefur verið raskað. Gildir þá nánast einu hvaða trjátegund er valin. Stafafura og lerki geta þó spjarað sig á mjög rýru landi og birki er auðvitað nægjusamt þótt það vaxi hvorki eins vel og lerki eða stafafura. Allar trjátegundir vaxa betur ef þær fá næga næringu. Þess vegna er tilbúinn áburður gjarnan borinn á ungar trjáplöntur. Einnig hefur kjötmjöl eða annar lífrænn áburður reynst vel.

Áburður er dýr og til eru aðferðir sem eru áhrifaríkari og umhverfisvænni en endurtekin áburðargjöf. Til eru plöntur sem, með hjálp örvera á rótum, bæta næringarástand jarðvegsins með því að vinna nitur beint úr andrúmslofti. Tveir hópar plantna eru mest áberandi. Annars vegar eru það tegundir sem hafa tekið í þjónustu sína gerla af ættkvíslinni Frankia. Þetta eru tré og runnar eins og elri, Alnus spp. hafþyrnir, Hippophae rhamnoides, silfurblað, Elaeagnus commutata, og fleiri tegundir. Hinn hópurinn er algengari í notkun. Það eru hinar svokölluðu belgjurtir eða plöntur af ertublómaætt, Fabaceae. Það er þriðja stærsta plöntuætt í heimi og því er af nægu að taka. Má nefna ýmsar smárategundir, Trifolium spp., umfeðming, Vicia cracca, giljaflækju, V. sepium, maríuskó, Lotus corniculatus og gullkoll, Anthyllis vulneraria, sem dæmi. Þessi upptalning er langt frá því að vera tæmandi. Belgjurtir bæta næringarástand jarðvegs eins og kunnugt er. Ein tegund er þarna í algerum sérflokki hér á landi. Heitir hún alaskalúpína, Lupinus nootkatensis. Illu heilli hætti Landgræðslan (nú Land og skógur) að nýta þessa frábæru belgjurt í sínu starfi með þeim rökum að hún væri ágeng og hefði lokið sínu hlutverki.

Fjölbreyttar, lágvaxnar belgjurtir innan um lerkitré. Þarna var áður ber melur svo ekki þótti taka því að planta trjám. Mynd: Sig.A.
Fjölbreyttar, lágvaxnar belgjurtir innan um lerkitré. Þarna var áður ber melur svo ekki þótti taka því að planta trjám. Mynd: Sig.A.

Birki eða innfluttar tegundir

Ljómandi gott er að nota birki þar sem það á við og ekki ber að gera lítið úr því að vel getur farið á því að rækta birkiskóga. Þeir geta gefið okkur hugmynd um hvernig landið leit út við landnám. Endurheimt birkiskóga verður samt aldrei endurheimt fornra vistkerfa. Til þess hefur rúmlega ellefu hundruð ára byggð breytt landinu of mikið. Með manninum bárust fjölmargar plöntur sem ekki voru hér við landnám og hingað hafa borist allskonar dýr, til dæmis fuglar og skordýr, sem ólíklegt er að hafi verið hér við landnám. Að auki er birkið ekki eins og það var við landnám. Allt bendir til þess að erfðaflæði mill fjalldrapa og birkis hafi aukist mjög mikið þegar ganga tók á frjósemi landsins.

Ljóst er að fjölbreyttir skógar geta haft ýmsa kosti. Má nefna hraðari og meiri kolefnisbindingu til langframa, betri árangur á svæðum þar sem birki á erfitt uppdráttar, meiri bindingu svifryks og gosmengunar hjá háum trjám og meiri binding svifryks á veturna ef sígræn tré eru notuð, meiri og fjölbreyttari nytjar af skóginum og afurðum hans, aukin líffjölbreytni og meiri vörn gegn sjúkdómum og útbreiðslu þeirra. Einnig má nefna að fjölbreyttir skógar geta verið líklegri til að standa af sér áhrif utanaðkomandi þátta svo sem breytingar á veðurfari, hamfaraflóðum og hættu af snjóbroti svo eitthvað sé nefnt. Að auki verður ekki betur séð en fjöldi fólks njóti þess að dvelja í slíkum skógum þar sem þá eð finna. Má nefna fjölsótta ferðamannastaði eins og Heiðmörk, Kjarnaskóg og Hallormsstaðaskóg sem dæmi. Allir þessir skógar uxu upp á svæðum þar sem áður voru nauðbeittir bithagar.

Mynd úr bókinni Ásýnd Eyjafjarðar sem sýnir unglingavinnuflokk við gróðursetningu í Naustaborgum árið 1991. Þarna er nú skógur. Mynd: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.
Mynd úr bókinni Ásýnd Eyjafjarðar sem sýnir unglingavinnuflokk við gróðursetningu í Naustaborgum árið 1991. Þarna er nú skógur. Mynd: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.

Að lokum

Það er í tísku nú meðal fámenns hóps að finna skógrækt allt til foráttu en oftast með haldlitlum rökum. Þó er sennilega ekkert sem er eins fjarri lagi en það að útlensk tré séu að umturna íslenskri náttúru og draga úr líffjölbreytni. Það er þó alveg á pari við þá furðulegu sýn að birki skuli ekki flytja milli hreppamarka og best sé að það vaxi ekki upp fyrir hnéhæð til að það hindri ekki útsýni.

Í Evrópu er skógarþekja óvíða minni en á Íslandi og hér er sáralítið land lagt undir skóga á ári hverju. Það væri gott fyrir íslenska náttúru að þessu væri breytt og ræktaðir yrðu meiri og fjölbreyttari skógar. Í þeirri vegferð er mikilvægt að halda vel á málum og rækta skóga sem falla sem flestum vel í geð, burt séð frá uppruna þeirra tegunda sem auðgað geta landið. Við fáum ekki séð með góðu móti að neinar trjátegundir sem notaðar eru í íslenskri skógrækt falli undir þær skilgreiningar sem finna má í ákvæði náttúruverndarlaga um framandi og ágengar plöntur. Skógrækt á Íslandi stuðlar að aukinni líffjölbreytni. Að lokum færum við Aðalsteini Sigugeirssyni okkar bestu þakkir fyrir hvatningu, stuðning og þarfar ábendingar. Jón Kristófer Arnarson fær einnig þakkir fyrir að ræða hugmyndir sínar við höfund greinarinnar. Einnig fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir þakkir fyrir vandaðan yfirlestur prófarkar. Allar villur sem kunna að leynast í textanum eru á ábyrgð höfundar enda líklegt að þær stafi af breytingum á texta sem gerðar voru eftir að próförk var lesin.

Elliðaárdalurinn í miðri höfuðborg Íslands er ótrúlega fallegur og með fjölbreyttum trjágróðri. Hvaða kvarða, alfa, beta, eða gamma, er eðlilegast að nota til að meta líffjölbreytileikann í dalnum? Mynd: Ívar Ingimarsson.
Elliðaárdalurinn í miðri höfuðborg Íslands er ótrúlega fallegur og með fjölbreyttum trjágróðri. Hvaða kvarða, alfa, beta, eða gamma, er eðlilegast að nota til að meta líffjölbreytileikann í dalnum? Mynd: Ívar Ingimarsson.

Heimildir:

 

Aðalsteinn Sigurgeirsson (2025) veitti ýmsar upplýsingar þótt þeirra sé ekki getið í megintexta. Hafi hann þakkir fyrir.


Dr. Samanthi Udayangani (2021): What is the Difference Between Alpha Beta and Gamma Diversity. Sett á netið þann 8. október 2021. Sjá: https://www.differencebetween.com/what-is-the-difference-between-alpha-beta-and-gamma-diversity/?fbclid

 

Pawel Wasowicz, Guðrún Óskarsdóttir, Guðrún Gísladóttir og Þóra Ellen Þórhallsdóttir (2022):  Stafafura (Pinus contorta) í Steinadal – mat á ágengni. Unnið fyrir Kvískerjasjóð. Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyri. Sjá: https://utgafa.ni.is/skyrslur/2022/NI-22004.pdf


Ólafur Eggertsson og Delfina Andrea Castiglia (2020): Sjálfsáning stafafuru í Steinadal. Birt í Ársriti Skógræktarinnar (sem nú er hluti af Landi og skógi) 2020. Sjá: Ársritið | Ársrit Skógræktarinnar. Greinina má einnig finna hér: Nær engin sjálfsáning stafafuru þar sem gróðurþekja er þéttust í Steinadal | Skógræktin.


Lög um náttúruvernd 60/2013. sjá: 60/2013: Lög um náttúruvernd | Lög | Alþingi.




Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page