Skógarfuglinn músarrindill
- Sigurður Arnarson
- 12 minutes ago
- 22 min read
Með aukinni skóg- og trjárækt hafa skilyrði fyrir ýmsa skógarfugla batnað stórlega. Minnkandi beit og jafnvel beitarfriðun birkiskóga hafa lagst á sömu sveif. Hlýnandi veðurfar hefur einnig hjálpað til. Einn af þeim fuglum sem notið hafa þessara breytinga er lítill, fjörugur og forvitinn fugl sem kallast músarrindill eða Troglodytes troglodytes islandicus. Hann er einn af einkennisfuglum birkiskóga en hann finnst einnig í blandskógum. Músarrindlum hefur fjölgað mikið frá því sem var um aldamótin nítjánhundruð og nú nema þeir sífellt fleiri svæði um allt land þar sem uppvaxandi tré og skóga er að finna. Gera má ráð fyrir að við landnám hafi þó verið enn meira um músarrindil á Íslandi en nú er, enda var þá landið mun betur gróið en síðar varð og birkiskógar miklu algengari en nú er.
Tvær myndir af músarrindlum í birkitrjám. Líta má á músarrindil sem einn af einkennisfuglum birkiskóga og birkikjarrs. Myndir: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Lýsing
Það sem helst einkennir músarrindil er smæðin og hið smáa en sperrta stél. Á því þekkist hann langar leiðir. Ef fuglinn er ekki á flugi vísar það nær alltaf beint upp. Svo þekkist hann á sínum kraftmikla og skæra söng. Ungfuglarnir líkjast þeim fullorðnu (Jóhann Óli 2011, Einar 2016).
Þessi litli söngfugl er aðeins um 6-20 g að þyngd. Heimildum ber illa saman en að auki getur skipt máli hversu vel nærður hann er. Hann verður um 9 cm langur með hnubbótt vaxtarlag. Karlinn er að jafnaði heldur stærri en kerlingin en kynin eru mjög áþekk að sjá. Þótt músarrindill sé sérstaklega krúttlegur fugl verður hann seint talinn með litskrúðugustu fuglum. Hann er móbrúnn á litinn með ljósari rákir á fjöðrum og með ljósa rák yfir augunum. Bakið er mórautt en að neðan er hann grárri. Bæði goggur og fætur eru dökkir á litinn. Sigurður Ægisson (2022) bendir á að fæturnir séu óvenju sterklegir miðað við búkstærð fuglsins.

Atferli
Músarrindill heldur sig helst við trjástofna eða í runnum. Gjarnan er hann niður undir jörðu og sjái hann girnileg skordýr á jörðinni hoppar hann þangað en annars tekur hann fæðu sína af greinum trjáa og runna. Hann er fremur spakur og forvitinn og ákaflega fjörugur, kvikur og skemmtilegur fugl. Hann er alltaf á iði og stoppar sjaldan nema eina sekúndu eða svo á sama stað og hallar stundum undir flatt. Svo tekur hann nýjan sprett og skimar eftir frekara æti.
Músarrindill er forvitinn fugl. Oft má sjá músarrindla nálgast mannfólk svona eins og til að kanna hver sé á ferðinni. Þeir eiga það jafnvel til að koma sjálfir til að skoða göngufólk í skógum, en ekki öfugt. Ef mannfólkið sýnir af sér ró og gerir ekkert sem rindillinn gæti túlkað sem ógnun þá virðist hann treysta gestum skógarins (Einar og Daníel 2006). Annars er hann fremur felugjarn og litirnir gera það að verkum að hann er ekki áberandi.
Músarrindill er síkvikur fugl. Myndirnar teknar í rigningarsudda í Kjarnaskógi. Það gefur myndunum dularfullan blæ.gl Myndir: Sigurður H Ringsted.
Músarrindillinn flýgur sjaldan en þegar hann gerir það flýgur hann hratt og beint með höfuðið teygt fram. Þá heyrist heilmikill þytur í vængjunum. Þótt músarrindlar séu að jafnaði einfarar þá sjást þeir stundum í för með öðrum skógarfuglum eða í smáhópum. Má nefna glókollinn sem dæmi, en þeir sækjast eftir svipaðri fæðu, einkum á vetrum.
Þegar hann situr sveiflar hann uppsperrtu stélinu ótt og títt.

Músarrindlar í húsum
Margar sagnir hafa spunnist um það að músarrindill á það til að álpast inn í hús. Hin síðari ár eru það aðallega gróðurhús en þjóðsögur segja frá heimsóknum í önnur hús. Reyndar hafa þessar heimsóknir í gróðurhús vakið athygli margra. Þar má oft finna fjölmörg skordýr sem fuglinn tínir upp. Má jafnvel flokka fuglinn sem lífræna vörn í gróðurhúsum. Þegar hann gerir þetta er áberandi að hann lætur ekki blekkjast af gagnsæjum gluggum eða veggjum. Margir fuglar, til dæmis flestir þrestir, eiga það til að fljúga á gler- eða plastveggi slíkra húsa, jafnvel aftur og aftur. Þetta gerir músarrindillinn ekki. Hann heldur sínu fjöruga jafnaðargeði og á ekki í minnstu vandræðum með að rata út úr húsinu ef á þarf að halda.
Þessar heimsóknir í gróðurhús virðast ekki tengjast neinni þjóðtrú enda eru þau tiltölulega ný á Íslandi. Öðru máli gegnir um önnur hús. Við getum ekki stillt okkur um að nefna dæmi og notum bók Sigurðar Ægissonar frá 2020 sem heimild.
Ein sagan er sú að fuglinn sé spáfugl sem veit fyrir harðviðri ef hann flýgur inn í hús. Þetta er sennilega saklausasta sagan um húsvitjanir músarrindils en í bók sinni segir Sigurður (2020) frá mörgum dæmum um þessa trú. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um landið á árunum 1752-1757 og sögðu frá ýmsu merkilegu. Þar segir að músarrindill sæki inn í híbýli manna í gegnum strompinn og haldi sig í reyk og sóti. Þar leitar hann að hangikjöti og grefur sig inn í það þar sem holdið er þykkast. Þess vegna þurfa bændur að setja grind yfir strompinn sem fuglinn þorir ekki í gegnum. Aðrir láta nægja að setja kross við strompinn. Músarrindillinn er svo mikill óheillafugl og svo vel tengdur myrkraöflunum að þá þorir hann ekki inn. Aðrir eru þessu algerlega ósammála. Þeir telja að það sé af tómri guðhræðslu sem fuglinn fer ekki um stromp sem varinn er með krossmarki. Þeir vilji ekki vanvirða hið góða merki með því að fara þar um. Því til frekara sannindamerkis benda þeir á hversu fagra söngrödd fuglinn hafi. Hún minnir sannarlega ekki á neitt illt. Öðru nær (Sigurður 2020).

Nafnið
Músarrindill vísar að sjálfsögðu til þess hversu lítill fuglinn er, enda var hann lengst af Íslandssögunnar minnsti fugl landsins, en glókollurinn ber þann titil í dag. Honum er líkt við mýs og kallaður rindill enda er fleira sem minnir á mýs en bara stærðin. Bæði litur og að hluta til atferli, sem stundum minnir meira á lítið spendýr en fugl, varð þess valdandi að meðal alþýðu manna var músarrindill af sumum talinn skyldari mús en fugli (Hjálmar R. 1986). Af sama meiði er annað, gamalt nafn sem notað hefur verið; músarbróðir. Hjörleifur Hjartarson segir í bók árið 2017, sem myndskreytt er af Rán Flygenring, að því hafi verið trúað að hann væri talinn búa í dimmum holum yfir veturinn með systrum sínum músunum.

Hreyfingar músarrindils eru mjög kvikar - eins og hjá músum. Hann heldur sig gjarnan á jörðinni og ef hann styggist lætur hann sig gjarnan hverfa í einhverja holu eða annað fylgsni - eins og músin. Músarrindill er móbrúnn á litinn með ljósari kvið - eins og hagamúsin. Í fleiri heimildum er þetta einnig tekið fram. Í bókinni Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin (2020) segir að fuglinn sé afar jarðbundinn og skjótist í felur í gjótur, holur og kjarri frekar en að fljúga í burtu. Höfundur bókarinnar, Sigurður Ægisson, nefnir þetta sem ástæður þess að músarrindill var löngum talinn skyldari músum en fuglum. Allt ber þetta að sama brunni.
Til að koma í veg fyrir að þessum sé ruglað saman er rétt að nefna að fyrri myndin sýnir músarrindil. Hana tók Emma Hulda Steinarsdóttir. Seinni myndin sýnir hagamús. Hana tók Sigríður Hrefna Pálsdóttir.
Seinni hluti nafnsins er rindill. Í nútímamáli merkir það væskill og þekkist í samsetningum eins og rindilmenni. Ekki er það nú falleg merking fyrir þennan litla fugl. Þeir sem lifa af íslenska vetur utan dyra eru hvorki væsklar né rindilmenni. Guðmundur Páll (2005) segir í sinni bók að ef til vill sé upphaflega merking orðsins hinn liðugi eða grannvaxni. Músarrindillinn er þó langt frá því að vera sérstaklega grannvaxinn, þótt smár sé. Í því sambandi má nefna að Sigurður Ægisson (2020) gefur í sinni bók upp 10 samheiti fyrir þennan fugl. Eitt af þeim er kjötbolla. Þótt þessi krúttlega kjötbolla teljist ekki grannvaxin gefur þetta tilefni til að ætla að ekkert neikvætt hafi verið tengt nafni músarrindils þegar það var sett á þennan fugl. Á honum sannast að margur er knár þótt hann sé smár.
Einar Þorleifsson (2025) er með aðra tilgátu um rindilsheitið. Hann telur að það geti upphaflega verið einskonar hljóðlíking fyrir tístið sem hann gefur frá sér, rétt eins og systur hans mýsnar. Því þurfi nafnið ekkert að hafa neitt með væskil að gera, enda engin ástæða til. Samkvæmt þjóðtrúnni er músarrindillinn vel meðvitaður um hversu knár hann er. Bæði hér á landi og erlendis var því lengi trúað að í þrumuveðrum teldi hann líklegt að himnarnir væru að hrynja. Þess vegna leggst hann á bakið í slíkri ótíð og setur upp annan fótinn til að styðja við himininn. Þetta er ekki háttarlag væskla. Þetta er ekki eina dæmið um tengsl músarrindils við þrumur og eldingar, sem oftast fara saman. Sá sem steypir undan músarrindli á það á hættu að verða fyrir eldingu (Sigurður 2020).
Fleiri sögur um þjóðtrú og músarrindil er að finna í sérstökum kafla hér neðar.

Hljóð
Eitt af því sem gerir þennan smáa en knáa fugl jafn vinsælan og raun ber vitni, er hvað hann er mikill söngfugl. Hann má kalla lítið skáld á grænni grein sem gleður bæði eyrun. Flestir (óháð kyni) eru sammála um að fáir standi honum á sporði eða stéli hvað sönglist áhrærir, nema ef vera skyldi svartþrösturinn. Söngurinn er ótrúlega hávær. Sérstaklega ef miðað er við hvað fuglinn er smár. Hann endurtekur í sífellu fáeina langa og hvella tóna og endar svo í hvellu og dillandi hljóði, eins og Jóhann Óli Hilmarsson lýsir því í Fuglavísi frá 2011. Væntanlega er þessum kraftmikla söng ætlað að tilkynna öðrum fuglum um eignarrétt yfir tilteknu óðali. Helst heyrist söngurinn á sumrin og mest nálægt ljósaskiptum á morgnana og aftur á kvöldin. Hann getur þó vel brostið í söng á miðjum degi ef hann finnur hjá sér þörf til þess. Um lágnættið hættir hann öllum söng.
Það er ekki svo að öll hljóð músarrindils teljist vera fagur söngur. Ef að honum kemur styggð eða honum sýnist að hætta steðji að gefur hann frá sér hvellt viðvörunarhljóð. Hann á sér líka ýmis hávær kallhljóð sem teljast ekki beint til fegurðar- eða menningarauka í skógum landsins. Þessi hljóð eru stundum margendurtekin og segir Einar Þorleifsson (2016) að þau geti hjálpað okkur mannfólkinu að finna fuglana þar sem þeir halda til svo sem í skóglendi, þéttum runnum, við læki, eða gömul útihús.

Óðal
Margir músarrindlar eru allan ársins hring í skógunum. Þeir eiga sér svæði sem þeir verja af hörku fyrir öðrum fuglum sömu tegundar. Slík svæði köllum við óðul. Mest er þetta áberandi á sumrin til að tryggja að hreiður séu ekki of þétt. Þannig verður auðveldara að fóðra ungana. Þetta leiðir til þess að músarrindill verpir dreift í skógum og kjarrlendi, eða annars staðar þar sem hann verpir. Fuglarnir eigna sér einnig svæði á vetrum við heppilega fæðuuppsprettu. Yfirráð óðala eru tilkynnt með söng og er það mest áberandi í birtingu. Fuglarnir syngja þá bæði hátt og snjallt. Það er með ólíkindum hvað þessi litli fugl getur sungið hátt til að tilkynna um yfirráð sín. Oft verða deilur um mörk óðala. Þær eru oftast leystar með háværum köllum og söng. Samhliða því sýna fuglarnir ógnandi tilburði til að hrekja keppinauta í burtu. Þá flögra þeir ótt og títt með útbreitt stél. Oftast nær dugar það til að halda yfirráðarétti yfir óðali eða fæðusvæði (Einar 2016, Einar og Daníel 2006).

Kjörlendi
Í góðri grein um músarrindil í Skógræktarritinu árið 2016 lýsir Einar Þorleifsson kjörlendi hans. Þessi kafli er byggður á þeirri lýsingu en annars er býsna mikið í þessum pistli úr þeirri ágætu grein.
Varpkjörlendi músarrindils er fyrst og fremst í skógum landsins. Vinsælastir eru birkiskógarnir. Einkum á það við ef beit í þeim er lítil eða engin. Þá má vænta meiri undirgróðurs og þar með meira lífs og aukins ætis. Helst sækir músarrindill sér fæðu á stofnum trjáa og í gróðri nærri jörðu. Birki er einstaklega vinsælt meðal þessara fugla. Þar geta þeir verpt og fundið fæðu. Á greinum þess má tína upp stökkmor og aðrar litlar pöddur en í laufinu má finna blaðlýs og fiðrildalirfur.

Rennandi vatn hefur mikið aðdráttarafl fyrir músarrindil jafnt sumar sem vetur. Þetta dálæti gerir það að verkum að þá er helst að finna við læki í skógum. Það er ekki bara vegna þess að þeir sæki í að fá sér bað, heldur vegna þess að smávaxin skordýr er gjarnan að finna í meira mæli nálægt rennandi vatni en á þurrlendi. Á veturna halda þeir sig gjarnan við lindarvatn í skógum. Í því sambandi má nefna að mýflugur geta komið upp úr lækjum allan veturinn, músarrindlum til mettunar og mikillar gleði (Einar og Daníel 2006). Fyrir kemur að músarrindill verpi í vel grónum og bröttum fjallshlíðum. Hinn algengi sjófugl; fýllinn, verpir gjarnan í slíkri vist og ber sjávarfang með sér sem æti handa ungum sínum. Því fylgir mikið nitur sem fuglinn ber í slíka vist og eykur þannig gróður. Þannig hefur fýllinn víða ræktað upp mikið land með driti sínu. Nú má til dæmis sjá mikil hvannastóð í Mýrdalnum og víðar þar sem hann hefur haldið til. Þessi vist laðar að sér fjöldann allan af skordýrum sem gleðja svanga músarrindla og því sækja þeir í slíka staði. Músarrindill sækir jafnvel í vel gróin fuglabjörg sem bjóða upp á svipaða fæðu. Hér má fræðast meira um þennan þátt í pistli okkar um nitur.

Það vekur nokkra athygli að fuglinn hefur ekki enn sest að í Krossanesborgum norðan Akureyrar (Sverrir 2025). Þar háttar þannig til að mávar bera fæðu af hafi í unga sína og auðga þannig lífríkið, rétt eins og Einar segir að fýlinn geri. Áburðaráhrifin má sjá á varpstöðvunum. Smám saman er birki að verða gróskumikið í borgunum og lífríkið allt er að aukast eftir að landið var friðað fyrir búfjárbeit. Því má búast við að músarrindill setjist þarna að fyrr en síðar.
Vel gróin gljúfur, sem vegna legu sinnar og erfiðs aðgengis hafa sloppið við sauðfjárbeit, bera oft mikla grósku. Þar má jafnvel finna nokkurn sjálfsprottinn trjágróður sem ekki finnst í nágrenninu. Í slíkri vist er gjarnan músarrindill en erfitt getur verið að finna fuglana þar sem söngur þeirra hverfur í háværan árnið. Einar (2016) nefnir gljúfur Hvítár við Gullfoss og ár í Fljótshlíð og við Nauthúsagil við Stórumörk sem dæmi.
Mest er þó af músarrindli í skógum. Einkum er hann að finna í kjarrskógum á Suður- og Vesturlandi ásamt Vestfjörðum. Hann er einnig algengur í skóglendi á Austurlandi og víðar.
Við þetta má bæta að oft má sjá þennan fjöruga fugl í Kjarnaskógi og yfir veturinn sækir hann dálítið í gróðurhús Sólskóga, starfsfólki til ununar. Hann er einn af þeim fuglum sem styrkst hafa í sessi á Íslandi með aukinni skógrækt, eins og Einar Þorleifsson (2026) hefur bent á.

Saga
Lengi vel var músarrindill talinn fremur sjaldgæfur fugl á Íslandi. Helst varð hans vart við bæi á haustin og fram eftir vetri. Að auki vissi fólk af honum í þeim fáu og litlu birkiskógum sem til voru á Íslandi eftir að ósjálfbær landnýting, með tilheyrandi ofbeit, hafði eytt nær öllum skógum landsins. Helst var þá músarrindil að finna í leifum birkiskóga á Norðausturlandi (Einar 2016). Á okkar tímum telst músarrindill nokkuð algengur á láglendi en þó aðeins þar sem heppilegt kjörlendi er að finna.

Einar Þorleifsson hefur verið duglegur að fræða lesendur Skógræktarritsins um fugla. Árið 2016 skrifaði hann grein um músarrindil sem áður er nefnd. Þar veltir hann fyrir sér hvenær fuglinn hafi numið hér land. Niðurstaða hans er sú að hann hafi ekki getað lifað á Íslandi á ísöld og hljóti því að hafa komið síðar. Forsenda landnámsins hafi þá verið að birkiskógar og víðikjarr hafi verið farið að breiða úr sér eftir að ísa leysti. Þessum trjám og öðrum gróðri hafi þá fylgt skordýr sem fuglinn gat lifað á. Mestar líkur, telur Einar, eru að landnám hafi átt sér stað á hinu milda loftslagstímabili sem í Evrópu er nefnt Atlantic og var fyrir um 5000-7500 árum. Hérlendis hefur það gengið undir heitinu mýrarskeiðið fyrra. Í kjölfar þess kom birkiskeiðið síðara. Þá breiddust laufskógar hratt út um þurrlendi Íslands (Sigurður og Skúli Björn 1999). Neðra lurkalagið af þeim tveimur, sem gjarnan má finna í þykkum mýrarjarðvegi, myndaðist á mýraskeiðinu fyrra, en efra lurkalagið (sem er algengara og meira áberandi) myndaðist á mýrarskeiðinu síðara sem tók við í lok þessa birkitímabils og stendur enn.
Almennt velur músarrindillinn sér búsetu á svæðum þar sem veðrið er fremur milt. Á þessu skeiðum skapaðist kjörlendi fyrir músarrindil á Íslandi enda hefur loftslag verið hér afar gott á þessum tíma og sennilega aldrei verið jafn hlýtt á Íslandi frá því fyrir ísöld. Hér hefur músarrindillinn verið alla tíð síðan. Hann hefur þraukað jafnvel þótt veðráttan hafi stundum verið óhagstæðari en hún var á þessu skeiði.

Íslenska afbrigðið islandia
Nokkrar tegundir fugla hafa verið svo lengi á Íslandi, án teljandi samskipta við aðra fugla sömu tegundar í öðrum löndum, að þeir hafa þróað með sér ákveðin sérkenni. Þannig er því einmitt farið með músarrindilinn. Þótt hann sé annar minnsti fugl landsins á eftir glókollinum, þá er hann stærsti músarrindill í heimi. Fyrir það og önnur smáatriði (allt sem við kemur músarrindli er væntanlega smátt og þar með smáatriði) hefur hann fengið hið þriðja fræðiheiti og kallast Troglodytes troglodytes islandia. Sá sem næst honum kemst í stærð er músarrindillinn sem finna má á smáeyjaklasanum St. Kilda sem liggja undan vesturströnd Skotlands (Einar 2016). Jóhann Óli (2011) segir að íslenskur músarrindill eigi einnig annað einkenni sem greinir hann frá öðrum músarrindlum. Það er að hann er dekkri en frændur hans í Evrópu. Samkvæmt því sem Guðmundur Páll (2005) segir má jafnvel skipta músarrindlum í um 40 undirtegundir eða afbrigði. Yngri heimildir gefa upp ýmsar tölur svo við getum aðeins fullyrt að undirtegundirnar eru nokkuð margar.

Ef það er rétt hjá Einari Þorleifssyni (2016) að fuglinn hafi komið hingað fyrir um 5000 árum eða þar um bil er það nægur tími til að stofninn hafi þróað með sér ákveðin einkenni sem ekki þekkjast annars staðar. Náttúruvalið hefur valið úr þá rindla sem eru stærstir hverju sinni. Sennilega eiga þeir auðveldara með að lifa af á okkar harðbýla landi en minni fuglarnir. Er það í samræmi við það sem stundum má sjá á eyjum, eins og Darwin benti á fyrir löngu. Á þeim virðast dýr oft þróast sem eru annað hvort stærri en dýr á fastalandinu, eða miklu minni. Lítil dýr verða stærri en stór dýr gjarnan minni. Þannig eru til dæmis hreindýr, sem sest hafa að á smáum eyjum Íshafsins, minni en hreindýr á fastalandinu á meðan íslensa hagamúsin er stærri en sú evrópska, rétt eins og bróðir hennar músarrindillinn er stærri en aðrir músarrindlar.

Útbreiðsla
Í grein frá 2016 segir Einar Þorleifsson að músarrindil megi finna á breiðu belti um nær allt norðurhvel jarðar. Nú hefur ameríski músarrindillinn verið flokkaðir sem sérstök tegund. Kallast hún Troglodytes hyemalis en ekki Troglodytes troglodytes eins og evrópska tegundin. Þessar upplýsingar Einars um útbreiðslu voru því réttar þegar Einar skrifaði greinina en eru það ekki lengur. Einar (2016) segir að fuglinn sé fyrst og fremst í laufskógabeltinu og syðst í barrskógabeltinu.
Í bók Sigurðar Ægissonar (2020) má sjá kort sem sýnir útbreiðslu fuglsins og þar er amerísku tegundinni vitaskuld sleppt. Við fengum leyfi til að birta kortið og það má sjá það hér að neðan. Samkvæmt því er fuglinn fyrst og fremst að finna í Evrópu og í fjalllendi Asíu. Hann er einnig nyrst í Afríku. Ef kortið er rétt eru það fyrst og fremst farfuglar í Evrópu og austast í Asíu sem halda sig á mörkum barr- og laufskóga eins og Einar nefnir.

Hér á landi er músarrindillinn staðfugl enda vart leggjandi á svona litla fugla að fljúga tvisvar á ári yfir Atlantshafið. Um sunnan- og vestanverða Evrópu er músarrindillinn staðfugl en nyrst á útbreiðslusvæði sínu er hann farfugl og sennilega hefur hann borist hingað með óvenjudjúpri lægð á sínum tíma. Þetta gæti verið svipuð saga og hjá glókollinum sem nýlega nam hér land og gerðist hér staðfugl. Við höfum birt pistil okkar um þann fallega fugl og má sjá hann hér.
Á Íslandi verpir músarrindill hvergi á hálendinu. Hæst yfir sjó er hann að finna í kjarrskógum við Mývatn í rúmlega 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Annars staðar fylgir hann gjarnan grónum árgiljum og skógum upp í um 200 til 300 metra hæð (Einar 2016).
Á haustin er töluvert flakk á músarrindlum í leit af fæðu. Þá sjást þeir oft við útihús þar sem gjarnan má finna fæðu nálægt blóðheitum húsdýrum. Þeir eiga það líka til að sækja til sjávar eða að volgrum þar sem auðvelt er að finna fæðu og skjól.

Varp
Þessi litli, fjörugi og söngglaði fugl vefur ótrúlega vönduð hreiður. Það er kúlulaga með litlu, kringlóttu gati. Hreiðurefnið er gjarnan mosi og fíngerð sina og strá. Að innan er það fóðrað með fjöðrum og fræull víðifræja (Einar 2016), en algengast er að nota rjúpnafiður í þessum tilgangi (Sigurður 2022). Það er karlfuglinn sem sér um vefnaðinn en kvenfuglinn fóðrar heimilið að innan. Karlinn kemur fyrr á varpstöðvarnar og helgar sér óðal. Hann á það til að búa til mörg hreiður og lætur svo kvenfuglinn um að velja. Það tekur karlinn um 1 til 5 daga að byggja hvert hreiður. Mjög algengt er að karlfuglinn stundi tvíkvæni en einkvæni og fjölkvæni þekkist einnig (Guðmundur Páll 2005, Sigurður 2022).

Hreiðrið er vel falið, til dæmis undir lækjarbakka eða í holu í klettum og stundum undir sumarbústöðum ef það er hægt. Fuglinn verpir líka í þéttum grenitrjám og þá alltaf þétt við stofninn. Músarrindillinn er líka alveg til í að verpa í smáa varpkassa með kringlóttu opi sem er um 2,5 cm í þvermál. Slíka kassa má gjarnan setja í þétt grenitré eða utan á hús í um 2 m hæð þar sem kettir komast ekki að (Einar 2016).
Vanalega verpa músarrindill um 7 eggjum en algengt er að eggin séu 5 til 8 í hverju hreiðri. Aðeins kvenfuglinn liggur á. Álegan stendur yfir í tæpar tvær vikur. Síðan eru ungarnir fóðraðir í álíka langan tíma og um það sjá báðir foreldrarnir. Þegar næga fæðu er að hafa koma fullorðnu fuglarnir með æti á innan við mínútu fresti.
Varptíminn er frá maí fram í ágúst og fuglarnir verpa tvisvar eða þrisvar yfir sumarið (Einar 2016).

Fæða
Eins og sjá má á mjóum, litlum goggi músarrindilsins er hann skordýraæta. Helst lifir hann á skordýrum og öðrum pöddum sem sitja á laufi, stofni og greinum trjáa eða þeir róta í rotnandi laufi á jörðinni eftir girnilegum pöddum. Þeir geta tekið bæði smá og stór skordýr og aðrar pöddur. Þeir taka til dæmis blaðlýs og fiðrildalirfur. Á veturna éta þeir sitkalýs, stökkmor og annað sem til fellur (Einar 2016, Sigurður 2022). Rétt er að nefna að á heimasíðu Fuglaverndar er bent á að hann sækir ekki í fuglafóður sem gefið er í görðum landsmanna.

Eins og gefur að skilja getur orðið minna um skordýr á vetrum. Sérstaklega á það við þegar lengi er kalt í veðri. Getur þá fækkað verulega í stofni músarrindla. Ef veturnir eru mildir er næga fæðu að hafa og þá er stofninn stór og sterkur á vorin þegar varp hefst. Engum vafa er undirorpið að aukin ræktun trjáa hentar músarrindli einstaklega vel, enda forðast hann beinlínis bersvæði. Svo virðist sem honum fari heldur fjölgandi á landinu. Nýir varpstaðir bætast smám saman við í skógræktarreitum um allt land.

Músarrindill á vetrum
Á veturna, einkum ef kalt er, safnast stundum saman nokkrir músarrindlar til að nátta sig saman. Til þess finna þeir einhvern góðan stað, til dæmis gamalt hreiður sem aðrir fuglar hafa skilið eftir sig eða hreiðurkassa eða eitthvað álíka. Þar geta þeir notið ylsins hver frá öðrum. Á þessum tíma láta þeir af öllum kröfum um óðul og yfirráð en verða félagslyndir. Þegar aftur birtir af degi slíta þeir þessum næturfélagsskap og hver og einn fer aftur á sitt heimasvæði (Einar og Daníel 2006, Einar 2016).
Músarrindill virðist ekki vera eins mikið fyrir söng á veturna sem á sumrin en samt sem áður syngur hann stundum hástöfum yfir veturinn. Það gerist samt nær eingöngu fyrst á morgnana. Þegar það gerist er segin saga að hann telur sig þurfa að tilkynna eignarrétt yfir heppilegu svæði, til dæmis meðfram ófrosnum skógarlæk (Einar 2016).

Vetrarstöðvar á músarrindill gjarnan við hverasvæði þar sem þau er að finna. Hann sækir líka í sjóvarnargarða þar sem finna má æti og skjól. Þar sem lindarlæki eða volga læki er að finna í skógum má nær alltaf finna músarrindla á vetrum. Á slíkum stöðum er næga fæðu að finna allt árið. Á veturna virðast þeir einnig finna heilmikla fæðu í visnuðum gróðri nærri jörðu.

Þjóðsögur
Þessi litli fugl hefur margvísleg tengsl við þjóðtrúna. Frá þessum tengslum er meðal annars sagt í bók eftir Sigurð Ægisson (2020). Hann skrifaði bókina Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin og þar er margt fróðlegt að finna og sumt af því er nú þegar nefnt í þessum pistli. Einnig er sagt frá merkilegri þjóðtrú í bók sem Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring gáfu út árið 2017.
Ástæður þess að svona margar þjóðsögur tengjast þessum litla fugli kunna meðal annars að vera þær að afar lítið var vitað um ferðir músarrindil og annað er að honum snýr (Sigurður 2020). Það er góður jarðvegur fyrir þjóðsögur.

Furðusagnir um fuglinn rötuðu meðal annars í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá seinni hluta 18. aldar. Þar fullyrða þeir ferðafélagar að hann sjáist sjaldan að degi til því þá liggi hann í dimmum holum sem á vetrum lokast af snjó og ís. Hann gætir þess þó að úr holunum séu leynigöng sem hann nýtir sér. Svo segja þeir að fuglinn sé mest á ferli á nóttinni og í rökkrinu. Að lokum nefna þeir meint hangikjötsát fuglsins eins og greint er frá hér ofar í kafla um fuglinn í húsum (Sigurður 2020 og 2022). Músarrindillinn lætur sér samt ekki duga hangikjötið. Þjóðtrúin segir að hann eigi það einnig til að smjúga inn í endaþarm stórgripa og veldur það dauða þeirra. Hann á líka að geta étið sig inn í sauðfé til að ná í mörinn.

Fuglakóngur
Margur er knár þótt hann sé smár. Eitt af mörgum heitum fuglsins, sem Sigurður Ægisson gefur upp í sinni bók, er fuglakóngur. Þetta tengist frægri þjóðsögu um fuglinn sem til er í mörgum útgáfum í Evrópu og Ameríku. Elstu skráðu söguna er að finna í yngri útgáfum af dæmisögum Esóps. Eitt sinn ákváðu fuglarnir að keppa um það hver þeirra gæti flogið hæst og átti sá er hæst flygi að hljóta konungstign að launum. Músarrindillinn sá að hann ætti ekki mikla möguleika í þessari keppni nema með því að fara örlítið á svig við heiðarlegar keppnisreglur. Þess vegna faldi hann sig í fjöðrum arnarins. Sennilega hefur hann verið sömu skoðunar og Páll Ólafsson sem sagði: „Örninn flýgur fugla hæst í forsal vinda. / Hinir sér það láta lynda / leika, kvaka, fljúga og synda.“ Smátt og smátt heltust fuglarnir úr lestinni og þar kom að jafnvel örninn gat ekki flogið hærra. Þá flaug músarrindillinn úr fjaðrahami hans (sumir segja undan vængnum eða stélinu) og komst því hæst allra fugla. Síðan heitir hann fuglakóngur eða litli fuglakóngur á mörgum tungumálum (Sigurður 2020). Þess má geta að þessi titill, fuglakóngur, hefur einnig veið notað yfir glókollinn sem við höfum áður fjallað um. Hann er enn minni en músarrindillinn en hefur gyllta kórónu á höfðinu (Einar 2025). Lok þessarar sögu eru nokkuð fjölbreytt eftir löndum og útgáfum. Oft verða fuglarnir eitthvað pirraðir út í músarrindilinn fyrir þetta meinta svindl og vilja hefna sín á honum. Hefur það leitt til þess að af margra mati er hann felugjarnari en almennt gerist meðal fugla.

Á Íslandi lifir þessi sögn eins og víðar. Hér hefur sagan leitt til svo mikillar fýlu hjá erninum að enn eru þeir svarnir óvinir. Sagt er að haförninn óttist engan fugl - nema músarrindil. Stafar það meðal annars af því að örninn telur að músarrindill sækist eftir því að hefna sín eftir ófarir í kjölfar flugkeppninnar, þar sem sá síðarnefndi var lagður í eilífðareinelti fyrir smávægilegar sveigjur á leikreglum. Þetta hefur leitt til þess að örninn þarf að vara sig. Hann á það nefnilega til, samkvæmt sögunum, að taka óþarflega mikið til matar síns. Eftir það á hann erfitt með að hefja sig til flugs. Þá rembist hann svo mikið að þarfagangurinn opnast. Það er tækifærið sem músarrindillinn hefur beðið eftir. Hann smeygir sér þar inn og reynir að rekja garnirnar úr erninum (Sigurður 2020).

Nú er komið að viðbót frá Hjörleifi Hjartarsyni (2017), sem við lofuðum í kaflanum hér að framan. Hann segir að músarrindill geti einnig smeygt sér inn um rassinn á örnum ef þeir rembast við að fljúga of hátt. Ef örninn fer of hátt slaknar nefnilega á rassvöðvunum að sögn Hjörleifs. Sennilega hefur litli músarbróðirinn þá tekið sér far með erninum eins og að framan greinir, en Hjörleifi hefur ekki þótt taka því að nefna það. Svo vel er sú sögn þekkt. Svo bætir hann því við að fólk hafi fullyrt að músarrindlar hafi sést fljúga eins og pílur inn í örninn aftanverðan og út um hinn endann. Við það drepst örninn samstundis eins og gefur að skilja (Hjörleifur 2017). Ekki er ástæða til að draga þetta í efa, enda er Hjörleifur Hjartarson ekki frægur fyrir að kríta óeðlilega liðugt.

Músarrindill og galdrar
Enn er þjóðsagnaarfurinn ekki tæmdur þegar kemur að þessum litla fugli. Til hans má sækja ýmis hjálpargögn til galdra. Um þetta eru þeir Hjörleifur (2017) og Sigurður (2020) nokkuð sammála og verður ekki gert upp á milli þeirra í þessum kafla. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er þess getið að ef hjarta er tekið úr músarrindli og það sett í hnífsskaft verður stunga með þeim hníf ólæknandi. Hjartað má líka þurrka í vindi, vefja í klæði og geyma í lófa sér. Þannig vopnaður getur maður lesið hugsanir viðmælenda sinna.

Blóðið úr músarrindli er líka gætt töframætti. Það er alveg gráupplagt að þvo sér upp úr því til að öðlast nætursjón. Sumar heimildir segja að öruggast sé að þvo sér um augun með því til að þetta virki. Það getur þó verið varlegt að treysta á þessi hlunnindi, ef marka má það sem Sigurður (2020) hefur eftir Sigfúsi Sigfússyni. Hann segir að til að fá nætursjón eigi að skera músarbróður í hreinu íláti og láta froðuna í augnkrókana en passa að ekkert blóð fylgi því þá sé hætta á hverskyns ofsjónum. Enn er ónefnt að hægt er að nota höfuð músarrindils til að stinga mönnum svefnþorn, sem kallað er. Þá er fuglshausinn hengdur yfir höfuð hins sofandi manns og vaknar sá hinn sami ekki fyrr en músarrindilshausinn er fjarlægður. Að lokum skal minnt á eitt galdratæki í viðbót. Stundum má finna hulinssteina í hreiðrum músarrindils. Sá sem býr yfir honum getur gert sig ósýnilegan.
Fleiri dæmi um allskonar þjóðtrú tengda þessum fugli má finna í bók Sigurðar (2020).

Heimildir og frekari lestur
Einar Þorleifssn (2016): Fuglarnir í skóginum: Músarrindill. Í: Skógræktarritið 2016 2. tbl. bls. 59-65. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.
Einar Ó. Þorleifsson og Daníel Bergmann (2006): Fuglalíf í skóginum að vetrarlagi. Í Skógræktarritið 2006 2. tbl. bls. 84-89. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.
Einar Þorleifsson (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í apríl 2025
Fuglavernd (2025): Músarrindill. Sjá: Músarindill - Fuglavernd.is Sótt 7. janúar 2025.
Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring (2017): Fuglar. Angústúra.
Hjálmar R. Bárðarson (1986): Fuglar Íslands. Bls. 270-273. Hjálmar R. Bárðarson, Reykjavík.
Jóhann Óli Hilmarsson (2011): Íslenskur fuglavísir. 3. útgáfa, bls. 224-225. Mál og menning.
Guðmundur Páll Ólafsson (2005) Fuglar í náttúru Íslands. bls. 242 til 243. Mál og menning.
Sigurður Blöndal og Skúli Björn Gunnarsson (1999): Íslandsskógar. Hundrað ára saga. Mál og myjnd.
Sigurður Ægisson (2020): Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar.
Sigurður Ægisson (2022): Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar. Fugladagbókin. Bókaútgáfan Hólar
Sverrir Thorstensen (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í janúar 2025.

Þakkir
Þakkir fá allir sem veittu okkur upplýsingar, myndir og kort svo gera mætti þessa grein sem besta. Einnig fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir þakkir fyrir yfirlestur prófarkar. Allar villur, sem kunna að leynast í greininni eru á ábyrgð höfundar. Sérstakar þakkir fá Sigurður H. Ringsted, Emma Hulda Steinarsdóttir, Sigurður Ægisson og Einar Ó. Þorleifsson fyrir þolinmæðina sem þau hafa sýnt kvabbi höfundar.
Comments