top of page

Hinar aðskiljanlegustu náttúrur reynitrjáa

Updated: Dec 1, 2023

Öldum saman hefur fólk talið að náttúran búi yfir fjölbreyttum teiknum og stórmerkjum. Svo virðist vera sem reynitré, Sorbus aucuparia, skipi þar eins konar heiðurssess. Á tegundinni hefur lengi verið allskonar átrúnaður, bæði hérlendis og erlendis. Fólk hefur tengt hann við hvers kyns hindurvitni af óvenjumiklum dugnaði og natni víða um Evrópu. Að auki er reynirinn ein af örfáum trjátegundum sem talið er að hafi vaxið á Íslandi við landnám. Því kemur ekki á óvart að reynirinn kemur víða við í varðveittum sögum hér á landi. Í þessum pistli skoðum við nokkrar heimildir um þetta stórmerkilega töfratré og notkun þess og tengsl við andaheima.

Ungar reyniplöntur í uppeldi í Sólskógum. Mynd: Sig.A.


Björg Þórs

Á íslensku heitir þetta tré reynir, reyniviður eða ilmreynir. Nafnið vísar án efa í hinn rauða lit og hefur fyrr á öldum verið kallað reyðnir. Þennan orðstofn má enn sjá í færeysku þar sem hægt er að fá aðstoð frá Reyðikrossinum ef menn hafa drukkið of mikið reyðivín. Við höfum áður sagt frá þessu eins og lesa má um hér. Þetta heiti sýnir ágæta náttúru- og sögugreind forfeðra okkar sem ekki gengu fáfróðir um skóla lífsins.




Íþróttafélagið Þór á Akureyri. Auðvitað ber að tengja það hinum rauða lit frekar en til dæmis grænröndóttu, svo dæmi sé tekið af algeru handahófi.


Rauði liturinn vísar bæði í haustliti reynisins og blóðrauð berin. Að auki vísar það í forna kenningu um goðið Þór sem sjaldan þurfti á hjálp að halda. Þó varð það honum til happs, er hann féll í straumþunga á í baráttu sinni við tröll, að hann greip um grein á reynitré sem óx á árbakkanum. Með aðstoð hennar hafði hann sig upp. Samkvæmt Skáldskaparannál í Eddu Snorra Sturlusonar var þetta áin Vimur en hún er allra áa mest eins og kunnugt er. Reynirinn er því nefndur björg Þórs. Auðvitað var ekkert annað tré sem kom til greina en hið rauða tré. Svona segir Snorri frá þessu: „Ok í því bili bar hann at landi ok fekk tekit reynirunn nökkurn ok steig svá ór ánni. Því er það orðtak haft, at reynir er björg Þórs.“ (Snorri Sturluson án ártals).


Áberandi reynir, eða reyðnir, þann 15. september 2018. Mynd: Sig.A.


Sú trú var á reynivið í Skotlandi og víðar um Bretlandseyjar, að hann var talinn öruggt skjól í þrumuveðrum. Almennt er ekki heppilegt að leita skjóls undir trjám við slíkar aðstæður. Öðru máli gegnir um reynitré, ef marka má þjóðtrúna. Þar sem Þór er það goð sem hefur þrumur og eldingar á valdi sínu og hefur auk þess sérstakt dálæti á reynitrjám er talið öruggt að halda sig undir þeim í slíkum gjörningaveðrum. Það var varla við því að búast að sjálfur eldingameistarinn legði það á sín uppáhalds tré að verða fyrir eldingum. (Simon Wills 2018). Ekki hefur þeim er þetta ritað fundið heimildir um samsvarandi trú á Íslandi. Má vera að hvorki reynitré né eldingar séu nægilega algeng til að trúin hafi skotið hér rótum.


Ensk heiti og tengsl við átrúnað

Fjölmörg heiti hafa verið notuð á ensku yfir þetta tré. Má þar nefna orðið rowan eða rowan tree sem greinilega á sér norrænan uppruna og gæti verið samstofna orðinu reynir. Bæði enska og íslenska heitið hefur einnig verið notað sem sérnöfn eins og vel er þekkt. Án efa hefur heitið borist inn í enska tungu með norrænum mönnum. Sumar heimildir segja reyndar að þótt fræðingar séu sammála um norrænan uppruna sé merkingin ekki ljós (Diana Wells 2010). Stungið hefur verið upp á að þetta sé tré norðursins og dragi heitið af því. Sá sem þetta ritar áttar sig illa á þeirri tilgátu. Einnig hefur verið stungið upp á að heitið sé dregið af orðinu rún og tengist göldrum. Sú tilgáta hljómar nokkuð sannfærandi enda hljóma orðin rún og rowan nokkuð líkt. Samkvæmt Wells gæti nafnið sjálft tengst eins konar miðilssamband við erkióvin kristinna manna, sjálfan myrkrahöfðingjann. Því má velta því upp hvort sérnafnið Rowan sé sama nafnið og Reynir eða Rúnar.


Reynir vex upp úr kletti í hálöndum Skotlands. Fjær sér í skógarfuru sem á enskri tungu er kennd við Skotland. Mynd: Sig.A.


Annað enskt heiti er mountain ash sem merkir fjallaaskur. Heitið vísar í að reynir og askur eru með svipaða blaðlögun. Fljótt á litið mætti ætla að reynirinn sé einhvers konar askur. Má jafnvel halda því fram að orðið askur merki í raun tré með samsett lauf. Ef það er rétt (og með vísan í þetta enska heiti) má vel velta því fyrir sér hvort í einhverjum tilfellum geti það einnig átt við um norrænu. Var askur Yggdrasils ef til vill reynitré? Heitir Eskifjörður eftir trjátegundinni aski vegna þess að þar hafi í eina tíð verið óvenjumikið um reynitré? Rétt er þó að árétta að þetta eru aðeins hugmyndir sem gaman er að velta fyrir sér. Þetta er ekki fullmótuð kenning.

Askur í garði við Móasíðu á Akureyri. Laufin minna vissulega á reynilauf. Mynd: Sig.A.


Á meðal annarra nafna á enskri tungu má nefna quickbeam, quicken tree, ornus, wild sorb, flowering ash eða wild ash, water elder, serves, whitten tree, wiggan og witchen (Simon Wills 2018, Diana Wells 2010). Sum þessara nafna eru væntanlega byggð á einhverjum misskilningi en önnur vísa í ýmsan átrúnað og galdrafargan. Quickbeam er mjög fornt heiti á ensku. Fyrri liðurinn, quick getur merkt lifandi. Sama merking kann að vera í orðinu quiken tree. Í þessari merkingu má sjá orðið í fornum Biblíuþýðingum: „the quick and the dead“. Sama tvöfalda merkingin, sem vísar í hreyfigetu jafnt sem líf, má sjá í íslenska orðinu kvikur. Sjálfsagt eru þessi orð af sama stofni.

Seinni liðurinn, beam er fornt heiti á tré. Líklega samstofna þýska orðinu Baum og íslenska orðinu baðmur sem einmitt merkir tré. Það er gaman að segja frá því að í Völuspá er að finna þessa vísu, þar sem askur Yggdrasils er kallaður baðmur.

Ask veit eg standa, heitir Yggdrasill, hár baðmur, ausinn hvíta auri; þaðan koma döggvar þær er í dala falla, stendur æ yfir grænn

Urðarbrunni.


Svona sér listamaðurinn Imgur fyrir sér ask Yggdrasils.


Hið forna, enska heiti á reynivið: quickbeam, mætti þýða sem líftré eða lífbaðmur. Nú eða eskibaðmur, með vísan í Yggdrasil. Kviktré gengur ekki sem þýðing, því það orð er upptekið og hefur allt aðra merkingu. Aftur á móti gæti kvikbaðmur gengið sem bein þýðing.

Orðið quick í þessari merkingu gæti einnig vísað í hæfileika reynitrjáa að vernda fólk fyrir hvers kyns ótætiskúnstum og öðru illu. Sú náttúra gat því haldið fólki á lífi þegar fordæðisskapur var algengari en síðar varð. Eða með öðrum orðum: Haldið því kviku. Þetta enska heiti getur því merkt lífsins tré, hvaða skýringin sem notuð er.

Bæði ensku heitin, quickbeam og mountain ash geta því myndað tengingu við lífsins tré norrænnar goðafræð: Ask Yggdasil.


Orðin wiggan tree, whitten tree og witchen byggja sennilega öll á mismunandi orðum yfir nornir (witch). Um notkun reynis til að verjast nornum verður nánar fjallað í næsta kafla.

Fræðiheiti reynisins er Sorbus aucuparia. Sorbus er fornt heiti yfir reyni á latínu. Aucuparia er sett saman úr orðunum avis, sem merkir fugl og capera, sem merkir að grípa. Nafnið vísar í að fuglar eru hrifnir af berjunum. Mynd: Sig.A.


Varnir gegn myrkum öflum

Trú manna af öllum kynjum á mátt reynitrjáa var mikil á Bretlandseyjum. Tók hún á sig ýmsar myndir. Einkum átti það við um eyríkið norðanvert en þekktist einnig allt suður til Veils (Simon Wills 2018, Diana Wells 2010). Hugmyndir af sama meiði mátti finna víða um álfuna þegar trú á tvo alsjáandi og ógnvekjandi höfðingja, annar i efra hinn í neðra, mótaði hugi manna meira en síðar varð. Þá var ekki við öðru að búast en að fólk fengi hugboð um að sumir væru frekar í þjónustu myrkrahöfðingjans en ljósameistarans.

Ein var sú trú að heppilegt væri að taka með sér litla reynigrein í ferðalög til að verjast nornum og öðru galdrahyski. Átti það jafnt við um ferðalög á landi og sjó. Göngustafir úr reyniviði gátu verið einstaklega heppilegir á löngum göngum á þurru landi og samkvæmt Wills þurfti helst að nýta reynivið í einhvern hlut á hverju skipi til að vernda það gegn öllu illu. Á Íslandi var þessu öfugt farið hvað skipin varðar. Hér mátti alls ekki nota reynivið til skipasmíða. Þó var hægt að bjarga sér ef einnig var notaður einir í sama hlut. Sá galli er á þessari björgun að einiviður er næsta fátíður á Íslandi enda myndar einirinn ekki tré hér á landi, heldur runna. Þess vegna er einfaldast og öruggast að sleppa því að nota reynivið í bátasmíði hér á landi.

Wills (2018) segir líka frá því að ef smjörgerð gekk illa gæti það sem best verið vegna þess að norn hafi sett álög á rjómann. Þá var alveg gráupplagt að hræra í vökvanum með sleif úr reyniviði til að losna við álögin. Þá gekk smjörgerðin snuðrulaust fyrir sig. Samkvæmt Diana Wells (2010) var reyniviður einnig tengdur smjörgerð í Þýskalandi. Það var samt ekki til að verjast göldrum og álögum heldur átti sleifar úr reyni að koma í veg fyrir að smjör þránaði. Ekki liggur fyrir hvort þessi náttúra reynisins hjá þýðverskum tilheyrir frekar efnafræði eða hvítagaldri. Í Noregi, segir sagan, áttu mjólkurafurðir og reyniviður enga samleið. Nánar um það hér aðeins neðar. Wills (2018) segir einnig að það hafi þótt sérstaklega heppilegt að reka stórgripi, einkum hesta, með reynigrein. Það verndaði gegn hvers kyns álögum norna og annars illþýðis. Stórgripir sem verða fyrir álögum geta nefnilega átt það til að styggjast og valda smölum erfiðleikum. Samkvæmt þjóðsögu úr Kelduhverfi átti þetta ekki við hér á landi (Sigurður Blöndal 2000). Sagan segir frá kúasmala sem vandist á að rífa greinar úr reyniviðarrunna sem óx út úr kletti til að nota sem keyri á kýr. Runninn var eign huldufólks sem ekki kunni að meta verknaðinn. Hefndist smala fyrir þetta verk. Hönd hans visnaði og síðan helmingur líkamans. Um veturinn dó hann. Skömmu seinna heyrði fjármaður frá Víkingavatni vísu kveðna úr bjarginu þar sem reynirinn óx.

Faðir minn átti fagran lund, sem margur grætur, því ber ég hryggð í hjarta mér um daga og nætur.


Þessi trú Skota, að heppilegt væri að reka kýr og hesta með grein af reyni, barst ekki til Noregs frekar en Íslands. Ingólfur Davíðsson (1958) skrifaði grein í Tímann þar sem hann sagði frá því að í Noregi mátti ekki nýta greinar af reynivið til að reka kýr. Ef það var gert kom blóð í mjólkina (tenging við rauða litinn?). Virðist trú manna á Íslandi hafa verið líkari þeirri norsku hvað þetta varðar en þeirri gelísku. Þetta er gjörólíkt trú manna í Þýskalandi og Bretlandi þar sem sleif úr reyni var sérlega heppileg til að hræra í smjöri eins og áður er nefnt.

Reynir er almennt talinn ljóselsk tegund. Í æsku er hann þó skuggþolinn eins og hér má sjá. Eru ungar plöntur í meiri tengslum við myrkraöflin?

Mynd: Sig.A.


Títtnefndur Wills segir í sinni bók frá heimild frá árinu 1660 þar sem kennt er að með aðstoð grænna berja reynitrjáa sé hægt að þvinga fram játningar hjá galdranornum. Vel er þekkt að yfirvöldum á þeim tíma gekk almennt vel að fá grunaða til að játa á sakir. Stundum þurfti þó að knýja fram játningar með heldur rýmra aðgengi að hvers kyns pyntingartólum en þeim sem búa má til úr grænum reyniberjum. Fáir voru syndlausir, þá sem nú, þótt þeir kynnu lítið í göldrum. Því þótti heppilegt, svona til vonar og vara, að brenna syndirnar af meintum nornum í þessu lífi frekar en í eilífðarbálinu.

Drykkur úr óþroskuðum berjum getur líka hjálpað til að losna við illa anda úr fólki, samkvæmt sömu heimild. Má rétt ímynda sér að það hefur ekki verið sérlega bragðgóður drykkur ef hann gat rekið út illa anda.

Svo er að sjá sem að galdranornum sé alveg einstaklega illa við reynivið. Það dugar til dæmis ágætlega að henda reynigrein í leið nornar og þá þorir hún ekki yfir greinina og snýr við. (Wills 2018) Getur þetta verið mjög hjálpleg vitneskja ef við þurfum að kljást við nornir. Miklu einfaldara er að henda reynigrein í götu norna heldur en að fara með nornir eins og hvern annan rekaviðardrumb og brenna til ösku.


Reynitré sem götutré á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Allt þetta leiddi til þess að forðum þótti ákaflega heppilegt að leggja á sig það viðvik að planta reynitrjám við hús á Bretlandseyjum til að halda illum öndum frá húsinu. Því miður komust Bretar að því að nornir sem flugu á kústum gátu sem best farið niður skorsteina þótt reyniviður væri við útidyrnar. Þessa innkomuleið tóku jólasveinar upp löngu síðar. Til að hindra för norna þessa leið inn í hús dugði að hengja reynigrein yfir eldstæðin og fóru þær þá upp aftur af hræðslu við greinina. Svo kom í ljós að sumar nornir reyndust svo öflugar að reynigreinar dugðu ekki til, svona einar og sér. Einkum virtust skoskar nornir erfiðar. Þá var ráð að binda tvær greinar saman þannig að þær mynduðu kross. Mikilvægt var að nota rauðan þráð í þessa framkvæmd. Annars virkaði þetta ekki (Wills 2018). Þessi siður er það vel kunnur að ef slegið er inn leitarorðið „rowan cross“ á leitarvélar má sjá að vart þekkist annað en að nota rauðan þráð til að hnýta krossinn. Sumir töldu enn heppilegra að búa til svokallaðan Andrésarkross. Hann er kenndur við postulann Andrés en hann taldi sig ekki vera verðugan þess að fá að vera krossfestur á sams konar kross og Jesús. Á það féllust böðlar hans og festu hann á X-laga kross. Heilagur Andrés er verndardýrlingur Skota og í fána Skotlands má sjá Andrésarkross. Má vel vera að í Skotlandi auki það á mátt reyniviðarins að búa til Andrésarkross til að berjast við nornir. Það sakar varla að treysta bæði á galdra og guðlega forsjá verndardýrlinga í einum og sama verndargripnum.

Á víðlendum ökrum alnetsins má sjá margar myndir af reynikrossum sem bundnir eru með rauðum þræði. Það er ekki bara á Bretlandseyjum sem þetta tíðkast. Þessi mynd er þýsk og fengin héðan.

Enn er ónefnt ein náttúra reynitrjáa sem Diana Wells (2010) hefur eftir flórubók frá 1823. Þar segir að reynitrjám sé gjarnan plantað í kirkjugarða til að koma í veg fyrir að þeir sem garðana gista gangi aftur.

Á Íslandi þekktist líka að tengja saman grafir og reynitré, þótt á annan hátt væri. Samkvæmt þjóðsögum Jóns Árnasonar þótti það órækur sakleysis-vottur ef reynir sprettur á leiðum manna sem hafa verið bornir einhverjum sökum og teknir af lífi án þess að getað sannað sakleysi sitt í lifanda lífi. Var það að vísu dálítið seint í rassinn gripið fyrir hina dauðu.


Reyniber á reyni í kirkjugarði í skíðabænum Filzmoos í Austurríki.

Mynd: Sig.A.

Átrúnaður á Íslandi

Ekki er hægt að sjá í heimildum að reynir hafi þótt heppilegur til að verjast nornum á Íslandi. Má vera að nornir hafi verið mun sjaldgæfari á Íslandi en Bretlandseyjum. Sést það á því að þegar í tísku var að brenna galdrafólk í Evrópu sneru landar okkar sér fyrst og fremst að því að brenna galdramenn en ekki galdranornir eins og tíðkaðist annars staðar í Evrópu. Hver veit nema töframáttur reynitrjáa virki betur gegn nornum en galdrakörlum. Þótt reynitré hafi ekki gagnast að ráði gegn íslensku galdrahyski er ekki þar með sagt að enginn átrúnaður hafi verið á reyni hér á landi. Ef marka má fornar sögur hefur átrúnaður verið á reyni allt frá heiðnum sið. Í Sturlungu má finna Geirmundar þátt heljarskinns. Tilvitnunin hér að neðan er úr þættinum og er fenginn héðan, en Guðni Jónsson bjó til prentunar.


Geirmundr bjó á Geirmundarstöðum til elli ævi sinnar. En sá var einn hvammr í landi Geirmundar, at hann kvaðst vildu kjósa á brott ór landinu, ef hann mætti ráða, ok mest fyrir því, - „at sá er einn staðr í hvamminum, at ávallt, er ek lít þangat, þá skrámir þat ljós fyrir augu mér, at mér verðr ekki at skapi. Ok þat ljós er ávallt yfir reynilundi þeim, er þar er vaxinn einn samt undir brekkunni." Ok þat fylgdi, ef nökkuru sinni varð búfé hans statt í hvamminum, þá lét hann ónýta nyt undan á því dægri. Ok eitt sinn er frá því sagt, at búsmali hans hafði þar komit niðr um nótt eina. Ok er smalamaðr reis upp ok sá féit í hvamminum, varð hann ákafliga hræddr ok hleypr sem hann má ok eltir féit ór hvamminum ok rífr ór reynirunninum vönd einn ok keyrir féit með ok rekr féit heim til Geirmundarstaða. En Geirmundr var út genginn ór hvílu sinni um morgininn ok sér, hvar smalamaðrinn eltir féit ofan ór hvamminum. Ok verðr honum eigi vel at skapi, er féit hefir þar verit, ok snýr á móti smalamanninum ok þekkir brátt, at hann hefir reynivöndinn í hendi ok keyrir féit með. Ok hér verðr honum svá ills kalt við hvárttveggja saman, at hann hleypr at smalamanninum ok hýðir ákafliga mjök ok biðr hann aldrigi gera oftar at berja fé hans með þeim viði, er í þeim hvammi er vaxinn, en þó eínna sízt ór reynirunninum. En Geirmundr mátti því auðveldliga kenna viðinn, at þar ateins var þá reyniviðr vaxinn í hans landeign, - í þeim sama stað, er nú stendr kirkja at Skarði, at því er vér höfum heyrt sannfróða menn frá segja. Geirmundr lét taka vöndinn ok brenna í eldi, en búfé sitt lét hann reka í haga ok ónýta nyt undan á þeim degi.“

Skarðskirkja stendur enn þar sem reynilundurinn stóð áður. Myndin er fengin héðan. Samkvæmt upplýsingum af þessari síðu var núverandi kirkja byggð árin 1914-1916 úr viðum eldri kirkju sem fauk.


Eins og sjá má var risin kirkja þar sem lundurinn stóð þegar sagan var færð í letur. Svo er að sjá sem hæstum hæðum hafi átrúnaður á reynitré náð í kaþólskum sið.

Í grein eftir Vilmund Hansen (2016) í Bændablaðinu er sagt frá riti eftir Gísla Oddson biskup. Þar hefur Vilmundur eftir Gísla að í fyrndinni hafi vaxið tígulegt einstakt tré sem hann lýsir. Má af lýsingunni sjá að tréð var reynir. Aftur á móti kenndi biskup ekki tréð og kallaði lárvið. Reynir er ekkert líkur lárvið en um hann má fræðast hér. Þessu tré, segir Gísli, tengdist páfatrú og hjáguðadýrkun: „Löngu fyrir vora daga flykktist almenningur að tré þessu með gjöfum, ljósum og ýmiss konar þjónustu, sem var öldungis runnin af rótum páfatrúar og hjáguðadýrkunar, þar til óhjákvæmilegt var að eyðileggja það, til þess að taka fyrir hjátrúna. En nú hefur það aftur blóðgat með blöðum og ávöxtum og er orðið hið yndislegasta að nýju. Þess vegna er nágrönnunum það óhæfa að skemma það.“ (Vilmundur Hansen 2016 eftir Gísla).

Eftir siðaskiptin féll alveg úr tísku að tigna reynitré. Þá er eins og náttúra þeirra hafi breyst. Þá tóku álfar og huldufólk að eigna sér sum þeirra og hefndu þess grimmilega ef þeim var gert mein. Má vera að hluti þeirrar skýringar sé sú að í þessum gömlu sögum vaxa reynitré fyrst og fremst á óaðgengilegum stöðum, svo sem í klettum eða klettabeltum. Má vel vera að það sé rétt enda þolir reynir illa sauðfjárbeit. Svo getur líka verið að álfar og huldufólk hafi viljað (og vilji enn) skreyta híbýli sín með reynitrjám.

Reyniviður í klettum þar sem aðgengi dýra sem líkleg eru til að éta tréð er takmarkað. Svo er að sjá sem álfar velji gjarnan slíka staði til að rækta reyni sér til yndisauka. Mynd: Sig.A.

Það sem hér er á eftir er að mestu fengið úr grein Sigurðar Blöndal frá árinu 2000. Ber hann fyrir sig heimildum frá Ágústi Sigurðssyni og Þórði Tómassyni. Frægasti reynir á Íslandi, fyrr og síðar, er reynir sem óx á Möðruvöllum í Eyjafirði. Var á honum mikil helgi í kaþólskum sið og bænastundir haldnar undir laufkrónu þess. Eftir siðaskiptin þótti einboðið að eyða kaþólskunni með því að ráðast gegn trénu og höggva það niður. Var það gert árið 1551. Til að bíta höfuðið af skömminni var bolur trésins notaður sem höggstokkur. Sigurður segir einnig frá reynihríslu í Hellisfirði. Þar óx hún í kletti nokkrum. Var álitið að huldar vættir ættu þar heima og að illa færi fyrir þeim sem skemmdu það. Tréð þótti svo merkilegt að fjöldi fólks kom til að bera það augum. Fylgdi því svo mikill gestagangur að ábúandi ákvað að höggva niður tréð. Tók þá af gestaánauðina en allt fór í skrúfuna hjá bóndanum ef svo má að orði komast um landkrabba löngu áður en vélbátar þekktust við Íslands strendur. Endaði hans búskapur í miklu basli og fátækt.

Hellisfjörður er nú í eyði og ekki vitað um neinn reyni í honum. Myndin er frá Austurfréttum og er fengin héðan.

Raunir bóndans í Hellisfirði voru þó smámunir miðað við það sem maðurinn sem ætlaði að höggva niður reyni sem óx í bröttum hamri á Reynivöllum í Suðursveit þurfti að þola. Strangt bann lá við að skaða þetta tré. Það vildi þó maður einn reyna en féll niður fyrir hamarinn áður en verkinu var lokið. Varð það hans bani.

Gerði gistiheimili stendur á Reynivöllum í Suðursveit. Eins og sjá má stendur reynir við húsið og er hann til hægri á myndinni. Mynd: Þórey Bjarnadóttir.


Undir Eyjafjöllum má finna Svarthamra í Holtsheiði. Þar óx margstofna reynir um aldamótin 1800. Haft var eftir margkunnandi bónda frá Skálakoti undir Eyjafjöllum að hríslan hefði átján náttúrur. Níu góðar og níu vondar. Hét bóndi þessi Sighvatur Einarsson. Fylgdi þeirri sögu að ein náttúran lýtur að ást og frjósemi. Út úr hríslunni getur vaxið sívalur stúfur sem minnir á getnaðarlim karlmanna. Úr seyði slíks vaxtar gat bóndi gert drykk sem dugði til að vinna ástir stúlku. Þessa merku hríslu mátti ekki skerða. Bóndi einn í Holtshverfi tók ekki mark á því og hjó af henni gilda grein og gerði sköft á heykróka. Veturinn eftir missti hann öll lömb sín úr einhverju bráðafári.

Enn má finna reyni (og reyndar líka birki eins og sjá má) á óaðgengilegum stöðum undir Eyjafjöllum. Mynd: Sig.A.


Enn er ónefnd ein náttúra reynisins sem vert er að nefna. Hún er sú að aldrei má hafa reyni og eini saman í húsi. Ef það er gerð leiðir það til heimilisófriðar. Gott er að hafa þetta í huga við gerð kransa og skreytinga úr efni úr íslenskri náttúru.


Heimildir

Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Geirmundar þáttur heljarskins (Sturlunga saga. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Sjá: https://heimskringla.no/wiki/Geirmundar_%C3%BE%C3%A1ttr_heljarskinns_(Sturlunga_saga)


Ingólfur Davíðsson 1958: Fagur ertu reynir. Í: Tíminn 252. tölublað (07.11.1958) Sjá: https://timarit.is/page/1034860#page/n3/mode/2up


Sigurður Blöndal (2000) Reyniviður (Sorbus aucuparia L.) á Íslandi - og nokkur almenn atriði um tegundina. Í Skógræktarritið 2000. 1. tbl. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.


Simon Wills (2018) A History if Trees. Pen & Sword Books Limited. Barnsley South Yorkshire.


Snorri Sturluson (án ártals) Edda, Skáldskaparannáll. Sjá: http://www.germanicmythology.com/ProseEdda/BRODEURSkaldskaparmal.html


Vilmundur Hansen 2016: Hinn helgi viður. Í Bændablaðið 5. September 2016. Sjá: https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/hinn-helgi-vidur

788 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page