top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Reynir að hausti

Updated: Aug 7, 2023

Um þessar mundir eru skógar landsins að breyta um skrúða. Lauftrén fara úr sumargrænum búningi yfir í skrautleg litklæði áður en þau ganga til hvílu og sofa af sér storma og frost vetrarins. Mörgum þykir haustið fallegasti tími ársins. Ein af þeim trjátegundum sem flestir þekkja fer að jafnaði í íðilfagra haustliti og fær hún því núna titilinn #TrévikunnarSE. Þetta er reyniviður eða ilmreynir (Sorbus aucuparia) sem oftast er þó bara nefndur reynir.

Í tilefni haustkomunnar þykir okkur rétt að fjalla aðeins um nafn þessarar trjátegundar.



Nafnið

Nafnið er dregið af hinum rauða lit sem tréð skartar á haustin. Fyrst eru það hin rauðu ber og síðan hinn rauði litur laufblaðanna. Upphaflega hefur þessi tegund væntanlega verið nefnd reyðnir – með eði í miðju heiti. Sama orðstofn má enn sjá í færeysku. Þar starfar t.d. Reyðikrossinn og þar er hægt að kaupa reyðivín í Rúsdrekkasölunni. Geri menn það er þó rétt „verða við til at fyribyrgja misnýtslu“ eins og frændur vorir orða það. Nafnið hefur ekkert með raunir að gera eins og sögnin að reyna.

Í Skáldskaparmálum Snorra Eddu segir frá því þegar Ása-Þór þurfti að fara yfir ána Vimur, sem er allra áa mest. Almennt má segja um það rauðbirkna goð að það hafi sjaldan þurft á hjálp að halda enda var það heldur í röskara lagi til flestra verka. Þó lenti Þór í nokkrum hremmingum í ánni en það varð honum til happs að hann greip í reynirunna og komst þannig upp úr ánni. Síðan er reynirinn nefndur „björg Þórs“. Leiða má líkur að því að það sé engin tilviljun að einmitt reynirinn er nefndur björg þórs en ekki einhver önnur planta. Hinn rauði litur tengir goðið og tréð órjúfanlegum böndum. Til eru fleiri sögur um helgi á reynitrjám og reynilundum úr ýmsum siðum en verða þær sögur að bíða betri tíma.



Um liti laufs og berja

Nokkuð er misjafnt hvenær reynirinn fer í haustliti og kemur þar margt til. Bæði erfðir og umhverfi skipta máli. Skærasta haustliti fá reynitré á fremur þurrum og rýrum vaxtarstöðum en síður og eitthvað seinna í frjósömu og röku landi.



Þegar þetta er skrifað er reynirinn að byrja að fara í haustliti en hin rauðu ber standa fuglum til boða. Áberandi er að það er eins og skógarþrestir velji sum reynitré úr frekar en önnur, klára af þeim öll berin og snúa sér svo að öðru tré. Ástæða þessa mun að hluta til stafa af því að litasjón fugla er meiri og betri en okkar manna. Þeir sjá útfjólublátt ljós sem auga okkar nemur ekki. Þegar reyniber eru við það að ná fullum þroska verða þau rauð. Það sjáum bæði við og þrestirnir. Þegar fullum þroska er náð bætist útfjólublár litur við berin en þann lit greinum við ekki. Þrestirnir sjá þann lit ágætlega og velja frekar útfjólublá ber en rauð.




Texti og myndir: Sigurður Arnarson. Pistillinn birtist upphaflega hér: https://www.facebook.com/SkograektarfelagEyfirdinga/posts/pfbid02s1GkMFmHC96PAXV69vfHLzyqzFCiKeqtoFUbiNAGYT4a7Q2ikURmXiosusPfJAg3l Þar er texti við sumar myndirnar.


123 views0 comments

Comments


bottom of page