top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Koparreynir

Updated: Jul 30, 2023

Að þessu sinni er koparreynir #TrévikunnarSE. Koparreynir stendur nú í blóma hér og þar í bænum. Blómin eru í hvítum sveip og síðar koma ber sem einnig eru hvít. Lengi vel virtust þrestir og aðrar berjaætur ekki átta sig á því á Íslandi að hvít ber eru líka æt. Þá stóðu ber koparreynis oft á runnunum langt fram eftir vetri. Hin síðari ár hefur þetta breyst og þrestir éta berin með bestu lyst. Koparreynir fær gjarnan fallega koparlitaða haustliti og ber af því nafn sitt. Það getur verið mikið sjónarspil að sjá mjallahvít berin bera við koparlit laufin. Annars geta haustlitirnir verið frá gulu yfir í blóðrautt. Fer það eftir umhverfisþáttum hverju sinni. Skærastir verða rauðu haustlitirnir á þurrum stöðum eða á þurrum haustum.


Koparreynir gekk lengi vel undir latneska heitinu Sorbus koehnena en síðar kom í ljós að hið rétta nafn er Sorbus frutescens. Nú er koparreynir ýmist kallaður sínu gamla nafni eða hinu rétta þegar fræðiheitið er notað. Hvort heldur sem er þá kallast hann alltaf koparreynir á íslensku.


Innan reyniættkvíslarinnar er nokkuð algengt að tré eru það sem á fræðimáli kallast apomitic. Það merkir að tréð myndar fræ án undangenginnar frjóvgunar. Þess vegna eru allir afkomendurnir með nákvæmlega sama erfðaefnið, nema einhver stökkbreyting eigi sér stað. Ef svo verður þá er í raun komin fram ný tegund. Þetta leiðir til þess að innan ættkvíslarinnar eru til ótal, ótal tegundir og sumar harla líkar. Koparreynirinn er ein af þessum apomitic tegundum. Eini breytileikinn milli plantna stafar af umhverfisástæðum. Þess vegna getur verið ákaflega tilkomumikið að sjá koparreyni í massaútplöntun. Slíkar útplantanir má m.a. sjá fyrir framan Síðuskóla og við Hlíðarbraut.


Einhvern tímann barst fræ frá Kína til grasagarðsins í Kaupmannahöfn af þessari tegund. Allar koparreyniplöntur í Evrópu eru síðan komnar af henni og eru allar með sama erfðaefnið og þar með eins. Þar stendur enn ættmóðir allra koparreyniplantna í Evrópu. Koparreynir er oftast nær margstofna runni og getur náð allt að 2,5 metra hæð á góðum stöðum.






214 views0 comments

Comments


bottom of page