top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Grasagarðshlutverk Lystigarðsins

Updated: 3 days ago

Lystigarðurinn á Akureyri er bæði skrúðgarður og grasagarður. Hann er rekinn af Akureyrarbæ og er staðsettur á Suðurbekkunni sunnan Mennta­skólans og norðan sjúkrahússins.

Almenningsgarðurinn var opnaður formlega árið 1912 og garðurinn var gerður að grasagarði árið 1957. Hann hefur stækkað þrisvar frá stofnun og er nú um 3,7 hektarar að stærð. Lengst af hefur sambýli skrúðgarðs og grasa­garðs gengið með mestu ágætum en öll starfsemi í garðinum þarf að taka mið af því að garðurinn er grasagarður. Allir viðburðir í garðinum þurfa að vera skipulagðir með það eðli grasagarða í huga að þar er að finna sjald­gæfar og viðkvæmar plöntur sem ekki þola hvað sem er. Þetta þurfa allir gestir garðsins að hafa í huga.

Í pistlum okkar um tré og tengd málefni má víða finna myndir úr garðinum og við höfum skrifað pistil um mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu. Í þeim pistli nefndum við að vera kynni að við birtum sérstakan pistil um grasafræði­hlutverk garðsins og það reynum við nú að efna.

Lystigarðurinn er fallegur á hvaða tíma árs sem er. Mynd: Sig.A.
Lystigarðurinn er fallegur á hvaða tíma árs sem er. Mynd: Sig.A.

Garðurinn

Lystigarðurinn á Akureyri er öllu garðyrkju- og skógræktarfólki á Íslandi vel kunnur að góðu einu. Þangað koma árlega um 190.000 gestir til að njóta þess sem þar er að finna. Garðurinn er af mörgum talinn ein glæsilegasta perla bæjarins. Hann lætur ekki mikið yfir sér en kemur svo sannarlega á óvart þegar farið er um hann. Hvert hluti hans á fætur öðrum vekur undrun og aðdáun á hvaða árstíma sem er.

Allur almenningur hefur aðgang að garðinum. Margir koma í garðinn til að njóta kyrrðarinnar og fegurðarinnar, losna við streitu og anda að sér fersku lofti. Þarna er hægt að setjast inn á ljómandi gott kaffihús eða taka með sér nesti.

Eitt af mikilvægustu hlutverkum garðsins er grasafræðihlutverkið því Lystigarðurinn á Akureyri er grasagarður. Þess vegna koma margir í garðinn til að skoða gróður, bæta við sig þekkingu, skoða íslenskar og erlendar plöntur, fá hugmyndir og auðvelda sér skipulag eigin garða. Svo er auðvitað hópur fólks sem skoðar garðinn til að reyna að komast að því hvað í ósköpunum plönturnar heita í eigin garði, án þess að koma upp um eigin fákunnáttu. Við, sem sjáum um pistlaskrif fyrir Skógræktarfélagið, leitum oft í Lystigarðinn eftir upplýsingum og látum gjarnan líta út fyrir að við búum yfir þeirri þekkingu sem við öflum þar. Í garðinum eru nánast allar plöntu­tegundir merktar, garðurinn rekur vandaðan vef með alls konar upplýsingar um fjölbreyttar plöntur og gott er að leita til starfsmanna um upplýsingar.


Í grasagörðum er algengt að gróðursetja saman tegundir úr sömu ættum eða ættkvíslum svo hægt sé að bera þær saman. Fyrri myndin sýnir brúskur, Hosta spp., en sú seinni sýnir þrjár tegundir skrautgrasa. Víða í útlöndum er meiri hefð fyrir notkun skrautgrasa en á Íslandi. Myndir: Sig.A.


Upphaf garðsins

Aðdragandinn að stofnun Lystigarðsins á Akureyri var nokkuð langur og er sagt ýtarlega frá honum í bókinni Konur gerðu garðinn (Ásta og Björgvin 2012). Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar (2000) er kafli um garðinn eftir Björgvin Steindórsson og báðar þessar bækur gögnuðust okkur vel við gerð þessa pistils. Þessi kafli er byggður á báðum bókunum. Hinn 1. maí árið 1910 mættu á milli 20 og 30 manns á fund í bænum sem stjórnað var af Stefáni Stefánssyni, grasafræðingi og skólameistara. Tilefnið var stofnun Lystigarðsfélags Akureyrar sem hafði að markmiði að stofna al­mennings­garð. Vorið 1911 hófust framkvæmdir á hálfri fjórðu dagsláttu lands sem bæjarstjórn hafði gefið til verkefnisins. Það jafngildir um það bil 1,1 hektara. Þetta sumar voru lagðir malarvegir um svæðið og smíðað var verkfæraskýli. Beð voru mæld upp og í þau plantað bæði trjám og runnum. Garðurinn var síðan formlega opnaður almenningi sumarið 1912 og er miðað við það ár sem stofnár garðsins.

Garðlistin endurspeglar menningu og þjóðfélagshætti hvers tíma“, segir í bókinni Konur gerðu garðinn á bls. 35. Þar segir líka: „Þó ber að hafa í huga að garðlistin er frábrugðin flestum öðrum listgreinum, að því leyti, að efni­viðurinn breytist stöðugt, og hringrás náttúrunnar mótar garðlistina í sífellu.Þetta á vitanlega vel við um Lystigarðinn. Hann hefur breyst, stækkað og þróast frá því að hann var stofnaður árið 1912.


Skipulag Lystigarðsins á árunum 1920-1930. Mynd: Vigfús Sigurgeirsson en myndina fengum við frá vef Lystigarðsins.
Skipulag Lystigarðsins á árunum 1920-1930. Mynd: Vigfús Sigurgeirsson en myndina fengum við frá vef Lystigarðsins.

Hlutverk

Lystigarðurinn hefur margþætt hlutverk. Hann er skipulagður bæði sem grasagarður og skrúðgarður. Öll notkun hans verður að taka mið af því. Þess vegna hentar ekki að halda hvaða samkomur sem er í garðinum. Alltaf þarf að gæta að því að garðurinn verði ekki fyrir tjóni. Viðburðir verða að vera þannig að þeir skemmi hvorki gróður né upplifun. Stundum eru viðburðir í garðinum af hinu góða svo framarlega sem þeir valdi ekki tjóni á garðinum eða skerði upplifun þeirra sem sækja garðinn. Hefðbundnar útihátíðir eiga varla heima þarna. Ekki heldur boltaleikir eða annað sem skaðað getur gróður. Viðburðir í garðinum verða að taka mið af fjölbreyttu hlutverki garðsins (Sigurður 2024).

Eitt fegursta tré Akureyrar er þessi alaskaösp 'Randi' sem hér skartar haustlitum í Lystigarðinum. Mynd: Sig.A.
Eitt fegursta tré Akureyrar er þessi alaskaösp 'Randi' sem hér skartar haustlitum í Lystigarðinum. Mynd: Sig.A.

Garðurinn hefur einnig hagnýtt hlutverk. Þar er hægt að reyna ýmsar teg­undir og yrki til að komast að því hvað þrífst vel og hvað gengur miður hér norður undir heimskautsbaug. Í þessum tilgangi stunda starfsmenn garðsins fræskipti við grasagarða um allan heim.

Í garðinum eru ekki eingöngu garðplöntur. Þar er einnig til sýnis stór hluti íslensku flórunnar. Þannig hefur það verið allt frá því að garðurinn var gerður að grasagarði.

Garðurinn er lifandi plöntusafn og í honum eru ræktaðar garðplöntur og villtar plöntur frá flestum heimsálfum. Eins og gefur að skilja er slíkt safn mjög viðkvæmt og mikilvægt er að ganga vel um garðinn og forðast eins og hægt er að valda tjóni. Þegar þetta er haft í huga er auðvelt að skilja af hverju ekki er ætlast til að stundaðir séu boltaleikir, hjólreiðar eða annað það sem skaðað gæti viðkvæmar plöntur eða truflað upplifun gesta.

Beð neðan við Eyrarlandsstofu þar sem starfsmenn hafa aðstöðu sína. Í hverju beði eru plöntur sem tilheyra tiltekinni plöntuætt. Við endann á hverju beði eru skilti með upplýsingum um viðkomandi ætt og hver planta er merkt með íslensku heiti og fræðiheiti. Nánar má lesa um nafnakerfið hér. Mynd: Sig.A.
Beð neðan við Eyrarlandsstofu þar sem starfsmenn hafa aðstöðu sína. Í hverju beði eru plöntur sem tilheyra tiltekinni plöntuætt. Við endann á hverju beði eru skilti með upplýsingum um viðkomandi ætt og hver planta er merkt með íslensku heiti og fræðiheiti. Nánar má lesa um nafnakerfið hér. Mynd: Sig.A.

Grasagarður

Grasagarður er garður með safni lifandi plantna. Til að grasagarðar geti staðið undir nafni þurfa plöntur að vera merktar með nafni ættar, fræðiheiti, almennu heiti og jafnvel fleiri upplýsingum sem teljast hagnýtar fyrir fræð­inga og allan almenning. Plöntum í grasagörðum er gjarnan raðað upp eftir skyldleika tegunda eins og hægt er. Tegundir sömu ættar eru þá gjarnan saman þannig að hægt sé að bera saman skyldar tegundir án þess að fara vítt og breitt um garðinn. Þetta auðveldar áhugasömum að afla sér grasafræðilegrar þekkingar og öllum almenningi að njóta. Önnur leið er að raða plöntum eftir vaxtarstöðum, uppruna eða á einhvern annan hátt sem auðveldar almenningi og vísinda­mönnum að skoða og bera saman plönturnar sem í görðunum vaxa. Þannig er hægt að útbreiða grasafræðilega þekkingu sem bæði nýtist fagmönnum og öllum almenningi.

Grasagarðar geta verið að ýmsum gerðum. Sumir þeirra eru sérhæfðir í ákveðnum ættum plantna eða tegundum til jarðræktar, landbúnaðar, lækn­inga eða einhvers annars. Í Lystigarðinum á Akureyri er áhersla lögð á garð­plöntur og íslensku flóruna. Þar hefur fengist reynsla sem smám saman hefur breiðst út í garðrækt í bænum. Þetta sést meðal annars á öllum þeim fjölda fólks sem fer reglulega í garðinn til að afla sér upplýsinga um garð­plöntur. Þetta sést einnig á því að meðlimir Garðyrkjufélags Akureyrar hitt­ast einu sinni á ári í garðinum og skiptast á plöntum til að auka fjölbreytni eigin garða. Hvaða staður gæti hentað betur til slíkra plöntuskipta en Lysti­garðurinn á Akureyri?

Plöntuskiptidagur í Lystigarðinum í júní 2023. Allir fara ríkari heim. Mynd: Margrét Guðmundsdóttir.
Plöntuskiptidagur í Lystigarðinum í júní 2023. Allir fara ríkari heim. Mynd: Margrét Guðmundsdóttir.

Til að standa undir nafni sem fullgildur, alþjóðlegur grasagarður þarf að upp­fylla ýmis skilyrði sem of langt mál yrði að nefna í þessum pistli. Nánar má lesa um þau hér þar sem grasa- og sagnfræðingur að nafni Sjaron Willough­by (2019) gerir þessu efni góð skil á vef Kew Gardens. Í greininni kemur einnig fram hvernig hlutverk grasagarða hefur breyst í aldanna rás.

Oft hefur vakið furðu margra að ekki skuli starfa fleiri grasafræðingar í garð­inum. Það er með hreinum ólíkindum hversu vel hefur tekist að halda við þessu safni lifandi plöntutegunda sem raðað er upp af smekkvísi.

Eitt mikilvægasta hlutverk Lystigarðsins er að finna með prófunum fallegar, harðgerar tegundir fjölæringa, trjáa og runna. Þar að auki er hann notaður til afþreyingar og nýtist almenningi til fróðleiks og skemmtunar eins og vera ber.

Tvær myndir af kortum af garðinum. Fyrri myndin sýnir skilti við aðalinnganginn í garðinn en sú seinni yfirlitsteikningu af garðinum sem starfsmenn nýta sem vinnuplagg. Ljósmynd: Sig.A.

Frægir erlendir garðar

Sumir af frægustu grasagörðum heimsins eru fjölsóttir af ferðamönnum, rétt eins og Lystigarðurinn á Akureyri. Það sama á við um Grasagarðinn í Reykja­vík, sem vitanlega er viðurkenndur grasagarður einnig. Allir eiga þessir frægu garðar sameiginlegt að önnur starfsemi í garðinum tekur mið af því að um grasagarð er að ræða. Þetta eru garðar eins og Kew Gardens í London, konunglegi grasagarðurinn í Edinborg og grasagarðurinn í Kaupmannahöfn svo við nefnum fræga garða í Evrópu. Einnig má nefna borgir eins og París, Genf, Berlín og Moskvu sem dæmi um evrópskar borgir sem frægar eru fyrir sína garða. Við viljum nefna tvo garða í Bandaríkjunum. Annar er grasa­garðurinn í Boston sem ber nafnið Arnold Arboretum og er hluti af Harvard-háskóla. Í St. Louis er svo Missouri-grasagarðurinn sem er ekki síður frægur. Þessir garðar eru báðir mikilvægir fyrir plönturannsóknir og plöntusöfnun í heiminum. Það sama má segja um grasagarðinn í Singapúr og svo auðvitað áðurnefnda evrópska garða. Eru þó aðeins fáeinir garðar nefndir. Stungið hefur verið upp á við okkur að fjalla nánar um suma af þessum görðum og við tökum að sjálfsögðu vel í það.

Hvíteik, Quercus alba, í Arnold Arboretum í Boston. Þið ættuð ekki að láta þennan garð fram hjá ykkur fara ef þið fáið tækifæri til að heimsækja hann. Mynd: Sig.A.
Hvíteik, Quercus alba, í Arnold Arboretum í Boston. Þið ættuð ekki að láta þennan garð fram hjá ykkur fara ef þið fáið tækifæri til að heimsækja hann. Mynd: Sig.A.

Stofnun grasagarðs á Akureyri

Fyrstu árin og áratugina var Lystigarðurinn rekinn af sérstöku félagi sem hét Lystigarðsfélagið. Svo gerðist það árið 1953 að Akureyrarbær tók við rekstrinum og hefur séð um garðinn æ síðan. Eftir þessi vistaskipti lét frú Margrethe Schiöth af störfum við garðinn, en hún hafði verið formaður Lystigarðsfélagsins og starfsmaður garðsins í langan tíma. Að hennar frum­kvæði var Jón Rögnvaldsson frá Fífilgerði ráðinn til garðsins. Í hans tíð var garðurinn formlega gerður að grasagarði.

Jón var einn af þeim fyrstu sem höfðu atvinnu af garðyrkju á Akureyri. Eftir nám og störf í Kanada flutti hann heim til Íslands um áramótin 1924 og 1925 og kom að ýmsum framfaramálum er tengjast græna geiranum. Meðal ann­ars stofnaði hann Skógræktarfélag Eyfirðinga árið 1930 og rak garð­yrkju­stöðina Flóru við Brekkugötu ásamt bróður sínum í nokkur ár. Jón bjó í Fífilgerði í Eyjafirði til ársins 1957 og var jafnan kenndur við þann bæ.

Meira verður sagt frá Jóni í veglegum pistli sem við munum birta um hann í næstu viku en þá verða liðin 130 ár frá því að hann leit heiminn augum í fyrsta sinn.

Blómstrandi heggur, Prunus padus, í maí 2025. Mynd: Sig.A:
Blómstrandi heggur, Prunus padus, í maí 2025. Mynd: Sig.A:

Jón var fremstur kunnáttumanna á þessu sviði í Eyjafirði á sínum tíma og þar að auki hafði hann oft aðstoðað Margrethe í garðinum. Hann var talinn lík­leg­astur til að halda áfram því góða starfi sem þar hefði verið unnið og mál æxluðust þannig að Jón tók við stjórn garðsins (Björgvin 2000). Þetta tókst Jóni með mestu ágætum. Í kjölfarið, nánar tiltekið árið 1957, urðu þau tímamót í sögu garðsins að grasadeild Lystigarðsins var stofnuð. Alla tíð síðan hefur garðurinn verið skipulagður sem bæði skrúðgarður og grasagarður. Á þessum árum var hann talinn nyrsti grasagarður í heimi. Í bókinni Aldnir hafa orðið (1972) segir Jón: „Fyrir okkur hefur vakað, að grasagarðurinn yrði vísindalegur garður með hánorrænum gróðri, sem sérgrein. Þetta hefur tekizt og þetta er nyrzti grasagarður álfunnar, og þekktur erlendis“ (Erlingur 1972). Enn er garðurinn meðal nyrstu grasagarða í heiminum þótt grasagarðurinn Tromsø botaniske Hage í Noregi sé talinn vera sá nyrsti um þessar mundir. 

Jón lagði grunninn að því að Lystigarðurinn varð vísindalegur grasagarður. Hann lagði áherslu á að fá þangað hánorrænan gróður og gróður úr há­fjöllum. Líta má á garðinn sem lifandi plöntusafn undir berum himni. Árið 1957 var í honum safn íslenskra planta og 525 tegundir erlendra plantna (Björgvin 2000). En Jón var stórhuga. Hann tók strax til við að efla safnið og viðaði að sér plöntum úr ýmsum heimshornum. Þannig hefur það verið alla tíð síðan. Í spjaldskrá Lystigarðsins eru skráðar 365 tegundir sem Jón reyndi í Lysti­garðinum. Af þeim lifa 182 enn. Sumar hinna hafa verið endurnýjaðar en aðrar hentuðu einfaldlega ekki og eru horfnar (Travis 2025).


Enn er lögð áhersla á norrænan gróður og fjallaplöntur í garðinum. Í yngsta hluta garðsins eru veglegar steinhæðir með háfjallaplöntum. Í þessum hluta garðsins er plöntunum raðað eftir uppruna og hver steinhæð hefur plöntur frá ákveðnu svæði í heiminum. Að sjálfsögðu eru allar plönturnar merktar. Fyrri myndin er yfirlitsmynd yfir steinhæðirnar en á þeirri seinni er nálapúði, Azorella trifurcata, sem ættaður er frá Eyjaálfu eins og allar plönturnar í sömu steinhæð. Mynd: Sig.A.

Á sínum tíma hafði Jón Rögnvaldsson samskipti við um fjóra tugi grasagarða í Evrópu, Norður-Ameríku og allt austur til Síberíu. Við þessa grasagarða hafði Jón plöntuskipti og eru þau enn einn helsti hornsteinn garðsins. Með fræskiptum berst fjöldinn allur af plöntum til garðsins. Sumar þrífast vel og verða þá gjarnan teknar upp í garðrækt á meðan aðrar þrífast miður. Þannig eykst smám saman við þekkingu okkar.

Jón Rögnvaldsson stjórnaði garðinum í 16 ár og í tíð hans var garðurinn stækkaður í tvígang. Allan þennan tíma starfaði bróðir hans, Kristján Rögnvaldsson, með honum. Hann var múrari að mennt og í tíð hans var grindverkið við austurhlið garðsins steypt. Setur það enn mikinn svip á garðinn.
Jón Rögnvaldsson stjórnaði garðinum í 16 ár og í tíð hans var garðurinn stækkaður í tvígang. Allan þennan tíma starfaði bróðir hans, Kristján Rögnvaldsson, með honum. Hann var múrari að mennt og í tíð hans var grindverkið við austurhlið garðsins steypt. Setur það enn mikinn svip á garðinn.

Þegar Jón lét af störfum við garðinn árið 1970 voru um 2.511 tegundir og afbrigði í garðinum. Þar af voru 442 íslenskar tegundir og slæðingar (Erlingur 1972). Garðurinn hefur stækkað og vaxið síðan og nú eru rétt um 3.500 tegundir, afbrigði og yrki í garðinum. En það var Jón Rögnvaldsson sem lagði grunninn að grasafræðihlutverki Lystigarðsins.

Bræðurnir Jón og Kristján Rögnvaldssynir í Lystigarðinum eftir að þeir höfðu í sameiningu unnið að því að gera hann að grasagarði. Eins og sjá má eru merkingar við allar plönturnar að baki þeim eins og vera ber í grasagörðum. Myndina fengum við af vef Lystigarðsins en höfundur er ókunnur.
Bræðurnir Jón og Kristján Rögnvaldssynir í Lystigarðinum eftir að þeir höfðu í sameiningu unnið að því að gera hann að grasagarði. Eins og sjá má eru merkingar við allar plönturnar að baki þeim eins og vera ber í grasagörðum. Myndina fengum við af vef Lystigarðsins en höfundur er ókunnur.

Íslenska safnið

Allt frá því að þeir bræður, Jón og Kristján Rögnvaldssynir, unnu í Lysti­garðinum hefur verið lögð áhersla á að safna og sýna íslensku flóruna á sérstökum stað í garðinum. Er það í suðausturhorni garðsins þar sem skoða má stóran hluta flórunnar og afla sér þekkingar.

Upphaf þessa safns var að þeir bræður höfðu viðað að sér allgóðu plöntu­safni að Fífilgerði í Eyjafirði. Í safninu var stóran hluta íslensku flórunnar að finna. Fór það svo að bærinn keypti þetta safn. Var það flutt á árunum 1957-1958 og komið fyrir í Lystigarðinum. Þeir bræður juku við safnið og fóru út um allt land til að bæta við það meðan þeirra naut við. Þeir höfðu að takmarki að fá eintök af öllum íslenskum plöntum sem þekktar voru. Spöruðu þeir hvorki tíma né fyrirhöfn til að hafa safnið sem fjölbreyttast. Sá Kristján Rögnvaldsson að mestu um safnið.

Alla tíð síðan hefur íslenska safnið verið viðamikill þáttur í safnkosti garðs­ins. Þangað geta gestir og gangandi farið og séð íslenskar plöntur og er hver og ein tegund merkt eins og vera ber í almennilegum grasagarði. Starfsmenn hafa endurnýjað og bætt safnkostinn eftir þörfum og lagað það sem miður hefur farið.

Nú eru um 425-440 tegundir í íslenska hlutanum. Fjöldi þeirra er breytilegur og kemur þar margt til. Í fyrsta lagi má nefna að sumar plöntur eru aðeins einærar eða tvíærar. Því þarf að safna af þeim fræi á hverju ári eða sækja þær út í náttúruna en margt getur orðið til þess að það takist ekki, svo sem óvarkárni gesta, slæmt veður eða eitthvað allt annað. Meðal annars eru þarna fjöruplöntur og háfjallaplöntur sem getur verið vandasamt að búa viðunandi vaxtarskilyrði. Því verða þær gjarnan skammlífar. Það sama á við um mýrarplöntur. Oft hefur gengið erfiðlega að halda lífi í þeim vegna þurrka á sumrin. Að lokum ber að segja frá því að ef sjaldgæfar plöntur gefa upp öndina án þess að hafa myndað fræ getur tekið tímann sinn að endurnýja þær.

Til að íslenski garðurinn sé sem fjölbreyttastur sækja starfsmenn garðsins lifandi plöntur út í náttúruna á hverju ári til að endurheimta það sem hefur misfarist en stundum tekst það ekki í fyrstu tilraun. Mjög tímafrekt er að safna háfjallaplöntum og sjaldgæfum tegundum og því er það ekki gert á hverju ári (Björgvin 2012, Travis 2025).

Horft yfir hluta af íslenska safninu í átt að styttunni af Jóni Rögnvaldssyni sem breytti Lystigarðinum í grasagarð og stofnaði íslenska hluta safnsins. Mynd: Sig.A. í maí 2025.
Horft yfir hluta af íslenska safninu í átt að styttunni af Jóni Rögnvaldssyni sem breytti Lystigarðinum í grasagarð og stofnaði íslenska hluta safnsins. Mynd: Sig.A. í maí 2025.

Lengi vel var garðurinn aðeins opinn á sumrin. Árið 1961 var það forsíðufrétt í blaðinu Íslendingi 16. júní að degi áður hafði garðurinn verið opnaður að nýju eftir vetrarfrí. Sjá má blaðið á Tímarit.is. Í fyrirsögn kemur fram að nær 1.500 plöntur voru þá í garðinum. Blaðamaður lýsir töðulyktinni af nýslegnu grasinu og segir frá því að Jón Rögnvaldsson hafi sýnt gestum breytingar og viðbætur. Ekki fer á milli mála að íslensk náttúra skipar þá stóran sess í garðinum. Í greininni stendur: „Síðan í fyrra hefur umsjónarmaður Lystigarðsins látið gera tvær tjarnir í garðinum en á milli þeirra rennur lítill lækur í steyptri rennu og er lítill gosbrunnur í efri tjörninni. Í læknum er lítill foss sem fellur af stalli. Allt er þetta smækkuð mynd af íslenskri náttúru, sem börn munu hafa yndi af, er garðinn heimsækja, og jafnvel fullorðnir líka.“ Fram kemur í greininni að þá eru 1.100 plöntutegundir í garðinum og 380 íslenskar. „ ... [V]antar þá aðeins 50 plöntur samkvæmt Flóru Íslands. Sagði Jón, að við mættum minna fólk, sem ferðast um land, á þessa vöntun, ef það kynni að rekast á sjaldgæfar jurtategundir.“

Íslenski hluti garðsins er viðkvæmur fyrir átroðningi rétt eins og íslensk náttúra. Mjög mikilvægt er, fyrir alla nýtingu garðsins, að huga vel að því merki­lega safni svo það skemmist ekki í stundargamni gesta.

Vatn dregur alltaf að sér fólk. Reynt er að skapa rakakærum tegundum viðunandi aðstæður. Hér er það skjaldmeyjarblóm, Ligularia spp., til vinstri og tjarnaríris, Iris pseudacorus, til hægri. Mynd: Sig.A.
Vatn dregur alltaf að sér fólk. Reynt er að skapa rakakærum tegundum viðunandi aðstæður. Hér er það skjaldmeyjarblóm, Ligularia spp., til vinstri og tjarnaríris, Iris pseudacorus, til hægri. Mynd: Sig.A.

Þróun grasagarðsins

Eftir að þeir bræður, Jón og Kristján, létu af störfum hafa ýmsir mætir menn tekið við keflinu og haldið við arfleifð þeirra . Má nefna að grasafræðingurinn Hörður Kristinsson var ráðinn í fast starf hjá bænum árið 1970 og Hólmfríður Sigurðardóttir tók við verkstjórn garðsins árið 1973. Bæði gáfu þau út bækur um gróður og unnu að því að gera Lystigarðinn sem fegurstan jafnframt því að sinna grasafræðihlutverki hans. Jóhann Pálsson, sem seinna varð garð­yrkju­stjóri Reykjavíkur, var ráðinn yfirmaður garðsins árið 1978. Á sama tíma var Árni Steinar Jóhannsson landslagsarkitekt ráðinn garðyrkjustjóri bæjarins. Báðir báru þeir hag garðsins fyrir brjósti. Seinna var góðvinur þess er þetta ritar, Axel Knútsson, ráðinn til að stjórna garðinum og gerði það af stakri prýði.  

Björgvin Steindórsson (1954-2016) stýrði Lystigarðinum frá 1987. Í tíð hans fjölgaði plöntutegundum umtalsvert í garðinum. Myndin er af vef Lystigarðsins en þar er mikill fjöldi ljósmynda eftir Björgvin. Sumar þeirra eru í þessum pistli og oft hafa myndir hans birst í pistlum okkar um alls konar tré.
Björgvin Steindórsson (1954-2016) stýrði Lystigarðinum frá 1987. Í tíð hans fjölgaði plöntutegundum umtalsvert í garðinum. Myndin er af vef Lystigarðsins en þar er mikill fjöldi ljósmynda eftir Björgvin. Sumar þeirra eru í þessum pistli og oft hafa myndir hans birst í pistlum okkar um alls konar tré.

Við verðum sérstaklega að nefna að árið 1987 var Björgvin Steindórsson ráðinn til Lystigarðsins. Hann varð einnig góðvinur ritara þessa pistils. Í tíð hans jókst grasafræðihlutverkið enn. Naut Björgvin þess lengi að grasa­fræðingurinn Elín Gunnlaugsdóttir starfaði einnig við garðinn. Áhrif þeirra á garðinn má meðal annars sjá á meðfylgjandi línuriti. Tegundafjöldinn hefur aldrei verið jafnmikill og á árum þeirra í garðinum. Þá voru allar skrár garðsins tölvuvæddar og vefur garðsins tók á sig þann svip sem hann enn hefur.


Línurit sem sýnir breytingar á fjölda plantna í garðinum. Efri línan sýnir allar plöntur, jafnt þær sem eru í garðinum og í uppeldi. Ekki lifir allt og neðri línan sýnir fjölda lifandi plantna í garðinum. Þegar spjaldskráin var tölvukeyrð kom í ljós að ekki fundust allar plönturnar á lífi. Þess vegna verður ákveðið fall í fjölda. Vel sést hvað plöntutegundum fjölgaði mikið í tíð Björgvins Steindórssonar og Elínar Gunnlaugsdóttur. Mynd: Travis Anthony Þrymur Heafield.
Línurit sem sýnir breytingar á fjölda plantna í garðinum. Efri línan sýnir allar plöntur, jafnt þær sem eru í garðinum og í uppeldi. Ekki lifir allt og neðri línan sýnir fjölda lifandi plantna í garðinum. Þegar spjaldskráin var tölvukeyrð kom í ljós að ekki fundust allar plönturnar á lífi. Þess vegna verður ákveðið fall í fjölda. Vel sést hvað plöntutegundum fjölgaði mikið í tíð Björgvins Steindórssonar og Elínar Gunnlaugsdóttur. Mynd: Travis Anthony Þrymur Heafield.

Nú er starfandi grasafræðingur í garðinum að nafni Travis Anthony Þrymur Heafield. Hann er frá Melbourne í Ástralíu og hefur nýtt sambönd sín til að auðga garðinn enn frekar. Um stjórnun verklegra framkvæmda sér umsjónar­­maður garðsins, Guðrún Kristín Björgvinsdóttir.

Í Lystigarðinum á Akureyri tekur hvert rýmið við af öðru. Þar er alltaf hægt að sjá eitthvað nýtt og spennandi. Mynd: Sig.A.
Í Lystigarðinum á Akureyri tekur hvert rýmið við af öðru. Þar er alltaf hægt að sjá eitthvað nýtt og spennandi. Mynd: Sig.A.

Verkefni

Starfsmenn Lystigarðsins, með þau Guðrúnu og Travis fremst í flokki, sinna grasafræðihlutverki hans árið um kring. Þeim er þetta ritar þykir ólíklegt að allur almenningur átti sig á því hversu mikil vinna það er að halda svona grasagarði við, sérstaklega í ljósi þess hversu fáir grasafræðingar vinna við garðinn hverju sinni. Því segjum við nú frá því helsta sem að þessu lýtur. Að auki fer töluverður tími í að veita gestum og gangandi upplýsingar þegar eftir því er leitað. Fyrir það erum við, gestir garðsins, sérstaklega þakklátir.

Óhefðbundið sumarblómabeð. Mynd: Sig.A.
Óhefðbundið sumarblómabeð. Mynd: Sig.A.

Vilji lesendur fræðast meira um þessa vinnu í garðinum er þeim bent á fimmta kafla bókarinnar Konur gerðu garðinn (2012). Ásta Camilla Gylfa­dóttir landslagsarkitekt skrifaði þá bók, að frátöldum þessum fimmta kafla sem er eftir þáverandi forstöðumann garðsins, Björgvin Steindórsson. Að auki átti hann fjölmargar myndir í bókinni og lagði Ástu Camillu til margvís­legt efni. Hér að neðan kemur svo upptalning á helstu verkefnum hvers árs er tengjast grasafræðihluta Lystigarðsins en að auki er rétt að geta þess að á hverju ári er plantað um 8.000 sumarblómum sem ræktuð eru á staðnum.

Guðrún Kristín Björgvinsdóttir (nær) og Jónína Mjöll Þormóðsdóttir (fjær) undirbúa fræsendingu til útlanda. Mynd: Sig.A.
Guðrún Kristín Björgvinsdóttir (nær) og Jónína Mjöll Þormóðsdóttir (fjær) undirbúa fræsendingu til útlanda. Mynd: Sig.A.

Fræskipti

Eitt af því sem allir grasagarðar, sem vilja standa undir nafni, gera er að skiptast á fræi við aðra grasagarða. Því hlutverki sinnir Lystigarðurinn vel og hefur gert allt frá því að Jón Rögnvaldsson vann við garðinn og gerði hann að grasagarði. Hann var í sambandi við marga af helstu grasagörðum Evrópu. Að auki fóru þeir bræður, Jón og Kristján, í margar söfnunarferðir. Á ár­dögum garðsins voru farnar söfnunarferðir til Ameríku og um Evrópu. Sömuleiðis gáfu Íslendingar garðinum fræ sem þeir höfðu safnað á ferða­lögum sínum. Má þar nefna Steindór Steindórsson frá Hlöðum sem safnaði fræi í Bandaríkjunum fyrir garðinn. Einnig eru í vörslu afkomenda Jóns bréf frá grasafræðingnum Eyþóri Einarssyni þar sem fram kemur að hann ætli að safna fræi á Grænlandi fyrir garðinn en einnig á Vestfjörðum og á Austur­landi.

Lögð er áhersla á að safna plöntum sem víðast að. Nú er þetta fyrst og fremst gert með fræskiptum við erlenda grasagarða og stofnanir um víða veröld en söfnunarferðir til útlanda eru aflagðar. Á hverju ári berast fræ úr garðinum til um 80-100 landa um allan heim. Í sumum landanna eru margir garðar þannig að fjöldi fræsendinga getur verið umtalsvert meiri en þetta.

Rétt er að geta þess að ekki er ætlast til að almenningur tíni fræ af plöntum í garðinum.


Á fyrstu myndinni kanna þær Guðrún og Jónína frægæði áður en fræið er sent til erlendra grasagarða. Miðmyndin sýnir hvað sést í víðsjánni. Lokamyndin sýnir Jónínu kanna hvaða fræ eru til reiðu. Myndir: Sig.A.


Fræskipti 2024 til 2025

Fræi fyrir fræskiptin er safnað á hverju hausti. Núverandi grasafræðingur garðsins, Travis Anthony Þrymur Heafield, lét okkur góðfúslega í té upp­lýs­ingar um fræskiptin sem fóru fram í vetur. Sýna þessar upplýsingar hversu fræskiptin eru viðamikil. Árið 2024 var safnað fræi af 86 mismunandi plöntu­tegundum frá nokkrum stöðum úti í náttúrunni, aðallega í og við Eyjafjörð. Að auki söfnuðu starfsmenn fræi af 274 mismunandi plöntum í garðinum. Fræið þarf að þrífa og pakka og búa til frælista til að deila með görðum út um allan heim. Vorið 2025 var Lystigarðurinn með 488 frænúmer á lista sem erlendir grasagarðar gátu sótt í. Alls bárust 143 pantanir árið 2024 og sendir voru 1.657 pakkar af fræi til grasagarða út um allan heim.

Til að velja plöntur fyrir Lystigarðinn þarf á hverju ári að fara yfir marga frælista til að finna viðeigandi plöntur sem vert þykir að reyna við íslenskar aðstæður. Hingað berast árlega um 500 fræpakkar á ári. Allt það fræ þarf vitan­lega að skrá, setja í spírun og sáningu. Allt þarf líka að skrá vel og vandlega.

Meðal tegunda sem berast er stundum að finna burkna og það vita þeir sem reynt hafa að ekki er alltaf auðvelt að sá fyrir þeim. Sömuleiðis lifir sumt fræ ekki lengi og því þarf að sá sem fyrst svo það spíri en fræ annarra tegunda getur aftur á móti lifað í mörg ár. Stundum þarf að beita ýmsum brögðum til að rjúfa frædvalann og fá fræin til að spíra þannig að hér er að mörgu að hyggja.


Ýmsum ólíkum aðferðum þarf að beita til að tryggja að fræ spíri. Mikilvægt er að allar merkingar séu réttar. Mynd: Sig.A.
Ýmsum ólíkum aðferðum þarf að beita til að tryggja að fræ spíri. Mikilvægt er að allar merkingar séu réttar. Mynd: Sig.A.

Spjaldskrár

Eins og vera ber í grasagörðum eru vandaðar spjaldskrár í umsjón garðsins. Þar er allt skráð er viðkemur plöntunum, svo sem hvaðan þær koma, hvenær þeim var sáð, hvernig þær þrífast og hvar þær eru í garðinum. Nú orðið eru allar þessar spjaldskrár á tölvutæku formi. Að auki þarf að teikna upp beðin í garðinum á hverju ári. Einkum er mikilvægt að fara yfir fjölæringana og skoða hvað þurfi að endurnýja, laga og bæta.

Til þess að allt sé rétt skráð fer töluverður tími í að athuga plöntur í garðinum. Á hverju ári þarf að athuga hvort greining er rétt og uppfæra upplýsingar í skrám og garði eftir nýjustu þekkingu. Einnig þarf að skoða hvort plöntur hafa skemmst, sýkst eða jafnvel drepist.

Vetrarríki. Mynd: Björgvin Steindórsson
Vetrarríki. Mynd: Björgvin Steindórsson

Merkingar

Til að grasagarðar geti staðið undir nafni þurfa nær allar plöntur í garðinum að vera merktar. Sá er ekki vaninn í skrúðgörðum. Er óhætt að segja að í þessu hlutverki standi starfsmenn garðsins sig mjög vel. Má sem dæmi nefna að í grasagarðinum Bute Park í Cardiff í Veils er aðeins lítill hluti trjáa, runna og fjölæringa með frambærilegum merkingum. Þegar slíkir garðar eru skoð­að­ir eykst virðingin fyrir grasagörðum á Íslandi.


Þrjár myndir úr Bute Park í Cardiff. Hann er ekki einn af frægustu görðum Evrópu en vel þess virði að heimsækja þótt dálítið vanti upp á merkingar. Myndir teknar í apríl 2018: Sig.A.

Stundum eru plönturnar merktar sama sumarið og þeim er plantað út, en stundum ekki fyrr en veturgamlar. Ýmis form merkinga hafa verið reynd. Nú eru flestar merkingar plastaðar í greiðslukortastærð, eins og Björgvin Stein­dórs­son (2012) orðaði það. Nú eru skiltin þannig úr garði gerð að grafið er á álplötur með leysigeisla. Þau skilti hafa reynst mjög vel og geta enst mjög lengi. Það nýjasta í merkingum er að brydda upp á þeirri nýjung að setja QR-kóða á skiltin svo gestir safnsins geti aflað sér enn meiri upplýsinga. Smám saman munu þessi nýju skilti taka við af þeim eldri. Fara þarf yfir allar merkingar árlega og endurnýja eftir þörfum.

Svona líta nýjustu merkingarnar í Lystigarðinum út. Með QR-kóða er hægt að miðla umtalsvert meiri upplýsingum til gesta garðsins en áður. Mynd: Travis Anthony Þrymur Heafield.
Svona líta nýjustu merkingarnar í Lystigarðinum út. Með QR-kóða er hægt að miðla umtalsvert meiri upplýsingum til gesta garðsins en áður. Mynd: Travis Anthony Þrymur Heafield.

Vefurinn og önnur útgáfa

Reglulega gefur garðurinn út tvo plöntulista. Annar þeirra er frælisti sem gefinn er út árlega svo hafa megi fræskipti við garða út um allan heim. Þannig hefur það verið allt frá árinu 1963 með aðeins einni undantekningu (Björgvin 2012). Mörgum þessara erlendu garða þykir mikill fengur í að skiptast á fræjum við grasagarð sem er svona norðarlega. Hinn listinn er heildarlisti yfir plöntur. Hann er alltaf til á tölvutæku formi en stundum gefinn út á prenti svo fletta megi upp í honum.

Mikil vinna er við frælistana á hverju ári. Fyrst þarf að safna fræi af öllum þeim tegundum sem þroska fræ í garðinum og einnig er náð í fræ út fyrir garðinn. Síðan þarf að hreinsa fræið og vinna frælista eftir grasafræðilegu kerfi. Upplýsingar um einstakar tegundir er hægt að nálgast í gagnagrunni garðsins. Stærð frælistanna fer fyrst og fremst eftir því hversu gott fræárið var á fyrra sumri. Frá janúar og fram í apríl er aðalvinna starfsfólks garðsins að vinna við þessa lista og skiptast á fræi við erlenda garða.

Mikil vinna fer í að viðhalda gagnagrunni með upplýsingum um bæði lifandi og dauðar plöntur sem gróðursettar hafa verið í garðinum allt frá fimmta áratugnum til dagsins í dag. Upplýsingar eru geymdar um hverja plöntu frá því hún barst sem fræ, hvenær henni var sáð og hvar og hvenær henni var að lokum plantað. Að sjálfsögðu þarf einnig að skrá uppruna fræsins eins nákvæmlega og hægt er svo bera megi saman kvæmi tegunda (Travis 2025).

Bekkur sem Helgi Þórsson smíðaði og Garðyrkjufélag Akureyrar gaf Lystigarðinum. Mynd: Sig.A í apríl 2017.
Bekkur sem Helgi Þórsson smíðaði og Garðyrkjufélag Akureyrar gaf Lystigarðinum. Mynd: Sig.A í apríl 2017.

Þriðji hluti útgáfunnar er eflaust sá sem almenningur þekkir best. Það er vefur garðsins. Hann má sjá hér. Vefurinn nýtist til að koma á framfæri þeirri reynslu sem fengist hefur í garðinum. Þar má finna upplýsingar um fjöl­margar tegundir íslensku flórunnar og garðaflórunnar og flestum tegund­unum fylgja myndir sem Björgvin Steindórsson tók á sínum tíma. Hægt er að leita eftir hvort heldur sem er fræðiheitum eða íslenskum heitum. Kosturinn við að nota fræðiheitin er meðal annars sá að þá er hægt, í einni svipan, að fá yfirlit yfir einstakar ættkvíslir plantna eins og fjallað er um í þessum pistli. Einn af kostunum við svona lifandi vef er að hægt er að bæta við upplýs­ingum, myndum og öðru eftir því sem meira safnast í reynslubankann. Á vefnum má einnig finna alls konar aðrar upplýsingar um hitt og þetta er varðar garðyrkju og garðinn. Hluti vefsins er bæði á ensku og íslensku.

Mynd af vef Lystigarðsins sem Björgvin Steindórsson tók.
Mynd af vef Lystigarðsins sem Björgvin Steindórsson tók.

Öll þessi vinna er nú á ábyrgð grasafræðings garðsins. Hluti af starfi hans er að uppfæra upplýsingarnar um hvað er að finna í garðinum og fylgjast náið með fréttum af grasafræði til að tryggja að alltaf séu upplýsingarnar sem réttastar.


Að lokum

Árangur af margra ára dugnaði, þrautseigju og áhuga verður seint ofmetinn. Það er einlæg von okkar að grasagarðurinn í Lystigarðinum á Akureyri muni standa áfram sem ódauðlegur minnisvarði um kunnáttu, handverk og áhuga þeirra sem starfað hafa við garðinn og lagt honum lið. Öll starfsemi í garð­inum verður að taka mið af því að í honum er víða að finna viðkvæman gróður sem ekki þolir hvað sem er.

Starfsmenn garðsins standa nú frammi fyrir nýjum áskorunum. Þar ber hæst að allir náttúrufræðingar vita af yfirstandandi loftslagsbreytingum. Þeim fylgja ný úrlausnarefni fyrir starfsmenn Lystigarðsins, rétt eins og starfs­menn í grasagörðum um allan heim. Hverjar afleiðingar breytinganna kunna að verða fyrir gróður er enn óvíst, en taka þarf tillit til þeirra þannig að gróður garðsins verði sem sjálfbærastur um alla framtíð.


Gullregn í blóma. Mynd: Sig.A.
Gullregn í blóma. Mynd: Sig.A.

Við viljum þakka þeim sem veittu okkur upplýsingar við gerð þessa pistils. Sérstakar þakkir fá starfsmenn garðsins sem alltaf eru boðnir og búnir að hjálpa eins og hægt er. Grasafræðingurinn Travis Anthony Þrymur Hea­field var sérlega liðlegur við að veita okkur upplýsingar. Hann las einnig handritið yfir í vinnslu. Svo fá Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir og Pétur Halldórsson okkar bestu þekkir fyrir þarfan yfirlestur prófarkar.


Ef ekki væri fyrir góðar merkingar í garðinum hefði sá er þetta ritar ekki hugmynd um að þessi planta, sem var í fullum blóma 1. maí 2016, heitir fagurskógarlilja eða Erythronium sibiricum. Myndir: Sig.A.



Heimildir


Ásta Camilla Gylfadóttir og Björgvin Steindórsson (2012): Konur gerðu garðinn. Saga Lystigarðs Akureyrar 1912-2012. Völuspá útgáfa. Akureyri.


Björgvin Steindórsson (2012) Grasagarður Lystigarðs Akureyrar. 5. kafli bókarinnar Konur gerðu garðinn, bls. 96-105, sem Ásta Camilla Gylfadóttir skrifaði að mestu.

Erlingur Davíðsson (1972) Aldnir hafa orðið. Frásagnir og fróðleikur. Bls. 95-121. Bókaútgáfan Skjaldborg, Akureyri.


Sigurður Arnarson (2024): Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu. Pistill á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga frá 10. apríl 2024. Sjá: Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu.


Starfsmenn Lystigarðsins (2025) veittu okkur ýmsar gagnlegar upplýsingar og sýndu okkur mikla þolinmæði við gerð þessa pistils. Þar ber hæst að Travis Anthony Þrymur Heafield (2025) útbjó lista yfir hluta af störfum grasafræðings í garðinum á liðnu ári og veitti ýmsar upplýsingar.


Sjaron Willoughby (2019): What is a botanic garden? Birt á vef Kew Gardens í janúar 2019. Sjá: What is a botanic garden? | Kew









Commentaires


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page