top of page

Sjálfsprottnir skógar á Þelamörk

Þegar ekið er eftir Hörgárdal verður ekki hjá því komist að taka eftir uppvaxandi skógum. Á það jafnt við um nánast allan dalbotninn og þær hlíðar sem ekki eru beittar eða nýttar sem tún. Allur neðri hluti Hörgárdals að austanverðu heitir Þelamörk. Það er einkar vel viðeigandi að svæðið sem kallast Þelamörk skuli nú klæðast sístækkandi skógi enda merkir orðið mörk skógur. Ekki nóg með það. Einn bærinn á Þelamörk heitir meira að segja Skógar.


Engum vafa er undirorpið að Þelamörk var einu sinni skógi vaxin. Svo hurfu skógarnir. Nú er mörkin að færa sig upp á skaftið, ef svo má segja. Sumt af þessum trjám var plantað, önnur eru að spretta upp sjálf í kjölfar friðunar. Í þessum pistli verður fjallað um sjálfsprottnu skógana á Þelamörk og í öllum Hörgárdal. Við skoðum líka eldri heimildir til að reyna að átta okkur á sögu skóglendisins. Einnig veltum við fyrir okkur hvenær farið var að tala um svæðið sem Þelamörk.

Horft yfir Hörgá í átt að Þelamörk 27. júní 2023. Mynd: Sig.A.


Fornar sögur

Steindór Steindórsson frá Hlöðum skrifaði grein í Ársrit Skógræktarfélags Íslands árið 1950 um skóga í Eyjafirði. Tilefnið var 20 ára afmæli Skógræktarfélags Eyfirðinga. Það sem í þessum kafla er skrifað er fyrst og fremst úr grein Steindórs. Þess má geta að í því sama riti er grein um félagið eftir Ármann Dalmannsson. Ritið má sjá hér í rafrænni útgáfu.

Steindór segir að þótt ekki sé víða minnst á skóga í hinum eyfirsku fornsögum má verða ljóst af lestri þeirra að hér voru þroskamiklir skógar. Í Valla-Ljóts sögu segir að skógur hafi verið víða um héraðið. Höfundur (eða skrásetjari) sögunnar staðfærir þessa skóga ekki nánar. Steindór tiltekur svo ýmiss dæmi sem sögurnar herma um skóga í Eyjafirði. Þegar kemur að Þelamörk er helst að nefna að í Ljósvetninga sögu segir frá því er Guðmundur ríki og Þórlaug kona hans riðu frá veislunni á Bægisá. Þá komu þau í skógana hjá Laugalandi.

Sá sem þetta ritar komst að því við lestur þessarar sögu að hvergi sést orðið Þelamörk þótt talað sé um skóga í þeim hluta Hörgárdals sem nú heitir því nafni.

Seinna í greininni segir Steindór: „En svo virðist, sem skógarnir hafi verið farnir að minnka á dögum sagnaritaranna á 12. og 13. öld.“ Því til sannindamerkis nefnir hann að mjög sjaldan er minnst á skóg í Sturlungu. Þó tiltekur hann tvö dæmi, en hvorugt þeirra á við um Þelamörk. Því má bæta við, fyrst við höfum nefnt Valla-Ljóts sögu, að þar er í tvígang tekið fram (hvorugt skiptið tengt Þelamörk) að þegar sagan gerist hafi víða verið skógar. Það bendir til þess að minnsta kosti sumir þeirra hafi verið horfnir á ritunartímanum.

Víða er gróskumikið og fallegt í Hörgárdal. Ekki spillir ungskógurinn útsýninu. Handan ár má sjá gilið sem Bægisá hefur grafið. Hún myndar landamerki Hörgárdals og Öxnadals. Þelamörk nær að þessu gili. Mynd: Sig.A.


Fornbréfasafn

Steindór lét ekki staðar numið eftir að hafa pælt í gegnum allar eyfirskar fornsagnir. Hann skoðaði líka íslenskt fornbréfasafn. Í þeim leynast upplýsingar um skóga sem uxu á Íslandi frá um 1300 til 1600 eða þar um bil. Það sem hér er haft úr fornbréfunum um skóga á Þelamörk er nánast beint úr grein Steindórs en í henni er betur vísað í heimildir. Bréfin sjálf eru ekki handbær þeim er þetta ritar.


Vaglir. - 1461-1525. Samkvæmt máldaga Möðruvallaklausturs 1461 á klaustrið skógarparta í Vaglajörð suður frá Fornhagaskógi og til Kiðalækjar, frá Dunhagaskógi og ofan þaðan. Þessi ákvæði eru óbreytt í registri frá 1525. Af þessu er ljóst, að þá hefur verið mikill skógur í Vaglalandi, og hefur hann legið þar, sem enn heitir Vaglaskógur. Rétt er að geta þess, fyrir þá sem ekki eru staðkunnugir, að Vaglaskógur á Þelamörk er allt annar skógur en Vaglasgkógur í Fnjóskadal.


Steðji. - 1495. Árið 1495 var Neðri-Lönguhlíð í Hörgárdal seld. Kallast hún nú Skriða. Meðal eigna jarðarinnar eru taldir „allir skógar í Steðja jörðu upp í fjall og ofan í á út að Kiðalæk og suður í móts við Auðbrekkuskóg (sbr. Skóga), nema Steðji skyldi eiga eldivið sem honum þarfnaðist.“


Skógar. - 1375-1445. Í sölubréfum Auðbrekku árið 1375 segir að Auðbrekka eigi „skógarstöðu í Skógaland svo víða, sem Auðbrekka hefur átt að fornu, á Skógajörð árlega laupshögg í settu takmarki“. Af þessu ákvæði er að sjá, sem Skógar hafi sjálfir átt litlar nytjar sinna eigin skóga líkt og Steðji. Passar það ágætlega við Jarðabókina sem við nefnum hér neðar.

1430 segir að Auðbrekka eigi „skógarhrís í Skógaland“ en 1445 eigi „skógarhrís í Skógajörðu“ og 1445 „allan skóg í Skógajörðu“. 1479 er ítakinu sleppt. Ef til vill mætti draga af því þá ályktun, segir Steindór, að þá hafi skógarnir verið orðnir svo rýrir, að ekki hafi þótt taka því að telja þá meðal gæða jarðarinnar.


Ás. - 1452-1525. Í vitnisburðarbréfi Einars Magnússonar 1452 um ítök Möðruvallaklausturs í Ásjörðu segir hann, að skógurinn Maríuhrís milli Auðbrekkuskógs og Vindheimaskógs var haldinn gömul eign klaustursins. „Ræður út við Auðbrekkuskóg jarðkross lagður af steinum og svo langt suður, sem réttsýni ofan á Ásgerði, og svo út frá gerðinu ið neðra til móts við Auðbrekkuskóg en upp svo langt sem skógur vex.“ Ennfremur segir hann „að staðarins ráðsmenn um næstu 20 ár framan til mannplágunnar hafi bæði látið höggva timbur og vinna til kola í nefndum skógi klaustursins vegna“. Í máldaga klaustursins 1461 er skógarparturinn Maríuhrís nefndur meðal eigna þess og sömuleiðis í Sigurðarregistri árið 1525.

Árið 1454 hefur verið uppi ágreiningur um hvort Vindheimar ættu ítak í Ásskóg árlega svo mikið, „sem jörðunni þarfnaðist að hafa“. Skyldi Vindheimabóndi höggva skóginn þangað til sannað yrði með eiði, að Vindheimar ættu eigi áður greint ítak.


Séð yfir skógræktarsvæðið á Laugalandi árið 1999. Fjær sést í Vaglaskóg. Sjálfsprottinn trjágróður ekki eins áberandi og nú er. Myndina tók Hörður Geirsson og birtist hún ári síðar í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar.


Svo tekur Steindór þetta saman um skógana á Þelamörk og segir: „Af undanfarandi vitnisburðum er ljóst, að fram á 15. öld að minnsta kosti, og jafnvel fram yfir 1500, hefur land allt milli Krossastaðaár og Fossár á Þelamörk verið skógi vaxið. Hins vegar er vert að veita því athygli, að allar höfuðjarðirnar vestan Hörgár frá Möðruvöllum að Skriðu, eða Möðruvellir, Dunhagi, Auðbrekka, Fornhagi og Skriða eiga þarna ítök, eða réttara sagt, þær eiga raunverulega mestar skógarnytjarnar. Þetta þykir mér benda til þess, að skóglaust hafi þá verið orðið vestan árinnar.“

Rétt er að benda á að í þessum beinu tilvitnunum sem Steindór vísar í kemur orðið Þelamörk hvergi fyrir. Hvernig ætli standi á því? Var orðið ef til vill ekki í almennri notkun á þessum öldum?

Kort af Hörgárdal fengið af map.is. Inn á kortið er merkt með rauðu: A, B og C. A er við Bægisá, B við Fossá og C við Krossastaðaá. Þótt Þelamörk sé talin ná allt frá Bægisá er að sjá sem skógar framan (innan) við Fossá hafi lengi vel verið harla litlir.

Jarðabókin og Þelamörk

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er ákaflega merkileg heimild um landsins gagn og nauðsynjar á fyrri hluta 18. aldar. Sjálf Jarðabókin er ellefu bindi. Tíunda bindið fjallar um Eyjafjarðarsýslu. Sá hluti sem fjallar um Þelamörk var „skrifuð og samantekin eftir almúgans tilsögn og unirrjettíng Anno 1712, fyrst að Bæisá á Þelamörk þann 6. Junii. . . „ (Árni og Páll bls. 103). Sá sem hér situr og pikkar á tölvu hefur ekki fundið eldri heimild um notkun orðisns „Þelamörk“.

Í undirmálsgrein á bls. 172 í þeirri útgáfu sem við notum segir að á lausum miða standi: „Þelamörk heitir á millum Bæisár og Krossastaðaár, en frá Krossastaðaá og út að sjó þykjast menn ei vita hvað heiti. Sumir kalla það Þelamörk, so sem fyrir framan Krossastaðaá.“


Krossastaðaá rennur í fallegu gili sem hún hefur grafið. Sjá má hvernig birkið sækir á. Það gæti hafa leynst í sverði í landi Krossastaða (til vinstri) en líklegra er að það hafi sáð sér frá Vöglum (til hægri). Takið eftir trjánum uppi á hjallanum sem ekki sjást frá þjóðvegi. Mynd: Sigríður Hrefna Pálsdóttir þann 25. ágúst 2023.


Þess má geta að Krossastaðaá rennur á landamerkjum Vagla og Krossastaða.

Ef Þelamörk nær aðeins þangað, þá er Þelamerkurskóli alls ekki á Þelamörk. Allir virðast sammála um að Þelamörk nái inn að Bægisá og við göngum út frá því að Þelamörk nái töluvert lengra út en að Krossastaá enda mun svo vera í munni flestra á okkar dögum. Almennt er nú talið að Þelamörk nái að mörkum sveitarinnar að utanverðu. Sumir segja að hún nái að Moldhaugnahálsi(Sesselja Ingólfsdóttir 2023) og á upplýsingasíðu Hörgársveitar segir að nyrsti bær á Þelamörk sé Skipalón. Hvoru tveggja getur vel staðist og stangast ekki á. Við sláum því föstu að Þelamörk nái frá Bægisá og út alla sveitina.

Krossastaðaá á Þelamörk. Mynd: Sig.A.


Af lestri Jarðabókarinnar sést að þeir skógar sem enn standa, þegar bókin er skrifuð, eiga undir högg að sækja og það í bókstaflegri merkingu. Þó eru þarna enn töluverðir skógar. Er þar fyrst að telja skógana í Ási, Skógum, Steðja og á Vöglum. Allra þeirra er einnig getið í fornbréfunum hér að framan. Þetta eru jarðirnar sem liggja milli Krossastaðaár og Fossár (sjá kort hér að framan). Jarðabókin lýsir þessum skógum á líkan hátt. Þar er alls staðar eyddur skógur til raftviða en nægur til kolagerðar og eldiviðar. Þess er einnig getið að um þær mundir eyðast skógarnir mikið og falla í fauska, eins og það er orðað. Ekki er talað um skóga á jörðunum frá Ási að Bægisá og því er í þessari grein ekkert fjallað um þá.


Fossá er ekki vatnsmikil en í henni eru margir, snotrir fossar. Myndin fengin af síðu Ferðafélags Akureyrar þar sem gönguferð upp með ánni er auglýst.


Rétt er þó að nefna að margt bendir til að ábúendum hafi þótt heppilegast að gera sem minnst úr kostum jarða sinna en þeim mun meira úr göllunum. Því kemur víða fram að öllum jarðargæðum er að hnigna frá því sem áður var. Líklegt er að hér sé ekki eingöngu um almennan barlóm að ræða heldur varfærni til að tálma því að hið nýja jarðamat hefði hækkandi afgjöld og álögur í för með sér. Samt má læra margt af Jarðabókinni um hnignun skóga. Vaxandi landeyðing vegna uppblásturs, skriðufalla og vatnaágangs er einnig víða getið. Má vafalítið tengja það við skógareyðinguna, því skógar draga úr slíku.

Fróðlegt er að lesa kaflann um bæinn Skóga. Hvernig voru skógar á þeim bæ sem er sagður „síðasti bær í Bæisár sókn“ og kenndur er við hinn forna skóg er þarna óx? Þar stendur: „Skógur til raftviðar er eyddur, en nægur enn þá til kola og eldiviðar, og brúkast átölulaust til búsnauðsynja. Auðbrekka á þó allan þennan skóg á Skóga jörðu eftir máldaganum og brúkar hann bæði til kola og eldiviðar, eyðist því mjög og fellur í fauska þar með.“ Grastekja er varla teljandi á þessari jörð og um hana segir meðal annars: „Engjar öngvar, nema það lítið sem hent er innan um skógarrunna, eður það lítið sem hent verður híngað og þángað innan um úthaga.“

Í Jarðabókinni er getið um ýmsa skóga á þessu svæði og hverjir áttu þar skógarítök. Oftast eru það stórbýlin handan ár er áttu skógarítökin enda er að sjá sem skógar þeim megin árinnar séu með öllu horfnir á ritunartíma bókarinnar. Því hefur Steindór frá Hlöðum sennilega haft rétt fyrir sér þegar hann dró sömu ályktun út frá lestri fornbréfanna. Auðbrekka átti allan skóg í Skógalandi, en Skriða í Steðjalandi umfram það, er þurfti til heimilisnota á þessum býlum. Í landi Vagla áttu Laugaland, Möðruvellir, Stóri Dunhagi og Fornhagi skógarítök og „nýtti hver sinn skógarpart.“ Möðruvallaítakinu er lýst þannig að skógurinn sé öldungis ónýtur til allra gagnsemda. Þessi miklu ítök stórbýla í skógum á Þelamörk segja sína sögu um mikilvægi skóganna en jafnframt segja þeir okkur hvað ásóknin var mikil.

Ljóst má því vera að víðáttumiklir skógar voru í upphafi 18. aldar á Þelamörk en voru þá allir á fallandi fæti. Þeir hafa verið allt frá Fossá og útfyrir Laugaland. Erfiðara er að átta sig á því hversu hátt í hlíðarnar skógurinn náði. Á okkar dögum ræðst það fyrst og fremst af girðingum.

Horft yfir Hörgáreyrar 25. ágúst 2023. Þarna er gulvíðir og loðvíðir mest ábarandi. Fjær sér í sjálfsprottið birki á Vöglum og gróðursett barrtré. Mynd: Sigríður Hrefna Pálsdóttir.


Nánar úr Jarðabókinni

Við skulum nú skoða sérstaklega það sem Jarðabókin hefur að segja um skóga á þeim bæjum þar sem þeir eru hvað mest áberandi í sveitinni á fyrsta aldarfjórðungi 21. aldar. Í sumum tilfellum nefnum við einnig yngri heimildir til að átta okkur á breytingunum. Til fróðleiks má nefna að þessir bæir eru allir utan við Skóga og áttu allir, þegar bókin var skrifuð, kirkjusókn til Möðruvalla.


Vaglir

Skógur til raftviðar er eyddur, en til kolgjörðar og eldiviðar nægur, og brúkast til þeirra búsnauðsynja. [. . .] Skógarítak á Laugaland híngað, annað Stóri Dunhagi, þriðja Fornhagi, og brúkar hver sinn skógarpart.“ Við þetta er að bæta að í kaflanum um Möðruvelli segir: „NB. Skóg átti þetta klaustur á Vagla jörðu, hann er nú þvínær öldúngis ónýtur til flestra gagnsemda.“ Nánar um núverandi skóga á Vöglum hér neðar.


Krossastaðir „Þessi jörð er sagt að sje heimaland Laugalands, og er það til líkinda, að landinu er óskift fyrir utan tún og útslægur. . .“ Um skóga segir: „Skógur og víðir til eldiviðar nægur, en lítt brúkandi til kolagjörðar.“

Þegar félagar í Skógræktarfélagi Eyfirðinga fóru að planta á Laugalandi árið 1980 mátti sjá sjálfsánar plöntur af birki á þessum slóðum. Þær voru orðnar áberandi nokkrum árum áður eða einhvern tímann á 8. áratugnum. Þá var sauðfjárbúskapur aflagður á jörðinni en bóndinn átti hesta sem ekki var beitt hvar sem var (Hallgrímur 2023). Nú vitum við ekki lengur hvort þetta birki leyndist þarna í sverði eða hvort það hafði sáð sér úr Vaglaskógi yfir Krossastaðaá. Hallgrímur Indriðason (2023) telur það líklegra, enda nægt set fyrir birkifræ á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Hvort heldur sem er, þá má fullyrða að birkiskógurinn, sem enn má sjá á þessum slóðum, er allur sprottinn upp af sjálfu sér.

Þessi mynd er tekin á Þelamörk en töluvert innan við Krossastaði. Myndin sýnir að þung beit getur skapað ágætt set fyrir birkifræ. Þarna er að vaxa upp birki sem sáð hefur sér í dílarofið. Ætla má að þarna hafi fyrst og fremst verið beitt hrossum. Ef sauðfé eða nautgripir hefðu verið á svæðinu er ósennilegt að birkið hafi náð einhverjum þroska. Mynd: Sig.A.

Laugaland Tekið er fram að á aðeins annar ábúandinn hafi mætt til skýrslugerðar og kom hann of seint. Við lesturinn flögrar að lesanda að einhver fýla hafi verið þarna á milli manna enda höfðingjarnir óvanir því að almúginn komi of seint á þeirra fund. Um skóga á jörðinni segir einfaldlega: „Skógur og víðir til eldiviðar sem áður segir um Krossastaði.“ Svo kemur fram að Laugaland á meiri skóg en Krossastaðir. „Skógarpart á jörðin fyrir framan Krossastaá, og brúkast til kolgjörðar og eldiviðar, en eyðist mjög og feyskist.“

Í kaflanum um Laugaland er merkileg klausa sem við látum fylgja hér með: „Engjatak á jörðin í Möðruvllanesi, þar sem heitir Laugalandsstekkur og Arnbjar[n]arhólmi, og var þar góður heyskapur seinast þegar engið var slegið, en það spillist stórlega og verður ekki brúkað til slægna fyrir ágángi Möðruvalla klausturs búsmala með því ábúendur hafa ekki so mannafla að þeir kunni engjapart að verja.“ Samvkæmt upplýsingum frá Steinari Friðmannssyni (2023) virðast þessi örnefni nú vera með öllu týnd.

Horft til Möðruvalla frá Laugalandi 27. júní 2023. Ekki er lengur vitað hvar Laugalandsstekkur og Arnbjarnarhólmi voru. Mynd: Sig.A.

Þarna er auðvitað ákveðið vandamál þar sem engið er á Möðruvallanesi og því ekki innan landamerkja Laugalands. Annars sést, þegar bókin er lesin, að lausaganga búfjár var ekki sjálfgefin á þessum árum. Má nefna bæinn Hamar. Um hann segir: „Eigandi kóngleg Majestat, og liggur þessi jörð undir Möðruvalla klaustur.“ Svo er þessi klausa: „Útigángur í meðallagi fyrir fáar kindur, en landið er æðilítið, og má ekki margt í setja, nema heimabóndinn fái beit hjá nábúum.“ Rétt er geta þess að Steinar Frímannsson (2023) hefur bent á að Hamar er eina jörðin á Þelamörk sem ekki hafði land til fjalls. Ef til vill hefur það haft áhrif á að ábúandinn varð að fá leyfi ef fé hans gekk á annarra landi þar sem hans land var of lítið fyrir bústofninn. Sauðfjárfjöldi á bænum var sem hér segir: 27 ær og 16 sauðir. Ef til vill þætti það ekki mikið í dag en á þessum tíma var þetta mjög á pari við aðrar jarðir. Þetta sýnir líka að á þessum tíma var ekki sjálfgefið að beita fé á jarðir annarra.


Grjótgarður

Árið 1712 er nafn bæjarins skrifað Griotgardur upp á þeirra tíma tísku. Það er talið fornt afbýli í heimalandi Laugalands. „Útgángur sem áður segir um Krossastaði, Skógur ut supra.“ Þess má geta að Grjótgarður er ysti bærinn í sveitinni að vestan og þar með ysti bær á Þelamörk.


Má af ofansögðu sjá að þótt skógar hafi víða verið á þessum tíma voru þeir mjög eyddir á öllu þessu svæði og gagn af þeim þverrandi. Samt er það svo að skógarhögg, eitt og sér, dugar ekki til að eyða skógum. Til að það gangi eftir þarf að koma í veg fyrir að skógurinn vaxi upp aftur. Þrátt fyrir að á hverjum bæ hafi að jafnaði verið færri skepnur en seinna tíðkaðist var beitin næg til að koma í veg fyrir þessa endurnýjun. Því fór sem fór.

Skógarnir hurfu.

Við Krossastaðaá er mikil gróska eins og sjá má. Mynd: Sigríður Hrefna Pálsdóttir.


Ferðabók Eggerts og Bjarna

Þegar við viljum fræðast um skóga fyrri alda er einboðið að skoða Ferðabók Eggerts og Bjarna sem sett var saman af þeim fyrrnefnda eftir ferðir þeirra á árunum 1752-1757. Í Eyjafirði voru þeir réttum fjórum áratugum eftir að Jarðabókin var skrifuð. Við höfum áður birt lýsingar eftir þá félaga í þessum pistli og reyndar víðar. Það var títtnefndur Steindór Steindórsson frá Hlöðum er þýddi ferðabókina yfir á íslensku. Er skemmst frá því að segja að í bókinni er hvergi getið um skóga í Eyjafirði nema kjarrs á Árskógsströnd sem þá er enn nýtt til kolagerðar. Þeir tala ekkert um skógana á Þelamörk. Að auki nefna þeir ekki á nafn skógana í Leyningshólum innarlega í firðinum sem virðist þó eiga sér mjög langa sögu og eru enn til. Þess má reyndar geta að í Jarðabókinni fær sá skógur lakari einkunn en skógarnir á Þelamörk. Ef til vill voru þeir skógar í sögulegu lágmarki á þessum tíma og litlu hefur mátt muna að þeir hyrfu alveg. Vissulega kemur fram í Jarðabókinni að skógarnir á Þelamörk eru á fallandi fæti. En merkir þessi hrópandi þögn í Ferðabókinni að þeim hafi verið gjöreytt á fjörutíu árum?


Horft út eftir Hörgárdal til Eyjafjarðar í júní 2023. Nú eru að spretta upp skógar þar sem þeir voru með öllu horfnir á seinni hluta 18. aldar. Mynd: Sig.A.


19. öldin

Í áðurnefndri grein Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum (1950) segir hann frá því að um 1840 lét Bókmenntafélagið safna saman sóknalýsingum um land allt. Var það gert að undirlagi Jónasar Hallgrímssonar og var partur af undirbúningi fyrir Íslandslýsingu er hann ætlaði að semja. Ekki entist honum aldur til þess. Í spurningum Jónasar var spurt um skóga á ítarlegan hátt: „Hverir eru þar skógar, hversu stórir og hversu góðir? fer þeim fram eða aftur, og hvað veldur því? Vex þar nokkur annar viður (til a. m. reyniviður) og hvar og hve mikill?“ (Steindór 1950).


Ástand mála í Hörgárdal hefur breyst mikið frá því að Jónas Hallgrímsson spurði um útbreiðslu skóga. Mynd: Sig.A.


Samkvæmt þessu ættu svör prestanna að gefa góða lýsingu á ástandi skóganna. Steindór birtir í grein sinni orðréttar lýsingar frá prestaköllunum tveimur á Þelamörk, Möðruvallasókn og Bægisársókn.

Möðruvallaklausturssókn. Á Þelamörk er mjög mikið af smáviði og grávíði, en enginn er þar skógur framar, sem nokkur spíta fáist í, því þó þar sé af búendum gert til kola, eru þau úr tómum fjalldrapa og víði. ... Enginn skógur er hér heldur til, því sá litli skógur, sem var fyrrum til á þeim parti Þelamerkur, sem liggur undir þessa sókn, er nú enginn orðinn, en fjalldrapi er þar og grávíðir töluverður, sem áður er sagt. Einstök reyniviðarhrísla er sögð í gili nokkru fyrir framan Fornhaga, og hefir bóndinn sama staðar plantað af henni kvisti heima hjá sér. Til gamans má geta þess að Sesselja Ingólfsdóttir, sem ólst upp í Fornhaga og býr þar enn, man eftir því úr æsku sinni að enn voru tré í þessu gili þar sem fé komst ekki að. Hvergi annars staðar voru tré í hennar ungdæmi (Sesselja 2023).

Bægisársókn. Enginn skógur eða annars slags viður, svo sem reyniviður etc., utan dálítið af fjalldrapa og víði.“


Þegar þetta er lesið og borið saman við ferðabók Eggerts og Bjarna læðist að manni sá grunur að það eigi sér mjög eðlilegar skýringar að þeir töluðu ekki um skóga á Þelamörk. Allt bendir til þess að þeir hafi einfaldlega horfið áður en þeir félagar fóru um Hörgárdal.


Birkið leyndist í sverði

Árið 1940 hélt Skógræktarfélag Eyfirðinga upp á 10 ára afmæli sitt. Þá skrifaði Ari Jóhannsson, þáverandi formaður félagsins, bækling um það sem áunnist hafði á þessum fyrsta áratug félagsins. Þar segir frá berjaferð félagsmanna. „Flestar munu slíkar ferðir hafa verið farnar héðan vestur á Þelamörk. Úr landi jarðanna Vagla og Skóga á Þelamörk hefir mörg berjafatan verið fyllt. En þar er hægt að finna fleira en ber. Það ver í einni slíkri berjaferð, sem Jónas Þór [framkvæmdastjóra Gefjunar og forystumaður í Skógræktarfélaginu, innsk. Sig.A.] gleymdi berjunum af hrifningu yfir öðru, sem hann fann, og það sem hann fann var björk. Ekki ein lítil planta, heldur margar smáar brosandi bjarkir, sem földu sig í lynginu og þorðu ekki að láta á sér bera, því óvinurinn, sauðkindin, var alltaf á næstu grösum, og stýfði miskunnarlaust ofan af þeim, ef þær teygðu sig upp úr lynginu. Hér var næsta verkefni fyrir skógræktarfélagið, að friða þessi bjarkarbörn. Árið 1934 var fengið leyfi þess opinbera, sem á jörðina Vagli, til að girða þar nokkra hektara af landi og var girðingunni lokið sama ár. Girðing þessi er tæpl. 1½ km. að lengd.

Eftir þennan stutta tíma, aðeins sex ár, eru þessar smáu bjarkir nú orðnar 2 metrar þær hæstu og lítur út fyrir að þarna muni vaxa upp samfelldur skógur. Skógræktarfélagið hefir nú selt Ríkisskógræktinni þessa girðingu. En þarna er aðeins girtur lítill hluti þess lands, sem þarf að friða, því utan girðingar kúra enn ótal bjarkir, sem bíða leyfis að vaxa.“ (Ari Jóhannsson 1940 bls. 16.)

Þetta var upphafið að skógræktargirðingunni á Vöglum á Þelamörk.


Vaglir á Þelamörk

Hákon Bjarnason tók við starfi skógræktarstjóra þann 12. júlí 1935. 12 dögum síðar lagði hann af stað í nær tveggja mánaða reiðferð um Ísland. Á Akureyri hitti Hákon forystumenn SE. Þar á meðal var ofantalinn Jónas Þór en einnig Ólafur Thorarensen og Jón Rögnvaldsson. Hákon skrifaði ferðaskýrslu um ferðina og Sigurður Blöndal endurskrifaði hluta hennar í bókina Ásýnd Eyjafjarðar. Hákon hefur heyrt þessa berjasögu sem nefnd er hér ofar og segir: „Og eitt sinn, er Jónas Þór fór til berja út á Þelamörk utan við Akureyri, rakst hann á ofurlitla bjarkaranga, sem gægðust á stöku stað upp úr landi jarðarinnar Vaglir. En reynsla hans og félaga hans úr Garðsárdal varð til þess, að þeir áræddu að leggja í kostnað við að girða land þetta, og var girðing sett upp árið 1933. Landið hafði því notið algjörar friðunar í tvö sumur, er ég sá það. Þótt ekki sé liðinn lengri tími síðan, var mikill munur að sjá landið innan og utan girðingarinnar. Innan hennar þaut bjarkargróðurinn upp úr móanum, runnarnir voru sem óðast að hækka og þéttast, og víða er gróðurinn á leið með að verða samfelldur á stærri svæðum, þá fyrst fer vextinum að miða, svo um muni. Hér var útlit til þess, að vaxa myndi upp skógur af gömlum og gleymdum bjarkarrótum, sem sofið hafa Þyrnirósarsvefni í meir en heila öld. Í nánd við þessa jörð eru nokkur svæði, sem menn nú hafa tekið eftir bjarkarplöntum á, og víðar en menn grunar munu slíkar rætur finnast í jörðu, sem eru albúnar að vaxa og dafna að nýju, ef friðun aðeins kæmist á.“ (Sigurður Blöndal 2000).

Málin æxluðust svo að strax árið 1936 tók Skógrækt ríkisins (sem nú kallast Land og skógur) við landinu. Steindór (1950) segir að girðing skógræktarfélagsins hafi verið um 12 ha svæði og seld Skógrækt ríkisins til að fjármagna girðingar í kringum skógarleifarnar í Leyningshólum. Steindór segir í sinni grein að árið 1950 sé þar að finna vöxtulega runna og sumir þeirra séu allt að 3 m háir. „Sýnir þetta dæmi, hversu lífseigar gamlar skógarleifar eru, og hve fljótt þær komast á legg, þegar friðunin er fengin, ef um góðan stofn er að ræða.“ (Steindór 1950)


Mýralerki og birki á Vöglum sem sveiflast í takt við gula veðurviðvörun. Allt birkið er sjálfsprottið. Mynd Sig.A.


Girðingin stækkuð

Eftir að Skógrækt ríkisins eignaðist landið árið 1936 falaðist hún strax eftir meira landi. Svo er að sjá að hugmyndin um að Skógræktin taki við allri jörðinni tengist ábúendaskiptum. 1936 tók við búi á Vöglum bóndi að nafni Karl Júlíus Hallgrímsson. Sá sem var á undan honum hafði jörðina aðeins í tvö ár (Steinar Frímannsson 2023). Bróðir Karls, Hallgrímur Hallgrímsson, tók svo við búi bróður síns. Var hann ókvæntur og barnlaus en átti fósturson. Árið 1966 lést fóstursonur Hallgríms. Eftir það var fátt fé á jörðinni, ef nokkuð (Steinar Frímannsson 2023). Fimm árum síðar eða í bréfi frá árinu 1971 lýsti Hallgrímur því yfir að hann heimilaði Skógrækt ríkisins að girða og friða skógræktarspildu í landinu. Enn síðar sóttist Skógræktin eftir jörðinni allri, enda var Hallgrímur bóndi þá að ljúka búskap. Það var svo árið 1979 sem Skógræktin eignaðist alla jörðina. Tók það því um 23 ár að koma allri jörðinni undir skógrækt (Sigurður Blöndal 2000).


Horft inn Hörgárdal við Vagli á Þelamörk í júní 2023. Vel sést hvar girðingin var um skóginn. Hún er nú farin á móts við þjóðveginn, enda ekki lengur þörf á henni. Trén sá sér út frá skóginum. Þarna hefur engu birki verið plantað. Myndir: Sig.A.

Í land Vagla á Þelamörk hefur í gegnum árin verið plantað um tveimur tugum erlendra tegunda en birkið sem þar vex er villt. Sigurður Blöndal (2000 bls. 121) sagði um skóginn að hann væri „eitt fegursta dæmi á Íslandi um endurkomu birkis á skóglausum úthaga við friðun frá beit.“


Laugaland

Skógurinn að Laugalandi í Þelamörk er í umsjón Skógræktarfélagsins og er hann töluvert sóttur af almenningi eins og vera ber. Margir þekkja þann skóg fyrst og fremst vegna þess að tvær helgar í desember kemur fjöldi manna til að velja og saga niður sitt eigið jólatré. Standa stjórnarmenn félagsins vaktina á þessum viðburði og bjóða upp á kaffi og kakó.


Þessi er með rétta tréð fyrir sína fjölskyldu. Mynd: Sig.A.


Ekki er auðséð af gögnum félagsins hvort eitthvert birki hafi verið þar þegar gróðursetningar hófust árið 1980. Aftur á móti vitum við að þarna hefur félagið plantað rúmlega 23.000 birkiplöntum. Eru þær ættaðar frá Garðsá. Við höfðum samband við þá Tómas Inga Olrich og Hallgrím Indriðason sem báðir unnu þarna að gróðursetningum á þessum árum. Þegar gróðursetning hófst á þessum stað bar landið merki þess að hafa lengi verið þungbeitt, einkum af hrossum. Má sjá þess merki á gömlum myndum. Almennt eru hross ekki eins hrifin af birki og nautgripir og sauðfé, en éta það frekar en ekkert. Þeir Tómas Ingi og Hallgrímur eru sammála um að þarna hafi ekkert birki verið árið 1980 en telja þó ekki útilokað að eitthvert birki hafi leynst í sverði. Samt má fullyrða að sennilega er megnið af þeim birkiskógi sem er á Laugalandi upphaflega kominn til vegna útplöntunar. Sá skógur er auðvitað löngu farinn að sá sér út. Þar sem birki er ágeng tegund hefur það lagt undir sig mela sem áður voru gróðurlausir með öllu. Flestir gleðjast yfir slíkri þróun.


Tómas Ingi Olrich ásamt nýstúdentum árið 1982. Ekki er að sjá að þarna sé sjálfsprottið birki á þessum tíma. Myndin er úr bókinni Ásýnd Eyjafjarðar en höfundur myndarinnar er ókunnur.


21. öldin

Nú er allur dalbotninn í Hörgárdal friðaður. Segja má að það hafi gerst eftir að þjóðvegirnir, beggja vegna dalsins, voru girtir af en ekki var tekin meðvituð ákvörðun um að friða dalbotninn. Sauðfjárbúskapur hefur lagst af á flestum jörðum Þelamerkur og hefur það auðvitað einnig sín áhrif. Nú má sjá allglögg skil við girðinguna. Ofan hennar ber ekki mikið á sjálfsánum trjám. Öðru máli gegnir um svæðið neðan girðingar. Þar er nú að sjá efnileg og sjálfsprottin tré sem munu ná að mynda samfellda skóga með tíð og tíma á Hörgárbökkum. Þar var áður, að sögn Sesselju Ingólfsdóttur (2023), sem ólst upp í dalnum, varla stingandi strá. Á þetta jafnt við um nær allan Hörgárdal en ekki aðeins Þelamörk.


Beggja vegna Hörgár eru vegirnir girtir af. Þar með er dalbotninn friðaður fyrir lausagöngu. Víða má sjá glögg skil við girðinguna. Sums staðar er hún nálægt veginum en annars staðar ofan við tún. Mynd: Sig.A.


Ekki er alveg ljóst hvort eða hvenær landið neðan við veginn á Þelamörk var formlega friðað. Smám saman fækkaði einfaldlega fé og þar með dró úr beitinni. Má vera að eina formlega friðaða svæðið sé í kringum vatnsbólið neðan við Vagli, sem girt var af einhvern tímann á milli 1975 og 1980 (Frímann 2023).

Þeir skógarreitir sem fyrir eru á svæðinu og í nágrenninu hafa sjálfsagt lagt til megnið af því fræi sem þarna er að mynda skóga. Má á áreyrunum sjá birki og ýmsar víðitegundir en nær þjóðveginum má einnig sjá furur og sjálfsagt sitthvað fleira. Verður fróðlegt að fylgjast með þessum sjálfsprottnu skógum sem eru að verða til vegna friðunar fyrir beit.


Nafnið Þelamörk

Nafnið Þelamörk er sjálfsagt innflutt frá Noregi en vestast í sunnanverðum Noregi er Telemark. Varla hefði þessu svæði verið gefið þetta heiti ef þar hefðu ekki verið skógar enda merkir orðið mörk skógur. Því vaknar þessi spurning: Hvenær var farið að kalla svæðið Þelamörk og af hverju?

Segja má að tvær megintilgátur séu til um uppruna örnefna.

Önnur að þau séu dregin af sögunni eða umhverfinu. Skóglendi getur þá kallast Þelamörk. Ef allt í kringum svæðið eru líka vaxið skógar sem eru alveg eins, hjálpar nafnið ekki neitt við að lýsa svæðinu.

Hin tilgátan er að fólk geti flutt með sér örnefni og sett þau á svæði án þess að þau komi umhverfi mikið við. Sem dæmi má nefna að gömul hús í Vestmannaeyjum heita stundum eftir bæjum á fasta landinu sem fólkið kom frá sem byggði þá. Jón á Hóli gat þá haldið áfram að heita Jón á Hóli. Sama sést þegar fólk flytur um langan veg. Vestur Íslendingar fluttu með sér örnefni. Heklueyja hefur t.d. ekkert að gera með Heklu.

Ef þetta er tilfellið getur vel verið að Þelamörk hafi ekkert með skóga að gera, heldur hafi bara verið flutt inn frá Noregi með landnámsmönnum. En ætti þá ekki orðið að þekkjast í fornum ritum? Skoðum fyrri tilgátuna aðeins betur og gerum ráð fyrir að bæir og sveitir hljóta að draga nafn af því sem einkennir þá og þær frá öðrum. Þeli merkir hrím, ís eða kuldi. Þelamörk gæti verið nafn sem gefið er landi þar sem snjór liggur lengur en í öðrum skógum eða skógi sem liggur í skugga þannig að hann helst lengur hrímaður en annar skógur þar sem sólar nýtur á útmánuðum. Þannig háttar til á Þelamörk að morgunsólin er þar seinna á ferðinni en handan ár. Aftur á móti er þar meiri kvöldsól. Þetta er mest áberandi þegar sól er lægst á lofti. Ef allt svæðið hefur verið skógi vaxið má vera að þessi skógur hafi hrímað í frosti og hægviðri sem þarna er algengt. Sólin hefur svo brætt þetta hrím síðast á Þelamörk eða Hrímskógi.

Þetta gæti vel verið ástæða nafnsins. Í Ljósvetninga sögu eru bæir nefndir sem tilheyra sveitinni en orðið Þelamörk kemur þar ekki fyrir. Merkir það að orðið hafi ekki verið notað um sveitina á þeim tíma, eða er það tilviljun að það er ekki þarna? Hér að ofan eru tilvitnanir frá Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum sem hann hefur úr íslenskum fornbréfum. Þar segir hann frá bæjum á Þelamörk en orðið sjálft kemur þar hvergi fyrir. Það virðist ekki vera fyrr en í Jarðabókinni að nafnið er notað í aðgengilegum heimildum. Þar er meira að segja tekið fram að menn eru ekki sammála um hversu stórt svæðið er sem gengur undir þessu nafni.

Það hljómar því sennilega að nafnið Þelamörk hafi ekki orðið til, eða farið í almenna notkun, fyrr en aðrir skógar voru að mestu horfnir. Vel má vera að nafnið hafi ekki komið fram fyrr en á 17. öld eða jafnvel ekki fyrr en undir aldamótin 1700 eða skömmu áður en Jarðabókin var tekin saman. Þá hefur landið á þessu svæði verið öðru vísi en annað land í nágrenninu vegna þess að þarna var skógur eða mörk en á öðrum svæðum var hann horfinn. Má vel vera að þar hafi legið snjór lengur á vorin, þegar hann gat skafið í öllum veðrum og stoppað í skógarskjólinu. Þá hefur verið upplagt að kalla svæðið Þelamörk. Þetta voru einu skógarnir í héraðinu og í þeim lá snjór lengi.

Hér er því varpað fram þeirri tilgátu að nafnið hafi ekki fest sig í sessi fyrr en í upphafi 18. aldar eða í lok þeirrar 17.

Nú er landið aftur að breytast í mörk.


Héraðsskógur

Árið 1978 voru Sigurður Blöndal og Hjörtur Eldjárn kjörnir í Náttúruverndarráð. Þeir ræddu meðal annars saman um hugsanlega skógrækt á Þelamörk en þá voru litlir möguleikar á að fá land til skógræktar. Sigurður (2000 bls. 120) segir að Hjörtur hafi þá sagt að Skógræktin ætti að leita allra leiða til að rækta skóg á Þelamörk. Taldi hann að þar væru einhver bestu skilyrði til skógræktar í Eyjafirði. Þar vildi hann sjá myndarlegan skóg sem hann nefndi héraðsskóg.

Í títtnefndri grein Steindórs Steindórssonar (1950) segir hann í lokaorðum: „Sennilegt þykir mér, að ræktun birkis og friðun birkiskóga verði í framtíðinni aðallega til þess að skýla ungviði barrtrjánna og búa í haginn fyrir landnám hinna nýju skóga.“ Ekki er lengur í tísku að planta barrtrjám inn í birkiskóga en Steindór hafði rétt fyrir sér með að afgirt svæði búa í haginn fyrir landnám hinna nýju skóga. Því má segja að nú er ekki annað að sjá en að draumsýn þeirra Hjartar á Tjörn og Steindórs frá Hlöðum sé að rætast.

Blandskógur að Vöglum á Þelamörk. Sjá má gulvíði, loðvíði og birki sem allt spratt upp eftir friðun. Einnig má sjá furur og lerki sem plantað hefur verið. Ef til vill sáu Sigurður Blöndal, Hjörtur Eldjárn og Steindór Steindórsson landið fyrir sér einmitt svona. Mynd: Sig.A. 25. 8. 2023.


Heimildir:


Ari Jóhannsson, þáverandi formaður SE (1940) Skógræktarfélag Eyfirðinga 10 ára. Til í eigu félagsins í ljósriti.


Árni Magnússon og Páll Vídalin (1712): Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalins. 10. bindi, Eyjafjarðarsýsla bls. 163-175. Gefin út af Hinu íslenska fræðafjelagi í Kaupmannahöfn með styrk úr ríkissjóði Íslands árið 1943. Kaupmannahöfn.


Eggert Ólafsson (1772): Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Um ferðir þeirra um Ísland árin 1752-1757. Steindór Steindórsson íslenskaði árið 1942. 3. útgáfa 1978. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík.


Hallgrímur Indriðason (2000): Laugaland á Þelamörk : Í: Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju. Ritstj. Bjarni E. Guðleifsson bls. 114-117. Skógræktarfélag Eyfirðinga. Akureyri. Sigurður Blöndal (2000): Vaglir á Þelamörk. Í: Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju. Ritstj. Bjarni E. Guðleifsson bls. 117-123. Skógræktarfélag Eyfirðinga. Akureyri.


Steindór Steindórsson frá Hlöðum (1950): Skógar í Eyjafirði. Drög til sögu þeirra. Í: Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1950 bls. 49-81. Reykjavík 1951.


Höfundur ókunnur: Valla-Ljóts saga. Í: Íslendingasögur og þættir. Síðara bindi bls. 1827-1842. Ritstj. Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson. Svart á Hvítu. Reykjavík 1986.


Munnlegar heimildir:


Hallgrímur Indriðason 22.06. 2023

Sesselja Ingólfsdóttir 04.07. 2023 Steinar Frímannsson 25.06. 2023 Tómas Ingi Olric 22.06. 2023.
401 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page