top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Lýsing Eggerts og Bjarna á skógum

Updated: Apr 15, 2022

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um landið árin 1752-1757 og gáfu út ferðabók sem er stórskemmtileg eins og alkunna er. Nú lítum við í þá ágætu bók eftir efni í #TrévikunnarSE. Í kaflanum um Suðurland má finna eftirfarandi um skóga. Margt af því á þó við um skóga á öllu landinu. Merkilegt er að sjá að þeir félagar og fræðimenn virðast gera sér fulla grein fyrir mikilvægi trjákynbóta. „Skógur hefir verið hér á mörgum stöðum, þar sem nú er skóglaust, og hefir verið svo lengi sem menn muna. Þessa sama er getið um land allt. Merkilegast í þessu efni er þó, hversu skógurinn, en þó einkum björkin, hefir úrkynjast, svo að nú vaxa víða einungis grannir teinungar, 2-3 þumlunga gildir, þar sem trén voru áður með kvartilsgildum stofni eða enn gildari. Í öðrum löndum kvarta menn einnig yfir slíkri hægfara úrkynjun skóganna. Meginorsök þess, að svona hefir farið á Íslandi, er sú, að menn hafa, einkum í seinni tíð, höggvið stærstu og beztu trén, en látið hin standa og fúna. Hins vegar vitum vér, að fornmenn hjuggu aldrei ungviðið, hvorki til kolagerðar né eldsneytis, heldur einungis gömlu trén. Þá grófu þeir árlega upp úr jörðu fauska og fúnar rætur til eldiviðar En niðjar þeirra, einkum á vorum dögum, láta ungviðið aldrei fá frið til að vaxa, ekki einu sinni þau trén, sem vænlegust eru til þroska. Þó er sums staðar á landinu ungur skógur, sem vænlegur er til vaxtar, ef hann fengi notið friðar, t. d. í Þingvallahrauni, sem er einn bezti skógurinn og víðlendur. Annars sjást enn stórvaxin tré á þremur eða fjórum stöðum , en aðeins eitt tré á hverjum stað. Hafa menn á þessum stöðum hlíft trjánum, bæði vegna þess, hve stór þau eru, og til að þess að sýna þau eins og hvert annað fágæti. En þessi tré hafa alið önnur, sem sýnu eru stórvaxnari en öll nágrannatrén og virðast munu verða mikils vaxtar. Árið 1756 sáum við eitt slíkt birkitré að Eyvindarmúla í Fljótshlíð. Bær sá er óðalsjörð og kirkjustaður. Tréð stendur skammt frá bænum á kletti við ána. Þar var 40 feta hátt og 67 ára gamalt, en tekið að visna í toppinn. Ungt tré, sem af því var sprottið, virtist mundu verða eins stórvaxið, og þar voru einnig tvær mjög ungar hríslur, vaxnar af rótarsprotum. Tré þetta sýnist enn stærra vegna þess, að það stendur einsamalt, og af því er menn bezt vita, hefir ekki verið þar skógur nú um nokkrar aldir. Á síðastliðinni öld var stórt tré í Skálholti, sem hafði verið gróðursett þar. Einnig voru þá mörg tré, sem einnig höfðu verið gróðursett. Á Möðruvöllum í Eyjafirði. Þessi dæmi virðast sýna það, að takast mætti að gróðursetja ung, kyngóð tré, og væri reyniviður engu síður til þess fallinn en birki. Mesti skógur á Suðurlandi var á Rangárvöllum, umhverfis Heklu. Hann er nú eyddur, og áttu Heklugosin upptök að eyðingu hans. Þess er getið í annálum, hversu við síendurtekin gos hennar tilteknir hlutar af skógi þessum eyddust og það sum staðar árfært. Ekki vita menn til þess, að nokkru sinni hafi verið skógur í Viðey, en þó fundust þar heilir stofnar af fúnum birkitrjám í jörðu nú fyrir skemmstu, þegar mór var tekinn á nýju svæði. Á hinum víðlendu heiðum kringum Eiríksjökul var skógur þangað til fyrir 50 árum.“ Myndin sem hér fylgir er af íslensku birki sem ætla má að hafi úrkynjast, ef marka má Eggert og Bjarna.





120 views0 comments

Yorumlar


bottom of page