top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Grátvíðir

Updated: Feb 24

Ein fjölskrúðugasta ættkvísl trjáa og runna sem þrífst á Íslandi er víðiættkvíslin (Salix ssp.). Af henni eru til um 400 tegundir auk nær óteljandi blendinga og afbrigða. Flestar víðitegundir þrífast best þar sem nægan raka er að fá hitinn er ekki of mikill. Innan ættkvíslarinnar eru til smárunnar jafnt sem há og myndarleg tré og allt þar á milli. Á þessum síðum hefur áður verið skrifað um víði og víðitegundir, meðal annars hér, hér, hér og hér.



Að þessu sinni tökum við fyrir tré sem vex við meiri hlýindi en við getum boðið upp á. Þetta er samt tré sem margir þekkja, enda vex það sem borgartré í mörgum evrópskum og amerískum borgum og vekur töluverða athygli.

Tréð er grátvíðir eða Salix babylonica.


Grátvíðir í grasagarðinum í Kaupmannahöfn.


Víðir og vatn

Margar víðitegundir eru hrifnar af því að hafa góðan aðgang að vatni. Að auki eru það svo að löng, hangandi víðiblöð og vatn fara vel saman. Mjög algengt er að rækta þennan víði nálægt vatni. Því mætti ætla að þessi víðitegund sé ein af þeim sem alltaf er þyrst og þrífist best þar sem raki er nægur. Það mun þó ekki endilega vera rauninn. Grátvíðir getur vel þrifist á þurrum svæðum. Ástæða þess hversu oft honum er plantað nálægt vatni er fyrst og fremst fagurfræðileg.

Hér á landi þrífst þessi tegund ekki. Hennar í stað hafa aðrar víðitegundir með löng laufblöð verið ræktuð nálægt vatni. Má nefna körfuvíði sem dæmi.


Grátvíðir í almenningsgarði í Boston.


Nafnið

Árið 1736 var það sjálfur Carl Linnaeus sem gaf þessari tegund latínuheiti sitt. Lýsing hans var af tré sem flutt hafði verið til Hollands og óx í garði í Hartekamp þar í landi. Hann vissi að tréð óx ekki villt í Evrópu og gaf því viðurnefnið babylonica með vísun í vaxtarstaði í Babylon. Heimkynni trésins eru þó austar en það (sjá síðar).


Aftur á móti þótti það sérstaklega rómantísk hugmynd að kenna þennan víði við Babylon á latínu og grátur á öðrum tungum. Ástæðan er sú að menn sáu fyrir sér Gyðinga í Gamla testamentinu undir þessum trjám. 137. kafli sálmanna hefst á svohljóðandi orðum:

Við Babýlonsfljót sátum vér og grétum er vér minntumst Síonar. Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.


Grátvíðir í Tívolí í Kaupmannahöfn.


Hljómsveitin Bony M söng um þetta í lagi sínu By the rivers of Babylon.


En því miður vex þessi tegund ekki vilt við Babýlonsfljót.


Hin íslensku nöfn sem notuð hafa verið á tegundina vísa í hið hangandi vaxtarlag sem svo mjög er sóst eftir þegar tré af þessari tegund eru tekin til ræktunar. Íðorðabanki Árnastofnunar gefur upp heitin hengivíðir, grátvíðir og grátpíll. Í þessum pistli er grátvíðir notað en hin eru ekkert síðri. Grátvíðir vísar í sálmaljóðin rétt eins og fræðiheitið. Mjög algengt er að kenna tré með svona vaxtarlag við grátur. Orðið grátpíll er sennilega ekki mikið notað en seinni hluti orðsins er orð sem stundum er notað yfir plöntur af víðiættkvíslinni sem ná trjáhæð. Slík tré eru stundum nefnd pílar, pílviður eða pílviðartré og á sér samsvörun í skyldum tungumálum (pil). Tré með svona hangangdi greinar er einnig algengt að kalla hengi- eitthvað, sbr. hengibirki. Hér er grein um eitt slíkt tré.


Grátvíðir eftir Claude Monet.


Ræktun

Grátvíðir vex villtur í Kína og annars staðar í Austur-Asíu og er víða nokkuð algengur. Hann er fyrst og fremst ræktaður þar sem frost hamlar vexti ekki um of. Stærstu, viltu trén vaxa við Yangtze fljót í Kína en stór tré vaxa einnig í Monsjúríu og Kirkinistan ef marka má Christopher Newsholme (sjá heimildaskrá). Þessa tegund má einnig sjá í Evrópu, Vestur-Asíu, norðurhluta Austur-Afríku og í Norður-Ameríku. Einnig hefur hann verið ræktaður í Japan frá því seint á síðustu öld. Svona langt í austri vaxa þessi tré ekki að sjálfdáðum.


Þessi ungi grátvíðir stendur í grasagarðinum í Kaupmannahöfn. Hann stendur ekki við vatn. Það er óvanalegt en hann þrífst samt ágætlega.


Eftir því sem norðar dregur í Evrópu fækkar þessum víði. Hann þarf lengri vaxtartíma en í boði eru þar sem frosthætta er bæði vor og haust. Lík tegund tekur þá við af honum og gengur undir fræðiheitinu S. x. chrysocoma. Það er blendingstegund og foreldrarnir eru taldir vera S. babylonica og S.alba var. vitellina. Hvorugt foreldranna þrífst á Íslandi og sennilega ekki heldur þessi blendingur þeirra. Svo virðist sem grasafræðingar Evrópu hafi ekki komist að endanlegu samkomulagi um hvernig rita skuli nafn þessara blendinga.


Grátvíðir í grasagarðinum í Edinborg sem merktur er sem Salix x sepulcralis ´Chrysocoma´

Ekki er mikill útlitsmunur á þessum blendingum og hreinum grátvíði. Má vel vera að einhverjar af meðfylgjandi myndum sýni einmitt blendinga. Þar er um að kenna víðtæku þekkingarleysi þess er tók myndirnar og ritar þennan texta.


Lýsing

Grátvíðir er sérlega glæsilegt tré með langar hangandi greinar. Hann er fyrirferðarmikið tré sem verður að jafnaði um 10 metrar á hæð en getur orðið enn hærra eða allt að 20 metrar eða jafnvel rúmlega það. Stofninn er fremur stuttur og grófgerður með allt að 80 cm þvermál. Frá honum vaxa stórar og grófar greinar í allar áttir. Út frá þeim vaxa smágreinar sem hafa hin einkennandi hangandi laufblöð. Þau eru mjó og lensulaga. Hvert lauf verður 5-16 cm á lengd en ekki nema 1-1,5 cm á breidd. Laufin eru ljósgræn og glansandi á efra borði en hærð á neðra borði. Haustlitir eru gulir.

Eins og þekkt er með margar aðrar víðitegundir vex þessi víðir frekar hratt og er auðræktaður. Aftur á móti verður hann ekkert sérlega langlífur, frekar en margar aðrar víðitegundir. Algengt er að hann verði um 40-75 ára gamall.


Grátvíðir í Cardiff í Veils. Myndin tekin að vori og annar gróður vart farinn að laufgast.


Reklar

Plöntur af víðiættkvísl bera annað hvort karlkyns- eða kvenkyns blóm. Svo virðist sem nánast allar plöntur í ræktun í okkar heimshluta séu kvenkyns. Reklarnir eru mjóir og verða um 2.5 til 5 cm á lengd. Þeir birtast um leið og laufin eða örlítið fyrr. Það er mjög algengt hjá ýmsum víðitegundum. Laufgun er oftast í apríl eða maí. Það er of snemmt fyrir Ísland.


Grátvíðir í London.


Uppruni trjánna í Evrópu

Einn klónn er lang mest ræktaður í heiminum og lýsingar á plöntunni eiga fyrst og fremst við hann. Þessi kvenkyns klónn er að öllum líkindum frá norðanverðu Kína og hefur verið ræktaður í um 300 ár. Að jafnaði er loftslag frekar þurrt á þeim slóðum og þegar það er haft í huga er vel skiljanlegt að þessi klónn þarf ekki eins mikið vatn og ætla mætti miðað við hversu oft honum er plantað við tjarnir. Karlkyns klónar eru ræktaðir í Tíbet og Indlandi ásamt þessum sem við best þekkjum. Af hverju þeir hafa ekki ratað til Evrópu er þeim er þetta ritar ókunn ráðgáta.


Til eru dæmi um að tegundin hafi sáð sér út í Evrópu. Þar sem í álfunni eru fyrst og fremst kvk. tré eru það blendingar sem sáð sér hafa út. Þeir finnast fyrst og fremst í röku landi. Þar kann faðernið að skipta máli.


Víða í Evrópu þykir við hæfi að planta grátvíði við vötn nálægt höllum og slotum.


Eins og með svo margt annað er talið líklegt að hin forna silkileið eigi sinn þátt í útbreiðslu grátviðar til Evrópu. Kaupmenn hafa séð þessi tré austur í Asíu og flutt þau smám saman með sér vestur. Fyrir einhverja tilviljun var það bara þessi eini klónn sem fluttist með kaupmönnum austur fyrir allt að 300 árum síðan og enn hefur fæstum þótt taka því að bæta við klónum. Það er alveg óvíst að kaupmennirnir hafi meðvitað flutt trén með sér. Ef til vill fluttu þeir bara með sér tágakörfur úr greinum þessa víðis, enda er mjög auðvelt að taka græðlinga af þessari tegund og koma þeim til.


Meðal annarra trjátegunda sem borist hafa til Evrópu eftir silkileiðinni eru eplatré eins og áður hefur verið greint frá á þessum síðum.


Hið fræga hestabað í Saldzburg í Austurríki og Saldzburgarkastali í baksýn. Auðvitað er grátvíðir við hestabaðið.


Á þessari öld hafa bæst við nokkrir nafnkenndir klónar í ræktun í Evrópu. Allir eiga þeir það sameiginlegt að þetta dæmigerða, hangandi vaxtarlag er áberandi. Villt tré eru ekki alltaf með svona áberandi slútandi greinar.


Allar myndir í pistlinum af lifandi plöntum tók höfundur. Málverkið er ekki eftir hann.


Tvö grátvíðitré í Boston að hausti til. Trén ekki komin með haustliti þótt önnur tré séu það.


Heimildir:

Christopher Newsholme 1992. Willows. The Genus Salix. B.T. Batsford. London.


Colin Tudge 2007: The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter.


Keith Rushforth 1999: Trees of Britain &Europe. Bls. 1109. Harper Collins Publishers, London.


Önnur haustmynd frá Boston. Ekki örlar á haustlitum hjá víðinum. Það segir okkur að hann á litla möguleika hjá okkur.


495 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page