top of page

Frú Margrét

Updated: Sep 19, 2023

Til eru tré sem þykja það merkileg að þau hafa sérnöfn. Eitt slíkt er #TrévikunnarSE að þessu sinni. Þetta tré var valið tré ársins hjá Skógræktarfélagi Íslands árið 2009 og var þá rétt tæpir 11 metrar á hæð. Það stendur í Kjarnaskógi og er af tegundinni hengibjörk (Betula pendula) en gengur undir nafninu Margrét, eða jafnvel frú Margrét. Myndirnar sem fylgja eru allar af þessu tré en teknar á mismunandi tímum árs. Það er alltaf glæsilegt og hver árstíð hefur sinn sjarma. Það minnir okkur á að það er gaman að skoða tré í Kjarnaskógi sem og víðar á öllum árstímum. Um þessar mundir er tréð að byrja að fara úr sumargrænum skrúða sínum yfir í gullinn haustbúninginn og er einmitt ein myndin tekin í dag. Sá litur nýtur sýn vel er hann ber við sígrænt barrið á greninu sem stendur því nærri.


Hengibjörk er lík íslensku ilmbjörkinni en greinarnar slúta gjarnan til endanna og er nafn tegundarinnar af því dregið. Þessi greinabygging gefur þetta tignarlega og róandi vaxtarlag. Að auki eru laufblöðin ekki alveg eins hjá þessum tegundum og munur er á ársprotunum. Hjá ilmbjörkinni er þeir hærðir en þaktir litlum, hárlausum vörtum á hengibirkinu.


Uppruni Margrétar er ekki að fullu ljós. Líklegt er talið að hún sé komin upp af fræi frá Rognan í Noregi en Kivalo og Kittila í Finnlandi koma einnig til greina. Líklega var henni plantað um árið 1970. Skógurinn var lengi nokkuð þéttur þarna og tréð vakti því ekki mikla athygli fyrr en grisjað var frá því.


Þetta skemmtilega nafn er komið frá Helga Þórssyni í Kristnesi en hann og Aðalsteinn Svanur Sigfússon unnu að grisjun nálægt trénu í lok síðustu aldar. Nafnið getur átt ágætlega við hinar slútandi greinar sem eru svo áberandi á trénu. Það er nánast eins og þær gráti. Þetta mun vera ástæða nafnsins, svo og sú staðreynd að keðjusögin sem notuð var til verksins bar einnig þetta heiti. Að auki má minna á að nafnið Margrét mun merkja sjávarperla og þetta tré er vissulega ein af perlum skógarins. Þar fyrir utan hefur nafnið einnig verið borið af norrænum drottningum og á því vel við um þessa fegurðardrottningu.


Sex myndir af hengibjörkinni teknar á mismunandi tímum.


Myndir og texti: Sigurður Arnarson.

118 views

Recent Posts

See All
bottom of page