top of page

Lensuvíðir

Updated: Apr 23, 2023

Undanfarin misseri hefur borið nokkuð á skaðvöldum í víðitegundum á Íslandi. Einkum sunnan heiða. Þar ber hæst ryðsveppi og asparglyttu (eða -glittu). Bæði ryðið og paddan hafa sést hér nyrðra en sjaldan valdið tilfinnanlegu tjóni, enn sem komið er. Þessir vágestir hafa þó orðið til þess að menn hafa farið að lítast um eftir víðitegundum sem kunna að standast óværuna betur. Ein af þeim er hinn fremur fágæti lensuvíðir (Salix lasiandra). Svo er að sjá sem hann sé ónæmur fyrir ryði og blessuð glyttan (eða glittan) virðist hafa lítinn áhuga á honum. Lensuvíðir er #TrévikunnarSE


Lensuvíðir er fremur stór runni eða lítið tré. Í vexti minnir hann e.t.v. á viðju eða hegg. Hægt er að stjórna vextinum með klippingu og fá þannig æskilegt form. Þá geta menn valið um að hafa hann einstofna tré eða margstofna runna.


Nafn sitt fær hann af blöðunum sem eru löng og lensulaga. Þessi mjóu blöð eru til mikillar prýði.

Tegundin er ættuð frá Norður Ameríku. Hún finnst allt frá Suður-Kaliforníu og Nýju-Mexíkó í suðri og norður til Alaska. Lensuvíði má meðal annars finna við bæinn Skagway í Alaska. Sá bær er mörgum skógræktarmanninum kær, því stór hluti þeirrar stafafuru sem hér má finna á ættir sínar að rekja þangað.


Lensuvíðirinn er landnámsplanta í Alaska og vex með öðrum víði á stöðum sem orðið hafa fyrir raski. Hann er þar hvergi mjög algengur en myndar þó á stöku stað hreina lundi. Líklegra er að rekast á hann inn til landsins en nær ströndinni.


Í Alaska er algengt að hann verði um sex metra hár, en stundum er hann hærri og er talin sú víðitegund sem nær mestri hæð í Alaska. Sunnar í álfunni verður hann enn hærri, jafnvel allt að átján metrar þegar best lætur.


Þar sem þessi víðitegund er fremur fátíð á Alaska, miðað við margar aðrar, hefur minna efni borist hingað til lands en af mörgum öðrum víðtegundum og hún er ekki algeng í ræktun hér á landi. Þar sem hún hefur verið reynd er hún þó nokkuð harðgerð og vex vel. Sérstaklega inn til landsins. Reynslan af henni nálægt sjávarsíðunni er minni. Hún gæti hentað í skjólbelti með öðrum tegundum og sem stakstæðir runni eða lítið tré. Hin löngu blöð eru þess eðlis að óvíst er að hún henti í stífklippt, lágvaxin limgerði.


Meðfylgjandi eru fáeinar myndir sem sýna þetta þokkafulla tré. Er aldrei að vita nema það muni í framtíðinni taka stóran hluta þess sess sem viðjan hefur haft á undanförnum áratugum. Reynslan mun skera úr um það.132 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page